Hæstiréttur íslands
Mál nr. 601/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
- Börn
- Aðför
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. ágúst 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 8. september sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. ágúst 2016 þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um dómkvaðningu matsmanns. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefjast þær kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Héraðsdómari hefur neytt þess úrræðis 17. gr. laga nr. 160/1995 um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl., sbr. 43. gr. barnalaga nr. 76/2003, að fela sérfróðum aðila að kanna afstöðu barnsins til fram kominnar kröfu um afhendingu. Að því gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.
Rétt er að kærumálskostnaður falli niður en um gjafsóknarkostnað fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður sóknaraðilanna A og B greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, Oddgeirs Einarssonar hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. ágúst 2016.
I. Aðild, kröfugerð og málsmeðferð
Mál þetta, sem er aðfararmál rekið eftir reglum 13. kafla laga um aðför nr. 90/1989, hófst með móttöku dómstólsins á aðfararbeiðni gerðarbeiðanda 27. júlí sl. og var þingfest sama dag.
Gerðarbeiðandi er barnaverndarnefndin C. Gerðarþolar eru A, [...] og B, [...].
Gerðarbeiðandi krefst þess að úrskurðað verði að heimilt sé að barn gerðarþola, B, og barnabarn A, D, kt. [...], verði með aðfarargerð tekin úr umráðum gerðarþola eða annars þess aðila sem umráð barnsins hefur hér á landi og afhent gerðarbeiðanda eða öðrum þeim aðila sem hann setur í sinn stað. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi gerðarþola.
Gerðarþolar krefjast þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað. Verði ekki fallist á þá kröfu krefjast gerðarþolar þess að ákveðið verði í úrskurði, að kæra til Hæstaréttar fresti aðför. Þá er krafist málskostnaðar eins og mál þetta væri eigi gjafsóknarmál.
Gerðarþolar skiluðu greinargerð 3. ágúst. Í þinghaldi 4. ágúst lögðu gerðarþolar fram matsbeiðni og gerðarbeiðandi greinargerð ásamt viðbótargögnum. Gerðarbeiðandi mótmælti matsbeiðni og var munnlegur málflutningur um ágreininginn 9. ágúst sl. Úrskurður þessi varðar einvörðungu þann ágreining.
Í þessum hluta málsins gera gerðarþolar kröfu um að dómkvaddur verði matsmaður til að meta:
„Hver sé afstaða D, kt. [...] (hér eftir nefndur ,,barnið“) til fyrirliggjandi kröfu gerðarbeiðanda, C, um afhendingu barnsins til gerðarbeiðanda og þá jafnframt hvort barnið búi yfir þeim þroska að rétt sé að taka tillit til skoðana þess.
Hvaða áhrif hugsanlegur aðskilnaður barnsins frá gerðarþolum, A, kt. [...], og B, kt. [...], hefði á barnið og hvort líklegt væri að slíkur aðskilnaður myndi skaða það andlega og þá með hvaða hætti.
Hvaða áhrif flutningur og fóstur til [...] fjölskyldu myndi líklega hafa á barnið með teknu tillit til þess að það talar litla sem enga [...] og hefur alist upp við íslenska menningu og fjölskyldulíf.“
Gerðarþolar vísa til IV. sbr. V. kafla laga nr. 160/1995, IX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, 13. kafla laga nr. 90/1989 og 42. gr. barnalaga nr. 76/2003.
Gerðarbeiðandi krefst þess að því verði hafnað að dómkveðja matsmann samkvæmt matsbeiðni.
II. Málavextir
Helstu málavextir eru þeir að gerðarþoli, B, hefur verið búsett í [...] frá árinu 2013. Að sögn gerðarbeiðanda hafa barnaverndaryfirvöld og lögregla ítrekað haft afskipti af málefnum hennar og barns hennar, en hún hefur glímt við fíkniefnavanda um hríð. Þann 10. maí 2016 féll úrskurður hjá barnaverndaryfirvöldum þar sem gerðarþoli, B, var svipt rétti til umönnunar barnsins sem málið varðar, á grundvelli viðeigandi ákvæða [...] barnaverndarlaganna, og ákveðið að barnið skyldi vistað á viðurkenndu fósturheimili. Gerðarbeiðandi fer að sögn með umönnunarréttinn skv. niðurstöðu úrskurðarins en kveðið sé á um umgengni barnsins við gerðarþola í úrskurðarorði.
