Hæstiréttur íslands
Mál nr. 145/2003
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Stjórnsýsla
- Áminning
- Meðalhóf
- Andmælaréttur
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 4. desember 2003. |
|
Nr. 145/2003. |
Íslenska ríkið (Óskar Thorarensen hrl.) gegn Halldóru Guðmundsdóttur (Hörður Felix Harðarson hrl.) og gagnsök |
Vinnusamningur. Stjórnsýsla. Áminning. Meðalhófsregla. Andmælaréttur. Miskabætur.
H starfaði sem sjúkaraliði á A, sem var hluti af Sjúkrahúsi Reykjavíkur og rekið af Reykjavíkurborg. Á árinu 2000 var Sjúkrahús Reykjavíkur sameinað ríkisspítölum og eftir það rekið af Í undir nafninu Landspítali háskólasjúkrahús. H var boðuð á fund með yfirmönnum sínum 31. maí 1997 sem hún mætti ekki á. Taldi H fundarefnið þess eðlis að ástæða væri fyrir hana að hafa fulltrúa stéttarfélags með sér á fundinn. Þar sem henni tókst ekki að ná sambandi við viðkomandi fulltrúa mætti hún ekki til fundarins en yfirmenn hennar samþykktu ekki að fresta honum. Í kjölfarið var henni veitt skrifleg áminning. Félagsmálaráðuneytið felldi áminninguna úr gildi með úrskurði 3. mars 2000 þar sem ekki hefði verið gætt meginreglna um málsmeðferð í stjórnsýslunni þegar hún var veitt. H höfðaði mál þetta til heimtu miska- og skaðabóta vegna ólögmætrar áminningar og vegna þess að henni hefði í kjölfarið verið mismunað við úthlutun aukavakta á vinnustað sínum. Þá krafðist hún greiðslu lögmannskostnaðar sem hún hefði orðið fyrir við málarekstur fyrir stjórnvöldum er hún freistaði þess að fá áminninguna fellda úr gildi. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms um að umrædd áminning hefði verið ólögmæt bæði að formi og efni. Einnig var það staðfest að H hefði fært fram fullnægjandi sönnur fyrir því að henni hafi í kjölfar áminningarinnar verið mismunað varðandi úthlutun aukavakta og að framkoma yfirmanna H gagnvart henni hafi falið í sér brot gegn persónu hennar. H þótti á hinn bóginn ekki hafa sýnt fram á fjártjón sitt vegna fyrrnefndrar mismununar og var Í því sýknað af kröfu hennar um skaðabætur vegna missis atvinnutekna. Í dómi Hæstaréttar voru H dæmdar 300.000 krónur í miskabætur en kröfu hennar um bætur vegna lögmannskostnaðar við málarekstur fyrir stjórnvöldum var hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Garðar Gíslason, Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Pétur Kr. Hafstein.
Héraðsdómi var áfrýjað 16. apríl 2003 og gagnáfrýjað 2. júlí sama ár. Aðaláfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti en til vara, að hún verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.
Gagnáfrýjandi krefst þess aðallega, að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 2.889.854 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. mars 2001 til 1. júlí sama ár en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst gagnáfrýjandi staðfestingar hins áfrýjaða dóms. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt skattframtöl sín 1998 til 2003.
Á það er fallist, að gagnáfrýjandi hafi fært nægar sönnur að því, að markvisst hafi verið framhjá henni gengið við kvaðningu sjúkraliða á aukavaktir í Arnarholti frá síðari hluta árs 1997 til ársloka 1999. Fram er komið, að hún hafi bætt sér upp tekjutap af þessum sökum með því að taka að sér fleiri næturvaktir en ella og vinna jafnframt í eldhúsi og við ræstingar. Hefur gagnáfrýjandi ekki sýnt fram á það með framlagningu gagna, að tekjur hennar á þessum tíma hafi orðið minni en hún hefði að öðru jöfnu mátt búast við. Með þessari athugasemd og að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um annað en fjárhæð miskabóta, bótakröfu vegna lögmannskostnaðar og málskostnað.
Miskabætur eru hæfilega ákveðnar 300.000 krónur og skulu þær bera dráttarvexti, eins og héraðsdómur ákvað og nánar greinir í dómsorði.
Fyrir liggur, að Sjúkraliðafélag Íslands hefur greitt lögmannskostnað gagnáfrýjanda á stjórnsýslustigi. Ekkert er fram komið um það, að félagið hafi krafið eða muni krefja gagnáfrýjanda um greiðslu þess kostnaðar. Hún hefur því ekki orðið fyrir tjóni við það að leita réttar síns fyrir stjórnvöldum, áður en til þessa dómsmáls kom. Sjúkraliðafélag Íslands gat ekki átt skaðabótakröfu á hendur aðaláfrýjanda og því er ekki um að ræða framsal á slíkri kröfu. Ber því að sýkna aðaláfrýjanda af kröfu gagnáfrýjanda um bætur vegna lögmannskostnaðar.
Rétt er, að aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Aðaláfrýjandi, íslenska ríkið, greiði gagnáfrýjanda, Halldóru Guðmundsdóttur, 300.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 12. mars 2001 til 1. júlí sama ár en 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Aðaláfrýjandi greiði gagnáfrýjanda samtals 600.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. nóvember 2002.
Mál þetta var höfðað 12. nóvember 2001, þingfest 15. sama mánaðar og dómtekið 26. september 2002.
Stefnandi er Halldóra Guðmundsdóttir, kt. 230947-4739, Snorrabraut 36, Reykjavík.
Stefndi er Landspítali háskólasjúkrahús, Rauðarárstíg 31, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 2.889.854 krónur, auk dráttarvaxta, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 12. mars 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst aðallega sýknu af kröfum stefnanda og að stefnda verði dæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda en til vara að stefnukrafa verði lækkuð verulega og málskostnaður felldur niður.
Málsatvik og helstu ágreiningsefni
Stefnandi er sjúkraliði á Arnarholti, heimili fyrir geðfatlaða. Hún er félagsmaður í Sjúkraliðafélagi Íslands (SLFÍ) og er trúnaðarmaður félagsins á vinnustaðnum. Laun hennar fara eftir gildandi kjarasamningum stéttarfélagsins. Er þau málsatvik áttu sér stað, sem eru aðdragandi þessarar málshöfðunar, var Arnarholt rekið af Sjúkrahúsi Reykjavíkur (SHR). Sjúkrahúsið var í eigu Reykjavíkurborgar og stefnandi því starfsmaður borgarinnar. Með reglugerð heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins um sameiningu heilbrigðisstofnana, frá 2. mars 2000, var SHR sameinað rekstri ríkisspítala undir nafni stefnda. Við sameininguna tók stefndi við öllum réttindum og skyldum SHR. Í dóminum er orðið stefndi notað yfir bæði Sjúkrahús Reykjavíkur og Landspítala háskólasjúkrahús.
Laugardaginn 31. maí 1997 er stefnandi var við störf var hún boðuð til fundar kl. 16.00 þann dag með Önnu Jónu Víðisdóttur hjúkrunardeildarforstjóra að Arnarholti og Guðnýju Önnu Arnþórsdóttur hjúkrunarframkvæmdastjóra geðsviðs stefnda. Stefnandi telur ástæðuna hafa verið væringar vegna fréttaflutnings um, að grunur léki á því að tveir hjúkrunarfræðingar að Arnarholti hefðu rangfært vinnuskýrslur og þannig aukið verulega við laun sín. Fundarboðendur hafi af misskilningi talið stefnanda eiga þátt í því að til fréttaflutningsins kom. Umræddir fundarboðendur báru hins vegar fyrir dómi að ástæðan fyrir því að stefnandi hafi verið boðuð til fundarins hafi verið deilur milli stefnanda og samstarfskonu hennar.
