Hæstiréttur íslands
Mál nr. 808/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Stjórnsýsla
- Raforka
- Aðild
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 20. janúar 2015 |
|
Nr. 808/2014. |
Margrét Guðnadóttir Sauðafell sf. STV ehf. Ólafur Þór Jónsson Reykjaprent ehf. Sigríður Jónsdóttir Geirlaug Þorvaldsdóttir Skúli Þorvaldsson Katrín Þorvaldsdóttir og Bjarney Guðrún Ólafsdóttir (Guðjón Ármannsson hrl.) gegn Orkustofnun (Fanney Rós Þorsteinsdóttir hrl.) Landsneti hf. og (Þórður Bogason hrl.) Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands (enginn) |
Kærumál.Stjórnsýsla. Raforka. Aðild. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Á grundvelli umsóknar frá L hf. um leyfi til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2, birti O auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, sbr. 3. mgr. 34. gr. raforkulaga nr. 65/2003, þar sem þeim er málið varðaði var gefið færi á að kynna sér umsókn L hf. og koma á framfæri sjónarmiðum sínum um hana. M o.fl., sem voru eigendur jarða sem fyrirhugað var að háspennulínan lægi um, sendu O umsögn sína um umsóknina og færðu fyrir því rök að henni bæri að hafna. Í desember 2013 veitti O L hf. leyfi til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2. Höfðuðu M o.fl. í kjölfarið mál og kröfðust þess að ákvörðun O yrði felld úr gildi. Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi á þeim grundvelli að M o.fl. skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn þess. Deildu aðilar í fyrsta lagi um það hvort M o.fl. hefðu, með því að neyta umsagnarréttar samkvæmt 3. mgr. 34. gr. raforkulaga í tilefni af umsókn L hf. til O, orðið aðilar þess stjórnsýslumáls og gætu sem slíkir höfðað mál til ógildingar á leyfisveitingunni vegna annmarka sem þau töldu að hefði á henni verið. Í öðru lagi var um það ágreiningur hvort nauðsyn bæri til að allir eigendur þeirra jarða, sem væru í óskiptri sameign og stæðu að málshöfðuninni, ættu aðild að málinu til sóknar eða hvort einungis hluti þeirra gæti sótt málið án aðkomu sameigenda sinna. Í þriðja lagi var um það deilt hvort M o.fl. hefðu, með því að skila inn athugasemdum við umsókn L hf. eftir lok lögboðins frests, með því að hafa ekki nýtt kæruheimild samkvæmt 2 .mgr. 37. gr. raforkulaga og með því að hafa ekki stefnt samtökunum LV til aðildar fyrirgert hugsanlegum rétti til þess að höfða mál til ógildingar á ákvörðun O. Hvað varðaði fyrsta ágreiningsefnið taldi Hæstiréttur í ljósi atvika að M o.fl. hefðu beinna, einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af ákvörðun um veitingu leyfis til lagningar flutningsvirkis um jarðir sínar. Þegar landeigandi sem svo hagaði til um neytti umsagnarréttar samkvæmt 3. mgr. 34. gr. raforkulaga teldist hann hafa orðið aðili að því stjórnsýslumáli sem rekið væri um veitingu leyfis til lagningar flutningsvirkis. Í skjóli meginreglu 60. gr. stjórnarskrárinnar nyti sá sem aðild hefði átt að máli fyrir stjórnvaldi almennt réttar til að bera undir dómstóla hvort farið hefði verið að lögum við meðferð þess og úrlausn og gilti þá einu hvort aðildin helgaðist af almennum reglum stjórnsýsluréttar eða sérreglum einstakra laga. Yrði málinu því ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að M o.fl. skorti lögvarða hagsmuni af úrlausn málsins. Að því er varðaði annað ágreiningsefnið vísaði Hæstiréttur til þess að hver eiganda þeirra jarða sem væru í óskiptri sameign hefði sjálfstæðra hagsmuna að gæta af kröfu sinni um ógildingu ákvörðunar O og gætu þeir því sótt rétt sinn fyrir dómi án aðildar sameigenda sinna. Að því er varðaði þriðja ágreiningsatriðið féllst Hæstiréttur ekki á með L hf. að umsögn M o.fl. hefði borist of seint. Þá vísaði Hæstiréttur til þess að M o.fl. hefði verið heimilt að velja milli þess að kæra leyfisveitingu O til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála, sbr. 2. mgr. 37. gr. raforkulaga, eða bera hana undir dómstóla án þess að leita fyrst úrlausnar nefndarinnar. Loks yrði málinu ekki vísað frá héraðsdómi á þeim grundvelli að LV hefði ekki verið stefnt í málinu. Þar sem LV hefði ekki átt einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og sendi O ekki athugasemdir samkvæmt 3. mgr. 34. gr. raforkulaga hefðu samtökin ekki orðið aðili stjórnsýslumálsins um leyfisveitinguna. Með vísan til þessa og þar sem málatilbúnaður M o.fl. þótti ekki andstæður e., g. og h. liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 9. desember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2014 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau kærumálskostnaðar.
Varnaraðilarnir Orkustofnun og Landsnet hf. krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003 þarf flutningsfyrirtæki samkvæmt III. kafla laganna leyfi Orkustofnunar fyrir nýjum raflínum sem flytja raforku á 66 kV spennu eða hærri. Getur stofnunin bundið leyfið skilyrðum er lúta að þeim atriðum sem greinir í 1. mgr. 9. gr. raforkulaga auk skilyrða er lúta að umhverfisvernd og landnýtingu. Varnaraðilinn Landsnet hf., sem er flutningsfyrirtæki samkvæmt III. kafla raforkulaga, sótti 21. desember 2012 um leyfi varnaraðilans Orkustofnunar til að reisa og reka raforkuflutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Fyrirhuguð lína mun verða 32,4 km löng 220 kV háspennulína og liggja frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði um sveitarfélögin Voga, Reykjanesbæ og Grindavíkurbæ að tengivirki við Rauðamel sem er um 5 km norðan Svartsengis. Mun fyrirhuguð framkvæmd vera hluti af svonefndum Suðvesturlínum sem er framtíðarstyrking raforkuflutningskerfisins á Suðvesturlandi.
