Hæstiréttur íslands

Mál nr. 712/2013


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 6. febrúar 2014.

Nr. 712/2013.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

Sigurði Inga Þórðarsyni

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.

Bjarki Þór Sveinsson hdl.)

(Björgvin Jónsson hrl. réttargæslumaður)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

S var sakfelldur fyrir kynferðisbrot með því að hafa með blekkingum tælt A, sem þá var 17 ára, í tvö skipti til annarra kynferðismaka en samræðis, en sannað þótti að S hefði talið A trú um að hann myndi greiða honum háar fjárhæðir og sjá til þess að hann myndi ekki missa ökuréttindi sín þrátt fyrir ölvunarakstur ef A hefði við hann kynferðismök. Þá var talið sannað að S hefði haft fulla vitneskju um aldur A er atvik áttu sér stað. Var háttsemi S talin varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var refsing S ákveðin fangelsi í átta mánuði auk þess sem honum var gert að greiða A 500.000 krónur í miskabætur.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. október 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfu ákæruvaldsins, til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað, en að því frágengnu að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hún verði lækkuð.

A krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 1.500.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í hinum áfrýjaða dómi. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms.

Krafa ákærða um heimvísun málsins til nýrrar meðferðar er ekki studd haldbærum rökum og verður henni hafnað. Þá kom þegar við lögreglurannsókn fram viðurkenning ákærða, sem styðst við önnur gögn málsins, um að hann hafi haft fulla vitneskju um aldur brotaþola er þau atvik áttu sér stað sem í ákæru greinir og hann var sakfelldur fyrir í héraði. Með þessum athugasemdum verður héraðsdómur staðfestur um háttsemi ákærða, heimfærslu hennar til refsiákvæðis og refsingu ákærða.  

Engin gögn eru í málinu um miska brotaþola. Þá verður af framburði hans fyrir dómi ekki ráðið að atferli ákærða hafi valdið honum verulegum sálrænum erfiðleikum. Að þessu gættu verður ákærði dæmdur til að greiða brotaþolanum 500.000 krónur í miskabætur. Ekki verður fullyrt hvenær í maí og júlí 2012 ákærði framdi brot sín. Verður upphafstími vaxta samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu miðaður við 1. ágúst 2012.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um refsingu ákærða, Sigurðar Inga Þórðarsonar.

Ákærði greiði A 500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. ágúst 2012 til 30. nóvember sama ár, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 664.908 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur, og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Björgvins Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 16. október 2013.

Mál þetta, sem dómtekið var 26. september 2013, er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 12. mars 2013 á hendur Sigurði Inga Þórðarsyni, kt. [...], [...], [...], „fyrir kynferðisbrot, framin í geymslu á heimili ákærða í maí og byrjun júlí 2012, með því að hafa með blekkingum tælt A, sem þá var 17 ára gamall, til annarra kynferðismaka en samræðis. Ákærði taldi A trú um að hann myndi greiða honum háar fjárhæðir, opna bankareikning í erlendum banka í nafni A og leggja fjármuni inn á þann reikning, gefa honum bifreið og sjá til þess að brotaþoli myndi ekki missa ökuréttindi sín þrátt fyrir ölvunarakstur, ef A hefði við hann kynferðismök. Með því að beita framangreindum blekkingum, fékk ákærði A til að fróa sér í tvígang og hafa við sig munnmök í eitt skipti auk þess sem ákærði hafði einu sinni munnmök við A.

Telst þetta varða við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkrafa:

Af hálfu A, kt. [...], er þess krafist að ákærða verði gert að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 1.500.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. 4. gr. sömu laga, frá 1. maí 2012 en síðan með dráttarvöxtum skv. 9. gr. vaxtalaga frá 30. nóvember 2012 til greiðsludags. Þá er gerð krafa um greiðslu málskostnaðar.“

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara er þess krafist að máli þessu verði vísað frá dómi. Jafnframt krefst ákærði þess að bótakröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst verjandi ákærða hæfilegrar þóknunar sér til handa.

I.

Hinn 28. júlí 2012 mætti B, faðir brotaþola, A, hjá lögreglu og lagði fram kæru á hendur ákærða fyrir kynferðisbrot gegn syni sínum, en hann kvaðst hafa fengið vitneskju um brotin hjá móður drengsins.

