Hæstiréttur íslands

Mál nr. 415/2006


Lykilorð

  • Manndráp
  • Tilraun
  • Líkamsárás
  • Skilorðsrof
  • Skaðabætur
  • Ákæra


Fimmtudaginn 25

 

Fimmtudaginn 25. janúar 2007.

Nr. 415/2006.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir vararíkissaksóknari)

gegn

Daníel Þór Gunnarssyni og

(Hilmar Ingimundarson hrl.

 Jón Einar Jakobsson hdl.)

Sigþóri Magnússyni

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

 

Manndráp. Tilraun. Líkamsárás. Skilorðsrof. Skaðabætur. Ákæra.

D var ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa stungið X tvisvar sinnum með hnífi í brjóstholið með þeim afleiðingum að lunga hans féll saman. Í niðurstöðu héraðsdóms, sem staðfest var í Hæstarétti, segir að hnífsstunga í brjósthol manns hljóti ávallt að teljast til þess fallin að valda dauða hans. Hafi ákærði því hlotið að gera sér grein fyrir því að langlíklegast væri að X biði bana af atlögunni. Var hann sakfelldur fyrir brot gegn 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga og gert að sæta fangelsi í 5 ár. Hann var einnig dæmdur til að greiða X 680.440 krónur í skaðabætur. S var ákærður fyrir að hafa slegið X einu höggi í höfuðið með þeim afleiðingum að X féll af stól og vankaðist. Með brotinu rauf S skilorð. Hann var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. alm. hgl. og gert að sæta fangelsi í 4 mánuði, þar af voru 3 mánuðir skilorðsbundnir.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 5. júlí 2006 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þess að refsing ákærðu verði þyngd og þeir dæmdir til að greiða A 1.576.941 krónu með dráttarvöxtum eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi.

Ákærði Daníel Þór Gunnarsson krefst þess að refsing verði milduð og komi gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 5. mars 2006, til frádráttar henni. Ennfremur krefst hann þess aðallega að bótakröfu verði vísað frá héraðsdómi,  en til vara að hún verði lækkuð.

Ákærði Sigþór Magnússon krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð og hún að öllu leyti bundin skilorði. Þá krefst hann sýknu af bótakröfu.

I.

Í málinu er ákærðu gefið að sök að hafa að morgni 4. mars 2006 veist að áðurnefndum A með þeim hætti, sem greinir í héraðsdómi. Var atlaga ákærða Daníels í dóminum heimfærð undir 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr. sömu laga. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður sú niðurstaða staðfest. Hinu sama gegnir um þá niðurstöðu héraðsdóms að ákærði Sigþór hafi gerst sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga, en leiðrétting á aukaatriði í ákæru var heimil samkvæmt 1. mgr. 117. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

II.

Með broti sínu rauf ákærði Daníel ekki skilorð dóms Héraðsdóms Reykjavíkur 1. mars 2004, sem getið er í hinum áfrýjaða dómi, en skilorðstími samkvæmt honum var liðinn er það brot var framið, sem hann er nú sakfelldur fyrir. Samkvæmt 211. gr. almennra hegningarlaga skal sá, sem gerist sekur um brot, sem hún tekur til, sæta fangelsi ekki skemur en 5 ár. Önnur ákvæði sömu laga, sem vísað hefur verið til af hálfu ákærða Daníels, geta ekki skotið stoð undir kröfu um lækkun refsingar niður fyrir lögbundið lágmark. Er refsingin hæfilega ákveðin í hinum áfrýjaða dómi. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 5. mars 2006.

Ákærði Sigþór rauf með broti sínu skilorð dóms Héraðsdóms Suðurlands 13. júlí 2004 fyrir hylmingu, áfengislagabrot, umferðarlagabrot, líkamstjón af gáleysi og fíkniefnalagabrot, en þá var frestað skilorðsbundið að ákveða honum refsingu. Verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um refsingu hans og jafnframt að hluti hennar skuli vera skilorðsbundinn.

Svo sem greinir í héraðsdómi verða hvorki áverkar í andliti brotaþola né önnur meiðsl hans tengd því höfuðhöggi, sem ákærði Sigþór er sakfelldur fyrir að hafa veitt honum. Eru ekki næg efni til að taka bótakröfu brotaþola á hendur honum til greina og verður hann sýknaður af henni. Niðurstöðu héraðsdóms um fjárhæð bóta verður staðfest og verður ákærði Daníel dæmdur til að greiða hana að öllu leyti.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða Daníels Þórs Gunnarssonar skal vera óraskað. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 5. mars 2006.

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða Sigþórs Magnússonar skal vera óraskað.

Ákærði Daníel greiði A 680.440 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 18. apríl 2006 til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð.

Ákærði Daníel greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.

Ákærði Sigþór greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, 186.750 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað, samtals 49.561 krónu.

