Hæstiréttur íslands

Mál nr. 488/1999


Lykilorð

  • Laun
  • Ráðningarsamningur
  • Kjarasamningur


Fimmtudaginn 6

 

Fimmtudaginn 6. apríl 2000.

Nr. 488/1999.

MMC Fisktækni hf.

(Gunnar Sturluson hrl.)

gegn

Jóni Valdimarssyni

(Einar Gautur Steingrímsson hdl.)

 

Laun. Ráðningarsamningur. Kjarasamningur.

Vélfræðingurinn J hóf störf hjá félaginu M 1990. Fóru launakjör hans eftir skriflegum ráðningarsamningi þar sem kveðið var á um að um vinnusambandið gilti rammakjarasamningur VÍ að því leyti sem samningurinn tæki ekki til. Í rammakjarasamningnum kom fram að hann hefði sama gildistíma og samningur milli L og VÍ og tæki sömu breytingum og hann. Í júní 1997 sagði J starfi sínu hjá M lausu. Lét hann af störfum í lok september og tók við lokagreiðslu launa án nokkurs fyrirvara. Dómur féll í Félagsdómi í maí 1998 í máli VÍ gegn L þar sem kveðið var á um að L væri skylt að hækka grunnlaun vélfræðinga í þjónustu sinni frá 1. apríl 1997 auk þess sem kveðið var á um yfirvinnugreiðslu fyrir hverja vakt. Höfðaði J mál þar sem hann krafðist umræddrar launahækkunar. Talið var að M hefði ekki sýnt fram á, að síðustu launagreiðslur til J hefðu falið í sér samkomulag um fullnaðaruppgjör í þeim skilningi, að hann hefði eftir starfslok sín hjá M afsalað sér rétti til frekari launagreiðslna, sem honum hefðu ella borið samkvæmt kjarasamningi. Engu skipti, þótt J hefði tekið við síðustu launagreiðslunni án nokkurs fyrirvara. Var því staðfest  niðurstaða héraðsdóms um að M skyldi greiða J sem svaraði launahækkuninni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 15. desember 1999. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi hefur ekki sýnt fram á, að síðustu launagreiðslur til stefnda hafi falið í sér samkomulag um fullnaðaruppgjör í þeim skilningi, að hann hafi eftir starfslok sín hjá áfrýjanda afsalað sér rétti til frekari launagreiðslna, sem honum hefðu ella borið samkvæmt kjarasamningi.

Í héraðsgreinargerð áfrýjanda var upphafstíma dráttarvaxta í kröfugerð stefnda ekki mótmælt sérstaklega, en slík andmæli verða ekki talin felast í sýknukröfu hans. Áfrýjandi hefur ekki leitt í ljós, að um þetta hafi verið fjallað við aðalmeðferð málsins í héraði. Kemur krafa áfrýjanda um annan upphafstíma dráttarvaxta því ekki til álita gegn mótmælum stefnda. 

Með þessum athugasemdum verður héraðsdómur staðfestur með skírskotun til forsendna hans.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, MMC Fisktækni hf., greiði stefnda, Jóni Valdimarssyni, 60.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. nóvember 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 19. október 1999 er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 22. febrúar 1999.

Stefnandi er Jón Valdimarsson, kt. 030258-6819, Hraunbæ 59, Reykjavík.

Stefnt er MMC-Fisktækni hf. kt. 440888-1359, Stangarhyl 6, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda félag verði dæmt til greiðslu skuldar að fjárhæð 452.285 kr. auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 28.261  kr. frá 16. apríl 1997 til 30. apríl 1997, af 67.996 kr. frá þeim degi til 16. maí 1997, af  91.041 kr. frá þeim degi til 01. júní 1997, af 130.467 kr. frá þeim degi til 16. júní 1997, af 158.827 kr. frá þeim degi til 30. júní 1997, af 198.561 kr. frá þeim degi til 15. júlí 1997, af 217.515 kr. frá þeim degi til 01. ágúst 1997, af 258.517 kr. frá þeim degi til 18. ágúst 1997, af 305.831 kr. frá þeim degi til 01. september 1997, af 332.756 kr. frá þeim degi til 16. september 1997, af 381.697 kr. frá þ.d. til 1. október 1997, af 448.587 kr. frá þ.d. til 1. desember 1997 og af 452.285 kr. frá þ.d. til greiðsludags. ­

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda samkvæmt málskostnaðarreikningi.

 

Málsatvik

Stefnandi, sem er vélfræðingur að mennt, hóf störf hjá stefnda á árinu 1990. Fóru launakjör hans eftir skriflegum ráðningarsamningi milli aðila. Var ráðningarsamningurinn samhljóða samningi Steinars Vilhjálmssonar og Hafþórs Svendsen, sem báðir störfuðu hjá stefnda, en samningar þeirra hafa verið lagðir fram í málinu.

