Hæstiréttur íslands

Mál nr. 621/2015

Kargile Portfolio Inc. (Gísli Guðni Hall hrl.)
gegn
Landsbankanum hf. (Borgar Þór Einarsson hrl.)

Lykilorð

  • Fjármálafyrirtæki
  • Innstæða
  • Fjármálaeftirlit
  • Stjórnvaldsákvörðun
  • Aðildarskortur

Reifun

Í málinu var deilt um hvort innstæða í eigu K hefði flust yfir til L hf. í kjölfar ákvörðunar F 9. október 2008 um ráðstöfun eigna og skulda LÍ hf. til L hf. Í dómi Hæstaréttar kom fram að við framkvæmd umræddrar ákvörðunar hefðu almenn innlán á Íslandi verið flutt frá gamla bankanum til þess nýja. Frá þessu hafi verið undantekning að því er laut að innlánum aflandsfélaga sem áttu hlutafé í LÍ hf. sjálfum, en innstæða K hafi verið þar á meðal og var hún því skilin eftir í LÍ hf. Þá var rakið að það hafi verið á valdi F að taka ákvarðanir sem þessar svo að bindandi yrði fyrir LÍ hf., L hf. og viðsemjendur þeirra. Þar sem innstæða K fluttist ekki yfir til L hf., hvíldu engar skuldbindingar á bankanum vegna hennar. Var L hf. því sýknaður.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Karl Axelsson hæstaréttardómari og Hjördís Hákonardóttir og Ingveldur Einarsdóttir settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. september 2015. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 40.919.268 krónur með nánar tilgreindum ársvöxtum frá 10. október 2008 til 11. desember 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málsatvik eru rakin í hinum áfrýjaða dómi. Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf., vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Í framhaldi af því tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 9. sama mánaðar um ráðstöfun eigna og skulda bankans til Nýja Landsbanka Íslands hf., sem nú ber heiti stefnda. Í 8. tölulið þeirrar ákvörðunar sagði eftirfarandi: „Innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals skv. 5. tl.“

Af dómkröfum og málatilbúnaði áfrýjanda má ráða að hann telji sig eiga innstæðu hjá stefnda, enda hafi hún átt að flytjast yfir til þess síðarnefnda samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Í tengslum við þetta er upplýst að Fjármálaeftirlitið réði átta sérfræðinga frá Deloitte ehf. á tímabilinu 8. október 2008 til 31. sama mánaðar til þess að vinna að ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til stefnda. Í yfirlýsingu starfsmanns Deloitte ehf. til lögmanns stefnda 5. febrúar 2015 er útskýrt með hvaða hætti sérfræðingarnir unnu að þessu verkefni. Kemur þar meðal annars fram að „almenn innlán á Íslandi“ hafi verið „flutt yfir í nýja bankann.“ Frá þessu hafi verið undantekning sem „laut að innlánum svokallaðra aflandsfélaga sem áttu hlutafé í bankanum sjálfum“, en litið hafi verið svo á að þau „tilheyrðu bankanum enda stofnuð til að halda utan um hluti sem nota átti til að efna kaupréttarsamninga við starfsmenn bankans.“ Samkvæmt þeirri aðgreiningu féll innstæða áfrýjanda undir innstæður „svokallaðra aflandsfélaga“ sem ákveðið var að skilja eftir í Landsbanka Íslands hf., sbr. yfirlýsing Fjármálaeftirlitsins 6. febrúar 2015.

Með vísan til dóms Hæstaréttar 17. janúar 2013 í málinu nr. 169/2011 er áréttað að með ákvæðum laga nr. 125/2008, um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., voru Fjármálaeftirlitinu veittar afar víðtækar valdheimildir til að tryggja hagsmuni almennings og endurreisn fjármálalegs stöðugleika við fordæmalausar aðstæður í íslensku efnahagslífi. Samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og hún hljóðaði á þessum tíma og hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008, var það á valdi Fjármálaeftirlitsins að taka ákvarðanir sem þessar svo að bindandi yrði fyrir eldri bankann, þann yngri og viðsemjendur þeirra, svo og að breyta slíkum ákvörðunum eins og skýr fyrirvari var gerður um í ákvörðuninni frá 9. október 2008. Hvað sem öðru líður var það formlega á valdi Fjármálaeftirlitsins að taka þá ákvörðun sem yfirlýsingin frá 6. febrúar 2015 lýtur að og var gildi hennar ekki háð opinberri birtingu svo sem áfrýjandi byggir á.

Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið liggur fyrir að innstæða áfrýjanda fluttist ekki yfir til stefnda. Áfrýjandi á því ekki innlán hjá stefnda sem hinum síðarnefnda er skylt að endurgreiða samkvæmt skilmálum er gilda samkvæmt lögum eða samningum, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, eins og hún hljóðaði þegar ákvörðun Fjármálaeftirlitsins var tekin. Hefur áfrýjandi ekki rökstutt með öðrum hætti hvernig krafa hans á hendur stefnda á að hafa stofnast. Þar sem engar skuldbindingar hvíla á stefnda gagnvart áfrýjanda vegna umrædds innláns verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur. 

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir en við ákvörðun hans er litið til þess að samhliða máli þessu eru dæmd þrjú samkynja mál.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Kargile Portfolio Inc., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. september 2015.

Mál þetta, sem var dómtekið 9. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kargile Portfolio Inc., Quastinsky Building, 3rd floor, Road Town, Tortola, Bresku jómfrúaeyjum á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík með stefnu birtri 8. desember 2014.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 40.919.268 krónur ásamt 13,25% vöxtum (ársvöxtum) frá 10. október 2008 til 21. október 2008, en 9,75% vöxtum frá þeim degi til 1. nóvember 2008, en 15,75% vöxtum frá þeim degi til 21. mars 2009, en 14,75% vöxtum frá þeim degi til 11. apríl 2009, en 12,8% vöxtum frá þeim degi til 21. apríl 2009, en 10,8% vöxtum frá þeim degi til 11. maí 2009, en 7,3% vöxtum frá þeim degi til 21. júlí 2009, en 4,8% vöxtum frá þeim degi til 11. desember 2009, en 3,8% vöxtum frá þeim degi til 11. júlí 2010, en 3,1% vöxtum frá þeim degi til 21. ágúst 2010, en 2,9% vöxtum frá þeim degi til 21. október 2010, en 1,55% vöxtum frá þeim degi til 11. nóvember 2010, en 1,05% vöxtum frá þeim degi til 11. desember 2010, en 0,85% vöxtum frá þeim degi til 21. ágúst 2011, en 0,95% vöxtum frá þeim degi til 1. apríl 2012, en 1,2% vöxtum frá þeim degi til 21. maí 2012, en 1,55% vöxtum frá þeim degi til 21. júní 2012, en 1,8% vöxtum frá þeim degi til 11. nóvember 2014, en 1,7% vöxtum frá þeim degi til 11. desember 2014, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Vextir að undanskildum dráttarvöxtum bætist við höfuðstól á sex mánaða fresti, fyrst 31. desember 2009. Dráttarvextir bætist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Þá er krafist málskostnaðar.

Stefndi krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I

Stefnandi, Kargile Portfolio Inc., er hlutafélag stofnað í Tortóla á Bresku jómfrúaeyjunum árið 2004. Samkvæmt rannsóknarskýrslu Alþingis er stefnandi eitt þeirra aflandsfélaga sem stofnuð voru til að halda utan um hluti í Landsbanka Íslands hf. er nota átti til að efna kaupréttarsamninga við starfsmenn bankans .

Stefndi er fjármálafyrirtæki sem stofnað var með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 7. október 2008, á grundvelli heimilda í lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., sem samþykkt voru á Alþingi 6. október 2008 og fólu meðal annars í sér breytingu á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Stefnandi átti innstæðu á bankareikningi hjá Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, nr. 0101-05-284071. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort innstæða þessi hafi verið yfirtekin af stefnda.

