Hæstiréttur íslands

Mál nr. 38/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • EFTA-dómstóllinn
  • Ráðgefandi álit


Mánudaginn 7. febrúar 2011.

Nr. 38/2011.

Seðlabanki Íslands

(Gizur Bergsteinsson hdl.)

gegn

Pálma Sigmarssyni

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

Kærumál. EFTA-dómstóllinn. Ráðgefandi álit.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem tekin var til greina krafa P um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál hans á hendur S. Í málinu krafðist P ógildingar á ákvörðun S um að hafna beiðni P um innflutning á innlendum gjaldeyri en P hafði óskað eftir undanþágu til að flytja inn innlendan gjaldeyri til landsins á grundvelli 1. mgr. 7. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál. Reisti P kröfur sínar m.a. á því að ákvörðunin væri andstæð ákvæðum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga milli ríkja. Í Hæstarétti var talið að skýra yrði hinar matskenndu heimildir 7. gr. fyrrgreindra laga til að veita undanþágur frá takmörkunum á fjármagnshreyfingum með tilliti til 4. kafla III. hluta EES-samningsins sem lagagildi hefði hér á landi. Var héraðsdómur því staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 10. janúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2011, þar sem tekin var til greina beiðni varnaraðila um að leitað yrði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um nánar tilgreind atriði í tengslum við mál hans á hendur sóknaraðila. Kæruheimild er í 3. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 um öflun álits EFTA-dómstólsins um skýringu samnings um Evrópska efnahagssvæðið. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og varnaraðila gert að greiða kærumálskostnað.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Samkvæmt gögnum málsins seldi varnaraðili fasteign 25. október 2009 sem hann átti á Bahama og keypti íslenskar krónur fyrir söluandvirðið. Varnaraðili sótti um undanþágu frá þágildandi reglum nr. 880/2009 um gjaldeyrismál til sóknaraðila 8. desember 2009 til að mega flytja inn innlendan gjaldeyri til landsins og vísaði í því sambandi til 7. gr. laga nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, sbr. 3. mgr. ákvæðis I til bráðabirgða við lögin. Sóknaraðili hafnaði umsókn varnaraðila 26. febrúar 2010 og var sú niðurstaða staðfest með úrskurði efnahags- og viðskiptaráðuneytisins 8. október sama ár.

Varnaraðili höfðaði mál þetta á hendur sóknaraðila 3. nóvember 2010 og krafðist þess meðal annars að ákvörðun hans frá 26. febrúar sama ár yrði dæmd ógild. Varnaraðili reisir kröfu sína meðal annars á því að ákvörðunin sé andstæð ákvæðum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga milli aðildarríkja.

Sóknaraðili reisir kröfu sína á því að álit EFTA-dómstólsins hafi ekki þýðingu fyrir sakarefni málsins og dómstóllinn meti ekki sönnunaratriði, en til þeirra teljist meðal annars hvort skilyrðum í 43. gr. EES-samningsins sé fullnægt til þess að gripið verði til verndarráðstafana gagnvart frjálsum fjármagnsflutningum.

II

Reglur nr. 880/2009, sem reglur nr. 370/2010 um gjaldeyrismál hafa nú leyst af hólmi, voru reistar á ákvæði I til bráðabirgða í lögum nr. 87/1992, sbr. lög nr. 134/2008. Í 1. mgr. 2. gr. reglnanna var tekið fram að í þeim merki fjármagnshreyfing á milli landa yfirfærslu eða flutning á fjármunum milli innlendra og erlendra aðila. Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. þeirra voru fjármagnshreyfingar samkvæmt 1. mgr. bráðabirgðaákvæðis I í lögum nr. 87/1992 á milli landa í innlendum gjaldeyri óheimilar. Undanþegnar banninu voru þó fjármagnshreyfingar sem taldar voru upp í fjórum töluliðum.

Í 3. mgr. ákvæðis til bráðabirgða laga nr. 87/1992 segir að 7. gr. laganna gildi um heimildir Seðlabanka Íslands til að veita undanþágur frá reglum settum samkvæmt 1. mgr. bráðabirgðaákvæðisins. Í 1. mgr. 7. gr. er tekið fram að sóknaraðila sé heimilt að veita undanþágur frá takmörkunum á fjármagnshreyfingum samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða. Samkvæmt 2. mgr. sömu greinar skal við mat á beiðni um undaþágu horfa til þess hvaða afleiðingar takmarkanir á fjármagnshreyfingum hafi fyrir umsækjanda, hvaða markmið eru að baki takmörkunum og hvaða áhrif undanþágur hafa á stöðugleika í gengis- og peningamálum.

Þar sem skýra verður hinar matskenndu heimildir 7. gr. laga nr. 87/1992 til að veita undanþágur frá takmörkunum á fjármagnshreyfingum með tilliti til ákvæða 4. kafla III. hluta EES-samningsins, sem lagagildi hafa hér á landi, sbr. 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

 Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Seðlabanki Íslands, greiði varnaraðila, Pálma Sigmarssyni, 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. janúar 2011.