                                                        

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. júní 2006.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 19. apríl sl. á hendur Daníel Þór Gunnarssyni, kennitala 050984-2739, Brekkutanga 3, Mosfellsbæ, og Sigþóri Magnússyni, kennitala 200385-2179, Selvogsbraut 35, Þorlákshöfn, “fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, með því að hafa, að morgni laugardagsins 4. mars 2006, á veitingastaðnum Gauki á Stöng við Tryggvagötu í Reykjavík, veist að A,

a) ákærði Sigþór slegið hann krepptum hnefa í andlitið með þeim afleiðingum að A hlaut skurð á mörkum efri varar og nefs hægra megin og skurð hægra megin á höku og,

b) ákærði Daníel, í beinu framhaldi af atlögu meðákærða stungið A tvívegis með hnífi með þeim afleiðingum að hann hlaut tvö stungusár vinstra megin á brjóst­holi aftan til og náði önnur stungan inn í vinstra lunga og olli samfalli á lunganum.

Ákæruvaldið telur brot ákærða Daníels varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga, til vara við 2. mgr. 218. gr. sömu laga, en brot ákærða Sigþórs við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

Af hálfu A, kennitala 170485-2119, er þess krafist að ákærðu verði dæmdir til að greiða honum bætur samtals að fjárhæð 1.857.391 króna, auk dráttarvaxta.”

Málavextir.

Snemma morguns laugardaginn 4. mars sl. var lögreglu tilkynnt að maður hefði  verið stunginn með hnífi á skemmtistaðnum Gauki á Stöng við Tryggvagötu. Lögregla kom á vettvang og hitti þar A, sagðist hann finna til í vinstri síðu og sáust tvö lítil stungusár fyrir neðan vinstra herðablað hans.  Farið var með A á slysadeild Landspítala. 

B, dyravörður á skemmtistaðnum, sagði lögreglu að tveir menn hefðu ráðist að A á efri hæð staðarins en dyraverðir stöðvað slagsmálin. C, félagi A, sagði þrjá menn hafa komið að A, einn af þeim hefði fallið í gólfið með honum og eftir það virst sem A hefði verið stunginn.  D, sem rekur Gauk á Stöng, kvað ákærða, Daníel, vera annan gerenda í málinu en taldi hinn heita E. 

Laugardaginn 4. mars hafði A samband við lögreglu símleiðis og sagði svo frá að hann hefði farið ásamt vinnufélögum sínum, C og F, á Gauk á Stöng nóttina áður.  Stuttu eftir að þau komu inn á staðinn hefði einhver ljóshærður maður með áberandi húðflúr á hendinni komið til ákærða og farið að ræða við hann.  Hefði hann sagst eiga frænda sem hann sakaði A um að hafa eitrað fyrir, án þess að útskýra frekar hvað hann ætti við. Hefðu þeir þráttað um þetta, en A ekki viljað fara út til að slást við manninn. Hefði maðurinn snúið sér að vini sínum en A að sínum vinum, og þar með snúið baki í mennina tvo, ljóshærða manninn og vin hans.  Hefði svo verið ráðist á A, fyrirvaralaust, en hann ekki séð nákvæmlega hver það var sem réðist á hann.  Hefðu þeir verið á gólfinu þar til dyraverðir gripu inn í.  A kvaðst ekki hafa áttað sig á að hann hefði verið stunginn fyrr en hann fór að missa mátt og varð var við að honum blæddi.  Hann kvaðst ekki vita deili á mönnunum, en maður að nafni Sigþór hefði verið með þeim.

Einnig ræddi lögregla símleiðis við B, en hann sagðist hafa fjarlægt tvo menn sem hefðu kýlt og sparkað í mann sem lá á gólfinu, og því næst hringt í neyðarlínuna.  Hefðu árásarmennirnir áður verið dyraverðir en misst leyfi til dyravörslustarfa.

Þá var haft samband við C sama dag, 4. mars sl. Hann sagði svo frá atburðunum að maður með húðflúr á handleggnum hefði rifist við A.  Annar maður, í dökkum fötum og með húfu, hefði slegið hann fyrirvarlaust í andlitið þannig að hann datt á gólfið, og þeir hefðu í kjölfarið velst um á gólfinu skamma stund, eða þar til dyraverðir vísuðu mönnunum út.  F var einnig stödd á Gauki á Stöng ásamt þeim A og C. Hafði lögregla samband við hana símleiðis, og lýsti hún atburðum með sama hætti og C gerði.

A fór á lögreglustöð til að leggja fram formlega kæru 9. mars 2006, og lýsti hann atvikum með svipuðum hætti og áður.  Fljótlega eftir að þau settust hefði komið til hans strákur sem hann héldi að væri kallaður Danni, og spurt hvort ákærði hefði eitrað fyrir frænda hans, og svo hefði hann nefnt einhvern G sem ætti heima í [...] og A átti að hafa eitrað fyrir með smjörsýru.  Kvaðst A ekki skilja neitt í þessari sögu, hún væri uppspuni. Innan við mínútu seinna hefði einhver komið aftan að honum og slegið hann einhvers staðar í höfuðið og annars staðar í líkamann nokkrum sinnum þannig að hann lá á gólfinu, en árásin hefði svo hætt skyndilega.  Eftir slagsmálin hefði hann þrifið sig, fundið fyrir verk í síðunni og þá séð að hann var alblóðugur á bakinu og bringunni, einnig hefði hann orðið andstuttur.  Hefði honum verið sagt á spítalanum að hann hefði verið heppinn að vera í þykkum leðurjakka.

