Hæstiréttur íslands

Mál nr. 304/2012


Lykilorð

  • Sveitarstjórn
  • Stöðuumboð
  • Greiðsla


                                     

Miðvikudaginn 19. desember 2012.

Nr. 304/2012.

Reykjavíkurborg

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

gegn

Frjálslynda flokknum

(Björn Jóhannesson hrl.)

Sveitastjórn. Stöðuumboð. Greiðsla.

Málsaðilar deildu um hvort R hefði efnt skyldu sína gagnvart F til greiðslu á lögbundnu fjárframlagi til stjórnmálasamtaka frá sveitarfélögum vegna ársins 2008, en framlagið hafði að beiðni oddvita F í borgarstjórn, Ó, verið greitt inn á bankareikning B. Hvorki var fallist á með R að Ó hefði haft stöðuumboð til að ráðstafa greiðslunni né heldur að R hefði verið grandlaus um að Ó skorti heimild rétthafa greiðslunnar til að ákveða hvert henni yrði ráðstafað. Var R því gert að greiða F fjárframlagið.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. maí 2012. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms, en að teknu tilliti til innborgunar, sem áfrýjandi innti af hendi 13. apríl 2012 að fjárhæð 425.993 krónur. Þá krefst stefndi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur á þann hátt, sem í dómsorði greinir.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður að öðru leyti en því að til frádráttar kröfu stefnda, Frjálslynda flokksins, á hendur áfrýjanda, Reykjavíkurborg, kemur innborgun að fjárhæð 425.993 krónur, sem greidd var 13. apríl 2012.

Áfrýjandi greiði stefnda 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. febrúar 2012.

I.

Mál þetta, sem var dómtekið 19. janúar sl., er höfðað 12. maí 2011 af Frjálslynda flokknum, Lynghálsi 3 í Reykjavík, gegn Reykjavíkurborg, Tjarnargötu 11 í Reykjavík, og til réttargæslu Ólafi F. Magnússyni, Vogalandi 5 í Reykjavík, persónulega og fyrir hönd Borgarmálafélags F-lista.

Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefndu verði gert að greiða honum 6.758.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.379.000 krónum frá 28. maí 2008 til 30. júlí 2009 en af 6.758.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.379.000 krónum sem greiddar voru 19. febrúar 2010. Þá krefst stefnandi þess að dráttarvextir leggist við höfuðstól kröfunnar á tólf mánaða fresti, í fyrsta sinn 28. maí 2009, en síðan árlega miðað við 28. maí ár hvert, í samræmi við ákvæði 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Stefnandi krefst þess einnig að stefndu Reykjavíkurborg verði gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi. Af hálfu stefnanda eru engar kröfur gerðar á hendur réttargæslustefndu, Ólafi F. Magnússyni og Borgarmálafélagi F-lista.

Stefnda gerir þær dómkröfur að hún verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda.

Réttargæslustefndu hafa ekki látið málið til sín taka.

II.

Málsatvik

Mál þetta lýtur að lögbundnu fjárframlagi stefndu til stjórnmálasamtaka samkvæmt 5. gr. laga nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda og upplýsingaskyldu þeirra. Aðdragandi málsins er sá að með bréfi, dags. 6. maí 2006, var yfirkjörstjórn Reykjavíkurkjördæmis afhentur framboðlisti F-lista, Frjálslynda flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningar sem fram fóru 27. maí 2006. Með listanum fylgdi bréf undirritað af réttargæslustefnda, Ólafi F. Magnússyni. Þar kom fram að listinn væri borinn fram af Frjálslynda flokknum og kennitala stefnanda tilgreind. Þá sagði þar að listinn bæri heitið F-listi frjálslyndra og óháðra og hefði listabókstafinn F.

Í sveitarstjórnarkosningunum 27. maí 2006 fékk framboðið einn mann kjörinn í borgarstjórn Reykjavíkur. Í kjölfarið tók réttargæslustefndi Ólafur, efsti frambjóðandi á listanum, sæti í borgarstjórn. Af gögnum málsins verður ráðið að stefnda hafi greitt stefnanda framlag að fjárhæð 2.807.000 krónur 7. febrúar 2007.