Sóknaraðili krefst þess að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um hvort það samrýmist ákvæðum 4. kafla meginmáls EES-samningsins að íslenska ríkið hindri íslenskan ríkisborgara, búsettan í Bretlandi, að flytja íslenskar krónur, sem hann hefur keypt á aflandsmarkaði í Bretlandi, til Íslands. Varnaraðili mótmælir kröfunni.

Samkvæmt 3. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið og bókun 35 hefur meginmál EES-samningsins lagagildi hér á landi. Samkvæmt 40. gr. samningsins skulu engin höft vera milli samningsaðila á flutningum fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum né nokkur mismunun, byggð á ríkisfangi eða búsetu aðila eða hvar féð er notað til fjárfestingar, og samkvæmt 41. gr. samningsins skulu greiðslur í tengslum við þjónustustarfsemi, vöruflutninga, fólksflutninga eða fjármagnsflutninga milli samningslanda innan ramma ákvæða samningsins um Evrópska efnahagssvæðið vera lausar við öll höft. Í 43. gr. samningsins er mælt fyrir um að aðildarríki geti vikið til hliðar meginreglunni um frjálsan flutning fjármagns milli aðildarríkja að tilteknum skilyrðum uppfylltum. Segir í 1. mgr. að kunni munurinn milli gjaldeyrisreglna aðildarríkja EB og EFTA-ríkjanna að verða til þess að menn, búsettir í einu þessara ríkja, færi sér í nyt þær rýmri yfirfærslureglur á yfirráðasvæði samningsaðila sem kveðið er á um í 40. gr. til þess að fara fram hjá reglum einhvers þessara ríkja um fjármagnsflutninga til eða frá þriðju löndum geti viðkomandi samningsaðili gert viðeigandi ráðstafanir til að ráða bót á því. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að leiði fjármagnsflutningar til röskunar á starfsemi fjármagnsmarkaðar í aðildarríki EB eða EFTA-ríki geti hlutaðeigandi samningsaðili gripið til verndarráðstafana á sviði fjármagnsflutninga. Enn fremur segir í 3. mgr. að breyti þar til bær yfirvöld samningsaðila gengisskráningu sinni þannig að það valdi alvarlegri röskun á samkeppnisskilyrðum geti hinir samningsaðilarnir gert nauðsynlegar ráðstafanir um mjög takmarkaðan tíma til að vinna gegn áhrifum breytingarinnar. Að lokum segir í 4. mgr. að eigi aðildarríki EB eða EFTA-ríki í örðugleikum með greiðslujöfnuð eða alvarleg hætta er á að örðugleikar skapist, hvort sem það stafar af heildarjafnvægi í greiðslujöfnuði eða því hvaða gjaldmiðli það hefur yfir að ráða, geti hlutaðeigandi samningsaðili gripið til verndarráðstafana, einkum ef örðugleikarnir eru til þess fallnir að stofna framkvæmd samningsins í hættu.

