Hæstiréttur íslands
Mál nr. 441/2005
Lykilorð
- Opinberir starfsmenn
- Stjórnsýsla
- Áminning
- Uppsögn
|
|
Fimmtudaginn 9. mars 2006. |
|
Nr. 441/2005. |
Árni Jónsson(Björgvin Þorsteinsson hrl.) gegn Heilbrigðisstofnun Suðurlands (Guðjón Ólafur Jónsson hrl.) |
Opinberir starfsmenn. Stjórnsýsla. Áminning. Uppsögn.
Á var ráðinn til starfa sem heilsugæslulæknir hjá H árið 2001. Var ráðningin ótímabundin en uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Var honum sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara miðað við 1. apríl 2003 í kjölfar áminningar samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. H óskaði ekki eftir vinnuframlagi Á frá því honum var kynnt fyrirhuguð uppsögn til loka uppsagnarfrests. Á höfðaði mál á hendur H til heimtu skaðabóta vegna ólögmætrar uppsagnar og miskabóta vegna ófjárhagslegs tjóns. Jafnframt krafðist hann greiðslu fyrir svonefndar gæsluvaktir vegna þess tíma sem H óskaði ekki eftir vinnuframlagi hans og meðan á uppsagnarfresti stóð, en H greiddi Á föst mánaðarlaun á þessu tímabili. Talið var að stjórn H hafi verið rétt, með vísan til 44. gr. laga nr. 70/1996, að segja Á upp störfum vegna óheimilla fjarvista og óstundvísi eftir að hafa áður veitt honum áminningu fyrir sams konar hegðun, og að löglega hafi verið staðið að töku þessara ákvarðana. Þá var Á ekki talinn hafa sýnt fram á að hann ætti fram til loka uppsagnarfrests rétt til frekari greiðslna úr hendi H en hann hafði þegar fengið. Var H því sýknað af kröfum Á.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. október 2005. Hann krefst aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 28.113.350 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 1.215.935 krónum frá 1. ágúst 2003 til 31. desember 2003, af 4.890.131 krónu frá þeim degi til 31. desember 2004, af 12.458.975 krónum frá þeim degi til 31. desember 2005, af 20.254.884 krónum frá þeim degi til uppsögu dóms Hæstaréttar, en af 28.113.350 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst hann lægri fjárhæðar. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði eins og málið væri ekki gjafsóknarmál og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjandi var með samningi 9. október 2001 ráðinn til starfa hjá stefnda sem heilsugæslulæknir. Var ráðningin ótímabundin en uppsagnarfrestur þrír mánuðir. Honum var veitt áminning samkvæmt 21. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins 7. janúar 2003 og síðan sagt upp störfum 13. mars sama ár með þriggja mánaða fyrirvara miðað við 1. apríl. Fyrirhuguð uppsögn var kynnt áfrýjanda með bréfi 7. febrúar 2003 og óskaði stefndi ekki eftir vinnuframlagi áfrýjanda frá þeim tíma til loka uppsagnarfrests.
Áfrýjandi krefst í máli þessu skaðabóta vegna ólögmætrar uppsagnar og miskabóta vegna ófjárhagslegs tjóns. Jafnframt krefst hann greiðslu fyrir svonefndar gæsluvaktir vegna þess tíma sem stefndi óskaði ekki eftir vinnuframlagi hans og meðan á uppsagnarfresti stóð, en stefndi greiddi áfrýjanda föst mánaðarlaun á þessu tímabili. Áfrýjandi hefur í máli þessu ekki sýnt fram á að hann eigi fram til loka uppsagnarfrests rétt til frekari greiðslna úr hendi stefnda en hann hefur þegar fengið. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Árni Jónsson, greiði stefnda, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 13. júlí 2005.
Mál þetta höfðaði Árni Jónsson, kt. 300952-4539, Njálsgötu 10, Reykjavík, með stefnu birtri 19. október 2004, gegn Heilsugæslustöðinni í Hveragerði, kt. 420190-1829, Breiðumörk 25d, Hveragerði, sem þann 1. september 2004 var sameinuð nokkrum öðrum heilsugæslustöðvum á Suðurlandi undir nafni Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, kt. 670804-2750, Árvegi, Selfossi eins og nánar verður rakið síðar.
Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 28.113.350 krónur með hæstu lögleyfðu dráttarvöxtum samkvæmt 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2003 til greiðsludags auk málskostnaðar að mati dómsins. Til vara er krafist annarrar lægri fjárhæðar að mati dómsins. Krafist er málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri eigi gjafsóknarmál í samræmi við gjafsóknarleyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins honum til handa, dags. 15. nóvember 2004.
Stefndi gerir í málinu þær dómkröfur, aðallega að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda í málinu, en til vara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar. Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu auk virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð þann 16. júní sl.
Málsatvik.
Stefnandi hóf störf sem heilsugæslulæknir við Heilsugæslustöðina í Hveragerði um miðjan ágústmánuð 2001. Þann 9. október 2001 ritaði stefnandi undir ráðningarsamning skv. 42. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og var upphafsdagur ráðningarinnar 16. sama mánaðar.
Dagana 28. janúar til 8. febrúar 2002 fór fram viðhorfskönnun meðal sjúklinga á heilsugæslustöðinni þar sem mikill meirihluti þeirra lýsti yfir ánægju sinni með þjónustu stöðvarinnar og þar á meðal með störf læknanna. Í kjölfarið sendi heilbrigðis- og tryggingamálaráðneytið bréf til heilsugæslustöðvarinnar þar sem fagnað er niðurstöðum könnunarinnar og tekið fram að þær bendi til þess að allt starfsfólk hafi sinnt starfi sínu af alúð og metnaði og að vel hafi tekist að nýta þá auknu möguleika sem ný húsakynni og aukning á stöðugildum hafi skapað.
Í lok ágúst 2002 bárust þrjár kvartanir til heilsugæslustöðvarinnar vegna samskipta við stefnanda. Þannig ritaði kona í Þorlákshöfn bréf þann 23. ágúst þar sem kvartað var undan samskiptum við stefnanda. Hafði stefnandi verið kvaddur á heimili hennar og hélt hún því fram að stefnandi hefði verið upplýstur um að um utanlegsfóstur væri að ræða. Þrátt fyrir það hefði stefndi sent hana með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítalans án þess að fylgja henni þangað og hafi hann látið fylgja með bréf þar sem fram hafi komið að hún væri með kviðverki. Hélt hún því fram að það hafi vakið mikla athygli hjá þeim sem tóku á móti henni á bráðamóttöku spítalans að hún hafi ekki verið með neitt í æð og engin verkjastillandi lyf og að enginn læknir hefði verið með henni til fylgdar. Með bréfi þann 27. ágúst kvartaði félagsmálastjóri Hveragerðisbæjar yfir því að nafngreind kona sem væri skjólstæðingur hennar hefði sagt sér að stefnandi hefði neitað að meðhöndla hana þegar hún leitaði til hans á heilsugæslustöðina í Hveragerði. Hafi hann sagt henni að hún yrði að fara á slysadeild Borgarspítalans í Reykjavík því hann ætlaði ekki að smitast af henni. Hún hafi hins vegar ekki komist þangað og rétt getað komist heim til sín frá lækninum.
Loks sendi Sýslumaðurinn á Selfossi bréf til stjórnar heilsugæslustöðvarinnar þann 27. ágúst þar sem hann kvartaði undan tilteknum erfiðleikum í samstarfi stefnanda og þeirra lögreglumanna sem önnuðust sjúkraflutninga í Árnessýslu. Tiltók hann að svo virtist sem stefnandi hefði ekki lagt nægilega alúð í störf sín og dæmi væru um að hann hefði gefið rangar upplýsingar um veikindi og mein sjúklings þegar hann hafi verið beðinn um flutning.
Í byrjun september leitaði yfirlæknir heilsugæslustöðvarinnar, Marianne Brandson-Nielsen, til landlæknisembættisins vegna vandamála sem hún sagði að hefðu komið upp á stöðinni varðandi störf stefnanda sem læknis þar. Vegna þeirra kvartana og athugasemda sem komið höfðu fram í framangreindum bréfum og á fundinum með yfirlækninum hélt landlæknir síðan fund með stefnanda þann 6. september. Í minnisblaði embættisins vegna fundarins kemur fram að stefnandi hafi ekki kannast við gagnrýni á eigin störf frá íbúum Hveragerðis. Kemur þar og fram að hann hafi hins vegar fallist á að viðbrögð hans við meðhöndlun konu með utanlegsfóstur í Þorlákshöfn hafi ekki verið rétt og að hann telji sig hafa átt að fara með henni í sjúkrabifreiðinni til Reykjavíkur. Öðrum þeim kvörtunum sem ræddar voru á fundinum hafi stefnandi hins vegar lýst sig ósammála og hafi hann talið að ástæðu ósættisins mætti rekja til deilu við framkvæmdastjóra stöðvarinnar um húsnæðisaðstöðu þegar hann væri á vöktum í héraðinu. Var stefnandi hvattur af landlæknisembættinu til að halda fund með sjúkraflutningamönnum til að ræða samskipti hans og þeirra.