Brotaþoli gaf svo skýrslu hjá lögreglu 7. ágúst 2012. Hann greindi frá því að hafa kynnst ákærða í gegnum sameiginlegan vin. Ákærði hefði boðið brotaþola að runka gaur og brotaþoli ekki vitað hvort hann væri að grínast eða ekki. Í staðinn hafi brotaþoli átt að fá tvær milljónir króna. Svo hefði ákærði sagt að hann gæti reddað ökuréttindum brotaþola aftur, en hann hefði misst þau vegna ölvunaraksturs. Ákærði hefði sagt að hann myndi ekki heyra neitt meira um ökuréttindamissinn en svo hefði brotaþoli fengið bréf frá lögreglunni og hringt í ákærða. Ákærði hefði þá sagt að það væri allt „under control“. Síðan hefði ákærði farið að bjóða brotaþola meira, peninga og bíla, en í staðinn hafi hann átt að gera það sama, þ.e. runka einhverjum gaur. Ákærði hafi sagt í fyrstu að þetta væri einhver gaur en náttúrulega hafi hann verið að tala um sjálfan sig. Einnig hefði ákærði sagt að hann ætlaði að opna bankareikning erlendis fyrir brotaþola sem bæri einhverja vexti og gefa honum debetkort á reikninginn og hann myndi fá peninginn inn á reikninginn. Brotaþoli kvaðst hafa látið ákærða fá 150.000 krónur en hann hefði ekki fengið þennan erlenda reikning. Ákærði hefði síðar að beiðni föður brotaþola greitt til baka 100.000 krónur og sagt að hann fengi afganginn síðar. Nánar spurður um bíl sem brotaþoli hafi átt að fá frá ákærða sagði brotaþoli að ákærði hafi alltaf verið að spyrja hvort hann vildi ekki fá nýjan bíl, en ákærði hafi sjálfur alltaf verið á splunkunýjum bílum. Ákærði hafi boðið brotaþola nýjan Audi og sagt að hann gæti pantað bílinn fyrir hann eða þá bara fengið pening fyrir bílnum. Í staðinn hafi brotþoli átt að runka ákærða. Fyrir að runka ákærða í 10 skipti hafi brotaþoli átt að fá nýjan bíl og íbúð. Brotaþoli sagði jafnframt að hann hefði farið tvisvar heim til ákærða og þeir farið í geymsluna. Í fyrra skiptið, sem hafi verið í kringum 11. maí, hafi ákærði sótt brotaþola og brotaþoli hafi verið stressaður og spurt ákærða hvort þetta væri alveg pottþétt og ákærði sagt já. Brotaþoli hafi svo byrjað að runka ákærða og ákærði hafi boðið honum meira og meira ef hann myndi gera þetta og hitt en brotaþoli hafi sagt nei. Í seinna skiptið hefði brotaþoli keyrt heim til ákærða og haft munnmök við hann. Brotaþoli var inntur eftir því hvað hann hafi átt að fá fyrir að runka ákærða og sagði brotaþoli að hann hafi átt að fá ökuréttindin og bíl að andvirði tvær til þrjár milljónir króna. Ákærði hefði sagt að hann mætti velja bíl á bílasölu. Brotaþoli sagði að í fyrstu hefði hann efast svolítið um loforð ákærða. Ákærði hafi hins vegar virst vera moldríkur, alltaf verið á nýjum bílum og sýnt myndir af sér erlendis og hann hefði trúað honum. Í seinna skiptið sem brotaþoli hafi farið heim til ákærða hafi brotaþoli runkað ákærða og ákærði sagt að hann myndi bæta við tveimur milljónum króna ef brotaþoli myndi sleikja hann og brotaþoli hefði þá tottað hann. Þá hefði ákærði haft munnmök við brotaþola. Spurður hvað brotaþoli hefði fengið fyrir að gera þetta kvaðst hann ekki vera búinn að fá neitt. Sérstaklega spurður hvort hann hefði einhvern tímann fengið bíl sem honum hafi verið lofaður sagði brotaþoli að hann hefði bara fengið lánaða Hyundai-bifreið hjá ákærða til að fara á hátíð sem var haldin við [...] eða [...]. Brotþoli kvaðst ekki vita hver hefði átt bílinn en ákærði hefði sagt að hann keypti bíla og skráði þá á bílasölur til að þurfa ekki að borga skatt og enginn vissi að þetta væri bíllinn hans. Ákærði hafi sagt að hann ætti í raun þessa bíla en hann væri ekki skráður eigandi að þeim. Brotaþoli var spurður við hvað ákærði ynni og sagði hann að brotaþoli hefði unnið hjá [...] og hjá [...] við „eitthvað svona tölvudót“. Um ástæðu þess að brotaþoli hafði kynferðisleg samskipti við ákærða sagði brotaþoli að hann hefði gert það vegna peninganna og ökuréttindanna. Jafnframt sagði brotaþoli að hann væri gagn­kynhneigður og hann hefði ekki notið þess að gera þetta. Einnig sagði brotaþoli að hann hefði sagt við ákærða að hann vildi fá peninga í staðinn fyrir bíl svo fólk myndi síður gruna eitthvað. Ákærði hefði sagt já við því og sagt að brotaþoli réði því. Um líðan síðan sagði brotaþoli að honum hefði liðið skringilega meðan á kynferðis­mökunum stóð og honum liði ekki vel yfir því að hafa verið svikinn. Brotaþoli tók jafnframt fram að ákærði hefði aldrei sagt hvenær hann ætlaði að efna loforð sín en margt benti til þess að hann myndi ekki gera það.