Sóknaraðilar eru eigendur sex jarða í sveitarfélaginu Vogum og mun fyrirhuguð háspennulína liggja um jarðir þeirra verði af umræddri framkvæmd. Um er að ræða jörðina Landakot sem er í eigu sóknaraðilans Margrétar Guðnadóttur, Hvassahraun í eigu sóknaraðilans Sauðafells sf., Stóru-Vatnsleysu í eigu sóknaraðilans STV ehf., Minni-Vatnsleysu í eigu sóknaraðilanna Geirlaugar Þorvaldsdóttur, Katrínar Þorvaldsdóttur og Skúla Þorvaldssonar, Stóra Knarrarnes I í óskiptri sameign sóknaraðilanna Bjarneyjar Guðrúnar Ólafsdóttur, Ólafs Þórs Jónssonar og Sigríðar Jónsdóttur sem eiga um 18 hundraðshluta jarðarinnar og 26 annarra einstaklinga sem ekki eiga aðild að máli þessu og loks Heiðaland Vogajarða sem er í óskiptri sameign sóknaraðilanna Reykjaprents ehf., Ólafs Þórs Jónssonar og Sigríðar Jónsdóttur sem eiga um 34 hundraðshluta jarðarinnar og átta annarra aðila sem ekki eiga aðild að máli þessu.
Til samræmis við ákvæði 3. mgr. 34. gr. raforkulaga birtist 1. febrúar 2013 í Lögbirtingablaðinu auglýsing varnaraðilans Orkustofnunar, þar sem þeim er málið varðar var gefið færi á að að kynna sér umsókn flutningsfyrirtækisins, og koma á framfæri skriflegum sjónarmiðum sínum við Orkustofnun fyrir 1. mars sama ár. Eftir birtingu fyrrgreindrar auglýsingar reis ágreiningur um rétt sóknaraðila til aðgangs að nánar tilgreindum gögnum í vörslum stofnunarinnar er varða hina fyrirhuguðu framkvæmd. Með bréfi 25. febrúar 2013 taldi stofnunin sér ekki heimilt að verða við kröfu sóknaraðila um afhendingu gagnanna en samþykkti þess í stað að veita sóknaraðilum takmarkaðan aðgang að gögnunum á skrifstofu sinni. Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála hafnaði 19. september 2013 kröfu sóknaraðila um ógildingu síðastgreindrar ákvörðunar Orkustofnunar. Með bréfi 7. október sama ár tilkynnti stofnunin sóknaraðilum að stæði vilji þeirra til þess að kynna sér umrædd trúnaðargögn fyrir 11. sama mánaðar væri möguleiki á að veita framlengdan frest til andmæla í nokkra daga. Sóknaraðilar ákváðu að kynna sér gögnin með þeim hætti sem til boða stóð og var frestur til andmæla í kjölfarið framlengdur til 29. sama mánaðar.
Varnaraðilinn Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands sendi varnaraðilanum Orkustofnun athugasemdir vegna umsóknarinnar með bréfi 28. febrúar 2013. Með bréfi 29. október 2013 sendu sóknaraðilar Orkustofnun umsögn sína um umsókn flutningsfyrirtækisins og voru þar færð rök fyrir því að stofnuninni bæri að hafna umsókninni. Í fyrsta lagi töldu sóknaraðilar að flutningsfyrirtækið hefði hvorki tekið til raunhæfrar skoðunar þann kost að leggja Suðurnesjalínu 2 í jörð né aðra kosti eins og legu loftlínu með öðrum hætti en umsóknin gerði ráð fyrir. Í öðru lagi að flutningsfyrirtækið hefði ekki rökstutt eða skilgreint þörfina fyrir lagningu á 220 kV línu fyrir 600 MW flutningsgetu umfram spennulægri línu og minni flutningsgetu. Tóku sóknaraðilar í þessu sambandi fram að það félli innan hlutverks Orkustofnunar að sjá til þess að ekki yrði ráðist í byggingu nýrra lína sem ekki væri þörf á, meðal annars af hagkvæmnisjónarmiðum. Í þriðja lagi héldu sóknaraðilar því fram að umsókn flutningsfyrirtækisins fullnægði ekki að öðru leyti þeim kröfum sem Orkustofnun bæri að gera til umsókna um leyfi til að reisa og reka ný raforkuflutningsvirki. Þannig skorti nauðsynlegar upplýsingar í umsóknina og þau gögn, sem hún væri reist á, væru flest orðin úrelt.
Flutningsfyrirtækið sendi varnaraðilanum Orkustofnun umsögn sína vegna framkominna athugasemda sóknaraðila og varnaraðilans Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands með bréfi 19. nóvember 2013. Með umsögninni fylgdi skýrsla fyrirtækisins um lagningu raflína í jörð sem gefin var út í janúar 2013 auk þess sem vísað var til upplýsinga sem aðgengilegar væru á heimasíðu þess. Athugasemdir flutningsfyrirtækisins og umrædd skýrsla munu ekki hafa verið send sóknaraðilum til umsagnar.
Varnaraðilinn Orkustofnun veitti 5. desember 2013 flutningsfyrirtækinu leyfi til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2. Í leyfinu kom fram að það væri veitt á grundvelli þeirra gagna sem hefðu fylgt leyfisumsókn auk gagna sem aflað var í umsóknarferlinu. Jafnframt var tekið fram að leyfið væri veitt með þeim fyrirvörum er fram kæmu í fylgibréfi en í því kom fram rökstuðningur stofnunarinnar fyrir ákvörðuninni. Sagði þar meðal annars að þótt ekki væri fyrirséð að þörf væri fyrir alla þá flutningsgetu sem fælist í Suðurnesjalínu 2, það er 220 kV loftlínu, á allra næstu árum nema til kæmi orkufrekur iðnaður bæri að hafa í huga að slíkur orkufrekur iðnaður hefði verið „pólitískt stefnumarkaður til atvinnuuppbyggingar á Suðurnesjum af þar til bærum stjórnvöldum“. Jafnframt komst Orkustofnun að þeirri niðurstöðu að verulegur kostnaðarmunur væri á jarðstrengjum og loftlínum á 220 kV spennu og tók undir þau rök flutningsfyrirtækisins að jarðstrengur væri óhagkvæmari framkvæmd en loftlína miðað við 220 kV línu og hvorki umhverfissjónarmið né annað í forsendum framkvæmdarinnar réttlætti þann kostnaðarauka sem af slíku myndi hljótast.
