Hæstiréttur íslands
Mál nr. 412/2008
Lykilorð
- Skaðabætur
- Sjómaður
- Vátrygging
- Umboð
- Kvittun
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 5. mars 2009. |
|
Nr. 412/2008. |
A(Helgi Birgisson hrl.) gegn Tryggingamiðstöðinni hf. (Guðmundur Pétursson hrl.) |
Skaðabætur. Sjómenn. Vátrygging. Umboð. Kvittun. Sératkvæði.
Sonur A lést í eldsvoða um borð í skipi í eigu Y. Í gildi var ábyrgðartrygging vegna útgerðar skipsins hjá T. A krafði T um bætur á þeim grundvelli að við andlát sonar síns hefði hún misst þá fjárhagslegu aðstoð sem hefði falist í því að hafa endurgjaldslaus afnot af íbúð hans. A hafði gefið fyrrverandi lögmanni sínum „fullt og ótakmarkað umboð“ til að annast hagsmuni sína vegna andláts sonar síns. Lögmaðurinn veitti viðtöku greiðslu frá T á dánarbótum að fjárhæð 1.206.481 króna 8. mars 2007 og ritaði án fyrirvara undir kvittun sem hann hafði fengið senda á starfsstöð sína með símbréfi. Í texta kvittunarinnar kom fram með skýrum hætti að fjárhæðin sem kvittað var fyrir væri lokagreiðsla vegna tjónsins og allar kröfur vegna málsins væru að fullu greiddar. Var fallist á þá niðurstöðu héraðsdóms að yfirlýsingin um lyktir málsins í kvittuninni væri við framangreindar aðstæður skuldbindandi fyrir A og yrði dómurinn því staðfestur um sýknu stefnda.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 28. maí 2008, en ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 9. júlí sama ár. Með heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála áfrýjaði hún héraðsdómi öðru sinni 28. júlí 2008. Hún krefst nú aðallega að stefnda verði gert að greiða sér 11.581.767 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2008 um vexti og verðtryggingu frá 6. september 2007 til greiðsludags. Til vara krefst hún lægri fjárhæðar með sömu dráttarvöxtum. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál en áfrýjandi nýtur gjafsóknar á báðum dómstigum.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Fyrir Hæstarétti hefur áfrýjandi tekið fram að krafa hennar sé ekki lengur studd við 13. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Krafan sem gerð er fyrir Hæstarétti er reist á því að áfrýjandi hafi við andlát sonar síns misst þá fjárhagslegu aðstoð sem falist hafi í því að hafa endurgjaldslaus afnot af íbúð hans á Akureyri. Var lagt fram fyrir Hæstarétti blað með útreikningi á núvirði kröfunnar miðað við gefnar forsendur með þeirri niðurstöðu sem í dómkröfunni greinir. Krafa vegna hins sama var meðal þeirra krafna sem gerðar voru í héraði en með nokkru hærri fjárhæð en nú. Áfrýjandi hefur fallið frá öðrum kröfuliðum sem fram var haldið í héraði. Verður talið að þessir kröfuhættir fyrir Hæstarétti séu fullnægjandi til að taka megi efnislega afstöðu til kröfunnar.
Áfrýjandi gaf fyrrverandi lögmanni sínum 18. janúar 2007 „fullt og ótakmarkað“ umboð til að annast hagsmuni sína vegna andláts sonar síns 27. maí 2006. Í umboðinu sagði meðal annars svo: „Umboð þetta nær til að þess að hafa uppi bótakröfur til Tryggingarmiðstöðvarinnar, fyrir mína hönd af þessu tilefni, semja um fjárhæð bóta, höfða mál í mínu nafni til heimtu bóta fyrir dómi, málareksturs fyrir héraðsdómi og Hæstarétti ef þörf krefur. Ennfremur til að veita viðtöku greiðslu bóta fyrir mína hönd. Allt það sem umboðsmaður minn gerir samkvæmt umboði þessu skal vera sem ég hefði sjálf gert það.“
Lögmaðurinn sendi stefnda bréf 12. febrúar 2007. Þar voru gerðar kröfur fyrir hönd áfrýjanda um „bætur til hennar sem erfingja og vegna missis framfæranda í samræmi við skaðabótalög nr. 50/1993“. Í bréfinu var vísað til 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 og 12. gr. skaðabótalaga um kröfuna. Með bréfi 27. febrúar 2007 hafnaði stefndi kröfunni og vísaði til þess að ósannað væri að áfrýjandi hefði verið á framfæri sonar síns. Kvaðst stefndi vera reiðubúinn til „að ganga til uppgjörs á bótum skv. 172. gr. siglingalaga við fyrsta hentugleika.“
Í framhaldi af þessum bréfaskiptum sendi stefndi símbréf 8. mars 2007 til þáverandi lögmanns áfrýjanda. Fylgdi skaðabótakvittun með. Síðar sama dag veitti lögmaðurinn viðtöku greiðslu á dánarbótum að fjárhæð 1.206.481 króna og ritaði án fyrirvara undir kvittunina sem hafði að geyma eftirfarandi texta: „Tryggingamiðstöðin hf. hefur greitt undirrituðum skaðabætur vegna ofangreinds tjóns samkvæmt eftirfarandi sundurliðun. Móttakandi staðfestir að neðangreind fjárhæð er lokagreiðsla vegna þessa tjóns og allar kröfur vegna málsins eru að fullu greiddar.“ Að auki var tekið fram í kvittuninni að bætur væru dánarbætur samkvæmt 172. gr. siglingalaga.