Þann 6. júní sl. bárust barnaverndaryfirvöldum upplýsingar frá leikskóla drengsins um að móðurafi drengsins hefði komið þangað og tekið allt sem drengnum tilheyrði og upplýst að drengurinn myndi ekki mæta í skólann um tíma. Aðspurður af starfsmönnum gerðarbeiðanda neitaði hann að upplýsa hvar drengurinn væri, en barnið mun hafa verið í umsjá móðurforeldra sinna í [...], eftir uppkvaðningu úrskurðarins. Gerðarþolar segjast hafa ákveðið 8. júní sl. að flytjast búferlum til Íslands með drenginn og leita ásjár íslenskra stjórnvalda í þeirri von að fá réttláta málsmeðferð en þær telja slíku ekki fyrir að fara í [...] og meðalhófs sé í engu gætt.
Gerðarbeiðandi tilkynnti til lögreglu grunsemdir um brot gegn ákvæðum barnaverndarlaga, þar sem barn hafi verið brottnumið eftir úrskurð um yfirtöku umönnunarréttar barns. Jafnframt var tilkynningu beint til lögreglunnar um mannshvarf, á sama grundvelli.
Beiðni um afhendingu barnsins til [...] var 11. júlí sl. beint til miðstjórnarvaldsins þar í landi, eins og það nefnist í gerðarbeiðni og er erindið móttökustimplað þann 13. júlí. Innanríkisráðuneytinu barst 19. júlí ósk um að ráðuneytið hefði milligöngu um að koma afhendingarbeiðninni í réttan farveg hér á landi.
Barnið dvelst nú hjá móðurömmu sinni, A, sem kveðst ekki munu afhenda barnið af fúsum og frjálsum vilja til [...]. Þá er upplýst af lögmanni gerðarþola að B búi enn í [...] en fyrirhugi flutning til Íslands. Hún hafi að sögn náð góðum árangri að undanförnu í baráttu við fíknivanda sinn. Því mótmælir gerðarbeiðandi sem röngu með vísan til gagna málsins.
Í samræmi við tilmæli dómsins hefur gerðarbeiðandi boðað framlagningu yfirlýsingar [...] yfirvalda samkvæmt 3. mgr. 15. gr. laga nr. 160/1995 og hefur þegar sent hana dóminum og lögmanni gerðarþola. Er yfirlýsingin afdráttarlaus um að brottnám barnsins hafi verið brot á [...] lögum og sóknaraðili fari með forsjá barnsins.
III. Málsástæður gerðarbeiðanda
Í ljósi eðlis ágreinings aðila í þessum þætti málsins telur dómurinn rétt að tilgreina einnig helstu málsástæður aðila varðandi meginágreining málsins. Gerðarbeiðandi kveðst byggja kröfu sína um afhendingu barnsins á því að óheimilt hafi verið að fara með barnið úr landi án samþykkis gerðarbeiðanda, eftir að úrskurðurinn gekk 10. maí sl., enda fari hann nú með forsjá barnsins. Úrskurðurinn hafi verið kærður 7. júní af hálfu gerðarþola, eftir að hið ólögmæta brottnám fór fram, en kæra úrskurðar sem þessa fresti ekki réttaráhrifum hans.
Hald á barninu hér á Íslandi sé ólögmætt og geri gerðarbeiðandi því kröfu, með vísan til 11. gr. laga nr. 160/1995, um að barnið verði tekið úr umráðum gerðarþola eða annars. Óumdeilt sé að barnið átti búsetu og lögheimili í [...], í skilningi 11. gr. laga nr. 160/1995, áður en ólögmætt hald hófst. Engin þau rök sem tilgreind séu í lögum nr. 160/1995, sem komið geta í veg fyrir afhendingu, eigi við í máli þessu. Sé ljóst að brýnir hagsmunir barnsins krefjist þess að lögmætu ástandi verði komið á enda hafi barnaverndaryfirvöld í [...] hafnað vistun barnsins hjá gerðarþola A með úrskurði og svipt gerðarþola B umönnunarrétti fyrir barninu. Hafi því nýlegt hagsmunamat átt sér stað, af hálfu fagaðila, og niðurstaða þeirra sú að hagsmunum barnsins sé best borgið í höndum annarra en gerðarþola. Það mat sæti ekki endurmati í máli þessu. Því sé ljóst að hald á barninu sé skýrt brot á rétti gerðarbeiðanda, í skilningi laga nr. 160/1985 og Haag samningsins sem hann byggir á.