Með bréfi til Árna Magnússon, formanns stjórnar heilsugæslustöðvarinnar, þann 19. september sama ár skýrir yfirlæknir stöðvarinnar, Marianne Brandsson-Nielsen, frá samskiptaörðugleikum og trúnaðarbresti sem orðið hafi á milli hennar og stefnanda. Tiltekur hún í bréfinu nokkur dæmi um kvartanir sem skjólstæðingar heilsugæslustöðvarinnar hafi borið upp vegna samskipta við stefnanda, m.a. að hann hafi sýnt þeim lítinn áhuga og ekki sinnt þeim sem skyldi og hafi margir sjúklingar af þeim sökum hafnað að þiggja þjónustu Árna og þá fremur kosið að bíða í nokkra daga til að komast að hjá yfirlækninum. Enn fremur hafi stefnandi vanrækt að taka blóðsýni úr sjúklingum í tilvikum sem það væri hægt á Heilsugæslustöðinni í Hveragerði en þess í stað vísað þeim á heilsugæsluna á Selfossi. Þá tiltók yfirlæknirinn m.a. að stefnandi hafi átt í samskiptaörðugleikum við starfsfólk og að sjúkraflutningamenn hefðu kvartað undan samskiptum við hann.
Í samræmi við niðurstöðu fundar stefnanda og landlæknis þann 6. september hélt stefnandi fund þann 25. september með sjúkraflutningamönnum. Á fundinn mættu einnig sýslumaður og aðstoðarlandlæknir. Í minnisblaði sem Haukur Valdimarsson aðstoðarlandlæknir ritaði vegna fundarins kom fram að sjúkraflutningamenn hafi þar lýst yfir óánægju sinni með samstarfið við stefnanda og að þeir hafi sagt samskiptin við hann vera allt öðruvísi en þeir hafi þekkt frá öðrum læknum. Einnig hafi komið fram að stefnandi upplýsti þá lítið um það sem þeir teldu hann vita um raunverulegt ástand þeirra sjúklinga sem hann hafi beðið um flutning á. Í lok minnisblaðsins er síðan greint frá því að sjúkraflutningamenn hafi óskað mjög sterkt eftir því að stefnandi tæki til endurskoðunar vinnubrögð sín og samskipti við sjúkraflutningamenn og að ekki hafi annað verið hægt að skilja á stefnanda en að hann ætlaði að leggja sig fram við það í framtíðinni.
Þann 25. september 2002 sendi Árni Magnússon f.h. stefnda bréf til stefnanda undir yfirskriftinni fyrirhuguð áminning. Var stefnanda þar tilkynnt að stjórn heilsugæslustöðvarinnar hefði til skoðunar að veita honum áminningu fyrir óstundvísi, vanrækslu, vankunnáttu, óvandvirkni og ósæmilega og óhæfilega framkomu í starfi, sbr. 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996. Voru síðan ástæður fyrirhugaðrar áminningar raktar í níu liðum. Í lok bréfsins var loks tekið fram að hin fyrirhugaða ákvörðun stjórnarinnar væri áminning í skilningi fyrrgreindra laga og ef starfsmaður bætti ekki ráð sitt að veittri slíkri áminningu kynni það að leiða til þess að honum yrði sagt upp störfum, sbr. 44. gr. sömu laga. Var stefnanda síðan veittur frestur til miðvikudagsins 16. október 2002 til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum. Sá frestur var síðar framlengdur til 5. nóvember að ósk stefnanda. Stefnandi svaraði síðan bréfi stjórnarinnar með bréfi þann 28. október 2002 þar sem hann gerði athugasemdir og setti fram skýringar við þau níu atriði sem tilgreind voru í bréfinu sem aðfinnsluverð.
Heilsugæslustöðinni barst enn kvörtun vegna samskipta sjúklings við stefnanda þann 28. október 2002. Var stefnanda gefinn kostur á að koma athugasemdum sínum á framfæri við stjórn stöðvarinnar vegna þessa. Bárust athugasemdir frá stefnanda með bréfi, dags. 3. desember 2002.
Þann 7. janúar 2003 var síðan tekin um það ákvörðun í stjórn heilsugæslustöðvarinnar að veita stefnanda áminningu fyrir óstundvísi, vanrækslu, óvandvirkni og ósæmilega og óhæfilega framkomu í starfi, sbr. 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 fyrir ávirðingar sem tilgreindar voru í tl. 1, 3, 5, 8 og 9 en aðrar ávirðingar sem á stefnanda höfðu verið bornar og tilgreindar voru í tl. 1, 4, 6, 7, og 10 voru ekki taldar gefa tilefni til áminningar. Stefnandi var því áminntur fyrir eftirgreinda framkomu í starfi sínu:
1) Fyrir að hafa sýnt sjúklingum lítinn áhuga á stundum og ekki sinnt þeim sem skyldi og fyrir að vísa sjúklingum annað. Var því haldið fram að sjúklingar hefðu kvartað yfir þessu og jafnframt var vísað til faglegs álits yfirlæknis heilsugæslustöðvarinnar, sbr. lið 1 á bls. 5-6 í áminningarbréfi.
2) Fyrir að hafa sýnt vanrækslu, óvandvirkni og óhæfilega framkomu í starfi við meðferð tveggja sjúklinga, annars vegar Ingibjargar Jónsdóttur og hins vegar ungs drengs sem kvartaði undan verkjum og í samskiptum við sjúkraflutningamenn í Árnesþingi, sbr. lið 3 á bls. 6-7 í áminningarbréfi.
3) Fyrir að hafa í þremur tilvikum tekið kr. 2.000 fyrir vitjun og enga kvittun gefið út. Var á því byggt að framangreinda upphæð væri hvergi að finna í gjaldskrá heilsugæslustöðvarinnar. Var háttsemi þessi talin ósæmileg og óhæfileg, sbr. lið 5 á bls. 7 í áminningarbréfi.
4) Fyrir að hafa mætt yfir 30 sinnum, einum til einum og hálfum tíma, of seint til vinnu frá því í apríl 2002 þrátt fyrir að greiðfært væri til vinnu. Var þetta sagt byggt á skráningarkerfi heilsugæslustöðvarinnar og að það væri jafnframt í samræmi við athugasemdir annarra starfsmanna sem ítrekað hefðu bent á að stefnandi mætti of seint til starfa og skilaði ekki fullum vinnudegi. Brýnt var fyrir stefnanda að vinnutími hans væri frá 08.00 til 16.00 og ítrekað við hann að hann hefði ekki heimild til að fara á bifreið heilsugæslustöðvarinnar þá er hann væri ekki á vakt. Var vísað um þetta til liðar 8 á bls. 7 í áminningarbréfi.
5) Stjórn stefnda taldi framkomu stefnanda í starfi óhæfilega þar sem hann hafi átt í verulegum örðugleikum í samskiptum sínum við yfirlækni, framkvæmdastjóra og aðra starfsmenn stöðvarinnar. Var talið að hann hefði oftsinnis komið fram með offorsi gagnvart öðru starfsfólki, einkum yfirlækni og framkvæmdastjóra, sbr. lið 9 á bls. 7 í áminningarbréfi.
Rétt þykir að gera hér sérstaka grein fyrir sjónarmiðum aðilanna um hvernig atvik þróuðust eftir veitingu umræddrar áminningar.
Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hafi mætt til vinnu eins og venjulega dagana 8. og 9. janúar 2003 en þann dag hafi hann veikst og orðið að fara úr vinnu og hafi verið frá vinnu í tæplega tvær vikur. Í upphafi veikindanna hafi hann hringt þrívegis á stöðina og gert viðvart að hann kæmist ekki til vinnu vegna þeirra. Þegar ljóst hafi orðið að það drægist að hann myndi jafna sig hafi honum ekki þótt ástæða til að hringja á hverjum degi til að tilkynna sig veikan, en vottorð Árna Gunnarssonar læknis, sem staðfesti veikindi hans, hafi verið sent til heilsugæslustöðvarinnar. Stefnandi hafi síðan mætt á ný til vinnu sinnar 23. janúar 2003.
Á þessum tíma hafi tveir nánir vandamenn stefnanda látist og hafi jarðarför annars þeirra farið fram að morgni föstudaginn 24. janúar og hafi stjórnendur stöðvarinnar vitað af því. Þá hafi fyrir löngu verið búið að ákveða að yfirlæknir stöðvarinnar sæi um helgarvaktina 24.-26. janúar 2003 og hafi stefnandi kannað það sérstaklega áður en hann yfirgaf stöðina þann daginn. Jafnframt hafi legið fyrir síðan í desember að samkomulag hafi verið á milli stefnanda og framkvæmdastjóra stöðvarinnar um að stefnandi fengi launalaust leyfi dagana 27. janúar til 16. febrúar 2003, sbr. launaseðil hans dags. 1. mars 2003, þar sem fram kemur að hann hafi verið í launalausu leyfi frá 25. janúar til 16. febrúar 2003, og yfirlýsingu frá Fjársýslu ríkisins. Í þessu skyni hafði jafnframt verið auglýst eftir afleysingarlækni með auglýsingu á heimasíðu heimilislækna sem vistuð hafi verið þar þann 14. janúar 2003.
Lögmaður stefnanda hafi síðan sent bréf til stjórnarformanns heilsugæslustöðvarinnar, dags. 31. janúar 2003, þar sem ýmsum röksemdum í áminningarbréfinu hafi verið svarað, óskað hafi verið eftir því að áminningin væri afturkölluð og auk þess óskað eftir sátt á vinnustað.
Þegar stefnandi hafi aftur komið til starfa 17. febrúar 2003 hafi honum verið afhent tilkynning stjórnar heilsugæslustöðvarinnar um fyrirhugaða uppsögn, dags. 7. febrúar 2003, og að stjórnin óskaði ekki eftir frekara vinnuframlagi hans. Auk þess hafi þess verið getið að mætingu hafi verið áfátt, en á þeim tíma hafði stefnandi verið í launalausu leyfi með samþykki framkvæmdastjóra og yfirlæknis og afleysingarlæknir ráðinn í hans starf á meðan.