Hinn 28. apríl 2008 ritaði framkvæmdastjóri stefnanda, Magnús Reynir Guðmundsson, borgarstjóranum í Reykjavík, réttargæslustefnda Ólafi, bréf þar sem hann þakkaði fyrir framlög stefndu til stefnanda fyrir árin 2006 og 2007. Því næst er vitnað til skrifstofustjóra fjármála hjá stefndu og tekið fram að hann hafi skýrt frá því að stefnanda væri ætlaður fjárstyrkur á fjárhagsáætlun fyrir árið 2008. Hafi hann einnig upplýst að oddviti viðkomandi lista þyrfti að samþykkja með formlegum hætti hvert ætti að greiða framlagið. Þar sem Ólafur væri oddviti F-listans í borgarstjórn óskaði framkvæmdastjórinn eftir því í bréfinu að hann mælti með því að framlagið til Frjálslynda flokksins yrði greitt inn á tiltekinn reikning stefnanda.

Í málinu liggur fyrir bréf réttargæslustefnda Ólafs, dags. 20. júní 2008, til skrifstofustjóra borgarstjórnar, þar sem hann óskaði eftir því fyrir hönd réttargæslustefnda, Borgarmálafélags F-listans, að umrætt framlag stefndu til F-listans fyrir árið 2008 yrði lagt inn á tilgreindan reikning. Stefnda greiddi 25. júní 2008 3.379.000 krónur inn á umræddan reikning. Óumdeilt er að sá reikningur er ekki í eigu stefnanda heldur réttargæslustefnda, Borgarmálafélags F-listans

Með bréfi lögmanns stefnanda 30. júní 2009 var stefnda krafin um greiðslu fjárframlagsins fyrir árin 2008 og 2009. Sama krafa mun hafa komið fram í bréfi formanns og fjármálastjóra stefnanda til stefndu 26. ágúst 2009. Af hálfu stefndu var þessum erindum svarað með bréfi 27. nóvember 2009 og upplýst að málið hefði verið tekið til athugunar af innri endurskoðun stefndu. Samkvæmt niðurstöðu þeirrar athugunar væri það ekki hlutverk stefndu að skera úr um ágreining stefnanda og F-lista frjálslyndra og óháðra um greiðslu fjárframlagsins. Voru þessir aðilar hvattir til að leysa málið sín í milli.

Ekki náðist samkomulag um hverjum bæri fjárframlagið. Borgarlögmaður leitaði álits samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins á þessu ágreiningsefni með bréfi 8. janúar 2010. Í bréfi ráðuneytisins til stefndu 4. febrúar 2010 var komist að þeirri niðurstöðu að stefnandi ætti rétt til framlags stefndu sem veitt væri á grundvelli 5. gr. laga nr. 162/2006. Hinn 19. febrúar 2010 greiddi stefnda 3.379.000 krónur inn á reikning stefnanda.

Í málinu liggja fyrir ýmis gögn um bréfaskipti aðila þar sem stefnandi krefur stefndu um greiðslu á umræddu framlagi fyrir árið 2008 ásamt dráttarvöxtum sem stefnandi taldi að leggjast ættu við framlagið fyrir árið 2009. Í bréfi stefndu 8. júní 2010 var þessum kröfum hafnað enda hefði framlagið fyrir árið 2008 þegar verið greitt í samræmi við fyrirmæli þáverandi oddvita F-lista Frjálslyndra og óháðra.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Af hálfu stefnanda er vísað til þess að í 5. gr. laga nr. 162/2006 sé kveðið á um skyldu stefndu til þess að greiða þeim stjórnmálasamtökum sem hafa fengið a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum kosningum, lögbundið fjárframlag til starfsemi sinnar. Stefnandi byggir á því að hann hafi átt rétt á þessu fjárframlagi frá stefnda eftir borgarstjórnarkosningarnar 2006, fyrir árin 2007 til 2010, enda hafi hann uppfyllt að öllu leyti skilyrði fyrrgreinds lagaákvæðis. Fjárframlög fyrir öll árin hafi verið greidd stefnanda nema fyrir árið 2008.

Stefnandi vísar til þess að samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 162/2006 séu stjórnmálasamtök skilgreind sem flokkar eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna. Þannig sé framlagið bundið við þau stjórnmálasamtök sem hafi fengið kjörinn fulltrúa eða fengið ákveðið atkvæðamagn við næstliðnar kosningar. Borgarmálafélag F-listans, sem hafi verið stofnað í maí 2008, hafi ekki uppfyllt þessi skilyrði. Það hafi heldur ekki verið til þegar borgarstjórnarkosningarnar fóru fram á árinu 2006. Þá hafi félagið hvorki boðið fram til Alþingis né sveitarstjórnar.

Stefnandi telur að stefndu hafi mátt vera það ljóst að Borgarmálafélag F-listans uppfyllti ekki fyrrgreind skilyrði 5. gr. laga nr. 162/2006. Þá hefði stefnandi í bréfi til stefnda 28. apríl 2008 óskað eftir því að framlagið yrði greitt inn á bankareikning stefnanda.

Af hálfu stefnanda er því mótmælt að verklagsreglur stefndu, sem kveði á um að oddviti viðkomandi stjórnmálasamtaka þurfi að tilgreina inn á hvaða bankareikninga eigi að greiða framlögin, geti vikið til hliðar skýrum ákvæðum laga nr. 162/2006 um hver sé rétthafi  framlaganna. Framlögin séu bundin við þau stjórnmálasamtök sem hafi boðið fram við næstliðnar kosningar en tilheyra ekki einstökum frambjóðendum og breyti engu þótt þeir stofni félög í eigin nafni. Þó að stefnda eigi ekki að hafa afskipti af því hvernig einstök stjórnmálasamtök hagi innra skipulagi sínu hvíli samt sú skylda á henni að greiða réttum aðila þau framlög sem beri að greiða samkvæmt lögum nr. 162/2002. Hafi stefnandi ótvírætt verið réttur aðili að framlagi frá stefndu vegna ársins 2008 eins og árin 2007, 2009 og 2010 enda hafi stefnandi borið allan kostnað af framboði til borgarstjórnarkosninganna 2006 og fullnægt skilyrðum 5. gr. laga nr. 162/2006.

Stefnandi byggir á því að sú staðreynd að réttargæslustefndi Ólafur hafi verið borgarstjóri og jafnframt stofnandi Borgarmálafélags F-listans, hafi átt að gefa stefndu sérstakt tilefni til að ganga úr skugga um að framlagið yrði greitt réttum aðila, enda hafi greiðslan runnið til aðila sem hafði ekki áður fengið greitt framlag. Stefnandi telur að stefnda verði að bera ábyrgðina á því að hafa ekki greitt réttum aðila framlagið. Þá hafi það verið alfarið á ábyrgð stefndu að víkja frá fyrirmælum stefnanda sem lágu fyrir um greiðslu framlagsins. Geti stefnda ekki losnað undan greiðsluskyldu sinni gagnvart stefnanda með því að greiða framlagið öðrum aðila sem ekki hafi átt rétt á því.

Stefnandi vísar einnig til þeirra sjónarmiða og röksemda sem fram komi í áliti samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins frá 4. febrúar 2010. Þá sé einnig vísað til bréfs innanríkisráðuneytisins, dags. 21. janúar 2011, þar sem skorað hafi verið á stefndu að fara að álitinu og greiða stefnanda það framlag sem hann ætti rétt á.

Í stefnu er því haldið fram að stefndu hafi borið að inna greiðsluna af hendi fyrir árið 2008 ekki síðar en 14 dögum eftir að hún hafi fyrst verið krafin um greiðslu framlags þess árs, þ.e. með bréfi 28. apríl 2008. Í samræmi við það var krafist dráttarvaxta frá þeim degi eða 12. maí 2008. Við aðalmeðferð málsins var kröfugerðin leiðrétt að þessu leyti og krafist dráttarvaxta frá 28. maí 2008 í samræmi við 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Um fjárhæð kröfunnar er vísað til þess að fyrir liggi að fjárframlag það sem stefnandi átti rétt á vegna ársins 2008 hafi numið 3.379.000 krónur.

Stefnandi vísar til þess að stefnda hafi greitt framlag ársins 2009 19. febrúar 2010. Krafa um greiðslu framlagsins hafi komið fram 30. júní 2009. Endanleg kröfugerð stefnanda taki mið af því að krafan beri dráttarvexti mánuði eftir að stefndi krafðist greiðslunnar, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Því sé krafist dráttarvaxta af stefnufjárhæðinni frá 30. júlí 2009.