Hinn 6. október 2008 samþykkti Alþingi frumvarp er varð að lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með 5. gr. laganna, sem varð 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, voru Fjármálaeftirlitinu meðal annars fengnar heimildir til að grípa til sérstakra ráðstafana, vegna sérstakra aðstæðna eða atvika, í því skyni að takmarka tjón eða hættu á tjóni á fjármálamarkaði.

Hinn 7. október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið heimild samkvæmt framangreindum ákvæðum og tók yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. Jafnframt var stjórn bankans vikið frá og honum skipuð skilanefnd. Stofnaður var nýr banki á grunni þess fallna sem ber nú heitið Landsbankinn hf. og er stefndi málsins. Fjárhagslegur grundvöllur hans var lagður með framlögum úr ríkissjóði og með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins, dags. 9. október 2008, um ráðstöfun eigna og skulda gamla bankans til hins nýja. Í 7. gr. ákvörðunarinnar er meðal annars kveðið á um að Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtaki skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Jafnframt yfirtaki Nýi Landsbankinn hf. réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum. Í 8. gr. ákvörðunarinnar kemur fram að innlendar innstæður Landsbanka Íslands hf. flytjist yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. miðað við stöðu og áunna vexti við framsal skv. 5. tl., þ.e. frá og með 9. október 2008 kl. 9:00, og að ekki sé þörf á innköllun eða auglýsingu vegna þeirrar færslu. Í niðurlagi ákvörðunarinnar kom fram að hún byggði á fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum. Ef hún reyndist byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða aðrar forsendur hennar brygðust verulega, gæti Fjármálaeftirlitið gert hvers konar breytingar á henni, þar með talið fellt hana úr gildi í heild eða að hluta.

                Stefndi kveður að við skiptingu efnahagsreiknings Landsbanka Íslands hf. á grundvelli framangreindrar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda bankans hafi Fjármálaeftirlitið ráðið til sín sérfræðinga á vegum endurskoðunarfyrirtækisins Deloitte hf. sem hafi annast vinnu við ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. sem starfsmenn Fjármálaeftirlitsins og í samræmi við tilmæli þess. Við skiptingu efnahagsreikningsins hafi almenn innlán á Íslandi verið flutt yfir til stefnda. Hins vegar hafi verið litið svo á af hálfu Fjármálaeftirlitsins að svokölluð aflandsfélög sem áttu hlutafé í Landsbanka Íslands hf. tilheyrðu bankanum, enda hafi þau verið stofnuð til að halda utan um hluti sem nota átti til að efna kaupréttarsamninga við starfsmenn bankans og hafi þeirra innlán ekki farið til stefnda.

                Stefndi kveður að framkvæmd framangreindrar uppskiptingar á eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. hafi verið með þeim hætti að gerð var bókhaldsfærsla á innlánssvæði sem skuld í útibúi 187, sem tilheyrði Landsbanka Íslands hf., en inneign á útibú 100, sem tilheyrði stefnda. Þetta hafi verið gert vegna þess að innlánsreikningar þessir voru vistaðir í kerfum Reiknistofu bankanna og var það kerfi flutt í heild sinni til stefnda við ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. Á tímabilinu 10. október 2008 til 28. nóvember 2008 hafi þessir innlánsreikningar verið ógiltir og fjárhæðum ráðstafað á móti biðfærslunni í útibúi.

                Hinn 10. október 2008 átti stefnandi innistæðu á bankareikningi nr. 0101-05-284071 að fjárhæð 40.919.268 kr. sem var flutt af reikningnum og reikningurinn eyðilagður. Stefnandi heldur því fram að stefndi, sem nú heiti Landsbankinn hf., hafi yfirtekið þessa innstæðuskuldbindingu samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins og fullyrðir að téðar ráðstafanir hafi verið án heimildar hans og vitundar. Stefndi kveður að þessar innstæður hafi ekki runnið til hans og þessar framkvæmd hafi verið á ábyrgð Fjármálaeftirlitsins.

                Hinn 21. nóvember 2014 krafðist stefnandi þess að hann fengi innstæðu sína ásamt vöxtum. Stefndi hafi ekki svarað því bréfi og því sé mál þetta höfðað.