Í 8. gr. samningsins er fjallað um launagreiðslur til stefnanda. Þar segir að grunnlaun skuli vera tiltekin krónutala fyrir hverja klukkustund í dagvinnu sem unnin er á verkstæði fyrirtækisins. Leggja skuli 15% álag á grunnlaun á alla útselda vinnu stefnanda. Fyrir yfirvinnu skuli greiða 80% álag á dagvinnu. Hækkanir skuli vera samkvæmt rammakjarasamningi Vélstjórafélags Íslands. Einnig segir í 14. gr. að um vinnusambandið gildi rammakjarasamningur Vélstjórafélags Íslands að því leyti sem samningurinn taki ekki til. Tilvitnaður rammakjarasamningur er nú nefndur ,,Rammasamningur fyrir vélfræðinga sem starfa utan samninga Vélstjórafélags Íslands.” Samkvæmt ákvæði 12.1 í rammasamningnum hefur hann sama gildistíma og samningur milli Landsvirkjunar og Vélstjórafélags Íslands og tekur sömu breytingum og hann.

Í lok júní 1997 sagði stefnandi starfi sínu lausu með þriggja mánaða uppsagnar­fresti. Lét hann síðan af störfum í lok september 1997. Framkvæmdastjóri stefnda ritaði stefnanda bréf 3. október 1997 þar sem óskað var eftir því að stefnandi undirritaði yfirlýsingu þess efnis að hann hefði ekki undir höndum neinar upplýsingar varðandi starf sitt hjá stefnda og að honum væri ljóst að honum væri með öllu óheimilt að nota í eigin þágu hvers konar upplýsingar sem fengnar hefðu verið hjá stefnda. Í bréfinu var enn fremur tilkynnt að hvorki hefðu verið greidd laun fyrir síðasta launatímabil, né eftirstöðvar orlofs, og yrðu þau ekki greidd fyrr en gengið hefði verið frá yfirlýsingunni. Í framhaldi af þessu geymslugreiddi stefndi síðustu launagreiðslur í Landsbanka Íslands, 214.940 krónur. Á fundi sem haldinn var á skrifstofu stefnda 26. október 1997 með lögmanni stefnda, stefnanda og tveimur öðrum starfsmönnum stefnda, ásamt Friðriki Hermannsyni, lögfræðingi Vélstjórafélags Íslands, varð að samkomulagi að greiða starfsmönnunum laun þau sem lögð hefðu verið inn á geymslureikning Landsbanka Íslands. Friðriki Hermannssyni var falið umboð til að taka við greiðslunni. Lögmaður stefnda sendi fyrirsvarsmanni stefnda ,,minnisblað” varðandi þennan fund, dags. 27. október 1997.

Dómur féll í Félagsdómi 19. maí 1998 í málinu nr. 3/1998: Vélstjórafélag Íslands gegn Landsvirkjun. Í dómsorðinu segir að Landsvirkjun sé skylt að hækka grunnlaun vélfræðinga í þjónustu sinni í 99.043 kr. frá 1. apríl 1997. Einnig sé Landsvirkjun skylt að greiða vélfræðingum í þjónustu sinni 17,28 mínútur í yfirvinnu fyrir hverja vakt eða 8 klst. dagvinnutímabil.

Ágreiningur máls þessa lýtur að því hvort stefnandi eigi rétt á þeim launahækkunum sem dómur Félagsdóms kveður á um og hvort fyrirvaralaus móttaka hans á launum fyrir síðasta launatímabil sitt hafi firrt hann rétti til þess að krefjast þessara launahækkana.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur, Steinar Vilhjálmsson, Starengi 14, Reykjavík, Jón Valdimarsson, Hraunbæ 59, Reykjavík, Vésteinn Marinósson, Kaldaseli 4, Reykjavík, Hafþóri Svendsen, Viðarrima 16, Reykjavík, Guðmundur Jón Matthíasson, Stararima 4, Reykjavík, Valgerður Jónsdóttir, Birkihlíð 20, Reykjavík, Friðrik Á. Hermannsson, Bleikjukvísl 8, Reykjavík og Jakob Ragnar Möller hrl., Flyðrugranda 6, Reykjavík.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi byggir kröfur sínar á því að hann eigi rétt á launahækkunum á tímabilinu 1. apríl 1997 til 31. september s.á. samkvæmt dómi Félagsdóms í málinu nr. 3/1998. Eins og þegar hafi komið fram segi í ráðningarsamningnum að launin skuli hækka í samræmi við rammakjarasamning Vélstjórafélags Íslands og jafnframt að sá samningur taki sömu breytingum og samningur Landsvirkjunar og Vélstjórafélags Íslands. Af þessu sé ljóst að niðurstaða Félagsdóms um kjör vélstjóra hjá Landsvirkjun hafi bein áhrif á laun stefnanda. Framangreindur dómur Félagsdóms sé endanlegur hvað varði túlkun á kjarasamningi Landsvirkjunar og Vélstjórafélags Íslands. Þar sem aðilar málsins hafi samið svo um að kauphækkanir skuli fara eftir rammasamningnum, þá sé stefndi við það bundinn og verði að hlíta þeirri hækkun sem dæmd hafi verið í félagsdómsmálinu nr. 3/1998.