Eins og fram kemur í stefnu eru engar kröfur gerðar á hendur réttargæslustefndu.

Um lagarök vísar stefnandi til laga nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda og um upplýsingarskyldu þeirra, einkum til 2. og 5. gr. laganna. Þá vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingagildi samninga og um réttar efndir. Kröfu um dráttarvexti kveður stefnandi styðjast við ákvæði III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Þá sé krafa um málskostnað reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. gr. og 130. gr. laganna. Varðandi réttargæsluaðild vísar stefnandi til 21. gr. laga nr. 91/1991 og um varnarþing vísar hann til 32. og 33. gr. sömu laga.

2. Málsástæður og lagarök stefnda

Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að hún hafi verið í góðri trú þegar hún hafi greitt lögbundið fjárframlag F-listans vegna ársins 2008 í samræmi við fyrirmæli oddvita framboðsins. Hafi oddvitinn verið til þess bær og haft umboð til að gefa slík fyrirmæli fyrir hönd stefnanda. Stefnda tekur fram að breytt staða viðkomandi aðila gagnvart stefnanda hafi ekki þýðingu gagnvart stefndu enda hafi hún verið með öllu grandlaus um samskipti eða hugsanlegar breytingar á sambandi stefnanda og þessa aðila.

Stefnda tekur fram að samkvæmt 5. gr. laga nr. 162/2006, sem hafi tekið gildi 1. janúar 2007, sé sveitarfélögum með fleiri en 500 íbúa skylt, en öðrum sveitarfélögum heimilt, að veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, árleg fjárframlög til starfsemi sinnar. Ákvörðun um slík framlög taki sveitarstjórn samhliða samþykkt fjárhagsáætlunar. Fjárhæðinni skuli úthlutað í hlutfalli við atkvæðamagn. Stefnandi hafi boðið fram F-lista frjálslyndra og óháðra og hafi framboðið fengið einn mann kjörinn, réttargæslustefnda Ólaf.

Stefnda vísar til þess að enginn áskilnaður sé í lögum nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna um að greina í tilkynningu til yfirkjörstjórnar frá því hver eða hverjir standi að baki framboðslista. Sé við það miðað að það geti bæði verið stjórnmálaflokkur sem og aðrir óskilgreindir aðilar, sbr. 31. gr. laganna. Þess vegna geti verið óljóst hver standi að baki framboði og hver eða hverjir séu til þess bærir að koma fram fyrir hönd þess. Þá geti uppbygging og innra starf þeirra aðila sem að baki framboði standa verið með ýmsu móti. Mjög algengt er t.d. að sérstök borgar- eða bæjarmálafélög starfi innan stjórnmálaflokka og stjórnmálasamtaka sem bjóði fram í sveitarstjórnarkosningum. Til að bregðast við því hafi sú verklagsregla verið tekin upp hjá stefndu að fá staðfestingu oddvita viðkomandi framboðs á því hvert framlagið skuli greitt áður en greiðslan fer fram enda aldrei neinum vafa undirorpið hver oddviti framboðslistans sé.

Stefnda byggir á því að ekki hafi leikið neinn vafi á því hver væri til þess bær að koma fram fyrir hönd stefnanda. Réttargæslustefndi Ólafur hafi ritað undir tilkynningu um framboðslista stefnanda fyrir hans hönd. Þá hafi tilkynningin verið rituð á bréfsefni stefnanda. Stefnandi hafi fengið einn fulltrúa kjörinn, réttargæslustefnda Ólaf, sem jafnframt hafi þá verið oddviti framboðsins. Sem slíkur hafi hann haft stöðuumboð til að koma fram fyrir hönd framboðsins í Reykjavík, sbr. 2. mgr. 10. gr. samningalaga nr. 7/1936, en áratugalöng venja sé fyrir því að oddvitar framboða komi fram fyrir þeirra hönd.

Stefnda vísar til þess að samkvæmt 15. gr. samningalaga teljist stöðuumboð afturkallað er umboðsmaður lætur af þeim starfa sem hann dregur umboð sitt af. Hafi umboð verið afturkallað eða lýst ógilt, en umbjóðandi hefur sérstaka ástæðu til að ætla að umboðsmaður muni samt sem áður gera löggerning sín vegna við ákveðinn þriðja mann, sem umbjóðandi má ætla að sé ókunnugt um að umboðið sé fallið úr gildi, verði umbjóðandi samkvæmt 19. gr. sömu laga að skýra þriðja manni frá því ef það er unnt. Að öðrum kosti verði löggerningurinn skuldbindandi fyrir hann ef þriðji maður var grandlaus.

Stefnda byggir á því að hafi stefnandi talið að réttargæslustefndi Ólafur hefði ekki lengur umboð til að koma fram fyrir sína hönd þegar komið hafi að greiðslu framlagsins fyrir árið 2008, hefði stefnandi átt að tilkynna það stefndu. Það gerði stefnandi ekki heldur ber bréf framkvæmdastjóra stefnanda frá 28. apríl 2008 það með sér að hann hafi viðurkennt á þeim tíma umboð réttargæslustefnda til að mæla fyir sína hönd gagnvart stefndu, sbr. ummælin „Þar sem þú, ágæti borgarstjóri, ert oddviti F-listans í borgarstjórn Reykjavíkur ...“. Stefnda mótmælir því að umrætt bréfi innihaldi ósk sem beint hafi verið til stefndu um að fjárframlag ársins 2008 yrði greitt inn á reikning stefnanda. Bréfið beri ekki með sér að það varði verkefni eða hlutverk borgarstjórans í Reykjavík og því sé það ekki ritað til hans sem fyrirsvarsmanns stefndu. Heldur stefnda því fram að um sé að ræða einkabréf til oddvita F-listans sem jafnframt hafi gegnt starfi borgarstjórans í Reykjavík. Þó að bréfið sé stimplað móttekið af skjalasafni Ráðhúss Reykjavíkur hafi erindið ekki fengið neina stjórnsýslulega meðferð hjá stefndu enda hafi það aðeins varðað einkamálefni borgarstjórans. Stefndu hafi því verið ókunnugt um efni bréfsins.

      Stefnda byggir jafnframt á því að umrætt bréf frá 25. apríl 2008 feli ekki í sér skýr fyrirmæli eða formlega beiðni til stefndu um að greiða fjárframlagið inn á reikning stefnanda. Þar sé einungis óskað eftir því að réttargæslustefndi Ólafur mæli með því sem oddviti F-listans að fjárframlagið verði lagt inn á nánar tilgreindan reikning stefnanda. Í bréfinu felist jafnframt viðurkenning á því að stefnanda hafi verið kunnugt um þá reglu að oddviti framboðsins þyrfti að óska formlega eftir því hvert framlagið skyldi greitt. Þá sé í niðurlagi þess óskað eftir frekari viðræðum við réttargæslustefnda Ólaf um samstarf við hann og hans fólk um borgarmálin, sem hugsanlega hefðu getað leitt til annarrar niðurstöðu um hvert framlagið skyldi renna en fram hafi komið í bréfinu. Stefnda hafi ekki talið það hlutverk sitt að hafa afskipti af því hvernig stjórnmálasamtök höguðu innra skipulagi sínu og þar með hvort þau teldu heppilegt að sérstök borgarmálafélög tækju beint við framlaginu en það fyrirkomulag sé reyndar algengara en ekki.

Stefnda tekur fram að enginn ágreiningur sé um þá niðurstöðu innanríkisráðuneytisins að stefnanda beri fjárframlag stefnda á grundvelli 5. gr. laga nr. 162/2006, enda hafi stefndi farið að þessu áliti ráðuneytisins. Álit ráðuneytisins varði hins vegar ekki það sem um sé deilt í þessu máli heldur aðeins túlkun fyrrgreindrar 5. gr. laga nr. 162/2006.

Stefnda kveðst hafa greitt fjárframlag ársins 2008 inn á reikning réttargæslustefnda, Borgarmálafélags F-listans, ekki af því að talið hafi verið að það félag ætti ríkari kröfu til þess en stefnandi, heldur vegna þess að ósk hafi komið um það frá oddvita framboðs stefnanda. Hafi stefnda með réttu mátt álíta að hann væri til þess bær og í fullu umboði til þess að koma fram fyrir hönd stefnanda. Stefnandi hafi mátt vita að stefndu hafi ekki getað verið kunnugt um breytta stöðu réttargæslustefnda Ólafs eða meinta afturköllun stöðuumboðs hans. Stefnanda hafi því ekki dulist að stefnda myndi fara að fyrirmælum þess aðila sem hafði haft og hafði enn að bestu vitund stefndu stöðuumboð fyrir hönd stefnanda. Því hafi stefnanda borið að skýra stefndu frá því að umboð réttargæslustefnda Ólafs væri niður fallið, sbr. 19. gr. samningalaga, hafi það verið raunin og jafnframt hver hefði þá slíkt umboð á þeirri stundu. Þar sem stefnandi hafi vanrækt þá skyldu sína eigi hann enga kröfu á hendur stefndu, sbr. niðurlag 19. gr. samningalaga. Því beri að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.

Stefnda mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda. Hún kveður stefnanda fyrst hafa krafist greiðslu fjárframlaga áranna 2008 og 2009 með bréfi, dags. 30. júní 2009, sem hafi borist stefndu 8. júlí sama ár. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 geti dráttarvextir á kröfuna fyrst byrjað að falla mánuði eftir að stefnandi sannanlega krafði stefndu um greiðslu. Það sé þó afstaða stefndu að ef ekki verði fallist á sýknukröfu hennar beri að miða upphafstíma dráttarvaxta við dómsuppsögu í fyrsta lagi.

Stefnda kveðst byggja málatilbúnað sinn meðal annars á II. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, VI. kafla laga nr. 5/1998 um kosningar til sveitarstjórna, lögum nr. 162/2006 um fjármál stjórnmálaflokka og frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra, einkum 5. gr., meginreglum samninga- og kröfuréttar um þýðingu grandleysis og lögum nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 3. mgr. 5. gr. Kröfu um málskostnað byggir stefnda á 130. gr., sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

Forsendur og niðurstaða

Í málinu greinir aðila á um það hvort stefnda hafi efnt skyldu sína gagnvart stefnanda til greiðslu á lögbundnu fjárframlagi samkvæmt 5. gr. laga nr. 162/2006 fyrir árið 2008 með því að greiða framlagið inn á reikning réttargæslustefnda, Borgarmálafélags F-listans, að beiðni réttargæslustefnda, Ólafs F. Magnússonar, oddvita F-listans. Óumdeilt er að stefnandi átti lögbundinn rétt til þessa fjárframlags frá stefndu fyrir árið 2008, en ekki Borgarmálafélag F-listans.

Í samræmi við almennar reglur kröfuréttar gat greiðsla kröfunnar sem um er deilt aðeins leitt til brottfalls á skyldu stefndu ef hún var greidd til stefnanda eða aðila sem var til þess bær að taka við greiðslunni fyrir hans hönd. Varnir stefndu lúta að því að ekki hafi annað legið fyrir á þeim tíma sem greiðslan var innt af hendi en að réttargæslustefndi Ólafur hafi verið bær til þess að vísa á þann reikning sem framlagið átti að fara inn á. Um það vísar stefnda til stöðuumboðs hans sem oddvita F-listans. Ef stöðuumboð þetta var á þeim tíma fallið úr gildi hafi stefnanda í ljósi aðstæðna borið að tilkynna stefndu um það, sbr. 19. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Þar sem það hafi ekki verið gert telur stefnda að með því að haga greiðslu í samræmi við fyrirmæli réttargæslustefnda hafi stefnda efnt greiðsluskyldu sína.

Dómurinn telur ekki unnt að fallast á þessar varnir stefndu af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi ber að árétta að samkvæmt 5. gr. laga nr. 162/2006 var stefndu skylt að veita stjórnmálasamtökum, sem fengu a.m.k. einn mann kjörinn í sveitarstjórn eða hlutu a.m.k. 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, fjárframlög til starfsemi sinnar. Með stjórnmálasamtökum er átt við flokka eða samtök sem bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna, sbr. 1. tölulið 1. mgr. 2. gr. laganna. Einstakir framboðslistar eða frambjóðendur, sem stjórnmálasamtök hafa boðið fram við sveitarstjórnarkosningar, eiga ekki tilkall til þessa fjárframlags. Þó að oddvitar framboðslista kunni að geta komið fram út á við fyrir hönd þeirra sem náð hafa kjöri af listanum veitir það þeim ekki umboð samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 7/1936 til að binda með ráðstöfunum sínum þau stjórnmálasamtök sem buðu listann fram. Í málinu liggur fyrir að stefnandi bauð fram F-lista frjálslyndra og óháðra og er stefnandi þau stjórnmálasamtök sem stefndu er skylt að greiða umrætt fjárframlag. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið er ekki unnt að fallast á að réttagæslustefndi Ólafur hafi sem oddviti framboðslistans haft stöðuumboð til að vísa á þann reikning sem fjárframlagið til stefnanda átti að greiðast inn á.