Varnaraðilinn Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands kærði 5. janúar 2014 framangreinda leyfisveitingu til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Samtökin Landvernd stóðu einnig að þeirri kæru en þau samtök sendu varnaraðilanum Orkustofnun ekki athugasemdir vegna umsóknar flutningsfyrirtækisins um leyfi til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2 í framhaldi af auglýsingu stofnunarinnar í Lögbirtingablaðinu 1. febrúar 2013. Atvinnuvegaráðherra tók í framhaldinu ákvörðun um að heimila flutningsfyrirtækinu að taka land sóknaraðila eignarnámi vegna lagningar Suðurnesjalínu 2 og hafa sóknaraðilar höfðað mál til ógildingar á þeirri ákvörðun ráðherra.
II
Sóknaraðilar telja að brotið hafi verið með margvíslegum hætti gegn réttindum þeirra við meðferð varnaraðilans Orkustofnunar á umsókn flutningsfyrirtæksins um leyfi til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2. Telja þeir veitingu leyfisins hvorki fá staðist að efni til né formi og höfða mál þetta til ógildingar á þeirri ákvörðun. Sóknaraðilar telja í fyrsta lagi að Orkustofnun sem leyfisveitandi hafi brotið gegn rannsóknarreglu 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 með því að afla ekki nauðsynlegra, nýjustu og réttra upplýsinga í málinu og byggja ekki ákvörðun sína um veitingu leyfis á slíkum gögnum. Í öðru lagi að ákvörðun stofnunarinnar hafi ekki verið í samræmi við lög. Í þriðja lagi að brotið hafi verið gegn meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Í fjórða lagi að Orkustofnun hafi brotið gegn ákvæðum 13. gr. stjórnsýslulaga með því að gæta ekki lögbundins andmælaréttar sóknaraðila áður en ákvörðun var tekin í málinu. Í fimmta lagi að Orkustofnun hafi brotið gegn 13. og 15. gr. stjórnsýslulaga með því að gefa sóknaraðilum ekki kost á að kynna sér fram komin gögn áður en ákvörðun um leyfisveitingu var tekin.
Eins og greinir í hinum kærða úrskurði krafðist varnaraðilinn Landsnet hf. þess aðallega að málinu yrði vísað frá dómi og varnaraðilinn Orkustofnun gerði í greinargerð sinni til héraðsdóms athugasemd í þá veru að vísa ætti málinu frá dómi án kröfu. Krafa Landsnets hf. um að vísa beri málinu frá héraðsdómi er á því reist í fyrsta lagi að stefna málsins og málatilbúnaður sóknaraðila sé andstæður e., g. og h. liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Í öðru lagi er á því byggt að aðild og lögvarðir hagsmunir sóknaraðila séu verulega vanreifaðir í stefnu málsins. Í því sambandi bendir Landsnet hf. á að sóknaraðilar hafi skilað athugasemdum sínum um málið tæpum átta mánuðum eftir lok umsagnarfrests, sem verið hafi fjórar vikur, og meira en fjórum vikum eftir að úrskurður kærunefndar umhverfis- og auðlindamála lá fyrir vegna þeirrar kæru sóknaraðila um aðgang að gögnum sem áður getur. Þótt óljóst sé með öllu með hvaða hætti sóknaraðilar geti átt aðild að máli til ógildingar á ákvörðun Orkustofnunar um fyrrgreint leyfi til flutningsfyrirtækisins sé hitt ljóst að ákvarðanir stofnunarinnar um útgáfu leyfa samkvæmt raforkulögum séu kæranlegar til úrskurðarnefndarinnar. Þá kæruleið hafi sóknaraðilar ekki nýtt sér og eigi það einnig að leiða til frávísunar málsins. Í þriðja lagi er á því byggt að þinglýstir eigendur jarða á því svæði sem fyrirhuguð lína muni liggja um standi ekki allir saman að málsókninni. Í fjórða lagi er krafa um frávísun á því reist að sóknaraðilar stefni varnaraðilunum Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands vegna áðurgreindrar kæru til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála 5. janúar 2014 en ekki samtökunum Landvernd sem einnig hafi staðið að umræddri kæru. Beri því að vísa málinu frá dómi þar sem þörf sé í máli þessu á aðild allra kærenda.
III
Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. raforkulaga þarf eins og áður er rakið leyfi varnaraðilans Orkustofnunar fyrir nýjum raflínum sem flytja raforku á 66 kV spennu eða hærri. Getur stofnunin bundið leyfið skilyrðum er lúta að þeim atriðum, sem greinir í 1. mgr. 9. gr. laganna, auk skilyrða er lúta að umhverfisvernd og landnýtingu. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. raforkulaga skal byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika og gæða raforku.
Í 1. mgr. 34. gr. raforkulaga segir að leyfi samkvæmt þeim skuli veitt á grundvelli umsóknar sem skuli metin á hlutlægan og gagnsæjan hátt. Samkvæmt 3. mgr. 34. gr. laganna skal kynna umsókn um leyfi samkvæmt lögunum með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og gefa þeim aðilum er málið varðar færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri sjónarmiðum sínum innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingar. Í athugasemdum greinargerðar með frumvarpi því er varð að raforkulögum nr. 65/2003 sagði í skýringum við 34. gr. að þar væru lagðar til málsmeðferðarreglur sem ættu að tryggja faglega, hlutlæga og gagnsæja meðferð máls. Viðkomandi leyfi snerti ríka almannahagsmuni og því væri eðlilegt að kynna umsókn almenningi. Mælt væri fyrir um ákveðinn frest umsagnaraðila til að skila inn umsögnum sínum og ætti með því að hraða málsmeðferð. Sóknaraðilar, sem eru þrjú félög og sjö einstaklingar, eru ýmist einir eða í óskiptri sameign með öðrum eigendur jarða á svæði því sem fyrirhuguð Suðurnesjalína 2 mun liggja um og teljast því í skilningi 3. mgr. 34. gr. raforkulaga aðilar sem málið varðar.