Stefnandi taldi rétt að fá fulltrúa stéttarfélags síns með á fundinn og ritaði fundarboðendum bréf þess efnis. Hún reyndi án árangurs að ná í Kristínu Guðmundsdóttur, formann SLFÍ af því tilefni. Stefnandi óskaði eftir að fundinum yrði frestað fram yfir helgina. Beiðninni var synjað og neitaði stefnandi þá skriflega að sækja fundinn á umræddum tíma.
Halldóra fékk afhent áminningarbréf þennan dag undirritað af framangreindum yfirmönnum hennar. Efni bréfsins er svohljóðandi: „Hér með er þér gefin skrifleg áminning vegna þess, að þú neitaðir að mæta í viðtal við hjúkrunardeildarstjóra og hjúkrunarframkvæmdastjóra geðsviðs í dag, 31. maí 1997. Jafnframt er minnt á fyrri munnlegar áminningar sem þér hafa verið veittar."
Lögmaður stefnanda ritaði bréf til SHR, dags. 3. júní 1997, þar sem þess var krafist að áminningin yrði dregin til baka. Forstjóri SHR hafnaði beiðninni með bréfi, dagsettu 25. júní 1997. Kvartað var undan áminningunni í erindi til umboðsmanns Alþingis, dagsettu 2. nóvember 1997. Í kjölfarið áttu sér stað nokkur bréfaskipti milli beggja málsaðila og umboðsmanns Alþingis.
Stefnandi taldi yfirmenn sína takmarka við hana yfirvinnu umfram aðra starfsmenn. Stefnandi hefur lagt fram fundargerð frá samtalsfundi deildar 34 frá 16. mars 1998, undirritaða af Sigrúnu Kristjánsdóttur. Þar er bókuð spurning stefnanda um það af hverju hún væri sniðgengin hvað varðar eftirvinnu og það svar Guðnýjar Önnu Arnþórsdóttur að hún væri ekki æskileg í mikla yfirvinnu vegna málaferla við stofnunina".
Lögmaður stefnanda sendi SHR sérstakt erindi vegna þessa, dags. 27. apríl 1998, þar sem þess var krafist að stefnandi og eiginmaður hennar yrðu þegar í stað látin njóta jafnræðis á við aðra starfsmenn hvað varðaði rétt til yfirvinnu, enda hafi ákvörðun um takmörkunina verið tekin á algjörlega ómálefnalegum forsendum. Í svarbréfi forstjóra SHR frá 29. maí 1998 var því mótmælt að stefnandi hafi verið sniðgengin hvað yfirvinnu varðaði. Aðallega var það rökstutt þannig að samanburður á yfirvinnu stefnanda frá fyrstu mánuðum ársins 1997 annars vegar og 1998 hins vegar sýndi ekki mismun á yfirvinnustundum hennar. Stefnandi sættir sig ekki við þessi svör og sendi lögmaður stefnanda sérstaka viðbótarkvörtun til umboðsmanns Alþingis vegna þessa 25. ágúst 1998.
Umboðsmaður Alþingis komst að þeirri niðurstöðu að félagsmálaráðuneytið ætti úrskurðarvald um kvörtunarefni stefnanda samkvæmt, 103. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998, sbr. áður 119. gr. laga nr. 8/1986. Með hliðsjón 3. mgr. 6. gr. laga nr. 85/1997 taldi umboðsmaður rétt að stefnandi kærði áminninguna umdeildu til félagsmálaráðuneytisins og að frekari umfjöllun hans yrði að bíða þar til afstaða ráðuneytisins lægi fyrir. Lögmanni stefnanda var tilkynnt um þetta með bréfi dagsettu 22. júlí 1999.
Í kjölfar umrædds bréfs umboðsmanns kærði stefnandi áminninguna og takmörkun á yfirvinnu til félagsmálaráðuneytisins, með bréfi, dagsettu 10. ágúst 1999. Ráðuneytið kvað upp úrskurð í málinu 3. maí 2000 og féllst á röksemdir stefnanda fyrir því að áminningin hefði verið ólögmæt. Að því er varðaði takmörkun á yfirvinnu stefnanda og þar með brot gegn jafnræðisreglu stjórnsýsluréttar taldi ráðuneytið að ekki yrði með skýrum hætti ráðið af málsgögnum að jafnræðisreglan hefði verið brotin. Úrskurðarorð ráðuneytisins voru svohljóðandi:
„Ekki var gætt meginreglna um málsmeðferð í stjórnsýslunni er tekin var ákvörðun hjá Sjúkrahúsi Reykjavíkur um að veita Halldóru Guðmundsdóttur skriflega áminningu hinn 31. maí 1997 og er áminningin felld úr gildi.
Ekki verður ráðið af gögnum málsins að teknar hafi verið ákvarðanir um takmörkun á yfirvinnu kæranda sem brutu gegn jafnræðisreglu stjórnsýslunnar."
Lögmaður stefnandi sendi stefnda kröfubréf dags. 12. febrúar 2001 Bréfinu fylgdi úrskurður félagsmálaráðuneytisins og einnig yfirlýsing 25 samstarfsmanna stefnanda þess efnis að stefnandi hefði verið sniðgengin við skiptingu yfirvinnu á vinnustað allt frá því í maí 1997 til ársloka 1999. Þau hafi orðið vitni af því að á þessu tímabili hafi frekar verið látið vanta starfsfólk við aðhlynningu en að kalla stefnanda til. Þá fylgdi bréfinu yfirlýsing aðaltrúnaðarmanna, formanns og framkvæmdastjóra SLFÍ, þar sem lýst var fundi 28. maí 1998 vegna yfirvinnumálsins og rakin ummæli hjúkrunarframkvæmdastjóra SHR við aðaltrúnaðarmann SLFÍ um hvort ekki væri hægt að víkja trúnaðarmönnum úr starfi vegna vanhæfni en þessi orð hafi fallið í tengslum við umræðu um málefni stefnanda. Loks fylgdi bréfinu yfirlýsing stefnanda og átta samstarfsmanna hennar um að þeir heimili lögmanni stefnanda að fá upplýsingar hjá stefnda um greidda yfirvinnu þeirra á tímabilinu 1. janúar 1997 til 1. janúar 2000 vegna starfa hjá stofnuninni.
Stefnukrafan samanstendur af þremur kröfuliðum. Í fyrsta lagi krefst stefnandi 400.000 króna miskabóta, í öðru lagi krefst hún skaðabóta að fjárhæð 2.307.088 krónur vegna yfirvinnutaps og brota gegn jafnræðisreglu og loks krefst hún þess að fá bættan lögmannskostnað að fjárhæð 182.766 krónur vegna aðstoðar við að fá framangreinda áminningu fellda úr gildi.
Málsástæður og lagarök aðila
Stefnandi byggir á því að upphaf máls þessa megi rekja til fréttar 17. apríl 1997, í fréttaþættinum 19-20 á Stöð 2, þess efnis að mikil deila hefði staðið um rekstur Arnarholts og lokanir deilda. Grunur léki á því að tveir hjúkrunarfræðingar hefðu stundað að rangfæra vinnuskýrslur og þannig aukið verulega við laun sín. Fréttin hafi vakið væringar meðal starfsmanna og orðið tilefni sérstakrar rannsóknar löggiltra endurskoðenda. Niðurstaða endurskoðenda hafi hvorki leitt í ljós vísvitandi rangfærslur né svik af hálfu starfsmanna, en gerðar hafi verið athugasemdir við vinnutímaskráningu, innra eftirlit o. fl. á vinnustaðnum.
