Hæstiréttur íslands
Mál nr. 260/2001
Lykilorð
- Hilming
- Þjófnaður
- Hegningarauki
- Ítrekun
- Vanaafbrotamaður
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 29. júní 2001 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu en að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst sýknu af I. kafla ákæru og að honum verði ekki gerð refsing vegna sakargifta í II.kafla ákæru.
Þegar litið er til framburðar þeirra tveggja lögreglumanna sem fundu þýfið, sem getið er um í I. kafla ákæru, á heimili ákærða umræddan dag og annarra atvika málsins þykir sannað að ákærða hlaut að vera ljóst að munanna hafði verið aflað með auðgunarbroti. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, 50.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 10. apríl 2001
Árið 2001, þriðjudaginn 10. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í málinu nr: S-200/2001: Ákæruvaldið gen X, en málið var dómtekið 21. mars sl.
Málið er höfðað með ákæru útgefinni 30. janúar 2001 á hendur: ,,X, kt. 230762-5549, Bárugötu 22, Reykjavík, fyrir eftirtalin brot framin í Reykjavík á árinu 2000:
I
Hylmingu, með því að hafa að morgni sunnudagsins 17. september tekið við úr höndum óþekkts manns tösku sem í var filmubox, 3 myndavélar og 3 myndavélalinsur, og bakpoka sem í var myndavél, leifturljós og rafhlaða og 3 myndavélalinsur, samtals að verðmæti um kr. 450.000, og falið á heimili sínu, þrátt fyrir að ákærða væri ljóst að munanna hafði verið aflað með auðgunarbroti.
(Mál nr. 010-2000-24358)
Telst þetta varða við 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
II
Þjófnað, með því að hafa að morgni laugardagsins 16. desember farið inn í mýbyggingu að Laugavegi 99 og stolið rafhlöðuborvél og haglabyssu, samtals að verðmæti um kr. 100.000.
(Mál nr. 010-2000-33736)
Telst þetta varða við 244. gr. almennra hegningarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu gerir Tryggingamiðstöðin hf., kt. 660269-2079, kröfu um skaðabætur að fjárhæð kr. 425.000 ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá tjónsdegi, en síðan dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.”
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði sýknaður af I. kafla ákæru og að ekki verði dæmd sérstök refsing vegna II. kafla ákærunnar vegna hegningaraukaáhrifa dóms Héraðsdóms Reykjavíkur frá 20. desember sl. Krafist er málsvarnarlauna að mati dómsins.
I
Samkvæmt lögregluskýrslu dags. 17. september sl. var lögreglan send að Ægisgötu 10 hér í borg vegna innbrots í ljósmyndastofu, sem þar er til húsa. Stolið var ýmis konar ljósmyndavörum, sem taldar eru upp í skýrslunni. Samkvæmt lögregluskýrslu dags. sama dag var ákærði handtekinn er lögreglan fann ætlað þýfi á dvalarstað hans að Bárugötu 22. Í skýrslutöku hjá lögreglunni síðar um daginn kvað ákærði karlmann hafa komið á heimili sitt milli kl. 07.00 og 08.00 á sunnudagsmorgninum 17. september. Maðurinn hafði meðferðis tvær töskur, sem hann skildi eftir á heimili ákærða meðan hann sækti bíl. Hann ætlaði að koma aftur hálfri til einni klst. síðar. Maðurinn lét hins vegar ekki sjá sig. Ákærði kvaðst hafa kíkt í töskurnar og þá verið ljóst að um þýfi væri að ræða.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði neitar sök. Hann kvað mann sem kallaður sé Biggi hafa komið með tvær töskur á heimili sitt milli kl. 07.00 og 08.00 á sunnudagsmorgninum 17. september sl. Maðurinn skildi töskurnar eftir á gólfinu við dyrnar, en sagðist ætla að koma aftur ½ til 1 klukkustund síðar og sækja töskurnar. Maðurinn gaf enga skýringu á háttalagi sínu. Ákærði spurði einskis. Hann kvaðst hafa skoðað í töskurnar skömmu áður en lögreglan kom á heimili hans. Þá áttaði hann sig á því að um væri að ræða þýfi og rétt verið ófarinn að tilkynna lögreglunni um málið er hún kom á heimili hans.
Vigfús Birgisson ljósmyndari kvað verðmætunum sem fundust í fórum ákærða hafa verið stolið á vinnustofu hans aðfaranótt 17. september sl. Hann kvaðst hafa áætlað verðmæti munanna sem fundust í fórum ákærða. Við nánari athugun kvað hann verðmæti munanna töluvert meira en hann hafði áður talið og byggt er á í ákærunni.
Sigurður Benjamínsson rannsóknarlögreglumaður lýsti för sinni á heimili ákærða að morgni 17. september sl., en þá var hann ekki heima. Hann kvaðst síðan hafa aflað heimilda hjá móður ákærða til að fara inn í húsnæði, þar sem ákærði dvaldi, sem var kompa en áður þvottahús. Að fenginni þeirri heimild fór hann aftur á heimili ákærða og var hann þá heima og munirnir sem í ákæru greinir á gólfinu. Þetta hafi verið um kl. 14.30.