Þegar tekin er afstaða til þess hvort sóknaraðilar hafi orðið aðilar stjórnsýslumáls um leyfisveitingu fyrir Suðurnesjalínu 2 er þess fyrst að geta að hvorki í raforkulögum né stjórnsýslulögum nr. 37/1993 er skilgreint hver skuli vera skilyrði aðildar að málum samkvæmt þeim lögum. Lögskýringargögn með stjórnsýslulögum gefa þó til kynna að aðildarhugtak í stjórnsýslumálum beri að skýra rúmt, þannig að ekki sé einungis átt við þá sem eiga beina aðild að máli heldur einnig þá sem hafa óbeinna hagsmuna að gæta. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 19. júní 2003 í máli nr. 83/2003 er ekki til einhlítur mælikvarði í þessum efnum og ber að líta til hvers tilviks fyrir sig og almennt er sá talinn aðili að máli sem á einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta. Þannig eru þeir sem bera fram kærur eða kvartanir yfirleitt taldir aðilar að stjórnsýslumáli enda eigi þeir slíkra hagsmuna að gæta við úrlausn máls. Þegar af þeirri ástæðu hvernig til háttar hjá sóknaraðilum máls þessa hafa þeir beinna, einstaklegra og lögvarinna hagsmuna að gæta af ákvörðun um veitingu leyfis til lagningar flutningsvirkis samkvæmt 2. mgr. 9. gr. raforkulaga um jarðir sínar. Þegar landeigandi sem svo hagar til um neytir umsagnarréttar samkvæmt 3. mgr. 34. gr. raforkulaga telst hann hafa orðið aðili að því stjórnsýslumáli sem rekið er um veitingu leyfis til lagningar flutningsvirkis. Í skjóli meginreglu fyrri málsliðar 60. gr. stjórnarskrárinnar nýtur sá sem aðild hefur átt að máli fyrir stjórnvaldi almennt réttar til að bera undir dómstóla hvort farið hafi verið að lögum við meðferð þess og úrlausn. Eins og greinir í dómi Hæstaréttar 12. júní 2002 í máli nr. 231/2002 gildir þá einu hvort aðild þess sem í hlut á helgast af almennum reglum stjórnsýsluréttar eða sérreglum einstakra laga. Samkvæmt þessu verður ekki litið svo á að sóknaraðila skorti lögvarða hagsmuni af því að fá úrlausn dómstóla um hvort þeir ágallar hafi verið á þeirri leyfisveitingu varnaraðilans Orkustofnunar sem um ræðir í málinu að varða eigi ógildingu hennar. Verður málinu því ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu.
Áður er gerð grein fyrir því hvernig háttað er eignarhaldi á þeim sex jörðum sem fyrirhugað flutningsvirki mun liggja um. Þar kemur fram að þrír eigendur um 18 hundraðshluta í Stóra Knarrarnesi I og þrír eigendur um 34 hundraðshluta í Heiðarlandi Vogajarða sækja mál þetta án aðildar annarra sameigenda sinna en aðrir í hópi sóknaraðila eru samkvæmt gögnum málsins einir eigendur jarða sinna. Þeir úr hópi sóknaraðila sem eru eigendur að Stóra Knarrarnesi I og Heiðarlandi Vogajarða hafa hver um sig sjálfstæðra hagsmuna að gæta af kröfu sinni um ógildingu ákvörðunar varnaraðilans Orkustofnunar um heimild varnaraðilans Landsnets hf. til að leggja Suðurnesjalínu 2 um land það sem þeir eiga í óskiptri sameign með öðrum. Því verður ekki talið að ákvæði 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991 standi því í vegi að þessir sóknaraðilar geti sótt rétt sinn fyrir dómi án aðildar sameigenda sinna, sbr. síðari málslið 2. mgr. 18. gr. laganna. Samkvæmt þessu og þar sem aðild málsins til sóknar er nægjanlega reifuð verður málinu ekki vísað frá héraðsdómi af þeirri ástæðu að ekki sé fullnægt skilyrðum 18. gr. laga nr. 91/1991.
Varnaraðilinn Orkustofnun veitti eins og áður getur sóknaraðilum framlengdan frest til 29. október 2013 til að skila inn athugasemdum vegna umsóknar varnaraðilans Landsnets hf. um leyfi til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2. Þann dag skiluðu sóknaraðilar Orkustofnun umsögn sinni sem veitti henni viðtöku og vísaði til hennar í leyfi því er flutningsfyrirtækinu var veitt til lagningar umræddrar línu. Verður málinu því ekki vísað frá héraðsdómi fyrir þá sök að umsögn sóknaraðila hafi borist of seint og þeir af þeirri ástæðu ekki orðið aðilar stjórnsýslumáls um leyfisveitinguna. Þá verður málinu heldur ekki vísað frá dómi af þeirri ástæðu að sóknaraðilar neyttu ekki heimildar samkvæmt 2. mgr. 37. gr. raforkulaga til að kæra leyfisveitinguna til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Var sóknaraðilum heimilt að velja á milli þess að kæra leyfisveitinguna til úrskurðarnefndarinnar og leita í framhaldinu til dómstóla vildu þeir ekki una úrlausn nefndarinnar eða bera leyfisveitinguna undir dómstóla án þess að leita fyrst úrlausnar nefndarinnar, sbr. hins vegar 11. mgr. 30. gr. raforkulaga. Þar er tekið fram með ótvíræðum hætti að ákvarðanir sem aðeins verða kærðar til úrskurðarnefndar raforkumála verði ekki bornar undir dómstóla fyrr en niðurstaða hennar liggur fyrir.