Af hálfu stefnda er því haldið fram að með áminningunni þann 7. janúar 2003 hafi stefnanda verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt ella kynni ráðningarsamningi hans að verða sagt upp án frekari fyrirvara, sbr. 44. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Áminningin hafi hins vegar virst hafa þveröfug áhrif á stefnanda. Framkoma hans við samstarfsmenn hafi ekki skánað, auk þess sem stefnandi hafi hagað viðveru sinni og mætingum eftir eigin geðþótta. Hinn 9. janúar 2003 hafi stefnandi horfið frá störfum án leyfis. Síðan hafi hann veikst og ekki mætt aftur til starfa fyrr en 23. janúar 2003 eftir hálfs mánaðar veikindi og þá einni og hálfri klukkustund of seint. Daginn eftir hafði stefnandi síðan boðað forföll til hádegis en eigi síður mætt þá of seint. Síðdegis næsta dag hafi stefnandi átt að hefja helgarvakt á heilsugæslustöðinni. Hann hafi hins vegar yfirgefið stöðina áður en reglubundnum vinnutíma lauk og í engu sinnt vakt sinni.
Stefnandi hafi nokkrum vikum áður óskað eftir launalausu leyfi frá 27. janúar - 16. febrúar 2003. Hafi þótt sjálfsagt að athuga hvort hægt væri að verða við því enda fengist einhver til að leysa stefnanda af á meðan. Hinn 8. janúar 2003 hafi framkvæmdastjóri stöðvarinnar tilkynnt stefnanda að enginn hefði fundist til að leysa hann af og gæti því ekki orðið af leyfinu. Stefnandi hafi þá brugðist hinn versti við og hafi framkvæmdastjórinn þá lofað að kanna málið frekar. Hafi hann þá m.a. athugað með fyrirspurn, sem birtist á vefsvæði Félags íslenskra heimilislækna hinn 14. janúar 2003, hvort möguleiki væri að fá lækni eða læknanema til afleysinga. Það hafi ekki reynst unnt og stefnanda því tilkynnt þegar hann kom aftur til starfa 23. janúar 2003 að útséð væri með að af launalausu leyfi hans gæti orðið. Hafi áður nokkrum sinnum verið reynt að ná í stefnanda símleiðis þar sem hann hafi verið veikur, en án árangurs. Þrátt fyrir að stefnanda hafi þar með bæði verið ljóst að hann hefði ekkert leyfi til fjarvista úr vinnu umrætt tímabil og að enginn væri til að leysa hann af, hafi hann ekki mætt til starfa 27. janúar 2003 eða næstu daga. Áður hafi hann með öllu látið hjá líða að sinna helgarvakt sinni 24. - 26. janúar svo sem honum hafi þó borið skylda til.
Við framangreinda háttsemi stefnanda hafi Heilsugæslustöðin Hveragerði ekki getað unað. Stefnanda hafi því verið tilkynnt með bréfi, dagsettu 7. febrúar 2003, að til skoðunar væri hvort segja ætti honum upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara frá og með 1. mars 2003. Hafi stefnandi þá verið fjarverandi án leyfis í hálfan mánuð.
Með bréfi, dags. 20. febrúar 2003, óskaði lögmaður stefnanda eftir fresti fyrir hans hönd til að koma fram sjónarmiðum vegna „hugsanlegrar uppsagnar”. Var frekari frestur til 13. mars 2003 samþykktur af lögmanni stefnda með bréfi, dags. 27. febrúar 2003. Lögmaður stefnanda skilaði svo andmælum og athugasemdum með bréfi dags. 13. mars 2003. Sama dag var stefnanda sagt upp störfum með þriggja mánaða fyrirvara vegna óstundvísi, óhæfilegrar og ósæmilegrar framkomu í starfi, og miðaðist uppsögnin við næstu mánaðamót á eftir. Ekki var óskað eftir frekara vinnuframlagi stefnanda og kom hann því ekki aftur til starfa á heilsugæslustöðinni.
Lögmaður stefnanda ritaði svo bréf til heilsugæslustöðvarinnar, dags. 7. ágúst 2003, þar sem ítrekuð var sú afstaða stefnanda að hann teldi á sér brotið, uppsögnin og hvernig að henni var staðið hafi verið ólögmæt og farið var fram á sanngjarnar bætur vegna hinnar ólögmætu uppsagnar. Þá var þess farið á leit við stjórnendur stöðvarinnar og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið að haldinn yrði fundur til lausnar á málinu. Framangreindri beiðni stefnanda var alfarið hafnað af stefnda með bréfi, dags. 26. ágúst 2003.
Fyrir liggur að með reglugerð um sameiningu heilbrigisstofnana nr. 457/2004 var Heilsugæslustöðin Hveragerði sameinuð Heilbrigðisstofnuninni Selfossi og heilsugæslustöðvunum Þorlákshöfn, Laugarási, Rangárþingi, Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustri undir nafni stefnda, Heilbrigðisstofnun Suðurlands. Tók sameiningin gildi 1. september 2004 og fer stefndi því með þau réttindi og skyldur sem áður voru í höndum Heilsugæslustöðvarinnar Hveragerði. Er stefndi því réttur aðili til varnar í máli þessu og er ekki ágreiningur um aðild hans.
Málsástæður stefnanda.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að áminningin og uppsögnin hafi hvorki uppfyllt skilyrði laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins né stjórnsýslulaga nr. 37/1993 og því sé uppsögnin ólögmæt og stefndi beri skaðabótaábyrgð á þessum ólögmætu gerningum skv. meginreglum skaðabótaréttar. Áminningin og uppsögnin séu stjórnvaldsákvarðanir og hafi stefnda borið að fara eftir reglum stjórnsýslulaga, starfsmannalaga og meginreglum stjórnsýsluréttarins. Stefnandi telji augljóst að málsmeðferðarreglur framangreindra laga hafi verið brotnar og því hafi stefndi bakað sér skaðabótaskyldu gagnvart honum og beri að bæta honum allt fjárhagslegt og ófjárhagslegt tjón sem hann hefur orðið fyrir vegna þessa.
Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar í fyrsta lagi á því, að áminning sú er honum var veitt þann 7. janúar 2003 hafi verið ólögmæt. Bornar hafi verið á hann rangar sakir í sumum þeim tilvikum, sem hann var áminntur fyrir og önnur tilvik hafi ekki verið þess eðlis að þau réttlættu slíka íþyngjandi ákvörðun sem áminning sé.
Í öðru lagi sé byggt á því að stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt eftir að honum var veitt áminning og þar af leiðandi hafi uppsögn hans verið ólögmæt. Stefnandi sé áminntur með bréfi, dags. 7. janúar 2003. Hann mæti til vinnu 8. og 9. janúar 2003. Hann hafi haft lögmæt forföll frá vinnu frá 10.-22. janúar 2003 vegna veikinda, 23. og 24. janúar 2003 mæti stefnandi til vinnu en fari að loknum vinnudegi þann 24. janúar 2003 í launalaust leyfi og mæti á ný að leyfi loknu þann 17. febrúar 2003 og hafi þá verið afhent bréf um hugsanlega uppsögn úr starfi. Hafi stefnandi því unnið í 4 vinnudaga frá áminningu er honum sé afhent bréf um hugsanlega uppsögn og ekki óskað eftir vinnuframlagi hans á meðan. Stefnandi hafi lagt fram læknisvottorð um veikindi sín og fyrir liggi yfirlýsing frá Fjársýslu ríkisins um að stefnandi hafi verið í launalausu leyfi frá 25. janúar til 16. febrúar 2003. Hafi tilkynning þess efnis borist frá stefnda. Þá staðfesti auglýsing eftir afleysingalækni að stefnanda hafi verið veitt leyfi frá störfum.
Lögbundinn tilgangur áminningar sé ekki sá að uppfylla einhver formskilyrði áður en starfsmaður sé rekinn. Tilgangur áminningar sé að láta vita um að eitthvað sé að og gefa starfsmanni sanngjarnan og eðlilegan frest til að bæta ráð sitt. Stefnandi geti ekki á þeim fjórum dögum sem hann hafi unnið eftir veitingu áminningar hafa gert neitt það af sér sem réttlætti uppsögn úr starfi. Stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt, þ.e. fara eftir og bæta úr því er talið var honum til ávirðinga í áminningarbréfi, en að vísu verði að taka það fram að stefnandi hafi talið að þær ávirðingar væru ekki á rökum reistar. Stefnandi telji hins vegar að það hafi þegar verið ákveðið síðsumars árið 2002 að bola honum úr starfi með einhverjum hætti og hafi stjórnendur stefnda í raun lagt hann í einelti auk þess að bera á hann sakir sem enginn fótur hafi verið fyrir.
Sú hraða atburðarás, það offors og það að stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt sé með ólíkindum og algert brot á lögum um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna nr. 70/1996, auk brots á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, svo ekki sé talað um eðlilegar samskiptareglur á vinnustað og eðlilega stjórnunarhætti vinnuveitanda. Hafi stefnda borið að gefa stefnanda sanngjarnan tíma til að bæta ráð sitt.
Stefnandi byggi á því að stefndi hafi brotið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Um hafi verið að ræða atvinnu stefnanda og hafi stefndu því borið að gæta hófs í beitingu valds síns í þessu tilfelli og hefði stefndi átt að gefa stefnanda kost á að bæta ráð sitt áður en til svo róttækra aðgerða var gripið.