Stefnandi kveður neitun stefnanda um að koma til fundar með yfirmönnum sínum laugardaginn 31. maí 1997 hafa verið í samræmi við ráðleggingar SLFÍ til trúnaðarmanna um að sækja ekki fundi einir með yfirmönnum, ef fundartilefni tengdist framgöngu þeirra í starfi. Þegar í ljós hafi komið að ekki næðist til formanns SLFÍ hafi stefnandi óskað eftir því að fundinum yrði frestað fram yfir helgina. Það hafi leitt til þess að henni hafi fyrirvaralaust og í votta viðurvist verið afhent skrifleg áminning.
Stefnandi hafi strax lagt mikla áherslu á að fá áminningunni hnekkt, bæði af efnisástæðum og eins vegna þess hvernig að henni var staðið.
Stefnandi kveðst krefjast miskabóta að fjárhæð 400.000 krónur vegna áminningarinnar frá 31. maí 1997. Því er haldið fram að ólögmæti áminningarinnar sé augljóst, bæði að því er varðaði efni hennar og málsmeðferð. Um þetta liggi fyrir úrskurður félagsmálaráðuneytisins frá 3. maí 2000 þar sem áminningin hafi verið felld úr gildi á grundvelli sjónarmiða, sem stefnandi hafi haldið fram.
Um rétt til miskabóta vísast til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Stefnandi telur áminninguna hafa falið í sér ólögmæta meingerð gegn persónu hennar. Af hálfu stefnanda er bent á að einstaklingar verji drjúgum tíma ævi sinnar í vinnunni og það varði þá afar miklu að líða vel þar. Atvinnufrelsi sé sérstaklega varið í stjórnskipunarlögum nr. 33/1944, sbr. 75. gr. og fjölmörg lagaákvæði hafi þann tilgang að stuðla að og tryggja velferð starfsmanna og réttaröryggi þeirra. Sem dæmi má nefna ákvæði laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938 um hlutverk trúnaðarmanna. Stefnandi hafi verið trúnaðarmaður og notið sérstakrar verndar, en í 11. gr. laganna segi að atvinnurekendum sé óheimilt að láta trúnaðarmenn gjalda þess á nokkurn hátt að stéttarfélag þeirra hafi falið þeim trúnaðarstörf. Stefnandi telur að með áminningunni hafi verið brotið gegn ákvæðinu og henni hafi verið gert illmögulegt að njóta sín í vinnunni í framhaldi. Þá hafi tímasetning áminningarinnar var einstaklega óheppileg. Afar þungbært hafi verið fyrir stefnanda að vera veitt áminning í tengslum við væringar sem hún hafi enga sök átti á og þetta hafi fyrirsvarsmönnum stefnda mátt vera ljóst. Í áminningarbréfinu hafi til viðbótar verið vegið gróflega að starfsheiðri stefnanda með því að hafa uppi tilhæfulausar fullyrðingar um meintar fyrri munnlegar áminningar. Tilgreind áminningarástæða sé fráleit og ekkert raunverulegt áminningartilefni fyrir hendi, eins og lýst sé í úrskurði félagsmálaráðuneytis.
Stefnandi telur málsmeðferðarreglur stjórnsýsluréttarins hafa verið þverbrotnar með móðgandi hætti gagnvart stefnanda þegar áminningin hafi verið veitt. Það að boða samdægurs til fundar á laugardegi tíðkist almennt ekki í stjórnsýslunni. Órökstudd synjun á rökstuddri beiðni stefnanda um frestun fundar fram yfir yfirstandandi helgi, þar til hún gæti haft fulltrúa stéttarfélags síns með sér sér til halds og trausts hafi verið sérkennileg og móðgandi fyrir stefnanda, auk þess sem henni hafi ekki verið veittur neinn andmælaréttur. Brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga, meðalhófsreglu 12. gr. sömu laga og andmælarétti samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga. Allt séu þetta meginreglur í stjórnsýslurétti.
Fyrirsvarsmönnum stefnanda hafi alla tíð verið vel kunnugt um að áminningin lagðist þungt á stefnanda. Hún hafi mætt afar ómálefnalegri og móðgandi mótspyrnu af hálfu fyrirsvarsmanna stefnda þegar hún hafi leitað réttar síns. Eftir að úrskurður ráðuneytisins hafi fallið stefnanda í vil hafi fyrirsvarsmenn stefnda ekki beðið hana afsökunar og hófstilltum kröfum lögmanns hennar ekki verið svarað.
Stefnandi kveðst krefjast 2.307.088 króna vegna óréttmæts yfirvinnutaps. Hún fullyrðir að eftir að henni hafi verið veitt umrædd áminning í maílok 1997 hafi hún ítrekað verið sniðgengin um yfirvinnu umfram samstarfsmenn hennar. Aðallega sé um að ræða 12 klst. aukavaktir en hver vakt reiknist sem 15,6 klst. yfirvinna. Þessum aukavöktum sé jafnan skipt jafnt milli sjúkraliða á vinnustaðnum. Um þetta vísast til áðurnefndrar fundargerðar og yfirlýsingar fjölmargra samstarfsmanna stefnanda. Stefnandi telur einsýnt, að með því að sniðganga hana um yfirvinnu í tvö og hálft ár, hafi stefndi valdið henni fjártjóni með ólögmætum hætti, en samkvæmt jafnræðisreglu 11. gr. stjórnsýslulaga beri stjórnvöldum að gæta samræmis og jafnræðis í stjórnsýslunni. Það hafi ekki réttlætt ákvörðun um misbeitingu að hún hafi leitað til þar til bærra yfirvalda með kröfu um að áminningin yrði felld úr gildi.
Því er haldið fram af hálfu stefnanda að yfirvinnutakmörkunin hafi staðið yfir frá júnílokum 1997 allt til ársloka 1999, þ.e. í 30 mánuði. Raunhæft sé að ætla að ef stefnandi hefði unnið sér inn að meðaltali 76.902,92 krónur í hverjum þessara mánaða eða 2.307.088 krónur í brúttótekjur á umræddu tímabili, eins og þessi kröfuliður stefnanda miðist við. Forsendur útreikningsins eru að stefnandi hafi verið sniðgengin um að meðaltali 3,5 tólf klst. aukavaktir á mánuði. Hver aukavakt greiðist með 15,6 klst. yfirvinnukaupi, en yfirvinnukaup stefnanda sé nú 1246 krónur fyrir hverja klst. Þar við bætast 13,04% orlofslaun. Stefnandi hafi orðið af þessum tekjum vegna ólögmætrar háttsemi stefnda og beri stefnda að greiða tjón hennar vegna þess með vísan til almennu skaðabótareglunnar.