Um málsmeðferðina sé vísað til 13. gr. laga nr. 160/1995 sem kveði á um að við málsmeðferð skuli beitt ákvæðum 13. kafla laga nr. 90/1989. Krafa um málskostnað byggi á 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV. Málsástæður gerðarþola
Gerðarþolar kveðast byggja á því að aðfararbeiðni málsins uppfylli ekki skilyrði 3. töluliðar 1. mgr. 80. gr. aðfaralaga nr. 90/1989. Þar sem ekki komi fram hverju það varði, ef gerðarþoli sækir ekki þing, beri að hafna kröfu gerðarbeiðanda.
Gerðarþolar telji að leggja skuli til grundvallar mat þeirra, að það hafi verið drengnum fyrir bestu að farið yrði með hann til Íslands með tilliti til hagsmuna og velferðar hans. Drengnum líði vel á Íslandi og sé í miklum samskiptum við fjölskyldu sína hér á landi.
Þá fari gerðarþoli, B, með fulla forsjá drengsins, enda hafi hún ekki verið svipt þeim rétti með dómi. Fullyrðingar gerðarbeiðanda um að hann fari með forsjá drengins séu rangar og þar með sé allur málatilbúnaður gerðarbeiðanda haldlaus og byggður á lögfræðilega röngum grunni. Þegar af þeim sökum verði að hafna öllum kröfum gerðarbeiðanda.
Umræddur úrskurður [...] fyrir barnavernd og félagsmál, frá 10. maí sl., sé afar óljós og ruglingslegur, og ekki verði ráðið af honum hvert raunverulegt inntak hans sé. Þá virðist íslensk þýðing hans ekki gerð af löggiltum skjalaþýðanda. Telji gerðarþolar því vart að hann geti talist réttmætur grundvöllur að kröfu gerðarbeiðanda í máli er varðar svo mikilvæga hagsmuni sem hér um ræði, enda verði að gera strangar kröfur í þeim efnum.
Þá séu skilyrði 11. gr. laga nr. 160/1995 ekki uppfyllt í máli þessu. Gerðarbeiðandi fari ekki með forsjá drengins en afhending barns á grundvelli VI. kafla laganna sé bundin því skilyrði að brotið sé á forsjárrétti gerðarbeiðanda. Gerðarþoli, B, hafi ekki verið svipt forsjá drengsins.
Þá sé byggt á því að atvik séu með þeim hætti að samkvæmt 2.-4. tölul. 12. gr. laga nr. 160/1995 beri að hafna kröfum gerðarbeiðanda. Drengurinn sé mjög náinn fjölskyldu sinni og sé alinn upp meðal Íslendinga og við sitt íslenska móðurmál og menningu. Hætta sé á því að afhending muni skaða drenginn andlega.
Drengurinn sé sjálfur andvígur afhendingu en hann hafi látið þá skoðun í ljós að hann vilji ekki fara aftur til [...]. Ekki verði horft fram hjá vilja hans í þessu máli þrátt fyrir ungan aldur.
Gerðarþolar telji að virða beri framangreindan úrskurð að vettugi þar sem hann standist ekki grundvallarreglur um réttláta málsmeðferð, og meðalhófs sé í engu gætt.
Gerðarþolar telji jafnframt að horfa beri til þeirrar meginreglu sem fram komi í barnalögum nr. 76/2003, um að ávallt skuli það sem er barni fyrir bestu hafa forgang þegar teknar eru ákvarðanir um málefni þess. Einnig sé vísað til 8. gr. mannréttindasáttmála Evrópu og 71. gr. stjórnarskrárinnar þar sem mælt er fyrir um rétt manna til friðhelgi, heimilis og fjölskyldu, sem og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins.
Ljóst sé að ef krafa gerðarbeiðanda nær fram að ganga muni það hafa í för með sér afdrifaríkar og óafturkræfar afleiðingar fyrir ungan dreng. Samvistir gerðarþola og drengsins séu þeim öllum lífsnauðsynleg. Það beri að veita hagsmunum drengsins forgang, af áframhaldandi samvistum við gerðarþola, móður sína og ömmu, framar óljósum hagsmunum gerðarbeiðanda, opinberri stofnun, af því fá barnið í sínar vörslur.
