Hæstiréttur íslands

Mál nr. 122/2015

K (Benedikt Ólafsson hrl.)
gegn
M (Ingvar Þóroddsson hrl.)

Lykilorð

  • Gjaldþrotaskipti
  • Hjón
  • Fjárskipti
  • Sértökuréttur


                               

Mánudaginn 2. mars 2015.

Nr. 122/2015.

K

(Benedikt Ólafsson hrl.)

gegn

þrotabúi M

(Ingvar Þóroddsson hdl.)

 

Gjaldþrotaskipti. Hjón. Fjárskipti. Sértökuréttur.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu K um að fá afhent úr hendi þrotabús M skírteini í félaginu E Inc. M og K höfðu fengið leyfi til skilnaðar að borði og sæng og sagði í leyfisbréfi til þess skilnaðar að samkomulag væri um skilnaðarkjör, sbr. samning aðila í september 2008. Í leyfisbréfi sem síðar var veitt til lögskilnaðar kom fram að hjónunum væri veitt leyfi til lögskilnaðar með þeim skilmálaum sem hjónin hefðu verið ásátt um við skilnað að borði og sæng. Í fjárskiptasamningi þeirra frá september 2008 voru helstu eignir búsins taldar upp en félagsins E Inc. hvergi getið.  Þeirrar eignar var hins vegar getið í samkomulagi sem hjónin sögðust hafa gert í maí 2008 og hún þar sögð eiga að koma í hlut K. Í niðurstöðu Hæstaréttar kom fram að þótt aðilar kynnu í öndverðu að hafa ætlað að haga fjárskiptum sínum vegna fyrirhugaðs skilnaðar með þeim hætti sem samkomulagið frá maí 2008 kvað á um væri ljóst að það samkomulag hefðu þau hvorki staðfest fyrir sýslumanni né dómara heldur samninginn frá september 2008. K hefði átt þess kost samkvæmt 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 að höfða dómsmál og freista þess að fá þann fjárskiptasamning felldan úr gildi að nokkru eða öllu leyti hefði hún talið hann bersýnilega ósanngjarnan á þeim tíma sem til hans var stofnað. Ekkert hefði komið fram í málinu um að hún hefði neitt þess úrræðis. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var hann staðfestur

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Þorgeir Örlygsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. febrúar 2015 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. janúar 2015, þar sem leyst var úr nánar tilteknum ágreiningi aðilanna í tengslum við gjaldþrotaskipti varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili hagar kröfugerð sinni þannig að viðurkennt verði að hún ein sé eigandi að félaginu E Inc., sem stofnað var samkvæmt lögum um félög í alþjóðaviðskiptum (CAP.291) á landsvæðinu [...], og að henni beri samkvæmt því að fá afhent og framselt til sín úr hendi varnaraðila skírteini nr. 3 í félaginu, sem gefið var út 18. febrúar 2014 til Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Atvik málsins eru rakin í hinum kærða úrskurði. Eins og þar greinir fengu sóknaraðili og eiginmaður hennar, M, leyfi til skilnaðar að borði og sæng [...]. september 2008. Í leyfisbréfi til þess skilnaðar sagði að samkomulag væri um skilnaðarkjör, sbr. samning aðila [...]. september 2008, og þann samning staðfestu hjónin fyrir sýslumanninum á [...] sama dag. Í leyfisbréfi [...]. apríl 2009 sagði að þeim hjónum væri veitti leyfi til lögskilnaðar „með þeim skilmálum, sem hjónin hafa orðið ásátt um, sbr. skilnaðarleyfi að borði og sæng, dags. [...]. september 2008.“ Í samningi hjónanna [...]. september 2008 um skilnaðarkjör voru helstu eignir búsins taldar upp en félagsins E Inc. þar hvergi getið. Þeirrar eignar var hins vegar getið í samkomulagi sem hjónin kveðast hafa gert [...]. maí 2008 í tilefni af fyrirhuguðum skilnaði þeirra og eignin þar sögð eiga að koma í hlut sóknaraðila.

Í 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 segir að hjón geti ráðið fjárskiptum sínum vegna skilnaðar til lykta með samningi. Fjárskiptasamningur skuli vera skriflegur og undirritaður af hjónunum eða umboðsmönnum þeirra. Þótt vera kunni að sóknaraðili og M hafi í öndverðu ætlað að haga fjárskiptum sínum vegna fyrirhugaðs skilnaðar með þeim hætti sem samkomulagið [...]. maí 2008 kvað á um er ljóst að það samkomulag staðfestu þau hvorki fyrir sýslumanni né dómara heldur fjárskiptaskiptasamninginn [...]. september 2008 í tengslum við útgáfu leyfisbréfs til skilnaðar að borði og sæng. Sóknaraðili átti þess kost samkvæmt 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga og innan þeirra tímafresta er þar getur að höfða dómsmál og freista þess að fá fjárskiptasamninginn frá [...]. september 2008 felldan úr gildi að nokkru eða öllu teldi hún hann bersýnilega ósanngjarnan á þeim tíma er til hans var stofnað. Ekki er fram komið í málinu að sóknaraðili hafi neytt þess úrræðis. Samkvæmt þessu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er staðfest sú niðurstaða að hafna kröfu sóknaraðila um fá afhent úr hendi varnaraðila skírteini nr. 3 í félaginu E Inc. gefið út 18. febrúar 2014 til Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns.

Eftir framangreindum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ákveðinn verður í einu lagi eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, K, um að fá afhent úr hendi varnaraðila, þrotabús M, skírteini nr. 3 í félaginu E Inc. sem gefið var út 18. febrúar 2014 til Ingvars Þóroddssonar héraðsdómslögmanns.  