Í þriðja lagi sé byggt á að brotið hafi verið gegn andmælarétti stefnanda en uppsögn stefnanda úr starfi sé dagsett sama dag og andmæli hans séu móttekin. Eitt af markmiðum með andmælarétti sé að gefa þeim sem ákvörðun beinist að rétt á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri svo sá sem taki ákvörðun hafi allar forsendur á borðinu er ákvörðun sé tekin. Beinast liggi við að álykta að uppsögnin hafi verið ákveðin áður en andmæli stefnanda voru tekin til skoðunar þar sem uppsögn komi sama dag og andmæli/athugasemdir við áminningu liggi fyrir. Vísi stefnandi sérstaklega til rafbréfs framkvæmdastjóra stefnda, dags. 10. febrúar 2003, þar sem framkvæmdastjórinn lýsi því yfir að stefnandi verði látinn fara, það sé endanleg niðurstaða. Telji stefnandi að með þessari málsmeðferð hafi stefnandi brotið gegn 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í fjórða lagi sé byggt á því að ómálefnalegar ástæður hafi legið að baki uppsögninni og mótmælt sé sannleiksgildi þeirra ávirðinga sem framkvæmdastjóri og yfirlæknir hafi borið á stefnanda. Sé því haldið fram af stefnanda að stjórnendur stefnda hafi leitað eftir því við nokkra aðila að þeir bæru fram kvartanir á hendur stefnanda beinlínis í þeim tilgangi að unnt væri að koma á hann höggi og veita honum áminningu sem uppsögn grundvallaðist síðan á.
Algjörlega ómálefnalegar aðstæður hafi verið að baki áminningunni og uppsögninni en það sé algjört skilyrði að málefnalegar aðstæður liggi að baki uppsögn. Sönnunarbyrði um að málefnalegar aðstæður hafi legið að baki áminningu og uppsögn hvíli á stefnda. Óvild framkvæmdarstjóra og yfirlæknis í garð stefnanda geta ekki talist málefnalegar ástæður. Viðhorfskönnun sem gerð hafi verið dagana 28. janúar 2002 til 8. febrúar 2002 hafi sýnt að mikill meirihluti sjúklinga lýsti ánægju sinni með störf allra lækna heilsugæslustöðvarinnar, en í kjölfar hennar hafi stöðin fengið viðurkenningarskjal frá heilbrigðis- og tryggingarmálaráðuneytinu. Viðhorfskönnunin hafi sýnt hug sjúklinga, viðskiptamanna heilsugæslustöðvarinnar, til vinnu stefnanda í máli þessu. Betri einkunn sé varla hægt að fá í starfi.
Í fimmta lagi sé byggt á því að rannsóknarskyldu hafi ekki verið sinnt af hálfu stefnda. Stefnandi telji að ekki hafi verið um nákvæma tímaskráningu að ræða hjá stefnda, engin stimpilklukka hafi verið á vinnustaðnum og því sé um algjörlega órökstuddar fullyrðingar að ræða þegar því sé haldið fram að hann hafi mætt illa til vinnu. Þá vísi stefnandi til þess að samkomulag hafi verið gert um að hann tæki fólksflutningabifreið frá Reykjavík til Hveragerðis ef veður væri vont eða færð slæm. Sé þetta viðurkennt í áminningarbréfi stefnda. Þá telji stefnandi jafnframt að þegar um yfirlýsta samstarfsörðugleika sé að ræða sem byggist á hugsanlegri óvild yfirlæknis og framkvæmdastjóra við starfandi lækni þá hvíli ríkari kröfur á stjórn stofnunarinnar að skoða málið ítarlegar heldur en gert hafi verið. Ekki sé einvörðungu unnt að byggja á fullyrðingum annars aðilans og hafi rannsóknarskyldu því ekki verið fullnægt og hafi stefndi því brotið gegn 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Í sjötta lagi telji stefnandi jafnframt að hæfisreglum stjórnsýslulaga hafi ekki verið fullnægt. Stjórnarformaður heilsugæslustöðvarinnar standi að ákvörðun um áminningu og uppsögn stefnanda og skrifi undir uppsagnarbréf til hans. Uppsögnin byggi á samskiptaörðugleikum yfirlæknis og framkvæmdastjóra við stefnanda en framkvæmdastjórinn og stjórnarformaðurinn skipuðu 1. og 2. sæti á lista Framsóknarflokksins við síðustu sveitarstjórnarkosningar í Hveragerði. Telur stefnandi að eðlilegast hefði verið af Árna Magnússyni að víkja sæti í þessu máli vegna tengsla hans við framkvæmdastjóra stefnda, Herdísi Þórðardóttur.
Í sjöunda lagi sé byggt á því að uppsögnin hafi ekki verið rökstudd sömu rökum og áminningin og ástæður uppsagnar séu sagðar fjarvistir á tímabili sem stefnandi hafi verið veikur eða í launalausu leyfi frá störfum, auk trúnaðarbrests og samstarfsörðugleika við framkvæmdastjóra og yfirlækni en meintur trúnaðarbrestur og meintir samstarfsörðugleikar séu ekki studdir neinum gögnum. Þvert á móti telji stefnandi trúnaðarbrestinn og samstarfsörðugleikana stafa af óvild yfirlæknis og framkvæmdastjórans í sinn garð og hann hafi komið með málefnalega afstöðu til allra þeirra atriða sem búið hafi verið að áminna hann fyrir og uppsögnin hafi verið reist á nýjum ásökunum.
Stefnandi telur sig hafa orðið fyrir verulegu fjárhagslegu og ófjárhagslegu tjóni vegna hinnar ólögmætu uppsagnar úr starfi. Hann hafi ekki fengið starf við sitt hæfi en hann sé bæði menntaður í almennum lækningum og tannlækningum. Hafi stefnandi t.d. sótt um starf læknis við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja, sem átt hafi í verulegum vandræðum með að fá lækna til starfa, en var synjað. Hafi hann þá hafið nám í sagnfræði við Háskóla Íslands haustið 2003.
Stefnandi vísar til laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, einkum 21. og 44. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1997, meginreglna stjórnsýsluréttar, meginreglna vinnuréttar og meginreglna kröfu-, skaðabóta- og samningaréttar. Kröfu um dráttarvexti styður stefnandi við IV. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.
Málskostnaðarkröfu sína kveðst stefnandi byggja á XXI. kafla laga nr. 19/1991, sérstaklega 130. gr. en kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggi hann á lögum nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt vegna þjónustu sinnar. Stefnandi máls þessa sé ekki virðisaukaskattskyldur og sé honum því nauðsyn að fá skattinn tildæmdan úr hendi stefnda.
Um varnarþing vísast til V. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Af hálfu stefnda er á því byggt að uppsögn stefnanda hinn 13. mars 2003 hafi bæði að formi og efni til í einu og öllu verið lögmæt og eigi hið sama einnig við um áminningu þá sem stefnanda hafi verið veitt 7. janúar 2003. Verði því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Í fyrsta lagi sé á því byggt af hálfu stefnanda að áminning hans hafi verið ólögmæt þar sem á hann hafi verið bornar rangar sakir, sem hann hafi verið áminntur fyrir, en önnur tilvik hafi ekki réttlætt áminningu. Af hálfu stefnda sé þessu mótmælt. Stjórn Heilsugæslustöðvarinnar Hveragerði hafi bæði verið rétt og skylt að bregðast við margítrekuðum kvörtunum um framkomu og framgöngu stefnanda í starfi. Hafi slíkar kvartanir borist alls staðar frá, bæði frá opinberum yfirvöldum, samstarfsfólki og sjúklingum.
Málið hafi verið rannsakað af hálfu stjórnarinnar, stefnanda gefinn ítrekaður frestur til að koma á framfæri athugasemdum sínum og niðurstaða um allar þær ávirðingar, sem á hann höfðu verið bornar, ítarlega rökstuddar í bréfi stjórnar til stefnanda, dagsettu 7. janúar 2003. Hafi þessar ávirðingar, sem nánar hafi verið tilgreindar í fimm tilteknum töluliðum, allar verið nægilega í ljós leiddar. Þær ávirðingar sem tilgreindar hafi verið í hverjum tölulið fyrir sig hafi einar sér gefið fullt tilefni til að veita stefnanda áminningu og ekki síður samkvæmt töluliðunum öllum saman. Vísast þar um til gagna málsins.
Eins og ítarlega sé rakið og rökstutt í greindu bréfi hafi stefnandi verið áminntur fyrir að hafa í fyrsta lagi sýnt af sér vanrækslu og óhæfilega framkomu í starfi með því að sinna ekki sjúklingum sem skyldi eins og nánar sé gerð grein fyrir í bréfinu. Í annan stað hafi stefnandi sýnt af sér vanrækslu, óvandvirkni og óhæfilega framkomu í starfi í samskiptum við sjúkraflutningamenn og sjúklinga svo sem þar sé lýst. Í þriðja lagi hafi stefnandi verið áminntur fyrir ósæmilega og óhæfilega framkomu í starfi með því að krefjast mun hærri greiðslu fyrir vitjun en heimilt hafi verið og gefa ekki út kvittun fyrir. Í fjórða lagi hafi stefnandi verið áminntur fyrir óstundvísi en hann hefði þá margítrekað mætt of seint til starfa. Í fimmta lagi hafi stefnandi verið áminntur fyrir óhæfilega framkomu gagnvart öðru starfsfólki heilsugæslustöðvarinnar, einkum yfirlækni og framkvæmdastjóra.
Byggi stefndi samkvæmt framansögðu á því að fyrrgreind áminning hafi bæði verið rétt að formi til og efni. Hafi stjórn Heilsugæslustöðvar Hveragerðis beinlínis verið skylt samkvæmt ákvæðum 21. gr. laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996 að veita stefnanda áminningu vegna þeirra atriða sem áður voru tilgreind.