Tekin var skýrsla af ákærða, Daníel, að kvöldi 4. mars 2006. Sagðist hann játa hnífstunguna. Hann sagði svo frá að hann hefði farið ásamt meðákærða, Sigþór Magnússyni, á Gauk á Stöng. Hefði hann verið mjög ölvaður.  Kvað hann Sigþór hafa sagt sér að maður sem þarna væri staddur hefði gefið bróður Sigþórs og vinkonu hans smjörsýru og svo nauðgað stúlkunni.  Hefði ákærði farið og rætt við manninn sem hefði sagt þetta vera ósatt, og ákærði þá snúið sér við og farið að tala við Sigþór. Sigþór hefði hins vegar strax rokið í manninn og slegið hann nokkrum sinnum. Ákærði hefði haldið á vasahníf, sjö til átta cm löngum að skaftinu meðtöldu.   Hefði hann verið að fikta við að opna og loka hnífnum og þegar Sigþór réðist á manninn hefði ákærði einnig hlaupið til.  Maðurinn hefði setið, og ákærði því slegið hann í bakið með hnífnum, tvisvar sinnum að hann taldi, og svo gengið í burtu.  Sigþór hefði staðið lengur hjá manninum, en dyraverðir vísað Sigþór út.  Ákærði hefði verið á leið út á sama tíma. Sigþór hefði tekið ákærða upp í bifreið milli barsins Amsterdam og Pizza 67, og ekið honum heim til sín.  Kvaðst ákærði ekki muna hvað hann hefði gert við hnífinn, en sagðist telja að hann hefði sett hann milli sæta í bíl Sigþórs.  Hann kvaðst hafa fengið töluvert áfall og vera með samviskubit, en hann hefði ekki ætlað að skaða manninn.

Var aftur tekin skýrsla af ákærða 9. mars og sagði hann frá með sama hætti. Um hnífinn sagði hann aðspurður að hann myndi ekki eftir að hafa beðið Sigþór um að koma hnífnum undan.  Var honum greint frá því að Sigþór hefði sagt ákærða hafa beðið sig að koma hnífnum undan.  Ákærði kvaðst lítið muna eftir því sem gerðist eftir hnífstunguna, þar sem hann fékk töluvert áfall.  Hnífinn hefði litli bróðir hans keypt á Spáni og ákærði hefði verið með sér þar sem hann hefði verið að flytja og þurft að nota hnífinn við flutningana.  Var ákærða sýndur hnífur hjá lögreglu til samanburðar og sagðist hann telja að hnífurinn sem hann hefði verið með hefði verið örlítið styttri.

Tekin var skýrsla af ákærða, Sigþór Magnússyni, 4. mars 2006.  Kannaðist hann við að hafa lent í slagsmálum við A, og að meðákærði, Daníel, hefði verið með honum meðan á því stóð.  Ákærði sagði um aðdragandann að hann hefði fyrir hálfu öðru ári búið í Hafnarfirði með fleira fólki.  Þau hefðu drukkið eitthvað sem A kom með, og fólkið taldi vera áfengi.  Þetta hefði hins vegar verið smjörsýra og eitthvað af fólkinu sofnað eða verið út úr heiminum vegna hennar. Hefði einhver svo komið að A inni í herbergi þar sem hann hefði verið að nauðga stelpu sem hefði verið kærasta vinar G, bróður ákærða.  Hefði ákærða verið sagt að A hefði gefið henni smjörsýru og nauðgað henni í kjölfarið.  Sigþór kvað Daníel hafa farið að ræða þetta við A og kvaðst einnig sjálfur hafa farið til þeirra og byrjað að tala um þetta við A, en hann sagðist ekki muna mikið eftir þessu vegna þess hve reiður hann varð.  Hann kvaðst þó muna eftir að hafa kýlt A einu sinni í andlitið.  Hefði honum verið sagt að hann hefði kýlt hann nokkrum sinnum áður en hann hefði verið dreginn í burtu.  Ákærði kvað þá Daníel hafa verið hrædda eftir þetta vegna atburðanna, og hefði ákærði ekið Daníel heim til hans, en hann ætti heima í Mosfellsbæ.  Daníel hefði verið hálf miður sín, og ekkert sagt alla leiðina.  Sigþór kvaðst ekki vita til þess að Daníel hefði verið með hníf á sér eða séð hann nota hníf. Honum hefði verið sagt að það hefði brotnað glas í átökunum.  Hefði hann tekið eftir að Daníel sló A einu sinni eða tvisvar með hnefunum.