Sóknaraðili greiði varnaraðila samtals 1.200.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. janúar 2015.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 26. nóvember 2014, er komið til dómsins 21. maí 2014 með bréfi Ingvars Þóroddssonar hdl., skiptastjóra þrotabús M, kt. [...], þar sem hann, með vísan til 2. mgr. 120. og 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., vísar til dómsins ágreiningi sem komið hafi upp við skiptin. Í bréfi sínu lýsir skiptastjóri ágreiningnum þannig að sóknaraðili, K, kt. [...], [...], hafi krafizt afhendingar tveggja handhafahlutabréfa í félaginu E Inc., sem skráð sé á [...]. Skiptastjóri hafi hafnað kröfunni þar sem sóknaraðili hafi ekki sannað eignarrétt sinn að bréfunum.

Dómkröfur

Sóknaraðili krefst þess í fyrsta lagi að viðurkennt verði að samkomulag um fjárskipti vegna skilnaðar að borði og sæng milli sóknaraðila og M, gert á Akureyri [...]. maí 2008, vottað af A og B, verði lagt til grundvallar sem samkomulag um skilnaðarkjör við skipti á búi þeirra.

Í öðru lagi krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að sóknaraðili sé eigandi allra hluta í félaginu E Inc., sem stofnað sé samkvæmt lögum um félög í alþjóðaviðskiptum (CAP.291) á landsvæðinu [...].

Í þriðja lagi krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði með dómi að sóknaraðili skuli fá afhent frá varnaraðila og framselt af honum, skírteini nr. 3 í félaginu E Inc., gefið út 18. febrúar 2014 til skiptastjóra.

Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar að skaðlausu.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.

Málavextir

Hinn 8. ágúst 2002 mun M hafa stofnað félagið E Inc. og var það skráð á [...]. Voru þann dag gefin út tvö handhafahlutabréf í félaginu, nr. 1 og 2, og er ágreiningslaust með aðilum að M hafi þá átt bréfin. Þá er ágreiningslaust með þeim að bréfin hafi verið geymd í Landsbanka Luxembourg S.A.

Með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra, sem kveðinn var upp hinn [...], var bú M tekið til gjaldþrotaskipta. Úrskurðurinn var staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands hinn [...] í máli nr. [...]. Ingvar Þóroddsson hdl. var skipaður skiptastjóri. Kröfulýsingarfrestur rann út hinn 8. september 2009 og gerði sóknaraðili ekki kröfu í búið innan hans. Hún gerði hins vegar í maí 2014 kröfu um afhendingu hlutabréfa, svo sem síðar verður rakið.

M og sóknaraðili voru í hjúskap. Fengu þau leyfi til skilnaðar að borði og sæng hinn [...]. september 2008 og lögskilnaðar hinn [...]. apríl 2009.

Hinn [...]. september 2008 var lagður fram hjá sýslumanninum á [...] „samningur um skilnaðarkjör“ milli M og sóknaraðila, dagsettur þann dag. Jón Kr. Sólnes hrl. vottar rétta dagsetningu og undirritun. Eru í samningnum taldar upp „helstu eignir búsins“ og eru þar talin fasteignir, bifreiðar og hlutafé. Félagsins E Inc. er ekki getið í samningnum.

Í málinu liggur ljósrit skjals, dagsett [...]. maí 2008 og undirritað af M og sóknaraðila. Er skjalið nefnt „samkomulag“ og segir þar að hjónin M og sóknaraðili, sem ákveðið hafi að skilja að borði og sæng, geri með sér samkomulag vegna fjárskipta. Eru þar taldar upp þær eignir sem koma skuli í hlut hvors um sig og meðal þess sem samkvæmt því skal koma í hlut sóknaraðila er „Félagið [...] (skráð á [...])“ og er það í samkomulaginu metið á 40 milljónir króna. Í samkomulaginu segir að það sé „gert að vel athuguðu máli sem [þau hafi] rætt um á undanförnum mánuðum“. Þá segir einnig: „Samkomulag er um að leggja skjal þetta ekki fram hjá Sýslumanni við bókun á skilnaðarkjörum okkar, en lýsa því þar yfir að fullt samkomulag sé um helmingaskipti á búi okkar og hvernig sé háttað ráðstöfun á skráðum fasteignum, bifreiðum og loftförum. [...] Samkomulag er á milli okkar um að halda efni þessa skjals leyndu og gera efni þess ekki opinbert nema nauðsynlegt sé til sönnunar vegna fullnustu á réttindum og skyldum samkvæmt framanskráðu.“ Undir skjalið rita sem vottar A og B.

Hinn 9. maí 2014 komu A og B fyrir dóm að kröfu sóknaraðila. Staðfestu báðir að hafa vottað skjalið hinn [...]. maí 2008. Hvorugur sagðist hafa séð M og sóknaraðila undirrita skjalið, en þau hefðu bæði verið búin að því og bæði verið í húsinu þegar vitnin hefðu ritað á skjalið sem vottar. A kvaðst hafa verið viðskiptafélagi M lengi og B kvaðst vera mágur M og náinn vinur.

Í málinu liggur bréf, dagsett 15. maí 2008, stílað á „Directors of E Inc.“ á nánar tilgreindu heimilisfangi í [...], og undirritað af M. Segir þar að M hafi, þann dag, sem handhafi og eini eigandi beggja hlutabréfa í félaginu, „transferred both Shares“ til eiginkonu sinnar, sóknaraðila. Er viðtakandi beðinn um að gera allar nauðsynlegar ráðstafanir í tilefni þessa.

Í málinu liggur ljósrit bréfs, dags. [...]. júlí 2009, undirritað af M og stílað á Landsbanka Luxembourg S.A. (í slitameðferð). Óskar hann þar eftir því að Landsbanki Luxembourg S.A. (í slitameðferð) færi umsjón með félaginu E Inc. yfir til félagsins [...] Management S.A.

Í málinu liggur bréf, dags. 9. desember 2009, stílað á Landsbanka Luxembourg S.A. í slitameðferð. Segir í íslenzkri þýðingu þess að hjónin M og sóknaraðili hafi fengið lögskilnað á Íslandi í september 2008. Samkvæmt samkomulagi þeirra um skiptingu eigna vegna skilnaðarins hafi meðal annars bréf í félaginu E Inc., skrásettu á [...], komið í hlut sóknaraðila, en bréfin séu í vörzlu Landsbanka Luxembourg S.A. Undir bréfið ritar Benedikt Ólafsson hrl.