Í öðru lagi byggi stefnandi á því að honum hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt eftir að honum hafi verið veitt áminning og sé uppsögn hans því ólögmæt. Stefnanda hafi verið veitt umrædd áminning 7. janúar 2003. Hafi honum þar verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt ella kynni ráðningarsamningi hans að verða sagt upp án frekari fyrirvara. Því miður hafi stefnandi hins vegar kosið að fara aðrar leiðir. Hann hafi horfið frá störfum án leyfis 9. janúar 2003, mætt of seint næst þegar hann mætti til vinnu 23. janúar og aftur 24. janúar 2003 þrátt fyrir að hafa þá fengið leyfi til hádegis. Síðastgreindan dag hafi stefnandi yfirgefið stöðina án leyfis áður en reglubundnum vinnutíma lauk. Öllu alvarlega hafi þó verið að stefnandi hafi í engu sinnt helgarvakt sem hann átti samkvæmt vaktaáætlun að sinna 24.-26. janúar 2003 og engar ráðstafanir gert til að henni yrði sinnt af öðrum. Hafi hending ein ráðið að yfirlæknir stöðvarinnar gat sinnt vaktinni í stað stefnanda. Þá hafi stefnandi ekki mætt til vinnu 27. janúar 2003 eða næstu daga á eftir án þess að hafa leyfi eða lögmæt forföll.
Stefndi mótmælir því sem röngu að fyrirspurn sú sem framkvæmdastjóri heilsugæslustöðvarinnar birti á heimasíðu Félags íslenskra heimilislækna í janúar 2003 staðfesti að stefnanda hafi verið veitt leyfi frá 25.janúar-16. febrúar 2003. Hið rétta sé að framkvæmdastjórinn hafi sagt að hann myndi kanna hvort hægt væri að fá einhvern til að leysa stefnanda af frá 27. janúar til 16. febrúar 2003. Hafi stefnanda verið fullkunnugt um að ekki væri hægt að veita honum leyfi frá störfum nema einhver fengist til að leysa hann af. Af hálfu framkvæmdastjóra hafi verið gripið til ýmissa aðgerða í þessum efnum, m.a. með fyrirspurn á umræddri heimasíðu. Komi þar og fram að framkvæmdastjórinn sé að athuga hvort möguleiki sé á að fá lækni eða læknanema til afleysinga síðastgreint tímabil. Enginn hafi fengist til að leysa stefnanda af og hafi honum verið tilkynnt um það 8. janúar 2003 og aftur þá er hann kom úr veikindaleyfi 23. sama mánaðar, en þá hefði framkvæmdastjóri gripið til frekari ráðstafana til að finna afleysingarmann. Í síðasta lagi þá hafi stefnanda orðið fullljóst að af launalausu leyfi hans frá 27. janúar gæti ekki orðið.
Því sé sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda að stefnandi hafi fengið launalaust leyfi frá 25. janúar-16. febrúar 2003. Vitanlega hafi ekki komið til álita að greiða stefnanda laun þann tíma sem hann hafi verið fjarverandi frá störfum. Því hafi framkvæmdastjóri heilsugæslustöðvarinnar hinn 14. febrúar 2003 sent tilkynningu þar um til Fjársýslu ríkisins á stöðluðu eyðublaði. Ekki sé þar gert ráð fyrir óheimilum fjarvistum á blaðinu og hafi framkvæmdastjóri því merkt við þann reit sem næst komst því að skýra að stefnandi ætti ekki að fá greidd laun frá því að hann hvarf úr vinnu 25. janúar 2003 til næsta sunnudags eftir sendingu tilkynningarinnar, þ.e. hinn 16. febrúar 2003. Í þessu hafi ekki falist nein viðurkenning af hálfu heilsugæslustöðvarinnar um rétt stefnanda eða heimild til launalauss leyfis, enda hefði stefnanda bæði verið tilkynnt um að hann fengi ekki leyfi umræddan tíma, auk þess sem sú skoðun stöðvarinnar að um ólögmæta fjarvist stefnanda væri að ræða frá 25. janúar 2003 hafi legið ljós fyrir í bréfi til hans, dagsettu 7. febrúar 2003. Um hafi verið að ræða launalaust leyfi sem stefnandi hafi tekið sér sjálfur án heimildar og geti fyrrgreind tilkynning í engu skapað honum betri rétt í því sambandi.
Samkvæmt þessu hafi stefnandi verið í vinnu 8., 9., 23. og 24. janúar 2003. Hann hafi í engu sinnt helgarvakt sinni 24.-26. janúar 2003 og ekki mætt mánudaginn 27. janúar 2003 eins og honum var þó skylt og heldur ekki næstu daga. Frá því að stefnandi hafi fengið áminningu sína 7. janúar 2003 hafi hann hagað mætingu sinni og viðveru eftir eigin geðþótta án þess að hirða nokkuð um starfsskyldur sínar eða hagsmuni annarra. Hafi framkoma hans því að þessu leyti einkennst bæði af miklu skeytingarleysi og lítilsvirðingu gagnvart samstarfsfólki og sjúklingum heilsugæslustöðvarinnar og verið með öllu ósæmileg og óhæfileg sem ein og sér hefði réttlætt uppsögn stefnanda.
Þess utan hafi framkoma stefnanda við samstarfsmenn á vinnustað, þá er hann var við störf á ofangreindu tímabili, þ.e. 8., 9., 23. og 24. janúar 2003, verið óhæfileg. Hafi hann komið fram af offorsi við samstarfsmenn, einkum yfirlækni og framkvæmdastjóra, sem hann hafi einkum kennt um þá áminningu sem hann hafi hlotið og að hann kæmist ekki í það launalausa leyfi sem hann hugði. Hafi framkoma stefnanda orðið til þess að skapa enn verra andrúmsloft á vinnustaðnum sem ekki yrði við unað. Lögð sé áhersla á að hegðun stefnanda hafi hvorki breyst fyrstu tvo dagana eftir áminningu né fyrstu tvo dagana eftir veikindaleyfi hans. Hafi stefnandi því haft að engu að bæta ráð sitt sem honum hafði þó verið gefinn kostur á. Hafi því verið full heimild til að segja stefnanda upp störfum af þessari ástæðu einni.
Af hálfu stefnda sé lögð áhersla á að líta verði heildstætt á framkomu og virðingar- og skeytingarleysi stefnanda frá þeim tíma sem áminning var veitt og þar til honum var tilkynnt að til skoðunar væri hvort segja ætti honum upp störfum, þ.e.a.s. frá 7. janúar - 7. febrúar 2003. Hafi hann á þeim tíma haft öll tækifæri til að bæta ráð sitt, bæði varðandi framkomu sína á vinnustað og mætingar. Þá fjóra daga sem hann hafi mætt til vinnu hafi hann ítrekað gerst sekur um óstundvísi og óhæfilega framkomu gagnvart samstarfsfólki. Steininn hafi þó tekið úr þegar hann hvorki hafi mætt til að sinna helgarvakt sinni 24.-26. janúar né til hefðbundinna starfa 27. janúar og næstu daga þrátt fyrir að honum væri ljóst að hann hefði ekkert leyfi frá störfum. Hafi sú framkoma verið með öllu ólíðandi.
Með framkomu sinni í starfi hafi stefnandi að engu haft meginskyldur sínar um að mæta til starfa hjá stefnanda og hlýða fyrirmælum yfirmanna sinna. Þegar ákvörðun hafi verið tekin hinn 7. febrúar 2003 um að skoða hvort segja skyldi stefnanda upp störfum hafi starfsemi stöðvarinnar öll farið úr skorðum vegna háttsemi stefnanda og ljóst að á stjórn stöðvarinnar hvíldi sú skylda að koma starfinu í samt lag. Að fengnum andmælum stefnanda hafi verið tekin sú ákvörðun hinn 13. mars 2003 að segja stefnanda upp störfum. Hafi stjórn Heilsugæslustöðvar Hveragerðis verið fullheimilt að grípa til þess örþrifaráðs að segja stefnanda upp störfum, sbr. 1. mgr. 43. og 1. mgr. 44. gr. laga nr. 70/1996, enda hefði stefnandi í engu bætt ráð sitt þrátt fyrir að hafa haft til þess nægan tíma og tækifæri. Hafi framkoma hans og framganga í raun verið mun verri eftir áminningu en áður og hafi því ekki verið hjá uppsögn komist ef tryggja ætti starfsfrið og eðlilega starfsemi á heilsugæslustöðinni.
Í þriðja lagi byggi stefnandi á því að brotið hafi verið gegn andmælarétti sínum við nefnda uppsögn. Styðji stefnandi þá málsástæðu þeim rökum að uppsagnarbréfið sé dagsett sama dag og andmæli stefnanda hafi verið móttekin og liggi því beinast við að álykta að uppsögnin hafi verið ákveðin áður en andmæli stefnanda hafi verið tekin til skoðunar. Þessari órökstuddu ályktun sé sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda.
Stefnanda hafi í upphafi hinn 7. febrúar 2003 verið gefinn frestur til 20. sama mánaðar til að koma á framfæri athugasemdum sínum áður en ákvörðun um uppsögn hans yrði tekin. Að beiðni þáverandi lögmanns stefnanda hafi fresturinn verið framlengdur allt til kl. 12.00 hinn 13. mars 2003. Eins og uppsagnarbréfið beri með sér hafi athugasemdir stefnanda verið teknar til skoðunar og ákvörðun tekin í framhaldi þar af. Ekki hafi verið unnt að álasa stjórn heilsugæslustöðvarinnar fyrir að ljúka málinu og taka ákvörðun samdægurs um uppsögn stefnanda. Feli slíkt ekki í sér brot á andmælarétti stefnanda. Verði þvert á móti að telja að stjórnin hafi lagt sig í líma við að leita eftir sjónarmiðum stefnanda og hafi honum m.a. verið veittur þriggja vikna viðbótarfrestur til að koma þeim á framfæri.
