Hæstiréttur íslands
Mál nr. 755/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Rannsókn sakamáls
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. nóvember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum samdægurs. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2016, þar sem sóknaraðila var heimiluð rannsókn á rafrænu efnisinnihaldi nánar tilgreinds snjallsíma sem haldlagður var við handtöku varnaraðila 6. nóvember 2016. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Sóknaraðili hefur haft til rannsóknar mál er varðar ætlaða aðild varnaraðila að innflutningi á töluverðu magni hættulegra fíkniefna. Með því að þannig er uppfyllt skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga nr. 88/2008 um að til rannsóknar sé brot sem varðað getur fangelsisrefsingu verður með lögjöfnun frá því ákvæði fallist á kröfu sóknaraðila og hinn kærði úrskurður staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 7. nóvember 2016.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að lögreglu verði með úrskurði heimiluð rannsókn á rafrænu efnisinnihaldi Iphone snjallsíma, munanúmer [...], sem haldlagður var 6. nóvember 2016, við handtöku X, kt. [...]. Heimildin nái til leitar og skoðunar á þeim rafrænu gögnum sem hinn haldlagði munur kunni að geyma.
Í greinargerð lögreglustjórans á Suðurnesjum segir lögreglan hafi undanfarið haft til rannsóknar lögreglumál nr. 008-2016-13836 er varði innflutning á ætluðum ávana- og fíkniefnum hingað til lands. Hinn 27. október hafi tilkynning borist frá tollvörðum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar um að Y hefði verið stöðvaður í komusal, vegna gruns um að hann kynni að hafa fíkniefni falin í fórum sínum í kjölfar komu til landsins með flugi [...]. Hafi hann greint frá að innvortis hefði hann 41 pakkningu af kókaíni, sem tæknirannsókn hafi leitt í ljós að hafi verið 275,97 af kókaíni, að óþekktum styrkleika. Undanfarið hafi lögregla unnið að því að upplýsa um og hafa hendur í hári vitorðsmanna Y hér á landi og liggi fyrir upplýsingar í rannsóknargögnum málsins um aðild kærða X að málinu. Hafi hann verið handtekinn um borð í flugi [...] við komuna frá [...] í gær, 6. nóvember, og þeir munir sem hann hafi haft meðferðis verið haldlagðir í þágu rannsóknar málsins. Meðal þeirra hafi verið snjallsími af gerðinni Iphone, munanr. [...]. Hafi kærði neitað að veita lögreglu heimild til rannsóknar á efnisinnihaldi hans.
Rannsókn málsins sé í fullum gangi og miði vel út frá því að kærði hafi átt aðild að því að hingað til hans hafi verið flutt inn töluvert magn ætlaðra ávana- og fíkniefna og að þau hafi verið ætluð til sölu og dreifingar. Beinist rannsóknin að því að rannsaka nánar hlutverk kærða í innflutningnum og telji lögregla að á hinum haldlagða mun sé að finna upplýsingar sem upplýst geta um framangreind atriði.
Verið sé að rannsaka innflutning á hættulegum ávana- og fíkniefnum sem að mati lögreglu hafi verið flutt hingað til lands í þeim tilgangi að selja þau til ótiltekins fjölda fólks. Að mati lögreglustjóra sé fyrir hendi rökstuddur grunur um að kærði hafi gerst brotlegur við ákvæði laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Að mati lögreglustjóra sé nauðsynlegt fyrir áframhaldandi rannsókn málsins að heimild verði veitt í samræmi við kröfu og telji lögreglustjóri að uppfyllt séu lagaskilyrði til þess að svo megi verða. Séu aðstæður í máli þessu sambærilegar þeim sem ákvæði 1. mgr. 70. gr. og 1. mgr. 84. laga nr. 88/2008 taki til. Samkvæmt lögjöfnun frá þeim ákvæðum laganna ber lögreglu að afla dómsúrskurðar til þess að rannsaka efnisinnihald raftækja, liggi ekki fyrir samþykki til þess., sbr. m.a. dóma Hæstaréttar í málunum nr. 291/2016 og 297/2016.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna, 70. gr. laga nr. 88/2008 og 84. gr. sömu laga og framangreinda dóma Hæstaréttar er þess krafist að heimild verði veitt í samræmi við kröfu.
Með vísan til framangreinds og rannsóknargagna málsins þykir kominn fram rökstuddur grunur um að framið hafi verið brot sem sætt geti ákæru. Þykir lögreglustjórinn hafa sýnt fram á að þær rannsóknaraðgerðir sem felast í því að rannsaka rafrænt efnisinnihald haldlagðs snjallsíma geti haft þýðingu og skipt miklu fyrir rannsókn málsins. Er því fallist á að fyrir hendi séu skilyrði 1. mgr. 70. gr. laga nr. 88/2008 og 1. mgr. 84. gr. sömu laga til að taka kröfu lögreglustjóra til greina eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði.
Úrskurð þennan kveður upp Jón Höskuldsson héraðsdómari.
Úrskurðarorð:
Lögreglustjóranum á Suðurnesjum er heimiluð rannsókn á rafrænu efnisinnihaldi Iphone snjallsíma, munanúmer [...], sem haldlagður var hinn 6. nóvember 2016 við handtöku X, kt. [...]. Heimildin nær til leitar og skoðunar á þeim rafrænu gögnum sem hinn haldlagði munur kunna að geyma.