Í 1. mgr. 172. gr. siglingalaga er kveðið svo á að útgerðarmaður beri ábyrgð á kröfum vegna lífs- eða líkamstjóns þeirra sem ráðnir eru í skiprúm hjá honum hafi slys borið að höndum er hlutaðeigandi var staddur á skipi eða vann í beinum tengslum við rekstur skips enda þótt slysið eða tjónið verði ekki rakið til bilunar í tækjum eða ónógra öryggisráðstafana né heldur yfirsjónar þeirra er starfa í þágu skips. Í 2. mgr. er síðan mælt fyrir um skyldu útgerðarmanns til að kaupa tryggingu fyrir dánarbótum og slysabótum sem á hann kunni að falla samkvæmt 1. mgr. Er jafnframt kveðið á um fjárhæð bóta samkvæmt þessari tryggingu. Ekki er ágreiningur í málinu um að hin stranga ábyrgðarregla samkvæmt 1. mgr. 172. gr. gildir ekki til greiðslu bóta umfram þær fjárhæðir sem 2. mgr. kveður á um og að stefndi hafi til fulls greitt þær 8. mars 2007. Áfrýjandi byggir kröfu sína í málinu á ábyrgðarreglu 1. mgr. 171. gr. siglingalaga en samkvæmt henni ber útgerðarmaður ábyrgð á tjóni sem stafar af yfirsjónum eða vanrækslu í starfi hjá skipstjóra, skipshöfn, hafnsögumanni eða öðrum sem starfa í þágu skips.
Kvittunin 8. mars 2007 var undirrituð af héraðsdómslögmanni sem áfrýjandi hafði gefið fullnægjandi umboð til að koma fram fyrir sína hönd í samskiptum við stefnda vegna andláts sonar hennar. Lögmaðurinn hafði fengið kvittunina senda á starfsstöð sína með símbréfi áður en hann undirritaði hana. Kvittunin var gefin í framhaldi kröfugerðar af hálfu áfrýjanda sem meðal annars fól í sér kröfu um bætur fyrir missi framfæranda samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga. Í ljósi fyrrgreindra ákvæða 172. gr. siglingalaga var ekki óeðlilegt að orðið „skaðabótakvittun“ kæmi fram á kvittuninni. Í texta hennar kom fram með skýrum hætti að fjárhæðin sem kvittað var fyrir væri lokagreiðsla vegna tjónsins og allar kröfur vegna málsins væru að fullu greiddar. Verður fallist á þá niðurstöðu hins áfrýjaða dóms að yfirlýsingin um lyktir málsins í kvittuninni sé við framangreindar aðstæður skuldbindandi fyrir áfrýjanda og verður dómurinn því staðfestur um sýknu stefnda sem og um málskostnað og gjafsóknarkostnað.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður áfrýjandi dæmd til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði að meðtalinni þóknun lögmanns hennar sem ákveðst eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, A, greiði stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf., 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, 300.000 krónur.
Sératkvæði
Hjördísar Hákonardóttur
Í kröfubréfi þáverandi lögmanns áfrýjanda 12. febrúar 2007 er krafist dánarbóta samkvæmt 172. gr. siglingalaga nr. 34/1985 að fjárhæð 1.206.481 króna. Þá er krafist 57.165 króna vegna eftirstöðva útfararkostnaðar samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Loks er krafist bóta samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga að fjárhæð 7.574.866 krónur með þeim rökum að í sérstökum tilvikum sé unnt að dæma bætur til foreldra sem notið hafi fjárhagslegs stuðnings frá barni. Eru í bréfinu færð rök fyrir því, að þetta eigi við um áfrýjanda og því lýst hvernig krafan er reiknuð.
Í svarbréfi 27. febrúar 2007 taldi stefndi ósannað að skilyrðum 12. gr. skaðabótalaga væri fullnægt og því væri „óhjákvæmilegt að hafna kröfu um bætur vegna missis framfæranda.“ Félagið væri „hins vegar reiðubúið til að ganga til uppgjörs á bótum skv. 172. gr. siglingalaga við fyrsta hentugleika.“
Í framhaldi af þessum bréfaskiptum sendi stefndi símbréf 8. mars 2007 til lögmanns áfrýjanda ásamt skaðabótakvittun. Í bréfinu segir meðal annars: „Hjálögð er skaðabótakvittun vegna greiðslu dánarbóta skv. 172. gr. siglingalaga. Þá er félagið reiðubúið til að greiða kr. 57.165 vegna þess útfararkostnaðar sem umbjóðandi þinn hefur ekki fengið greiddan hjá útgerðinni. Það er gert vegna sérstaks eðlis þessa máls, en án viðurkenningar á bótaskyldu.“
Síðar sama dag veitti lögmaður áfrýjanda, samkvæmt umboði, viðtöku greiðslu á dánarbótum að fjárhæð 1.206.481 króna og öðrum kostnaði 57.165 krónur, samtals 1.263.646 krónur. Móttökukvittun ber yfirskriftina „Skaðabótakvittun“. Síðan er í henni tilgreindur tjónþoli og tryggingartaki, sem er útgerðin, tjónsnúmer og skírteinisnúmer en við þann lið segir: „244 Sjómannatrygging“. Megintexti kvittunarinnar er svohljóðandi: „Tryggingamiðstöðin hf. hefur greitt undirrituðum skaðabætur vegna ofangreinds tjóns samkvæmt eftirfarandi sundurliðun. Móttakandi staðfestir að neðangreind fjárhæð er lokagreiðsla vegna þessa tjóns og allar kröfur vegna málsins eru að fullu greiddar. Jafnframt afsalast til Tryggingamiðstöðvarinnar hf. allar endurgreiðslur eða kröfur á hendur þriðja aðila vegna tjónsins. Bætur eru dánarbætur skv. 172. siglingalaga.“ Þá er neðst tilgreindur „Greiðslukódi“ og þar undir annars vegar „DÁN 01 Dánarbætur“ og hins vegar „ANN Annar kostnaður“ og framangreindar fjárhæðir við hvorn lið fyrir sig. Undir þessa kvittun ritaði lögmaðurinn án fyrirvara.