 

II

Krafa stefnanda byggist á því að hann eigi innstæðu hjá stefnda sömu fjárhæðar og nemi höfuðstól stefnukröfu, það er 40.919.268 kr. miðað við stöðu 10. október 2008, eins og fram komi á reikningsyfirliti.

Innstæðan sé almenn innstæða á númeruðum sparireikningi hjá stefnda. Þann sama dag hafi reikningurinn verið eyðilagður og innstæðunni í heild ráðstafað út af reikningnum.

Stefnandi byggir á því að ráðstöfun út af reikningnum og eyðilegging hans hinn 10. október 2008 sé ekki bindandi gagnvart honum, þar sem hún hafi verið án heimildar hans og vitneskju. Því beri stefnda, samkvæmt almennum reglum kröfuréttar, að standa stefnanda skil á innstæðunni eins og hann hefur krafist.

Enginn vafi sé á því að stefndi hafi tekið yfir innstæðuskuldbindinguna gagnvart stefnanda samkvæmt 7. og 8. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008, sem birt hafi verið opinberlega og sé skuldbindandi fyrir stefnda.

Krafa stefnanda um vexti sé í samræmi við innlánsvaxtakjör kjörbóka í 2. þrepi, samkvæmt vaxtatöflum stefnda á hverjum tíma. Krafa um höfuðstólsfærslu vaxta á sex mánaða fresti sé jafnframt í samræmi við vaxtakjör reikningsins og vísast einnig til 12. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Krafa stefnanda um dráttarvexti sé gerð með stoð í ákvæðum III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

III

Af hálfu stefnda sé öllum kröfum og málsástæðum stefnanda hafnað. Stefndi mótmælir sérstaklega þeirri meginmálsástæðu stefnanda að kröfur hans á hendur Landsbanka Íslands hf. hafi flust yfir til stefnda frá og með 9. október 2008 samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins dags. 9. október 2008.

Því sé alfarið hafnað að stefndi hafi tekið yfir innstæðuskuldbindinguna gagnvart stefnanda samkvæmt 7. og 8. tölulið ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008. Samkvæmt skýru dómafordæmi Hæstaréttar, t.a.m. í máli nr. 169/2011, skeri efni og orðalag þessara liða eitt og sér ekki úr um það hvort tilteknar skuldbindingar hafi verið færðar yfir til stefnda frá Landsbanka Ísland hf. Orðalag þeirra eitt og sér leggi þannig enga efndaskyldu gagnvart stefnanda á herðar stefnda, eins og stefnandi haldi fram. Hér ráði endanleg útfærsla þessara ákvarðana eins og hún sé ákveðin af Fjármálaeftirlitinu og komi fram í uppskiptingarreikningi Landsbanka Íslands hf. sem tekið sé mið af í stofnefnahagsreikningi stefnda. Fyrir liggi staðfesting Fjármálaeftirlitsins þess efnis að umræddar skuldbindingar hafi ekki færst yfir til stefnda.

Þegar lagt sé mat á það sem felist í framangreindum ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins verði að líta til þess að lög nr. 125/2008 hafi verið sett við aðstæður í fjármála- og efnahagslífi íslensku þjóðarinnar sem eigi sér enga hliðstæðu í sögu lýðveldisins. Með setningu laganna hafi verið gerðar ýmsar veigamiklar lagabreytingar og stjórnvöldum, þá fyrst og fremst Fjármálaeftirlitinu, veittar umfangsmiklar valdheimildir sem ekki séu dæmi um að íslensku stjórnvaldi hafi áður verið fengnar í hendur. Markmið þessa hafi fyrst og fremst verið að skapa skilyrði fyrir stöðugleika í efnahagslífinu með því að tryggja virkni fjármálakerfisins og efla traust almennings á því og koma í veg fyrir að bankarnir lokuðu greiðslukerfið frysi eða hryndi og yrði ekki virkt, en með þeim víðtæku valdheimildum sem Fjármálaeftirlitinu hafi verið veittar skyldi tryggja hagsmuni almennings og endurreisa fjármálalegan stöðugleika. Í þessu ljósi verði að virða þær ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins sem um ræði í málinu. Það hafi verið, samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002, eins og hún hljóðaði á þessum tíma, á valdi Fjármálaeftirlitsins að taka ákvarðanir eins og þær sem um ræði í málinu svo að bindandi yrði fyrir eldri bankana, þá yngri og viðsemjendur þeirra, svo og að breyta slíkum ákvörðunum, sbr. dóm Hæstaréttar í máli nr. 156/2011.