Eins og áður er fram komið sendu samtökin Landvernd varnaraðilanum Orkustofnun ekki athugasemdir samkvæmt 3. mgr. 34. gr. raforkulaga í framhaldi af þeirri auglýsingu stofnunarinnar í Lögbirtingablaðinu 1. febrúar 2013 sem áður getur. Á grundvelli þeirrar sérstöku kæruheimildar, sem fram kemur í b. lið 3. mgr. 4. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála, stóð Landvernd á hinn bóginn ásamt Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands að fyrrgreindri kæru 5. janúar 2014 til úrskurðarnefndarinnar vegna veitingar Orkustofnunar á leyfi til Suðurnesjalínu 2. Þegar af þeirri ástæðu að Landvernd getur ekki talist eiga einstaklegra, beinna og lögvarinna hagsmuna að gæta í málinu og sendi Orkustofnun ekki athugasemdir samkvæmt 3. mgr. 34. gr. raforkulaga urðu þau samtök ekki aðili stjórnsýslumáls um veitingu leyfis til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2. Af því leiðir að máli þessu sem höfðað er til ógildingar á leyfisveitingunni verður ekki vísað frá héraðsdómi þótt sóknaraðilar beini málsókninni ekki jafnframt að Landvernd.
Samkvæmt framansögðu og þar sem málatilbúnaður sóknaraðila er ekki andstæður e., g., og h. liðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka mál þetta til efnismeðferðar.
Eftir framangreindum úrslitum verður varnaraðilunum Landsneti hf. og Orkustofnun sameiginlega gert að greiða sóknaraðilum hverjum fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilarnir Landsnet hf. og Orkustofnun greiði sameiginlega sóknaraðilum, Margréti Guðnadóttur, Sauðafelli sf., STV ehf., Ólafi Þór Jónssyni, Reykjaprenti ehf., Sigríði Jónsdóttur, Geirlaugu Þorvaldsdóttur, Skúla Þorvaldssyni, Katrínu Þorvaldsdóttur og Bjarneyju Guðrúnu Ólafsdóttur, hverjum fyrir sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. nóvember 2014.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 19. nóvember 2014, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Geirlaugu Þorvaldsdóttur, Stigahlíð 80, Reykjavík, Margréti Guðnadóttur, Rofabæ 29, Reykjavík, Ólafi Þór Jónssyni, Sléttuvegi 31, Reykjavík, Reykjaprenti ehf., Síðumúla 14, Reykjavík, Sauðafelli sf., Meistaravöllum 31, Reykjavík, Sigríði Jónsdóttur, Hvassaleiti 56-58, Reykjavík, Bjarneyju Guðrúnu Ólafsdóttur, Safamýri 47, Reykjavík, STV ehf., Stóru-Vatnsleysu, Vogum, Skúla Þorvaldssyni, Lúxemborg og Katrínu Þorvaldsdóttur, Lúxemborg, á hendur Orkustofnun, Landsneti hf. og Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands, með stefnu birtri 21. mars 2014.
Stefnendur gera þær dómkröfur, hver um sig, að felld verði úr gildi sú ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, frá 5. desember 2013, að veita stefnda, Landsneti hf., leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2.
Þá krefjast stefnendur, hver um sig, málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu, Orkustofnunar og Landsnets hf., sameiginlega (in solidum). Ekki er gerð málskostnaðarkrafa á hendur Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands.
Stefndi, Landsnet hf., krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnenda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnendum in solidum.
Stefndi, Orkustofnun, krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnenda en til vara að málskostnaður verði látinn falla niður.
Stefndi, Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands, gerir þá kröfu að felld verði úr gildi sú ákvörðun Orkustofnunar, dags. 5. desember 2013, að veita Landsneti leyfi til þess að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Ekki er gerð krafa um málskostnað í málinu.
Í þessum þætti málsins er krafa stefnda, Landsnets hf., um frávísun málsins tekin til úrskurðar. Stefndi, Orkustofnun, gerði í greinargerð sinni athugasemdir í þá veru að vísa eigi máli þessu frá dómi án kröfu. Við málflutning um frávísunarkröfuna krafðist stefndi, Orkustofnun, málskostnaðar úr hendi stefnenda.
Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefnda, Landsnets hf., verði hrundið og ákvörðun málskostnaðar látin bíða efnisdóms.
I
Mál þetta snýst um ákvörðun Orkustofnunar um að veita stefnda, Landsneti hf., leyfi til að reisa og reka flutningsvirkið Suðurnesjalínu 2. Fyrirhuguð lína mun verða 32,4 km löng 220 kV háspennulína, sem liggja mun frá tengivirki við Hamranes í Hafnarfirði um sveitarfélagið Voga, Reykjanesbæ og Grindarvíkurbæ að tengivirki við Rauðamel, um 5 km norðan við Svartsengi. Framkvæmdin er hluti af svonefndum Suðvesturlínum sem er framtíðarstyrking raforkuflutningskerfisins á Suðvesturlandi.
Stefndi, Landsnet hf., kveður að á fyrri hluta ársins 2011 hafi undirbúningur að lagningu Suðurnesjalínu 2 hafist. Í apríl 2011 hafi samningaviðræður við landeigendur byrjað. Stefndi, Landsnet hf., kveðst hafa náð samningum við alla landeigendur á fyrirhugaðri línuleið um réttindi fyrir línuna, að frátöldum þeim landeigendum sem eru stefnendur þessa máls. Um brýna framkvæmd sé að ræða og varði hún hagsmuni almennings. Því hafi stefndi, Landsnet hf., í febrúar 2013, óskað eftir heimild atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra til eignarnáms á nauðsynlegum réttindum undir línuna og hafi sú heimild verið veitt 24. febrúar 2014. Um þá ráðstöfun hafa stefnendur höfðað dómsmálið E 2768/2014 gegn Landsneti hf. og íslenska ríkinu.
II
Í fyrsta lagi kveðst stefndi, Landsnet hf., byggja á því að vísa eigi málinu í heild frá dómi, þar sem stefna málsins og málatilbúnaður stefnenda sé ekki í samræmi við e-, g- og h-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Stefna málsins sé alls 23 þéttritaðar síður, þar sem sé að finna rökstuðning stefnenda fyrir því að fella eigi úr gildi tiltekna stjórnvaldsákvörðun stefnda, Orkustofnunar. Til stuðnings málsástæðum í stefnunni leggja stefnendur fram dómsskjöl, sem telja mörg þúsund blaðsíður, sem mörg hver eru ekki á íslensku og engin þýðing fylgir. Vegna þessa telur stefndi að stefnan sé í raun skriflegur málflutningur, sem gangi í berhögg við ákvæði e-liðar 1. mgr. 80. gr. eml. og meginregluna um munnlegan málflutning. Því fari fjarri að málsástæður í stefnunni og önnur atvik séu tilgreind þannig í stefnu, að samhengi milli málsástæðna sé ljóst. Þá sé sömuleiðis fjarri lagi að þessi lýsing stefnunnar sé gagnorð og skýr. Stór hluti framlagðra gagna sé á ensku, oft mjög tæknilegu máli. Það gangi í berhögg við 10. gr. eml., einkum 1. og 3. mgr., þar sem segir að þingmálið sé íslenska og að skjali á erlendu tungumáli skuli að jafnaði fylgja íslensk þýðing að því leyti sem byggt er á efni þess. Rétt hefði verið að öllum framlögðum gögnum á erlendum tungumálum fylgdi íslensk þýðing.