Hinn 30. sama mánaðar sendi annar lögmaður bréf til stefnda fyrir hönd áfrýjanda. Þar var krafist bóta á grundvelli 12. gr. skaðabótalaga. Með símbréfi 2. apríl sama ár var kröfunni hafnað og vísað til þess að í „skaðabótakvittun vegna banaslyss [komi fram] að um lokagreiðslu sé að ræða og allar kröfur vegna málsins séu að fullu greiddar.“ Þessum skilningi stefnda var mótmælt samdægurs og áréttað að ekki væri verið að krefjast bóta samkvæmt 172. gr. siglingalaga heldur dánarbóta samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga. Hinar fyrrnefndu væru vátryggingabætur en hinar síðarnefndu eiginlegar skaðabætur. Áfrýjandi hefði móttekið dánarbætur úr sjómannatryggingu og hefðu allar kröfur vegna hennar þar með verið að fullu greiddar. Væri ekki unnt að líta svo á að áfrýjandi hefði afsalað sér skaðabótarétti vegna málsins við móttöku dánarbóta samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Stefndi svaraði sama dag og kvaðst standa við afstöðu sína. Skaðabótamál var þá höfðað á hendur stefnda og var stefna þingfest 6. september 2007.
Þegar virt eru ofangreind samskipti aðila í tengslum við bótauppgjörið, þar sem stefndi féllst á tvo af þremur liðum upphaflegrar kröfu áfrýjanda og greiddi þá þegar í stað, en hafnaði hinum þriðja, þá getur stefndi ekki haldið því fram með gildum rökum að hann hafi verið í góðri trú um það að áfrýjandi félli frá skaðabótakröfu sinni með því að fá lögbundnar tryggingabætur greiddar. Hafði lögmaður áfrýjanda heldur ekkert tilefni til að ætla að stefndi liti svo á. Verður í þessu sambandi að hafa í huga að um veigamikla hagsmuni áfrýjanda er að ræða, hversu hratt þessi samskipti gengu fyrir sig, og einnig hversu stuttur tími leið frá greiðslunni og þar til kröfubréf til ítrekunar kröfu um greiðslu bóta samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga var sent stefnda. Í þessu sambandi verður að líta til þess að löggjafinn hefur í 27. gr. skaðabótalaga mælt fyrir um ákveðnar takmarkanir á heimild til að afsala sér rétti til skaðabóta fyrir líkamstjón. Þó að þessar reglur eigi ekki beint við hér, lýsa þær ákveðnu viðhorfi löggjafans til afsals slíkra réttinda. Tilgangur greiðslunnar er tekinn fram í kvittuninni og verður að líta á staðfestingu móttakanda um lokagreiðslu í því samhengi. Verður kvittunin því ekki skýrð á þann veg, að með henni hafi áfrýjandi afsalað sér frekari bótarétti gagnvart stefnda.
Þar sem meiri hluti dómsins hefur komist að öndverðri niðurstöðu varðandi framangreint atriði, verður ekki fjallað um hvort áfrýjandi eigi rétt til skaðabóta á grundvelli 12. gr. skaðabótalaga og hvort slíkur réttur myndi leiða til bótagreiðslu.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. febrúar 2008.
Mál þetta höfðaði A með stefnu birtri 7. ágúst 2007, á hendur Tryggingamiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6, Reykjavík. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 5. febrúar sl.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða 30.109.166 krónur með 4,5% vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá tjónsdegi, 27. maí 2006, til 6. september 2007, en dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 30.940.180 krónur með dráttarvöxtum frá 6. september 2007 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi miskabóta að álitum samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga með dráttarvöxtum frá 4. september . Loks krefst stefnandi málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst aðallega sýknu og málskostnaðar að mati dómsins. Til vara krefst hann lækkunar á kröfum stefnanda og að málskostnaður verði felldur niður.
Sonur stefnanda, B, lést um borð í X þann [...]. Eldur kom upp vegna bilunar í ljósabekk. B og einn annar skipverji fundust meðvitundarlausir í káetum sínum og voru úrskurðaðir látnir er læknir var kominn um borð í skipið með þyrlu Landhelgisgæslunnar.
Útgerðarmaður skipsins er Y. Í gildi var ábyrgðartrygging vegna útgerðar skipsins hjá stefnda, Tryggingamiðstöðinni hf.
Atvik verða hér rakin fyrst með beinni tilvitnun í málsatvikalýsingu í skýrslu Rannsóknarnefndar sjóslysa. Þá liggur frammi í dóminum ljósrit úr dagbók skipsins þar sem atburðum er lýst, en nefndin hefur einnig skoðað þessa frásögn. Þá gáfu þeir C skipstjóri og D vélstjóri skýrslur fyrir dómi og verður vitnað til framburðar þeirra í tengslum við skýrsluna.
Í skýrslu nefndarinnar segir:
„Um kl. 14:00 þegar X var stödd um 75 sjómílur vestur af Bjargtöngum kom aðvörun á rás 4 í brunaviðvörunarkerfi í brú sem var tengd skynjurum í íbúðarými á aðalþilfari skipsins. Skipstjóri var á stjórnpalli og reyndi strax að ná í vélstjóra til að aðgæta hvað orsakaði viðvörunarmerkið. Hann náði ekki sambandi við hann og fór niður á íbúðagang til að athuga hvað um var að vera. Vélstjórinn fékk boð í símboða um aðvörun í vélarúmi og við athugun kom í ljós að það var brunaviðvörunarkerfið. Hann reyndi að hafa samband við stjórnpall en náði ekki sambandi.
Þegar skipstjórinn kom niður á íbúðarganginn á aðalþilfari sá hann reyk leggja frá frístundaherbergi, sem var á móts við eldhúsið, stjórnborðsmegin þar sem gufubaðsklefi og ljósabekkur er. Skipstjórinn náði í slökkvitæki og ætlaði að reyna að slökkva eldinn en það tókst ekki vegna mikils reyks og hita.