Rafpóstur framkvæmdastjóra heilsugæslustöðvarinnar, dagsettur 10. febrúar 2003, hafi enga þýðingu í þessu sambandi, enda hafi ákvörðun um uppsögn stefnanda ekki verið á hendi framkvæmdastjórans heldur fimm manna stjórnar stöðvarinnar og hefði framkvæmdastjórinn ekkert haft um hana að segja. Hins vegar hafi framkvæmdastjóranum verið kunnugt um að til skoðunar væri í stjórninni hvort segja ætti stefnanda upp störfum, sbr. bréf þar að lútandi til stefnanda, dagsett 7. febrúar 2004. Verði að skoða umræddan rafpóst í því ljósi.
Í fjórða lagi kveði stefnandi ómálefnalegar ástæður hafa legið að baki uppsögn hans og undangenginni áminningu án þess þó að það sé rökstutt sérstaklega í stefnu. Þessu sé mótmælt af hálfu stefnanda. Ástæður áminningar og uppsagnar séu ítarlega raktar í bréfum stjórnar stöðvarinnar til stefnda, dags. 7. janúar og 7. febrúar 2003, sbr. og það sem áður greinir. Séu þær ástæður í einu og öllu málefnalegar og ákvarðanir heilsugæslustöðvarinnar bæði eðlilegar og fullkomlega skiljanlegar. Því sé alfarið mótmælt að fyrirsvarsmenn stöðvarinnar hafi beðið menn um að kvarta yfir stefnanda til að koma á hann höggi. Um framkomu stefnanda við samstarfsmenn sína vísist til þess sem fyrr greini. Sömu sögu sé að segja um viðhorfskönnun sem gerð var í janúar og febrúar 2002.
Í fimmta lagi telji stefnandi að stjórn heilsugæslustöðvarinnar hafi ekki fullnægt rannsóknarskyldu sinni. Þessu sé mótmælt af hálfu stefnda. Eins og gögn málsins beri með sér hafi málið þvert á móti verið rannsakað ítarlega af hálfu stjórnarinnar, bæði áður en tekin hafi verið ákvörðun um að veita stefnanda áminningu og áður en tekin hafi verið ákvörðun um að segja honum upp störfum. Að því er varði mætingar stefnanda þá hafi honum verið fullkunnugt um hvernig skráningu á viðveru hans og annarra starfsmanna var háttað.
Í áminningarbréfinu þann 7. janúar 2003 hafi sérstaklega verið brýnt fyrir stefnanda að vinnutími hans væri frá kl. 08.00-16.00. Eins og þar komi fram hafi stefnanda einstaka sinnum verið heimilað þegar veður hafi verið vont og slæm færð að taka fólksflutningabifreið. Það hafi hins vegar verið háð leyfi framkvæmdastjóra hverju sinni.
Aðskildar ávirðingar um óhæfilega og ósæmilega framkomu stefnanda gagnvart öðrum starfsmönnum hafi verið kannaðar sérstaklega af hálfu stjórnar heilsugæslustöðvarinnar og þær staðreyndar. Hafi því verið gengið nægilega úr skugga um það af hálfu stjórnarinnar að þær ættu við rök að styðjast.
Í sjötta lagi byggi stefnandi á því að hæfisreglum stjórnsýslulaga hafi ekki verið fullnægt þar sem stjórnarformaður heilsugæslustöðvarinnar og framkvæmdastjóri hafi skipað tvö efstu sæti á framboðslista tiltekins stjórnmálaflokks við síðustu sveitarstjórnarkosningar í Hveragerði. Ekki sé nánar tilgreint á hvaða grundvelli sú skipan eigi að hafa valdið vanhæfi stjórnarformannsins.
Af hálfu stefnda sé á því byggt að stjórnarformaðurinn hafi verið fullkomlega hæfur til meðferðar málsins og ákvörðunar í því og hafi engin þau atvik verið uppi sem valdið gætu vanhæfi hans. Þá bendi stefndi á að fimm manna stjórn heilsugæslustöðvarinnar, sem skipuð hafi verið fulltrúum allra flokka, hafi verið einróma í ákvörðunum sínum um að veita stefnanda áminningu og síðar að segja honum upp störfum. Loks veki stefndi athygli á að einungis hluti þeirra ávirðinga, sem bornar voru á stefnda og urðu tilefni áminningar og síðar uppsagnar, hafi varðað framkomu hans við framkvæmdastjóra stöðvarinnar.
Í sjöunda lagi haldi stefnandi því fram að uppsögn hans hafi ekki verið rökstudd með sömu rökum og undanfarandi áminning. Eins og fyrr sé rakið hafi stefnanda hinn 7. janúar 2003 verið veitt áminning fyrir óstundvísi, vanrækslu, óvandvirkni og ósæmilega og óhæfilega framkomu í starfi. Ástæður uppsagnar stefnanda hafi verið ítarlega raktar í bréfi til hans, dagsettu 13. mars 2003, en þær hafi verið óstundvísi og ósæmileg og óhæfileg framkoma í starfi. Hafi uppsögn stefnda því átt rætur að rekja til sömu ástæðna og honum hafði m.a. verið veitt áminning fyrir. Hafi hún að öllu leyti verið lögmæt eins og fyrr greini.
Kröfugerð stefnanda sé sérstaklega mótmælt. Stefnandi hafi fengið greidd laun í umsaminn uppsagnarfrest, þ.e. þrjá mánuði, frá og með næstu mánaðamótum eftir uppsögn. Hafi honum því verið greidd full laun fyrir apríl, maí og júní 2003 og eigi hann ekki rétt á frekari greiðslum úr hendi stefnda. Því sé mótmælt að laun vegna vakta hafi verið hluti af föstum starfskjörum stefnanda. Vaktalaun séu ekki greidd nema viðkomandi læknir sé á vakt. Þannig greiðist slík laun t.d. ekki meðan læknir sé í orlofi. Hafi stefnandi því ekki átt rétt á launum fyrir vaktir á tímabilinu frá febrúar til júní 2003.
Þá bendi stefndi á að krafa stefnanda sé byggð á meintu brúttótjóni hans en ekki raunverulegu fjárhagstjóni. Hafi engin gögn verið lögð fram þar að lútandi. Ekkert liggi fyrir um hvar eða með hverjum hætti stefnandi hafi reynt að afla sér starfs eftir að hann hafi lokið störfum hjá stefnanda. Verði stefnandi sjálfur að bera hallann af því að hafa ekki sinnt þeirri skyldu að draga úr meintu tjóni sínu. Af hálfu stefnanda sé því haldið fram að honum hafi m.a. verið synjað um starf á heilsugæslustöðinni á Suðurnesjum vegna starfsloka hans í Hveragerði. Þetta sé beinlínis rangt en umsókn stefnanda, dagsett 22. janúar 2003, hafi verið synjað 27. janúar 2003, þ.e. um einum og hálfum mánuði áður en honum hafi verið sagt upp störfum hjá stefnanda.
Stefndi geti enga ábyrgð á því borið þó stefnandi hafi kosið að skipta um starfsvettvang og nema sagnfræði við Háskóla Íslands og svo kunni að fara að hann hafi engar fastar tekjur meðan á því námi standi. Um það liggi að vísu ekkert fyrir og sé það meinta tjón, sem stefnandi krefjist bóta fyrir, að stærstum hluta ekki orðið þar sem verið sé að krefjast launagreiðslna allt til júníloka 2006. Verði stefndi í öllu falli ekki dæmdur til að greiða stefnanda laun fyrir þann tíma sem ókominn sé.
Kröfu um miskabætur sé mótmælt en ekkert liggi fyrir um meintar tilfinningalegar kvalir stefnanda eða þau lamandi áhrif sem málið eigi að hafa haft á sjálfstraust hans og vísað sé til í stefnu. Sé því sérstaklega mótmælt af hálfu stefnda að í uppsögninni hafi falist ólögmæt meingerð gagnvart stefnanda.
Kröfu um dráttarvexti sé sérstaklega mótmælt, svo og upphafstíma dráttarvaxta. Sé að mati stefnda ekki unnt að miða hann við fyrra tímamark en dómsuppsögu komi til þess að stefnanda verði dæmdar einhverjar bætur.
Um lagarök vísar stefndi til ákvæða laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins nr. 70/1996, einkum 21. gr. að því er varðar áminningu stefnanda og 44. gr. vegna starfsloka hans. Þá vísar hann til meginreglna vinnuréttar, svo og skaðabótaréttar, einkum um sönnun tjóns og umfang og skyldu stefnanda til að draga úr tjóni sínu.
Kröfu sína um málskostnað kveðst stefndi styðja við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun við lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988, en stefndi sé ekki virðisaukaskattskyldur.
Niðurstaða.
Ekki er um það ágreiningur í máli þessu að uppsögn stefnanda hafi verið byggð á 44. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Málsaðila greinir hins vegar á um hvort uppsögn stefnanda hinn 13. mars 2003 hafi efnislega verið lögmæt og í samræmi við ákvæði 44. og 21. gr. laga um nr. 70/1996 m.a. með tilliti til gildis þeirrar áminningar sem stefnda var veitt með bréf þann 7. janúar 2003 og hvort ákvörðunin um uppsögn hafi verið tekin með formlega réttum hætti í samræmi við ákvæði stjórnsýslulaga nr. 37/1997.