Stefnandi kveðst krefja stefnda um 182.766 krónur vegna lögmannskostnaðar. Á því er byggt að stefnanda hafi verið brýn þörf á að leita aðstoðar lögmanns til að fá umræddri áminningu hnekkt af þar til bærum aðilum. Lögmenn hennar hafi þurft að leggja út í töluverða vinnu til að fá hnekkt því ólögmæta ástandi, sem áminningin hafi haft í för með sér fyrir hana. Lögmannskostnaður stefnanda við að fá áminninguna fellda úr gildi hafi verið alls 182.766 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og hafi verið reiknaður á grundvelli tímaskýrslna og tímagjalds. Stéttarfélag stefnanda hafi greitt kostnaðinn samkvæmt reikningum Lögmanna Mörkinni 1 sf., en samkvæmt yfirlýsingu stefnanda og stéttarfélagsins hafi stefnandi forræði á að krefja stefnda um bætur sem nemi kostnaðinum. Um rétt til bótanna er vísað til almennu skaðabótareglunnar og meginreglu 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefndi byggir á því að heimilt hafi verið að veita áminningu þá sem mál þetta grundvallist á og að áminningin hafi verið fyllilega lögmæt að efni og formi. Í því sambandi skipti ekki máli þótt félagsmálaráðuneytið hafi ógilt hana. Stefndi geti komið að öllum athugasemdum við áminninguna fyrir dómi. Úrskurður félagsmálaráðuneytis taki aðeins til forms áminningar en efnisþáttur hennar hafi ekki fengið umfjöllun hjá stjórnvöldum. Stefndi telur dómstóla bæra til að fjalla bæði um form og efnishlið áminningarinnar. Þegar stefnandi hafi kært áminninguna til félagsmálaráðuneytisins hafi Sjúkrahús Reykjavíkur ekki verið orðin stofnun íslenska ríkisins. Íslenska ríkinu hafi ekki verið tilkynnt um kæruna og ekki gefið færi á að koma að sjónarmiðum sínum. Reykjavíkurborg hafi ekki haldið uppi vörnum í málinu og því úrskurður félagsmálaráðuneytisins kveðinn upp án þess að sjónarmið kærða til kærunnar kæmu fram.
Stefndi telur að þeim Önnu Jónu Víðisdóttur deildarstjóra og Guðnýju Önnu Arnþórsdóttur hjúkrunarframkvæmdastjóra hafi verið heimilt að kalla stefnanda til fundar á starfsstöð 31. maí 1997. Stefnanda hafi verið boðið að taka sjúkraliða eða annan starfsmann með sér en hún neitað að mæta á fund með þeim nema í viðurvist fulltrúa Sjúkraliðafélags Íslands. Synjun stefnanda á að mæta til fundar án fulltrúa frá stéttarfélagi hafi verið ólögmæt og brotið í bága við starfsskyldur stefnanda, þ.m.t. hlýðniskyldu. Stefnandi hafi með framferði sínu brotið gegn fyrirmælum yfirmanns, en stjórnunarréttur vinnuveitanda sé grundvallarregla í vinnurétti. Áminningin hafi verið veitt af réttum aðila sem hafi haft til þess stöðuumboð. Stefndi mótmælir því að stjórnsýslulög eigi við í þessu máli, hvort heldur um áminninguna eða skipulag vinnu á stofnuninni. Reglur stjórnsýsluréttar taki ekki til vinnuréttarsambands milli launþega og vinnuveitanda. Ákvarðanir er lúti að innra skipulagi stofnunar teljist ekki stjórnvaldsákvarðanir.
Því er mótmælt að annamarkar hafi verið á áminningunni og að áminningin sé brot á 11., 12. eða 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Stefndi telji málið þannig vaxið að óþarfi hafi verið að gefa stefnanda frekari kost á að tjá sig um málið, enda hafði hún afhent bréf áður en áminningin hafi verið veitt. Því er mótmælt að áminningin hafi verið ólögmæt og ekki uppfyllt skýrleikakröfur.
Verði niðurstaðan sú, að annmarkar verði taldir vera á áminningunni, geti slíkt ekki leitt til bótaskyldu stefnda. Efni áminningar hafi verið afmarkað og takmarkað við tiltekinn atburð.
Því er mótmælt að yfirmenn stefnda hafi takmarkað yfirvinnu stefnanda umfram aðra starfsmenn. Mótmælt er einhliða bókun frá samstarfsfundi á deild 34. Guðný Anna Arnþórsdóttir hafi ekki undirritað bókunina og hafi upplýst að þar hafi ekki verið haft rétt eftir henni. Þá er fullyrðingum í yfirlýsingu samstarfsmanna stefnanda mótmælt sem röngum. Ekki verði séð á hvaða forsendum hlutaðeigandi starfsmönnum hafi verið mögulegt að meta efnisatriði þau sem yfirlýsing þeirra fjalli um og á hvern hátt sú afstaða sé fengin. Sumir starfsmannanna hafi starfað á öðrum deildum og ekki getað verið kunnugt um fyrirkomulag yfirvinnu á deild þeirri sem stefnandi starfaði á. Af framlögðum listum um yfirvinnu allra starfsmanna að Arnarholti árin 1995-2000 verði sú ályktun dregin að fullyrðingar stefnanda eigi ekki við rök að styðjast. Sérstaklega er bent á, að yfirvinna stefnanda hafi aukist seinni hluta ársins 1997 borið saman við fyrri hluta ársins.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að skilyrði skaðabóta séu engan veginn til staðar. Stefndi hafi hvorki valdið stefnanda tjóni né fellt á sig bótaábyrgð og er öllum kröfum stefnanda mótmælt. Skilyrðum skaðabótaréttar fyrir skaðabótaskyldu sé ekki fullnægt, hvorki samkvæmt almennu skaðabótareglunni, ákvæðum skaðabótalaga nr. 50/1993 né öðrum bótareglum. Stefnandi hafi sönnunarbyrði fyrir öllu sem skaðabótakröfu hennar viðkomi. Hún hafi ekki sýnt fram á sök stefnda, orsakatengsl eða að hún hafi orðið fyrir tjóni.
Stefndi krefst sýknu að kröfu stefnanda um greiðslu miskabóta og telur hvorki skilyrði vera til staðar til að dæma stefnanda miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 né samkvæmt öðrum réttarheimildum, enda saknæmisskilyrði ekki til staðar. Með engu móti sé hægt að segja að í áminningunni hafi falist ólögmæt meingerð gegn persónu stefnanda. Úrskurður félagsmálaráðuneytisins hafi eingöngu tekið til formhliðar áminningar en ekkert vikið að efnishlið hennar. Áminningin hafi verið fullkomlega lögmæt að mati stefnda. Áminningin hafi aðeins tekið til þeirrar háttsemi stefnanda að synja lögmætum fyrirmælum yfirmanns að mæta til fundar og efni hennar því afmarkað. Því er mótmælt að ekkert áminningartilefni hafi verið til staðar. Stefndi telur vandséð hvernig stefnandi gat talið fréttaflutning fjölmiðla tengjast starfi hennar sem trúnaðarmanns og á hvern hátt ráðleggingar stéttarfélags til trúnaðarmanna gætu tekið til þessa atviks. Stefndi telur stefnanda með röngum og órökstuddum hætti bera fyrir sig störf sín sem trúnaðarmanns og mótmælir stefndi þeirri málsástæðu hennar.
Mótmælt er fullyrðingu stefnanda þess efnis að hún hafi verið lögð í einelti af fyrirsvarsmönnum stefnda. Þá er mótmælt að reglur stjórnsýsluréttar nái til þess tilviks sem um sé deilt í þessu máli. Sérstaklega er mótmælt að brotið hafi verið gegn jafnræðisreglu 11. gr., meðalhófsreglu 12. gr. eða andmælarétti samkvæmt 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá er mótmælt að brotið hafi verið gegn 11. gr. laga nr. 80/1938.