Í málinu liggja útprentuð tölvubréfasamskipti M og Landsbankans á dögunum 26. til 30. september 2008. Bréfin eru öll rituð á ensku en íslenzk þýðing þeirra liggur fyrir í málinu. Í bréfi 26. september óskar starfsmaður Landsbankans eftir upplýsingum um eignir og framkvæmdir sem M tengist og „þar á meðal“ séu nokkur sem hann telur upp. Segir þar meðal annars: „þar á meðal fasteign þína“.  Í svari sínu segir M meðal annars: „Ég á engar eignir nema heimili mitt í [...]. [...] Ég þarf að vita að ég á mitt heimili öruggt. Sé það ekki gerlegt er heildarmyndin að mínu áliti öll önnur.“ Þessu bréfi svarar starfsmaður Landsbankans  síðar sama dag og segir þar meðal annars: „Varðandi húseign þína í [...]. Eins og við ræddum um, yrði planið, sem hluti samkomulagsins í heild, að bankinn keypti eignina af þér, en þú hefðir nýtingarrétt á henni í allt að 3 ár. Að þeim tíma liðnum ákvæðum við næstu skref, byggt á stöðunni á því augnabliki. Er eignin á nafni félags eða beint á þínu nafni? Ef hún er á nafni félags gætum við gert þetta á einfaldan hátt.“ Þessu bréfi svarar M 30. september og segir þar meðal annars: „Ég vil aftur leggja áherslu á að ég er ekki tilbúinn til að afsala mér heimili mínu í [...] á þessu stigi. Það þýðir ekki að það geti ekki gerst síðar. Húsið er á nafni félags, en mér finnst að í anda samvinnu okkar fram til þessa, þar sem ég hef sett fram allar eignir sem ég er að vinna með í augnablikinu til að ljúka skuld minni við Landsbankann, að persónulegan lið þar sem ég bý með syni mínum megi skilja eftir eins og á stendur. Sé svo ekki verðum við að líta öðru vísi á málin.“

Í málinu er bréf Landsbanka Luxembourg S.A. í slitameðferð til skiptastjóra. Bréfið er ekki dagsett en á það hefur skiptastjóri ritað að hann hafi móttekið það 4. maí 2010. Í bréfinu er vísað til bréfs skiptastjóra dags. 11. september 2009 og símbréfs hans dags. 10. marz 2010. Segir í íslenzkri þýðingu bréfsins að því fylgi „reikningsyfirlit yfir tímabilið 4. 5. 07 og til dagsins í dag, ásamt nýjustu verðmætistilgreiningum varðandi persónulegan reikning M jafnt sem félaga í hans eigu.“ Eru svo talin upp þau félög þar sem M „kemur fram sem eigendi“, og meðal þeirra er E Inc. Þá segir í bréfinu að Landsbanki Luxembourg S.A. í slitameðferð fari einnig með vörzlur nánar tilgreindra hlutabréfa og þar á meðal séu „2 handhafabréf“ í E Inc.

Hinn 18. febrúar 2014 var haldinn stjórnarfundur í félaginu E Inc. Fundinn sátu tveir nafngreindir stjórnarmenn og samkvæmt fundargerð var á fundinum heimiluð útgáfa hlutabréfs nr. 3, fyrir tveimur hlutum, stílað á Ingvar Þóroddsson.

M kom til skýrslutöku hjá skiptastjóra hinn 7. maí, 24. ágúst og 22. desember 2009. Í síðastgreindri skýrslutöku var hann spurður hvort hann vissi af hverju E Inc. væri skráður eigandi fasteignarinnar í [...]. Er haft eftir honum: „M sagðist kannast við félagið. Hann sagðist ekki eiga það og vildi ekki svara hver ætti það.“ Var M þá spurður hvort hann væri eigandi tveggja handhafahlutabréfa í félaginu og sagðist hann ekki eiga þau en vísaði til fyrra svars.

Hinn 7. maí 2014 skrifaði lögmaður sóknaraðila skiptastjóra þrotabúsins og sagði meðal annars í bréfi hans að sóknaraðili og M hefðu gert með sér samkomulag um nákvæma skiptingu eigna sinna hinn [...]. maí 2008. Meðal þeirra eigna sem samkvæmt þessu samkomulagi hefðu komið í hlut sóknaraðila væri félagið E Inc. sem skráð væri á [...], og ætti félag þetta fasteignina [...], [...], [...], en þar hefði lögheimili sóknaraðila verið frá árinu 2002. Hafi nánar tilgreind lögmannsstofa í [...], með bréfi dags. 24. apríl 2014, skorað á íbúa í húsinu að rýma það eigi síðar en 16. maí. Þá segir í bréfinu að skiptastjóri hafi kynnt lögmanninum daginn áður að hlutabréfin í E Inc. hefðu verið afhent þrotabúinu sem talinn væri réttur eigandi þeirra. Krafðist lögmaðurinn þess að hlutabréfin í félaginu yrðu afhent sér fyrir hönd sóknaraðila, sem væri löglegur eigandi bréfanna.

Með bréfi dags. 13. maí 2014 hafnaði skiptastjóri kröfunni og kvað þrotabúið hafa öðlazt öll fjárhagsleg réttindi yfir handhafabréfum í félaginu við upphaf gjaldþrotaskipta samkvæmt 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991.

Hinn 13. maí sendi sóknaraðili skiptastjóra sérstaka kröfulýsingu í þrotabúið og krafðist þar afhendingar handhafahlutabréfa nr. 1 og nr. 2 í E Inc.

