Hæstiréttur íslands
Mál nr. 330/2003
Lykilorð
- Jafnrétti
- Stöðuveiting
|
|
Fimmtudaginn 22. janúar 2004. |
|
Nr. 330/2003. |
Leikfélag Akureyrar(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl. Viðar Lúðvíksson hdl. síðara prófmál) gegn Jafnréttisstofu vegna Hrafnhildar Hafberg (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) |
Jafnrétti. Stöðuveiting.
Á árinu 2002 var Þ ráðinn leikhússtjóri L. H var meðal umsækjenda um starfið og taldi hún að henni hefði verið mismunað við ráðninguna á grundvelli kynferðis síns. Kærði hún ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála og komst nefndin að þeirri niðurstöðu að L hefði brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla þegar það réð Þ til starfans en ekki H. Höfðaði J mál þetta vegna H með heimild í 5. mgr. 3. gr. sömu laga og var talið að J hefði verið þetta heimilt. Talið var að það væri meginregla vinnuréttar, að atvinnurekandi hefði um það frjálsar hendur, hvern hann veldi til starfa í sína þágu. Því vali væru þó settar skorður, sem leiddar yrðu af ákvæðum laga nr. 96/2000, þegar kona og karl sæktu um sama starfið. Þótt H hefði að baki lengra háskólanám en Þ hafi ekki verið gert líklegt að það nám eða önnur reynsla nýtist henni þannig, að hún yrði talin jafnhæf eða hæfari honum til að stjórna leikhúsi. Leikhúsráð L hafi metið það svo á grundvelli umsóknargagna og viðtala við umsækjendur að menntun og reynsla Þ, sem nær öll hafi verið á sviði leiklistar, auk sjónarmiða um listræn stefnumið í leikhúsinu og fjármál og rekstur þess, hafi skipaði honum framar H við ákvörðun um ráðninguna. H taldist ekki hafa sýnt fram á að þetta mat hafi verið ómálefnalegt og var því ekki fallist á að henni hefði verið mismunað eftir kynferði.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Héraðsdómi var áfrýjað 22. ágúst 2003. Áfrýjandi krefst aðallega sýknu af kröfu stefndu en til vara lækkunar á skaðabótakröfu. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Málavöxtum og málsástæðum aðila er lýst í héraðsdómi. Eins og þar kemur fram auglýsti áfrýjandi starf leikhússtjóra laust til umsóknar 9. desember 2001 með umsóknarfresti til 9. janúar 2002. Í auglýsingunni kom fram, að óskað væri upplýsinga um menntun og reynslu umsækjenda auk hugmynda þeirra um listræn stefnumið. Meðal verkefna leikhússtjóra samkvæmt erindisbréfi frá 1998 er tillögugerð um val verkefna, sem stjórn áfrýjanda fær til umsagnar en leikhúsráð tekur ákvörðun um, ráðning leikstjóra, leikmyndagerðarmanna, leikara og annars starfsfólks, hagsmunagæsla fyrir leikhúsið út á við og stjórnun allrar starfsemi innan þess auk ritstjórnar leikskrár. Leikhússtjóri skal hafa samráð við fjárreiðustjóra um ráðningar starfsmanna og aðrar fjármálalegar skuldbindingar. Þá er í erindisbréfinu vísað í bréf um verkaskiptingu og samstarf leikhússtjóra, fjárreiðustjóra og formanns leikhúsráðs, en það hefur ekki verið lagt fram í málinu.
Tólf sóttu um starf leikhússtjóra, ellefu karlar og ein kona, Hrafnhildur Hafberg. Hún og Þorsteinn Bachmann auk þriðja umsækjanda voru boðuð til viðtals við leikhúsráð, en með bréfi 8. febrúar 2002 var Hrafnhildi tilkynnt, að Þorsteinn hefði verið ráðinn leikhússtjóri. Hún óskaði eftir rökstuðningi vegna þessa og var hann látinn í té 4. mars 2002 með bréfi formanns leikhúsráðs, sem jafnframt var á þessum tíma framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu.
Í framangreindum rökstuðningi kom meðal annars fram, að leikhúsráði hafi verið það kappsmál að auka hlut kvenna í leikhúsinu auk þess sem það hafi verið lagaleg skylda, eftir því sem við yrði komið. Helsta ástæða þess, að Hrafnhildur Hafberg hafi verið kölluð til viðtals, hafi verið menntun hennar, sem leikhúsráð hafi álitið mikla og breiða og talið geta nýst vel í þessu starfi, þótt hún væri ekki nema að litlu leyti á sviði leiklistar. Einnig hafi það vegið þungt, að Hrafnhildur er kona. Hins vegar hafi leikhúsráð strax verið meðvitað um það, að reynsla hennar væri lítil eftir nám og takmörkuð varðandi stjórnun á sviði leiklistar. Eftir nákvæman samanburð á þeim þremur umsækjendum, sem rætt var við, um „formlega“ hæfni, menntun og reynslu á sviði leiklistar, uppbyggingar- og samfélagsstarfs og stjórnunar hafi verið ljóst, að bæði Þorsteinn Bachmann og fleiri umsækjendur yrðu að teljast hæfari en Hrafnhildur. Enginn vafi léki á því, að hún hefði lengri háskólamenntun en flestir umsækjenda, þar á meðal Þorsteinn, en hann hefði hins vegar meiri og fjölbreyttari menntun á sviði leiklistar og mun meiri reynslu af starfi að leikhúsmálum, víða um land og erlendis, og hlyti að mega segja það sama um fleiri umsækjendur. Eftir viðtöl við þrjá umsækjenda hafi það verið skoðun leikhúsráðs, að Þorsteinn hefði skýrustu, framsæknustu, víðsýnustu og raunhæfustu hugmyndirnar um rekstur leikhússins, þótt margt áhugavert hefði einnig komið fram í viðtölunum við hina. Í bréfi formanns leikhúsráðs var að lokum tekið fram, að það væri brot á jafnréttislögum að ráða konu í starf, ef umsækjandi af karlkyni væri hæfari. Það væri samdóma álit leikhúsráðs, að ekki væri stætt á að ráða konu að þessu sinni, þar sem fleiri en einn karl væru hæfari miðað við það, sem fram hafi komið í auglýsingu um starfið, en auk þess hafi Þorsteini verið treyst best til starfans. Formaður leikhúsráðs og aðrir ráðsliðar komu fyrir héraðsdóm og staðfestu þetta álit og rökstuddu sjónarmið sín.
Hrafnhildur Hafberg kærði hina umræddu ráðningu í stöðu leikhússtjóra áfrýjanda til kærunefndar jafnréttismála 6. mars 2002 og lá álit nefndarinnar fyrir 1. júlí sama ár. Var niðurstaðan sú, að áfrýjandi var við ráðninguna talinn hafa brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96/2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
II.