Þá sé því enn fremur hafnað að ráðstafanir þær sem að framan sé lýst og felist í því að innstæðu stefnanda á tilteknum reikningi hafi verið ráðstafað inn á annan reikning séu ekki bindandi gagnvart stefnanda. Þessar ráðstafanir séu byggðar á þeim yfirgripsmiklu og afdráttarlausu valdheimildum sem Fjármálaeftirlitið hafi fengið með lögum nr. 125/2008 til að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. og fram komi m.a. í 101. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hafi Hæstiréttur slegið því föstu að ákvarðanir þær sem Fjármálaeftirlitið taki á grundvelli þessara heimilda séu bindandi fyrir viðsemjendur bæði stefnda og Landsbanka Íslands hf.

Að öllu framansögðu byggir sýknukrafa stefnda aðallega á því að dómkröfu stefnanda sé ranglega beint að stefnda. Þær skuldbindingar sem dómkrafa stefnanda byggi á hafi ekki verið fluttar frá Landsbanka Íslands hf. til stefnda samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun á eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. Hafi Fjármálaeftirlitið staðfest það við stefnda í tilefni af því að stefnandi hafi beint kröfum sínum að stefnda. Sé stefndi því ekki sá aðili sem beri þá skyldu við stefnanda sem sé grundvöllur máls þessa. Af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda af öllum dómkröfum stefnanda vegna aðildarskorts með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé vaxta- og dráttarvaxtakröfu stefnanda mótmælt sérstaklega með vísan til ákvæða laga nr. 38/2001.

 

IV

                Ágreiningur málsins lýtur að því að stefnandi heldur því fram að stefndi hafi hinn 10. október 2008 yfirtekið innstæðu er hann átti á bankareikningi nr. 0101-05-284071 að fjárhæð 40.919.268 kr. og eyðilagt reikninginn. Stefndi kveður að þessi innstæða hafi ekki runnið til hans.

                Hinn 6. október 2008 samþykkti Alþingi frumvarp er varð að lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Með 5. gr. laganna, sem varð 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, var Fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að taka yfir vald hluthafafundar fjármálafyrirtækis í því skyni að taka ákvarðanir um nauðsynlegar aðgerðir, meðal annars heimild til að takmarka ákvörðunarvald stjórnar, víkja stjórn frá að hluta til eða í heild, taka yfir eignir, réttindi og skyldur fjármálafyrirtækis í heild eða að hluta eða ráðstafa slíku fyrirtæki í heild eða að hluta, meðal annars með samruna þess við annað fyrirtæki. Fyrrgreint lagaákvæði heimilaði Fjármálaeftirlitinu einnig að framselja öll réttindi fjármálafyrirtækis að því marki sem nauðsynlegt væri í slíkum tilfellum. Þá var kveðið á um að Fjármálaeftirlitinu væri heimilt, samhliða því sem ákvörðun væri tekin um að víkja stjórn fjármálafyrirtækis frá, að skipa því fimm manna skilanefnd sem fara skyldi með allar heimildir stjórnar samkvæmt ákvæðum hlutafélagalaga.

Hinn 7. október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið heimild samkvæmt 100. gr. a. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, og tók yfir vald hluthafafundar í Landsbanka Íslands hf. Jafnframt var stjórn bankans vikið frá og honum skipuð skilanefnd. Stofnaður var nýr banki á grunni þess fallna er ber nú heitið Landsbankinn hf. og er stefndi málsins. Fjárhagslegur grundvöllur nýja bankans var einkum lagður með flutningi eigna til hans úr eldri bankanum, en einnig með framlögum úr ríkissjóði. Á móti því tók nýi bankinn yfir tilteknar skuldbindingar þess eldri sem fyrst og fremst voru innlán í bankanum hér á landi.