V. Málsástæður gerðarbeiðanda til stuðnings því að hafna beri dómkvaðningu
Varðandi þann ágreining sem hér er til úrlausnar kveðst gerðarbeiðandi byggja á því að engin ástæða sé til að dómkveðja sérfróðan aðila til að kanna vilja barnsins enda barnið það ungt að árum að það hafi ekki þroska til að mark sé takandi á viljaafstöðu þess til málsins. Drengur á þessum aldri geti aldrei haft yfirsýn um það hvað teljist honum fyrir bestu. [...] lög gangi út frá því að fimm ára barn sé of ungt til að vilji þess komi til skoðunar.
Þá telji gerðarbeiðandi mat skv. 2. tölulið matsbeiðnar, um áhrif aðskilnaðar á barnið, óþarft, enda liggi slíkt mat þegar fyrir og séu gögn lögð fram sem sýni það. Þá sé barnið alls ekki í samvistum við foreldrið sem með forsjána fór og því spurning um áhrif aðskilnaðar við hvern eigi að meta. Í kærumálinu sem gerðarþoli reki nú fyrir dómstól í [...] sé ekki höfð uppi krafa um að gerðarþolinn, A, skuli fá barnið í fóstur verði hinn kærði úrskurður staðfestur um forsjársviptingu, heldur að systir hennar og eiginmaður, sem búsett séu í [...], skuli verða fósturforeldrar. Verði því að ganga út frá því að gerðarþoli, B, sé ekki hlynnt því að barnið verði áfram hér á landi, heldur að hagsmunum barnsins sé best borgið með áframhaldandi búsetu í [...].
Gerðarbeiðandi vísar til dóms Hæstaréttar í málinu nr. 529/2014, sem fjallaði um matsspurningu eins og spurningu 2 í þessu máli, og málsins nr. 666/2014, sem var endanlegur dómur á grundvelli matsmálsins nr. 529/2004, en þar hafi niðurstaða matsmanns um þetta atriði ekki verið lögð til grundvallar enda gerðarþola mögulegt að fylgja barninu til heimalandsins að nýju þar sem þarlendir dómstólar munu meta hagsmuni barnanna til frambúðar. Sé það mál einmitt til meðferðar þar í landi að kröfu gerðarþola.
Síðustu matsspurningu sé mótmælt enda hafi íslenskur dómstóll ekki lögsögu né lagaheimild til að leggja mat á það atriði sem þar greinir. Það sé [...] stjórnvalda og dómstóla að meta hagsmuni barnsins og hafi gerðarþoli, B, sjálf kært úrskurð barnaverndarnefndarinnar til dómstóls þar ytra, sem leggja muni mat á þær forsendur sem hinn kærði úrskurður byggir á. Hafi hún því beint því máli í réttan farveg, lögum samkvæmt, þar í landi og þar með viðurkennt lögsögu [...] dómstóla til mats á hagsmunum barnsins til frambúðar. Þá sé hér um aðfararmál að ræða þar sem mat sem þetta kemst ekki að, auk þess sem hraða beri eftir föngum meðferð mála sem þessara. Gerðarbeiðandi leggur og áherslu á að hér sé ekki um forsjármál að ræða og því eigi varnir samkvæmt 12. gr. laga nr. 160/1995 tæpast við.
VI. Málsástæður gerðarþola til stuðnings því að dómkveða beri matsmann.
Matsbeiðendur, gerðarþolar, benda á að eina sönnunargagn þeirra í málinu gæti verið matsgerð á grundvelli framkominnar beiðni. Verði ekki fallist á dómkvaðningu sé jafnræði málsaðila stórlega skert, og málsforræðið alfarið í höndum annars aðilans. Það hvort atvik séu með þeim hætti sem kveðið sé á um í 12. gr. laga nr. 160/1995 verði ekki staðreynt nema með matsgerð. Varðandi aldursmörk benda gerðarþolar á dóma Hæstaréttar í málunum nr. 426/2000 og 393/2001, þar sem í hlut áttu fjögurra og fimm ára börn. Jafnframt vísa gerðarþolar til málsins nr. 852/2014, um að ekki séu tiltekin aldursmörk heldur sé þetta háð mati hverju sinni. Gerðarþolar leggja áherslu á að hér, sem endranær í málum sem varða börn, beri að horfa fyrst og fremst til hagsmuna barnsins og því sé mat samkvæmt framkominni beiðni nauðsynlegt.