Mál þetta var höfðað af Jafnréttisstofu vegna Hrafnhildar Hafberg með vísun til 5. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2000. Þar er Jafnréttisstofu veitt heimild til málshöfðunar til viðurkenningar á rétti kæranda á grundvelli álitsgerðar kærunefndar jafnréttismála samkvæmt 4. gr. laganna, þegar sérstaklega stendur á og ætla má, að úrskurður dómstóla geti haft víðtæk áhrif í átt til jafnréttis eða hagsmunir kæranda eru metnir þess eðlis, að mikilvægt þykir að fá úrlausn dómstóla. Samkvæmt heimild í 5. mgr. 3. gr. og 30. gr. nefndra laga hefur félagsmálaráðherra sett reglugerð nr. 47/2003 um starfsemi Jafnréttisstofu. Þar segir í 2. mgr. 9. gr., að framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu meti, að höfðu samráði við kæranda og með hliðsjón af umsögn kærunefndar jafnréttismála, hvort skilyrði málshöfðunar, sbr. 11. gr., svo og skilyrði laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla og reglugerðar þessarar sé fullægt. Ákvæði 5. mgr. 3. gr. laga nr. 96/2000 var aukið við frumvarp til laganna í meðförum Alþingis og kom fram í nefndaráliti félagsmálanefndar, að eðlilegt væri að hafa svipuð skilyrði til hliðsjónar við mat á heimild til málshöfðunar og kærunefnd jafnréttismála hefði áður stuðst við, þegar hún hefði beitt heimildinni.
Að þessu gættu er á það fallist með héraðsdómi, að ekki séu efni til að hnekkja mati setts framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu 9. október 2002 um skilyrði málshöfðunar.
III.
Í héraðsdómi er gerð grein fyrir menntun og reynslu umsækjendanna Hrafnhildar Hafberg og Þorsteins Bachmann um stöðu leikhússtjóra hjá áfrýjanda og er vísað til þess. Í auglýsingu um starfið var kallað eftir hugmyndum umsækjenda um listræn stefnumið og skiluðu þau bæði skriflegri greinargerð þar um. Í samanburðaryfirliti áfrýjanda, sem lagt var fyrir kærunefnd jafnréttismála, segir um Hrafnhildi, að hún hafi sýnt vel í viðtalinu við leikhúsráð, að hún hefði brennandi áhuga á starfinu. Hugmyndir hennar um listræna stefnu og verkefnaval virtust vera undir sterkum áhrifum frá námi hennar síðustu ár. Þær væru þó fremur ómótaðar og vantaði nokkuð upp á, að hún hefði skýra mynd af ýmsum hliðum leikhússtjórastarfsins, svo sem fjármálahliðinni. Um Þorstein var sagt, að hann hefði komið vel út í viðtalinu. Hann hefði tjáð af krafti brennandi áhuga sinn á að takast á við verkefnið og verið með skýrar hugmyndir um listræna stefnu og rekstrar- og markaðsstefnu. Hann hefði sýnt vel þekkingu sína á leikhúsinu, innviðum þess og rekstrarlegu og pólitísku umhverfi. Reynsla hans af markaðsmálum virtist dýrmæt í þessu samhengi. Eins og áður var rakið úr rökstuðningi formanns leikhúsráðs fyrir ákvörðun um ráðingu Þorsteins í stöðuna var hann talinn hafa skýrustu, framsæknustu, víðsýnustu og raunhæfustu hugmyndirnar um rekstur leikhússins. Ekki var tekið sérstaklega fram í auglýsingunni, að umsækjendur skyldu gera grein fyrir hugmyndum sínum um fjárhagslegan rekstur, markaðssetningu og innra starf leikhússins. Það takmarkaði þó ekki svigrúm áfrýjanda við ráðningu í stöðu leikhússtjóra, enda leiðir af eðli starfsins og má öllum vera ljóst, að þessi atriði séu meðal undirstöðuþátta þess.
Það er meginregla vinnuréttar, að atvinnurekandi hefur um það frjálsar hendur, hvern hann velur til starfa í sína þágu. Því vali eru þó settar þær skorður, sem leiddar verða af ákvæðum laga nr. 96/2000, þegar kona og karl sækja um sama starfið. Samkvæmt 1. mgr. 24. gr. laganna er atvinnurekendum óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Í 3. mgr. þessarar greinar er sett fram sú sönnunarregla, sem er í samræmi við ólögfestar reglur um sönnun í einkamálum fyrir íslenskum dómstólum, að séu leiddar líkur að beinni eða óbeinni mismunun vegna kynferðis meðal annars við ráðningu í starf skuli atvinnurekandi sýna fram á, að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
Þótt Hrafnhildur Hafberg hafi að baki lengra háskólanám en Þorsteinn Bachmann hefur ekki verið gert líklegt, að það nám eða önnur reynsla nýtist henni þannig, að hún verði talin jafnhæf eða hæfari honum til að stjórna leikhúsi. Leikhúsráð áfrýjanda, sem hefur það hlutverk samkvæmt lögum félagsins að ráða leikhússtjóra, mat það svo á grundvelli umsóknargagna, viðtala við umsækjendur og kynna sinna af þeim, að menntun og reynsla Þorsteins, sem nær öll var á sviði leiklistar, auk sjónarmiða hans um listræn stefnumið í leikhúsinu og fjármál og rekstur þess hafi skipað honum framar Hrafnhildi við ákvörðun um ráðninguna. Stefnda hefur ekki sýnt fram á, að þetta mat hafi verið ómálefnalegt, og verður ekki fallist á, að Hrafnhildi hafi verið mismunað eftir kynferði.
Samkvæmt þessu ber að sýkna áfrýjanda af kröfu stefndu. Rétt er, að stefnda greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Leikfélag Akureyrar, er sýkn af kröfu stefndu, Jafnréttisstofu vegna Hrafnhildar Hafberg.
Stefnda greiði áfrýjanda samtals 800.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 14. júlí 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 21. maí s.l., hefur Jafnréttisstofa, Hvannavöllum 14, Akureyri, höfðað hér fyrir dómi vegna Hrafnhildar Hafberg en gegn Leikfélagi Akureyrar, Hafnarstræti 57, Akureyri, með stefnu áritaðri um nægjanlega birtingu 24. október 2002.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að viðurkennt verði að við ráðningu í stöðu leikhússtjóra hjá stefnda í febrúar 2002 hafi félagið brotið gegn ákvæðum 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96, 2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Jafnframt krefst stefnandi skaðabóta til handa Hrafnhildi Hafberg kr. 958.754,- ásamt dráttarvöxtum skv. 9. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. ágúst 2002 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefnda gerir þær dómkröfur aðallega að félagið verði sýknað af kröfum stefnanda, en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst félagið málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Í máli þessu deila aðilar um hvort stefnda hafi við ráðningu í stöðu leikhússtjóra félagsins brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96, 2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
I.
Málavextir eru þeir að starf leikhússtjóra stefnda var auglýst laust til umsóknar í Morgunblaðinu 9. desember 2001 og var umsóknarfrestur til 9. janúar 2002. Fram kom í auglýsingunni að óskað væri eftir upplýsingum um menntun og reynslu umsækjenda svo og hugmyndum um listræn stefnumið.
Leikhússtjóri stefnda er ráðinn til þriggja ára. Helstu verkefni hans eru skilgreind í erindisbréfi. Samkvæmt erindisbréfi frá 1998 eru verkefni leikhússtjóra val á verkefnum, ráðning leikstjóra og annarra starfsmanna, gæsla hagsmuna félagsins út á við, samráð við fjárreiðustjóra um mannaráðningar og aðrar fjármála-skuldbindingar svo og ritstjórn leikskrár.