Þann 28. nóvember 2008 voru samþykkt á Alþingi lög nr. 134/2008 um breyting á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, með síðari breytingum. Með ákvæði til bráðabirgða í lögunum var varnaraðila heimilað að gefa út reglur, að fengnu samþykki viðskiptaráðherra, sem takmarka eða stöðva tímabundið nánar tiltekna flokka fjármagnshreyfinga og gjaldeyrisviðskipti sem þeir tengjast ef slíkar hreyfingar fjármagns til og frá landinu valda að mati varnaraðila alvarlegum og verulegum óstöðugleika í gengis- og peningamálum. Í athugasemdum með frumvarpi til laganna kemur meðal annars fram að í kjölfar hruns þriggja stærstu banka landsins í byrjun október [2008] hafi ríkisstjórn Íslands ákveðið að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um fjárhagslega fyrirgreiðslu. Í viljayfirlýsingu íslenskra stjórnvalda hafi þeirri fyrirætlan verið lýst að koma á stöðugleika á gengi íslensku krónunnar. Sé hugsanlegt að mikið fjármagnsflæði úr landi leiði til verulegrar viðbótarhækkunar á gengi krónunnar vegna skuldsetningar heimila og fyrirtækja og geti slíkt valdið stórskaða fyrir efnahag þjóðarinnar og aukið á samdráttinn í efnahagslífinu. Sé eitt brýnasta verkefni varnaraðila næstu misserin að tryggja stöðugleika íslensku krónunnar og búa í haginn fyrir styrkingu gengisins. Sé hætta á að gengi krónunnar verði tímabundið fyrir miklum þrýstingi þegar möguleikar á gjaldeyrisviðskiptum opnist á ný og til að stemma stigu við þessa áhættu og koma í veg fyrir of mikið fjármagnsflæði úr landi sé talin brýn nauðsyn að grípa til tímabundinna takmarkana á fjármagnshreyfingum milli landa. Gjaldeyrishöftum á fjármagnsviðskipti fylgi ýmis neikvæð hliðaráhrif og sé því stefnt að því að afnema þau svo fljótt sem auðið er og lagt til að heimild varnaraðila til að gefa út reglur um takmarkanir eða stöðvun fjármagnshreyfinga verði bundin við tímabil fjárstuðningsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Reglur um gjaldeyrismál voru gefnar út með heimild í ákvæði til bráðabirgða I með lögum um gjaldeyrismál sem breytt var, sem fyrr greinir, með lögum nr. 134/2008. Reglur nr. 1082/2008 voru gefnar út 28. nóvember 2008, sama dag og Alþingi samþykkti lög nr. 134/2008. Giltu reglurnar fram til 15. desember 2008 er varnaraðili gaf út nýjar reglur nr. 1130/2008 um sama efni. Þær reglur giltu til 30. október 2009 er varnaraðili gaf út reglur nr. 880/2009 um sama efni. Í 1. mgr. 3. gr. reglnanna segir að gjaldeyrisviðskipti milli innlendra og erlendra aðila, þar sem íslensk króna sé hluti af viðskiptunum, séu óheimil. Er þannig kveðið á um að innlendum aðila sé óheimilt að eiga gjaldeyrisviðskipti við erlent fjármálafyrirtæki, ef íslensk króna er hluti að viðskiptunum. Að sama skapi voru gjaldeyriskaup erlendra aðila hjá fjármálafyrirtækjum hérlendis takmörkuð. Þau gjaldeyrisviðskipti, sem sóknaraðili átti við hið erlenda fjármálafyrirtæki, brutu þannig ekki gegn 3. gr. reglna nr. 880/2009 þar sem þau voru milli tveggja erlendra aðila. Samkvæmt ákvæðinu var flutningur á afrakstri viðskiptanna í íslenskum krónum hins vegar óheimill.

Samkvæmt 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994 getur dómari í samræmi við 34. gr. samnings EFTA-ríkjanna um Evrópska efnahagssvæðið, bókunum með honum, viðaukum við hann eða gerðum, sem í viðaukunum er getið, kveðið upp úrskurð um að leitað verði ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins um skýringu á samningi um Evrópska efnahagssvæðið sé mál rekið fyrir héraðsdómstóli þar sem taka þarf afstöðu til skýringar á samningnum á því atriði málsins áður en málinu er ráðið til lykta. Í athugasemdum með frumvarpi því, er varð að nefndum lögum, segir að tilefni geti verið uppi til að leita ráðgefandi álits EFTA-dómstólsins ef vafi er um skýringu á samningi um Evrópska efnahagssvæðið og á vafaatriðið reynir við úrlausn dómsmáls hér.

Af 1. mgr. 34. gr. samnings milli EFTA-ríkjanna um stofnun eftirlitsstofnunar og dómstóls, sbr. 1. mgr. 1. gr. laga nr. 21/1994, leiðir að það er hlutverk EFTA-dómstólsins að skýra EES-samninginn, en íslenskra dómstóla að fara með sönnunarfærslu um staðreyndir máls, skýringu innlends réttar og beitingu EES-samningsins að íslenskum lögum. Í máli þessu er ekki deilt um hvort ákvæði laga nr. 134/2008 um breyting á lögum nr. 87/1992 um gjaldeyrismál, með síðari breytingum, og reglur nr. 880/2009 um gjaldeyrismál, sem settar voru með stoð í umræddum lögum, fari í bága við 40. gr. laga nr. 2/1993 um frjálsan flutning fjármagns í eigu þeirra sem búsettir eru í aðildarríkjum EB eða EFTA-ríkjum. Hins vegar er uppi ágreiningur um hvort þær verndarráðstafanir gagnvart íslensku krónunni, sem gerðar voru með lögum nr. 134/2008 og reglum nr. 880/2009, hafi verið heimilar samkvæmt undantekningarákvæðum 2. mgr. og 4. mgr. 43. gr. fyrrgreindra laga. Þykir vera réttlætanlegur vafi um túlkun þessara ákvæða samningsins með hliðsjón af fyrirliggjandi sakarefni þannig að nægilegt tilefni sé til að leitað verði álits EFTA-dómstólsins á þann hátt sem greinir í úrskurðarorði.

Úrskurðinn kvað upp Helgi I. Jónsson dómstjóri.

Úrskurðarorð:

Leitað verður álits EFTA-dómstólsins á því hvort það samrýmist ákvæðum 2. mgr. og 4. mgr. 43. gr. EES-samningsins að íslenska ríkið hindri íslenskan ríkisborgara, búsettan í Bretlandi, að flytja íslenskar krónur, sem hann hefur keypt á aflandsmarkaði í Bretlandi, til Íslands.