Í 44. gr. laga nr. 70/1996 segir svo: „Skylt er að veita starfsmanni áminningu skv. 21. gr. og gefa honum færi á að bæta ráð sitt áður en honum er sagt upp störfum ef uppsögn á rætur að rekja til ástæðna sem eru tilgreindar.” Þá segir svo í 21. gr. laganna: „Ef starfsmaður hefur sýnt í starfi sínu óstundvísi eða aðra vanrækslu, óhlýðni við löglegt boð eða bann yfirmanns síns, vankunnáttu eða óvandvirkni í starfi, hefur ekki náð fullnægjandi árangri í starfi eða framkoma hans eða athafnir í því eða utan þess þykja að öðru leyti ósæmilegar, óhæfilegar eða ósamrýmanlegar starfinu skal forstöðumaður stofnunar veita honum skriflega áminningu. Áður skal þó gefa starfsmanni kost á að tala máli sínu ef það er unnt.”
Með bréfi sínu til stefnanda þann 25. september 2002 upplýsti stjórn Heilsugæslustöðvarinnar í Hveragerði hann um að til skoðunar væri hjá stjórninni hvort veita ætti honum áminningu fyrir óstundvísi, vanrækslu, vankunnáttu, óvandvirkni og ósæmilega og óhæfilega framkomu í starfi, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996. Voru ástæður fyrirhugaðrar áminningar síðan raktar í níu liðum í bréfinu. Skilaði stefnandi athugasemdum sínum við bréf þetta til stjórnarinnar með bréfi, dags. 28. október 2002. Vegna viðbótarkvörtunar sem borist hafði heilsugæslustöðinni með bréfi, dags. 28. október 2002, var stefnanda til viðbótar gefinn kostur á að tjá sig um hana og bárust athugasemdir hans vegna hennar með bréfi, dags. 3. janúar 2003.
Uppsögn stefnanda úr starfi heilsugæslulæknis við Heilsugæslustöðina í Hveragerði þann 13. mars 2003 er rökstudd með því í fyrsta lagi að stefnandi hafi fengið áminningu þann 7. janúar 2003 fyrir óstundvísi, vanrækslu, óvandvirkni og ósæmilega og óhæfilega framkomu í starfi, sbr. 21. gr. laga nr. 70/1996. Í framhaldi hafi síðan komið í ljós að framkoma stefnanda gagnvart starfsmönnum hafi verið sýnu verri eftir áminninguna og ætti þetta sérstaklega við gagnvart yfirlækni og framkvæmdastjóra stöðvarinnar. Einnig hafi mætingum stefnanda verið verulega áfátt frá veitingu áminningarinnar.
Af ákvæðum tilvitnaðra ákvæða 21. og 44. gr. laga nr. 70/1996 má ráða að til uppsagnar ríkisstarfsmanns vegna ávirðinga í starfi geti aðeins komið að fyrir liggi tiltekin hegðun eða atvik er tengist starfi viðkomandi starfsmanns, hún falli undir þau lagasjónarmið sem í greininni eru rakin og að hún sé jafnframt ítrekun á sams konar hegðun og starfsmaðurinn hefur áður fengið formlega áminningu fyrir skv. 21. gr. laganna.
Ein þeirra ástæðna sem vísað var til í uppsagnarbréfi stefnanda var að mætingum og stundvísi stefnanda hafi verið verulega ábótavant í kjölfar áminningarinnar. Segir þar að stefnandi hafi hinn 9. janúar 2003 horfið frá starfi og yfirgefið heilsugæslustöðina án leyfis og án þess að gera nokkrum viðvart um brotthvarf sitt. Þann 23. sama mánaðar hafi hann mætt á ný til vinnu eftir hálfs mánaðar fjarveru vegna veikinda og þá mætt einni og hálfri klukkkustund of seint. Þann 24. janúar 2003 hafi stefnandi boðað forföll til hádegis en mætt eigi að síður of seint eftir hádegi eða kl. 13.30. Síðdegis hinn 24. janúar 2003 hafi stefnandi átt að hefja helgarvakt á heilsugæslustöðinni. Hann hafi hins vegar yfirgefið stöðina án leyfis fyrir kl. 16.00, í engu sinnt vakt sinni og engar ráðstafanir gert til að henni yrði sinnt af öðrum. Hafi hending ein ráðið því að yfirlækni stöðvarinnar hafi verið unnt að hlaupa fyrirvaralaust í skarðið þannig að héraðið yrði ekki læknislaust. Þá hafi stefnandi ekki mætt til vinnu 27. janúar 2003 eða næstu daga á eftir án þess að hafa leyfi eða lögmæt forföll.
Stefnandi hefur haldið því fram að hann hafi þann 9. janúar horfið frá störfum vegna veikinda og ekki komist aftur til starfa vegna þeirra fyrr en 23. sama mánaðar og kveðst hann hafa hringt þrívegis á heilsugæslustöðina í upphafi veikindanna og tilkynnt að hann kæmist ekki til vinnu vegna þeirra og síðan framvísað læknisvottorði um þessi veikindi sín þegar hann sneri aftur til vinnu. Hefur þessi staðhæfing ekki sætt andmælum af hálfu stefnda. Enda þótt ekki verði séð að stefnandi hafi farið nákvæmlega eftir þeim reglum sem kveðið er á um í grein 9.1 í kjarasamningi sjúkarhúslækna sem gildir gagnvart stefnanda í þessu tilliti þykja ávirðingar vegna þessa ekki vera þess eðlis að réttlætt hafi brottvikningu.
Stefnandi hefur hins vegar ekki andmælt því að hafa mætt þann 23. janúar kl. 9.20 í stað kl. 8.00 eins og honum bar og engar skýringar gefið þar á. Stefnandi viðurkennir að hann hafi átt að sinna helgarvakt dagana 24.-26. janúar 2003 en heldur því fram að hann hafi samið um það við yfirlækni stöðvarinnar, Marianne Brandsson-Nielsen, að hún tæki þá vakt fyrir sig. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins sem staðfestir þessa staðhæfingu stefnanda og Marianne kvaðst í vitnisburði sínum fyrir dómi ekki hafa samið um slíkt við stefnanda. Hún hafi orðið jafnhissa og aðrir þegar stefnandi hvarf af stöðinni föstudaginn 24. janúar án þess gera neinar ráðstafanir hvað þetta varðar og hafi hún því þurft að bæta á sig viðbótarvinnu.
Um fjarveru sína frá vinnu dagana 27. janúar til 16. febrúar 2003 staðhæfir stefnandi að framkvæmdastjóri stöðvarinnar hafi veitt honum launalaust leyfi frá störfum á þessum tíma og að auglýsing á heimasíðu heimilislækna staðfesti þessa staðhæfingu og einnig yfirlýsing Fjársýslu ríkisins sem fyrir liggi í málinu sem byggi á tilkynningu framkvæmdastjórans til stöðvarinnar. Í vitnisburði sínum fyrir dómi hefur framkvæmdastjórinn, Herdís Þórðardóttir, alfarið hafnað þessu og sagt að aldrei hafi komið til greina að fallast á launalaust leyfi fyrir stefnanda á þessum tíma nema að annar læknir fengist til afleysinga í hans stað. Hafi hún gert stefnanda þetta ljóst strax þegar hann hafi fyrst nefnt þetta við sig. Hafi hún síðan reynt það sem hún gat til að fá afleysingalækni á þessum tíma en það hafi ekki gengið. Auglýsingin á heimasíðu heimilislækna hafi eingöngu verið tilraun af hálfu stöðvarinnar til að kanna ítarlega hvort einhver möguleiki væri á að fá lækni til starfa á stöðinni í fjarveru stefnanda á þessum tíma. Vitnið sagði að tilkynning sú sem hún hafi sent til Fjársýslu ríkisins, og dagsett sé 14. febrúar 2003, hafi í raun eingöngu verið tilkynning um að stefnandi ætti ekki að fá útborgað fyrir þetta tímabil. Bjóði form það sem notað sé vegna slíkra launatilkynninga ekki upp á að tilgreint sé um óheimilar fjarvistir og hafi hún því merkt við það sem kom næst því að skýra að stefnandi ætti ekki að fá greidd laun á þessu tímabili.
Eins og fyrr segir staðhæfir stefnandi að hann hafi fengið samþykki framkvæmdastjóra stöðvarinnar fyrir hinu launalausa leyfi en framkvæmdastjórinn hefur eindregið mótmælt þeirri staðhæfingu hans. Ekki verður á það fallist með stefnanda að auglýsing á heimasíðu heimilislækna staðfesti neitt annað en vilja framkvæmdastjórans fyrir hönd heilsugæslustöðvarinnar til að reyna að koma til móts við óskir hans. Eigi verður heldur á það fallist að umrædd tilkynning til Fjársýslu ríkisins staðfesti að þessar fjarvistir stefnanda hafi verið með samþykki stöðvarinnar, sérstaklega í ljósi þess að þegar frá henni var gengið þann 14. febrúar 2003 hafði stjórnarformaður heilsugæslustöðvarinnar þegar ritað stefnanda tilkynningu um hugsanlega uppsögn sem dagsett er 7. febrúar 2003 en þar er skýrlega vísað til þess að fjarvistir hans frá störfum eftir 24. janúar hafi verið án leyfis frá stöðinni. Þykir yfirlýsing Fjársýslu ríkisins og sú tilkynning sem hún byggir á ekki hafa neina þýðingu að þessu leyti.
