Hæstiréttur íslands

Mál nr. 639/2016

Lögreglustjórinn á Suðurlandi (Gunnar Örn Jónsson fulltrúi)
gegn
X (enginn)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar

Reifun

Fallist var á kröfu lögreglustjóra um að X skyldi gert að afplána eftirstöðvar fangelsisrefsingar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. september 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 14. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. september 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að varnaraðila yrði gert að afplána 690 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness [...]. desember 2012, dómum Héraðsdóms Reykjavíkur [...]. október 2013, [...]. desember sama ár og [...]. september 2014  svo og dómi Hæstaréttar Íslands [...]. nóvember 2013. Kæruheimild er í 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á framangreinda kröfu hans.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðila veitt reynslulausn til tveggja ára á fyrrgreindum eftirstöðvum fangelsisrefsingar 2. maí 2016, en hún var bundin því skilyrði að hann gerðist ekki sekur um nýtt brot á reynslutímanum. Varnaraðili hefur játað hjá lögreglu að hafa átt þau fíkniefni sem fundust á honum er hann var handtekinn 8. september 2016. Liggur því fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið brot sem varðað getur allt að 6 ára fangelsi, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og með því rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, sbr. 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016. Verður samkvæmt þessu fallist á kröfu sóknaraðila.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, skal afplána 690 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar samkvæmt dómi Héraðsdóms Reykjaness [...]. desember 2012, dómum Héraðsdóms Reykjavíkur [...]. október 2013, [...]. desember sama ár og [...]. september 2014 svo og dómi Hæstaréttar [...]. nóvember 2013.

 

 

         Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 9. september 2016.

Lögreglustjórinn á Suðurlandi hefur farið fram á það við dóminn að X, kt. [...], með óskráð lögheimili í [...], verði með vísan til 2. mgr. 82. gr. laga um fullnustu refsinga nr. 15/2016, gert að afplána 690 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem Fangelsismálastofnun ríkisins veitti kærða reynslulausn af þann 2. maí 2016. Í kröfunni sjálfri vísað lögreglustjóri til forvera laga nr. 15/2016, en leiðrétti það í þinghaldi. 

Skipaður verjandi kærða krefst þess að kröfunni verði hafnað. 

Í greinargerð lögreglu kemur fram að kærða hafi verið veitt reynslulausn þann 2. maí sl., af eftirtöldum fangelsisdómum:

1.       18 mánaða fangelsisdómi Héraðsdóms Reykjaness, uppkveðnum [...]. desember 2012.

2.       9 mánaða fangelsisdómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum [...]. október 2013.

3.       6 mánaða fangelsisdómi Hæstaréttar Íslands, uppkveðnum [...]. nóvember 2013.

4.       3 mánaða fangelsisdómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum [...]. desember 2013.

5.       10 mánaða fangelsisdómi Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðinn [...]. september 2014.

Um hafi verið að ræða reynslulausn á eftirstöðvum 690 daga refsingar, sem bundin hafi verið almennu skilorði til tveggja ára.  

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi verið farþegi í bifreið sem lögregla hafði afskipti af síðdegis í gær, mál lögreglu nr. 318-2016-[...]. Við líkamsleit á vettvangi hafi fundist glerkrukka undir buxnastreng kærða sem hafi innihaldið 14 sölueiningar af ætluðu amfetamíni og hafi hver eining verið u.þ.b. eitt gramm að þyngd. Kærði var handtekinn, fluttur á lögreglustöð og færður í fangaklefa. Við leit í fangaklefa hafi fundist innan klæða á kærða 14 sölueiningar af ætluðu kannabisefni. Þá hafi fundist, í tölvutösku sem kærði hafði meðferðis, umtalsvert magn af litlum plastpokum, svokölluðum „ziplock“ pokum, grammavog, sellofanrúlla og fleira sem lögregla ætlar að tengist vigtun, pökkun og sölu fíkniefna. Kærði hafi við yfirheyrslu játað að eiga framangreind fíkniefni en sagt þau ætluð til eigin neyslu. Hins vegar telji lögreglustjóri, að teknu tilliti til þess magns efna sem kærði hafði í fórum sínum, pökkun þeirra í sölueiningar svo og þess búnaðar sem kærði hafði í fórum sínum, að kærði hafi ætlað fíkniefnin að stærstum hluta til dreifingar og/eða sölu. Í þinghaldi var bókað eftir fulltrúa lögreglustjóra að kærði sé grunaður um brot gegn ákvæðum laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974.

