Hæstiréttur íslands

Mál nr. 40/2017

Þrotabú Milestone ehf. (Áslaug Árnadóttir lögmaður)
gegn
þrotabúi Karls Emils Wernerssonar (Ólafur Eiríksson lögmaður), þrotabúi Steingríms Wernerssonar (Helgi Birgisson lögmaður) og þrotabúi Guðmundar Ólasonar og þrotabú Steingríms Wernerssonar gegn þrotabúi Milestone ehf. 

Lykilorð

  • Einkahlutafélag
  • Lán
  • Skaðabætur
  • Ábyrgð
  • Ábyrgð stjórnarmanna
  • Málshöfðunarfrestur
  • Fyrning
  • Afturvirkni

Reifun

Þb. M ehf. höfðaði mál á hendur S ehf., G, K og S og krafðist endurgreiðslu láns sem M ehf. hafði veitt S ehf. í tengslum við kaup félagsins á hlutum í A hf. árið 2007. S ehf. var hluthafi í M ehf. þegar lánssamningurinn var gerður. Eigandi S ehf. var G sem var jafnframt forstjóri M ehf. en hann undirritaði samninginn fyrir hönd beggja félaga. Deilt var um í málinu hvort lánið hefði verið í andstöðu við ákvæði 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Í héraðsdómi var krafa þb. M ehf. tekin til greina á hendur S ehf. einum, en undir rekstri málsins í héraði var bú S ehf. tekið til gjaldþrotaskipta. Ákvað þrotabú S ehf. að una niðurstöðu héraðsdóms og viðurkenna kröfu þb. M ehf. sem almenna kröfu í búið. Að gengnum héraðsdómi voru bú G, K og S tekin til gjaldþrotaskipta. Í dómi Hæstaréttar var talið að lánið hefði stangast á við 1. og 2. málslið 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 og að engin undaþáguákvæði þeirrar lagagreinar ættu við um það. Samkvæmt því hefði S ehf. borið að endurgreiða lánið með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laganna. Ljóst væri að þb. M ehf. fengi aðeins lítinn hluta kröfu sinnar greiddan úr þrotabúi S ehf. og hefði þb. M ehf. því orðið fyrir tjóni vegna lánveitingarinnar. Talið var að krafa þb. M ehf. á hendur þb. G, þb. K og þb. S væri fallin niður að því marki sem hún væri reist á reglum um skaðabætur þar sem málið hafði ekki verið höfðað innan þeirra tímamarka sem kveðið var á um í þágildandi 110. gr. laga nr. 138/1994. Ákvæði 5. mgr. 79. gr. sömu laga, sem þb. M ehf. reisti kröfu sína meðal annars á, byggði hins vegar efni sínu samkvæmt á reglum fjármunaréttar um kröfuábyrgð en ekki reglum um skaðabætur. Hefði ábyrgðarkrafan stofnast eftir að bú S ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta og ljóst var að félagið myndi ekki geta endurgreitt lánið. Um fyrningu kröfunnar hefðu því gilt almennar reglur laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 2. málslið 28. gr. laganna. Krafa þb. M ehf. hefði því ekki verið fyrnd þegar málið var höfðað. Þar sem G undirritaði lánssamninginn fyrir bæði lánveitanda og lántaka var talið að hann hefði gert eða framkvæmt samninginn í skilningi 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Væri lánafyrirgreiðsla af þessum toga ekki hluti af daglegum rekstri einkahlutafélags samkvæmt 2. mgr. 44. gr. sömu laga og yrði því ekki tekin ákvörðun um hana án sérstakrar heimildar frá stjórn M ehf. Í málinu lægju engin gögn fyrir um hvernig staðið var að ákvörðuninni. Ársreikningur M ehf. fyrir árið 2007 bæri það hins vegar með sér að hafa verið samþykktur af K og S sem þáverandi stjórnarmönnum félagsins. Hefðu engin gögn verið lögð fram um að K eða S hefðu nokkru sinni gert athugasemdir við umrædda gerninga en þeir höfðu verið færðir í bókhald M ehf. Var því talið að K og S hefðu sem stjórnarmenn M ehf. með beinum eða óbeinum hætti veitt G heimild til að veita lánið. Var þb. G, þb. K og þb. S því óskipt gert að greiða þb. M ehf. umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Greta Baldursdóttir og Aðalsteinn E. Jónasson landsréttardómari.

Aðaláfrýjandi þrotabú Milestone ehf. skaut málinu til Hæstaréttar 20. janúar 2017. Hann krefst þess að stefndu og gagnáfrýjanda verði óskipt gert að greiða sér 346.350 evrur, 419.229 svissneska franka, 28.046.557 japönsk jen og 134.445 bandaríkjadali með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. júní 2007 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 20. júní 2017 að fjárhæð 7.311.223 krónur. Þá krefst hann málskostaðar óskipt úr hendi þeirra í héraði og fyrir Hæstarétti.

Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms var bú Guðmundar Ólasonar tekið til gjaldþrotaskipta 14. september 2017. Þrotabúið hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti, en fyrir liggur að aðaláfrýjandi lýsti í þrotabúið þeirri kröfu sem höfð er uppi í máli þessu og hefur hún verið viðurkennd við gjaldþrotaskiptin.

Þá var bú Karls Emils Wernerssonar einnig tekið til gjaldþrotaskipta eftir uppkvaðningu héraðsdóms 16. apríl 2018. Samkvæmt yfirlýsingu skiptastjóra 28. apríl 2018 heldur þrotabúið ekki sjálft uppi þeim hagsmunum búsins sem deilt er um í málinu, en með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. veitti hann þrotamanninum heimild til að halda uppi vörnum í eigin nafni en til hagsbóta búinu. Þessi stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti úr hendi aðaláfrýjanda.

Steingrímur Wernersson áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 6. mars 2017, en bú hans var tekið til gjaldþrotaskipta 1. nóvember sama ár. Hefur þrotabúið tekið við aðild að málinu og krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur um annað en málskostnað, en til vara að krafa aðaláfrýjanda verði lækkuð. Í báðum tilvikum krefst gagnáfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Þrotabú Sátts ehf., sem var meðal stefndu í héraði, unir hinum áfrýjaða dómi.

I

1

Samkvæmt gögnum málsins var Milestone ehf. stofnað árið 1988. Munu hluthafar í félaginu í árslok 2007 hafa verið Leiftri Ltd. með 44,6% hlut, Karl Emil Wernersson með 28,2% og Steingrímur Wernersson með 22,2%, en að öðru leyti Sáttur ehf. með 1,5% eignarhlut auk þess sem Milestone ehf. hafi átt eigin hluti sem námu 3,5% af heildarhlutafénu. Eins og nánar er rakið í dómi Hæstaréttar 28. apríl 2016 í máli nr. 74/2015 mun Leiftri Ltd. hafa verið skráð í fyrirtækjaskrá Bresku Jómfrúareyjanna 25. maí 2005 með hlutafé að nafnvirði 39.733 evrur og Karl þá átt sæti í stjórn félagsins ásamt fjórum öðrum mönnum. Munu hluthafar í félaginu í árslok 2007 hafa verið Karl með um 65% hlut og Steingrímur með um 35% hlut. Sátu þeir tveir í stjórn Milestone ehf., Karl sem formaður en Steingrímur sem meðstjórnandi. Þá var Guðmundur Ólason forstjóri félagsins, en hann hafði gegnt starfi framkvæmdastjóra frá 24. desember 2004 og var starfsheiti hans breytt 1. september 2006.

Meðal eigna Milestone ehf. í árslok 2007 voru allir eignarhlutir í Sjóvá-Almennum tryggingum hf. en fyrr á því ári mun fyrrnefnda félagið hafa eignast gegnum dótturfélag sitt, Racon Holdings AB, sænskt vátryggingafélag og fjárfestingarbanka, Invik & Co. AB, ásamt dótturfélögum þess félags víða erlendis, sem síðar var gefið heitið Moderna Finance AB. Einnig mun Milestone ehf. í árslok 2007 hafa átt 82,04% hlut í Askar Capital hf.

Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 18. september 2009 og er frestdagur við skiptin 22. júní sama ár.

2

Sáttur ehf. var stofnað árið 2005 af Guðmundi Ólasyni og var hann eini hluthafinn í félaginu, en auk þess var hann stjórnarmaður þess og framkvæmdastjóri með prókúruumboð. Karl Emil Wernersson var varamaður í stjórn. Tilgangur félagsins var eignarhald, kaup og viðskipti með hlutabréf, hluti í félögum, önnur verðbréf og hvers kyns önnur fjárhagsleg verðmæti og skyldur rekstur.

Aðaláfrýjandi höfðaði mál þetta 8. og 9. nóvember 2010 og gerði þá kröfu á hendur gagnaðilum sínum, þar á meðal Sátti ehf., að þeim yrði gert að greiða sér þær fjárhæðir sem áður var getið. Með hinum áfrýjaða dómi var krafa aðaláfrýjanda tekin til greina á hendur Sátti ehf. einum, en undir rekstri málsins í héraði hafði bú félagsins verið tekið til gjaldþrotaskipta 26. október 2011. Að gengnum hinum áfrýjaða dómi lýsti skiptastjóri í þrotabúinu því yfir 24. febrúar 2017 að krafa aðaláfrýjanda samkvæmt dóminum væri viðurkennd við gjaldþrotaskiptin. Áður hafði Sáttur ehf. lýst kröfu í þrotabú Milestone ehf. vegna ógreidds arðs að fjárhæð 7.311.223 krónur og var sú krafa viðurkennd af skiptastjóra aðaláfrýjanda 20. júní 2017 jafnframt því að lýst var yfir skuldajöfnuði vegna kröfu aðaláfrýjanda á hendur þrotabúi Sátts ehf. Með þessu fékk aðaláfrýjandi þá innborgun á dómkröfu sína á hendur öðrum málsaðilum sem getið er um í framangreindri kröfugerð hans hér fyrir dómi. Þá er þess að geta að samkvæmt bréfi skiptastjóra í þrotabúi Sátts ehf. 24. febrúar 2017 munu vera óverulegar eignir í búinu og áætli hann að til greiðslu upp í kröfur komi að hámarki 7.500.000 krónur.

3

Í gögnum málsins kemur fram að fimm einkahlutafélög í eigu starfsmanna Milestone ehf. keyptu 4. júní 2007 samtals 17.000.000 hluti í Askar Capital hf. af Milestone ehf. fyrir samtals 340.000.000 krónur. Í tengslum við þau kaup gerðu einkahlutafélög þessi sama dag samninga við Milestone ehf. þar sem síðastnefnt félag veitti þeim lán að fjárhæð samtals 170.000.000 krónur, en svo virðist sem ætlast hafi verið til að fjárhæð hvers láns yrði í tilteknum hlutföllum talin vera í fjórum erlendum gjaldmiðlum. Átti hvert lán fyrir sig að bera svonefnda LIBOR vexti með tilteknu álagi og skyldi árlega leggja áfallna vexti við höfuðstól skuldar sem yrði greidd í einu lagi 31. desember 2009. Einn þessara samninga var milli Sátts ehf. og Milestone ehf. og tók hann til láns að fjárhæð 100.000.000 krónur. Óumdeilt er að 40% af þeirri fjárhæð hafi átt að vera í evrum eða sem svaraði 346.350 evrum, 30% í svissneskum frönkum eða 419.229 frankar, 20% í japönskum jenum eða 28.046.557 jen og 10% í bandaríkjadölum eða 134.445 dalir. Eru þetta sömu fjárhæðir og dómkrafa aðaláfrýjanda hljóðar á samkvæmt áðursögðu.

Eitt af þeim félögum sem keyptu eignarhluti í Askar Capital hf. var Lokkadís ehf., sem mun hafa verið í fullri eigu Guðmundar Ólasonar. Keypti Lokkadís ehf. nánar tiltekið 10.000.000 hluti af þeim 17.000.000 sem Milestone ehf. seldi í Askar Capital hf. með kaupsamningi 4. júní 2007 fyrir 200.000.000 krónur sem áttu að greiðast við undirritun samningsins. Undir hann ritaði Guðmundur bæði fyrir hönd Milestone ehf. og Lokkadísar ehf. Eftir gögnum málsins verður að leggja til grundvallar að láninu sem Sáttur ehf. tók samkvæmt áðursögðu hjá Milestone ehf. hafi verið varið til að greiða helming þessa kaupverðs úr hendi Lokkadísar ehf. Í málinu er deilt um hvort þetta lán frá Milestone ehf. til Sátts ehf. hafi verið í andstöðu við ákvæði 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

Sama dag og síðastnefndir samningar voru gerðir var undirritaður samningur um kauprétt Milestone ehf. á þeim 10.000.000 hlutum í Askar Capital hf. sem Lokkadís ehf. hafði keypt. Sá samningur var undirritaður af Guðmundi bæði fyrir hönd Milestone ehf. og Lokkadísar ehf. Í samningnum var gert ráð fyrir að Milestone ehf. ætti kauprétt að öllum hlutunum ef Guðmundur léti af störfum hjá félaginu fyrir 30. júní 2007 en upp frá þeim degi átti fjöldi hluta sem kauprétturinn náði til að lækka á nánar tiltekinn hátt eftir því sem Guðmundur starfaði lengur hjá félaginu. Ef til nýtingar kaupréttar kæmi var ráðgert að kaupverðið næmi „uppreiknaðri stöðu láns tekið hjá Milestone, vegna kaupa á hlutunum, og uppreiknaðri stöðu láns tekið hjá Glitni Luxemburg”.

Fram kemur í gögnum málsins að skuld Sátts ehf. við Milestone ehf. samkvæmt lánssamningnum frá 4. júní 2007 hafi eftir bókhaldi síðarnefnda félagsins numið 136.383.402 krónum 18. september 2009 þegar bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta.

II

1

Samkvæmt 1. málslið 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 er einkahlutafélagi hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélagi þess lán né setja fyrir þá tryggingu. Óumdeilt er í málinu að Sáttur ehf. var hluthafi í Milestone ehf. þegar lánssamningurinn 4. júní 2007 að fjárhæð 100.000.000 krónur var undirritaður. Einnig er óumdeilt sem fyrr segir að eigandi Sátts ehf. var Guðmundur Ólason sem var á þessum tíma forstjóri Milestone ehf., sbr. 2. málslið 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Við mat á því hvort lán þetta geti hafa verið venjulegt viðskiptalán í skilningi 3. málsliðar 1. mgr. sömu lagagreinar og þar með undanþegið banni samkvæmt 1. málslið málsgreinarinnar er til þess að líta að af lögskýringargögnum er ljóst að með venjulegum viðskiptalánum sé átt við lán sem geti talist vera liður í viðskiptum viðkomandi félags eða venjubundin bæði í félaginu og almennt í slíkum félögum. Í málinu hafa engin gögn verið lögð fram sem renna stoðum undir að lán Milestone ehf. til Sátts ehf. 4. júní 2007 hafi getað talist vera liður í almennri starfsemi Milestone ehf. eða verið venjulegt í starfsemi þess eða annarra sambærilegra félaga. Upplýsingar um sams konar lánafyrirgreiðslu til félaga fjögurra annarra starfsmanna Milestone ehf. renna á engan hátt stoðum undir að lán af þessum toga hafi verið liður í almennri starfsemi félagsins. Engin gögn liggja auk þess fyrir um hvernig var staðið að ákvörðun um lánveitinguna, en eins og fyrr segir var lánssamningur undirritaður af Guðmundi fyrir hönd beggja þótt það lægi fyrir að lántaki væri félag í hans eigu þannig að gæta hefði þurft að ákvæði 48. gr. laga nr. 138/1994. Samkvæmt framangreindu verður ekki fallist á að umrætt lán geti talist vera venjulegt viðskiptalán í skilningi 3. málsliðar 1. mgr. 79. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. málslið 2. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 er einkahlutafélagi óheimilt að veita lán til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess. Samkvæmt 3. málslið sama ákvæðis gildir það þó ekki um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá. Síðastnefnt undanþáguákvæði nær samkvæmt efni sínu eingöngu til lána til kaupa á hlutum í félaginu sjálfu eða móðurfélagi þess. Óumdeilt er að lánið sem málið varðar var ekki notað til kaupa á hlutum í Milestone ehf. eða móðurfélagi þess. Þegar af þeirri ástæðu getur þetta undanþáguákvæði ekki átt við um lánið.

Samkvæmt 7. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 verður bannákvæði 1. og 2. mgr. sömu lagagreinar ekki beitt um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir. Undir hvorugt þetta féll Milestone ehf. og getur undanþága þessi því heldur ekki átt við.

2

Með vísan til framangreinds verður lagt til grundvallar að lán Milestone ehf. til Sátts ehf. 4. júní 2007 hafi stangast á við 1. og 2. málslið 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 og eigi engin undanþáguákvæði þeirrar lagagreinar við um það. Samkvæmt því bar Sátti ehf. að endurgreiða lánið með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994. Eins og fyrr er rakið ákvað þrotabú Sátts ehf. að una héraðsdómi og viðurkenna kröfu aðaláfrýjanda á grundvelli hins áfrýjaða dóms sem almenna kröfu í búið. Í málinu liggur fyrir áðurnefnt bréf skiptastjóra 24. febrúar 2017 um að eignir í þrotabúi Sátts ehf. séu óverulegar og áætlað að í mesta lagi verði greiddar 7.500.000 krónur upp í lýstar kröfur sem allar séu almennar kröfur. Samkvæmt bréfinu námu heildarkröfur sem lýst var í búið 2.264.273.469 krónum, en viðurkennd krafa aðaláfrýjanda nam 365.846.261 krónu að frádreginni gagnkröfu þrotabús Sátts ehf. að fjárhæð 7.311.223 krónur. Samkvæmt framangreindu liggur fyrir að aðaláfrýjandi hefur orðið fyrir tjóni vegna lánveitingar Milestone ehf. til Sátts ehf., en ætla má að hann muni ekki fá greiddar nema innan við 1.200.000 krónur úr þrotabúinu upp í kröfu sína.

Stefndu ásamt gagnáfrýjanda hafa auk þess sem að framan greinir byggt á því að krafa aðaláfrýjanda sé fallin niður þar sem málið hafi ekki verið höfðað innan þeirra tímamarka sem kveðið var á um í 110. gr. laga nr. 138/1994 áður en sú lagagrein var felld niður með lögum nr. 68/2010. Ekki verður litið svo á að fallið hafi verið frá málsástæðu þessari þegar stefndu í héraði féllu í þinghaldi 20. desember 2011 frá kröfu um að málinu yrði vísað frá dómi. Um þetta verður að líta til þess að eins og 110. gr. laga nr. 138/1994 hljóðaði þegar Milestone ehf. veitti Sátti ehf. lánið 4. júní 2007 þurfti að höfða mál til heimtu skaðabóta eftir 108. eða 109. gr. laganna innan tveggja ára frá lokum þess reikningsárs sem viðkomandi ákvörðun eða athöfn var samþykkt eða gerð. Samkvæmt því hefði þurft að höfða slíkt mál eigi síðar en í árslok 2009. Eins og fyrr er rakið var mál þetta höfðað 8. og 9. nóvember 2010, en þá var málshöfðunarfrestur samkvæmt þágildandi 110. gr. laga nr. 138/1994 runninn út. Lög nr. 68/2010, sem felldu niður 110. gr. laga nr. 138/1994, tóku ekki gildi fyrr en 24. júní 2010 eða ríflega sex mánuðum eftir að málshöfðunarfresturinn var runninn út. Gat sá frestur því ekki lengst með þessari breytingu á lögum. Líta verður svo á að þegar frestur til málshöfðunar eftir áðurgildandi 110. gr. laga nr. 138/1994 var liðinn yrði kröfu einkahlutafélags um skaðabætur úr hendi stofnenda, stjórnarmanna eða framkvæmdastjóra þess ekki komið fram á öðrum grundvelli, sbr. dóm Hæstaréttar 7. desember 2011 í máli nr. 614/2011. Verður því að leggja til grundvallar að krafa aðaláfrýjanda í máli þessu sé fallin niður af þessum sökum að því marki sem hún hefur verið reist á reglum um skaðabætur. Er þess þá einnig að gæta að frá þessu getur ekki átt við undantekning sem áður var í 1. mgr. 110. gr. laga nr. 138/1994 um kröfur sem ættu rætur að rekja til refsiverðs verknaðar, enda liggja ekki fyrir upplýsingar um að nokkur hafi verið kærður fyrir refsiverða háttsemi í tengslum við lánveitinguna sem málið varðar.

3

Í héraðsdómsstefnu var um stoð fyrir kröfu aðaláfrýjanda á hendur stefndu og gagnáfrýjanda meðal annars vísað til 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994, þar sem kveðið er á um ábyrgð þeirra sem gerðu eða framkvæmdu ráðstöfun samkvæmt 1. mgr. eða 2. mgr. sömu lagagreinar á tapi sem hefur hlotist af ráðstöfuninni. Af endurriti úr þingbók í héraði má ráða að aðaláfrýjandi hafi jafnframt í munnlegum málflutningi byggt á því að stefndu og gagnáfrýjandi bæru ábyrgð á endurgreiðslu lánsins á grundvelli 5. mgr. 79. gr. laganna. Tekið var til andsvara gegn þessari málsástæðu í greinargerðum allra gagnaðila aðaláfrýjanda í héraði. Samkvæmt þessu verður lagt til grundvallar að þessi málsástæða komist að við meðferð málsins.

Ákvæði 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 byggir efni sínu samkvæmt á reglum fjármunaréttar um kröfuábyrgð en ekki reglum um skaðabætur. Af því leiðir að 110. gr. laga nr. 138/1994, sem kvað eins og fyrr greinir á um sérstakan málshöfðunarfrest vegna skaðabótakrafna, gildir ekki um slíka kröfu. Ábyrgðarkrafan stofnaðist eftir að bú Sátts ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta og ljóst varð að félagið myndi ekki geta endurgreitt lánið. Samkvæmt því gilda um fyrningu kröfunnar almennar reglur laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda, sbr. 2. málslið 28. gr. laganna. Af 7. gr. þeirra laga leiðir, sbr. 1. málslið 2. mgr. 5. gr., að krafan fyrnist á tíu árum. Mál þetta var eins og fyrr greinir höfðað 8. og 9. nóvember 2010 og því ótvírætt að krafa aðaláfrýjanda er ekki fyrnd.

Ábyrgð samkvæmt 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 nær til þeirra sem gerðu eða framkvæmdu ráðstöfun sem stangast á við 1. eða 2. mgr. sömu lagagreinar. Eins og fyrr segir undirritaði Guðmundur Ólason lánssamninginn fyrir bæði lánveitanda og lántaka og telst samkvæmt því hafa gert eða framkvæmt hann í skilningi 5. mgr. 79. gr. laganna. Lánið var eitt af fimm sem var veitt einkahlutafélögum í eigu starfsmanna Milestone ehf., í tengslum við kaup á eignarhlutum í Askar Capital hf. Lánafyrirgreiðsla af þessum toga getur ekki talist vera hluti af daglegum rekstri einkahlutafélags í skilningi 2. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 og varð því ekki tekin ákvörðun um hana án sérstakrar heimildar frá stjórn Milestone ehf. Í málinu liggja engin gögn fyrir um hvernig var staðið að ákvörðuninni, en í málatilbúnaði Guðmundar og Sátts ehf. fyrir héraðsdómi var vísað til þess að ákvörðun um sölu eignarhlutanna í Askar Capital hf. og tengda gerninga hafi verið tekin af stjórn Milestone ehf. Í málinu liggur fyrir ársreikningur Milestone ehf. fyrir árið 2007 sem ber með sér að hafa verið samþykktur 14. febrúar 2008 af Karli Emil Wernerssyni og Steingrími Wernerssyni sem þáverandi stjórnarmönnum félagsins. Í skýrslu endurskoðenda, sem skiptastjóri aðaláfrýjanda aflaði um rannsókn á bókhaldi og fjárrekstri Milestone ehf. á tímabilinu 22. júní 2007 til 18. september 2009, kemur meðal annars fram að í bókhaldi félagsins hafi söluhagnaður verið bókfærður á rekstrarreikning þess vegna sölunnar á fyrrgreindum hlutum í Askar Capital hf. Hafa engin gögn verið lögð fram um að Karl eða Steingrímur hafi nokkru sinni gert athugasemdir við framangreinda gerninga sem höfðu eins og fyrr segir verið færðir í bókhald félagsins. Með hliðsjón af öllu framangreindu verður lagt grundvallar að Karl og Steingrímur hafi sem stjórnarmenn Milestone ehf. á umræddum tíma með beinum eða óbeinum hætti veitt Guðmundi heimild til að veita lánið og ganga frá þeim samningum sem voru samhliða gerðir við einkahlutafélög fjögurra annarra starfsmanna. Samkvæmt því ber stefndi þrotabú Karls Emils Wernerssonar og gagnáfrýjandi ásamt stefnda þrotabúi Guðmundar Ólasonar óskipta ábyrgð á kröfu aðaláfrýjanda samkvæmt 5. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994.

Samkvæmt framangreindu verður krafa aðaláfrýjanda tekin til greina eins og í dómsorði segir.

Stefndu og gagnáfrýjanda verður gert að greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn er í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Stefndu, þrotabú Guðmundar Ólasonar og þrotabú Karls Emils Wernerssonar, og gagnáfrýjandi, þrotabú Steingríms Wernerssonar, greiði aðaláfrýjanda, þrotabúi Milestone ehf., óskipt 346.350 evrur, 419.229 svissneska franka, 28.046.557 japönsk jen og 134.445 bandaríkjadali með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 4. júní 2007 til greiðsludags, allt að frádreginni innborgun 20. júní 2017 að fjárhæð 7.311.223 krónur.

Stefndu og gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda óskipt samtals 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 4. nóvember 2016.

                Mál þetta, sem var dómtekið 25. október sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af þb. Milestone ehf., Borgartúni 26, Reykjavík, á hendur Sáttum ehf., Asparhvarfi 20, Kópavogi, Karli Emil Wernerssyni, Engihlíð 9, Reykjavík, Steingrími Wernerssyni, Bretlandi, og Guðmundi Ólasyni, Asparhvarfi 20, Kópavogi, með stefnu birtri 8. og 9. nóvember 2010. Bú Sátts ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 26. október 2011.

                Endanlegar dómkröfur stefnanda, þb. Milestone ehf., eru þær að hann krefst þess að stefndu greiði óskipt (in solidum) stefnanda 346.350 EUR, 419.229 CHF, 28.046.557 JPY og 134.445 USD ásamt dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu, nr. 38/2001, frá 4. júní 2007 til greiðsludags. Þá er þess krafist að stefndu verði gert að greiða stefnanda óskipt málskostnað.

                Endanlegar dómkröfur allra stefnda eru þær að þeir krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda og hver um sig krefst málskostnaðar úr hans hendi.

                                                                                  I

                Mál þetta, ásamt nokkrum öðrum riftunarmálum stefnanda, var höfðað í nóvember 2010. Flestum þessara mála er þegar lokið. Rétt er þó í upphafi að gera grein fyrir þeim breytingum sem hafa orðið frá því að málið var þingfest.

                Í kjölfar dóms Hæstaréttar í málinu nr. 614/2011 frá 7. desember 2011, Þrotabú Milestone ehf. gegn Karli Emil Wernerssyni, eða í þinghaldi 20. desember 2011, féllu þeir stefndu, sem gerðu kröfu um frávísun málsins í greinargerðum sínum, frá þeirri kröfu. Við upphaf aðalmeðferðar féll stefndi, þb. Sátts ehf., frá frávísunarkröfu á dráttarvaxtakröfu. Þá féll hann einnig frá þeirri málsástæðu sinni að um ólögmætt erlent lán væri að ræða.

                Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 578/2015 Karl Emil Wernersson gegn þb. Milestone ehf. og gagnsök, var komist að þeirri niðurstöðu að ósannað væri að Milestone ehf. hefði orðið ógjaldfært áður en Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar í Glitni banka hf. 7. október 2008 og skilanefnd var skipuð. Ekki lægi annað fyrir í málinu en að fram til þess tíma hefði Milestone ehf. staðið í skilum við lánardrottna sína. Þá taldi Hæstiréttur að endurgreiðslukrafa þrotabús Milestone ehf. væri svo vanreifuð að vísa yrði henni frá héraðsdómi, sbr. d- og e-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

                Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 579/2015 Karl Emil Wernersson gegn þb. Milestone ehf. reyndi á hvort unnt væri að rifta endurgreiðslu stefnanda til Karls Wernerssonar. Hann hafði veitt félaginu lán 29. ágúst 2008 en endurgreiðslan átti sér stað 13. nóvember sama ár. Ágreiningslaust var að þegar endurgreiðslan fór fram var Milestone ehf. orðið ógjaldfært. Talið var að þegar litið væri til stöðu Karls hjá félaginu og þeirrar þekkingar sem hann bjó yfir um fjárhagsstöðu þess á þeim tíma er lánið var endurgreitt, hefði greiðslan falið í sér ótilhlýðilega mismunun á kostnað annarra kröfuhafa búsins, sbr. 141. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var krafa þb. Milestone ehf. því tekin til greina.

                Stefnandi hefur fallið frá öllum málsástæðum er komu fram í stefnu nema eftirfarandi:

1.                   Lánveiting til stefnda Sátts ehf. 4. júní 2007 var ólögmæt skv. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkamálafélög og því hvíli endurgreiðsluskylda á stefndu auk þess sem þeim beri að greiða stefnanda dráttarvexti.

2.                   Stefndu beri sameiginlega að greiða stefnanda skaðabætur vegna lánveitingar Milestone ehf. til stefnda Sátts ehf. 4. júní 2007 á grundvelli almennra reglna skaðabótaréttar, einkum sakarreglunnar og 108. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög.

                Stefndu hafa breytt dómkröfum sínum og fallið frá málsástæðum til samræmis við málsgrundvöll þann sem stefnandi hefur nú lagt. Þó byggja stefndu á að skaðabótakrafan sé fyrnd og vísa til ummæla í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 614/2011 og bókunar á dskj. 88, þar sem stefnandi tilgreinir málsástæður sínar gegn því að krafan sé fyrnd.

                Varðandi samningu dómsins er vísað til e-liðar 1. mgr. 114. gr. laga um meðferð einkamála með síðari breytingum en samkvæmt því ákvæði skal málsástæðna einungis getið að því leyti sem þörf krefur til úrlausnar á málinu. Stefnandi beinir endurgreiðslukröfunni að stefnda, þb. Sátts ehf. og skaðabótakröfunni á hendur öllum stefndu.

                                                                                 II

                Milestone ehf. var stofnað í mars 1988 og hét þá Deiglan-Áman. Í upphafi ársins 2004 var félagið sameinað Apóteki Austurbæjar ehf., Vesturbæjarapóteki ehf. og Ísranni ehf. Nafninu var í kjölfarið breytt í Milestone. Umsvif félagsins jukust mikið á árunum 2005-2007. Félagið átti m.a. stóra hluti í Glitni banka hf., Sjóvá-Almennum tryggingum hf. og Lyfjum og heilsu, auk þess sem félagið keypti á fyrri hluta ársins 2007 sænska félagið Moderna Finance AB.

                Milestone ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 18. september 2009.

                Skiptastjóri lét fara fram rannsókn á fjárreiðum þrotabúsins. Rannsóknin var framkvæmd af Ernst & Young. Í skýrslu Ernst & Young kemur fram að stefndi, Sáttur ehf. fékk hinn 4. júní 2007 lán að fjárhæð 100.000.000 kr. frá Milestone ehf. Vextir lánsins voru LIBOR-vextir + 2,5%. Gjalddagi lánsins var 31. desember 2009. Þá voru hvorki settar tryggingar fyrir láninu né lántökugjald greitt. Lánið var í erlendum myntum og skiptist höfuðstóll lánsins þannig:

 

Gjaldmiðill                        Upphæð í ISK

EUR                                              346.350                           40.000.000                                                          

CHF 419.229                        30.000.000                                                                                      

JPY                                          28.046.557                           20.000.000                                                           

USD 134.445.                       10.000.000                                              

 

                Er lánið var veitt var Sáttur ehf. hluthafi í Milestone ehf. og Guðmundur Ólason, eigandi Sátts ehf. var framkvæmdastjóri Milestone ehf. Ritar hann undir skuldabréfið fyrir hönd beggja aðila, það er lántakanda og lánveitanda. Stefndu kveða að tilgangur með lánveitingunni hafi verið sá að gefa Sáttum ehf. kost á hlutabréfakaupum í dótturfélagi Milestone ehf. Kaupin hafi verið gerð í gegnum Lokkadís ehf., og Sáttur ehf. hafi lagt lánsfé á móti lánsfé frá Glitni banka hf. Þá kveða stefndu að lánveitingin hafi verið sambærileg til annarra starfsmanna.

                Hinn 9. júlí 2010 var kröfubréf sent og var höfuðstóll lánsins 160.537.600 kr. Miðað var við gengi erlendu gjaldmiðlanna við dagsetningu kröfubréfsins.

                Sáttur ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 26. október 2011.

                Stefnandi telur lánið til stefnda, Sátts ehf. vera ólögmætt samkvæmt 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög og beinir endurgreiðslukröfu á hendur stefnda þrotabúi Sátts ehf. og skaðabótakröfu á hendur öllum stefndu.

                                                                                 III

                Í fyrsta lagi gerir stefnandi kröfu um endurgreiðslu lánsins og vísar til 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þau lög setji ströng skilyrði fyrir því hvernig félag megi úthluta fjármunum til hluthafa og stjórnenda félagsins. Megintilgangurinn með þessum ströngu skilyrðum sé að auka vernd kröfuhafa. Úthlutun fjármuna til hluthafa sé þannig eingöngu heimil þegar hún sé framkvæmd með arðsúthlutun, við lækkun hlutafjár, með greiðslu úr varasjóði og við félagsslit, sbr. 73. gr. ehfl. Samkvæmt 79. gr. ehfl. sé einkahlutafélagi ekki heimilt að veita hluthöfum eða stjórnarmönnum lán. Bannið nái þó ekki til „venjulegra viðskiptalána“. Þetta ákvæði eigi ekki við um lán Milestone ehf. til stefnda, enda voru engar viðskiptalegar forsendur fyrir þeim lánum og ekki eiginlegt viðskiptasamband á milli stefnda, Sátts ehf. og Milestone ehf. Stefndi, Sáttur ehf., ber sönnunarbyrðina fyrir því að lán til hans hafi verið venjulegt viðskiptalán.

                Þá var lánið ekki Milestone ehf. til framdráttar. Svo virðist sem félagið hafi ekki haft neinn hag af lánveitingunni og félagið hafði enga tryggingu fyrir því að lánið yrði greitt til baka. Þá séu önnur skilyrði og kjör lánanna ekki sambærileg þeim sem viðgangast á almennum lánamarkaði enda verði t.d. ekki séð að lánin hafi verið á almennum kjörum. Lán sem þessi voru ekki hluti af starfsemi Milestone ehf. og félagið hafði aldrei veitt slíkt lán til venjulegra, ótengdra viðskiptamanna. Forsendur lánsins voru þannig ekki viðskiptalegar og hagsmunir Milestone ehf. réðu ekki för heldur hagsmunir stefnda, Sátts ehf.

                Hinn 4. júní 2007 var eigandi Sátts ehf. Guðmundur Ólason framkvæmdastjóri Milestone ehf. Sáttur ehf. átti á þessum tíma hlut í Milestone ehf. Samkvæmt 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög, var félaginu þar með óheimilt að veita stefnda lán og stefnda óheimilt að taka við greiðslunum. Lán félagsins til stefnda voru þannig ólögmæt og stefndu ber að greiða lánið til baka með dráttarvöxtum samkvæmt 4. mgr. 79. gr. laganna.

                Krafa um endurgreiðslu ólögmæts láns sé ekki riftun samkvæmt XX. kafla gþl. enda sé ekki verið að hnekkja ráðstöfunum, sem við venjulegar kringumstæður væru löglegar. Með kröfu þessari sé stefnandi að hnekkja ráðstöfun sem sé beinlínis ólögleg og ógild. Skiptir gjaldþrot Milestone ehf. engu máli hvað það varðar. Þá séu engir tímafrestir fyrir endurheimtu félagsins í 79. gr. ehfl. Þar sé aðeins kveðið á um að endurgreiða skuli ólögmæt lán með dráttarvöxtum. Milestone ehf. eignaðist kröfu um endurgreiðslu lánanna um leið og þau voru veitt og þrotabú Milestone ehf. tók við þeirri kröfu við úrskurð um gjaldþrot, sbr. 1. mgr. 72. gr. gþl.

                Með vísan til alls framangreinds telur stefnandi að lán Milestone ehf. til stefnda, Sátts ehf. 4. júní 2007 hafi verið ólögmætt lán í skilningi 79. gr. ehfl. og krefst endurgreiðslu þess með dráttarvöxtum eins og tilgreint er nánar í dómkröfum. Dráttarvaxtakrafa byggist á 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 og 4. mgr. 79. gr. ehfl.

                Varðandi skaðabótakröfu sína hafnar stefnandi því að hún sé fyrnd. Í bókun stefnanda, sem lögð var fram 20. desember 2011, komu fram málsástæður varðandi málshöfðunarfrestinn samkvæmt brottföllnu ákvæði 110. gr. laga nr. 138/1994.

                Stefnandi telur að 110. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög komi ekki til álita í málinu þegar af þeirri ástæðu að ákvæðið var fellt brott áður en mál þetta var höfðað. Verði hins vegar litið svo á að brott fallið ákvæði 110. gr. komi mögulega til skoðunar þá telur stefnandi engu að síður að málshöfðunarfrestur ákvæðisins nái ekki til þeirrar kröfu sem gerð sé í málinu, enda hafi krafan byggst á refsiverðum verknaði, en slík tilvik hafi verið undanskilin frestinum. Þá telur stefnandi að háttsemin sem málið byggist á falli að minnsta kosti undir atvikulýsingu refsiákvæðanna í 2. tl. 127. gr., sbr. 79. gr. laga um einkahlutafélög.

                                                                                 IV

                Í málinu er fjórum aðilum stefnt. Gerð er grein fyrir málsástæðum þeirra í einu lagi enda eiga þeir samstöðu í málinu.

                Stefndi, þb. Sátts ehf., byggir á því, að lánveiting til Sátts ehf. 4. júní 2007 hafi verið lögmæt. Bann 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög taki ekki til starfsemi Milestone þar sem því verði ekki beitt um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir. Milestone var eignarhaldsfélag sem átti að langstærstum hluta eignir í fjármálafyrirtækjum og Invik var skilgreind sem fjármálasamsteypa (e financial conglomerate) í skilningi tilskipunar Evrópusambandsins nr. 2002/87/EC. Þá stóð til að skilgreina Milestone með sama hætti um leið og tilskipunin yrði innleidd hér á landi.

                Verði talið að beita skuli ákvæðum 1. og 2. mgr. 79. gr. laganna byggir stefndi á því að lánveitingin til Sátts ehf. hafi verið lögmæt á grundvelli greinarinnar. Lánið var veitt á eðlilegum kjörum í eðlilegum tilgangi á sama tíma og lán voru veitt til félaga í eigu annarra starfsmanna í sama tilgangi. Var því um að ræða eðlilegt viðskiptalán í skilningi 1. mgr. 79. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. 

                Lánveitingin til stefnda, Sátts ehf., var jafnframt lögmæt á grundvelli 3. málsl. 2. mgr. 79. gr. Sé þar skýrlega kveðið á um að bann við lánum til að fjármagna hluti í félagi eigi ekki við um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags. Lánveitingin var liður í kaupum starfsmanna á hlutum í félaginu. Lánið var auk þess mjög óverulegt líkt og önnur lán til starfsmanna á sama tíma. 

                Stefndi mótmælir því að endurgreiðslukrafa geti byggst á 5. mgr. 79. gr. laga um einkahlutafélög. Lánveitingin var ekki í andstöðu við 1. og 2. mgr. greinarinnar.

                Það var ákvörðun stjórnar Milestone að selja hluta af hlutabréfum félagsins í Öskum Capital til nokkurra hlutafélaga í eigu lykilstarfsmanna samstæðunnar. Eitt af þeim félögum var Sáttur ehf. Aldrei var um eiginlegar peningagreiðslur að ræða heldur greiddu félögin fyrir hlutabréfin með útgáfu skuldabréfa. Tjón vegna þessara viðskipta varð því ekkert. Samningar um kaupin byggðust alfarið á ákvörðun stjórnar Milestone sem heimilaði gjörninginn. Stefndi byggir á því að greiðsluskylda samkvæmt 5. mgr. 79. gr. geti einvörðungu tekið til þeirra sem bera ábyrgð á ákvörðuninni.

                Þá er upphafsdegi dráttarvaxta mótmælt sem ósönnuðum og órökstuddum og vísað til þess að hann geti ekki miðast við útgreiðslu lánsins, þar sem 79. gr. eigi ekki við.

                Varðandi skaðabótakröfu stefnanda byggja allir stefndu sýknukröfu sína á því fyrir dómi, að sú krafa sé fallin niður vegna fyrningar. Í greinargerðum sínum töldu stefndu, Karl og Steingrímur Wernerssynir og Guðmundur Ólason, að vísa ætti málinu frá þar sem málshöfðunarfrestir 110. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 væri liðinn. Samkvæmt dómi Hæstaréttar í málinu nr. 614/2011 sé um efnisatriði að ræða.

                Skaðabótakrafa stefnanda byggist á ætlaðri ólögmætri lánveitingu til Sátts ehf. í júní 2007. Um skaðabótaábyrgð stefndu fer skv. XV. kafla laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Um sé að ræða almenna skírskotun laganna til almennra reglna skaðabótaréttar og verður ætluð ábyrgð stefndu því ekki reist á þeim síðarnefndu án þeirra fresta sem kveðið sé á um í greininni. Á þeim tíma sem atvik máls þessa áttu sér stað var í gildi 110. gr. laga um einkahlutafélög, en hún hljóðaði svo:

                „Skaðabótamál þau sem um ræðir í 1.–2. mgr. 109. gr. skal höfða nema krafan byggist á refsiverðum verknaði:

                a. gegn stofnendum innan tveggja ára frá því að ákvörðun um stofnun félags var tekin;

                b. gegn stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum, svo og rannsóknarmönnum, innan tveggja ára frá lokum þess reikningsárs þar sem ákvörðunin eða athöfnin, sem málið byggist á, var samþykkt eða gerð.

                c. gegn endurskoðendum eða skoðunarmönnum innan tveggja ára frá því að endurskoðun lauk og endurskoðunarskýrsla eða yfirlýsing var lögð fram.

                Mál skv. 3. mgr. 109. gr. skal höfða í síðasta lagi þrem mánuðum eftir að félagið hefur verið úrskurðað gjaldþrota.

                Það atvik sem skaðabótakrafa stefnanda byggist á, átti sér stað 4. júní 2007. Frestur samkvæmt 110. gr. einkahlutafélaga rann því út í lok árs 2009, en þá var greinin enn í lögunum. Fresturinn rann því út í samræmi við gildandi lög í lok árs 2009. Málshöfðunarfrestur sem þegar er runninn út í samræmi við gildandi lög getur ekki raknað við með afturvirkum hætti með því einu að fella ákvæði þar að lútandi úr lögum. Breytir engu í því sambandi þótt í 31. gr. laga nr. 68/2010 hafi verið kveðið á um að „ákvæði um brotfall“ tækju til atvika og háttsemi sem átti sér stað fyrir gildistöku laganna jafnvel þótt málshöfðunarfrestur hafi þá verið liðinn. Með því er í raun verið að breyta eldri lögum með afturvirkum hætti. Slíkt stangast á við grundvallarreglur réttarríkisins og mannréttindi sem tryggð eru með meðal annars 72. gr. stjórnarskrárinnar og mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og sjónarmið um réttmætar væntingar. Ber því að sýkna stefndu af skaðabótakröfu stefnanda.

                                                                                V

                Mál þetta varðar hvorar tveggja endurgreiðslukröfu stefnanda á hendur stefnda, þrotabúi Sátts ehf., á láni því er veitt var 4. júní 2007 og er krafan byggð á 79. gr. laga nr. 138/1994 og skaðabótakröfu stefnanda á hendur öllum stefndu sem byggð er meðal annars á almennum reglum skaðabótaréttarins.

                Kröfu um endurgreiðslu lánsins er beint til þb. Sátts ehf. en Sáttur ehf. fékk lánið 4. júní 2007. Eigandi félagsins er stefndi Guðmundur Ólason og var hann jafnframt framkvæmdastjóri stefnanda. Stefndu halda því fram að lánveitingin hafi verið veitt til að fjármagna kaup á hlutafé í Öskum Capital sem var í eigu Milestone ehf. 

                Meginreglan er sú að óheimilt er að úthluta af fjármunum hlutafélags til hluthafa nema það fari fram eftir reglum um úthlutun arðs, sem endurgreiðsla vegna lækkunar hlutafjár eða varasjóðs eða vegna félagsslita, samanber 73. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Þá segir í 1. mgr. 79. gr. sömu laga að einkahlutafélagi sé hvorki heimilt að veita hluthöfum, stjórnarmönnum eða framkvæmdastjórum félagsins eða móðurfélags þess lán né setja tryggingu fyrir þá. Félagi sé einnig óheimilt að veita þeim lán eða setja fyrir þann tryggingu sem giftur er eða í óvígðri sambúð með aðila skv. 1. málsl. eða er skyldur honum að feðgatali eða niðja ellegar stendur hlutaðeigandi að öðru leyti sérstaklega nærri. Ákvæði þessarar málsgreinar taki þó ekki til venjulegra viðskiptalána. Með undanþágunni í lok ákvæðisins er samkvæmt lögskýringargögnum átt við venjuleg viðskiptalán t.d. greiðslukorta-viðskipti, eða lán til fyrirtækja sem eru hluthafar, ef þau eru liður í viðskiptum og venjubundin bæði í fyrirtækinu og almennt í slíkum fyrirtækjum. Ekki er fallist á að ætluð kaup Sátts ehf. á hlutum í Öskum Capital falli undir nefnda undanþágu.

                Í 2. mgr. 79. gr. laganna er enn kveðið á um bann við því að veita lán úr einkahlutafélagi en þar segir að einkahlutafélag megi ekki veita lán til að fjármagna kaup á hlutum í félaginu eða móðurfélagi þess hvort heldur móðurfélagið er einkahlutafélag eða hlutafélag. Þá megi einkahlutafélag hvorki leggja fram fé né setja tryggingu í tengslum við slík kaup. Undanþága er síðan í lok ákvæðis 2. mgr. en þar segir að ákvæði 1.-2. málsl. eigi ekki við um kaup starfsmanna félagsins eða tengds félags á hlutum eða kaup á hlutum fyrir þá. Augljóst er af ákvæði þessu að undanþágan nái einungis til starfsmanna félagsins, þ.e. einstaklings, en það var lögaðili, þ.e. Sáttur ehf. sem fékk lánið.

                Þá byggja stefndu á 7. mgr. 79. gr. laganna en þar segir að ákvæðum 1. og 2. mgr. 79. gr. verði ekki beitt um innlánsstofnanir eða aðrar fjármálastofnanir og byggja stefndu á því að til hafi staðið að skilgreina Milestone sem fjármálasamsteypu um leið og tilskipun Evrópusambandsins nr. 2002/87/EC yrði innleidd hér á landi. Hins vegar liggur hvorki fyrir að svo hafi verið gert né að Milestone hafi haft starfsleyfi frá Fjármálaeftirlitinu sbr. 1. mgr. 2. gr. laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Því verður ekki byggt á þessu ákvæði.

                Þá heldur stefndi því fram að lánveiting þessi hafi ekki valdið stefnanda tjóni, en málsástæða þessi er ósönnuð að hálfu stefnda.

                Með vísun til þess sem að ofan greinir er fallist á það með stefnanda að Milestone ehf. hafi hinn 4. júní 2007 veitt lán sem var í andstöðu við 1. og 2. mgr. 79. gr. laga um einkahlutafélög og ber stefnda, þb. Sátts ehf., að endurgreiða lánið með dráttarvöxtum samanber 4. mgr. 79. gr. laga um einkahlutafélög.

                Í greinargerðum sínum gerðu stefndu, Karl Wernersson, Steingrímur Wernersson og Guðmundur Ólason í upphafi kröfu um frávísun málsins frá héraðsdómi og vísuðu til 110. gr. laga um einkahlutafélög. Mál Karls Wernerssonar var flutt um frávísunarkröfuna, samanber dóm Hæstaréttar frá 7. desember 2011, í málinu nr. 614/2011. Varðandi þetta atriði segir svo í forsendum Hæstaréttar: „Nokkurs misræmis hefur gætt í dómaframkvæmd um hverju það varði að mál sé höfðað að liðnum málshöfðunarfresti samkvæmt ákvæðum laga um hlutafélög og einkahlutafélög. Í dómum Hæstaréttar í máli nr. 52/1949, sem birtur er í dómasafni 1950 bls. 42, og máli nr. 18/1986, sem birtur er í dómasafni 1987 bls. 643, leiddi það til sýknu, en í dómi Hæstaréttar í máli nr. 9/2002, sem birtur er í dómasafni 2002 bls. 92, varðaði það frávísun. Ef frestur samkvæmt 110. gr. laga nr. 138/1994 eða hliðstæðu ákvæði í 136. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög leið án þess að félagið hefði uppi skaðabótakröfu á hendur stjórnarmanni var þess ekki kostur að gera slíka kröfu á öðrum vettvangi. Þessi frestur var því í reynd sérstakur fyrningarfrestur þar sem krafan féll niður í lok hans, enda var ekki unnt að hafa hana uppi á annan hátt. Í ljósi þessa verður að líta svo á að álitaefni um hvort málshöfðunarfrestur þessi hafi verið liðinn við höfðun málsins sé atriði sem taka verður afstöðu til við efnisúrlausn þess, en geti ekki varðað frávísun málsins í heild eða hluta.“ Samkvæmt þessu er túlkun málshöfðunarfrests 110. gr. laga nr. 138/1994 um hlutafélög, efnisatriði sem taka ber afstöðu til við efnisúrlausn málsins. Því verður ágreiningur þessi tekinn til úrlausnar hér, þótt málsástæðna sé getið í greinargerðum undir umfjöllun um frávísun málsins, enda hefur ekki verið skorið efnislega úr ágreiningi þessum. Í kjölfar dómsins eða í þinghaldi 20. desember 2011 féllu stefndu allir frá kröfum sínum um frávísun málsins. Túlka verður þessa yfirlýsingu þeirra þannig, að ekki hafi verið fallið frá málsástæðum byggðum á málshöfðunarfresti samkvæmt 110. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994. Í kjölfarið lagði stefnandi fram bókun með málsástæðum er lúta að málshöfðunarfresti samkvæmt nefndri 110. gr. Af bókun þessari verður ekki annað ráðið en að afstaða stefnanda hafi einnig verið sú að umfjöllun um málshöfðunarfrestinn tilheyri efnisúrlausn málsins. Lögmenn stefndu mótmæltu strax í þinghaldinu málsástæðum stefnanda sem of seint fram komnum. Með vísan til 5. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála er því hafnað að málsástæðurnar séu of seint fram komnar, þar sem ekki var tilefni af hálfu stefnanda til að hafa þær fyrr uppi, þar sem þetta var fyrsta þinghald eftir dóm Hæstaréttar í málinu nr. 614/2011.

                Hið umdeilda lán var veitt 4. júní 2007. Því verður við ákvörðun skaðabóta að miða við þau lög er þá giltu. Í þágildandi b-lið 110. gr. einkahlutafélagalaganna er kveðið á um að skaðabótamál sem um ræðir í 1.-2. mgr. 109. gr. skuli höfða, nema krafan byggist á refsiverðum verknaði, gegn stjórnarmönnum og framkvæmdastjórum, innan tveggja ára frá lokum þess reikningsárs þar sem ákvörðunin eða athöfnin, sem málið byggist á, var samþykkt eða gerð. Ágreiningslaust er í málinu að ákvörðunin var tekin 4. júní 2007 og að málshöfðunarfresturinn leið í lok ársins 2009. Mál þetta var hins vegar ekki höfðað fyrr en með birtingu stefnu í nóvember 2010 eða nokkrum mánuðum eftir lok frestsins.

                Með 28. gr. laga nr. 68/2010 um breytingu á lögum um hlutafélög, lögum um einkahlutafélög og lögum um ársreikninga (minnihlutavernd o.fl.) var ákvæði 110. gr. laga um einkahlutafélag felld brott. Lögin öðluðust gildi 24. júní 2010, en samkvæmt 2. mgr. 31. gr. þeirra skyldu „ákvæði um brottfall“, þar á meðal brottfall 110. gr., taka til atvika og háttsemi sem átti sér stað fyrir gildistöku laganna jafnvel þótt málsóknarfrestur hafi verið liðinn er þau tóku gildi. Stefnandi byggir á því í bókun sem lögð var fram 20. desember 2011 að „110. gr. laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, komi ekki til álita í málinu þegar af þeirri ástæðu að ákvæðið var fellt brott áður en mál þetta var höfðað“. Verður bókun þessi ekki skilin á annan hátt en þann að enginn málshöfðunarfrestur gildi um skaðabótakröfur stefnanda á hendur stefndu á grundvelli laga nr. 138/1994.

                Ákvæði 28. gr. nefndra laga kom inn sem breytingartillaga frá viðskiptanefnd og í nefndaráliti viðskiptanefndar kemur fram að verði breytingartillagan samþykkt takmarkist málshöfðanir vegna skaðabóta á grundvelli 134. og 135. gr. laga um hlutafélög og 108. og 109. gr. laga um einkahlutafélög af almennum reglum um tómlæti og fyrningu kröfuréttinda. Þá sé gert ráð fyrir því að ákvæðið sé afturvirkt, sbr. breytingu nefndarinnar á 30. gr. frumvarpsins. Þá segir í nefndarálitinu að breytingin feli í sér að í stað þess að mál skuli höfðað innan tveggja ára frá því bótaskyld háttsemi átti sér stað gildi almennur fyrningarfrestur skaðabótakrafna, sem fer eftir því hvenær krafan er talin stofnast og hvort um hana gildi lög nr. 14/1905 eða 150/2007.

                Atvikum málsins er hins vegar svo háttað að við gildistöku laga nr. 68/2010 hinn 24. júní 2010 voru um það bil sex mánuðir liðnir frá því að skaðabótakrafan stofnaðist 4. júní 2007, var fyrnd í árslok 2009, samanber þágildandi 110. gr. laga nr. 138/1994. Þessu réttarástandi var því lokið er nýju lögin tóku gildi. Krafan var því fyrnd við gildistöku laganna. Nýju lögin geta ekki verið afturvik og lagt íþyngjandi byrgðar á stefndu. Stefndu máttu treysta því að ekki kæmi til skaðabótakrafna vegna lánveitingarinnar. Yrði krafan tekin til greina myndi það vera inngrip í eignarréttindi stefndu sem vernduð eru með 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

                Í annan stað byggir stefnandi á því að frestir samkvæmt 110. gr. laga 138/1994 eigi ekki við þar sem krafan byggist á refsiverðum verknaði en slík tilvik séu undanskilnin frestinum. Einnig að háttsemin sem málið byggir á falli a.m.k. undir atvikalýsingu refsiákvæðanna í 2. tl. 127. gr., sbr. 79. gr. laga um einkahlutafélög. Engar sannanir hafa verið lagðar fram af hálfu stefnanda því til stuðnings að um refsiverðan verknað hafi verið að ræða. Er málsástæða þessi því ósönnuð af hans hálfu sem leiðir til sýknu.

                Með vísan til alls þess sem að framan greinir er það niðurstaða dómsins að skaðabótakrafa stefnanda á hendur stefndu sé fyrnd og eru stefndu því sýknaðir af þessari kröfu stefnanda.

                Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

                Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

DÓMSORÐ

                Stefndi, þb. Sátts ehf. greiði stefnanda, þb. Milestone ehf. 346.350 evrur, 419.229 svissneska franka, 28.046.557 japönsk jen og 134.445 bandaríkjadali, ásamt dráttarvöxtum skv. 79. gr. laga um einkahlutafélög nr. 138/1994 og 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, frá 4. júní 2007 til greiðsludags.

                Stefndu, Karl Wernersson, Steingrímur Wernersson og Guðmundur Ólason eru sýknaðir af kröfum stefnanda.

                Málskostnaður fellur niður.