Tólf sóttu um starf leikhússtjóra í kjölfar auglýsingar stefnda, ellefu karlar og ein kona, Hrafnhildur Hafberg. Þrír umsækjendur voru boðaðir í viðtal hjá leikhúsráði, en samkvæmt lögum stefnda ræður leikhúsráð leikhússtjóra félagsins og setur honum erindisbréf. Meðal þeirra sem boðuð voru á fund leikhúsráðs voru Hrafnhildur Hafberg og Þorsteinn Bachmann. Hrafnhildur var kölluð í viðtal vegna umsóknar sinnar þann 29. janúar 2002. Með bréfi dags. 8. febrúar 2002 tilkynnti stefnda henni að Þorsteinn hefði verið ráðinn í starf leikhússtjóra.
Með bréfi dags. 13. febrúar 2002 óskaði Hrafnhildur Hafberg eftir rökstuðningi vegna ráðningar Þorsteins Bachmann í stöðu leikhússtjóra. Stefndi svaraði erindi Hrafnhildar með bréfi dags. 4. mars 2002.
Hrafnhildur Hafberg kærði umrædda ráðningu í stöðu leikhússtjóra stefnda til kærunefndar jafnréttismála með bréfi dags. 6. mars 2002. Í kæru sinni vísaði Hrafnhildur m.a. til 24. gr. laga nr. 96, 2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Álit kærunefndar jafnréttismála í máli Hrafnhildar Hafberg gegn stefnda lá fyrir 1. júlí 2002. Niðurstaða nefndarinnar var sú að stefnda hefði við ráðningu í stöðu leikhússtjóra brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96, 2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Með bréfi dags. 29. júlí 2002 óskaði lögmaður Hrafnhildar eftir því við stefnda að gengið yrði til samninga við hana á grundvelli niðurstöðu kærunefndar. Stefnda hafnaði þessari ósk stefnanda með bréfi dags. 29. ágúst 2002.
Þar sem formaður leikhúsráðs stefnda er jafnframt framkvæmdarstjóri Jafnréttisstofu skipaði félagsmálaráðherra Elsu S. Þorkelsdóttur framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu ad hoc vegna máls Hrafnhildar Hafberg þann 13. september 2002.
Hrafnhildur Hafberg óskaði eftir því með bréfi til Jafnréttisstofu dags. 2. október 2002 að Jafnréttisstofa höfðaði mál f.h. Hrafnhildar til viðurkenningar á rétti hennar á grundvelli álits kærunefndar jafnréttismála. Með bréfi setts framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu dags. 9. október 2002 var beiðni Hrafnhildar samþykkt og lögmanni hennar veitt fullt og ótakmarkað umboð til að koma fram og fara með málið fyrir dómstólum.
II.
Stefnandi segir mál þetta höfðað á grundvelli 5. mgr. 3. gr. laga nr. 96, 2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Markmið laga nr. 96, 2000 segir stefnandi vera að koma á og viðhalda jafnrétti á öllum sviðum samfélagsins, sbr. 1. gr. laganna. Atvinnurekendur gegni þýðingarmiklu hlutverki í því að ná fram markmiði laganna. Lögin leggi ýmsar skyldur á herðar atvinnurekendum í þessu skyni og setji skorður við ákvörðunum þeirra. Atvinnurekendum beri að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði. Einnig skuli þeir vinna sérstaklega að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja sinna eða stofnana og sjá til þess að störf flokkist ekki í kvenna- og karlastörf, sbr. 13. gr. laga nr. 96, 2000.
Málatilbúnað sinn kveður stefnandi byggja á því að Hrafnhildi Hafberg hafi verið mismunað á grundvelli kynferðis þegar ráðið hafi verið í starf leikhússtjóra stefnda í febrúar 2002. Með því að ganga fram hjá Hrafnhildi og ráða karl í starfið hafi stefnda brotið gegn lögum nr. 96, 2000 þar sem karlinn sem ráðinn var hafi haft mun minni menntun en kærandi auk þess sem reynsla hans hafi verið takmarkaðri, sbr. 23.-25. gr. laganna, en í 3. mgr. 24. gr. segi að ef leiddar séu líkur að beinni eða óbeinni mismunun við ráðningu í starf skuli atvinnurekandi sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun hans.
Stefnandi bendir á að í auglýsingu um starf leikhússtjóra hjá stefnda hafi þess verið óskað að umsækjendur gerðu grein fyrir menntun, reynslu og hugmyndum um listræn stefnumið. Telur stefnda að líta verði svo á að í auglýsingunni hafi komið fram þau atriði sem fyrst og fremst hafi átt að liggja til grundvallar væntanlegri ráðningu í stöðuna, sbr. m.a. bréf formanns stefnda dags. 4. mars 2002, en Hrafnhildur Hafberg hafi í umsókn sinni gert ítarlega grein fyrir þeim atriðum hvað hana varðaði. Óumdeilt sé að Hrafnhildur hafi, auk stúdentsprófs, BA gráðu í bókmenntum frá Háskóla Íslands með áherslu á leikbókmenntir og meistarapróf kennara frá sama skóla. Að auki hafi hún lokið MA prófi í leikhúsfræðum frá háskóla í Englandi. Segir stefnda viðurkennt af hálfu kærða að menntun kæranda hafi við mat á umsækjendum verið talin viðamikil og geta nýst vel í starfi leikhússtjóra, sbr. áðurnefnt bréf formanns stefnda. Þorsteinn Bachmann hafi fyrst og fremst, auk stúdentsprófs, lokið prófi í leiklist frá Leiklistarskóla Íslands.
Af öllu framanröktu og með vísan til starfslýsingar í erindisbréfi leikhússtjóra stefnda kveður stefnandi hafið yfir vafa að Hrafnhildur Hafberg hafi á grundvelli háskólamenntunar sinnar haft meiri menntun en Þorsteinn Bachmann á því sviði sem hér um ræði.
Stefnandi telur framlögð gögn sýna að bæði Hrafnhildur Hafberg og Þorsteinn Bachmann hafi haft nokkra reynslu í leikstjórn og uppsetningu leikrita auk reynslu af öðrum störfum tengdum leiksýningum. Þau hafi að þessu leyti haft nokkuð jafna stöðu og einnig þegar borin séu saman önnur störf er þau hafi gegnt. Hins vegar hafi hvorki Hrafnhildur né Þorsteinn haft sérstaka reynslu af leikhússtjórn eða störfum sem öldungis megi jafna til slíkra starfa.
Stefnandi segir að skv. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96, 2000 sé óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Þar sem Hrafnhildur Hafberg hafi haft meiri menntun en Þorsteinn Bachmann og starfsreynsla þeirra verið sambærileg hvíli á stefnda sú skylda, sbr. 3. mgr. 24. gr. laganna, að sýna fram á að aðrar ástæður en kynferði hafi legið til grundvallar ákvörðun félagsins um að ráða Þorstein í starfið. Í þessari skyldu felist að stefnda skuli á hlutrænan og málefnalegan hátt gera grein fyrir því hvaða aðrar ástæður hafi legið að baki ráðningunni.