Ragnar Jónsson rannsóknarlögreglumaður fór ásamt Sigurði Benjamínssyni á heimili ákærða 17. september sl. Hann lýsti ferð sinni þangað. Ragnar lýsti leitinni efnislega á sama veg og Sigurður Benjamínsson rannsóknarlögreglumaður og lagt hafi verið hald á munina hjá ákærða um kl. 14.30 þennan dag.
II
Ákærði játar sök samkvæmt þessum ákærulið og skírskotað er til ákærunnar um lýsingu málavaxta.
Niðurstaða
I
Ákærði kvað mann hafa komið á heimili sitt milli klukkan 07.00 og 08.00 á sunnudagsmorgni. Þar skildi maðurinn eftir verðmætin sem lýst er í ákærunni. Ákærði bar fyrir dómi og hjá lögreglu, að hann hafi áttað sig á því að munanna hafi verið aflað með auðgunarbroti, en sér hafi ekki unnist tími til að láta lögregluna vita vegna þess að hún kom skömmu eftir að ákærði áttaði sig á því hvers kyns var.
Samkvæmt framburði ákærða kom maðurinn með munina milli kl. 07.00 og 08.00 um morguninn og boðaði komu sína aftur til að sækja munina innan við klukkustund síðar, en var ekki kominn kl.14.30 er lögreglan lagði hald á verðmætin á heimili ákærða.
Við þingfestingu málsins kvaðst ákærði kannast við manninn sem kom með verðmætin og kvað hann kallaðan Bjössa, en undir aðalmeðferðinni kvað hann manninn kallaðan Bigga.
Dómurinn telur mega ráða af þessu að ákærði hafi tekið við verðmætunum úr höndum óþekkts manns, eins og lýst er í ákærunni.
Af vitnisburði Vigfúsar Birgissonar ljósmyndara má ráða að verðmæti munanna, sem lýst er ákærunni, var mikið og þykir ekki óvarlegt að miða við vitnisburð Vigfúsar, eiganda munanna, í þessu efni og ganga út frá því að verðmætið hafi verið um 450.000 krónur eins og lýst er í ákærunni.
Verjandi ákærða byggði vörn sína meðal annars á því að ákærði hafi ekki falið munina á heimili sínu.
Samkvæmt 254. gr. almennra hegningarlaga er nægjanlegt til þess að gerast brotlegur við þá lagagrein að halda ólöglega fyrir eiganda hlut eins og lýst er í greininni. Ákærði hafði munina í sínum vörslum og hélt þeim þannig ólöglega frá eigandanum, þótt hann hafi ekki gert sérstakar ráðstafanir til að fela munina á heimili sínu.
Dómurinn telur að allt frá því að ákærði tók við verðmætunum á heimili sínu snemma á sunnudagsmorgni úr höndum óþekkts manns og faldi þá eða geymdi á heimili sínu hafi honum verið ljóst, eða mátt vera ljóst, að munanna var aflað með auðgunarbroti. Ákærði hefur samkvæmt því sem rakið var gerst sekur um brot gegn 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
II
Sannað er með skýlausri játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði hafi framið þá háttsemi sem hér greinir og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákærunni.
Ákærði á að baki langan sakarferil. Hann hefur hlotið 27 refsidóma frá árinu 1978 og þar af eru 6 hæstaréttardómar. Samanlögð óskilorðsbundin refsing ákærða samkvæmt þessum dómum er hátt í 11 ár. Flestir dómanna eru fyrir þjófnað. Síðast hlaut ákærði dóm hinn 20. desember sl., en þá hlaut hann 12 mánaða fangelsisdóm fyrir þjófnaðartilraun. Sá dómur var staðfestur í Hæstarétti í síðastliðnum mánuði.
Brot ákærða sem hann er nú sakfelldur fyrir eru bæði framin fyrir uppsögu dómsins 20. desember sl. og ber nú að dæma ákærða hegningarauka, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga. En refsing hans er einnig ákvörðuð með hliðsjón af 77. gr. sömu laga og auk þess með hliðsjón af 71., 72. og 255. gr. sömu laga, en ákærði er vanaafbrotamaður.
Refsing ákærða þykir hæfilega ákvörðuð fangelsi í 6 mánuði.
Verjandi ákærða krefst sýknu af háttsemi þeirri sem skaðabótakrafa Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er sprottin af og þar með frávísun kröfunnar. Í gögnum frá Tryggingamiðstöðinni vegna skaðabótakröfunnar segir að krafan sé byggð á bótum sem félagið greiddi vegna innbrots í Ægisgötu 10 hinn 17. september sl. og að krafan sé sundurliðuð. Engin sundurliðun fylgir gögnum málsins og ekki er unnt að ráða af skaðabótakröfunni hvernig hún er saman sett. Krafan er þannig ódómtæk og ber að vísa henni frá dómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 60.000 krónur í málsvarnarlaun til Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns.
Hjalti Pálmason fulltrúi flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
DÓMSORÐ
Ákærði, X, sæti fangelsi í 6 mánuði.
Skaðabótakröfu Tryggingamiðstöðvarinnar hf. er vísað frá dómi.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með taldar 60.000 krónur í málsvarnarlaun til Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns.