Hæstiréttur íslands

Mál nr. 443/2002


Lykilorð

  • Líkamstjón
  • Tímabundin örorka
  • Skaðabætur
  • Almannatryggingar
  • Uppgjör
  • Rangar forsendur


Fimmtudaginn 13

 

Fimmtudaginn 13. mars 2003.

Nr. 443/2002.

Guðmundur Ingi Kristinsson

(Jóhannes Albert Sævarsson hrl.)

gegn

Vátryggingafélagi Íslands hf.

(Hákon Árnason hrl.)

 

Líkamstjón. Tímabundin örorka. Skaðabætur. Almannatryggingar. Uppgjör. Rangar forsendur.

 

G slasaðist í umferðarslysi árið 1993 og hlaut af því varanlegt líkamstjón. Gekk hann til uppgjörs við vátryggingafélagið V hf. á grundvelli niðurstöðu örorkunefndar, en gerði fyrirvara „um hærra örorkustig, miskastig og tímabil tímabundinnar örorku.“ Nokkru síðar fékk G dómkvadda þrjá menn til að leggja mat á líkamstjón sitt vegna slyssins. Var niðurstaða þeirra G hagfelldari, þar á meðal að skil á milli tímabundins og varanlegs atvinnutjóns G hefðu fyrst orðið 20. apríl 1998. Samdi þáverandi lögmaður G í kjölfarið við V hf. um lokauppgjör vegna tjóns G þar sem meðal annars var gert ráð fyrir því að nánar tiltekin fjárhæð, sem væru „dagpeningar TR“, yrði dregin frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón G. Nokkru eftir að framangreindu uppgjöri lauk kom í ljós að í reynd var um að ræða örorkulífeyri og tekjutryggingu G frá almannatryggingum en ekki dagpeninga. Höfðaði G mál á hendur V hf. eftir að hafa árangurslaust krafist leiðréttingar á uppgjörinu. Í dómi Hæstaréttar kemur m.a. fram að þótt Tryggingastofnun ríkisins hafi greitt G örorkulífeyri og tekjutryggingu á nánar tilteknu tímabili fram til 20. apríl 1998, á þeirri forsendu að örorka hans teldist varanleg að því er varðar almannatryggingar, verði að gæta að því að þessar greiðslur hafi verið inntar af hendi til að bæta G örorkutjón á sama tímabili og hann taldist tímabundið óvinnufær varðandi tilkall til skaðabóta. Standi því ekki efnisrök til annars en að fella þessar greiðslur undir ákvæði 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga og láta þær koma til frádráttar skaðabótum til G.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Gunnlaugur Claessen og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 15. júlí 2002, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 28. ágúst sama árs. Hann áfrýjaði öðru sinni 23. september 2002 með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 664.043 krónur með vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. september 1999 til 1. júlí 2001 og samkvæmt 4. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til 13. nóvember sama árs, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. síðastnefndra laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst áfrýjandi þess aðallega að stefnda verði gert að greiða málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að málskostnaður á báðum dómstigum falli niður.

Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður fyrir Hæstarétti, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð og málskostnaður falli niður.

I.

Samkvæmt gögnum málsins slasaðist áfrýjandi í umferðarslysi 4. nóvember 1993 og hlaut af því varanlegt líkamstjón. Stefndi vefengir ekki að hann beri bótaábyrgð gagnvart áfrýjanda vegna þessa tjóns. Áfrýjandi aflaði örorkumats læknis 17. september 1996, sem stefndi felldi sig ekki við. Var því fengið mat örorkunefndar, sem mun með álitsgerð 12. maí 1997 hafa komist að þeirri niðurstöðu að bæði varanlegur miski og varanleg örorka áfrýjanda væri 30%, svo og að áfrýjandi hafi tímabundið verið óvinnufær frá slysdegi til 1. janúar 1996 og ekki getað vænst frekari bata eftir þann dag. Á þessum grundvelli gengu málsaðilar til uppgjörs á skaðabótum til áfrýjanda 29. maí 1997. Samkvæmt því taldist tímabundið atvinnutjón hans alls 1.828.083 krónur þegar tekið hafði verið tillit til greiðslna úr hendi vinnuveitanda eftir slysdag og dagpeninga frá Tryggingastofnun ríkisins á árunum 1994 og 1995. Þjáningabætur voru samtals 426.980 krónur, en miðað var við að áfrýjandi hafi verið rúmfastur í tvo mánuði eftir slysið og upp frá því veikur án þess að vera rúmliggjandi fram til 1. janúar 1996. Bætur fyrir varanlegan miska voru 1.297.200 krónur og fyrir varanlega örorku 3.553.456 krónur. Eftir þessu taldist tjón áfrýjanda samtals 7.105.719 krónur, en að frádregnum innborgunum frá stefnda og að viðbættum vöxtum og þóknun til þáverandi lögmanns áfrýjanda komu til greiðslu samkvæmt uppgjörinu 2.960.800 krónur. Við henni tók lögmaðurinn með fyrirvara „um hærra örorkustig, miskastig og tímabil tímabundinnar örorku.“

Áfrýjandi mun hafa fengið 15. júní 1999 dómkvadda þrjá menn til að leggja mat á líkamstjón sitt vegna áðurnefnds slyss. Munu þeir hafa komist að þeirri niðurstöðu í matsgerð 9. ágúst sama árs að áfrýjandi hafi verið tímabundið óvinnufær frá slysdegi til 20. apríl 1998 og jafnframt veikur á sama tímabili, þar af rúmfastur í 119 daga. Væri varanlegur miski hans 45%, en varanleg örorka 75%. Á grundvelli þessarar matsgerðar krafði áfrýjandi stefnda um greiðslu frekari skaðabóta. Var þar í fyrsta lagi gerð krafa um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón á tímabilinu frá 1. janúar 1996 til 20. apríl 1998, samtals 4.495.273 krónur, en gert var ráð fyrir að þar kæmu „til frádráttar dagpeningar frá TR“, 318.260 krónur vegna ársins 1996, 344.558 krónur vegna ársins 1997 og 118.225 krónur vegna tímabilsins frá byrjun árs til 20. apríl 1998, eða alls 781.043 krónur. Nam krafa áfrýjanda um frekari bætur fyrir tímabundið atvinnutjón þannig 3.714.230 krónum. Í öðru lagi gerði áfrýjandi kröfu um 762.976 krónur í þjáningabætur umfram þær, sem hann hafði fengið með áðurgreindu uppgjöri. Í þriðja lagi krafðist áfrýjandi 686.472 króna í bætur fyrir varanlegan miska og í fjórða lagi 6.580.412 króna vegna varanlegrar örorku, sem uppgjörið hafði ekki tekið til. Samtals námu þessir liðir í kröfu áfrýjanda 11.744.090 krónum. Við þá fjárhæð bætti áfrýjandi vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá slysdegi fram að fyrra uppgjöri aðilanna 29. maí 1997, 838.398 krónum, en dráttarvöxtum frá þeim degi til 6. september 1999, 5.264.254 krónum. Þá krafðist hann greiðslu vegna útlagðs kostnaðar, alls 531.377 krónur, og innheimtuþóknunar lögmanns síns, 741.470 krónur. Var krafa hans því samtals 19.119.589 krónur.