Ekki verður að áliti stefnanda séð að í skriflegum greinargerðum Hrafnhildar og Þorsteins felist umtalsverður munur á áherslum hvað varðaði hugmyndir þeirra um listræn stefnumið. Þá tekur stefnandi sérstaklega fram að í auglýsingu um starfið hafi ekki komið fram að óskað væri eftir ráðagerðum umsækjenda um fjárhagslegan rekstur, markaðssetningu eða almennt innra starf leikhússins.
Stefnandi segir þær óljósu hugmyndir Þorsteins Bachmann sem vísað sé til í bréfi formanns stefnda dags. 4. mars 2002 ekki geta réttlætt að gengið var fram hjá Hrafnhildi Hafberg við ráðningu í stöðu leikhússtjóra stefnda.
Að öllu framangreindu athuguðu kveður stefnandi liggja fyrir að stefnda hafi við ráðningu í stöðu leikhússtjóra brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96, 2000.
Kröfu um greiðslu skaðabóta til handa Hrafnhildi Hafberg kr. 958.754,- ásamt dráttarvöxtum kveður stefnandi byggja á 28. gr. laga nr. 96, 2000 og almennum reglum skaðabótaréttarins. Krafan taki mið af 6 mánaða launum leikhússtjóra hjá stefnda að frádregnum þeim launum sem Hrafnhildur hafi haft á viðmiðunartímabilinu. Það byggist á dómvenju sem gildi um skaðabætur í vinnurétti vegna samningsrofs á ráðningarsamning, þ.e. að bætur taki mið af launum á uppsagnarfresti, en uppsagnarfrestur leikhússtjóra hjá stefnda sé 6 mánuðir skb. 9. gr. laga félagsins.
Stefnandi vísar um launakjör leikhússtjóra til framlagðs tölvupósts lögmanns stefnda en launin séu kr. 247.200,- á mánuði auk fastrar yfirvinnu, kr. 102.680,-. Mánaðarlaun leikhússtjóra séu því kr. 349.880,- auk 10,17 % orlofs eða samtals kr. 385.463,- en orlofskrafan byggi á orlofslögum nr. 30, 1987.
Kröfu um dráttarvexti kveður stefnandi byggja á IV. kafla laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu, einkum 9. gr. Krafist sé dráttarvaxta mánuði eftir dagsetningu bréfs þar sem krafist var skaðabóta, þ.e. 29. ágúst 2002.
III.
Í málatilbúnaði sínum víkur stefnda nokkuð að annmörkum á niðurstöðu og málsmeðferð kærunefndar jafnréttismála. Álit nefndarinnar er ekki á nokkurn hátt bindandi fyrir dóminn. Af þeim sökum telur dómurinn að túlka verði málatilbúnað stefnda svo að þau sjónarmið sem fram koma á nefndan hátt beinist að dóminum og úrlausn hans á málinu en ekki kærunefndinni.
Stefnda kveðst byggja sýknukröfu sína á því að ráðning Þorsteins Bachmann í starf leikhússtjóra hjá félaginu byggist á hlutlægum og málefnalegum sjónarmiðum þar sem eiginleikar og hæfileikar umfram aðra umsækjendur til að sinna starfinu hafi legið til grundvallar ákvörðun um ráðninguna. Ráðning Þorsteins hafi því ekki brotið gegn 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96, 2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Stefnda segir stefnanda bera sönnunarbyrðina fyrir því að Hrafnhildur Hafberg hafi verið jafn hæf eða hæfari en Þorsteinn Bachmann. Stefnanda hafi ekki tekist slík sönnun.
Stefnda segir að í úrskurði kærunefndar jafnréttismála sé að finna þá niðurstöðu nefndarinnar að Hrafnhildur Hafberg hafi haft meiri „formlega menntun“ (sic) en Þorsteinn Bachmann. Þessa niðurstöðu kveður stefnda órökstudda auk þess sem óljóst sé hvað nefndin eigi við með „formlegri menntun“.
Stefnda segir að þegar metið sé hver hafi besta menntun til að gegna ákveðnu starfi skipti mestu máli að athuga hver umsækjenda sé best menntaður til að gegna því tiltekna starfi. Í þessu tilfelli starfi leikhússtjóra stefnda. Stefnda hafi því óskað eftir upplýsingum um menntun í því skyni að leggja mat á umrætt atriði, ekki til að sjá hver hefði lengsta háskólamenntun að baki. Hrafnhildur Hafberg hafi vissulega að baki lengri háskólamenntun en Þorsteinn Bachmann en ekki nema að litlu leyti á sviði leiklistar- og leikhúsmála. Af háskólanámi hennar sé aðeins lítill hluti, u.þ.b. eitt ár, á sviði leiklistar. Þorsteinn hafi hins vegar stundað nám tengt leiklist og leikstjórn auk námskeiða í tæp 7 ár, þar af 4 ár í skóla þar sem nám sé talið jafngilda námi á háskólastigi. Þorsteinn hafi því haft, eins og reyndar fleiri umsækjendur, mun meiri menntun og starfsreynslu á sviði leikhúsmála en Hrafnhildur. Því geti hún ekki talist hafa sömu menntun til starfsins og Þorsteinn sem hafi mun víðtækari og betri menntun varðandi leikhússtarf. Við mat á menntun umsækjenda hafi lengd eða umfang hinnar formlegu menntunar ekki sjálfstæða þýðingu enda væri ráðningarferli, viðtöl við umsækjendur ofl., óþarft í því tilviki. Mestu varði hver menntunin sé og hvernig hún nýtist umsækjendum til að gegna umræddu starfi. Kveður stefnda stefnanda ekki hafa á neinn hátt sýnt fram á að menntun Hrafnhildar hefði nýst henni þannig að hún yrði talin jafnhæf eða hæfari en Þorsteinn til að gegna stöðu leikhússtjóra, en sönnunarbyrðin um það hvíli á stefnanda skv. meginreglum um sönnun.
Stefnda kveðst mótmæla því að leggja megi reynslu Hrafnhildar Hafberg og Þorsteins Bachmann að meginstefnu til að jöfnu. Í starfi leikhússtjóra reyni skv. erindisbréfi einkum á tvenns konar hæfileika. Annars vegar þekkingu á leikhússtarfi og kunnáttu við val á verkefnum og hins vegar stjórnunarhæfileika, s.s. við ráðningu starfsfólks, hagsmunagæslu, stjórnun innri starfsemi leikhússins og ritstjórn leikskrár.
Við mat á umsækjendum segir stefnda skv. ofansögðu verða að líta til menntunar og starfsreynslu þeirra sem nýtist í starfi leikhússtjóra. Því sé nauðsynlegt að gera samanburð á menntun og reynslu umsækjendanna tveggja til að komast að raun um hvor þeirra hafi betri menntun og reynslu til að gegna starfi leikhússtjóra.
Stefnda segir Þorstein Bachmann hafa stundað leiklistarnám í Sanford Collage, Orlando, Florida í Bandaríkjunum, veturinn 1985-1986 og í Leiklistarskóla Helga Skúlasonar, leikara, veturinn 1986-1987. Hann hafi jafnframt tekið kúrsa í nútímaleikritun og í „Shakespeare“ hjá Martin Regal við Háskóla Íslands síðast nefndan vetur. Hann hafi verið við leiklistarnám við Leiklistarskóla Íslands 1987-1991 og lokið prófi frá Kvikmyndaskóla Íslands í desember 1992. Þá hafi hann sótt námskeið í látbragðsleik hjá Yves Lebraton auk fjölmargra annarra leik- og dansnámskeiða.
Hvað varðar reynslu Þorsteins Bachmann á sviði leikhússtjórnunar og leiklistar vísar stefnda til þess að hann hafi haft með höndum framkvæmdastjórn fjölmargra verkefna á sviði leiklistar og gerð kvikmynda en stór hluti af starfi leikhússtjóra felist í stjórnun. Þorsteinn hafi endurvakið Kvikmyndaskóla Íslands árið 1996 og verið formaður Samtaka listaskóla á Íslandi á námsárum sínum. Hann hafi kennt á mörgum tugum námskeiða í leiklist en Hrafnhildur á 2. Þá hafi Þorsteinn víðtæka reynslu af leikstjórn og leik í kvikmyndum, sjónvarpi og leikhúsum. Þannig hafi hann t.d. leikið í fjölmörgum leikritum og haft 19 leikstjórnarverkefni með höndum auk leikstjórnar myndefnis. Hrafnhildur Hafberg hafi hins vegar einungis unnið 5 leikstjórnarverkefni og ekki leikið í leikritum. Síðast en ekki síst hafi Þorsteinn Bachmann stundað markaðssetningu og fjáröflun á ýmsum vettvangi með góðum árangri en Hrafnhildur hafi litla reynslu á því sviði.
Af framangreindu segir stefnda ljóst að þó svo Hrafnhildur Hafberg hafi einhverja reynslu af leikhúsi búi Þorsteinn Bachmann yfir mun meiri reynslu á umræddu sviði. Þannig hafi Þorsteinn 11 ára starfsreynslu eftir útskrift úr Leiklistarskóla Íslands en Hrafnhildur eins og hálfs árs starfsreynslu eftir útskrift úr háskóla, aðallega við íslenskukennslu í menntaskóla. Fráleitt sé að leggja starfsreynslu Þorsteins og Hrafnhildar að jöfnu án rökstuðnings eða nokkurs mats á því hvaða störf þau hafi unnið og hversu lengi.
Stefnda segir þær hugmyndir um listræn stefnumið sem Þorsteinn Bachmann hafi sett fram í skriflegri umsókn sinni hafi að mati leikhúsráðs verið mun ítarlegri og skýrari en þær sem fram hafi komið í umsókn Hrafnhildar Hafberg og auk þess fallið betur að hugmyndum ráðsins. Þessi munur hafi komið enn skýrar fram í starfsviðtölum eins og fram komi í samanburðaryfirliti því sem lagt hafi verið til grundvallar við ákvörðunartökuna. Í umfjöllun um viðtalið komi fram það faglega mat leikhúsráðs að hugmyndir Hrafnhildar um listræna stefnu og verkefnaval hafi verið „...fremur ómótaðar og vantaði nokkuð upp á að hún hefði skýra mynd af ýmsum hliðum leikhússtjórastarfsins...“. Um Þorstein sé hins vegar sérstaklega tekið fram að hann hafi komið vel út úr viðtalinu og verið með „...skýrar hugmyndir um listræna stefnu...“.
Það er fjarri lagi að áliti stefnda að sönnunarreglur jafnréttislaga leiði til þess að félagið þurfi með skriflegum sönnunargögnum að sanna áðurrakið faglegt mat leikhúsráðs þar sem ekkert bendi til annars en matið hafi verið reist á málefnalegum sjónarmiðum. Stefnda kveðst alfarið hafna því að dóminum sé heimilt við úrlausn málsins að leggja sjálfstætt mat á hvaða sjónarmið hafi vegið þyngst við veitingu starfsins. Ekki verði byggt á öðru vægi hæfnisþátta en leikhúsráð stefnda lagði til grundvallar ákvörðun sinni enda hafi ákvörðun ráðsins byggt á málefnalegum sjónarmiðum.
Stefnda heldur því fram að auglýsing félagsins hafi ekki að neinu leyti takmarkað heimildir þess til að byggja ákvörðun um ráðningu m.a. á sjónarmiðum er tengst hafi hugmyndum umsækjenda um fjárhagslegan rekstur leikhússins og markaðssetningu. Þó það hafi ekki verið sérstaklega tekið fram í auglýsingunni hafi umsækjendum mátt vera fullljóst að þekking þeirra og hugmyndir um fjárhagslegan rekstur félagsins skiptu miklu máli við ráðningu enda eitt af helstu verkefnum leikhússtjóra að hafa umsjón með fjárhagslegum rekstri leikhússins í samráð við fjárreiðustjóra, sbr. 10. gr. laga stefnda og erindisbréf leikhússtjóra. Þorsteinn Bachmann hafi gert ítarlega grein fyrir sýn sinni á rekstur leikhússins í skriflegum gögnum með umsókn sinni en ekki Hrafnhildur Hafberg. Í starfsviðtali hafi hún verið spurð sérstaklega út í þennan þátt en svo virst sem hún hafi ekki haft skýra mynd af honum, sbr. það er fram kemur á áðurnefndu samanburðaryfirliti. Í yfirlitinu hafi hins vegar verið sérstaklega tekið fram að Þorsteinn hefði skýrar hugmyndir um rekstrar- og markaðsstefnu. Það hafi verið mat stefnda að Þorsteinn hafi ótvírætt haft skýrustu, framsæknustu, víðsýnustu og raunhæfustu hugmyndirnar um rekstur leikhússins. Til þessa hafi leikhúsráð litið við ráðningu í starf leikhússtjóra enda um fyllilega málefnaleg sjónarmið að ræða sem verið hafi í samræmi við starfssvið leikhússtjóra.
Stefnda segir meðlimi leikhússráðs hafa þekkt persónulega til starfa Þorsteins Bachmann og Hrafnhildar Hafberg. Þekking og reynsla leikhúsráðs af þeirra fyrri störfum hafi að sjálfsögðu haft þýðingu þegar kom að töku ákvörðunar um ráðningu í stöðu leikhússtjóra. Þá hafi einnig skipt máli hvernig umsækjendur komu út í starfsviðtali en þar hafi Þorsteinn komið mun betur út en Hrafnhildur. Alkunna sé að við ráðningu í starf líti vinnuveitendur til eigin reynslu af starfsmanni, ef henni sé til að dreifa, sem og framgöngu umsækjenda í starfsviðtali. Slík sjónarmið séu að öllu leyti málefnaleg og þar sem þau hafi skipt máli við ráðninguna sé óheimilt að líta fram hjá þeim.
Samkvæmt öllu framansögðu segir stefnda ótvírætt að Þorsteinn Bachmann sé hæfari en Hrafnhildur Hafberg til að gegna starfi leikhússtjóra stefnda, hvort sem litið sé til menntunar til starfsins, starfsreynslu, listrænna sjónarmiða, sjónarmiða um fjárhagslegan rekstur eða annarra sjónarmiða sem máli hafi skipt við ákvörðunina. Samkvæmt því hafi ekki á neinn hátt verið brotið gegn 1. mgr. 24. gr. eða öðrum ákvæðum laga nr. 96, 2000. Þá sé það meginregla vinnuréttar að það er vinnuveitandi sem ræður því hvern hann kýs að ráða til vinnu. Ákvæði laga sem takmarki þennan rétt beri að túlka þröngt. Því beri að sýkna af viðurkenningarkröfu stefnanda sem og skaðabótakröfu enda byggist skaðabótaskylda skv. 28. gr. laga nr. 96, 2000 á því að brotið sé gegn lögunum auk þess sem lögmæt ákvörðun um ráðningu skapi öðrum umsækjendum engan bótarétt samkvæmt almennum skaðabótareglum.
Sýknukröfu sína kveðst stefnda jafnframt byggja á því að stefnanda bresti lagaskilyrði til að höfða málið. Stefnandi eigi ekki aðild að skaðabótakröfunni og beri því að sýkna stefnda af henni skv. 2. mgr. 16. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991. Málshöfðunarheimild Jafnréttisstofu skv. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 96, 2000 sé við það bundin að ætla megi að „úrskurður dómstóla geti haft víðtæk áhrif í átt til jafnréttis eða hagsmunir eru metnir þess eðlis að mikilvægt þykir að fá úrlausn dómstóla.“ Af lögskýringargögnum megi ótvírætt ráða að ætlunin hafi verið að um mjög þrönga undantekningarheimild yrði að ræða. Því fari hins vegar fjarri að dómur í máli þessu geti haft víðtæk áhrif í átt til jafnréttis eða að hagsmunir Hrafnhildar Hafberg af kröfum í málinu séu slíkir að hin þröngu skilyrði fyrir málshöfðun stefnanda séu uppfyllt. Mál þetta sé hreinræktað skaðabótamál og því fari fjarri að hin þrönga heimild stefnanda til málshöfðunar geti leitt til þess að stefnandi hafi málshöfðunarrétt í skaðabótamáli Hrafnhildar gegn stefndu. Í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 96, 2000 sé engin heimild til handa stefnanda að höfða dómsmál til heimtu skaðabóta. Aðildarskortur sé því fyrir hendi í málinu sem leiði til sýknu.
Þá heldur stefnda því fram að málsmeðferð kærunefndar jafnréttismála hafi verið haldin svo verulegum annmörkum að ekki verði á áliti hennar byggt í málinu en málsókn stefnanda byggi algerlega á áliti nefndarinnar.
Varakröfu sína kveður stefnda byggja á því að kröfur stefnanda séu allt of háar og í ósamræmi við meginreglur skaðabótaréttar. Skaðabótakrafan taki mið af 6 mánaða launum leikhússtjóra. Stefnda segir dómvenju þá sem stefnandi vísi til í stefnu en geri enga tilraun til að rökstyðja skipti hér engu máli enda hafi ekki verið um að ræða rof ráðningarsamnings heldur meinta ólögmæta ráðningu. Engin dómvenja sé til um að skaðabætur vegna ólögmætrar ráðningar skuli taka mið af launum á uppsagnarfresti en sönnunarbyrðin um slíka venju hvíli á stefnanda. Þvert á móti standi almennar skaðabótareglur til þess að bæta skuli raunverulegt tjón tjónþola vegna hinnar meintu ólögmætu ráðningar.
Stefnda kveður stefnanda ekki hafa lagt fram nein sönnunargögn fyrir tjóni Hrafnhildar Hafberg. Stefnda mótmælir bótakröfu stefnanda sem of hárri og órökstuddri og krefst lækkunar á henni.
IV.
Í 5. mgr. 3. gr. laga nr. 96, 2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla segir að þegar sérstaklega standi á og ætla megi að úrskurður dómstóla geti haft víðtæk áhrif í átt til jafnréttis eða hagsmunir kæranda séu metnir þess eðlis að mikilvægt þyki að fá úrlausn dómstóla geti Jafnréttisstofa höfðað mál til viðurkenningar á rétti kæranda á grundvelli álitsgerða kærunefndar jafnréttismála skv. 4. gr. Í lokamálslið 5. mgr. segir síðan að ráðherra setji í reglugerð nánari fyrirmæli um skilyrði fyrir málshöfðunarheimild Jafnréttisstofu.
Með bréfi dags. 10. september 2002 óskaði Hrafnhildur Hafberg eftir því við Félagsmálaráðuneytið að það upplýsti hana um hvert hún gæti beint ósk sinni um málshöfðun á grundvelli tilvitnaðrar lagagreinar þar sem framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu væri jafnframt formaður leikhúsráðs stefnda. Með bréfi dags. 13. september 2002 setti félagsmálaráðherra Elsu S. Þorkelsdóttur framkvæmdastjóra ad hoc „... til að sinna skyldum samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 gagnvart Hrafnhildi Hafberg. Er þar meðal annars um að ræða leiðbeiningarhlutverk og eftir atvikum ákvörðun á grundvelli 5. mgr. 3. gr. laganna.“ Hrafnhildur Hafberg sendi í kjölfarið settum framkvæmdastjóra ósk um að Jafnréttisstofa höfðaði mál til viðurkenningar á rétti hennar á grundvelli álitsgerðar kærunefndar jafnréttismála. Settur framkvæmdastjóri svaraði bréfi Hrafnhildar með bréfi dags. 9. október 2002. Í niðurlagi bréfs setts framkvæmdastjóra sagði: „Þegar mið er tekið af aðstæðum öllum er varða ofangreint mál, þ.m.t. þeirri umræðu og umfjöllun sem verið hefur um ofangreinda ráðningu og þá aðila sem þar koma að, er fallist á það mat yðar (lögmanns HH) að kærandi hafi verulega hagsmuni af því að fengin verði úrlausn dómstóla um ágreiningsefnið. Þá ber og að hafa í huga að samkvæmt upplýsingum frá Jafnréttisstofu hefur engu ágreiningsefni verið vísað til dómstóla á grundvelli núgildandi laga. Hefur því enn ekki reynt á hinar nýju sönnunarreglur fyrir dómstólum sem m.a. er kveðið á um í 3. mgr. 24. gr. laganna. - Fallist er því á beiðni yðar f.h. Hrafnhildar Hafberg.“
Eins og að framan hefur verið rakið skipaði félagsmálaráðherra Elsu S. Þorkelsdóttur framkvæmdastjóra Jafnréttisstofu ad hoc til þess m.a. að meta hvort skilyrði 5. mgr. 3. gr. laga nr. 96, 2000 væru uppfyllt í umræddu tilviki. Liggur rökstutt mat hennar fyrir í síðastnefndu bréfi. Að þessu athuguðu og þar sem reglugerð sú sem nefnd er í 5. mgr. 3. gr. i.f. hefur ekki verið sett er það mat dómsins að hann hafi engar forsendur til að hnekkja umræddu mati setts framkvæmdastjóra. Mál þetta telst því réttilega höfðað af stefnanda.
Stefnandi máls þessa tók þann kost að fella niðurstöðu kærunefndar jafnréttismála í máli nefndarinnar nr. 3/2002: Hrafnhildur Hafberg gegn Leikfélagi Akureyrar, óbreytta inn í kafla þann í stefnu er ber fyrirsögnina „Málsástæður og lagarök“. Með því gerði stefnandi þær málsástæður og lagarök sem fram koma í niðurstöðu nefndarinnar að sínum.