VII. Niðurstaða
Máli um afhendingu barns á grundvelli Haagsamningsins skal hraða svo sem unnt er. Til að undirstrika hraða málsmeðferð er þannig mælst til þess að dómstóll geri, komi slík beiðni fram frá beiðanda, grein fyrir ástæðum þess ef ekki liggur fyrir ákvörðun í máli innan sex vikna frá því að beiðni kom fram, sbr. 16. gr. laga nr. 160/1995, um viðurkenningu og fullnustu erlendra ákvarðana um forsjá barna, afhendingu brottnuminna barna o.fl. Þá er einnig ádráttur um að málsmeðferð sé flýtt ef um er að ræða mál sem rekin eru eftir 13. kafla laga um aðför nr. 90/1989, þar sem gert er ráð fyrir stuttum frestum þegar tekið er til varna. Í 1. mgr. 83. gr. er svo mælt fyrir um það að vitnaleiðslur og mats- og skoðunargerðir skulu að jafnaði ekki fram fara í málum sem rekin eru samkvæmt kaflanum. Þrátt fyrir framangreint hefur í málum sem þessum verið fallist á dómkvaðningu matsmanna til að meta ákveðin atriði, og þá einkum hvort atvik máls og aðstæður aðila séu með þeim hætti að ákvæði 12. gr. laga nr. 160/1995 komi til skoðunar. Í ákvæðinu er m.a. kveðið á um að heimilt sé að synja um afhendingu barns ef alvarleg hætta er á að afhending muni skaða barnið andlega eða líkamlega eða koma því á annan hátt í óbærilega stöðu, barnið er andvígt afhendingu og hefur náð þeim aldri og þroska að rétt sé að taka tillit til skoðana þess, eða afhending sé ekki í samræmi við grundvallarreglur hér á landi um verndun mannréttinda. Telja verður þó, með vísan til framangreindra sjónarmiða um flýtimeðferð og takmörkun á gagnaöflun, að meta skuli hvert einstakt mál; að aðstæður í málinu geri það þannig sennilegt að niðurstaða úr slíku mati geti skipt sköpum í máli eða geti a.m.k. haft veruleg áhrif á mat dómara á því hvort afhenda eigi barn eða ekki.
Dómari færði til bókar í þinghaldi 3. ágúst sl. að hann myndi að öllum líkindum skipa sálfræðing til þess að kanna hug barnsins til fram kominnar kröfu. Það yrði gert á grundvelli 17. gr. laga nr. 160/1995, en ef ráðist er í könnun sem þessa gildir 43. gr. barnalaga. Dómari hefur nú ákveðið að könnun sem þessi skuli fara fram þrátt fyrir mjög ungan aldur þess barns sem í hlut á, enda meti viðkomandi sérfræðingur jafnframt hvort barnið hafi þroska til þess, að rétt sé að taka tillit til skoðana þess í málinu.
Ágreiningslaust er að matsspurningar gerðarþola eru sniðnar eftir framangreindri 12. gr. og að leitast er við með þeim, að svara því hvort aðstæður séu með þeim hætti að til álita komi að synja um afhendingu.
Í athugasemdum með 12. gr. í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 160/1995, kemur fram í umfjöllun um 2. tl., að mikið þurfi að koma til svo því ákvæði verði beitt, samanber orðalagið „alvarleg hætta“. Jafnframt, til að undirstrika væntanlega þrönga túlkun á ákvæðinu, er nefnt að sem dæmi um óbærilega stöðu, sbr. niðurlag ákvæðisins sem sé þýðing á „intolerable situation“, geti verið að barn færi inn á átakasvæði eða í flóttamannabúðir, þar sem aðbúnaður væri slæmur. Í annarri matsspurningu er óskað eftir því að metin verði áhrif þess á andlega heilsu barnsins að vera skilið frá gerðarþolum.