Í málinu liggur fyrir tillaga stefnda frá 30. september 1999 um uppgjör skaðabóta, sem áfrýjandi hafði þá krafist samkvæmt framansögðu. Í þessari tillögu voru tekjur, sem áfrýjandi fór á mis við frá 1. janúar 1996 til 20. apríl 1998, áætlaðar samtals 3.983.351 króna, en til frádráttar komu „dagpeningar TR“ á sama tímabili, sundurliðaðir á einstök ár á sama hátt og áður greinir, alls 781.043 krónur, þannig að óbætt tímabundið atvinnutjón hans taldist 3.202.308 krónur. Þá bauð stefndi 90.000 krónur sem greiðslu þjáningabóta til viðbótar því, sem áfrýjandi hafði fengið með uppgjöri þeirra 29. maí 1997. Stefndi féllst á kröfu áfrýjanda um frekari miskabætur með 686.475 krónum. Þá bauð stefndi fram greiðslu á 5.641.160 krónum vegna varanlegrar örorku, sem fyrra uppgjörið tók ekki til. Til viðbótar þessum liðum, sem námu alls 9.619.943 krónum, bauðst stefndi til að greiða 1.193.024 krónur í vexti, 531.377 krónur vegna útlagðs kostnaðar og 408.519 krónur í innheimtuþóknun lögmanns. Gerði stefndi samkvæmt þessu tillögu um að endanlegar skaðabætur til áfrýjanda yrðu 11.752.863 krónur umfram þá fjárhæð, sem hann fékk greidda samkvæmt uppgjöri þeirra í maí 1997.

Af gögnum málsins er ljóst að þáverandi lögmaður áfrýjanda gekk að þeirri uppgjörstillögu stefnda, sem að framan greinir. Liggur fyrir kvittun lögmannsins fyrir greiðslu 30. september 1999 á samtals 8.550.555 krónum í þjáningabætur, bætur fyrir varanlega örorku, bætur fyrir varanlegan miska, vexti, útlagðan kostnað og innheimtuþóknun, en fjárhæð þessi var sundurliðuð í öllum atriðum eins og í áðurgreindri tillögu stefnda. Var tekið fram í kvittuninni að um væri að ræða lokauppgjör, svo og að staðfest væri eftir nákvæma athugun og að fenginni fyrrnefndri greiðslu að fallið væri frá öllum frekari kröfum á hendur stefnda og eiganda bifreiðarinnar, sem olli áfrýjanda tjóni hans. Þá liggur fyrir önnur kvittun 30. september 1999 fyrir greiðslu skaðabóta vegna tímabundins atvinnutjóns, 3.202.308 krónur, að frádreginni staðgreiðslu opinberra gjalda að fjárhæð 1.227.764 krónur. Kom fram á kvittuninni að mismunurinn, 1.974.544 krónur, væri greiddur inn á nánar tiltekinn bankareikning. Er óumdeilt að sá reikningur hafi tilheyrt áfrýjanda og greiðslan borist inn á hann. Í þessari kvittun, sem er óundirrituð, voru ekki samsvarandi ákvæði og í þeirri fyrrnefndu um að fallið væri frá rétti til að hafa uppi frekari kröfu á hendur stefnda.

Nokkru eftir að framangreindu uppgjöri var lokið ritaði þáverandi lögmaður áfrýjanda ódagsett bréf til stefnda, þar sem vísað var meðal annars til þess að við útreikning skaðabóta til áfrýjanda vegna tímabundins atvinnutjóns hafi komið til frádráttar 781.043 krónur. Hafi sú fjárhæð verið talin „frádráttarbærar dagpeningagreiðslur greiddar umbj. mínum frá Tryggingastofnun ríkisins árið 1996, 1997 og 1998 til 20. apríl það ár, samkvæmt upplýsingum sem þér öfluðuð frá Tryggingastofnun ríkisins.“ Sagði í bréfinu að gengið hafi verið til uppgjörs í þeirri trú að þessar upplýsingar væru réttar og greiðslurnar jafnframt þess eðlis að þær ættu að koma til frádráttar skaðabótum vegna tímabundins atvinnutjóns. Áfrýjandi hafi á hinn bóginn aflað staðfestingar tryggingastofnunar á því að dagpeningar á umræddu tímabili hafi verið mun lægri en ráðgert var í uppgjörinu. Var því óskað eftir að stefndi legði fram gögn um þennan frádráttarlið eða rökstyddi að öðrum kosti hvers vegna hann hafi átt rétt á sér ef fjárhæðin ætti rætur að rekja til greiðslu á öðru en dagpeningum. Í svari stefnda 6. apríl 2000 var vísað til þess að samkvæmt skattframtölum áfrýjanda, sem hafi legið fyrir við uppgjör skaðabóta, hafi hann notið þessara greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu, sem hann taldist tímabundið óvinnufær. Hafi greiðslurnar réttilega komið til frádráttar og „var fullt samkomulag um þessa afgreiðslu málsins enda er þar fylgt fastri venju við afgreiðslu slíkra mála, sem byggist á ákvæðum 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993.“

II.