Sigþór var yfirheyrður aftur 8. mars sl.  Þá sagðist hann vilja bæta við fyrri skýrslu sína að hann vissi að Daníel hefði stungið A, hann hefði vitað þetta þegar þeir yfirgáfu skemmtistaðinn.  Sigþór hefði ekki séð þessa hnífstungu, en Daníel hefði verið eins og að kýla A í líkamann tvisvar eða þrisvar, þótt Sigþór sæi hann aldrei nota hníf.  Þegar þeir heyrðu í lögreglu og sjúkrabíl hefðu þeir hlaupið inn á Amsterdam og svo hefði Sigþór náð í bílinn sinn en Daníel beðið á Amsterdam á meðan. Daníel hefði sett hnífinn á milli sætanna í bílnum og beðið Sigþór að henda honum í sjóinn.  Hefði Sigþór beðið G bróður sinn um að losa þá við hnífinn með einhverjum hætti.  Var Sigþóri sýndur hnífur í skýrslutökunni, og sagðist hann telja að hann væri mjög svipaður hnífnum sem G losaði þá við.  Sigþór tók fram að hann sæi mikið eftir þessu og hann hefði hringt í A og beðist afsökunar.  Þá hefði hann haft samband við lækni til að fá hjálp, meðal annars við að hemja skapið þegar hann yrði reiður.

Tekin var skýrsla af F, 7. mars 2006.  Hún lýsti atvikum þannig að hópur af strákum hefði verið á Gauki á Stöng, og þegar þau voru nýsest niður hefði einn þeirra komið og talað við A og kvaðst hún hafa tekið eftir húðflúri á handlegg hans.  A hefði sagt henni að strákurinn héldi því fram að hann hefði eitrað fyrir frænda hans og vildi fá A út til að slást við sig.  A hefði staðið upp einu sinni til að tala við strákinn og svo sest niður aftur.  Hún kvað A hafa setið á móti sér og C.  Skyndilega hefði komið dökkklæddur maður með húfu og slegið með hnefanum í andlitið á A þannig að A féll á gólfið, og lá þar á maganum, en sá dökkklæddi hefði haldið áfram að kýla hann.  Þegar þau fóru að athuga áverkana á A, hefði hann sagt að hann héldi að einhver hefði sparkað í bakið á honum, þau hefðu þá séð blóð á maganum á honum og stungusár á bakinu.  Aðspurð kvaðst hún ekki geta útilokað að fleiri hefðu ráðist á A, því hún hefði ekki séð slagsmálin vel og þetta hefði gerst snöggt og henni brugðið.

G, bróðir ákærða Sigþórs, gaf skýrslu hjá lögreglu 5. mars 2006.  Hann kvaðst hafa verið á sjó en komið í land í [...] um morguninn 4. mars.  Hefði Sigþór beðið eftir honum við landganginn og ekið honum heim.  Sigþór hefði sagt að hann hefði verið í slagsmálum í miðbæ Reykjavíkur fyrr um nóttina og að vinur hans hefði stungið mann með hníf, sem væri ennþá í bílnum.  Eftir að þeir komu inn heima hjá sér hefði Sigþór sagt G hvar hnífurinn væri í bílnum og G farið út og náð í hann þar sem hann hefði legið á milli framsætanna.  Hefði hann farið með hnífinn inn, en seinna farið með hann niður að bryggju og hent honum í sjóinn.  Hann kvað hnífinn hafa verið lítinn vasahníf, blaðið vera fjóra til fimm sm á lengd en skeftið fimm til sex sm.  Hefði hann oft séð þá til sölu í Kolaportinu.  Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð blóð á hnífnum og ekki vita hvort blaðið á hnífnum hefði verið rifflað þar sem hann hefði ekki opnað hann.

C gaf skýrslu hjá lögreglu 6. mars 2006.  Hann lýsti atburðum með sama hætti og F, en kvað A hafa sagt að hann þekkti ekki mann sem kom að ræða við hann, hefði maðurinn verið með húðflúr á handleggjum.  Hefði maður þessi komið tvisvar til að ræða við A.  Nokkrum sekúndum eftir að maðurinn fór hefði annar maður, sem hefði verið dökkklæddur, komið og lamið A í andlitið þannig að hann datt á gólfið.  Hefði maðurinn haldið áfram að lemja og sparka í hann, þá hefði einhver annar tekið þátt í að lemja hann, en C kvaðst ekki hafa séð það vel.  Fljótlega hefðu dyraverðir komið og stöðvað slagsmálin.

Í málinu er staðfest vottorð H dr. med., um áverkana á A.  Segir þar að við komu á Slysadeild hefðu lífsmörk verið stöðug, meðvitund alveg eðlileg og engin merki um alvarlega áverka á heila eða taugakerfi.  Við frekari líkamsskoðun hefðu eftirtaldir áverkar komið í ljós:

-  í andliti, á mörkum efri varar og nefs hægra megin, var 1 cm langur skurður, u.þ.b. 3 mm á dýpt sem blæddi úr.

-  í andliti, hægra megin á höku, var 2 cm langur og 2-3 mm djúpur skurður sem einnig blæddi úr.