Í öðru lagi sé á því byggt að aðild og lögvarðir hagsmunir stefnenda séu verulega vanreifaðir í stefnunni. Stefnendur séu einstaklingar og lögaðilar sem séu þinglýstir landeigendur á fyrirhugaðri línuleið Suðurnesjalínu 2. Að mati stefnda sé í meira lagi hæpið að stefnendur geti átt aðild að dómsmáli sem þessu, almennt eða sérstaklega, m.a. með tilliti til lögvarinna hagsmuna.
Samkvæmt 9. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, hafi stefndi einn heimild til að reisa ný flutningsvirki raforku. Samkvæmt sama ákvæði þarf leyfi Orkustofnunar fyrir nýjum raflínum sem flytja raforku á 66 kV spennu eða hærri. Þar sem fyrirhuguð Suðurnesjalína 2 verði 220 kV lína, var nauðsynlegt að sækja um heimild stefnda, Orkustofnunar, til að ráðast í framkvæmdina. Samkvæmt 34. gr. raforkulaga skal Orkustofnun kynna umsókn um leyfi samkvæmt lögunum með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Þar skal gefa þeim aðilum er málið varðar færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri sjónarmiðum sínum innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingar. Að því loknu taki Orkustofnun ákvörðun um hvort heimila eigi nýtt flutningsmannvirki. Við þá ákvörðun meti stofnunin m.a. hvort skilyrði 1. mgr. 9. gr. raforkulaga séu uppfyllt, þ.e. að flutningskerfið sé byggt upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Í leyfi Orkustofnunar felst mat stjórnvalds á því, að nauðsynlegt sé að reisa flutningsmannvirkið. Í ákvörðuninni felst hvorki framkvæmdaleyfi né leyfi til afnota af landi fyrir flutningsvirkið.
Af stefnu málsins virðist sem stefnendur líti á sig sem aðila stjórnsýslumáls, sem lyktaði með ákvörðun Orkustofnunar um að veita stefnda heimild til að reisa og reka Suðurnesjalínu 2. Hins vegar sé það svo, að samkvæmt ákvæðum raforkulaga sé einungis gert ráð fyrir því að leitað sé umsagnar almennt um leyfisumsókn, með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu, er veita skal innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingar. Stefnendur skiluðu inn athugasemdum sínum um málið tæpum átta mánuðum eftir lok frestsins. Verði í fyrsta lagi að telja þær athugasemdir stefnenda, sem bárust löngu eftir lögbundinn frest, skv. 3. mgr. gr. 34. gr. raforkulaga, allt of seint fram komnar. Telja verði að Orkustofnun hafi ekki haft heimild til að taka við þeim eða líta til umsagna sem bárust eftir hinn lögbundna tíma, sem var fjórar vikur frá birtingu auglýsingar, hinn 1. febrúar 2013. Stefnendur kærðu synjun á aðgangi að gögnum málsins til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Úrskurður nefndarinnar um það mál lá fyrir, hinn 19. september 2013. Stefnendur sendu Orkustofnun bréf, hinn 2. október og báðu um að afgreiðslu málsins yrði frestað. Orkustofnun hafnaði beiðninni daginn eftir. Hinn 7. október báðu stefnendur Orkustofnun um frest til 18. nóvember 2013. Stofnunin veitti stefnendum loks frest til 29. október. Telja verði að Orkustofnun hafi ekki verið heimilt að gera það, a.m.k. ekki án nýrrar auglýsingar í Lögbirtingablaði um almennan frest til að skila athugasemdum til að gætt sé jafnræðis. Stefnendur skiluðu þannig athugasemdum sínum átta mánuðum eftir að lögbundinn frestur til þess rann út og meira en fjórum vikum eftir að úrskurður kærunefndar umhverfis- og auðlindanefndar lá fyrir vegna kæru þeirra, ef telja má að sú kæra hafi lengt frestinn.
Orkustofnun sé falið það mat að lögum að meta hvort veita eigi leyfi fyrir nýju flutningsvirki. Þeir aðilar sem sent hafa inn umsagnir um leyfið verða ekki þar með aðilar stjórnsýslumáls í skilningi stjórnsýsluréttarins. Fyrir liggi að útgáfa Orkustofnunar á leyfi samkvæmt raforkulögum sé kæranleg til æðra stjórnvalds, sbr. 2. mgr. 37. gr. laganna. Þá kæruheimild nýttu stefnendur sér ekki. Auk þess að hafa skilað umsögn allt of seint og þannig í raun ekki, nýttu stefnendur ekki heldur lögbundin kæruúrræði stjórnsýslunnar áður en mál þetta var höfðað, mögulega vegna þess að umsagnir þeirra bárust löngu eftir lögbundinn frest. Að mati stefnda sé því með öllu óljóst, samkvæmt framangreindu, með hvaða hætti stefnendur telja sig eiga aðild að máli til ógildingar á ákvörðun Orkustofnunar. Einnig sé algerlega óljóst hvaða lögvörðu hagsmuni stefnendur telja sig eiga í málinu, verði fallist á kröfu þeirra um ógildingu leyfisins. Stefnendur geri enga grein fyrir þessum hagsmunum í stefnunni. Lögvarðir hagsmunir stefnda séu hins vegar augljósir.
Með vísan til þess að stefnendur nýttu í raun ekki umsagnarrétt skv. raforkulögum, nýttu ekki kærurétt til að kæra leyfisveitingu Orkustofnunar, sem og til þeirrar staðreyndar að stefnendur voru ekki aðilar málins og að hagsmunir stefnenda af því að fallist verði á kröfur þeirra séu með öllu óljósir og vanreifaðir, ber að vísa málinu frá dómi.