Áréttað er að stefnandi hafi ekki orðið fyrir neinum tjóni enda áminning sprottin af eigin ákvörðun stefnanda um að fylgja ekki fyrirmælum yfirmanna sinna. Stefnandi hafi fengið umrædda áminningu endurskoðaða og fellda úr gildi. Fráleitt hafi stofnast skaðabótaskylda við það að félagsmálaráðuneytið komst að þeirri niðurstöðu að áminningin hefði verið ólögmæt vegna formsatriða, hvað þá gagnvart aðila sem ekki hafi tekið ákvörðunina og ekki verið aðili að framangreindu kærumáli. Því er mótmælt að tímasetning áminningar hafi verið óheppileg vegna opinberrar umræðu og bent á að í umræddri frétt Stöðvar 2 hafi verið rætt um tvo hjúkrunarfræðinga en stefnandi sé sjúkraliði.
Kröfu vegna meints yfirvinnutaps er alfarið mótmælt af hálfu stefnda. Stefndi telur hvorki stefnanda né aðra starfsmenn stefnda eiga sérstakan rétt til yfirvinnu eða aukavakta hjá stofnuninni og starfsmenn eigi í reynd aðeins rétt á að inna vinnuframlag af hendi sem uppfylli starfshlutfall sem hlutaðeigendur séu ráðnir til. Það sé í samræmi við grundvallarsjónarmið í vinnurétti. Aðalatriði hér sé að vinnuveitandi stýri starfsemi á grundvelli framangreinds stjórnunarréttar. Öllum fullyrðingum og staðhæfingum stefnanda um að hún hafi verið sniðgengin um yfirvinnu umfram aðra starfsmenn er mótmælt sem röngum og órökstuddum, en um það hafi hún alla sönnunarbyrði.
Af framlögðu yfirliti um yfirvinnu starfsmanna verði ekki annað ráðið en að stefnandi hafi að fullu og öllu leyti setið við sama borð og aðrir starfsmenn. Reyndar hafi komið fyrir að ekki hafi verið hægt að ná til stefnanda í síma þar sem hann hafi verið lokaður. Þá er forsendum og grundvelli útreiknings stefnufjárhæðar mótmælt og hann talinn rangur, óraunhæfur og órökstuddur. Ósannað sé því að stefndi hafi valdið stefnanda tjóni.
Stefndi telur, að hvorki séu til staðar forsendur til að dæma stefnanda bætur vegna lögmannskostnaðar úr hendi stefnda né hafi slíkt lagastoð. Málskostnaður sé aldrei úrskurðaður í stjórnsýslumálum nema til þess sé skýr lagaheimild. Krafa samkvæmt þessum lið lúti að greiðslu lögmannsþóknunar vegna meðferðar stjórnsýslumáls. Á stjórnvöldum hvíli leiðbeiningarskylda og allar formkröfur hvað varðar athugasemdir borgaranna séu einfaldari í stjórnsýslu en fyrir dómstólum. Ekki eigi því sömu rök um kostnað af stjórnsýslumáli og við rekstur dómsmáls.
Stefndi telur stefnanda ekki hafa orðið fyrir neinu tjóni þar sem hún hafi ekki innt umræddan kostnað af hendi, heldur stéttarfélag hennar. Það sé eitt af meginhlutverkum stéttarfélaga að annast um og gæta réttinda félagsmanna og veita í því sambandi lögfræðilega aðstoð. Sýknukrafa grundvallast því m.a. á aðildarskorti, þ.e. að krafan sé höfð uppi af röngum aðila, sbr. 16. gr. 2. mgr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Sérstök athygli sé vakin á misræmi á milli kröfu samkvæmt þessum lið og kröfu um greiðslu lögmannskostnaðar samkvæmt kröfubréfi lögmanns stefnanda. Virðist lögmannskostnaður hafa hækkað verulega og það eftir að formlegri meðferð máls á stjórnsýslustigi lauk. Telja verði að framlagning frumrits reiknings sé skilyrði sönnunar fyrir fjárhæð og því sé yfirlýsing lögmanns stefnanda um vinnuframlag ófullnægjandi sönnunargagn fyrir þessum kostnaði. Mótmælt er tilvísun stefnanda til meginreglu 130. gr. laga 91/1991 til rökstuðnings lögmannsþóknunar skv. þessum lið.
Vegna varakröfu er vísað til sömu sjónarmiða og fyrir aðalkröfu. Stefndi telur miskabótakröfu allt of háa. Í kröfugerð stefnanda felist að hún telji sig eiga rétt á að vera meðal efstu starfsmanna á lista vegna yfirvinnu og er því mótmælt sem fráleitu.
Niðurstaða
Atvik þau sem eru grundvöllur málshöfðunarinnar áttu sér stað í tíð eldri sveitarstjórnarlaga nr. 8/1986. Í 73. gr. laganna sagði að starfsmenn við stjórnsýslu sveitarfélaga hefðu réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en um starfskjör annarra færi eftir kjarasamningum. Stefnandi starfaði sem sjúkraliði hjá Arnarholti þegar áminningin var veitt. Arnarholt var á þeim tíma sem hér um ræðir starfrækt á vegum Sjúkrahúss Reykjavíkur. Líta verður á stofnunina sem þjónustustofnun og stefnandi starfaði þar ekki við stjórnsýslu. Ákvæði laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 tóku því ekki til stefnanda. Ekki verður því litið á áminningu þá sem stefnanda var veitt sem áminningu í skilningi 21. gr. starfsmannalaga.
Stefnandi var félagi í Sjúkraliðafélagi Íslands, sem er eitt aðildarfélaga að Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja. Stéttarfélagið starfar samkvæmt lögum um kjarasamning opinberra starfsmanna nr. 94/1986. Kjör stefnanda miðuðust því við kjarasamning sem gerður var á grundvelli laga um kjarasamning opinberra starfsmanna. Sem fyrr segir var Arnarholt hluti af Sjúkrahúsi Reykjavíkur sem var þjónustustofnun í eigu Reykjavíkurborgar og undir hennar stjórn. Gera verður þá kröfu til yfirmanna slíkrar opinberrar stofnunar að þeir gæti almennra stjórnsýslureglna í samskiptum sínum við starfsmenn stofnananna, sérstaklega þegar um er að ræða ákvarðanir sem hafa þýðingu að lögum og ætlað er að hafa íþyngjandi áhrif.
Í áminningu þeirri sem hér um ræðir var hvorki vísað til lagaákvæða né almennra eða sértækra reglna. Þá var þess í engu getið hver réttaráhrif áminningin ætti að hafa. Sjúkrahúsi Reykjavíkur gafst tækifæri til að upplýsa um réttaráhrif áminningarinnar eftir að lögmaður stefnanda hafði óskað eftir því bréflega að áminningin yrði dregin til baka. Synjun forstjóra Sjúkrahúss Reykjavíkur í bréfi dagsettu 25. júní 1997, á að draga áminninguna til baka gaf stefnanda fulla ástæðu til að ætla að áminningin hefði verulega íþyngjandi áhrif fyrir hana. Stefnandi hefur ekki síðar fengið neinar upplýsingar um réttaráhrif áminningarinnar og undir rekstri málsins var ekki gerð tilraun til að upplýsa um réttaráhrifin.