-  á brjóstholi vinstra megin og aftan til voru tveir skurðir. Aðaláverkinn var 2 cm langur, u.þ.b. 20 cm frá hryggsúlu rétt fyrir neðan herðablaðið.  Úr þessum skurði blæddi og í kringum skurðinn var töluvert mar.  Þessi skurður virtist djúpur og teygði sig djúpt inn í brjóstvegginn.

-  hinn áverkin á brjóstholi var 4 cm ofar en hinn stunguáverkinn og u.þ.b. 15 cm frá hryggsúlu vinstra megin.  Þessi áverki var 1,5 cm að lengd og virtist ekki eins djúpur, en náði þó inn í vöðvalag brjóstholsins.  Úr þessum skurði var óveruleg fersk blæðing.  Sjúklingnum var að skoðun lokinni gefið verkjalyf í æð og skurðirnir í andliti og brjóstholi saumaðir í staðdeyfingu.  Fengin var röntgenmynd af lungum sem sýndi greinilegt loftbrjóst vinstra megin.  Um töluvert samfall var að ræða á lunganu en loftröndin mældist 4 cm yfir vinstri lungnatoppi (sem þýðir a.m.k. 20-25% samfall á lunganu).  Ekki sást teljandi vökvi í vinstra fleiðruholi.  Einnig var fengin tölvusneiðmynd af brjóstholi, aðallega til að útiloka stærri og dýpri áverka á brjóstholslíffæri. Þar sáust engin merki um blæðingu í hjarta, gollurshús né neinar stærri blæðingar í lungu eða fleiðru.  Hjartalínurit reyndist eðlilegt og sömuleiðis blóðprufur sem teknar voru við komu.   Komið var fyrir brjóstholskera vinstra megin í staðdeyfingu.  Kerinn var tengdur við sog og lungað látið þenjast út. Sjúklingurinn var síðan færður yfir á legudeild þar sem hann lá í tvo sólarhringa með sog tengt við kerann.  Loftlekinn frá lunganu hvarf innan sólarhrings og ekki var um teljandi blæðingu að ræða frá lunganu.  Blóðprufur sem teknar voru á deildinni héldust eðlilegar og ekki var teljandi lækkun á blóðrauða sem mælir gegn stærri blæðingu inn í lungað.  Lokað var fyrir kerann og eftirlitsmynd af lungum á þriðja degi sýndi eðlileg lungu.  Hann var síðan útskrifaður þremur dögum frá innlögn við góða líkam­lega líðan og voru þá engin merki um sýkingar í skurðum og lífsmörk eðlileg.  Þá segir þar ennfremur að allir áverkarnir sem sáust gætu verið eftir oddhvasst eggvopn, t.d. hníf.  Greinilega voru tveir aðskildir stunguáverkar á vinstra brjóstholi og skurð­irnir í andliti voru líklega eftir beitt eggvopn, t.d. hníf en þeir voru minniháttar og virtust mundu geta gróið eðlilega.  Áverkarnir á brjóstholi voru alvarlegri, sérstaklega stærri og dýpri skurðurinn.  Þar virtist eggvopnið hafa faríð a.m.k. 3-5 cm inn úr brjóstveggnum og gert gat á lungað svo að það féll saman.  Í þessu tilviki hlaust ekki af neinn alvarlegur áverki á lungað, a.m.k. voru ekki teikn um innri blæðingar í lungað og blæðing í fleiðru sem umlykur lungað var óveruleg.   Engu að síður er ljóst að hefði hnífurinn stungist í gegnum brjóstvegginn á öðrum stað, t.d. neðar og sérstaklega nær hryggsúlu, hefðu stórar æðar (t.d. ósæð) og jafnvel hjarta getað orðið fyrir alvarlegum áverka sem hæglega hefði getað valdið dauða.  Því sé í grundvallar­atriðum um hættulega stunguáverka að ræða, enda þótt einungis ysta lag lungans hafi orðið fyrir áverka. Slíkir áverkar gróa yfirleitt mjög vel og allar líkur á því að sjúklingur næði fullum líkamlegum bata með eðlilega lungnastarfssemi og hreyfigetu á brjóstholsvöðvum.

Leit að hnífnum hefur ekki borið árangur en aftur á móti hefur lögreglan aflað hnífs sem talinn er vera líkur hnífi ákærða.

Í málinu er geðrannsókn sem I geðlæknir, hefur framkvæmt á ákærða Daníel.  Er það niðurstaða læknisins að ákærði sé ekki haldinn annmörkum sem 15. og 16. gr. almennra hegningarlaga taka til og að ekkert læknisfræðilegt hafi komið fram sem bendi til þess að refsing geti ekki borið árangur.

Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi. 

Ákærði, Sigþór, segist ekki hafa verið undir áhrifum áfengis á veitinga­staðnum.  Hann kveðst hafa kannast við A frá því áður og hefði hann heyrt að hann hefði gert nokkuð á hlut bróður ákærða og ekki verið sáttur við það.  Kveðst hann hafa beðið Daníel að tala við A og spyrja hvort þetta væri satt.  Hafi þeir ekki rætt um að Daníel skyldi gera A mein.  Ákærði kveðst hafa kýlt A einu sinni á hægri vanga að hann minnir en neitar að hafa gert annað á hluta hans.  Hann kveðst ekki muna til þess að A hafi fallið við það í gólfið.  Hann kveðst ekki hafa séð að Daníel væri með hníf.  Hann tekur fram að hann muni mjög lítið eftir atburðarásinni og muna svo eftir að hafa farið út.  Hann kveðst hafa látið bróður sinn fleygja hnífnum fyrir sig í sjóinn í [...]. 

