Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-167

Agnes Hildur Hlöðversdóttir (Sigurður G. Guðjónsson lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Arnar Þór Stefánsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Uppsögn
  • Skaðabætur
  • Miskabætur
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Sigurður Tómas Magnússon.

Með beiðni 11. júní 2020 leitar Agnes Hildur Hlöðversdóttir eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 5. sama mánaðar í málinu nr. 168/2019: Agnes Hildur Hlöðversdóttir gegn Landsbankanum hf., á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.

Mál þetta lýtur að kröfu leyfisbeiðanda um skaða- og miskabætur vegna uppsagnar hennar úr starfi hjá gagnaðila. Leyfisbeiðandi byggir kröfu sína á því að uppsögnin hafi verið ólögmæt og meiðandi í sinn garð. Í dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að gagnaðila hafi verið heimilt að segja leyfisbeiðanda upp störfum til að leysa þann vanda sem upp var kominn á vinnustaðnum. Var uppsögnin því ekki talin ólögmæt auk þess sem engin lagaskilyrði voru talin vera fyrir hendi til að dæma leyfisbeiðanda miskabætur.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi varðandi samskipti vinnuveitanda og launþega í tengslum við slit á ráðningarsamningi. Nánar tiltekið um það hvort vinnuveitandi geti veitt starfsmanni áminningu vegna meintra brota í starfi án þess að tilgreina hin meintu brot sökum þess að hafa heitið öðrum starfsmönnum trúnaði. Þá telur leyfisbeiðandi að málið varði mikilvæga hagsmuni sína enda hafi brottrekstur hennar úr starfi haft veruleg áhrif á starfsmöguleika hennar og fjárhag. Loks byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.