Yfirstýrimaður var í borðsal og varð var við reykjarlykt. Fór hann fram á ganginn og sá þá reyk koma frá frístundaherberginu. Hitti stýrimaðurinn skipstjórann en þeir urðu að hörfa frá vegna hita og reyks. Fór stýrimaðurinn aftur í gang að trollþilfari og gangsetti brunaboða.
Skipstjórinn fór upp í brú til að senda út neyðarkall, láta nærstödd skip vita, kalla áhöfnina saman og skipuleggja aðgerðir. Við athugun kom í ljós að tvo skipverja vantaði og voru vistarverur beggja á hæðinni þar sem bruninn átti sér stað.
Skipverjar náðu í tvö reykköfunartæki sem voru um borð en við flutning á þeim á brunastað týndist önnur reykgríman. Einn skipverji setti á sig reykköfunartækin og fór, tengdur líflínu, með brunaslöngu frá neðsta íbúðagangi upp stiga sem lá að rýminu sem eldurinn var en eldvarnarhurð var við stigann á efra þilfarinu. Tókst honum að opna glufu á hurðina og sprauta inn í rýmið. Hann taldi sig hafa náð að slökkva eldinn í frístundaherberginu en þurfti þá að fara til baka vegna hitans auk þess sem lengja þurfti brunaslönguna. Vegna vandræða með eldvarnahurðina ákváðu skipverjar að opna neyðarlúgu, sem var framarlega á íbúðagangi til að finna skipverjana sem vantaði. Fljótlega eftir að skipverjinn kom upp á íbúðaganginn um neyðarlúguna fann hann annan manninn meðvitundarlausan og gat dregið hann að lúgunni þar sem annar skipverji kom honum til aðstoðar við að ná honum niður. Farið var með skipverjann aftur á þilfar og reyndar árangurslausar lífgunartilraunir.
Annar skipverji tók þá við reykköfunartækjunum og fór fram eftir ganginum og fann hinn skipverjann meðvitundarlausan í geymslurými fremst í ganginum við neyðarútgang upp á veðurþilfar á framskipi. Hann var tekinn upp um lúguna en lífgunartilraunir báru ekki árangur. Báðir skipverjarnir voru fundnir um kl. 14:45.
... TF-LIF var komin til skipsins um kl. 15:55 og fóru slökkviliðsmennirnir og þyrlulæknirinn um borð í skipið til aðstoðar. Skipverjarnir tveir voru þá úrskurðaðir látnir.“
Um einstakar niðurstöður rannsóknarinnar segir m.a.:
„...að fram kom hjá skipverjum að andlitsljósin í ljósabekknum hefðu í þessum túr átt það til að loga óeðlilega lengi eftir notkun hans. Fram kom að vélstjóra hafði verið tilkynnt það;
að vélstjórinn hafði skipt um startara í ljósabekknum í ferðinni og prófað hann. Að hans sögn virkuðu andlitsljósin þá eðlilega við prófun;
að skipverjinn sem notaði ljósabekkinn síðast hafði kveikt á honum en slökkt á honum aftur á meðan hann var að binda lok hans þar sem bilun var í pumpu. Hann var síðan í vandræðum með að kveikja á honum aftur en það tókst að lokum. Hann kvaðst hafa verið í honum í um það bil 20 mín. en þá farið í sturtu. Eftir sturtuna sá hann að andlitsljósin voru ennþá logandi og hann fann hitalykt í rýminu þegar hann yfirgaf það um kl. 13:40;
að skipverjinn kvaðst hafa skilið við ljósabekkinn eins og honum bar, þ.e. lokið krækt með teygju í opinni stöðu;
að annar skipverji átti leið fram hjá frístundarýminu um kl. 14:00 og sá að andlitsljósin voru logandi á ljósabekknum auk þess sem hann fann sterka hitalykt koma frá honum. Hann kvaðst hafa tilkynnt skipstjóra þetta og óskað eftir að vélstjóri liti á ljósabekkinn. Skipstjórinn náði ekki í vélstjórann;
að rafmagnstaflan fyrir ljósabekkinn var í ganginum bakborðsmegin, nær eldhúsi. Í ljós kom að límt var yfir varan (25A) með svörtu límbandi og ljóst er að það hefði ekki getað haldið örygginu inni. Vélstjórinn taldi að það væri gamalt og verið til að fyrirbyggja að menn ættu við öryggið þegar gamli ljósabekkurinn sem var áður um borð bilaði;
að lágspenntur stýrisstraumur stjórnar segulrofum sem hleypa straum inn á ljósabekkinn. Lítil iðnaðartölva stýrir þessu ferli eftir ákveðnu kerfi þannig að allt fari ekki í gang í einu. Ryk og óhreinindi geta haft áhrif á virkni segulrofanna fyrir andlitsperurnar þannig að þeir standi hugsanlega á sér. Ef andlitsperurnar loga lengi án kælingar hitna þær mjög mikið. Ef það gerist á bræðivar að rjúfa strauminn. Ef bræðivarið bráðnar er það ónýtt og skipta þarf um það; ...
að ekki var ástand segulrofanna undir ljósabekknum skoðað sérstaklega og stýribúnaður þeirra ekki tekinn til varðveislu til að hægt væri að gera faglega skoðun á honum. Ekki er því vitað um ástand hans eftir brunann en þó má sjá á ljósmyndum sem teknar voru á vettvangi að svæðið undir bekknum var lítið brunnið;
að reykköfunargríman sem týndist fannst síðar á efsta íbúðargangi þar sem skipverjar ætluðu að hefja fyrstu aðgerðir en þurftu að hætta við vegna reyks og hita;
að skoðun á skipinu hafði verið gerð síðast 30. ágúst 2005. Þá var brunaviðvörunarkerfið yfirfarið án teljandi athugasemda...“
Loks kemur fram í skýrslu nefndarinnar að dánarorsök beggja skipverjanna hafi verið reykeitrun.
C skipstjóri bar að miklu leyti um atvik á sama veg og fram kemur í framangreindri skýrslu. Hann kvaðst ekki hafa heyrt um ólag á ljósabekknum, yfirleitt væri leitað til vélstjóranna þegar slík tæki biluðu.
D vélstjóri bar að þann 23. janúar hefði hann skipt um startara í ljósabekknum. Þetta hefði verið eftir að honum hafi verið sagt að hann slökkti seint á sér. Hann hefði prófað hann á eftir og hann þá virkað eðlilega. Hann sagði að sér hefði verið sagt það eftir á að ló hefði safnast í bekkinn.
Ekki voru leidd önnur vitni um atvik og aðstæður um borð í skipinu. Stefnandi gaf aðilaskýrslu og leiddi vitnið S, sem var góður vinur hins látna. Í skýrslu S kom fram að hann hefði vitað til þess að B heitinn hefði kostað að mestu heimilishald þeirra mæðgina. Hann hafi borgað allt í sambandi við húsið og hún hafi verið á bílnum hans.
Stefnandi kvaðst hafa orðið fyrir andlegu niðurbroti og reynt að fyrirfara sér. Eftir það hafi B heitinn boðið sér að koma og búa hjá sér á Akureyri. Hún hafi ekki ráðið við að borga af íbúð sinni í Reykjavík. Hún kvaðst hafa hætt að vinna vorið 2005. Hún hafi reynt að vinna um stuttan tíma síðastliðið sumar. Þá væri hún við nám í hjúkrunarfræði eftir því sem hún gæti. Það gengi misjafnlega þar sem hún væri haldin þunglyndi og kvíða. Hún hefði nú lokið við fyrsta námsár.
Stefnandi sagði að B hefði séð um rekstur og afborganir af íbúðinni og borgað flest sem þurfti að borga. Hún hefði sjálf borgað símann. Þá hefði hann keypt inn þegar hann var í landi, en hún þess á milli. Þá hefði hann átt og rekið bíl. Hún kvaðst nú vera búin að selja íbúð þá er hún átti í Reykjavík, en væri ekki viss um að hún réði við að borga af íbúðinni á Akureyri, sem hún ætti nú.
Lögð hafa verið fram í málinu gögn frá Tryggingastofnun ríkisins varðandi stefnanda. Þann 22. september 2005 er úrskurðað að hún skuli njóta endurhæfingarlífeyris frá 1. september 2005 til aprílloka 2006. Í bréfi stofnunarinnar segir: „...með sögu um þunglyndisvanda og ofneyslu áfengis. Lagðist inn á geðdeild í maí 2005 vegna lyfjaeitrunar. Hún sækir um endurhæfingarlífeyri og styður læknirinn þá umsókn með endurhæfingaráætlun.“
Þann 27. apríl og 3. nóvember 2006 var ákveðið að stefnandi nyti áfram endurhæfingarlífeyris allt til 28. febrúar 2007. Hafði hámarkstíma þá verið náð. Þann 15. febrúar 2007 mat tryggingalæknir stefnanda til almennrar örorku og nýtur hún nú örorkulífeyris frá Tryggingastofnun. Endurmat á að fara fram í mars 2008.
Lögmaður ritaði í umboði stefnanda bréf til stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar 12. febrúar 2007. Í bréfinu er krafið um bætur úr slysatryggingu sjómanna samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Þá er krafist bóta fyrir missi framfæranda samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga.
Tryggingamiðstöðin svaraði þessu erindi með bréfi dagsettu 27. febrúar 2007. Lýsti félagið sig reiðubúið til að gera upp slysatryggingarbætur samkvæmt 172. gr. siglingalaga við stefnanda. Hins vegar var því hafnað að stefnandi gæti átt rétt á bótum fyrir missi framfæranda.
Hinn 8. mars 2007 voru stefnanda greiddar dánarbætur að fjárhæð 1.206.481 króna. Við sama tækifæri voru greiddar 57.165 krónur upp í útfararkostnað, en Y. hafði greitt þann kostnað að öðru leyti. Hafði þessi greiðsla verið boðin í áðurnefndu bréfi stefnda 27. febrúar 2007 og tekið fram að bótaskylda væri ekki viðurkennd. Lögmaður sem þá hafði umboð stefnanda undirritaði kvittun er stefndi útbjó. Skjalið hefur fyrirsögnina Skaðabótakvittun og er megintexti þess svohljóðandi:
„Tryggingamiðstöðin hf. hefur greitt undirrituðum skaðabætur vegna ofangreinds tjóns samkvæmt eftirfarandi sundurliðun. Móttakandi staðfestir að neðangreind fjárhæð er lokagreiðsla vegna þessa tjóns og allar kröfur vegna málsins eru að fullu greiddar. Jafnframt afsalast til Tryggingamiðstöðvarinnar hf. allar endurgreiðslur eða kröfur á hendur þriðja aðila vegna tjónsins. “
Fljótlega ritaði annar lögmaður stefnda bréf fyrir hönd stefnanda. Bréfið er dagsett 30. mars 2007 og er þar krafist viðurkenningu bótaskyldu og greiðslu bóta fyrir missi framfæranda.
Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi kveðst telja að Y beri skaðabótaábyrgð á tjóni hennar samkvæmt 1. mgr. 171. gr. siglingalaga og reglum um húsbóndaábyrgð. Y hafi haft ábyrgðartryggingu hjá stefnda og sé mál höfðað á hendur tryggingafélaginu samkvæmt heimild í 1. mgr. 44., sbr. 146. gr. laga nr. 30/2004.
Stefnandi segir að eldurinn hafi komið upp í rafmagnsbúnaði í ljósabekknum. Úr frístundaherberginu hafi eldurinn átt greiða leið fram á ganginn og borist yfir í eldhúsið bakborðsmegin. Þetta kveðst stefnandi telja óforsvaranlegar eldvarnir.
Ljósabekknum hafi ekki fylgt nein fyrirmæli eða umgengnisreglur. Þetta teljist stórkostlegt gáleysi af hálfu skipstjóra sem útgerð beri ábyrgð á. Vitað hafi verið að mikil ryk- eða lósöfnun gæti hindrað eðlilega virkni segulrofa fyrir andlitsljósin. Skipverjar hafi gert athugasemdir um mikla hitalykt sem lagt hafi af bekknum. Vélstjóri hafi skipt um startara í bekknum sem virkaði eðlilega eftir þetta að hans sögn. Þó hafi einn skipverji orðið var við mikla hitalykt af bekknum eftir þetta. Annar hafi orðið var við sömu lykt 20 mínútum seinna og tilkynnt það skipstjóra, sem reyndi að tilkynna vélstjóra. Ekkert hafi því verið gert út af hitalyktinni sem skipstjóra var tilkynnt um kl. 14.00 á slysdegi. Stuttu síðar hafi komið upp eldur í rýminu og þá hafi að minnsta kosti þrír skipverjar vitað um hættulegt ástand á bekknum, þar á meðal skipstjóri. Enginn hafi gert viðeigandi ráðstafanir. Allt þetta hafi verið ávísun á íkveikju og því stórkostlegt gáleysi af hálfu mannanna, sem stefndi ber ábyrgð á.
Stefnandi segir að skipstjóri hafi vanrækt að ræsa brunabjöllur í íbúðarrýmum. Ekki sé útilokið að betur hefði farið ef hann hefði ræst bjöllurnar. Vegna viðvarana er hann hafði fengið um ástand bekkjarins verði að telja þetta stórkostlegt gáleysi.
Stefnandi fullyrðir að ekki hafi verið haldnar reglulegar bruna- og björgunaræfingar. Þá hafi ekki verið flóttagrímur í klefum áhafnar. Vísar stefnandi hér til reglugerðar nr. 122/2004.
Y sé að öllu virtu bótaskyldur vegna tjónsins. Einkum vegna þess að svo hættulegt tæki hafi verið á jafn hættulegum stað í skipinu. Engum geti dulist sú hætta sem fylgi því að skilja eftir tæki sem mikil eldhætta fylgi við vistarverur áhafnar.
Í stefnu er bótaskylda Yeinnig byggð á reglum um skaðsemisábyrgð. Við of mikinn hita eigi hitaliði í bekknum að brenna yfir og rjúfa straum. Hitaliði í bekknum hafi ekki gert það og því hafi kviknað í. Beri Y sem eigandi bekkjarins ábyrgð á tjóni sem af þessum galla hafi leitt.
Þá segir í stefnu að Y hafi keypt bekkinn notaðan. Þeim hefði verið í lófa lagið að kaupa nýjan bekk sem uppfyllti ítrustu öryggiskröfur. Það sé óforsvaranlegt að kaupa gamlan bekk sem ekki hafi fylgt leiðbeiningar og nota í vistarverum skipverja, einkum eftir að farið hafi að bera á hitalykt.
Þessi tvö síðasttöldu atriði nefndi lögmaður stefnanda ekki í munnlegum málflutningi.
Stefnandi mótmælir því að hún hafi staðfest að greiðslu allra bóta vegna tjónsins hafi verið lokið með greiðslu bóta samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Hún bendir á að umrædd kvittun sé ekki fyrir greiðslu skaðabóta eins og texti hennar beri með sér. Skýrt komi fram að um sé að ræða dánarbætur samkvæmt 172. gr. siglingalaga og að greitt sé úr sjómannatryggingu.
Aðalkrafa stefnanda er um bætur fyrir missi framfæranda samkvæmt 13. gr. skaðbótalaga, eins og hún hafi verið maki eða sambúðarmaki hins látna. Miðist bæturnar við 30% af örorkubótum hins látna á dánardegi. B hafi verið ókvæntur og barnlaus. Stefnandi kveðst hafa búið hjá honum og verið með litlar tekjur. Nú hafi hún ekki aðrar tekjur en lífeyrisgreiðslur. B heitinn hafi séð um rekstur húsnæðisins og unnið fyrir heimilinu. Hún fullyrðir að hún hafi haft vilyrði fyrir því að búa hjá hinum látna um ókomna tíð. Þar sem þau hafi aðeins verið tvö í heimili gildi sömu sjónarmið við ákvörðun bóta til stefnanda eins og um hefði verið að ræða sambúðarmaka hins látna. Hún hafi misst fyrirvinnu heimilisins í slysinu.
Stefnandi segir að margföldunarstuðull samkvæmt 6. gr. skaðabótalaga sé 13,93467. Laun hans síðustu þrjú almanaksár fyrir slysdag hafi að meðaltali numið 7.202.459 krónum, framreiknað til slysdags. Margfaldað með áðurgreindum stuðli nemi fjárhæðin 100.363.885 krónum. Nemi því 30% af þeirri fjárhæð 30.109.166 krónum. Við þá upphæð bætist 4,5% ársvextir frá 27. maí 2006 til 27. júní 2007, 1.470.537 krónur.
Til vara krefst stefnandi bóta fyrir missi framfæranda samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga. Undir þessum lið reiknar stefnandi ýmsa liði framfærslukostnaðar samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni. Framreiknar hún fjárhæðir sem eru á verðlagi 2005 fram til júní 2007 samkvæmt vísitölu neysluverðs. Hún miðar við 52 ára aldur sinn er sonur hennar lést og að hún hefði búið hjá honum til 75 ára aldurs. Þá segir í stefnu: „Greiðslur verða eftir atvikum núvirtar miðað við 4,5% vaxtafót samanber 16. gr. skaðabótalaga og dómaframkvæmd. “
Þeirri aðferð sé beitt að fyrst sé upphæðin tekin eftir ár og afvöxtuð með 4,5% og síðan koll af kolli næstu 23 árin.
Til vara kveðst stefnandi gera kröfu um meðalneyslu í húsnæði, hita og rafmagni miðað við einstakling sem er einn í heimili í þéttbýli utan höfuðborgarsvæðisins, kr. 896.006 á ári árið 2005. Í júní 2007 nemi þessi upphæð 1.000.031 krónu. Færðar til núvirðis nemi þessar greiðslur 14.148.213 krónum.
Stefnandi reiknar meðalneyslu í mat og drykk samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar og hvert vægi fullorðinn einstaklingur hefur gagnvart þeim sem er einn í heimili. Samkvæmt því sé tjón stefnanda 292.706 krónur á ári, eða 4.141.139 krónur fært til núvirðis.
Á sama hátt reiknar stefnandi húsgögn og heimilisbúnað til 4.560.564 króna, póst og síma til 1.959.014 króna og sjónvarp, áskriftir, myndbönd og tölvur til 1.038.051 krónu.
Að lokum telur stefnandi að B hefði stundað ýmis heimilisstörf og þurfi hún ekki að þola þann missi bótalaust. Vill hún áætla verðmæti þeirra starfa 30.000 krónur á mánuði, sem núvirt nemi 5.093.199 krónum.
Samanlagt nema þessir liðir 30.940.180 krónum og mynda varakröfu stefnanda. Stefnandi kveðst ekki gera kröfur vegna útgjalda til áfengis- og tóbaksneyslu, fatakaupa, heilsugæslu, ferða og flutninga, tómstunda og menningarþátttöku, skartgripakaupa og annarrar vöru og þjónustu.
Stefnandi kveðst krefjast miskabóta að álitum til viðbótar við aðal- og varakröfu. Stefndi hafi valdið dauða B heitins með stórkostlegu gáleysi.
Stefnandi kveðst vísa til meginreglna íslensks skaðabótaréttar og sakarreglunnar og til 171. gr. siglingalaga. Þá vísar hún til þess sem hún kallar meginreglur um húsbóndaábyrgð vinnuveitanda vegna skaðaverka sem rekja má til ásetnings eða gáleysis starfsmanna hans, svo og til hlutlægra bótareglna um hættulegar vinnuaðstæður og gölluð tæki. Enn fremur vísar hún til skaðabótalaga nr. 50/1993, einkum 5., 6., 7., 12., 13., 15., 16. og 2. mgr. 26. gr., laga nr. 46/1980 og laga nr. 30/2004.
Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi mótmælir því að Y beri skaðabótaábyrgð á því slysi sem hér er um rætt samkvæmt 171. gr. siglingalaga eða reglum um húsbóndaábyrgð. Þá beri Y ekki skaðsemisábyrgð á slysinu. Slys þetta sé óhappatilvik sem stefndi beri ekki ábyrgð á að lögum.
Stefndi kveðst mótmæla því að eldvarnir hafi verið óforsvaranlegar. Um sé að ræða eitt af flaggskipum fiskiskipaflotans, byggt eftir ströngustu kröfum. Þá sé útgerð skipsins þekkt fyrri að halda skipum sínum vel við og sjá um að hlutir séu í lagi. Aldrei hafi verið gerðar athugasemdir við eldvarnir og haffærisskírteini hafi verið í gildi. Síðast hafi verið farið yfir brunaaðvörunarkerfi 30. ágúst 2005 og þá hafi engar athugasemdir verið gerðar.
Stefndi mótmælir því að það geti talist stórkostlegt gáleysi af hálfu skipstjóra að ekki voru um borð sérstakar reglur varðandi umgengni og viðhald á ljósabekknum. Skipverjar hafi sjálfir átt frumkvæði að því að kaupa bekkinn og þeir sem notuðu bekkinn hafi vitað eða mátt vita hvernig ætti að umgangast slík tæki. Það sé rangt að vitað hafi verið að mikið ryk- eða lósöfnun gæti hindrað eðlilega virkni andlitsljósanna. Um slíkt hafi ekki verið að ræða. Vélstjóri hafi eftir ábendingu skipverja skoðað bekkinn og gert endurbætur. Hafi bekkurinn eftir það virkað eðlilega.
Stefndi segir að skipstjóri hafi brugðist strax við brunaviðvöruninni um kl. 14.00. Þá hafi strax verið hafist handa við að láta mannskapinn vita og einnig nálæg skip. Báðir skipverjarnir sem létust hafi fundist um kl. 14.45, eða rúmum hálftíma eftir að eldsins varð fyrst vart. Það geti ekki talist langur tími. Við athugun eftir brunann hafi viðvörunarkerfi reynst í lagi og telur stefndi að ekkert bendi til að viðvörunarbjöllurnar hafi ekki farið í gang í íbúðum skipsins. Yfirstýrimaður hafi sett brunaboða í gang klukkan rúmlega 14.00. Þá hafði verið haldin bruna- og björgunaræfing á árinu. Þá sé ekki skylt að hafa flóttagrímur í íbúðum skipverja og verði bótaskylda ekki á því byggð að útgerðin hafi síðar ákveðið að koma fyrir slíkum grímum.
Slysið verði ekki rakið til atvika sem útgerð skipsins beri skaðabótaábyrgð á. Þvert á mót hafi menn brugðist rétt við og gert allt sem unnt var til að koma í veg fyrir tjónið.
Stefndi mótmælir því að skaðsemisábyrgð eigi hér við. Samkvæmt 1. gr. laga nr. 25/1991 hvíli slík ábyrgð á framleiðanda eða dreifingaraðila. Útgerð skipsins geti ekki talist framleiðandi eða dreifingaraðili. Þá hafi skipverjar sjálfir átt frumkvæði að því að fá ljósabekkinn.
Stefndi byggir á því að hann hafi greitt fyrri lögmanni stefnanda fullnaðarbætur. Tekið hafi verið við þeim bótum án fyrirvara og í kvittun komi fram að um lokagreiðslu vegna tjónsins sé að ræða. Í þessu sambandi bendir stefndi á að sami lögmaður hafi gert kröfu um bætur fyrir missi framfæranda samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga. Síðan hafi hann fallið frá þeirri kröfu og telur stefndi að stefnandi sé bundin af þeirri ráðstöfun.