Ákærði, Daníel, kannast við að hafa stungið A með hnífi.  Hann kveður meðákærða hafa sagt sér af því sem A hefði átt að hafa gert og beðið sig að tala við A til þess að spyrja hann út í þetta.  Á leiðinni til A hefði hann verið með lítinn vasahníf sem hann hefði leikið sér að opna og loka á víxl.  Hefði A ekki kann­ast við að hafa gert þetta.  Hann hafi séð meðákærða rjúka í A og fylgt á eftir honum.  Sigþór hafi kýlt A á vangann og áður en hann vissi hefði hann sjálfur verið búinn að stinga manninn þar sem hann sat á stól.  Hann kveðst hafa haldið á hnífnum í hægri hendi en ekki muna hvernig hann bar sig til þegar hann stakk.  Kveðst hann ekki hafa áttað sig á því að hafa verið með hnífinn í hendinni og ekki ætlað sér að stinga manninn.   Hann segir þá Sigþór ekki hafa áður talað saman um að berja A. Hann kveðst hafa verið mjög drukkinn þegar þetta gerðist en þó muna megnið af því sem gerðist.  Hann kveðst hafa orðið fyrir miklu áfalli þegar honum varð ljóst að hann hafði stungið A.  Hann kveðst hafa verið með vasahnífinn á sér vegna þess að hann var þá að flytja og hefði hann þurft hans með til þess að skera á plast og límbönd.  Hnífurinn hefði svo orðið eftir í bíl Sigurþórs en ekki muni hann til þess að hafa beðið um að honum yrði fargað.  Hann kveðst sjá mjög eftir þessum verknaði og finna til mikillar vanlíðanar vegna hans.  

A hefur skýrt frá því að hann hafi verið á veitingastaðnum með vinnufélögum sínum, F og C.  Þá hafi komið þar að honum piltur sem vitnið man ekki hvað heitir og farið að bera upp á sig einhverja misgerð gegn frænda sínum.  Hann kveðst hafa sest niður eftir það og það næsta sem hann muni sé að hann fékk högg á höfuðið, aðeins fyrir ofan eyrað og féll á gólfið og hafi hann líklega rotast.  Hann segist ekki hafa séð árásarmennina.  Hann hafi staðið á fætur og þá verið farið með hann niður að strjúka blóð framan úr honum þar sem hann var með blóðnasir.  Hann hafi þá fundið verk í vinstri síðu og þegar hann aðgætti þetta hafi hann séð að fossblæddi úr bakinu á honum.  Hafi hann svo verið fluttur á slysadeild.  Hann sé að mestu búinn að ná sér en þó þreytist hann meira en áður.  Þá sé honum ekki vel við að vera í margmenni og sé þá var um sig.   Hann kveðst ekki hafa verið búinn að drekka meira en einn eða tvo bjórsopa þegar þetta gerðist.  Hann kveðst hafa kannast við Sigþór frá því í skóla fyrir mörgum árum. 

F hefur skýrt frá því að nokkrir strákar hafi komið að borðinu hjá þeim og gefið sig á tal við A.  Ekki hafi hún heyrt orðaskil og A ekki virst átta sig á erindi mannanna.  Hann hafi sagt aðspurður að mennirnir hefðu viljað tala eitthvað um misgerð við frænda einhvers þeirra.  Skyndilega hafi einn þeirra gengið að A og barið hann á vangann svo að hann féll af stólnum og hafi maðurinn haldið áfram að berja A eftir að hann var fallinn að vitninu sýndist.  Hún kveðst ekki hafa séð neitt vopn og ekki vita með vissu hvort einhver annar hafi veist að A.  Hins vegar hafi henni fundist eins og einhver hefði verið að draga árásarmanninn frá A.

C hefur skýrt frá því að þau hafi verið nýsest við borð þegar strákur hafi komið og gefið sig á tal við A en svo farið.  Þetta hafi endurtekið sig og skyndilega hafi annar piltur komið og slegið A í andlitið svo að hann féll í gólfið.  Svo hafi verið sparkað í A en hann viti ekki fyrir víst hver hafi sparkað eða slegið A eftir fyrsta höggið en þarna hafi verið fleiri strákar sem réðust á A og hann ekki séð hver gerði hvað.  Hann kveðst ekki hafa séð hníf hjá neinum þarna.

H læknir, hefur komið fyrir dóminn.  Hann kveður nokkurt afl þurfa til þess að stinga inn úr brjóstvegg á manni og það þótt vopnið sé oddhvasst.  Hann kveður andlitsáverkana líkjast því að vera eftir hnífsskurð en greinilega ekki eftir hnefahögg.  Um stunguáverkana segir læknirinn að samfall á lunga jafni sig oftast fljótlega og því sé ekki hægt að segja að áverkarnir sem A fékk hafi í sjálfu sér verið lífshættulegir.  Á hinn bóginn sé stunga af þessari dýpt stórhættuleg á þessu svæði og mikið lán að hnífurinn lenti nákvæmlega á þessum stað en ekki 2 cm innar á bakinu en þar sé ósæðin beint undir.  Aðspurður segir hann að ef ekki hefði verið gert að stungusárunum sé ósennilegt að lungað hefði náð að jafna sig enda hafi þurft að setja inn kera til þess að soga upp lungað aftur.

I geðlæknir, hefur komið fyrir dóm.  Hann kveður ákærða Daníel hafa verið mjög miður sín eftir atburðinn og sýnt einlæg merki iðrunar og sektar­kenndar.   Hafi hann litið á þetta sem slys. 

Niðurstaða.

Ákærði, Daníel, hefur játað afdráttarlaust að hafa stungið A með hnífnum eins og honum er gefið að sök á í ákærunni.  Annað hnífslagið gekk á hol manninum eins og rakið hefur verið og mátti litlu muna að það yrði honum að bana.  Ákærði hefur sagt að hann hafi ekki ætlað sér að stinga A og að hann hafi ekki gert sér grein fyrir verknaðinum fyrr en eftir á.  Á það er að líta að ákærði stakk A tvisvar sinnum í gegnum leðurjakka og fyrir liggur álit sérfræðings að beita þurfi nokkru afli til þess að stinga eggvopni inn úr brjóstvegg manns, jafnvel þótt oddhvasst sé.  Hnífsstunga í brjósthol manns hljóti ávallt að teljast til þess fallin að valda dauða hans.  Hlaut ákærði því að gera sér grein fyrir því sem hann var að gera A og einnig því að langlíklegast væri að hann biði bana af atlögunni.  Hefur ákærði brotið gegn 211., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

Skilja verður ákæruna þannig að Sigþóri sé ekki gefin sök á frekari atlögum að A en að slá hann einu höggi.  Hann hefur viðurkennt brot sitt en telja verður upplýst með framburði ákærða og vitna að höggið hafi komið aftar á höfuðið, jafnvel fyrir ofan eyrað en það telst vera aukaatriði í málinu, sbr. 1. mgr. 118. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19,1991.  Ákærði neitar því að hafa veist að manninum í félagi við Daníel, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, og verður að telja ósannað að hann hafi veist að A með það í huga að Daníel tæki einnig þátt í árásinni.  Fram er komið álit sérfræðings í slysalækningum um það að skurðirnir í andliti A geti ekki verið eftir hnefahögg og að þeir séu eftir eggvopn.  Engin vísbending er í málinu um það að ákærði hafi beitt slíku vopni og er hann enda ekki ákærður fyrir slíkt.  Er ósannað að áverkar þessir séu af völdum hans.  Aftur á móti telst vera sannað með vætti þeirra F og C og A að höggið hafi verið þungt og að A hafi við það fallið af stólnum og vankast.  Hefur ákærði með þessu athæfi orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. 

Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður.

Ákærði, Daníel, sem er sakhæfur, hlaut ákærufrestun fyrir þjófnað í október 2003 og 60 daga skilorðsbundið fangelsi í mars 2004 fyrir þjófnað og fíkniefnabrot.  Loks var hann sektaður í október á fyrra ári fyrir umferðarlagabrot, þ.m.t. ölvun og réttindaleysi við akstur.  Ákærði hefur hreinskilnislega játað brot sitt og vafalaust er að hann iðrast mjög þessa verknaðar, sem telja verður að hann hafi framið í skyndibræði.  Á hinn bóginn verður ekki litið fram hjá því að hann réðst þegar með hnífi á varnarlausan mann, eftir að meðákærði hafði barið hann niður, og telst þannig að sínu leyti hafa unnið verkið í félagi við hann, sbr. 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Ákærði hefur rofið skilorð og ber að dæma upp dóminn frá mars 2004 og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Er hún ákveðin fangelsi í 5 ár.  Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist sem ákærði hefur sætt frá 5. mars sl., samtals 96  daga.

Ákærði, Sigþór, var dæmdur 13. júlí 2004 fyrir þjófnað, hylmingu, áfengis­laga­brot, umferðarlagabrot með líkamsmeiðslum og fíkniefnabrot.  Var þá frestað undir skilorði að gera honum refsingu.  Hann hefur nú rofið það skilorð og ber að dæma upp þann dóm og gera ákærða refsingu í einu lagi.  Árás ákærða var fólskuleg og tilefnislaus og þykir refsingin hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði.  Rétt er að fresta því að framkvæma 3 mánuði af refsingunni og ákveða að sá hluti hennar falli niður að liðnum 2 árum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga. 