Skiptafundur var haldinn 20. maí 2014 til að fjalla um afstöðu skiptastjóra til kröfunnar. Þá kom fram hjá skiptastjóra á fundinum, skv. fundargerð, „að félagið E Inc. hafi nú verið endurreist og að tveimur handhafabréfum í félaginu hafi verið skipt út og í staðinn gefið út eitt bréf stílað á nafn skiptastjóra“. Ekki tókst að jafna ágreininginn á fundinum og vísaði skiptastjóri honum til héraðsdóms eins og rakið hefur verið.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili segir að félagið E Inc. hafi verið skráð á [...] hinn 8. ágúst 2002. Gefin hafi verið út tvö handhafahlutabréf í félaginu, Certificate númer eitt og Certificate númer tvö. Sama dag hafi M verið veitt umboð til að fara með félagið og gera hverskyns ráðstafanir í nafni þess en M hafi einn verið eignandi félagsins og handhafi beggja handhafahlutabréfanna í því.  Sóknaraðili segist hafa verið gift M en hjúskap þeirra hafi verið slitið hinn [...]. september 2008. Fyrir hjúskaparslit, hinn [...]. maí 2008, hafi þau samið um skiptingu eigna sinna. Samkvæmt skriflegum samningi þeirra skyldi sóknaraðili meðal annars fá í sinn hlut félagið E Inc. Handhafahlutabréfin í félaginu hafi verið geymd í Landsbanka Luxembourg S.A. sem hafi annazt fjárhagsleg viðskipti M og meðal annars séð um stofnun félagsins. Bankinn hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta í árslok 2008 og hafi hlutabréfin lokazt þar inni áður en sóknaraðila hafi gefizt ráðrúm til að fá þau í sínar hendur. Hafi sóknaraðili síðan ítrekað reynt að fá bréfin afhent en án árangurs.

Sóknaraðili segir að á skiptafundi í búi M hinn 22. desember 2009, hafi M upplýst skiptastjóra um að hann væri ekki eigandi félagsins E Inc. Þrátt fyrir þetta hafi skiptastjóri krafið þrotabú Landsbanka Luxembourg S.A. um afhendingu hlutabréfanna og fengið þau afhent. Með heimild í samþykktum félagsins hafi varnaraðili fengið handhafahlutabréfin ógilt og í þeirra stað hafi hinn 18. febrúar 2014 verið gefið út nýtt hlutabréf, Certificate númer þrjú á nafn skiptastjóra Ingvars Þóroddssonar hdl. Sóknaraðili hafi krafið þrotabúið um afhendingu hlutabréfsins enda sé sóknaraðili réttur eigandi þess en varnaraðili hafnað því og teljið búið réttan eiganda.

Sóknaraðili segir að samkvæmt hjúskaparlögum nr. 31/1993 sé skilyrði við hjúskaparslit að samkomulag sé um fjárskipti milli hjóna eða að opinber skipti séu hafin áður en skilnaðarleyfi sé veitt. Hjón geti ráðið fjárskiptum til lykta með samningi, skuli hann vera skriflegur og staðfestur fyrir sýslumanni eða dómara. Sóknaraðili segir að snemma árs 2008 hafi þau M ákveðið að slíta hjúskap sínum. Þau hafi átt umtalsverðar eignir bæði á Íslandi og erlendis. Samkomulag hafi verið með þeim um verðmat á eignunum og skyldu þær skiptast til helminga. Þau hafi undirritað samkomulag um nákvæma skiptingu eigna hinn [...]. maí 2008. Samið hafi verið um að það skjal væri trúnaðarmál og yrði ekki gert opinbert nema nauðsynlegt væri til sönnunar á réttindum samkvæmt skjalinu. Ákvæði þess efnis sé í skjalinu sjálfu. Við hjúskaparslit í byrjun september 2008 hafi þau gert með sér samning sem aðeins hafi tekið til hluta af eignum þeirra þ.e.a.s. skráðra eigna á Íslandi sem fram hafi komið í skattframtali og peningalega eigna í íslenskum bönkum. Samkomulag þetta hafi verið lagt fram hjá sýslumanni af lögmanni þeirra, skv. umboði [...]. september 2008 og hafi leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng verið gefið út sama dag.

Sóknaraðili segir að í samningi þeirra M frá [...]. maí 2008 sé rækileg upptalning á öllum þeirra eignum. Þau hafi verið bær til þess að ráðstafa eigum sínum og samkomulag hafi verið með þeim um mat á verðmæti einstakra eigna sem skiptast hafi átt til helminga. Enginn ágreiningur hafi síðan verið með þeim um réttmæti þessarar ráðstöfunar. Meðal þeirra eigna sem komið hafi í hlut sóknaraðila við samkomulagið hafi verið félagið E Inc. Á grundvelli þessa samkomulags og fjárslita við hjúskaparslit telji sóknaraðili sig réttan eiganda að félaginu. Þegar synjun skiptastjóra um afhendingu hlutabréfanna hafi verið ljós, hafi lögmaður sóknaraðila talið rétt að fá staðfest fyrir dómi að hjónin hafi undirritað samkomulagið á þeim tíma sem tilgreindur sé í því, [...]. maí 2008. Vitundarvottar að samkomulaginu séu A og B. Hinn 9. maí 2014 hafi þeir báðir mætt á dómþing og staðfest að hjónin hafi undirritað samkomulagið þennan dag. Kveðst sóknaraðili byggja meðal annars á því að um eðlilega ráðstöfun hafi verið að ræða við fjárslit hjóna sem hafi fullt gildi að lögum, þrátt fyrir að samkomulagið hafi ekki verið lagt fyrir sýslumann eða dómara enda sé enginn ágreiningur milli hjónanna um skiptin og lýsi bæði því yfir að samningurinn sé skuldbindandi fyrir þau. Aðeins hafi hluti allra eigna búsins, sem taldar séu upp í samkomulaginu frá [...]. maí, verið tilgreindur í því samkomulagi sem lagt hafi verið fram hjá sýslumanni við hjúskaparslitin. Kveðst sóknaraðili vekja athygli á því að skipting eigna sem komi fram í samkomulagi því sem lagt hafi verið fyrir sýslumann sé algjörlega í samræmi við þá skiptingu sem komu fram í samkomulaginu frá maí 2008. Samkomulagið um eignaskipti, sem lagt hafi verið fram hjá sýslumanni, hafi því ekki verið breyting á samkomulaginu frá [...]. maí 2008 heldur einungis tekið til hluta eignanna. Samkomulagið frá [...]. maí 2008 taki til allra eigna búsins og geri ráð fyrir sanngjarnri skiptingu eigna, byggðri á helmingaskiptareglu hjúskaparlaga. Fullt samkomulag hafi verið með aðilum við skiptin og enginn ágreiningur síðar með þeim vegna skiptanna. Ráðstöfunin hafi gildi að lögum og verði ekki endurupptekin enda sé hún sanngjörn og eðlileg eftir atvikum.