Áfrýjandi höfðaði mál þetta með stefnu 2. nóvember 2001 og fór hann sjálfur með það í héraði. Í héraðsdómsstefnu gerði hann í fyrsta lagi kröfu um að stefnda yrði gert að greiða sér 664.043 krónur. Skýrði hann þennan lið í kröfu sinni þannig að um væri að ræða áðurnefndar 781.043 krónur, sem hafi komið til frádráttar sem dagpeningar frá Tryggingastofnun ríkisins við útreikning skaðabóta vegna tímabundins atvinnutjóns hans í uppgjöri við stefnda 30. september 1999. Frá þessu dró áfrýjandi 117.000 krónur, sem hann kvað vera fjárhæð dagpeninga til hans frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu frá 1. janúar til 1. apríl 1996, en til þeirra ætti réttilega að taka tillit við útreikning bóta fyrir tímabundið atvinnutjón hans. Í annan stað gerði áfrýjandi kröfu um „hæfilegar fjárbætur vegna þess fjártjóns er ólögleg taka örorkulífeyris/tekjutryggingarinnar“ hafi valdið honum. Í þriðja lagi krafðist hann vangoldinna dráttarvaxta af kröfu sinni, sem uppgjörið 30. september 1999 laut að, vegna tímabilsins til þess dags frá 29. maí 1997 að fjárhæð samtals 4.073.952 krónur.

Í héraði krafðist stefndi þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi. Þegar héraðsdómari tók málið fyrir 1. febrúar 2002 var fært í þingbók að samkomulag hafi orðið um að málið yrði samtímis flutt um frávísunarkröfu stefnda og efnishlið þess. Var málflutningi hagað í samræmi við þetta við aðalmeðferð málsins 9. apríl sama árs. Með héraðsdómi var stefndi sýknaður af þeim kröfulið áfrýjanda, sem fyrst var nefndur hér að framan, en hinum liðunum tveimur í kröfu hans var þar vísað frá dómi. Málsmeðferð héraðsdómara, sem hér um ræðir, var í andstöðu við 2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, enda var krafa stefnda um frávísun málsins ekki reist eingöngu á atriðum, sem einnig vörðuðu efni þess. Til þess verður hins vegar að líta að fyrir Hæstarétti deila aðilarnir aðeins um þann lið í kröfu áfrýjanda, sem efnisleg afstaða var tekin til í héraðsdómi. Eru því ekki næg efni til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm vegna þessa annmarka á meðferð málsins í héraði.

III.

Eins og málið liggur fyrir Hæstarétti deila aðilarnir ekki um að við síðara uppgjör þeirra á skaðabótum til áfrýjanda 30. september 1999 hafi af hendi þeirra beggja verið gengið út frá því að 781.043 krónur væru dregnar frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón vegna greiðslu dagpeninga til hans frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu frá 1. janúar 1996 til 20. apríl 1998. Einnig er óumdeilt að hér hafi ekki að réttu lagi verið um dagpeninga að ræða, heldur örorkulífeyri til áfrýjanda og tekjutryggingu, að minnsta kosti að því leyti, sem hann heldur samkvæmt áðursögðu fram og dómkrafa hans tekur mið af. Að þessu virtu er ljóst að aðilarnir reistu uppgjör sitt á skaðabótum vegna tímabundins atvinnutjóns áfrýjanda báðir á sömu forsendu, sem reyndist röng. Er stefnda því ekkert hald í þeirri málsástæðu að áfrýjandi geti ekki krafið hann nú um frekari skaðabætur að þessu leyti vegna þess að fyrirvaralaust fullnaðaruppgjör hafi farið fram.

IV.

Í málinu hafa ekki verið lögð fram viðhlítandi gögn um greiðslur, sem áfrýjandi naut frá Tryggingastofnun ríkisins á tímabilinu frá 1. janúar 1996 til 20. apríl 1998, eða ákvarðanir hennar um þær greiðslur og forsendurnar fyrir þeim. Eins og málatilbúnaði aðilanna er háttað verður þó án tillits til þessa að leggja til grundvallar að þær 664.043 krónur, sem áfrýjandi krefur stefnda um, séu heildarfjárhæð mánaðarlegs örorkulífeyris, sem áfrýjandi fékk greiddan frá Tryggingastofnun ríkisins á umræddu tímabili með stoð í 12. gr. og 29. gr. laga nr. 117/1993 um almannatryggingar, og tekjutryggingar til hans samkvæmt 17. gr. sömu laga, eins og þau hljóðuðu þá, sbr. 14. gr. laga nr. 148/1994. Að gættu ákvæði síðari málsliðar 1. mgr. 28. gr. laga nr. 117/1993 verður jafnframt að miða við að á öndverðu þessu tímabili hljóti varanleg örorka áfrýjanda að hafa verið metin samkvæmt 2. mgr. 12. gr. sömu laga, enda liggur ekki annað fyrir en að hætt hafi verið að greiða honum dagpeninga frá tryggingastofnun ekki síðar en 1. apríl 1996 og hann fengið örorkulífeyri greiddan upp frá því.

Samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga, eins og ákvæðið hljóðaði áður en því var breytt með 1. gr. laga nr. 37/1999, skyldi meðal annars draga frá skaðabótum vegna tímabundins atvinnutjóns dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir slíkt tjón, svo og sambærilegar greiðslur, sem tjónþoli hafi fengið vegna þess að hann væri ekki fullvinnufær. Greiðsla tryggingastofnunar á örorkulífeyri til áfrýjanda var háð því skilyrði 1. mgr. 29. gr. laga nr. 117/1993 að slys hans hafi valdið honum varanlegri örorku, en réttur hans til tekjutryggingar tengdist beinlínis þessu tilkalli hans til örorkulífeyris samkvæmt 2. mgr. 17. gr. sömu laga, sbr. fyrrnefnda 14. gr. laga nr. 148/1994. Þrátt fyrir þetta verður ekki horft fram hjá því að viðmiðunarmörk um skilin milli tímabundins atvinnutjóns og varanlegrar örorku þurfa ekki að vera þau sömu að því er varðar reglur um annars vegar almannatryggingar og hins vegar skaðabætur. Sést þetta meðal annars glöggt af tilviki áfrýjanda, þar sem honum virðist hafa verið metin varanleg örorka varðandi réttindi úr almannatryggingum snemma árs 1996. Í áðurnefndri matsgerð dómkvaddra manna, sem lögð var til grundvallar uppgjöri málsaðila á skaðabótum 30. september 1999, töldust á hinn bóginn fyrst hafa orðið skil 20. apríl 1998 milli tímabundins og varanlegs örorkutjóns áfrýjanda, en sú niðurstaða reyndist honum miklum mun hagfelldari varðandi tilkall til skaðabóta heldur en ef skilin hefðu þar orðið þau sömu og gagnvart almannatryggingum.