Hinn 9. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið þá ákvörðun að Nýi Landsbanki Íslands hf. skyldi meðal annars yfirtaka skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum, en skilgreindi ekki hvað átt væri við með orðinu innlán. Í 7. tölulið ákvörðunarinnar sagði: „Nýi Landsbanki Íslands hf. yfirtekur skuldbindingar í útibúum Landsbanka Íslands hf. á Íslandi vegna innlána frá fjármálafyrirtækjum, Seðlabanka Íslands og öðrum viðskiptavinum. Jafnframt yfirtekur Nýi Landsbanki Íslands hf. réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum.“ Í 8. tölulið sagði meðal annars: „Innlendar innstæður við Landsbanka Íslands hf. flytjast yfir til Nýja Landsbanka Íslands hf. miðað við stöðu og áunna vexti á tímamarki framsals skv. 5. tl.“ Í niðurlagi framangreindrar ákvörðunar sagði að hún byggði á fyrirliggjandi upplýsingum og gögnum. Ef hún reyndist byggð á ófullnægjandi eða röngum upplýsingum um málsatvik, eða ef aðrar forsendur hennar brygðust verulega, gæti Fjármálaeftirlitið gert hvers konar breytingar á henni, þar með talið fellt hana úr gildi í heild eða að hluta.

                Óumdeilt er að stefnandi málsins átti hinn 9. október 2008 innstæðu á bankareikningi í Landsbanka Íslands hf. sem stefnandi telur að hefði átt að færast yfir til Nýja Landsbankans samkvæmt ótvíræðu orðalagi ofangreindrar tilkynningar Fjármálaeftirlitsins sem hafi verið réttilega birt. Hins vegar hafi innstæðan ekki skilaði sér til fyrirrennara stefnda hinn 10. október 2008.

                Eins og að framan greinir var Fjármálaeftirlitinu veitt mikið vald með lögum nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Stefndi hefur lagt fram yfirlýsingu frá 5. febrúar 2015 frá endurskoðunarfyrirtækinu Deloitte hf. Þar kemur fram að nokkrir starfsmenn þess hafi unnið sem starfsmenn Fjármálaeftirlitsins við ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Landsbankans hf. (áður Nýja Landsbankans hf.) Hafi þeir unnið þessa vinnu sem starfsmenn Fjármálaeftirlitsins í samræmi við tilmæli eftirlitsins. Í yfirlýsingunni kemur einnig fram að meginreglan hafi verið sú að almenn innlán á Íslandi hafi verið flutt yfir í nýja bankann. Á því hafi verið undantekning sem laut að innlánum svokallaðra aflandsfélaga sem áttu hlutafé í bankanum sjálfum. Litið hafi verið svo á að þessi félög tilheyrðu bankanum, enda stofnuð til að halda utan um hluti sem nota átti til að efna kaupréttarsamninga við starfsmenn bankans. Fjármálaeftirlitið hefur staðfest yfirlýsingu þessa og að meðferð innlánsreikninganna hafi verið í samræmi við ákvarðanir Fjármálaeftirlitsins um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbankans hf. Ekki eru efni til að vefengja þessa atburðarás. Því liggur fyrir að hinn umdeildi innlánsreikningur stefnanda hafi aldrei verið fluttur til stefnda.

                Með vísan til þess sem að framan er rakið ber að fallast á sýknukröfu stefnda í málinu sem byggir á aðildarskorti hans samanber 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Samkvæmt 130. gr. laga nr. 91/1991 ber stefnanda og greiða stefnda málskostnað svo sem greinir í dómsorði.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

Stefndi, Landsbankinn hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Kargile Portfolio Inc.

Stefnandi greiði stefnda 250.000 kr. í málskostnað.