Í málinu liggur fyrir erindisbréf leikhússtjóra stefnda frá því í janúar 1998. Að mati dómsins var leikhúsráði stefnda heimilt að hafa erindisbréfið til hliðsjónar við mat á umsækjendum enda eru þau atriði sem nefnd eru í erindisbréfinu í eðlilegum tengslum við auglýsingu félagsins um starf leikhússtjóra. Tekið skal fram í tilefni af framkomnum mótmælum stefnanda að dómurinn telur felast í fyrirsögn auglýsingarinnar; „Leikhússtjóri“ að um stöðu yfirmanns leikhússins sé að ræða. Eðli málsins samkvæmt hljóta slíkir yfirmenn að koma með einhverjum hætti að fjármálum þeirrar stofnunar sem þeim er falið að stýra. Var leikhúsráði því heimilt að horfa til slíkra atriða við ráðningu í starfið.
Samkvæmt gögnum málsins lauk Hrafnhildur Hafberg stúdentsprófi 1987. Árin 1989-1990 lagði hún stund á frönsku við Háskóla Íslands og 1997 lauk hún BA prófi í íslenskum bókmenntum frá skólanum með áherslu á leikhúsbókmenntir. Árið 1999 lauk hún meistaraprófi kennara frá síðastnefndum skóla og ári síðar MA gráðu í „Contemporary Theatre Practice“ frá University of Essex í Englandi með aðaláherslu á praktíska þætti leikhúss. Þá tók hún þátt í sumarnámskeiði í Physical Theatre í School of Physical Theatre í London 2001. Þorsteinn Bachmann hins vegar lauk stúdentsprófi árið 1985. Hann lagði stund á leiklist við Sanford Collage, Orlando, Florida í Bandaríkjunum, veturinn 1985-1986 og nám við Leiklistarskóla Helga Skúlasonar veturinn 1986-1987. Þá tók hann kúrsa í nútímaleikritun og í „Shakespeare“ hjá Martin Regal við Háskóla Íslands veturinn 1986 til 1987. Á árunum 1987-1991 lagði hann stund á nám í leiklist við Leiklistarskóla Íslands 1987-1991 og lauk prófi frá Kvikmyndaskóla Íslands í desember 1992. Þá hefur hann sótt námskeið í látbragðsleik hjá Yves Lebraton og að auki fjölmörg leik- og dansnámskeið.
Af því sem að framan er rakið um menntun Hrafnhildar Hafberg liggur fyrir að hún hefur lokið þremur prófgráðum við háskóla, þar af tveimur meistaraprófsgráðum. Verður ekki séð annað en menntun Hrafnhildar hefði getað nýst henni vel í starfi leikhússtjóra stefnda sérstaklega þegar horft er til þess að eitt af veigamestu hlutverkum leikhússtjóra skv. áðurnefndu erindisbréfi er val á verkefnum. Hrafnhildur hefur hins vegar ekki skv. gögnum málsins lagt stund á nám sem sérstaklega tengist rekstri eða fjármálastjórn.
Samkvæmt gögnum málsins er nám við Leiklistarskóla Íslands umfangsmesta nám Þorsteins Bachmann. Það nám og annað sem hann hefur lokið og áður var rakið telur dómurinn vera líklegt til að nýtast honum í starfi leikhússtjóra stefnda og er einkum horft til þess mikilvæga hlutverks leikhússtjóra við verkefnaval sem áður var nefnt. Líkt og í tilviki Hrafnhildar liggur hins vegar ekki fyrir að Þorsteinn hafi lagt stund á nám sem tengist rekstri eða fjármálastjórn.
Þegar námsferlar umsækjendanna tveggja eru bornir saman þykir dóminum, einkum m.t.t. lengdar námsins, viðfangsefnis þess og á hvaða stigi það var stundað, nægilega fram komið að menntun Hrafnhildar Hafberg vegi þyngra en menntun Þorsteins Bachmann við mat á því hvort þeirra teljist hæfara til að gegna starfi leikhússtjóra stefnda.
Í málinu liggja fyrir ítarlegar upplýsingar um starfsferil umsækjendanna tveggja, t.d. í ferilskrá og viðbót við kæru til kærunefndar jafnréttismála hvað Hrafnhildi Hafberg varðar og í greinargerð hvað Þorstein Bachmann varðar. Af þessum gögnum telur dómurinn ljóst að bæði hafa þau margþætta starfsreynslu tengda leikhúsum og leiklist. Þorsteinn hefur þó stýrt umtalsvert fleiri leiksýningum en Hrafnhildur. Þá hafa umsækjendur bæði nokkra reynslu af rekstri, m.a. af framkvæmdastjórn ýmissa verkefna.
Þegar litið er til lengdar starfsferils umsækjendanna tveggja telur dómurinn liggja fyrir að Þorsteinn Bachmann hafi talsvert lengri starfsferil að baki, einkum þegar horft er til starfsreynslu eftir að menntunar var aflað. Telur dómurinn starfsreynslu Þorsteins því vega þyngra en starfsreynslu Hrafnhildar við mat á því hvort þeirra teljist hæfara til að gegna starfi leikhússtjóra stefnda.
Að öllu framangreindu töldu er það niðurstaða dómsins að á grundvelli menntunar og starfsreynslu verði ekki gert upp á milli hæfni Hrafnhildar Hafberg og Þorsteins Bachmann til að gegna starfi leikhússtjóra stefnda.
Í málinu liggur fyrir skjal um samanburð á umsækjendunum tveimur. Þar er sérstaklega vikið að mati á tveimur af þeim þremur umsækjendum sem teknir voru í viðtal vegna ráðningarinnar, þ.e. Hrafnhildi Hafberg og Þorsteini Bachmann. Þar segir um Hrafnhildi: „Hrafnhildur sýndi vel í viðtalinu að hún hefur brennandi áhuga á starfinu. Hugmyndir hennar um listræna stefnu og verkefnaval virðast undir sterkum áhrifum frá námi hennar síðustu ár. Þær voru þó fremur ómótaðar og vantaði nokkuð upp á að hún hefði skýra mynd af ýmsum hliðum leikhússtjórastarfsins, s.s. fjármálahliðinni.” Um Þorstein segir hins vegar: „Þorsteinn kom vel út úr viðtalinu. Hann tjáði af krafti brennandi áhuga sinn á að takast á við verkefnið, var með skýrar hugmyndir um listræna stefnu, rekstrar- og markaðsstefnu. Hann sýndi vel þekkingu sína á leikhúsinu, innviðum þess og rekstrarlegu og pólitísku umhverfi. Reynsla hans af markaðsmálum og uppbyggingarstarfi gegnum tíðina virðist dýrmæt í þessu samhengi. Þorsteinn er nýfluttur til Akureyrar og býr hér ásamt sambýliskonu sinni, sem starfar við leikhúsið. Hann hefur starfað við leikhús víða um land og lönd.” Samkvæmt áritun á þann hluta skjalsins sem rakinn hefur verið er mat þetta framkvæmt af formanni leikhúsráðs stefnda.