Sama dag, 7. ágúst, var tekin skýrsla hjá lögreglu af móður brotaþola, C, en ekki er ástæða til að rekja skýrsluna hér.

Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 16. ágúst 2012. Ákærða var kynntur réttur sinn til verjanda en hann kvaðst ekki vilja hafa verjanda að svo stöddu. Einnig var ákærða kynnt sakarefnið, þ.e. meint kynferðisbrot gegn brotaþola A. Beðinn um að lýsa samskiptum sínum við brotaþola sagði ákærði að þeir hefðu kynnst í gegnum vini ákærða. Um kynferðisleg samskipti við brotaþola sagði ákærði að þeir hefðu haft munnmök hvor við annan og brotaþoli hefði fróað ákærða. Þetta hefði gerst tvisvar til þrisvar sinnum í kjallaranum heima hjá ákærða, niðri í geymslu. Spurður hverju ákærði hefði lofað brotaþola sagði ákærði að hann hefði lofað því að láta hann fá peninga. Ákærði kvaðst hins vegar ekki hafa látið brotaþola fá peninga og hann hefði sagt við hann seinna meir að hann gæti ekki gert það og brotaþoli hafi virst sýna því skilning. Um fjárhæðirnar sem ákærði hefði lofað brotaþola sagði hann að það hefði verið alveg frá einhverjum „100 þúsund köllum“. Yfirheyrandi spurði í framhaldi af þessu: „Og hvað átti, þannig að þú ert að láta hann fá peninga gegn hverju?“ Ákærði svaraði: „Já loforð um peninga gegn ... hvað á að kalla þetta ... kynferðislegum hlutum.“ Yfirheyrandi sagði svo: „Þannig að ég taki þetta saman, að þá varstu búinn að lofa honum peningagreiðslum gegn kynferðislegum greiða?“ Ákærði svaraði þessu játandi. Inntur eftir því hvort hann hefði lofað brotaþola einhverju öðru en peningum kvaðst ákærði hafa nefnt við brotaþola að hann gæti lánað honum bíl af og til. Ákærði kvaðst hafa leigt Hyundai-bifreið á bílaleigu til að lána brotaþola til að fara á útihátíð. Spurður hvort hann hefði lofað brotaþola einhverju fleiru sagði hann: „Já ég sagði við hann að ég gæti athugað með það ef honum vantaði bankareikninga erlendis.“ Beðinn um að segja nánar frá því og hvað hann hefði gert fyrir brotaþola sagði ákærði: „Ekki neitt. Þetta voru bara eintóm orð.“ Jafnframt sagði ákærði að brotaþoli hefði látið hann fá 150.000 krónur, en ákærði hefði svo látið brotaþola fá til baka 100.000 krónur. Ákærði hefði einnig sagt að brotaþoli myndi fá restina seinna, en hann myndi draga frá bensínkostnað vegna Hyundai-bifreiðarinnar. Yfirheyrandi sagði þá við ákærða: „Þannig að ef ég dreg þetta allt saman sem þú ert búinn að segja að þá hefur þú sem sagt lofað honum peninga gegn kynferðislegum greiða. Þú hefur líka lofað að lána honum bíl og eitt skiptið lánað honum bíl sem hann fór á [á] [...].“ Ákærði svaraði: „Já.“ Ákærði var þessu næst spurður: „Já, vissir þú aldur?“ Ákærði svaraði þannig: „Ég vissi að hann væri á milli 17 og 18.“ Yfirheyrandi sagði þá: „Þú vissir að hann var á milli 17 og 18 ára gamall?“ Ákærði svaraði aftur játandi. Yfirheyrandi spurði þá: „Áður en þetta gerðist?“ Ákærði svaraði á ný játandi. Í framhaldinu sagði yfirheyrandi: „Þannig að þú áttar þig á því að hann telst samkvæmt þessum aldri þá barn að aldri sem sagt.“ Ákærði sagði: „Já, já ég geri það.“ Spurður hvort hann hefði lofað brotaþola peningum fyrir kaupum á bílum kvaðst ákærði hafa sagt við brotaþola að hann gæti gert hvað sem væri fyrir peningana sem hann fengi. Ákærða var kynntur framburður brotaþola um að ákærði hafi sagt að hann mætti velja bíl að eigin vali sem kostaði tvær til þrjár milljónir króna og sagði hann: „OK, ég sagði við hann að þegar hann fengi greiðslur fyrir þessu að þá gæti hann gert það sem að hann vildi við peninginn. Þar með talið keypt sér bíl ef honum langaði.“ Jafnframt greindi ákærði frá því að hann hefði nefnt við brotaþola, vegna ölvunaraksturs sem hann var tekinn fyrir, að hann gæti athugað hvað hann gæti gert til að hann fengi aftur bílprófið. Spurður hvað hann hefði meint með þessu og hvernig hann hafi ætlað að gera þetta sagði ákærði: „Ég útskýrði það ekkert frekar fyrir honum, þetta voru bara eins og ég segi orð.“ Ákærði kvaðst ekki hafa nefnt tölvuhakk í þessu sambandi. Hann hefði bara sagt að þetta væri hægt. Inntur eftir því af hverju hann hafi sagt þetta við brotaþola sagði ákærði að hann hefði gert það „til þess í rauninni að sannfæra hann um að gera eitthvað“. Spurður „gera hvað“ sagði ákærði „kynferðismök eða“ og spurði yfirheyrandi þá hvort hann hefði átt við kynferðismök. Ákærði svaraði þá: „Nei, nei ekki í því samhengi.“ 

Ákærði var aftur yfirheyrður hjá lögreglu 30. október 2012 og kvaðst hann ekki vilja breyta eða bæta við fyrri framburð sinn. Einnig var honum kynnt bótakrafa brotaþola og kvaðst hann mótmæla henni að svo stöddu.

II.

Ákærði greindi frá því við aðalmeðferð málsins að hann hefði kynnst brotaþola í gegnum sameiginlega vini og þeir hefðu hist í fyrsta skipti í partíi fyrir menntaskólaball. Spurður hvort hann hefði lofað brotaþola einhverju eða boðið honum eitthvað sagði ákærði að hann hefði boðið honum „hálfgerða vinnu bara“. Ákærði kvaðst hafa vitað að brotaþoli hefði starfað erlendis og ákærði hefði nefnt við brotaþola erlenda bankareikninga „og þess háttar“ og að hann gæti ávaxtað fé fyrir hann á kjörum sem þekktust ekki hér á landi. Þegar ákærði var inntur eftir því hvernig vinna þetta hafi átt að vera sem ákærði hafi boðið brotaþola sagði ákærði að í fyrstu hafi ákærði sagt við brotaþola, sem hafi verið við vinnu í [...], að ef ákærði fengi peninga frá honum gæti ákærði ávaxtað þá á kjörum sem þekktust ekki hérlendis. Sækjandi áréttaði þá spurninguna við ákærða, þ.e. hvaða vinnu brotaþoli hafi átt að inna af hendi, og sagði ákærði þá að þeir hefðu báðir haft áhuga á því að „prófa eitthvað með sama kyni“ og ákærði hefði ýjað að því við brotaþola að hann gæti greitt fyrir það, þ.e. kynferðislega hluti. Nánar tiltekið hefðu þeir stundað munnmök við hvorn annan og brotaþoli fróað ákærða. Þetta hefði gerst tvisvar til þrisvar sinnum, í kjallaranum þar sem ákærði býr. Spurður hvort brotaþoli hefði fengið eitthvert endurgjald fyrir þetta sagði ákærði að hann hefði fengið bíl lánaðan hjá sér. Ákærði var einnig spurður hvort þetta hefði verið vinnan sem ákærði talaði um og svaraði hann því játandi, að þetta hefði verið gegn því að veita honum kynferðislegan greiða. Þá sagði ákærði að hann hefði tekið við 150.000 krónum af brotaþola og að hann hefði sagt brotaþola að hann myndi ávaxta þetta á erlendum bankareikningi en ákærði hefði ekki gert það. Spurður hvort hann hafi ætlað að gera það sagði ákærði að það hefði ekki staðið til. Enn fremur var ákærði spurður hvort hann hefði vitað um aldur brotaþola og sagði ákærði að hann hefði ekki áttað sig á því fyrr en við yfirheyrslu hjá lögreglu að brotaþoli hefði verið undir aldri. Jafnframt sagði ákærði að á umræddum tíma hefðu þeir alltaf verið með fólki sem var á aldrinum 17-20 ára. Ákærði hefði því áttað sig fyrir alvöru á aldri brotaþola við yfirheyrslu hjá lögreglu. Ákærði bætti því síðar við að þegar brotaþoli hefði greint honum frá kæru föður síns hafi hann einnig áttað sig á því að brotaþoli hefði verið undir aldri. Inntur eftir því hvað brotaþoli hafi átt að fá fyrir „vinnuna“ og í hverju laun brotaþola hafi átt að felast sagði ákærði að það hafi átt að vera með greiðslum og láni á bílum. Ákærði neitaði því að hafa ýjað að því við brotaþola að hann myndi gefa honum bíl. Ákærði hefði bara sagt brotaþola að hann gæti gert hvað sem honum þóknaðist við peningana sem hann fengi. Spurður hvort hann hefði talað við brotaþola um að koma í veg fyrir að hann missti ökuréttindin sagði ákærði að þeir hefðu eitthvað talað um þetta og ákærði sagt að hann þekkti góðan lögfræðing sem gæti aðstoðað brotaþola við þetta. Það gæti verið að ákærði hefði einnig sagt eitthvað annað en það hafi þá verið orðin tóm. Hugmynd ákærða hafi verið sú að ráðfæra sig við lögfræðing sem hann þekki og sjá hvað hægt væri að gera í þessu. Þegar ákærði var spurður af hverju hann hafi gefið brotaþola loforð sem hann hafi ekki ætlað að standa við sagði ákærði að á þessum tíma hafi ákærði „ekki sjálfur vitað hver ég var“ og hann hefði farið út um allan bæ á lúxusbifreiðum og þóst vera einhver sem hann var ekki. Þetta hefði ekki verið í von um kynferðislega greiða og hann hefði sagt mörgum sögur af sjálfum sér sem hafi ekki verið sannar. Einnig sagði ákærði að það væru mál á hendur honum til rannsóknar hjá lögreglu fyrir fjársvik, m.a. fyrir að hafa keypt fyrirtæki sem hann greiddi ekki fyrir og fyrir að fá aðila til að greiða inn á lífvarðanámskeið sem hafi átt að halda en ekkert orðið úr. Ákærði sagði jafnframt að hann hefði oft nefnt við þessa aðila að hann gæti stofnað bankareikninga fyrir þá í útlöndum á kjörum sem þekktust ekki hérlendis. Ákærði kvaðst ekki hafa átt í neinum kynferðislegum samskiptum við þessa aðila og tilgangurinn með því að fá brotaþola til að leggja inn á sinn reikning hafi verið að afla sér fjár, en hann hafi verið í fjárþröng. Þá sagði ákærði að hann hefði litið svo á að lán brotaþola á bílnum og útilegubúnaði hefði verið greiðsla fyrir kynferðislegan greiða. Fram kom að ákærði hafi ekki verið með neitt fyrirtæki á þessum tíma.

Borinn var undir ákærða framburður hans hjá lögreglu 16. ágúst 2012, um aldur brotaþola, og sagði ákærði sem fyrr að hann hefði fyrst áttað sig á því í yfirheyrslunni að brotaþoli hefði verið barn að aldri. Þegar ákærða var bent á það að orð hans hjá lögreglu verði frekar skilin þannig að hann hafi sagt að hann hafi vitað um aldur brotaþola þegar kynmökin áttu sér stað sagði ákærði að hann hefði uppgötvað aldur brotaþola þegar brotaþoli hringdi og greindi honum frá kæru föður síns. Svo hefði það blasað við ákærða í yfirheyrslunni hjá lögreglu að brotaþoli hefði verið undir aldri.

Nánar spurður hvað brotaþoli hafi átt að fá fyrir „vinnuna“ sem ákærði lofaði brotaþola, þ.e. kynferðislegan greiða, sagði ákærði að hann hafi átt að fá lánaða bíla og peninga ef hann vantaði „og þess háttar“. Inntur eftir því hvernig hann hafi ætlað að láta brotaþola fá peninga ef hann var sjálfur í fjárþröng kvaðst ákærði ekkert hafa hugsað þá. Spurður hvort hann hafi ekki þá verið að beita blekkingum sagði ákærði að hann hefði efnt loforð um að lána honum bíl og hann hefði fengið hluti lánaða frá sér. Enn fremur var ákærði spurður nánar út í framburð sinn hjá lögreglu, um að hann hefði ætlað að redda ökuréttindum brotaþola, og kvaðst hann hafa ætlað að ráðfæra sig við lögfræðing sem hann þekki og fá hann til að fara yfir málið. Um ástæðu þess að ákærði greindi fyrst frá því fyrir dómi en ekki hjá lögreglu að hann hafi ætlað að ræða við lögfræðing sagði ákærði að það væri ýmislegt sem hefði ekki komið fram hjá honum við yfirheyrsluna. Ákærði neitaði því að hafa beitt brotaþola blekkingum hvað varðar kynferðismökin. Brotaþoli hefði fengið lánaðan bíl hjá ákærða og dót og hann fengi því ekki séð hvernig hann ætti að hafa blekkt brotaþola.  