Sóknaraðili segist byggja á þeirri meginreglu fjármunaréttar að hverjum sé heimilt að ráðstafa eignum sínum og réttindum með frjálsum samningum. Þá sé byggt á meginreglu hjúskaparlaga um helmingaskipti á eignum hjóna við hjúskaparslit með vísan til 2. mgr. 95. gr. laganna. Þá sé vísað til almennra reglna fjármunaréttar um réttar efndir og gildi samninga og vísað til 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttar. Krafa um málskostnað sé studd við 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili segir sóknaraðila ekki hafa lýst kröfu í búið innan kröfulýsingarfrests sem lokið hafi hinn 8. september 2009. Sóknaraðili hafi hins vegar gert kröfu í búið með bréfi dagsettu 7. maí 2014 og þá farið fram á staðfestingu á eignarhaldi sínu á félaginu E Inc. sem skráð sé á [...]. Skiptastjóri hafi hafnað kröfunni með vísan til sönnunarskorts.

Varnaraðili segir að ekki hafi þýðingu við skipti þrotabúsins að úrskurðað verði sérstaklega um það hvort að tiltekinn samningur hafi gildi eða ekki vegna skipta á búi hjónanna M og sóknaraðila. Framangreind kröfulýsing sóknaraðila til búsins hafi ekki lotið að því með beinum hætti og skiptastjóri hafi ekki tekið afstöðu til þessa álitaefnis áður en málinu hafi verið vísað til héraðsdóms. Varnaraðili segist því telja að sakarefnið eigi ekki undir héraðsdóm í tengslum við skipti þrotabúsins þótt samkomulagið komi til álita við úrslausn á eignarhaldi félagsins E Inc. Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að taka beri kröfu til úrskurðar efnislega, bendi varnaraðili á að samkomulag sóknaraðila við M um fjárskipti vegna skilnaðar að borði að sæng dagsett [...]. maí 2008 hafi ekki verið staðfest af sýslumanni skv. 1. mgr. 95. gr. laga 31/1993 og hafi því ekkert gildi við fjárskipti hjónanna. Sýslumaður hafi gefið út leyfisbréf til skilnaðar að borði og sæng milli hjónanna dagsett [...]. september 2008 og þar er einungis vísað til samnings um skilnaðarkjör aðila dagsett sama dag. Í þeim samningi sé ekki gerður neinn fyrirvari um fyrrgreint samkomulag dagsett [...]. maí 2008. Af þessum sökum beri að hafna kröfunni efnislega. Varnaraðili segist mótmæla öllum málsástæðum sóknaraðila sem byggðar séu á samkomulaginu dagsettu [...]. maí 2008. Varnaraðili segist telja að hjúskaparlög geri ráð fyrir að með staðfestum fjárskiptasamningi hjóna ljúki fjárfélagi þeirra. Sóknaraðili hafi ekki gert reka að því að rifta fjárskiptasamningi dagsettum [...]. september 2008. Varnaraðili segist telja að samkomulagið [...]. maí 2008 hafi ef til vill verið uppkast að samningi sem síðan hafi verið horfið frá þegar hinn staðfesti samningur hafi verið gerður hinn [...]. september 2008. Samningurinn muni hafa verið unnin af sameiginlegum lögmanni hjónanna og hafi síðan verið staðfestur af sýslumanni. Varnaraðili segist einnig telja að gildi samkomulagsins, dagsetts [...]. maí 2008, verði að meta í ljósi þess að því hafi ekki verið framvísað fyrr en löngu eftir skilnað hjónanna og ekki fyrr en útburðargerð varnaraðila hafi verið hafin vegna fasteigna félagsins. Frumrit samkomulagsins hafi ekki verið lagt fram og kveðst varnaraðili telja það marklaust af þeim sökum eða það veiki a.m.k. sönnunargildi þess. Varnaraðili kveðst benda á að bæði vitnin að undirritun skjalsins séu tengd sóknaraðila og M og dragi það úr trúverðugleika þeirra. Samtímaheimildir um tilvist samkomulagsins hafi ekki verið lagðar fram. Sóknaraðili hafi í engu rökstutt að samkomulagið frá [...]. maí 2008 uppfylli helmingaskiptareglu hjúskaparlaga, þannig að sóknaraðili hafi átt rétt á eignum úr hjúskapareign M. Engar upplýsingar liggi fyrir um skuldastöðu hans við skilnaðinn. Varnaraðili kveðst telja að eignir hans við skilnaðinn hafi ekki staðið undir skuldum og mótmæla því að skilyrði hafi verið fyrir því að M afhenti sóknaraðila einhverjar eignir vegna skilnaðarins.

Vegna kröfu um viðurkenningu á eignarhaldi á hluta í E Inc.