Við skýringu á fyrrnefndri 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga verður að hafa að leiðarljósi að ákvæðið er reist á þeirri meginreglu skaðabótaréttar að tjónþoli eigi ekki rétt á hærri bótum en svara raunverulegu fjártjóni hans, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 25. október 2001 í máli nr. 144/2001, svo og dóm, sem birtist í dómasafni 1998, bls. 1762. Þótt Tryggingastofnun ríkisins hafi greitt áfrýjanda örorkulífeyri og tekjutryggingu á árunum 1996 og 1997, svo og frá byrjun árs til 20. apríl 1998, á þeirri forsendu að örorka hans teldist varanleg að því er varðar almannatryggingar, verður að gæta að því að þessar greiðslur voru inntar af hendi mánaðarlega til að bæta honum örorkutjón á sama tímabili og hann taldist tímabundið óvinnufær varðandi tilkall til skaðabóta. Því hefur ekki verið borið við í málinu að greiðslur úr almannatryggingum á þessu tímabili geti á einhvern hátt raskað rétti áfrýjanda til þeirra í framtíðinni. Standa því ekki efnisrök til annars en að fella þessar greiðslur undir ákvæði 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga og láta þær koma til frádráttar skaðabótum frá stefnda til áfrýjanda. Verður niðurstaða héraðsdóms því staðfest um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda, sem að þessu snýr.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykavíkur 17. apríl 2002.

                Stefnandi málsins er Guðmundur Ingi Kristinsson, kt. 140755-7299, Hringbraut 41, Hafnarfirði, en stefndi er Vátryggingafélag Íslands hf. (VÍS), kt. 690689-2009, Ármúla 4, Reykjavík.

                Mál þetta var höfðað með stefnu dagsettri 2. nóvember 2001, en þingfest hér í dómi 13. sama mánaðar.  Það var dómtekið 9. apríl sl. að afloknum skýrslutökum og munnlegum málflutningi.

                Málið var flutt samtímis um form- og efnishlið, en stefndi krafðist frávísunar þess, eins og gerð verður frekari grein fyrir síðar, þegar kröfum málsaðila er lýst.  Stefnandi er ólöglærður og var honum leiðbeint, eins og lög standa til.

                                                                                  Dómkröfur:

Stefnandi gerir þær dómkröfur,  að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda örorkulífeyri/tekjutryggingu að upphæð 664.043 kr.og hæfilegar fjárbætur vegna þess fjártjóns er ólögleg taka örorkulífeyris/tekjutryggingarinnar hefur valdið honum.  Einnig fulla dráttar­vexti af uppgjörsfjárhæð 9.619.943 kr.vegna varanlegs miska og fjárhagslegrar örorku, það er dráttarvexti að upphæð 4.073.952 kr., auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. september 1999 til 13. nóvember 2001 en með dráttarvöxtum samkvæmt 15. gr. vaxtalaga, sbr. 10. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.  Stefnandi krefst þess ennfremur, að stefndi verði dæmdur til að greiða honum hæfilegan málskostnað.

Stefndi krefst þess aðallega, að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi. Til vara, að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og til þrautavara, að kröfur stefnanda verði stórlækkaðar. 

Jafnframt krefst stefndi í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

 

Málsatvik og málsástæður og lagarök málsaðila:

Málavextir eru þeir, að stefnandi slasaðist í bifreiðaárekstri 4. nóvember 1993 og beið við það varanlegt heilsutjón. Óskipt bótaábyrgð var felld á ökumann þeirrar bifreiðar, sem stefnandi lenti í árekstri við. Sú bifreið var skyldutryggð hjá vátryggingafélaginu Scandia, sem sameinaðist stefnda hinn 1. janúar 1997 og tók stefndi við öllum skuldbindingum Scandia. Atli Þór Ólason, bæklunarlæknir, mat afleiðingar slyssins fyrir stefnanda. Matsgerð hans mun vera dagsett 17. september 1996.  Stefndi vísaði málinu til örorkunefndar, sem felldi úrskurð hinn 12. maí 1997 og mat varanlega fjárhagslega og læknisfræðilega örorku stefnanda 30% og sama hlutfall, hvað snerti varanlegan miska hans.

Uppgjör á skaðabótum til stefnanda átti sér stað 28. maí 1997 fyrir milligöngu lögmanns hans.  Stefnandi fékk þá greiddar 2.619.737 krónur, þar af í vexti og vaxtavexti (2% ársvexti) 178.899 krónur. Áður hafði stefnandi fengið greitt hjá Scandia og stefnda 4.664.881 krónu. Við uppgjörið 28. maí 1997 hafði stefnandi þannig fengið samtals 7.284.618 krónur í bætur. Uppgjörið miðaðist við úrskurð örorkunefndar um varanlega örorku og miska en byggt var á matsgerð Atla Þórs um tímabundna örorku. Tekið var við bótunum með fyrirvara um endurupptöku málsins, ef leitt yrði í ljós, að varanleg örorka og miski stefnanda væri vanmetin, svo og tímabundin örorka hans.

Stefnandi segist hafa krafist endurupptöku málsins hjá örorkunefnd 30. júní 1997, en þeirri kröfu hafi verið hafnað. Hann hafi gengist undir aðgerð á mjóbaki 31. október s.á. og farið á ný fram á endurupptöku málsins hjá örorkunefnd í kjölfar þess, en þeirri bón hans hafi einnig verið hafnað. Á árinu 1999 hafi hann því fengið dómkvadda þrjá matsmenn hér í dómi. Matsgerð þeirra mun vera dagsett 8. ágúst s.á. Niðurstaða hinna dómkvöddu matsmanna var á þá leið, að varanlegur miski stefnanda var metinn 45% en varanleg örorka 75%. Tímabundið atvinnutjón hans af völdum slyssins var talið hafa varað frá slysdegi til 20. apríl 1998.

Hvorki matsgerðir né úrskurður örorkunefndar, sem vísað er til hér að framan, hafa verið lagðar fram í málinu, en ekki virðist vera ágreiningur með málsaðilum um efni þeirra.

Í kjölfar matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna, sendi lögmaður stefnanda stefnda ódagsett bréf og óskaði eftir endurupptöku málsins á grundvelli matsgerðar hinna dómkvöddu matsmanna og vísaði til fyrirvara, sem hann hafði gert við uppgjörið 28. maí 1997.