Brotaþoli sagði fyrir dómi að hann hefði kynnst ákærða í partíi þegar hann var á 1. ári í [...] og þeir hefðu átt sameiginlega vini. Jafnframt sagði brotaþoli að það hafi verið talað um ákærða eins og hann gæti ýmislegt, s.s. að breyta einkunnum, og brotaþoli hefði ákveðið að spyrja ákærða hvort hann gæti gert eitthvað varðandi ökuréttindi sín, svo að hann myndi ekki missa þau vegna ölvunar­aksturs. Ákærði hafi sagt að hann vildi fá eitthvað í staðinn og brotaþoli spurt hvað hann vildi. Ákærði hefði þá beðið brotaþola um að finna stúlku fyrir sig og svo hefði ákærði beðið sig um að runka strák á svipuðum aldri og brotaþola. Brotaþoli hefði ekki tekið vel í það og ekki vitað hvort ákærða væri alvara. Þeir hefðu rætt meira saman og brotaþoli ákveðið að láta sig hafa það. Ákærði hefði boðið sér tvær milljónir króna að auki. Ákærði hefði sótt brotaþola og þeir farið heim til ákærða, í kjallarann. Brotaþoli kvaðst alls ekki hafa verið viss um þetta og hann hefði verið mjög stressaður, en látið sig hafa þetta, af því að ákærði hafi alltaf verið að segja að hann gæti gefið honum tvær milljónir og hann gæti valið sér bíl fyrir tvær til þrjár milljónir. Ákærði myndi redda því. Nánar um það hvað ákærði sagði varðandi ökuréttindi brotaþola skýrði brotaþoli frá því að ákærði hefði ekki sagt í fyrstu hvernig hann gæti komið í veg fyrir að hann missti þau, en síðar hefði hann sagt að hann gæti eytt þessu úr lögreglukerfinu og þetta yrði eins og það hefði aldrei gerst. Brotaþoli kvaðst hafa trúað þessu. Einnig sagði brotaþoli að þegar hann hefði fengið bréf frá lögreglu um missi ökuréttinda sinna hefði ákærði sagt að allt væri „under control“. Það hefði svo komið á daginn að þetta hafi allt verið lygi. Spurður hvað hann hefði átt að gera í staðinn fyrir það sem ákærði bað um sagði brotaþoli að ákærði hefði talað um þetta sem „vinnu“, sérstaklega í Facebook-samskiptum þeirra. Það sem ákærði hefði meint með „vinnu“ hafi verið kynferðislegir greiðar frá brotaþola. Brotaþoli kvaðst hafa farið að hugsa stærra, en hann hafi langað í íbúð og hann hefði trúað ákærða. Ákærði hefði talað um að eftir 10 skipti myndi brotaþoli fá íbúð. Einnig sagði brotaþoli að hann hefði haft áhyggjur af því að ef hann fengi bíl frá ákærða færi fólk að gruna eitthvað og því hafi hann viljað fá peninga í staðinn og ákærði sagt að það væri ekkert mál. Brotaþoli hefði svo aldrei fengið neina peninga. Ákærði hefði hins vegar haft peninga af honum, 150.000 krónur, með því að segja að hann gæti sett þá inn á erlendan reikning og ávaxtað þá með einhverjum fáránlegum vöxtum. Fjölskylda brotaþola hefði svo komist að þessu og ákærði hefði þá greitt til baka 100.000 krónur.

Nánar um samskipti ákærða og brotaþola í kjallaranum heima hjá ákærða sagði brotaþoli að ákærði hefði beðið brotaþola um að fróa ákærða og ákærði hefði alltaf beðið um meira og meira, eins og að „fá það í rassinn“, en brotaþoli hefði neitað því. Ákærði hefði svo boðið honum meiri greiðslu fyrir munnmök. Brotaþoli kvaðst hafa fróað ákærða í tvö skipti. Fyrra skiptið hefði gerst í byrjun maí 2012 og seinna skiptið í byrjun júlí sama ár. Í seinna skiptið hefðu þeir jafnframt haft munnmök hvor við annan. 

Spurður um ástæðu þess að brotaþoli trúði ákærða sagði hann að það hefði verið vegna þess að ákærði hefði unnið fyrir [...] og [...] og ákærði hefði spilað sig sem mjög ríkan mann. Ákærði hefði t.d. alltaf verið á nýjum flottum bílum og félagar hans hefðu trúað ákærða. Brotaþoli kvaðst hafa litið upp til ákærða og litið á hann sem vin sinn og hann hefði átt í kynferðislegum samskiptum við ákærða til að bjarga ökuréttindum sínum og brotaþola hefði langaði í bíl. Ákærði hefði platað brotaþola og hann hefði langað í allt sem ákærði hafi verið að bjóða honum. Ákærði kvaðst vera gagn­kynhneigður og honum hefði liðið mjög illa yfir þessu og hann væri að reyna að gleyma þessu og ýta því frá sér en honum takist það ekki. Inntur eftir því hvort ákærði hafi vitað um aldur brotaþola sagði brotaþoli að ákærði hljóti að hafa vitað það þar sem brotaþoli væri jafn gamall og sameiginlegur vinur þeirra og ákærði hafi vitað í hvaða bekk brotaþoli var.