Varnaraðili segir að ágreiningur málsins lúti að eignarhaldi félagsins E Inc. en það félag sé skráður eigandi fasteignarinnar [...], [...], [...]. Til staðfestingar á eignarhaldi félagsins hafi verið gefin út tvö hlutabréf til handhafa, númer eitt og tvö, dagsett 8. ágúst 2002, fyrir einum hlut hvort. Ekki sé ágreiningur um að M hafi stofnað félagið og átt þessi handhafahlutabréf. Samkvæmt upplýsingum frá þrotabúi Landsbankans Luxembourg hafi framangreind handhafahlutabréf verið í vörzlu bankans vegna M þegar bankinn hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta í desember 2008. Varnaraðili hafi verið eini aðilinn sem lýsti kröfu um afhendingu bréfanna í þrotabúið en kröfulýsingarfrestur hafi runnið út 15. maí 2010. Með vísan til þessa hafi varnaraðili látið ógilda framangreind tvö handhafabréf númer eitt og tvö en í þeirra stað hafi hinn 18. febrúar 2014 verið gefið út eitt bréf, númer þrjú, fyrir tveimur hlutum og séu þau stíluð á nafn skiptastjóra. Þessi aðgerð hafi verið nauðsynleg til þess að varnaraðili gæti komið fasteign félagsins í verð.

Varnaraðili segist byggja á því að þrotabúið hafi öðlazt öll fjárhagsleg réttindi yfir félaginu E Inc. við upphaf gjaldþrotaskipta enda hafi M ekki verið búinn að ráðstafa hlutabréfum til annars aðila á því tímamarki eins og framan rakin málavaxtalýsing varnaraðila beri með sér. Þá kveðst varnaraðili vísa til þeirra sjónarmiða sem að hann hafi haft vegna efnislegrar umfjöllunar um kröfu sóknaraðila um viðurkenningu á gildi samkomulags um fjárskipti sóknaraðila og M [...]. maí 2008. Varnaraðili segist byggja á því að samkomulagið [...]. maí 2008 hafi ekkert gildi við mat á eignarhaldi félagsins E Inc., heldur beri að miða við fjárskiptasamning sóknaraðila og M dagsettan [...]. september 2008. Samningurinn hafi verið unninn af lögmanni og síðan staðfestur af sýslumanni. Í þessum samningi sé ekki að finna ákvæði sem víki að því að sóknaraðili fái í sinn hlut félagið E Inc. við skilnaðinn. Af þeim sökum byggi varnaraðili á því að félagið hafi áfram verið í eigu M eftir skilnaðinn.

Varnaraðili segir að skiptastjóri hafi tekið skýrslu af þrotamanninum M hinn 7. maí 2009, 24. ágúst 2009 og 22. desember 2009 og þá leitað eftir upplýsingum um eignir hans. Í þessum skýrslutökum hafi M aldrei nefnt annað en að fyrrgreindur samningur um skilnaðarkjör dagsettur [...]. september 2008 hefði verið lagður til grundvallar við fjárskipti milli hjónanna eftir skilnaðinn. Skiptastjóri hafi spurt M um eignarhald félagsins E Inc. í skýrslutöku hinn 22. desember 2009, eftir að M hafi lýst því yfir að hann ætti ekki viðkomandi handhafabréf. M hafi við skýrslutökuna ekki upplýst um eignarhald bréfanna. Í skýrslutökunni hafi M neitað að hafa selt eða ráðstafað eignum í [...] undanfarin 2 ár sem hafi verið í hans eigu eða eigu félaga í hans eigu. Varnaraðili segist mótmæla því að tilkynning M dagsett 15. maí 2008 til stjórnanda E Inc. hafi sönnunargildi í málinu. Engin staðfesting sé fyrir því að tilkynningin hafi verið gerð á tilgreindum degi og hafi verið send viðkomandi stjórnanda félagsins og henni fylgt eftir. Engin gögn hafi verið lögð fram sem sýni viðbrögð skráningaraðila vegna tilkynningarinnar, enda hafi ætluð eignarréttindi sóknaraðila ekki orðið því til fyrirstöðu að hlutabréf í félaginu númer eitt og tvö yrðu ógilt og hlutabréfin skráð eign varnaraðila. Varnaraðili segist vekja athygli á tveimur skjölum sem stafi frá M sem ekki séu í samræmi við þessa tilkynningu hans. Fyrra skjalið hafi að geyma tölvupóstsamskipti milli M og starfsmanns Landsbankans á tímabilinu frá 26. -30. september 2008, þar sem fram komi að M tilgreini heimili sitt í [...] sem sína eign í tengslum við félagið. Síðara skjalið sé dagsett 21. júlí 2009, þar sem M beinir tilkynningu til þrotabús Landsbankans Luxembourg, þar sem fram komi að hann sé eigandi félagsins E Inc. og geti í engu sóknaraðila sem eiganda.

Varnaraðili segist telja að tilkynning sóknaraðila dagsett 9. desember 2009 til þrotabús Landsbankans Luxembourg um breytt eignarhald handhafahlutabréfa í E Inc. hafi verið marklaus. Engin skrifleg gögn virðist hafa fylgt til stuðnings staðhæfingum um eignarhald sóknaraðila og auk þess hafi viðkomandi lögmaður ekkert umboð haft til að binda varnaraðila með yfirlýsingum. Þá sé þessi tilkynning ekki í samræmi við yfirlýsingar sem stafi frá M sbr. áðurgreind tölvupóstsamskipti hans við starfsmann Landsbankans dagsett 26. – 30. september og tilkynningu hans til þrotabús Landsbanka Luxembourg dagsetta 21. júlí 2009.

Varnaraðili segist telja sóknaraðila bera sönnunarbyrði fyrir staðhæfingu sinni um að hún eigi félagið E Inc., þar sem staðhæfingin sé í andstöðu við fyrirliggjandi skráningu um eignarhald í félaginu. Vegna kröfu sinnar um að hafna verði kröfu um viðurkenningu á samkomulagi um fjárskipti dagsettu [...]. maí 2008, kveðst varnaraðili vísa til 171. gr. laga nr. 21/1991 en auk þess XIV. kafla laga nr. 31/1993, aðallega 95., 99., 100., 101., 103., og 106. gr. laganna en einnig til 104. og 109. gr. laga nr. 20/1991 vegna gildis samkomulagsins dagsetts [...]. maí 2008.