Samkvæmt framansögðu þykir umrædd áminning hafa verið þess eðlis að starfsmönnum stefnda hafi borið að fara að stjórnsýslulögum nr. 37/1993 við undirbúning og veitingu áminningarinnar. Aðilum ber ekki saman um tildrög þess að tveir yfirmanna stefnanda veittu henni áminningu laugardaginn 31. maí 1997. Stefnandi setti það í samband við fjölmiðlaumræðu um yfirvinnuskrif hjúkrunarfræðinga á Arnarholti og að hún hefði ranglega verið talin hafa komið upplýsingum í fjölmiðla. Stefnandi bar fyrir dómi að hún hafi gert athugasemdir við vinnuskýrslur tveggja hjúkrunarfræðinga og farið fram á að þeir hefðu vinnuskýrslur sínar uppivið. Hún hafi hins vegar ekkert haft með það að gera að málið komst í hámæli. Anna Jóna Víðisdóttir hafi verið annar þeirra hjúkrunarfræðinga sem kvartanir beindust að.
Fyrir dómi báru þær Guðný Anna Arnþórsdóttir hjúkrunarframkvæmdastjóri geðsviðs Sjúkrahúss Reykjavíkur og Anna Jóna Víðisdóttir deildarstjóri að Arnarholti á svipaða lund um aðdraganda áminningarinnar. Þær báru að miðvikudaginn fyrir umræddan laugardag hafi borist kvörtun um að stefnandi hefði ráðist í orði að Sóknarstarfsmanni. Guðný Anna bar að ummælin hafi verið á þá lund að umræddur starfsmaður væri hliðhollur yfirmönnum. Anna Jóna hafi þá tjáð stefnanda að talað yrði við hana. Á laugardeginum hafi Anna Jóna hringt í Guðnýju Önnu og sagt að stefnandi væri komin á vakt. Hafi Guðný Anna þá farið upp að Arnarholti til að eiga umrætt viðtal.
Af hálfu stefnda hefur mjög takmörkuð grein verið gerð fyrir því af hverju stefnandi var kölluð á fund með yfirmönnum sínum umræddan laugardag. Engin frekari rannsókn virðist hafa farið fram á því atviki sem af hálfu stefnanda var talin ástæða fundarins. Með vísan til þess sem fram er komið í málinu þykir stefnandi hafa haft réttmæta ástæðu til að ætla að fundurinn tengdist þeim hræringum sem voru í gangi á vinnustaðnum vegna yfirvinnu hjúkrunarfræðinga. Með tilliti til þess og þar sem boðað var til fundarins með nær engum fyrirvara og án þess að tilkynnt væri um hvað ætti að ræða var eðlilegt af hálfu stefnanda að vilja mæta með fulltrúa stéttarfélags síns á fundinn. Þar sem fyrir liggur að hún náði ekki í formann félagsins á laugardeginum neitaði hún skriflega að mæta á fundinn en því hefur ekki verið mótmælt af hálfu stefnda að hún hafi af þeim sökum óskað eftir frestun fundarins fram yfir helgi. Ekki verður talið að yfirmenn stefnanda hafi haft neina réttmæta ástæðu til að hafna beiðni stefnanda um frestun fundarins til þess að stefnandi gæti mætt á hann með fulltrúa stéttarfélags síns. Stefndi hefur því ekki sýnt fram á að neitt efnislegt tilefni hafi réttlætt áminningu þá sem stefnanda var veitt umræddan dag.
Sem fyrr segir var tilefni áminningarinnar aðeins það að stefnandi hefði ekki mætt á umræddan fund með yfirmönnum en að auki voru nefndar fyrri meintar munnlegar áminningar. Ekki verður séð að stefnanda hafi verið gefið tækifæri til neinna andmæla, hvorki munnlegra né skriflegra við þessari tilteknu ávirðingu og ekki liggur fyrir að hún hafi vitað um að til stæði að áminna hana fyrr en henni var afhent áminningarbréfið.
Samkvæmt framansögðu þykja starfsmenn Sjúkrahúss Reykjavíkur hafa brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 við veitingu áminningarinnar. Þá var andmælaréttur stefnanda samkvæmt 13. gr. sömu laga í engu virtur. Samkvæmt framansögðu þykir umrædd áminning hafa verið ólögmæt bæði að efni og formi.
Stefnandi heldur því fram að hún hafi verið sniðgengin um yfirvinnu á Arnarholti eftir að henni var veitt áminningin og hún ákvað að kvarta til umboðsmanns Alþingis. Á Arnarholti unnu sjúkraliðar á 12 klst. vöktum. Upplýst er að vaktafyrirkomulag var ekki það sama hjá öllum sjúkraliðum þar sem sumir óskuðu ekki eftir að vinna næturvaktir en aðrir vildu fremur vinna slíkar vaktir. Reynt var að verða við slíkum óskum og vaktaplani stillt upp í samræmi við það. Þegar slíkt vaktaplan lá fyrir gátu sjúkraliðar skráð sig til vara á aukavaktir. Þegar á þurfti að halda vegna veikinda starfsfólks eða aukins álags var haft samband við þá sem skráð höfðu sig til vara á viðkomandi vakt.
Af hálfu stefnanda hefur verið lögð fram í málinu yfirlýsing þar sem 25 samstarfsmanna stefnanda votta með undirritun sinni að stefnandi hafi verið sniðgengin við skiptingu yfirvinnu á Arnarholti frá því í maí 1997 til ársloka 1999. Þeir hafi orðið vitni að því að á þessu tímabili hafi frekar verið látið vanta starfsfólk við aðhlynningu en að kalla stefnanda til vinnu. Sex þessara samstarfsmanna stefnanda gáfu skýrslu fyrir dómi. Þessi vitni hafa flest unnið með stefnanda þau 16 ár sem hún hefur starfað að Arnarholti og kváðust líta á hana sem vinkonu eða góðan vinnufélaga. Öll staðfestu vitnin yfirlýsingu sína. Öll töldu vitnin að reynt hefði verið að gæta jafnræðis við skiptingu aukavakta milli þeirra sem eftir slíkum vöktum sóttust. Þau lýstu því að stefnandi hefði skráð sig á aukavaktir en undantekningarlítið verið sniðgengin. Ef um fleiri en stefnanda hafi verið að velja hafi aðrir orðið fyrir valinu og jafnvel starfsmenn sem hafi verið nýbyrjaðir og óvanir. Þótt stefnandi hafi ein verið á skrá hafi verið reynt að hagræða vöktum til þess að ekki þyrfti að kalla stefnanda til eða látið hjá líða að kalla út fólk. Fimm þeirra kváðust hafa verið vitni að tilvikum þar sem stefnandi hafi verið sniðgengin. Vitnið Bjarni Már Bjarnason kvaðst hafa boðist til að hringja í stefnanda þegar vantaði starfsmann á vakt en það hafi verið afþakkað. Vitnið Sigríður Steingrímsdóttir kvaðst hafa heyrt að bannað væri að kalla stefnanda út á aukavakt. Hún kvaðst eitt sinn hafa bent að á hringja í stefnanda en verið tjáð að búið væri að reyna að hringja í hana. Hún hafi þá hringt í stefnanda og stefnandi þá sagt að hefði setið við símann en enginn hefði hringt. Vitnum bar ekki að öllu leyti saman þegar þau voru beðin um að upplýsa um fjölda aukavakta á hvern starfsmann á mánuði. Tvö þeirra töldu að um 2-3 vaktir væri að ræða, eitt taldi að um 3-4 vaktir væri að ræða, eitt taldi að um væri að ræða 3-8 vaktir, eitt að um væri að ræða 5-8 og eitt vitnið kvað um allt að 9 vaktir að ræða. Ekkert vitnanna kannaðist við að síminn hefði verið lokaður hjá stefnanda.