Stefnandi hafi ekki gefið rétt sinn eftir á nokkurn hátt við starfslok hjá stefnda og   enginn starfslokasamningur hafi verið gerður. Auk þess hafi dómur ekki verið kveðinn upp í félagsdómsmálinu fyrr en rúmu hálfu ári eftir starfslok.

Stefnandi útlistar stefnukröfur sínar svo: Samkvæmt dómi Félagsdóms nr. 3/1998 skyldu grunnlaun hækka í 99.043 kr. eða um 13,15%. Einnig skyldu greiðast 17,28 mínútur í yfirvinnu fyrir hverja vakt eða 8 klst. dagvinnutímabil. Stefnandi kveður stefnukröfu vera reiknaða þannig út að laun stefnanda séu hækkuð um 13,15% auk þess sem bætt sé við 0,288 (17,28/60) yfirvinnutímum fyrir hvern unnin dag. Hækkunin hafi einnig áhrif á orlof, eftirvinnu og orlofsuppbót. Tímakaup stefnanda sé fjórskipt, eins og hér segi: Dagvinna 1 er vinna unnin á verkstæði stefnda, sbr. 8. gr. ráðningarsamnings. Dagvinna 2 er útseld vinna stefnanda, þ.e. dagvinna 1 að viðbættum 15%, sbr. 8. gr. Yfirvinna 1 er dagvinna 1 að viðbættum 80% sbr. 8. gr. Yfirvinna 2 er dagvinna 2 að viðbættum 80%, sbr. 8.gr.

Nánar er vísað til útreikninga Vélstjórafélags Íslands á stefnukröfu, en þeir liggja frammi í málinu.

Stefnandi byggir kröfur sínar á almennum reglum kröfu-, samninga- og vinnu­markaðsréttar um efndir og skuldbindingargildi ráðningarsamninga. Um réttaráhrif dóma Félagsdóms vísast til laga um stéttarfélög og vinnudeildur nr. 80/1938. Um orlof er vísað til orlofslaga nr. 30/1987. Um dráttarvaxtakröfuna er vísað til III. kafla laga nr. 25/1987. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við l. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafan um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 en stefnandi er ekki virðisaukaskattskyldur.

 

Málsástæður og lagarök stefnda

Sýknukrafa stefnda er á því byggð að lokauppgjör launa hafi farið fram. Stefnandi hafi tekið við því lokauppgjöri án þess að gera fyrirvara, hvort heldur sem verið hafi um niðurstöðu málaferla þeirra sem Vélstjórafélag Íslands stóð í á hendur Landsvirkjun eða annað.

Með fyrirvaralausri móttöku á lokauppgjöri launa eigi stefnandi ekki frekari rétt á hendur stefnda um greiðslur. Niðurstaða Félagsdóms í máli nr. 3/1998 breyti þar engu um. Hafi stefnandi ekki verið sáttur við launauppgjörið, og/eða viljað sjá hver niðurstaða dómsins yrði, hafi honum borið að gera fyrirvara við móttöku greiðslunnar. Þetta hafi hann ekki gert og geti ekki lagt ábyrgð á stefnda af þeim sökum, hann verði sjálfur að bera ábyrgð á því.

Stefnandi hafði látið af störfum hjá stefnda rösklega sjö og hálfum mánuði áður en niðurstaða Félagsdóms í málinu nr. 3/1998 lá fyrir og fengið greidd þau laun sem hann hafi átt inni samkvæmt ráðningarsamningi við stefnda. Niðurstaða Félagsdóms geti því ekki haft áhrif á laun þau, sem stefnandi átti rétt á frá stefnda, nema hann hefði gert um það fyrirvara, þegar uppgjör fór fram. Það hafi stefnandi ekki gert og eigi hann því engan frekari rétt á hendur stefnda um launagreiðslur.