Vegna kröfu sinnar um að hafna verði kröfu um viðurkenningu eignarhalds sóknaraðila á öllum hlutum í félaginu E Inc. kveðst varnaraðili byggja á því að sóknaraðili uppfylli ekki skilyrði 109. gr. laga 21/1991 um gjaldþrotaskipti varðandi eignarhald á E Inc. Um eignarrétt varnaraðila sé meðal annars vísað til 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991 en auk þess til XIV. kafla laga nr. 31/1993, aðallega 95., 99., 100., 101., 103. og 106. gr. laganna svo og til 104. og 109. gr. laga nr. 20/1991. Varnaraðili segist jafnframt vísa til 44. gr. og 59. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, varðandi sönnunarbyrði aðila og trúverðugleika vitna. Varnaraðili segist byggja kröfu sína um málskostnað á 129. sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988. 

Framburður vitnis fyrir dómi

M, fyrrverandi eiginmaður sóknaraðila, sagði fyrir dómi að þau sóknaraðili hefðu undirritað samkomulag vegna fjárskipta hinn [...]. maí 2008. Það hefðu þau gert í [...], að viðstöddum vottum, en vitnið hefði beðið A „að koma inn og votta undirskriftirnar“ og B, sem hefði verið við vinnu úti í garði, að gera við grindverk, hefði komið inn og vottað. Vitnið hefði samið skjalið.

Vitnið var spurt hvers vegna einungis hluti eigna þeirra sóknaraðila hefði verið talinn upp í því samkomulagi sem lagt hefði verið fyrir sýslumann. Sagði vitnið að á þessum tíma hefði almannarómur farið mikinn og töluvert „kjaftæði“ verið í umræðunni. Hefði vitnið ekki viljað að neitt yrði lagt fram sem gæti ratað til annarra, svo sem fjölmiðla. Þáverandi lögmaður þeirra hefði sagt þeim að ekki þyrfti að leggja fram við sýslumann allt það sem hefði verið samkomulaginu frá maí, og því hefði þetta verið gert svona.

Vitnið var spurt hvers vegna félagið E Inc. hefði í samkomulaginu í maí 2008 verið metið til 40 milljóna króna þegar því væri haldið fram að verðmæti fasteignar félagsins hefði verið um 1.250.000 sterlingspund. Vitnið sagði að með þessu hefðu þau viljað „skapa svona pínulítið rými“, vegna þess að þær eignir, sem falla hefðu átt til vitnisins, hefðu verið í formi hlutabréfa og gengi þeirra gæti breytzt hratt til hækkunar eða lækkunar. Einnig hafi ákveðnar bankainnstæður verið í tilteknu félagi, sem hugsanlega yrðu notaðar til einhverra annarra viðskipta sem það félag „hafði stofnað til eða ekki“. Þess vegna hefðu þau haft þetta svona, matið hefði verið misjafnt á eignunum en fullt samkomulag hefði verið milli þeirra um hvernig þetta ætti að vera. Bæði hefðu virt samkomulagið og bæði hefðu litið svo á að sóknaraðili væri eigandi E Inc.

Vitnið var spurt um bréf sem það hefði ritað Landsbanka Luxembourg S.A. í slitameðferð 21. júlí 2009 þar sem það hefði óskað eftir að umsjón með félaginu E Inc. yrði flutt frá bankanum til félagsins [...] Management S.A. Vitnið sagðist hafa ritað þetta bréf fyrir hönd sóknaraðila, „en einungis vegna þess að mér var sent bréfið, þá taldi ég að þetta væri mjög góð leið til þess að koma félaginu yfir til [...] til þess að og ljúka málinu [...]. Þetta var allt í grænum sjó þarna hjá Landsbankanum út um allt, og ég veit ekki af hverju þeir voru að rugla með þetta svona, en allavega þá taldi ég að þetta væri sú leið til þess að koma þessu þá kannski á réttan, auðveld leið til þess að koma þessu á réttan stað.“ Sóknaraðili hefði óskað eftir því að [...] Management S.A sæi um mál félagsins.

Vitnið var spurt um tölvubréfasamskipti sín og Landsbanka Íslands hf. Það sagði að flestir sem staðið hefðu í viðskiptum hefðu á þessum tíma stigið mjög krappan dans „og mikið af hugmyndum og pappírum og alls konar dóti“ farið á milli. Á þessum tíma hefði Landsbankinn verið „að fara í saumana á alls konar hlutum, hvað menn eiga eða gætu hugsanlega eignazt, eða því um líkt, og töluðu þá um þetta hús“. Vitnið hefði ekki viljað „flækja málin í þessum fabúleringum okkar á milli með því að segja það að þetta væri hluti af einhverjum skilnaðarkjörum“, enda sæist í bréfunum að vitnið „[verðist] fimlega“ því að bankinn eignaðist húsið.

Niðurstaða

Með bréfi sínu 21. maí 2014 vísaði skiptastjóri þrotabús M til dómsins ágreiningsefni sem komið hefði upp við skiptin. Í bréfi sínu til dómsins rakti skiptastjóri kröfu sóknaraðila um afhendingu tveggja handhafahlutabréfa í félaginu E Inc. en tók jafnframt fram að skiptastjóri og lögmaður sóknaraðila væru „sammála um að kröfugerð málsins tæki mið af því að skiptastjóri væri nú skráður eigandi eina hlutabréfsins í félaginu“. Ágreiningsefninu var vísað til dómsins með skírskotun til lokaákvæðis 2. mgr. 120. og 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. Þegar skiptastjóri vísar ágreiningi til héraðsdóms samkvæmt þeirri heimild verða ekki aðrar kröfur teknar til meðferðar en þær sem skiptastjóri lýsir. Má þar vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 759/2009 sem kveðinn var upp 20. janúar 2010. Krafa sóknaraðila um að viðurkennt verði að samkomulag sem sóknaraðili hafi gert við þáverandi eiginmann sinn hinn [...]. maí 2008 „sé lagt til grundvallar sem samkomulag um skilnaðarkjör við skipti á búi þeirra“, kemst þannig ekki að í málinu.