Vitnin Anna Jóna og Guðný Anna báru að reynt hefði verið að skipta yfirvinnu jafnt á milli starfsfólks. Valið hafi þó einnig farið eftir því hvernig starfsmann hafi vantað hverju sinni. Þær mótmæltu því hins vegar að stefnandi hefði verið sniðgengin um aukavinnu. Sumir starfsmanna hafi ekki boðið sig fram til aukavinnu. Þá báru þær að stefnandi hafi verið með lokaðan síma á tímabili og því ekki hægt að ná til hennar.
Sem fyrr segir hefur verið lögð fram svokölluð fundargerð samstarfsfundar deildar 34 á Arnarholti þar sem bókað er eftir Guðnýju Önnu að stefnandi væri ekki æskileg í mikla yfirvinnu vegna málaferla við stofnunina. Fyrir dómi mótmælti Guðný Anna þessum ummælum ekki beinlínis en taldi þau tekin úr samhengi. Hún kvaðst ekki hafa yfirfarið eða staðfest fundargerðina.
Í málinu hafa verið lagðir fram af hálfu stefnanda listar yfir yfirvinnu starfsmanna á Arnarholti. Listarnir hafa að geyma upplýsingar um stéttarfélag ónafngreindra starfsmanna, og yfirvinnu þeirra sundurliðaða eftir mánuðum og árum frá 1995 til 2000. Starfsmönnum er raðað eftir fjölda yfirvinnustunda á ári. Eftirfarandi upplýsingar má lesa út úr listunum:
|
Ár |
Yfirvinna í klst. |
Sæti stefnanda hvað varðar yfirvinnu af þeim sem unnu 10 mán eða lengur á ári |
Sæti stefnanda hvað varðar yfirvinnu af sjúkraliðum sem unnu 10 mán eða lengur á ári |
|
1995 |
584,9 |
7 af 30 |
2 af 6 |
|
1996 |
373,6 |
18 af 27 |
3 af 7 |
|
1997 |
636,1 |
5 af 30 |
2 af 9 |
|
1998 |
442 |
11 af 16 |
4 af 10 |
|
1999 |
537,5 |
15 af 27 |
6 af 10 |
|
2000 |
808 |
10 af 26 |
4 af 9 |
Þá má einnig sjá að á fyrri sex mánuðum ársins 1997 vann stefnandi 251,6 yfirvinnustund en á síðari sex mánuðunum 384,5 yfirvinnustundir.
Af hálfu stefnanda hafa upplýsingar á þessum listum ekki verið dregnar í efa. Af hennar hálfu hafa hins vegar verið gefnar þær skýringar á því að yfirvinnustundum hennar hafi ekki fækkað að þegar byrjað hafi verið að sniðganga hana í úthlutun aukavakta hafi hún fengið aukavinnu í eldhúsi og við ræstingar á Arnarholti en aðrir hafi deilt út þeirri vinnu en aukavöktum við aðhlynningu. Greidd hafi verið lægri laun fyrir þessa vinnu. Til þess að bæta sér upp tekjutap hafi hún einnig fengið úthlutað hærra hlutfalli næturvakta en áður.
Af hálfu stefnanda hafa ekki verið lögð fram skattframtöl hennar fyrir og eftir 1997 eða afrit launamiða frá stefnda. Með framlagningu slíkra gagna hefði fengist betri mynd af greiðslum stefnanda til hennar á tímabilinu.
Með framburði samstarfsmanna stefnanda og yfirmanna stefnanda þeirra Guðnýjar Önnu og Önnu Jónu þykir upplýst að reynt hafi verið að jafna aukavöktum við ummönnun vistmanna sem jafnast milli þeirra sjúkraliða sem buðu sig fram á aukavaktir. Samkvæmt því sem fram er komið var hins vegar mikið framboð af slíkri aukavinnu. Enda þótt ekki verði talið að stefnandi hafi átt rétt á að vinna aukavinnu hjá stefnda þykir stefnandi eftir atvikum hafa átt rétt á að málefnaleg sjónarmið væru látin ráða við úthlutun aukavaktanna. Af hálfu stefnda hefur verið haldið fram að eðli þeirra verka sem þurfti að vinna hafi stundum ráðið vali á þeim sem fenginn var til að taka aukavaktir og verður að leggja til grundvallar að svo hafi verið í einhverjum mæli.
Leggja verður til grundvallar þann framburð sex vinnufélaga stefnanda að hún hafi boðist til að vinna aukavaktir en að nær undantekningalaust hafi aðrir orðið fyrir valinu eða látið vanta á vaktir frekar en að kalla hana til en framburður þeirra fær nokkra stoð í framburði vitnanna Guðnýjar Önnu og Önnu Jónu er þær reyndu að verja hversu sjaldan stefnandi hefði verið kölluð á vaktir. Þá þykir framlögð áðurnefnd fundargerð frá samstarfsfundi styðja að um mismunun hafi verið að ræða. Ekki verður fallist á að fyrir þessari grófu mismunun hafi legið nein málefnaleg sjónarmið og teljast yfirmenn stefnanda hafa brotið gegn henni með saknæmum hætti. Stefnandi freistaði þess að aflétta þessu ástandi með því að kvarta til umboðsmanns Alþingis og með kæru til félagsmálaráðuneytisins.
Af hálfu stefnanda er bótakrafa um missi vinnutekna miðuð við að hún hafi orðið af 3,5 vöktum í mánuði vegna yfirvinnutakmörkunarinnar. Tvö af sex vitnum sem um þetta báru töldu að um 2 til 3 vaktir í mánuði hefði verið að ræða. Með tilliti til þess að ósannað er að stefnandi hafi ekki unnið einhverjar slíkar vaktir þykir rétt að miða við að stefnandi hafi að minnsta kosti verið svipt tveimur slíkum vöktum mánaðarlega.
Af framlögðum listum yfir yfirvinnu starfsmanna á Arnarholti verður ekki dregin nein örugg ályktun um það að yfirvinna stefnanda hafi minnkað eftir 31. maí 1997. Þvert á móti var yfirvinna stefnanda marktækt meiri á síðari hluta ársins 1997 en fyrri hlutanum. Ef litið er á stöðu stefnanda hvað yfirvinnu varðar í samanburði við alla vinnufélaga eða sjúkraliða verður ekki séð að stefnandi sé neðar í röðinni eftir 31. maí 1997 en fyrir þann tíma. Samkvæmt því þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að yfirvinnustundum hennar á Arnarholti hafi fækkað eftir 31. maí 1997.
Stefnandi hefur hins vegar upplýst að hún hafi bætt sér upp tekjutapið með fjölgun næturvakta og með því að vinna í eldhúsi og við ræstingar á Arnarholti, allt í þágu stefnda. Ekki er unnt að líta á ætlaðan tekjuauka vegna vinnu hjá stefnanda við þrif og ræstingar og vegna fleiri næturvakta óháð ætluðu tekjutapi vegna þess að hún var sniðgengin um aukavaktir. Þar sem stefnandi hefur ekki upplýst um launamun á aukavöktum við aðhlynningu og við önnur störf á Arnarholti eða meint tekjutap sitt, vegna þess að hún var sniðgengin um aukavaktir, með því að leggja fram afrit skattframtala eða launaseðla frá stefnda þykir hún ekki hafa sýnt fram á tjón af framangreindri mismunun við úthlutun aukavakta. Stefnanda voru fleiri leiðir færar við að tryggja sér sönnun fyrir meintu tekjutapi og þykir því ekki tækt að dæma henni bætur að álitum. Ber því að sýkna stefnda af kröfu stefnanda um bætur fyrir tekjutap.