Í þriðja lagi byggir stefndi á því að þinglýstir eigendur jarða á línuleiðinni standi ekki allir saman að lögsókn þessari. Stefnendur séu þinglýstir eigendur nokkurra jarða á Suðurnesjum. Fyrirhuguð háspennulína mun m.a. liggja um óskipt land jarðanna Minna Knarrarness, Stóra Knarrarness I og Stóra Knarrarness II. Saman mynda allar jarðirnar hverfið Knarrarnes. Einungis þrír þinglýstir eigendur Stóra Knarrarness I eiga aðild að þessu máli, sbr. dskj. 95, en það eru Bjarney G. Ólafsdóttur, eigandi að 8,3333% hluta jarðarinnar (og þar með 2,791555% hluta hins óskipta lands), Sigríður S. Jónsdóttur, eigandi að 4,8611% hluta jarðarinnar (og þar með 1,6285% hluta hins óskipta lands) og Ólafur Þ. Jónsson, eigandi 4,8611% hluta jarðarinnar (og þar með 1,6285% hluta hins óskipta lands). Aðrir eigendur hins óskipta lands hafa gert samning við stefnda Landsnet vegna málsins.
Samkvæmt framangreindu eiga aðild að máli þessu eigendur einungis 6,0485% Knarrarness. Aðrir eigendur, sem stefndi, Landsnet hf., hefur þegar samið við í Knarrarnesi, eiga því samtals 93,95% hins óskipta lands. Þá eiga aðeins þrír eigendur Heiðarlands Vogajarða aðild að máli þessu, Reykjaprent ehf., Sigríður S. Jónsdóttir og Ólafur Þ. Jónsson, sem eiga samtals um þriðjung jarðarinnar, sbr. dskj. 96. Aðrir landeigendur jarðarinnar hafa gert samning við stefnda. Stefndi telur að teknu tilliti til framangreinds að vísa beri kröfum framangreindra stefnenda frá dómi, og jafnvel málinu í heild sinni, enda lýtur krafa umræddra landeigenda að því að fella úr gildi ákvörðun Orkustofnunar er takmarkar nýtingarmöguleika jarðarinnar allrar, og varðar hagsmuni hinna sameigendanna ekki síður en stefnenda sjálfra. Telja verður samkvæmt framangreindu, að þörf sé á aðild allra eigenda Knarrarness og Heiðarlands Vogajarða, sbr. 18. gr. l. nr. 91/1991.
Í fjórða lagi telur stefndi að vísa beri málinu frá dómi þegar af þeirri ástæðu að stefnendur telja ástæðu til að stefna Náttúruverndarsamtökum Suðvesturlands án þess að gera kröfu á hendur samtökunum, vegna kæru á dskj. 29. Að þeirri kæru stóð einnig Landvernd en þeim samtökum er ekki stefnt. Verði því að vísa málinu frá þar sem telja verði þörf á aðild allra kærenda.
III
Stefnendur hafna frávísunarkröfu stefnda, Landsnets hf., sem og athugasemdum stefnda, Orkustofnunar, um frávísun málsins án kröfu.
Stefnendur telja stefnu og málatilbúnaðinn vera í samræmi við 80. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991. Suðurnesjalína 2 muni liggja um lönd stefnenda og ákvörðun Orkustofnunar, sem heimili lagningu og rekstur línunnar, varði stefnendur með beinum hætti.
Málsástæður stefnenda lúta að annmörkum á málsmeðferð Orkustofnunar og annmörkum á ákvörðun um leyfisveitingu. Stefnendur byggja á því að lögmætisregla stjórnsýsluréttarins hafi verið brotin sem og 10., 12., 13. og 15 gr. stjórnsýslulaga. Stefnendur telja málsástæður í stefnu skýrar og samhengi þeirra ljóst. Þá mótmæla þeir því að um skriflegan málflutning sé að ræða. Hin viðamiklu gögn sem þeir leggi fram styðji málatilbúnað þeirra og séu í grunnin þau sömu og afhent hafi verið stefnda, Orkustofnun.
Stefnendur mótmæla því að þeir eigi ekki lögvarða hagsmuni í málinu. Þeir séu landeigendur á þeirri leið sem Suðurnesjalína 2 muni liggja og lagning hennar skerði eignarréttindi þeirra, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. 1. samningsviðauka við mannréttindasáttmála Evrópu, samanber lög nr. 62/1994. Stefnendur telja að hin umdeilda ákvörðun Orkustofnunar sé forsenda þess að unnt sé að ráðast í framkvæmdina, sbr. 2. mgr. 9. gr. raforkulaga nr. 65/2003. Stefnendur mótmæla því að ekki sé nægileg grein gerð fyrir lögvörðum hagsmunum þeirra í stefnu málsins.
Stefnendur halda því fram að þeir hafi verið aðilar að stjórnsýslumáli því er lauk með veitingu leyfisins. Þeir halda því fram að stefndi, Orkustofnun, hafi í bréfi 25. febrúar 2013 viðurkennt aðild þeirra, þar sem sagt sé „að lögmannsskrifstofan LEX, f.h. þeirra aðila sem eru staðfestir eigendur þeirra jarða sem umrædd framkvæmd fer um og Orkustofnun staðfestir að séu „aðilar máls“ að skilningi Orkustofnunar, með vísan til 15. gr. stjórnsýslulaga skuli fá aðgang að umræddum trúnaðargögnum“. Þá benda stefnendur á að þeir hafi fengið framlengdan frest til að skila athugasemdum sínum sem og að gerð hafi verið grein fyrir athugasemdum þeirra í ákvörðun Orkustofnunar. Þá benda stefnendur á að samkvæmt athugasemdum með frumvarpi sem varð að stjórnsýslulögum eigi að skýra aðila máls í skilningi stjórnsýsluréttar rúmri skýringu.
Þá hafna stefnendur því að þinglýstir eigendur Heiðarlands, Vogajarða og Stóra Knarrarness þurfi allir að standa að málssókninni. Stefnendur telja að hver stefnanda um sig hafi sjálfstæðra hagsmuna að gæta af kröfu sinni um að ákvörðun Orkustofnunar verði felld úr gildi. Samaðild til sóknar sé ekki nauðsynleg samanber 18. gr. laga um meðferð einkamála.