Samkvæmt 1. mgr. 72. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl. tekur þrotabú, þegar við uppkvaðningu úrskurðar um að bú skuldara sé tekið til gjaldþrotaskipta, við öllum fjárhagslegum réttindum sem skuldari átti eða naut við uppkvaðningu úrskurðarins, nema annað leiði af réttarreglum, eðli réttindanna eða löggerningi sem verður ekki hnekkt vegna gjaldþrotaskiptanna. Fyrir liggur að M var í öndverðu eigandi handhafahlutabréfanna í félaginu E Inc. og falla þau bréf því til þrotabús hans, nema bréfin hafi horfið úr hans eigu áður en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta í maí 2009.

Sóknaraðili byggir á því að hún hafi eignazt bréfin með samkomulagi sem þau M hafi gert hinn [...]. maí 2008 vegna skilnaðar síns, síðar á því ári. Það samkomulag var ekki lagt fram hjá sýslumanni er hjónin fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng og hefur það hvorki verið staðfest fyrir sýslumanni né dómara, svo sem áskilið er í 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Verður að telja fjárskiptasamning ekki skuldbindandi fyrir aðila fyrr en hann hefur þannig verið staðfestur, og má þar um vísa til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 151/1987, sem kveðinn var upp 19. maí 1987, þótt þá hafi verið gildistíð laga nr. 60/1972 um stofnun og slit hjúskapar, en þau geymdu sambærilegt ákvæði.

Rakin hafa verið bréfaskipti M og starfsmanna Landsbankans í lok september 2008. Talar M þar um fasteignina í [...] sem sína eign. Fyrir dómi gaf hann á því skýringar sem voru út af fyrir sig ekki ótrúverðugar og verða ekki dregnar sérstakar ályktanir af þeim bréfaskiptum við úrlausn málsins.

Hlutabréfin í E Inc. voru handhafahlutabréf. Ekkert hefur komið fram um að sóknaraðili hafi fengið bréfin í sínar vörzlur eftir að samkomulagið hafi verið gert hinn [...]. maí 2008. Í greinargerð sinni segir sóknaraðili að bréfin hafi lokazt inni í Landsbanka Luxembourg S.A. þegar hann hafi verið tekinn til gjaldþrotaskipta „í árslok 2008“. Varnaraðili byggir á því í greinargerð sinni að varnaraðili einn hafi gert kröfu til bús bankans um afhendingu bréfanna áður en kröfulýsingarfrestur hafi runnið út, og hefur ekkert verið lagt fram sem gefur tilefni til að draga það í efa.

Í málinu liggur bréf, dagsett 15. maí 2008 og undirritað af M, stílað á „Directors of E Inc.“, þar sem segir að sóknaraðili hafi eignazt handhafahlutabréfin og farið er fram á að gerðar séu nauðsynlegar ráðstafanir vegna þess. Þá liggur í málinu annað bréf, undirritað af M og stílað á Landsbanka Luxembourg S.A. í slitameðferð, þar sem farið er fram á að bréfin verði færð í umsjón tiltekins fyrirtækis.

Ekkert liggur fyrir um móttöku þessara bréfa eða um aðgerðir af hálfu viðtakenda þeirra. Þannig liggja ekki fyrir í málinu nein viðbrögð þeirra sem bréfin eru stíluð á, hvorki um að orðið hafi verið beiðni bréfritara né um að það verði ekki gert. Þá liggur ekkert fyrir um að þessum bréfum hafi sérstaklega verið fylgt eftir gagnvart viðtakendunum af hálfu M eða sóknaraðila. Á hinn bóginn liggur fyrir, samkvæmt bréfi sem liggur í málinu og telja verður ljóst að ritað hafi verið einhvern tíma eftir 10. marz 2010, að Landsbanki Luxembourg S.A. í slitameðferð hafði handhafabréfin þá í vörzlu sinni og taldi félagið til eigna M, þegar skiptastjóri leitaði eftir upplýsingum þar. Ekkert hefur komið fram í málinu sem bendir til þess að Landsbanki Luxembourg S.A. í slitameðferð eða stjórnendur E Inc. hafi talið að sóknaraðili væri orðinn eigandi handhafabréfanna.

Þegar á framanritað er horft þykir ekki hafa verið sýnt fram á að sóknaraðili hafi eignazt hlutabréfin í E Inc. þannig að gildi hafi gagnvart varnaraðila í máli þessu. Verður því við úrlausn þessa máls að miða við að bréfin hafi réttilega fallið til varnaraðila er bú M var tekið til gjaldþrotaskipta. Í samræmi við það verður kröfu um afhendingu þess hlutabréfs sem nú er í vörzlu þrotabúsins hafnað. Af þessari niðurstöðu leiðir að ekki verður fallizt á kröfu um viðurkenningu þess að sóknaraðili sé eigandi að öllum hlutum í félaginu E Inc. Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila 930.000 krónur í málskostnað. Gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

Af hálfu sóknaraðila fór Benedikt Ólafsson hrl. með málið.

Af hálfu varnaraðila fór Ingvar Þóroddsson hdl. með málið.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu sóknaraðila, K, um að viðurkennt verði að samkomulag um fjárskipti milli hennar og M, sem gert hafi verið [...]. maí 2008, verði lagt til grundvallar sem samkomulag um skilnaðarkjör, er vísað frá dómi.

Kröfum sóknaraðila um að viðurkennt verði að hún sé eigandi að öllum hlutum í félaginu E Inc. og um að hún skuli fá afhent úr hendi varnaraðila, þrotabús M, skírteini nr. 3 í félaginu E Inc., sem gefið var út 18. febrúar 2014, er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 930.000 krónur í málskostnað.