Samningar tókust með stefnda og lögmanni stefnanda um endurupptöku málsins, sem leiddi til lokauppgjörs hinn 30. september 1999.  Niðurstaða þess var í meginatriðum í samræmi við kröfur lögmanns stefnanda að því undanskildu að hafnað var kröfu stefnanda um dráttarvexti frá 29. maí 1997 til 6. september 1999 að fjárhæð 5.264.254 krónur. Lögmaður stefnanda fékk samtals greiddar 10.525.099 krónur til viðbótar áður mótteknum bótum, þar með taldir óskilgreindir vextir að fjárhæð 1.193.024 krónur, lögmannsþóknun og allur útlagður kostnaður. Í hlut stefnanda komu 9.585.203 krónur. Í þeirri fjárhæð eru innifaldar bætur fyrir tímabundið tekjutjón að fjárhæð 1.974.544 krónur.

Bætur fyrir tímabundið tekjutjón eru fundnar þannig:

Tekjutjón áranna 1996 til 20. apríl 1998                                3.983.351 kr.

Til frádráttar:

Dagpeningar TR árið 1996                                                     318.260 kr.

Dagpeningar TR árið 1997                                                     344.558 kr.

Dagpeningar T.R árið 1998 til 20. apríl                                                 118.225 kr.

Óbætt tímabundið tekjutjón                                                   3.202.308 kr.

Staðgreiðsla skatta                                                  1.227.764 kr.

Mismunur til greiðslu                                                             1.974.544. kr.

 

Frádráttarliðir uppgjörsins eru í samræmi við uppsetningu í áðurnefndu ódagsettu kröfubréfi lögmanns stefnanda til stefnda.

Gefnar voru út tvær kvittanir fyrir greiðslum stefnda. Annars vegar kvittun fyrir móttöku á 1.974.544 kr. og hins vegar kvittun fyrir greiðslu að fjárhæð 8.550.555 kr. Í síðarnefndu kvittuninni segir, að Vátryggingafélag Íslands hf. hafi greitt undirrituðum fullar og endanlegar bætur vegna tjóns, sem umbjóðandi minn, Guðmundur Kristinsson varð fyrir vegna meiðsla í umferðarslysi. Síðan segir orðrétt í kvittuninni: ,,Lokauppgjör: Jafnframt staðfesti ég hér með, eftir nákvæma athugun mála og móttöku á nefndri upphæð, að falla frá öllum frekari kröfum jafnt gegn tryggingataka sem gegn Vátryggingafélagi Ísl. hf. v/Ábyrgðartr. bifr-slys.”

Lögmaður stefnanda undirritaði þessa kvittun. Enginn fyrirvari er á hinn bóginn gerður í kvittun vegna bótagreiðslu stefnda fyrir tímabundið tjón og er sú kvittun óundirrituð.

Lögmaður stefnanda ritaði því næst stefnda enn eitt ódagsett bréfið líklega í mars eða byrjun apríl ársins 2000 og krafðist skýringa á því, hvers vegna dagpeningar að fjárhæð 781.043 kr. hafi verið dregnir frá greiðslu við uppgjörið 30. september árið áður. Í bréfinu segir, að gengið hafi verið til uppgjörs í þeirri trú, að upplýsingar þær, sem stefndi hafi aflað um dagpeningagreiðslur hjá Tryggingastofnun ríkisins (TR), væru réttar. Stefnandi hafi sjálfur aflað upplýsinga hjá TR og komist að því, að dagpeningagreiðslur til hans á árunum 1996 til 1998 hefðu verið miklum mun lægri.

Svarbréf stefnda er dagsett 6. apríl s.á. Þar er því lýst, að leitað hafi verið heimilda í skattframtöl stefnanda um greiðslur TR til hans á umræddu tímabili og hafi þessar greiðslur verið með réttu dregnar frá bótafjárhæð stefnanda með fullu samþykki lögmanns hans. Fylgt hafi verið fastri reglu við afgreiðslu málsins samkvæmt 2. mgr. 2. gr. laga nr. 50/1993. Síðan segir orðrétt í niðurlagi bréfsins. ,,Ef skattaframtöl sýna hér ekki réttar fjárhæðir, væri heppilegt að fá nánari upplýsingar þar um.”

Stefnandi kærði meðferð málsins til Fjármálaeftirlitsins með bréfi dags. 24. september 2001. Bar hann stefnda þungum sökum og taldi uppgjörið frá 30. september 1999 hafa verið gert á röngum forsendum. Stefndi hafi ranglega talið örorkulífeyri, sem TR greiddi honum á umræddu tímabili, vera dagpeninga. Örorkulífeyri eigi ekki að draga frá bótum fyrir tímabundið vinnutap, eins og stefndi hafi gert.  Fjármálaeftirlitið leitaði eftir afstöðu stefnda, sem gerði grein fyrir viðhorfum sínum.  Fjármálaeftirlitið tók ekki beina afstöðu til álita­efnisins, en segir þó í bréfi sínu til stefnanda, dags. 5. nóvember s.á., að ekki hafi verið sýnt fram á, að stefndi hafi viðhaft vinnubrögð, sem séu í andstöðu við þær reglur er gildi um vátryggingastarfsemi.

 

Málsástæður og lagarök stefnda í frávísunarþætti málsins:

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því, að dómkröfur stefnanda séu svo óljósar og vanreifaðar, að ekki sé unnt að taka til efnisvarna gagnvart þeim né fella um þær efnisdóm. Kröfugerðin og málsreifun í stefnu fari í bága við 80. gr. eml. nr. 91/1991 um skýran og glöggan málatilbúnað  og varði frávísun. Stefndi bendir á að ekki sé unnt að sjá, hvernig greiðslukrafa stefnanda að fjárhæð 664.043 kr. sé mynduð, hvorki efnislega né tölulega. Þá sé vandséð, hvernig dráttarvaxtakrafa stefnanda sé fundin út, og við hvaða vaxtafót sé miðað. Ekki sé heldur gerð grein fyrir því í stefnu á hvaða lagagrunni stefnandi byggi þessar kröfur sínar, s.s. hvort þær styðjist við reglur um endurgreiðslu oftekins fjár eða ákvæða í samningalögum eða á grundvelli einhverra annarra réttarheimilda. Loks sé krafa stefnanda um ,,hæfilegar fjárbætur” ekki með neinni tilgreindri kröfufjárhæð og órökstudd.  Ekki sé heldur hægt að sjá af hvaða fjárhæðum kröfur stefnanda um vexti og dráttarvexti séu reiknaðar og hvaða rökum þær séu studdar. Kröfur stefnanda séu því svo óljósar að illmögulegt sé að taka til efnisvarna gagnvart þeim. Því beri að vísa þeim öllum frá dómi vegna vanreifunar.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda í frávísunarþætti málsins:

Stefnandi mótmælir frávísunarkröfu stefnda og byggir á því, að kröfur sínar séu skýrar og glöggar.