Að lokum mótmæla stefnendur því að aðild meðstefnda, Náttúruverndarsamtaka Suðvesturlands, geti leitt til frávísunar málsins.
IV
Samkvæmt 9. gr. raforkulaga, nr. 65/2003, sbr. 5. tl. 3. gr. sömu laga, hefur stefndi, Landsnet hf., heimild til að reisa ný flutningsvirki raforku. Í 1. mgr. sömu laga er lögð sú skylda á stefnda, Landsnet hf., að byggja flutningskerfið upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Sé ætlunin að raflínur flytji meira en 66 kV þarf, samanber 2. mgr. 9. gr. sömu laga, leyfi stefnda, Orkustofnunar. Fyrirhugað er að Suðurnesjalína 2 verði 220 kV lína og sótti stefndi, Landsnet hf., því um leyfi stefnda, Orkustofnunar samanber 1. mgr. 9. gr. raforkulaga.
Samkvæmt 34. gr. raforkulaga skal Orkustofnun kynna umsókn um leyfi samkvæmt lögunum með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu. Þar skal gefa þeim aðilum er málið varðar færi á að kynna sér umsóknina og koma á framfæri sjónarmiðum sínum innan fjögurra vikna frá birtingu auglýsingar. Að því loknu tekur Orkustofnun ákvörðun um hvort heimila eigi nýtt flutningsmannvirki. Við þá ákvörðun metur stofnunin m.a. hvort skilyrði 1. mgr. 9. gr. raforkulaga séu uppfyllt, um að flutningskerfið sé byggt upp á hagkvæman hátt að teknu tilliti til öryggis, skilvirkni, áreiðanleika afhendingar og gæða raforku. Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. sömu laga getur Orkustofnun bundið leyfið skilyrðum er lúta að þeim atriðum sem greinir í 1. mgr. auk skilyrða er lúta að umhverfisvernd og landnýtingu. Hin umdeilda ákvörðun stefnda, Orkustofnunar, er frá 5. desember 2013 og í fylgibréfi með henni kemur meðal annars fram það skilyrði, að stefndi, Landsnet hf., verði með vísan til 21. gr. raforkulaga að ná samkomulagi um endurgjald fyrir landnot vegna hinnar fyrirhuguðu línu, en að öðrum kosti fari fram eignarnám og umráðataka vegna línunnar.
Telja verður að í ákvörðun Orkustofnunar 5. desember 2013 felist mat stjórnvalds á því, að nauðsynlegt sé að reisa flutningsmannvirkið. Hér er ekki um að ræða framkvæmdaleyfi eða leyfi til afnota af landi fyrir flutningsvirkið. Stefnenda er hvorki getið sem aðila í ákvörðuninni sjálfri né í fylgibréfi því sem henni fylgdi. Aðkoma þeirra að málinu byggist á 3. mgr. 34. gr. sömu laga þar sem þeir nýttu sér rétt sinn til að koma á framfæri sjónarmiðum sínum um umsókn stefnda, Landsnets hf. Þeir eru því umsagnaraðilar og það geri þá ekki að aðila ákvörðunarinnar sem tekin var 5. desember 2013. Þá skiptir hér engu aðild þeirra að máli því sem rekið var vegna aðgangs að trúnaðarupplýsingum samanber úrskurð umhverfis- og auðlindanefndar er kveðinn var upp 19. september 2013. Til þess að stefnendur gætu komið sjónarmiðum sínum að, samanber 3. mgr. 34. gr. raforkulaga, töldu þeir sig þurfa aðgang að trúnaðarupplýsingunum. Um annað ágreiningsefni er því að ræða. Með því að stefnendur hafa ekki sýnt fram á að þeir eigi lögvarða hagsmuni í málinu er því vísað frá dómi að kröfu stefnda, Landsnets hf.
Stefnendur málsins eru sjö einstaklingar og þrjú félög. Á bls. 4 í stefnu er tafla „til nánari skýringar á því hvaða jarðir eru, að hluta eða öllu leyti, í eigu stefnenda“. Að öðru leyti er ekki gerð grein fyrir aðild stefnenda. Ekkert kemur til dæmis fram um hvaða jarðir séu í óskiptri sameign, með hverjum eða hve stóran hluta hver stefnandi eigi. Í ljósi 18. gr. laga um meðferð einkamála bar stefnendum að gera frekari grein fyrir aðild sinni að málinu en vísa skal máli frá dómi án kröfu sé ákvæði 18. gr. laga um meðferð einkamála ekki fullnægt. Til þess að meta það verður fullnægjandi reifun á aðildinni að liggja fyrir í stefnu. Hér er því um vanreifun á aðild stefnenda að ræða.
Frávísun málsins skerðir ekki rétt stefnenda til að vísa ágreiningi sínum um lagningu Suðurnesjalínu 2 til dómstóla, en stefnendur reka nú þegar nokkur dómsmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur er varða fyrirhugaða lagningu Suðurnesjalínu 2. Náttúruverndarsamtök Suðvesturlands hafa ekki látið málið til sín taka að öðru leyti en þeir skiluðu greinargerð í málinu og gera sömu dómkröfur og stefnendur. Samtökin voru ekki aðilar að ákvörðun Orkustofnunar 5. desember 2013 og skorti þau því lögvarða hagsmuni af því að gera þá dómkröfu er fram kemur í málatilbúnaði þeirra.
Þegar af þeim ástæðum sem að framan greinir er málinu vísað frá dómi. Með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnendum að greiða stefndu málskostnað svo sem greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi.
Stefnendur, Geirlaug Þorvaldsdóttir, Margrét Guðnadóttir, Ólafur Þór Jónsson, Reykjaprent ehf., Sauðafell sf., Sigríður Jónsdóttir, Bjarney Guðrún Ólafsdóttir, STV ehf., Skúli Þorvaldsson og Katrín Þorvaldsdóttir greiði sameiginlega (in solidum) stefnda, Landsneti hf., 800.000 kr. og stefnda, Orkustofnun, 200.000 kr. í málskostnað.