Að mati lögreglustjóra séu öll lagaskilyrði 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 uppfyllt, enda hafi kærði með framangreindri háttsemi rofið gróflega almenn skilyrði reynslulausnar. Þá sé líka ljóst, m.a. í ljósi játningar kærða um að hann eigi hin ætluð fíkniefni, að hann sé undir sterkum rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem varðað geti allt að 6 ára fangelsi. Með vísan til þessa alls fer lögreglustjóri fram á að krafan nái fram að ganga.

Samkvæmt 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016 um fullnustu refsinga, getur dómstóll að kröfu ákæranda úrskurðað að maður, sem hlotið hefur reynslulausn, skuli afplána eftirstöðvar refsingar ef hann á reynslutímanum rýfur gróflega almennt skilyrði reynslulausnar, enda liggi fyrir sterkur grunur um að hann hafi framið nýtt brot sem varðað getur sex ára fangelsi eða að brotið varði við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga.

Lögreglustjóri vísar til þess að sterkur grunur liggi fyrir um  að kærði hafi ætlað þau fíkniefni sem hann hafði í vörslu sinni til dreifingar og/eða sölu. Það megi ráða af magni þeirra fíkniefna sem um ræðir, frágangi þeirra og búnaði sem ákærði hafði meðferðis og áður er lýst. Með framangreindri háttsemi hafi kærði rofið gróflega almennt skilyrði reynslulausnar.

Kærði hefur viðurkennt að hafa haft í vörslum sínum 14 grömm af amfetamíni og 14 grömm af kannabisefni, en umrædd efni fundust við leit á kærða. Annars vegar 14 stykki af kúlum/hvítu dufti, ætluðu amfetamíni, innpökkuðu í sellófón í glerkrukku, hver eining 1 gramm að þyngd. Hins vegar 14 svokallaðir zip  plastpokar með ætluðu kannasbisefni, hver eining 1 gramm að þyngd. Kærði kvaðst hafa keypt umrædd fíkniefni um mánaðarmótin, nánar tiltekið 40 grömm/kúlur af amfetamíni á 160.000 krónur og hins vegar 20 grömm af kannabis á 40.000 krónur. Fyrir þetta hafi hann greitt með örorkubótum sínum, en hann fái u.þ.b. 220.000 krónur á mánuði. Umrædd efni sem lögregla fann hafi hann ætlað eingöngu til eigin neyslu, hann selji ekki fíkniefni. Kærði kvaðst daglega neyta 5 gramma af amfetamíni og 2 gramma af kannabis. Hann kvaðst hafa neytt fíkniefna daglega í sumar. Þá kvaðst kærði nota vigt og svokallað zip plastpoka, sem fundust í tösku hans, til að vigta efni ofan í sjálfan sig.

Kærði á að baki nokkuð langan brotaferil, fyrst og fremst vegna umferðarlagabrota, aðallega fyrir akstur undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna auk akstur án ökuréttar. Samkvæmt sakavottorði hefur kærði sætt refsingum fyrir ýmis umferðlagabrot átján sinnum, þ.e. í öllum þeim tilvikum sem hann hefur hlotið dóm eða gengist undir greiðslu sekta. Frá byrjun árs 2011 hefur hann einnig verðið dæmdur fyrir brot á lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974. Ekki verður ráðið af sakavottorði kærða að um hafi verið að ræða stórfelld brot gegn áðurnefndum lögum.

Að mati dómsins hefur lögreglustjóri ekki sýnt fram á að fyrir liggi sterkur grunur um að kærði hafi ætlað umrædd fíkniefni til sölu eða dreifingar. Þá er það mat dómsins, að virtum og þeim gögnum sem liggja fyrir í máli þessu og með hliðsjón af sakarferli kærða, að lögreglustjóri hafi ekki sýnt fram á kærði hafi með þeirri háttsemi sem hann er sakaður um í máli lögreglu nr. 318-2016-10406, gróflega rofið almennt skilyrði reynslulausnar sem honum var veitt þann 2. maí sl., sbr. 2. mgr. 82. gr. laga nr. 15/2016, um fullnustu refsingu.

Kröfu lögreglustjóra er því hafnað.

Ragnheiður Thorlacius settur dómstjóri kveður upp þennan úrskurð.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Kröfu lögreglustjórans á Suðurlandi í máli þessu er hafnað.