Stefnandi hafi notið sérfræðiaðstoðar, þegar gengið hafi verið frá lokauppgjöri launanna við stefnda. Hann hafi vitað eða mátt vita af félagsdómsmálinu og hafi honum borið nauðsyn til að gera fyrirvara við lokauppgjörið, ef hann hefði talið að niðurstaða Félagsdóms ætti að hafa áhrif á launakröfur sínar. Verði stefnandi að bera hallann af því að það hafi ekki verið gert.

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna kröfuréttar.

Krafa stefnda um málskostnað er reist á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/199.

 

Niðurstaða

Með dómi Félagsdóms sem upp var kveðinn 19. maí 1998 í máli Vélstjórafélags Íslands gegn Landsvirkjun var kveðið svo á um að Landsvirkjun skyldi hækka grunnlaun vélfræðinga í þjónustu sinni í kr. 99.043 frá 1. apríl 1997. Einnig væri Landsvirkjun skylt að greiða vélfræðingum í þjónustu sinni 17,28 mínútur í yfirvinnu fyrir hverja vakt eða 8 klst. dagvinnutímabil.

Stefnandi er vélfræðingur að mennt. Ráðningarsamningur milli aðila málsins kvað á um að um vinnusambandið gilti rammakjarasamningur Vélstjórafélags Íslands að því leyti sem samningurinn tæki ekki til. Óumdeilt er að sá rammakjarasamningur er nú nefndur ,,Rammasamningur fyrir vélfræðinga sem starfa utan samninga Vélstjórafélags Íslands” og liggur hann frammi í málinu. Í þeim samningi, grein 12.1, kemur fram að samningurinn hafi sama gildistíma og samningur milli Landsvirkjunar og Vélstjórafélags Íslands og taki sömu breytingum og hann.

Þar sem um vinnusamband aðila giltu ákvæði ofangreinds rammakjarasamnings er ljóst að stefnda bar að hlíta þeim breytingum sem urðu á samningi milli Landsvirkjunar og Vélstjórafélags Íslands. Með ofangreindum dómi Félagsdóms var kveðið á um tilteknar breytingar á samningnum sem fólu í sér launahækkanir er tóku til þess tíma er stefnandi vann í þjónustu stefnda.

Óumdeilt er að stefnandi tók við þeim launum sem honum bar við lok starfstíma hans án nokkurs fyrirvara. Sú staðreynd getur þó ekki haggað þeim réttindum sem stefnanda voru tryggð með ofangreindum rammakjarasamningi. Því er það mat dómsins að þótt stefnandi hafi ekki gert fyrirvara um niðurstöðu Félagsdóms við móttöku launauppgjörs verði ekki talið að stefnandi hafi firrt sig rétti sínum til að krefjast þeirra launahækkana sem honum bar samkvæmt rammakjarasamningnum og ofangreindum dómi Félagsdóms,  sbr. og 7. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 Þá verður einhliða ,,minnisblað” lögmanns stefnda til framkvæmdastjóra stefnda ekki skilið svo að stefnandi hafi á nokkurn hátt fallið frá þeim rétti.  

Af framangreindu leiðir að fallist er á að stefnandi eigi rétt á launahækkunum á tímabilinu 1. apríl 1997 til 31. september 1997, samkvæmt ofangreindum dómi Félagsdóms. Stefnufjárhæð og útreikningi stefnukröfu hefur ekki verið mótmælt sérstaklega og ber þá samkvæmt framangreindu að fallast á stefnukröfu.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað að fjárhæð 160.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til skyldu lögmanns stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af þóknun sinni.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð:

Stefndi, MMC-Fisktækni hf., kt. 440888-1359, greiði stefnanda, Jóni Valdimarssyni, kt. 030258-6819, 452.285 kr. auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, af 28.261  kr. frá 16. apríl 1997 til 30. apríl 1997, af 67.996 kr. frá þeim degi til 16. maí 1997, af  91.041 kr. frá þeim degi til 01. júní 1997, af 130.467 kr. frá þeim degi til 16. júní 1997, af 158.827 kr. frá þeim degi til 30. júní 1997, af 198.561 kr. frá þeim degi til 15. júlí 1997, af 217.515 kr. frá þeim degi til 01. ágúst 1997, af 258.517 kr. frá þeim degi til 18. ágúst 1997, af 305.831 kr. frá þeim degi til 01. september 1997, af 332.756 kr. frá þeim degi til 16. september 1997, af 381.697 kr. frá þ.d. til 1. október 1997, af 448.587 kr. frá þ.d. til 1. desember 1997 og af 452.285 kr. frá þ.d. til greiðsludags. ­

Stefndi greiði stefnanda 160.000 krónur í málskostnað.