Stefnandi telur sig eiga rétt á greiðslu miskabóta vegna ólögmætrar áminningar, eftirfarandi framkomu af hálfu yfirmanna hennar þar á meðal ólögmætrar mismununar við úthlutun aukavakta með vísan til 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og telur að um ólögmæta meingerð gegn persónu hennar hafi verið að ræða.
Við úrlausn þess hvort umrædd áminning og eftirfarandi mismunun varðandi skiptingu yfirvinnu teljist hafa verið meingerð gegn persónu hennar ber að líta til þess að umrædd áminning var ólögmæt bæði að efni og formi. Áminningin var þungbærari en ella þar sem stefnandi var trúnaðarmaður sjúkraliða og áminningin veitt í tengslum við væringar á vinnustaðnum, vegna fréttaflutnings um yfirvinnu hjúkrunarfræðinga, sem annar af þeim sem áminninguna veitti tengdist. Þá var í áminningunni vísað til fyrri munnlegra áminninga sem ekki hefur verið sýnt fram á í málinu að hafi verið veittar. Áminningin var þrátt fyrir augljósa ágalla á efni og formi ekki dregin til baka. Hún var loks felld úr gildi af félagsmálaráðuneytinu með úrskurði 3. maí 2000, tæpum þremur árum eftir að hún var veitt. Það bætti ekki úr skák að stefnandi hefur enn ekki fengið uppreisn æru af hálfu yfirmanna sinna, hún heftur ekki verið beðin afsökunar og jafnvel í máli þessu er því enn haldið fram að áminningin hafi verið lögmæt að efni og formi.
Af hálfu stefnda var þó ekki látið þar við sitja heldur þykir upplýst í málinu að hjúkrunarfræðingar sem sáu um að velja starfsfólk á aukavaktir gengu nær algerlega framhjá stefnanda við útdeilingu aukavakta. Varð þetta til þess að stefnandi taldi sig tilneydda að taka að sér önnur verr launuð störf að Arnarholti, utan hennar fagsviðs, til að bæta sér tekjutapið. Þykir framangreind framkoma yfirmanna stefnanda gagnvart henni í heild sinni mjög niðrandi, til þess fallin að varpa rýrð á störf hennar, gera henni illmögulegt að njóta sín í vinnunni og óttast um starfsöryggi sitt. Kom þetta sérstaklega illa við stefnanda sem starfað hafði á Arnarholti í 11 ár og var trúnaðarmaður sjúkraliða á vinnustaðnum.
Umrædd framkoma yfirmanna stefnanda gagnvart henni fól í sér ólögmætt brot gegn persónu hennar. Fullnægt þykir skilyrðum 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 til að dæma stefnanda miskabætur vegna framangreindra óþæginda og andlegra þjáninga. Þykir rétt að stefndi bæti stefnanda miska hennar af þessum sökum með 100.000 krónum.
Sem fyrr segir mátti stefnandi gera ráð fyrir að umrædd áminningin kynni að hafa slæm áhrif á störf hennar og starfsöryggi. Gildir þar einu að ekki var um áminningu að ræða í skilningi laga um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Fallist er á með stefnanda að henni hafi verið rétt að leita þeirra leiða sem tækar voru til að fá umrædda áminningu fellda úr gildi. Eðlilegt var að hún leitaði lögmannsaðstoðar til að rétta hlut sinn. Ekki var fallist á beiðni lögmannsins um að áminningin yrði felld niður og tók lögmaðurinn til þess bragðs að leita leiða innan stjórnsýslunnar til að fá hana fellda niður. Lyktir urðu þær að áminningin var felld úr gildi með úrskurði félagsmálaráðuneytisins 3. maí 2000 á þeim grundvelli að aðdragandi og framkvæmd hennar hafi ekki verið í samræmi við nokkrar meginreglur um málsmeðferð í stjórnsýslunni. Samkvæmt framansögðu verður að líta svo á að sannanlegur lögmannskostnaður stefnanda við að ná fram rétti sínum vegna ólögmætrar stjórnvaldsákvörðunar sé tjón sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á.
Af hálfu stefnanda hefur verið lögð fram yfirlýsing undirrituð af framkvæmdastjóra Sjúkraliðafélags Íslands og stefnanda þess efnis að félagið hafi greitt lögmannskostnað stefnanda við að fá veitta áminningu fellda úr gildi. Kostnaðurinn hafi numið 182.766 krónum, að meðtöldum virðisaukaskatti. Því var lýst yfir að stefnandi hefði forræði á því að krefja stefnda um bætur sem næmi lögmannskostnaðinum með málssókn. Yfirlýsingunni til stuðnings hefur verið lagðir fram reikningar lögmanna stefnanda til félagsins vegna vinnu í þágu stefnanda og annarra félagsmanna og tímaskýrsla vegna vinnu í þágu félagsmanna í Sjúkraliðafélaginu. Af þessum gögnum verður ráðið hvaða hluti þessa lögmannskostnaðar var vegna starfa í þágu stefnanda.
Líta verður á umrædda yfirlýsingu sem framsal Sjúkraliðafélags Íslands á kröfu á hendur stefnda um endurgreiðslu á umræddum kostnaði. Líta verður á umræddan kostnað sem tjón stefnanda þótt stéttarfélag hennar hafi greitt kostnaðinn hennar vegna, enda verður að gera ráð fyrir að í yfirlýsingu félagsins felist að stefnandi greiði félaginu lögmannskostnaðinn að því leyti sem hann fæst bættur úr hendi stefnda.
Lögmaður stefnanda sendi stefnda kröfubréf 12. febrúar 2001 þar sem farið var fram á miskabætur að fjárhæð 100.000 krónur og bætur vegna útlagðs lögmannskostnaðar sem að viðbættum virðisaukaskatti var talinn nema 104.580 krónum.
Samkvæmt framangreindum tímaskýrslum lögmanns var umrædd lögmannsþjónusta öll innt af hendi á árunum 1997-2000 og því áður en áðurnefnt kröfubréf var sent stefnda. Enda þótt ljóst sé að stéttarfélag stefnanda hafi greitt lögmanni stefnanda hærri fjárhæð en þá sem sett var fram í kröfubréfi til stefnda 12. febrúar 2001 þykir rétt að miða bætur til stefnanda vegna lögmannskostnaðar við þá fjárhæð sem útlagður kostnaður var talinn nema í kröfubréfinu. Samkvæmt því verða stefnanda dæmdar 100.000 króna miskabætur og 104.580 króna bætur vegna útlagðs lögmannskostnaðar á stjórnsýslustigi eða samtals 204.580 krónur úr hendi stefnda. Dráttarvextir reiknast eins og í dómsorði greinir en upphafstíma dráttarvaxta hefur ekki verið mótmælt.
Með hliðsjón af úrslitum málsins þykir rétt að stefndi greiði stefnanda hluta af kostnaði hennar af rekstri málsins. Þykir hæfilegt að stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.
Af hálfu stefnanda flutti mál þetta Gísli Guðni Hall hdl. en af hálfu stefnda Óskar Thorarensen hrl.
Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð
Stefndi, Landspítali háskólasjúkrahús, greiði stefnanda, Halldóru Guðmundsdóttur, 204.580 krónur með dráttarvöxtum, samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá 12. mars 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá þeim degi til greiðsludag.
Stefndi greiði stefnanda 200.000 krónur í málskostnað.