Auk samanburðarskjalsins liggja fyrir í málinu greinargerðir Hrafnhildar Hafberg og Þorsteins Bachmann um listræn stefnumið. Af málatilbúnaði stefnda má ráða að það sem m.a. hafi ráðið úrslitum um að Þorsteinn var ráðinn í starf leikhússtjóra hafi verið mat leikhúsráðs á greinargerðum þessum sem og huglægt mat ráðsins á umsækjendunum sem persónum. Ekki verður ráðið af gögnum málsins, þ.m.t. áðurnefndum samanburði, eða skýrslutökum fyrir dómi hvaða huglægu atriði það nákvæmlega voru sem gerðu Þorstein hæfari en Hrafnhildi í huga leikhúsráðs til að gegna umræddri stöðu. Þá hefur ekki verið sýnt fram á að hin listræna sýn Þorsteins, sem fram kemur í greinargerð hans, hafi fallið betur að hagsmunum stefnda en sú sýn sem fram kemur í greinargerð Hrafnhildar.
Niðurstaða mats á hæfni umsækjenda í skilningi 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96, 2000 verður ekki byggð á huglægu mati vinnuveitanda einu sér enda næðu lögin ekki markmiðum sínum ef byggja mætti á slíku mati. Að mati dómsins liggja ekki fyrir í málinu nein þau gögn er með réttu verða talin styðja áðurnefnt huglægt mat leikhúsráðs. Þannig liggja t.d. ekki fyrir neinar umsagnir um umsækjendur en þó kom fram í skýrslu formanns leikhúsráðs stefnda fyrir dómi að ráðið hefði haft slíkar umsagnir til hliðsjónar við ráðninguna. Að öllu töldu telur dómurinn því sannað að Hrafnhildur Hafberg hafi verið a.m.k. jafnhæf Þorsteini Bachmann til að gegna stöðu leikhússtjóra stefnda.
Samkvæmt 1. gr. laga nr. 96, 2000 er það markmið laganna að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagins. Þá segir í 1. mgr. 13. gr. laganna að atvinnurekendur skuli sérstaklega vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækis síns eða stofnunar og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- og karlastörf.
Í dómaframkvæmd hefur því ítrekað verið slegið föstu að jafnréttislög nái ekki tilgangi sínum nema þau séu túlkuð svo að sé ekki hægt að gera upp á milli umsækjanda um starf með tilliti til hæfni þeirra skuli ráða umsækjanda af því kyni sem er í minni hluta á viðkomandi starfssviði. Koma þessi lögskýringarsjónarmið skýrlega fram í kæru Hrafnhildar Hafberg, dags. 6. mars 2002, til kærunefndar jafnréttismála og einnig í viðbót Hrafnhildar við kæruna dags. 19. s.m., en bæði þessi skjöl hafa verið lögð fram í málinu.
Í kæru Hrafnhildar Hafberg til kærunefndar jafnréttismála dags. 6. mars 2002 sagði m.a. að fyrir lægi að engin kona gegndi nú starfi leikhússtjóra hjá atvinnuleikhúsum hér á landi. Í greinargerð stefnda til kærunefndarinnar sagði um þetta atriði að aðrir leikhússtjórar atvinnuleikhúsa á Íslandi væru karlar. Að þessum ummælum aðila athuguðum þykir mega slá því föstu að óumdeilt sé í málinu að konur hafi verið í minni hluta á því starfssviði sem starf leikhússtjóra stefnda tilheyrir. Þá liggja ekki fyrir í málinu upplýsingar um hvernig háttað var skipan yfirmannastarfa hjá stefnda er hin umdeilda ráðning fór fram.
Atvinnurekendum er skv. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96, 2000 óheimilt að mismuna umsækjendum um starf á grundvelli kynferðis. Eins og áður hefur verið rakið telur dómurinn sannað að Hrafnhildur Hafberg hafi verið a.m.k. jafnhæf Þorsteini Bachmann til að gegn stöðu leikhússstjóra stefnda. Ákvæði 3. mgr. 24. gr. laga nr. 96, 2000 og áðurnefnd lögskýringarsjónarmið leiða að þessu sögðu til þess að fella verður sönnunarbyrði á stefnda um að við þá ákvörðun félagsins að ráða Þorstein í starf leikhússtjóra hafi Hrafnhildi ekki verið mismunað á grundvelli kynferðis. Slík sönnun hefur stefnda ekki tekist sbr. það sem að framan hefur verið rakið og verður félagið að bera hallann af þeim sönnunarskorti.
Með vísan til alls framangreinds þykir mega slá því föstu að stefnda hafi við ráðningu Þorsteins Bachmann í stöðu leikhússtjóra mismunað Hrafnhildi Hafberg á grundvelli kynferðis og þannig brotið gegn 1. mgr. 24. laga nr. 96, 2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Í 21. gr. laga nr. 28, 1991, sem lög nr. 96, 2000 leystu af hólmi, sagði að féllist aðili ekki á tilmæli kærunefndar jafnréttismála skv. 20. gr. væri nefndinni heimilt að höfða mál til viðurkenningar á rétti kæranda í samráði við hann. Í lokamálslið greinarinnar sagði síðan að þetta gilti einnig þó ekki væri um skaðabótakröfu að ræða.
Í athugasemdum við frumvarp það er síðar varð að lögum nr. 96, 2000 er ekkert vikið að því að með lögunum stæði til að gera málshöfðunarrétt Jafnréttisstofu þrengri en málshöfðunarréttur kærunefndar jafnréttismála var skv. eldri lögum. Að því athuguðu og að teknu tilliti til orða 20. gr. laga nr. 28, 1991 i.f. þykir verða að skýra 5. mgr. 3. gr. laga nr. 96, 2000 svo að í orðunum „... til viðurkenningar á rétti kæranda á grundvelli álitsgerða kærunefndar jafnréttismála skv. 4. gr. ...“ felist m.a. heimild til að krefjast skaðabóta til handa þeim aðila er kærunefndin telur að á hafi verið brotið.
Með vísan til framangreinds brots stefnda á 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96, 2000 telur dómurinn að dæma verði stefnda til að greiða stefnanda skaðabætur til handa Hrafnhildi Hafberg þar sem félagið hafi með broti sínu valdið Hrafnhildi tjóni með saknæmum og ólögmætum hætti, sbr. 28. gr. laga nr. 96, 2000 og almennar reglur skaðabótaréttar. Við ákvörðun bóta þykir mega hafa hliðsjón af starfskjörum leikhússtjóra stefnda, þ.m.t. launakjörum, eftir því sem við á. Að öllu þessu athuguðu þykir bótakrafa sú sem stefnandi gerir í málinu til handa Hrafnhildi hófleg. Dæmist stefnda því til að greiða stefnanda vegna Hrafnhildar Hafberg kr. 958.754,- ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. ágúst 2002, sbr. 9. gr. laganna, til greiðsludags.
Með vísan til úrslita málsins, sbr. 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91, 1991 um meðferð einkamála, dæmist stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem hæfilega þykir ákvarðaður kr. 400.000,-.
Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson, dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Viðurkennt er að við ráðningu í stöðu leikhússtjóra stefnda, Leikfélags Akureyrar, í febrúar 2002 braut félagið gegn ákvæði 1. mgr. 24. gr. laga nr. 96, 2000 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla.
Stefnda greiði stefnanda, Jafnréttisstofu, vegna Hrafnhildar Hafberg, kr. 958.754,- ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38, 2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. ágúst 2002 til greiðsludags.
Stefnda greiði stefnanda kr. 400.000,- í málskostnað.