Af hálfu A hefur verið gerð sú krafa á hendur ákærðu að þeir verði dæmdir in solidum til þess að greiða 1.857.391 krónu í skaðabætur ásamt dráttarvöxtum, sbr. lög um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001, frá dagsetningu kröfunnar, 18. apríl 2006 til greiðsludags.  Við aðalmeðferð í málinu var því lýst yfir af hálfu bótakrefjanda að samþykkt væri að ákærðu yrðu ekki dæmdir in solidum til greiðslu skaðabóta heldur mætti dæma þá til þess að greiða bætur í samræmi við hlut þeirra í tjóninu.  Af hálfu ákærðu er þess krafist að kröfunni verði vísað frá dómi þar sem ekki sé um samaðild ákærðu að ræða í málinu. 

Heimilt er að ljúka refsiþætti málsins með efnisdómi um þátt beggja ákærðu þótt leitt hafi verið í ljós í málinu að þeir hafi ekki verið saman um brot.  Þykir því ekki fært að skerða rétt brotaþolans til þess að sækja rétt sin á hendur ákærðu og ber að synja kröfu ákærðu um að bótakröfunni verði vísað frá dómi af þessari ástæðu. 

Bótakrafan sundurliðast sem hér segir:

1. útlagður kostnaður kr.        45.450

2. miskabætur              --     1.500.000

3. tímabundið atvinnutjón      --        235.000

4. lögmannsþóknun með vsk.--          76.941

1. liðurinn er studdur reikningi fyrir sjúkraflutning, 3.500 krónur, sem taka ber til greina.  Þá er ódagsett staðgreiðslunóta stíluð á Sigurjón Rúnarsson, föður tjónþola, frá byggingafélaginu Klakki hf., Vík í Mýrdal fyrir buxur, peysu, bol og jakka, samtals 41.950.  Þessi nóta getur ekki talist veita sönnun fyrir fatatjóni tjónþolans og er þessum hluta kröfuliðarins vísað frá dómi vegna vanreifunar.

2. liður.  Miskabætur þykja hæfilega ákveðnar 600.000 krónur og er þá höfð hliðsjón af því að tjónþolinn varð fyrir fólskulegri og tilefnislausri árás, var sleginn í gólfið og því næst stunginn á hol.   

3. liður byggir á því að tjónþoli hafi ekki getað unnið fjórar vikur vegna áverkanna og tekur mið af meðaltekjum hans undanfarna mánuði fyrir atburðinn.  Nú er hins vegar komið fram í málinu að tjónþoli fékk greidd einhver laun fyrir þennan tíma en ekki liggur fyrir hversu mikið.  Er liður þessi vanreifaður og ber að vísa honum frá dómi.

4. liður telst vera krafa um bætur fyrir kostnað við að halda fram bótakröfu í málinu, sbr. 4. mgr. 172. gr. oml.  Eru þær bætur ákveðnar 76.940 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.

Samkvæmt framansögðu ber að dæma A 680.440 krónur í skaðabætur og þykir rétt að dæma að ákærði, Daníel, greiði 9/10 hluta af henni, kr. 612.396 krónur og ákærði, Sigþór, 1/10 hluta, kr. 68.044 krónur.  Þá ber að dæma að ákærðu skuli greiða dráttarvexti samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu frá 18. apríl 2006 til greiðsludags.

Dæma ber ákærða, Daníel, til þess að greiða verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 300.000 krónur fyrir málsvörn hjá lögreglu og fyrir dómi.  Þá ber að dæma hann til þess að greiða 250.500 krónur í annan sakarkostnað.  Loks ber að dæma  ákærða, Sigþór, til þess að greiða verjanda sínum, Guðmundi Ágústssyni hdl., 45.000 krónur í málsvarnarlaun, en þar sem skilyrði hefðu verið til þess að ljúka þætti hans sem játningarmáli ber að dæma að 65.000 króna málsvarnarlaun skuli greidd úr ríkissjóði.  Virðisaukaskattur er meðtalinn í málsvarnarlaununum.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Ákærði, Daníel Þór Gunnarsson, sæti fangelsi í 5 ár.  Frá refsingunni dregst 96 daga gæsluvarðhaldsvist.

Ákærði, Sigþór Magnússon, sæti fangelsi í 4 mánuði.  Frestað er því að framkvæma 3 mánuði af refsingunni og fellur sá hluti hennar niður að liðnum 2 árum, haldi ákærði almennt skilorð. 

Ákærði, Daníel, greiði A 612.396 krónur í skaða­bætur ásamt dráttarvöxtum frá 18. apríl 2006 til greiðsludags.

Ákærði, Sigþór, greiði A 68.044 krónur í skaða­bætur ásamt dráttarvöxtum frá 18. apríl 2006 til greiðsludags.

Ákærði, Daníel, greiði verjanda sínum, Hilmari Ingimundarsyni hrl., 300.000 krónur í málsvarnarlaun og 250.500 krónur í annan sakarkostnað. 

Ákærði, Sigþór, greiði verjanda sínum, Guðmundi Ágústssyni hdl., 45.000 krónur í málsvarnarlaun en úr ríkissjóði greiðist verjandanum 65.000 króna málsvarnarlaun.