Hæstiréttur íslands

Mál nr. 608/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                       

Miðvikudaginn 17. september 2014.

Nr. 608/2014.

 

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Snorri Sturluson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. september 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2014, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 10. október 2014 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með dómi réttarins 21. ágúst 2014 í máli nr. 549/2014 var því slegið föstu að fullnægt væri skilyrðum til þess að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Þau rök sem færð voru fram til stuðnings þeirri niðurstöðu standa óhögguð. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2014.

                Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 10. október nk., kl. 16:00.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar alvarlega líkamsárás X á A að kvöldi laugardagsins 9. ágúst sl. Í frumskýrslu lögreglu komi fram að tilkynnt hafi verið um að slagsmál ættu sér stað fyrir utan Bar 7 og Obladíoblada við Frakkastíg í Reykjavík. Skömmu síðar hafi komið önnur tilkynning frá FMR um að þarna væri slegist með hníf. Þá segir í frumskýrslunni að á vettvangi hafi verið margt fólk en það fyrsta sem lögreglumenn hafi séð var kærði og hafi hann verið alblóðugur í andliti og með skurð á enni. Lögreglumenn hafi síðan séð árásarþola hvar hann hafi verið með stungusár á hægri síðunni og stungugöt aftan á úlpunni. Bæði kærði og árásarþoli hafi verið fluttir á slysadeild til aðhlynningar.

          Skýrslur hafi verið teknar af kærða 10. ágúst sl. og 4. september sl. Aðspurður kvaðst kærði ekki þekkja árásarþola og ekki hafa séð hann fyrr en kvöldið sem árásin hafi átt sér stað. Kærði kvaðst muna það að hann hafi verið að drekka á bar og í framhaldi af því lent í átökum við einhvern.  Hann hafi fengið högg á höfuð í átökunum og hafi sömuleiðis sjálfur slegið þann sem hann hafi verið í átökum við. Sagðist hann hafa fengið þungt höfuðhögg og hafi verið drukkinn og muni því lítið. Kvaðst hann eingöngu hafa varið sig með hnefunum og hafi ekki notað vopn, enda gangi hann aldrei um með vopn.

          Lögregla hafi rætt við fjölda vitna og komi fram í framburði nokkurra þeirra að kærði og árásarþoli hafi til að byrja með verið í átökum, m.a. slegist með beltum. Samkvæmt vitnunum hafi kærði síðan gengið í burtu upp Frakkastíg, í átt að Laugavegi, en snúið til baka með hníf á lofti og stungið brotaþola ítrekað. Vitni hafi síðan náð að komast á milli þeirra og náð hnífnum af kærða. Þá greini vitni frá því að kærði hefði byrjað átökin, að því er virðist að tilefnislausu.

          Lögregla hafi í höndunum upptöku þar sem sést hvar kærði hafi brotaþola undir í átökum og vegfarandi reyni að ná kærða af brotaþola og virðist halda í höndina á kærða með hnífnum.

          Í læknisvottorðum málsins komi fram að brotaþoli hafi hlotið lítinn skurð yfir vinstra kinnbeini, tæplega 1 cm á lengd. Á höfði sé ekki að sjá frekari áverkamerki. Á afanverðum brjóstkassa, hægra megin, sé opinn skurður í hæð við geirvörtu, 5 cm langur og djúpur að sjá. Á hægri upphandlegg, yfir aftanverðum axlarvöðva sé 3 cm skurður. Ofarlega á upphandlegg sé grunnur, 3 cm skurður. Þá segir að á hægri mjöðm, fyrir ofan rasskinn, sé 6 cm langur skurður. Skurðir hafi verið saumaðir 25 sporum, en ekki sjáist merki á tölvusneiðmyndum að hnífstungurnar hafi farið inn fyrir mjúkvefi, þ.e.a.s. ekki sést skaði á hjarta, lungum eða kviðarholslíffærum.

Rannsókn málsins sé komin vel á veg. Eftir eigi að taka 3 skýrslur af vitnum og þá sé beðið niðurstöðu DNA greiningar. Samkvæmt því verði málið sent Ríkissaksóknara á næstu dögum.

Kærði hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 10. ágúst sl. Þann 15 ágúst sl. hafi kærði, með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur nr. 219/2014, verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna sem staðfest hafi verið með dómi Hæstaréttar í máli réttarins nr. 549/2014.

Það sé mat lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að lagaskilyrðum 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 sé fullnægt, enda sé kærði undir sterkum grun um að hafa framið brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr., eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti allt að 16 ára fangelsi, eða ævilöngu, og sé þess eðlis að almannahagsmunir krefjist gæsluvarðhalds.

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                Dómurinn lítur svo á að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um það að kærði hafi framið brot gegn 211. gr. sbr. 20. gr. eða 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga. Verður að telja að almannahagsmunir krefjist þess að hann sæti gæsluvarðhaldi. Ber að taka kröfu lögreglustjórans um það til greina og ákveða að varðhaldið vari til föstudagsins 10. október nk. kl. 16.00.

                Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta áframhaldandi gæsluvarðhaldi, allt til föstudagsins 10. október nk., kl. 16:00.