Í öðru lagi gegndi réttargæslustefndi Ólafur á þeim tíma sem greiðslan var innt af hendi stöðu borgarstjóra hjá stefndu. Samkvæmt þeirri stöðu var hann æðsti yfirmaður starfsmanna stefnda og var meðal annars prókúruhafi borgarsjóðs og gat skuldbundið stefndu samkvæmt 55. gr. þágildandi sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998. Samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir í málinu mátti honum vera ljóst að stefnandi, sem var rétthafi fjárframlagsins, æskti þess að framlagið yrði greitt inn á tiltekinn reikning í eigu stefnanda. Í ljósi þeirrar stöðu sem réttargæslustefndi Ólafur gegndi hjá stefndu telur dómurinn hana ekki geta borið því við að hafa verið grandlaus um að hann skorti heimild rétthafa greiðslunnar til að ákveða hvert henni yrði ráðstafað.

Af framangreindu leiðir að rétt er að fallast á kröfu stefnanda um greiðslu fjárframlagsins samkvæmt 5. gr. laga nr. 162/2006 fyrir árið 2008. Ekki er ágreiningur um fjárhæð kröfunnar, hins vegar deila aðilar um upphafstíma dráttarvaxta.

Í fyrrgreindum lögum nr. 162/2006 er ekki fjallað um hvenær skylt er að inna umrætt fjárframlag af hendi. Með bréfi framkvæmdastjóra stefnanda 28. apríl 2008, sem beint var til borgarstjóra sem oddvita F-listans, var stefnda í raun ekki krafin um greiðslu fjárframlagsins, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001. Af þeim gögnum sem hafa verið lögð fyrir dóminn verður á hinn bóginn ráðið að almennt sé greitt inn á reikninga, sem oddvitar viðkomandi lista vísa á, skömmu eftir að beiðni þar að lútandi hefur verið komið á framfæri við skrifstofustjóra borgarstjórnar eða aðalgjaldkera stefndu. Fjárframlög stefndu vegna ársins 2008 voru almennt innt af hendi snemma á því ári. Beiðni, sem dagsett var föstudaginn 20. júní 2008, vegna fjárframlags sem stefnandi var rétthafi að, var sannanlega komin til stefndu 23. sama  mánaðar. Með vísan til 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001 þykir rétt að fjárkrafa stefnanda vegna fjárframlags stefndu fyrir árið 2008 beri dráttarvexti frá þeim degi er mánuður var liðinn frá því að þessi beiðni var komin til stefndu. Ágreiningur er einnig um dráttarvexti á fjárframlag stefndu til stefnanda fyrir árið 2009. Stefnda var krafin um greiðslu þessa framlags með bréfi, dags. 30. júní 2009, sem sannanlega barst stefndu 8. júlí sama ár. Með vísan til þess sem að framan greinir er rétt að þessi hluti kröfunnar beri dráttarvexti frá 8. ágúst 2009, eins og í dómsorði greinir.

Í 12. gr. laga nr. 38/2001 segir að ef vaxtatímabil er lengra en tólf mánuðir án þess að vextirnir séu greiddir skuli þeir lagðir við höfuðstól og nýir vextir reiknaðir af samanlagðri fjárhæð. Samkvæmt þessu er óþarfi að kveða á um höfuðstólsfærslu vaxta á tólf mánaða fresti í dómsorði.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefndu að greiða stefnanda málskostnað sem með hliðsjón af fyrirliggjandi málskostnaðarreikningi og umfangi málsins þykir hæfilega ákveðinn 750.000 krónur.

Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð :

Stefnda, Reykjavíkurborg, greiði stefnanda, Frjálslynda flokknum, 6.758.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 3.379.000 krónum frá 23. júlí 2008 til 8. ágúst 2009 en af 6.758.000 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum 3.379.000 krónum sem inntar voru af hendi 19. febrúar 2010.

Stefnda greiði stefnanda 750.000 krónur í málskostnað.