Með vísan til þess sem hér hefur verið rakið telur dómurinn sannað að stefnandi hafi ítrekað brotið gegn starfsskyldum sínum á tímabilinu frá 23. janúar og allt þar til hann sneri aftur til starfa þann 17. febrúar 2003 með því að hafa mætt of seint að morgni 23. janúar, vanrækt að sinna helgarvakt sinni sem hófst kl. 16.00 þann 24. janúar og loks að mæta ekki til starfa frá 27. janúar og til þess dags sem honum var tilkynnt um fyrirhugaða uppsögn frá störfum.
Eitt af því sem stefnandi var áminntur fyrir með áminningarbréfi stjórnar Heilsugæslustöðvar Hveragerðis þann 7. janúar 2003 var óstundvísi en í 8. tl. III. kafla bréfsins var tilgreint nánar í hverju hún átti að vera fólgin. Kemur þar fram að stefnandi hafi frá því í apríl 2002 mætt yfir 30 sinnum of seint til starfa sem nemi einni til einni og hálfri klukkustund. Stefnandi hefur andmælt þessu sem órökstuddu og bent á að engin stimpilklukka hafi verið á stöðinni á þessu tímabili og jafnframt hefði hann samið um það við framkvæmdastjóra stöðvarinnar að hann mætti stöku sinnum koma með rútunni frá Reykjavík á morgnana, t.d. þegar veður væri vont, og þá mæta eitthvað seinna vegna þessa. Hann hefði þó sjaldan nýtt sér þetta í raun.
Fyrir liggur í málinu skrá yfir viðveru starfsmanna heilsugæslustöðvarinnar sem upplýst hefur verið að ritarar í móttöku stöðvarinnar hafi annast færslu á. Komu þeir móttökuritarar sem önnuðust færslu þessarar skrár, þær Sigríður Gréta Þórsdóttir og Ingibjörg Arna Þórðardóttir, fyrir dóminn og staðfestu að hafa fært hana og lýstu nánar hvernig að færslu hennar var staðið. Staðfestu þær sérstaklega að allalgengt hafi verið að stefnandi kæmi einum til einum og hálfum tíma of seint til vinnu á morgnana síðustu mánuði starfstíma hans. Framkvæmdastjóri heilsugæslustöðvarinnar kvaðst fyrir dómi kannast við að hafa fallist á gagnvart stefnanda að ef veður væri það vont að illfært væri fólksbílum yfir Hellisheiði þá mætti hann taka rútuna en þá væri það algjört skilyrði að hann hringdi í hana fyrir fram um morguninn og fengi samþykki fyrir því þannig að hægt væri að gera ráðstafanir gagnvart þeim sjúklingum sem bókaðir hefðu verið á stefnanda milli kl. 8 og 9 um morguninn. Þetta hefði stefnandi hins vegar aldrei gert og hafi honum því verið í öllum tilvikum verið óheimilt að mæta eftir kl. 8 til vinnu á morgnana.
Af tilvitnaðri viðveruskrá heilsugæslustöðvarinnar má ráða að stefnandi hafi á tilgreindu tímabili, í allmörg skipti, mætt eftir kl. 9 til starfa að morgni og að það hafi gerst bæði að sumarlagi sem að vetri. Hefur þetta einnig verið staðfest með vitnisburði Herdísar Þórðardóttur, framkvæmdastjóra stöðvarinnar, og Maríanne Brandson-Nielsen, yfirlæknis. Þykir stefnandi ekki hafa sýnt fram á að hann hafi haft til þess heimild stjórnenda heilsugæslustöðvarinnar. Enda þótt ekki sé í áminningunni tilgreind sérstaklega þau tilvik þegar stefnandi hefur mætt of seint á hinu tilgreinda tímabili verður ekki fallist á það með stefnanda að um órökstuddar fullyrðingar hafi verið að ræða. Mátti stefnanda vera ljóst að þær byggðu á fyrrgreindri viðveruskrá stöðvarinnar og hafði hann alla möguleika á að óska eftir aðgangi að þeirri skráningu drægi hann fullyrðingar þessar í efa. Samkvæmt þessu hefur stefnandi því sýnt af sér óstundvísi og telst umrædd áminning því hafa verið veitt á grundvelli lögmætra og málefnalegra sjónarmiða að þessu leyti.
Að fenginni þeirri niðurstöðu liggur fyrir að framangreindar uppsagnarástæður stefnanda vegna óheimilla fjarvista og óstundvísi teljast ítrekun á hegðun sem stefnandi hafði áður fengið áminningu fyrir. Þykir því ekki þörf á að fjalla frekar um aðrar ávirðingar sem tilgreindar voru í áminningu og uppsagnarbréfi stefnanda né þær málsástæður stefnanda sem þeim tengjast.
Stefnandi hefur hins vegar einnig byggt kröfur sínar á því að ekki hafi verið gætt sem skyldi reglna stjórnsýslulaganna nr. 37/1993 við töku ákvarðana um umrædda áminningu og síðan uppsögnina og að stefnanda hafi ekki verið gefinn kostur á að bæta ráð sitt eftir áminninguna sem leiði til þess að uppsögn stefnanda teljist af þeim sökum ólögleg.
Heldur stefnandi þannig fram að stjórn heilsugæslustöðvarinnar hafi ekki gætt nægilega að andmælarétti hans skv. 13. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að uppsagnarbréfið hafi verið dagsett sama dag og andmæli hans vegna fyrirhugaðrar ákvörðunar hafi verið móttekin.
Viðurkennt er af hálfu stefnanda að umrædd ákvörðun hafi verið tekin að fengnum þeim athugasemdum sem stjórn heilsugæslustöðvarinnar hafði gefið honum ríflegan frest til að setja fram. Er ekki fallist á að ákvarðanataka samdægurs, að fengnum athugasemdum stefnanda, feli í sér brot á 13. gr. stjórnsýslulaga.
Jafnframt byggir stefnandi á því að stjórn heilsugæslustöðvarinnar hafi ekki gefið honum kost á að bæta ráð sitt eftir áminninguna því hann hafi einungis verið búinn að vinna í fjóra daga þegar honum hafi verið afhent bréf um fyrirhugaða uppsögn sína. Hljóti þessi flýtir að teljast brot á lögum nr. 70/1996 um réttindi og skyldur ríkisstarfsmanna og brot á meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga.
Eins og fyrr hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að um óheimila fjarveru stefnanda frá vinnu hafi verið að ræða eftir 24. janúar 2003 og hafi þar í raun verið um tvenns konar brot stefnanda á starfsskyldum að ræða. Annars vegar að vanrækja helgarvakt og síðan að fara án heimildar í launalaust leyfi sem hann hafði óskað eftir að fá. Þetta kom til viðbótar óstundvísi stefnanda að morgni hins 23. janúar. Með hliðsjón af þessu verður ekki fallist á að stjórnin hafi brugðist of fljótt við, enda þótt tiltölulega skammur tími hafi liðið á milli áminningar og bréfs um fyrirhugaða uppsögn, og verður að hafna þessari málsástæðu stefnanda.
Enn fremur telur stefnandi að rannsóknarskyldu hafi ekki verið sinnt sem skyldi þar sem ekki hafi verið til staðar á heilsugæslustöðinni nákvæmt tímaskráningarkerfi. Þar sem fullyrðingar stjórnar stöðvarinnar um óstundvísi stefnanda byggist ekki á gögnum úr stimpilklukka hljóti þær að teljast óröstuddar. Gera verði ríkari kröfur til stjórnar um ítarlega skoðun málsins með tilliti til yfirlýstra samstarfsörðugleika og jafnvel óvildar tiltekinna stjórnenda í garð stefnanda.
Eins og rakið hefur verið sáu móttökuritarar heilsugæslustöðvarinnar um að skrá daglega hvort og hvenær starfsmenn kæmu og færu af vinnustaðnum. Hefur ekki annað komið fram í málinu en að eðlilega hafi verið að þessari skráningu staðið. Hlýtur slík skráning því að teljast eðlilegur grundvöllur undir mat á viðverutíma starfsmanns á vinnustað. Ber því að hafna þessari málsástæðu stefnanda.
Loks byggir stefnandi á því að hæfisreglum stjórnsýslulaga hafi ekki verið fullnægt vegna þeirra nánu pólitísku tengsla sem séu á milli stjórnarformanns og framkvæmdastjóra heilsugæslustöðvarinnar, en þau hafi skipað 1. og 2. sæti á lista Framsóknarflokksins við síðustu sveitarstjórnarkosningar.
Ekki verður á það fallist að þau tengsl sem stefnandi vísar hér geti leitt til þeirrar niðurstöðu að formaður stjórnar heilsugæslustöðvarinnar hafi verið vanhæfur til töku þeirra ákvarðana sem hér um ræðir, sérstaklega með tilliti til þess að hvorki hann né framkvæmdastjórinn höfðu einstaklegra hagsmuna að gæta við úrlausn málsins.
Samkvæmt því sem að framan hefur verið rakið er það niðurstaða dómsins að stjórn Heilsugæslustöðvarinnar í Hveragerði hafi verið rétt, með vísan til 44. gr. laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, að segja stefnanda upp störfum vegna óheimilla fjarvista og óstundvísi eftir að hafa áður veitt honum áminningu fyrir sams konar hegðun og að löglega hafi verið staðið að töku þessara ákvarðana. Verður því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda.
Rétt þykir að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur án virðisaukaskatts.
Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Heilbrigðisstofnun Suðurlands, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Árna Jónssonar, í máli þessu.
Málskostnaður milli aðila fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Björgvins Þorsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 800.000 krónur án virðisaukaskatts.