Í málum samkvæmt Haagsamningnum um afhendingu barns verður ekki tekin afstaða til þess hjá hverjum forsjá barns liggur eða hvar sé rétt að hún liggi. Það er hlutverk upprunalandsins, í þessu tilviki [...] yfirvalda. Í því felst jafnframt að þar fer fram mat á því hvort hætta sé á að það geti haft mjög alvarlegar afleiðingar á andlega heilsu barns að skilja það frá móður sinni. Í ljósi þessa, framlagðra gagna málsins og þeirra ströngu krafna sem gerðar eru samkvæmt 2. tl. telur dómurinn þarflaust að dómkveðja matsmann í þessu afhendingarmáli til að meta umbeðið atriði. Er enda ekkert í málinu sem gefur vísbendingar um að þessi gæti orðið raunin. Fullyrðingar gerðarþola um að [...] barnaverndaryfirvöld séu allt að því alræmd, fyrir hörku og skort á meðalhófi, eru engum gögnum studdar. Gengið verður út frá því í úrskurði þessum að raunin sé önnur og barnaverndarmál séu ekki í ósvipuðum farvegi og hér á landi og mannréttinda sé gætt.
Varðandi hinn gerðarþola, móðurömmu barnsins, gilda sömu sjónarmið um þær ströngu kröfur sem gerðar eru í þessum efnum og að [...] barnaverndaryfirvöld hafi einnig kannað það hvort æskilegt sé að barnið sé hjá móðurforeldrum, enda hefur barnið dvalist á heimili þeirra í [...] meira og minna frá sumri 2014. Þá verður ekki horft fram hjá því að móðir barnsins hefur sjálf lagt til að barnið fari í fóstur til systur hennar og sambýlismanns í [...]. Metur hún það því sjálf væntanlega svo, að það muni ekki skaða barnið alvarlega að flytja frá henni sjálfri eða móður hennar.
Með vísan til framangreinds verður ekki séð að mat samkvæmt annarri matsspurningu hafi þýðingu fyrir úrlausn þessa máls og verður því hafnað dómkvaðningu til að leita svara við þeirri matsspurningu.
Varðandi þriðju matsspurningu gerðarþola, þ.e. hvaða áhrif flutningur og fóstur til [...] fjölskyldu myndi líklega hafa á barnið þar sem það talar litla sem enga [...] og hefur alist upp við íslenska menningu og fjölskyldulíf, verður vísað til sömu sjónarmiða og nefnd eru varðandi spurningu tvö. Mat á þessu atriði hefur ljóslega farið fram fyrir [...] yfirvöldum með hagsmuni barnsins í forgrunni. Ekkert bendir heldur til þess í gögnum málsins að þessi gæti verið raunin.
Til að svar við þessari spurningu teldist nauðsynlegt við úrlausn málsins, yrði einnig að uppfylla það skilyrði 2. tl. 12. gr. að breytingin myndi hafa í för með sér alvarlega hættu á því að skaða barnið andlega eða líkamlega, eða koma því í óbærilega stöðu. Dómurinn telur ekkert benda til þess að frekari rannsókn á því atriði, og mat dómkvadds matsmanns, geti leitt til þess að skilyrðum ákvæðisins teldist fullnægt. Þá verður matsspurningin ekki réttlætt með vísan til 4. tl. 12. gr. enda þar um að ræða lagaatriði sem dómurinn einn er bær um að meta, sbr. 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Því verður að telja matsspurninguna í nokkru ósamræmi við málið sjálft og 2. tl. 12. gr., samanber fyrri umfjöllun. Verður því einnig hafnað dómkvaðningu til að leita svara við þessari matsspurningu, sem þýðingarlausri fyrir það úrlausnarefni sem fyrir dóminum liggur.
Þar sem dómurinn hefur nú þegar tekið ákvörðun um að kalla til sérfræðing til að kanna afstöðu barnsins í málinu til afhendingar og að meta hvort barnið hafi þroska til þess, þannig að rétt sé að taka tillit til skoðana þess í málinu, sbr. framangreint, er ekki þörf á að dómkveðja matsmann til að svara fyrstu matsspurningu gerðarþola. Undirstrikað er þó að barnið tekur ekki ákvörðun í máli þessu með því einu að lýsa afstöðu sinni, þótt það teljist hafa náð tilskildum þroska.
Að virtu öllu framangreindu verður því beiðni gerðarþola um dómkvaðningu matsmanns hafnað.
Engar kröfur voru gerðar um málskostnað undir þessum þætti málsins.
Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Hafnað er beiðni gerðarþola um dómkvaðningu matsmanns.