Stefndi mótmælir því að stefnandi geti átt rétt á bótum sem maki eða sambúðarmaki samkvæmt 13. gr. skaðabótalaga. Ekkert liggur fyrir um það að stefnandi hefði búið hjá syni sínum um ókomin ár. Um það sé enginn til frásagnar nema hún sjálf. Í greinargerð er ekki farið yfir tölulega útfærslu á þessari kröfu stefnanda en henni er mótmælt.
Varðandi kröfu um bætur samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga mótmælir stefndi því að stefnandi hafi í raun misst framfæranda. Ekki sé um að ræða framfærsluskyldu að lögum og því sé óvíst hvort um framfærslu yrði að ræða til frambúðar.
Stefndi bendir á að stefnandi eigi fasteign í Reykjavík. Hún hafi haft atvinnutekjur að fjárhæð 3.005.724 krónur á árinu 2005. Breytingar hafi orðið á högum hennar og hún hafi haft tekjur frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum á árinu 2006, 1.692.059 krónur samanlagt. Óvíst sé hvort þessi breyting sé varanleg, en samkvæmt bréfi fyrri lögmanns stefnanda frá 12. febrúar 2007 sé hér um tímabundið ástand að ræða.
Stefndi kveðst mótmæla tölulegri útfærslu stefnanda á varakröfunni. Engin gögn liggi frammi til stuðnings útreikningnum og er skorað í greinargerð á stefnanda að leggja þau gögn fram.
Stefndi tekur fram að ekki séu forsendur til þess að gefa sér að stefnandi hefði búið hjá syni sínum til 75 ára aldurs. Í reynd sé þessi krafa í skötulíki og ekki dómtæk vegna vanreifunar.
Stefndi mótmælir miskabótakröfu. Ekki hafi verið um að ræða stórkostlegt gáleysi eða ásetning hjá neinum þeirra sem komu við sögu.
Varakrafa stefnda er um að kröfur verði lækkaðar, en þá komi töluleg sundurliðun kröfugerðar til skoðunar. Undir rekstri málsins lagði stefndi fram útreikning tryggingastærðfræðings á eingreiðsluverðmæti bóta frá Tryggingastofnun ríkisins. Kemur fram í bréfi tryggingastærðfræðingsins að stefndi hafi óskað eftir útreikningi á eingreiðsluverðmæti bóta frá Tryggingastofnun, sem ætla megi að B heitinn hefði fengið ef hann hefði lifað slysið af við 100% örorku. Tekið er fram að ekki sé vitað hvaða rétt hann hefði átt til örorkulífeyris frá lífeyrissjóðum, en þær ættu að koma til útreiknings við frádrátt samkvæmt 5. gr. skaðabótalaga. Þá hefðu þær áhrif til lækkunar á bætur frá Tryggingastofnun.
Höfuðstólsverðmæti ætlaðra bótagreiðslna er talið nema 29.878.799 krónum og að til frádráttar kæmu 20.018.795 krónur.
Forsendur og niðurstaða.
Stefndi hefur ekki greitt neinar skaðabætur vegna andláts B heitins. Greiðsla á litlum hluta útfararkostnaðar var innt af hendi án viðurkenningar bótaskyldu. Stefndi greiddi stefnanda slysatryggingarbætur, en slysatrygging þessi er lögbundin samkvæmt 172. gr. siglingalaga. Í kvittun fyrir greiðslunni segir ranglega að greiddar hafi verið skaðabætur. Þá segir að greiðslan, sem í reynd er bætur samkvæmt samningi um slysatryggingu, sé lokagreiðsla vegna þessa tjóns og að allar kröfur vegna málsins séu að fullu greiddar.
Lögmaður sá sem undirritaði kvittun þessa fyrir hönd stefnanda var ekki leiddur til skýrslugjafar fyrir dóminum. Þá gáfu þeir starfsmenn stefnda sem önnuðust uppgjör þetta ekki skýrslu. Strangt tekið hefði verið rétt af stefnda að krefjast þess af stefnanda að hún félli frá kröfu um skaðabætur, fremur en að lýsa skaðabótakröfu að fullu greidda, kröfu sem ekki var greidd að neinu leyti. Þá er í kvittuninni framsal til stefnda Tryggingamiðstöðvarinnar á öllum kröfum vegna tjónsins á hendur þriðja aðila.
Þó kvittun þessi sé að ýmsu leyti sérkennileg, verður ekki fram hjá því litið að í texta hennar er því lýst yfir skýrlega að allar kröfur vegna máls þessa séu að fullu kvitta einungis fyrir þeirri greiðslu sem innt var af hendi. Undir kvittunina ritaði lögmaður er hafði umboð frá stefnanda og hafði krafið bréflega um skaðabætur auk slysatryggingarbóta. Í því ljósi hefði verið rétt af lögmanninum að gera fyrirvara um frekari kröfur, ef ætlunin var að krefjast þeirra. Yfirlýsing þessi er bindandi fyrir stefnanda og í henni felst það að fallið er frá kröfu um skaðabætur. Verður því að sýkna stefnda af skaðabótakröfu hennar.
Þarf þá ekki að kanna hvort útgerðarmaður skipsins sé bótaskyldur vegna slyssins og hverjar bætur stefnanda bæri vegna þess. Rétt er að málskostnaður falli niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði. Málflutningsþóknun lögmanns hennar ákveðst 750.000 krónur með virðisaukaskatti.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Stefndi, Tryggingamiðstöðin hf., er sýkn af kröfum stefnanda, A.
Málskostnaður fellur niður. Gjafsóknarkostnaður stefnanda greiðist úr ríkissjóði, þ.m.t. þóknun lögmanns hennar, 750.000 krónur.