Krafan um greiðslu á 664.043 kr. sé skýrð í stefnu. Þar sé um það að ræða, að stefndi hafi við uppgjörið 30. september 1999 ranglega dregið frá greiðslur vegna örorkulífeyris og tekjutengingar, sem TR greiddi honum á tímabilinu frá 1. janúar 1996 til 20. apríl 1998. Samtals hafi stefndi dregið frá 781.043 kr. en með réttu hafi átt að draga frá 117.000, sem honum hafi verið greiddar sem dagpeningar á tímabilinu frá 1. janúar 1996 til 1. apríl s.á. Mismunurinn nemi 664.043 kr.

Krafan um vangreidda dráttarvexti stafi af því, að stefndi hafi neitað að greiða dráttar­vexti við uppgjörið 30. september 1999. Uppgjörsfjárhæðin hafi samtals numið 9.619.943 kr. án vaxta og sé það sú fjárhæð, sem dráttarvaxtakrafa hans miðist við. Sú fjárhæð nemi 4.073.952 kr. og sé krafist vaxta af þeirri fjárhæð, samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. september 1999 til 13. nóvember sl., þegar mál þetta var þingfest,  en dráttarvaxta frá þeim degi samkvæmt 15. gr. vaxtalaga.  Krafan sé því skýr að þessu leyti og beinist að því að sækja vangreidda dráttarvexti úr hendi stefnda, sem honum hafi borið að greiða við uppgjörið 30. september 1999.

Krafan um hæfilegar fjárbætur og miskabætur byggist á því, að stefnandi hafi orðið fyrir margháttuðu tjóni vegna ólögmæts frádráttar stefnda á örorkulífeyri og tekjutryggingu stefnanda við uppgjörið 30. september 1999. Hér sé um að ræða tilmæli til dómsins um að taka tillit til þess tjóns, sem sjálfgefið sé að stefnandi hafi orðið fyrir vegna athæfis stefnda.

Stefnandi telur málið vera lagt fyrir dóminn með skýrum og glöggum hætti og því beri að hafna frávísunarkröfu stefnda.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda í efnisþætti málsins:

Stefnandi styður kröfu sína um greiðslu úr hendi stefnda að fjárhæð 664.043 krónur þeim rökum, að stefnda hafi verið óheimilt að draga örorkulífeyri og tekjutryggingu frá skaðabótum hans fyrir tímabundið atvinnutjón.  Samkvæmt 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé heimilt að draga dagpeninga frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón. Örorkulífeyrir sé í eðli sínu viðvarandi langtímagreiðsla og almennar bætur frá TR vegna varanlegrar skerðingar á hæfi til tekjuöflunar. Dagpeningar séu aftur á móti tímabundin aðstoð, sem óheimilt sé að greiða í lengri tíma en 52 vikur, nema  í sérstökum undantekningartilvikum. Því hafi það verið rangt og gróf fölsun af hálfu stefnda að nefna örorkulífeyri hans og tekjutryggingu sem dagpeninga í uppgjörinu 30. september 1999. Stefndi haldi því fram, að hann hafi aflað upplýsinga um umrædda frádráttarliði í skattframtölum stefnanda. Þar hafi greiðslur frá TR verið ósundurliðuð heildarfjárhæð fyrir hvert skattár um sig og hafi eins getað verið makalífeyrir, heimilisuppbót eða hvað sem væri.  Í 3. mgr. 5. gr. skaðabótalaga, sem í gildi voru þegar uppgjörið átti sér stað, hafi verið mælt svo fyrir, að greiðslur frá almannatryggingum skuli ekki dragast frá skaðabótakröfu. Því sé ljóst að stefnda hafi verið óheimilt að beita umræddum frádrætti, sem leiði til þess, að stefnda beri að endurgreiða honum umkrafða fjárhæð, 664.043 kr.

Stefnandi byggir dráttarvaxtakröfu á því, að stefndi hafi hafnað matsgerð Atla Þórs Ólasonar bæklunarlæknis og vísað málinu þess í stað til meðferðar hjá örorkunefnd og gert upp tjónið á grundvelli niðurstöðu hennar í maílok 1997. Örorkunefndin hafi margítrekað hafnað beiðni sinni um endurmat, sem leitt hafi til þess, að óskað hafi verið eftir dómkvaðningu matsmanna.  Niðurstaða þeirra hafi legið mun nær matsgerð Atla Þórs Ólasonar. Ljóst sé, að stefnandi hefði fengið raunbætur mun fyrr og getað ávaxtað fé sitt frá þeim tíma, ef stefndi hefði gengið til samninga á grundvelli matsgerðar Atla Þórs, þegar hún lá fyrir. Dráttarvaxtakrafa lögmanns stefnanda til stefnda í kjölfar niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna hafi byggst á forsendum matsgerðar Atla Þórs, framreiknað til 6. september 1999. Því sé ljóst, að stefnandi hafi orðið fyrir stórtjóni vegna afstöðu stefnda um að vísa málinu til örorkunefndar, sem rétt sé að stefndi bæti með þeim hætti, sem dráttarvaxtakrafa stefnanda lúti að.

Stefnandi byggir kröfu sína um miskabætur og hæfilegar fjárbætur, vegna þess tjóns, sem ólögleg taka stefnda á örorkulífeyri/tekjutryggingu hans hafi valdið honum m.a. á því, að hann hafi vegna þessara aðgerðar stefnda verið sviptur greiðslum frá TR á tímabilinu frá 1. september 2000 til jafnlengdar ársins 2001. Samtals nemi tjón hans af þessum sökum 511.356 kr. sem bætist við þær 664.043 kr., sem hann sæki sérstaklega úr hendi stefnda í þessu máli.  Auk þess hljóti að vera ljóst, að sjálftaka stefnda með umræddum frádrætti hafi leitt til þess, að stefnandi hafi þurft að leita annarra leiða um fjáröflun. Því sé rétt, að stefnda sé gert að greiða honum hæfilegar bætur, svo að fullrar sanngirni sé gætt.

Málsástæður og lagarök stefnda í efnisþætti málsins:

Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því, að gengið hafi verið frá lokauppgjöri á tjóni stefnanda hinn 30. september 1999. Stefnandi hafi notið lögmannsaðstoðar við uppgjörið, sem hafi í meginatriðum verið í samræmi við kröfugerð lögmannsins. Lögmaður hans hafi undirritað án fyrirvara yfirlýsingu á lokakvittun þess efnis, að hann staðfesti eftir nákvæma athugun að falla frá öllum frekari kröfum á hendur stefnda. Lögmaðurinn hafi haft fullt og ótakmarkað umboð frá stefnanda til samninga um bæturnar og móttöku þeirra. Stefnandi sé því endanlega bundinn við bótauppgjörið, samkvæmt meginreglum kröfuréttar um fullnaðar­kvittun og fyrirvaralaust uppgjör og geti því ekki gert neinar frekari kröfur á hendur stefnda út af uppgjörinu. Fyrirvaralaust uppgjör verði aðeins endurupptekið hafi orðið ófyrirsjáanlegar breytingar á heilsu tjónþola frá því uppgjör fór fram, sbr. 11. gr. skaðabótalaga. Þau skilyrði séu ekki fyrir hendi í tilviki stefnanda. Því skorti lagaskilyrði til endurupptöku bótauppgjörsins og frekari greiðslna úr hendi stefnda. Beri því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda, þegar af þeirri ástæðu.

Stefndi styður einnig sýknukröfu og varakröfu sína um stórlækkun á stefnukröfum þeim rökum, að kröfur stefnanda séu ósannaðar, bæði efnislega og tölulega.  Heimilt hafi verið, samkvæmt 2. mgr. 2. gr. skaðabótalaga og meginreglu skaðabótaréttarins, að draga bótagreiðslu TR frá tímabundnu atvinnutjóni stefnanda fram til 20. apríl 1998, eins og stefndi og lögmaður stefnanda hafi gert í bótauppgjörinu, auk þess sem frádrátturinn hafi verið liður í bindandi uppgjörssamningi þeirra og í takt við kröfugerð stefnanda.  Til þess beri einnig að líta, að bótagreiðslur þær, sem stefnandi naut frá TR, hafi verið og sé ætlað að koma í stað vinnutekna vegna óvinnufærni tjónþola og um sé að ræða bætur úr opinberum tryggingum, sbr. 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga. Því hafi borið að draga þær frá. Engu breyti í þessu sambandi hvaða nafni þessar bætur voru nefndar í uppgjörinu, heldur hitt að þessum greiðslum hafi verið ætlað að koma í stað þeirra vinnutekna, sem stefnandi hafi orðið af vegna óvinnuhæfni sinnar. Stefnandi myndi hafa fengið tvíbætt tímabundið tekjutap sitt, ef bæturnar hefðu ekki verið dregnar frá við uppgjörið, en það væri andstætt meginreglu skaðabótaréttarins.  Því beri að hafna kröfum stefnanda um greiðslu á 664.043 kr. eða 781.043 kr. úr hendi stefnda.

Þá beri ekki síður að hafna kröfu stefnanda um dráttarvexti að fjárhæð 4.073.952 kr.  Engin heimild hafi verið til að krefjast dráttarvaxta af umsömdum skaðabótum, enda hafi aldrei verið um vanskil að ræða af hálfu stefnda. Óskylt sé að lögum að greiða dráttarvexti af skaðabótakröfum fyrir líkamstjón, fyrr en endanlegt umfang tjónsins hafi verið staðreynt, svo sem með matsgerðum, tjónsfjárhæð verið reiknuð út, réttar kröfur settar fram og þeim þá verið hafnað eða vanskil orðið á greiðslu þeirra. Sú sé ekki raunin í tilviki stefnanda. Samið hafi verið við lögmann stefnanda strax og matsgerð lá fyrir og kröfur settar fram á grundvelli hennar.

Þá sé stefnandi eins bundinn, hvað varðar dráttarvexti, sem um aðra kröfuliði af upp­gjörssamningnum frá 30. september 1999. Krafa stefnanda um dráttarvexti eigi því engan rétt á sér og beri að hafna henni.

Krafa stefnanda um ,,hæfilegar fjárbætur vegna þess fjártjóns, er ólögleg taka örorku­lífeyris/tekjutryggingar hefur valdið stefnanda” eigi heldur engan rétt á sér, auk þess sem hún sé vanreifuð og varði frávísun. Þessum kröfulið sé því alfarið mótmælt, enda verði ekki séð, að stefndi geti borið ábyrgð á því, þótt TR hafi fellt tímabundið niður greiðslur örorkulífeyris og tekjutryggingar til stefnanda vegna þess eins, að greiðslur fyrir tímabilið frá 1. janúar 1996 til 20. apríl 1998 hafi verið dregnar frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón stefnanda við lokauppgjörið 30. september 1998.

Stefndi mótmælir öllum kröfu stefnanda um vexti og dráttarvexti, svo og kröfu hans um málskostnað. Stefnanda beri á hinn bóginn á greiða stefnda málskostnað með vísan til 131. gr. eml. nr. 91/1991.

Niðurstaða:

Jón Eiríksson hdl., lögmaður stefnanda, gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins. Verður vísað til vættis hans, eins og ástæða þykir.

Fyrst verður tekin afstaða til frávísunarkröfu stefndu.

Krafa stefnanda er þríþætt.

Í fyrsta lagi gerir stefnandi kröfu til greiðslu úr hendi stefndu að fjárhæð 663.043 kr.

Dómurinn lítur svo á, að þessi kröfuliður stefnanda sé nægilega glöggur og skýr, þannig að stefndi geti ekki velkst í vafa um það, hvernig krafan er til komin og hvaða rök búa að baki henni. Stefndi dró 781.043 kr.frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón stefnanda.  Stefnandi viðurkennir, að stefnda hafi verið heimilt að draga frá 117.000 kr., eins og áður er lýst, án þess að skýra nánar, hvernig sú fjárhæð sé fundin. Að mati réttarins á það eitt ekki að valda frávísun þessa kröfuliðar, enda er ávallt heimilt að lækka kröfur, án þess að tilgreina sérstaklega ástæður þess.

Í annan stað krefst stefndi frávísunar á kröfu stefnanda um greiðslu dráttarvaxta að fjárhæð 4.073.952 krónur. Stefnandi gefur þá skýringu á þessum kröfulið, að um sé að ræða dráttarvexti af umsaminni bótafjárhæð, sem nam samkvæmt uppgjörinu 30. september 1999, 9.619.943 kr., án vaxta, sem námu 1.193.024 kr.   Í uppgjörinu er þessa fjárhæð að finna undir liðnum ,,tjón samtals". Stefnandi gefur aftur á móti enga skýringu á því, hvaða tengsl eru milli þessarar grunnfjárhæðar og umkrafinna dráttarvaxta að fjárhæð 4.073.952 kr. eða frá hvaða tíma dráttarvextir séu reiknaðir og hvaða útreikningsaðferðum sé þar beitt.

Dráttarvaxtakrafa lögmanns stefnanda í ódagsettu kröfubréfi í aðdraganda loka­uppgjörsins nam 5.264.254 kr. Sú krafa miðaðist við tímabilið frá 29. maí 1997 til 6. september 1999 en ósagt var látið við hvaða grunnfjárhæð dráttarvaxtakrafan miðaðist. Lögmaðurinn gaf þá skýringu hér fyrir dómi á útfærslu kröfunnar, að hann hefði byggt á matsgerð Atla Þórs Ólasonar læknis við gerð hennar. Þeirri kröfu var hafnað af hálfu stefnda og féllst lögmaður stefnanda á þau málalok.

Dómurinn lítur svo á, að krafa stefnanda, samkvæmt þessum lið sé svo óljós og órök­studd að ekki sé unnt að taka efnislega afstöðu til hennar. Kröfunni er því vísað frá dómi.

Dómurinn vill sérstaklega taka fram í þessu sambandi, þótt það snúi að efnishlið málsins, að skilyrði til þess að krefjast dráttarvaxta úr hendi stefnda voru ekki fyrir hendi, að því er best verður séð.  Stefndi gekk til uppgjörs við stefnanda strax og niðurstaða örorkunefndar lá fyrir og krafa var gerð af hálfu stefnanda. Með sama hætti var gert upp við stefnanda án ástæðu­lausrar tafar, þegar hinir dómkvöddu matsmenn höfðu skilað niðurstöðu sinni í ágústmánuði 1999 og krafa var komin fram af hálfu lögmanns stefnanda um uppgjör á grundvelli matsgerðarinnar.

Loks liggur fyrir að taka afstöðu til kröfu stefnda um frávísun á kröfuliðnum ,,hæfilegar fjárbætur vegna þess fjártjóns er ólögleg taka örorkulífeyris/tekjutryggingar hefur valdið stefnanda.”

Svo virðist, sem stefnandi geri hér kröfu til bóta vegna þeirrar misgerðar, sem hann telur að falist hafi í þeirri afstöðu stefnda að draga örorkulífeyri/tekjutryggingu frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón.  Að mati stefnanda varð það þess valdandi, að TR svipti hann þessum greiðslum á tímabilinu frá 1. september 2000 til 1. september 2001.

Dómurinn telur þennan kröfulið óljósan og með öllu órökstuddan.  Ekki verður séð, að umræddur frádráttur hafi valdið umræddum tekjumissi stefnanda. Ástæða þess liggur aftur á móti í því, að örorkubætur og tekjutrygging eru tekjutengdar bótagreiðslur og falla niður, fari tekjur viðkomandi bótaþega yfir ákveðið tekjumark.  Tekjur stefnanda fóru yfir tilskilið tekjumark við greiðslu stefnda fyrir tímabundið atvinnutjón og liggur sú ástæða til grundvallar aðgerðum TR gagnvart stefnanda að mati réttarins.

Þessum kröfulið stefnanda er því einnig vísað frá dómi.

Samkvæmt framansögðu verður tekin efnisleg afstaða til kröfu stefnanda að fjárhæð 664.043 kr.

Í 2. gr. skaðabótalaga er fjallað um bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Í 2. mgr. sömu lagagreinar er lýst þeim greiðslum, sem draga skuli frá við ákvörðun bóta samkvæmt 1. mgr. Þar segir svo: ;,Frá skaðabótum skal draga laun í veikinda-eða slysaforföllum, dagpeninga og aðrar bætur frá opinberum tryggingum fyrir tímabundið atvinnutjón og vátryggingabætur, þegar greiðsla vátrygginafélags er raunveruleg skaðabót, svo og sambærilegar greiðslur sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær.” 

Lagaákvæðinu var breytt óverulega með lögum nr. 37/1999, en sú breyting hefur enga þýðingu hér.

Samkvæmt tilvitnuðu lagaákvæði skal draga greiðslur frá bótum fyrir tímabundið atvinnutjón, sem tjónþoli fær vegna þess að hann er ekki fullvinnufær. Ljóst er, að örorkubætur stefnanda og tekjutrygging, sem TR greiddi honum á umræddu tímabili, svara til tekna í veikinda og slysaforföllum og eru tilkomnar vegna þess, að hann var ekki fullvinnufær og reyndar óvinnufær. Þessar greiðslur komu frá opinberum tryggingum, eins og skilyrt er í tilvitnuðu ákvæði, og komu í stað launa, sem stefnandi var ófær um að vinna sér inn vegna örorku sinnar og eru sama eðlis og bætur fyrir tímabundið atvinnutjón.

Með vísan til þessa, þykir stefndi hafa staðið rétt að uppgjöri við stefnanda, hvað varðar bætur fyrir tímabundið atvinnutjón. Engu breytir í þessu sambandi, að mati dómsins, þótt þessir frádráttarliðir hafi verið kallaðir dagpeningar í uppgjöri stefnda við lögmann stefnanda.

Einnig er fallist á það með stefnda, að stefnandi er bundinn við yfirlýsingu lögmanns síns um fullnaðaruppgjör.

Samkvæmt framansögðu þykir verða að sýkna stefnda af þessari kröfu stefnanda.

Rétt þykir, eins og mál þetta er vaxið, að hvor málsaðili beri sinn kostnað af málinu.

Skúli J. Pálmason héraðsdómari kveður upp þennan dóm.

Dómsorð:

Vísað er frá dómi kröfu stefnanda um að stefnda verði gert að greiða honum dráttarvexti að fjárhæð 4.073.952 krónur.

Vísað er frá dómi kröfu stefnanda um hæfilegar fjárbætur vegna þess fjártjóns er ólögleg taka stefnda á örorkulífeyri/tekjutryggingu hefur valdið stefnanda

Stefndi, Vátryggingafélag Íslands hf., er sýknað af kröfu stefnanda, Guðmundar Inga Kristinssonar, um að félaginu verði gert að greiða honum 664.043 krónur, auk vaxta samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. september 1999 til 13. nóvember 2001 og dráttarvaxta samkvæmt 15. gr., sbr. 10. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður fellur niður.