Þá kom fram hjá brotaþola að hann hefði greint ákærða frá því á Facebook að faðir sinn hefði lagt fram kæru á hendur honum hjá lögreglu, en ákærði hefði spurt hvort hann kæmi með í bíó og brotaþoli hefði gert það. Þá hefðu þeir hist einu sinni aftur eftir það, en ákærði hafi viljað spyrja út í kæru föður brotaþola. Brotaþoli kvaðst hafa hitt ákærða vegna þess að hann hafi verið hræddur við hann og ekki þorað annað en að hitta hann. Brotaþoli neitaði því að hafa unnið fyrir ákærða heldur hafi þeir rætt um kynmökin undir rós á Facebook sem „vinnu“. Brotaþoli hefði ekki litið á kynmökin sem vinnu heldur hefðu þeir talað um þetta sem „vinnu“ þar sem þeir vildu ekki tala um þetta á Facebook eins og þetta raunverulega var, ef einhver skyldi komast í samskipti þeirra á Facebook. Spurður hvort hægt væri að líta á lán brotaþola á myndavél frá ákærða, bíl og tjaldi yfir helgi sem endurgjald fyrir „vinnuna“ sem hann innti af hendi sagði brotaþoli að það hafi aldrei verið talað um það. Brotaþoli hafi litið á þetta sem greiða en ekki gjald fyrir þessa „vinnu“. Endurgjaldið hefði þá heldur aldrei verið í samræmi við það sem ákærði hafi lofað, en hann hefði talað um milljónir. Þá neitaði brotaþoli því að um vændi hafi verið að ræða.

Vitnið C, móðir brotaþola, greindi frá því fyrir dómi að  brotaþoli hafi búið hjá foreldrum vitnisins og föður vitnisins hafi ekki litist á ákærða, en honum hafi fundist undarlegt að eldri strákur væri að koma á flottum bílum að sækja brotaþola. Brotaþoli hefði farið til föður síns í [...] að vinna og fengið 150.000 eða 200.000 krónur greiddar inn á bankabók sína. Brotaþoli hafi ávallt verið sparsamur á peninga og móðir vitnisins fylgst með fjármálum hans og passað upp á að hann eyddi þeim á skynsamlegan hátt. Móðir vitnisins hafi komist að því að brotaþoli hafi tekið út 150.000 krónur og brotaþoli sagt að hann hefði keypt myndavél af ákærða. Foreldrum vitnisins hafi fundist eitthvað grunsamlegt við þetta og brotaþoli vera öðruvísi en hann hafi átt að sér að vera. Brotaþoli hafi svo farið á [...] útihátíðina og skilið tölvuna sína eftir opna heima. Móðir vitnisins hafi farið í tölvuna til að reyna að finna upplýsingar um ákærða og fundið samskipti milli þeirra á Facebook. Hún hefði sýnt vitninu samskiptin og vitninu dottið í hug að hann væri viðriðinn klám. Vitnið kvaðst hafa haft samband við brotaþola og platað hann með því að segja að vinkona sín hefði lýst áhyggjum af því að brotaþoli væri í samskiptum við ákærða og það tengdist eitthvað klámi. Brotaþoli hefði þá sagt við vitnið að það hefði bara verið eitt skipti. Vitnið hefði spurt hvað hann meinti og brotaþoli þá sagt að ákærði hefði beðið sig um að runka einhverjum manni. Vitnið hefði haft samband við foreldra sína og beðið þau um að senda brotaþola til sín til [...], þar sem vitnið er búsett. Brotaþoli hefði svo skýrt vitninu frá því að hann hafi ætlað að bjarga öku­réttindum sínum, en hann hafi verið tekinn fyrir ölvunarakstur. Nánar tiltekið hafi brotaþoli átt að gera ákærða kynferðislegan greiða gegn því að ákærði myndi eiga við tölvukerfi lögreglunnar. Brotaþoli hefði farið í tvö skipti heim til ákærða og í geymslunni þar hafi munnmök átt sér stað. Einnig sagði vitnið að ákærði hefði lofað brotaþola að ávaxta fyrir hann peninga, áðurnefndar 150.000 krónur, og brotaþoli hafi einnig átt að fá peninga fyrir íbúð og bíl. Jafnframt sagði vitnið að brotaþoli hefði verið eins og heilaþveginn af ákærða og litið upp til hans. Ákærði hafi ekið um á flottum bílum og verið hetja í augum stráka í [...]. Vitnið kvaðst hafa þurft að vinna mikið í því að fá brotaþola til þess að átta sig á því að ákærði væri bara að plata brotaþola og hann hafi verið lengi að átta sig á því að hann hefði verið blekktur. Jafnframt sagði vitnið að brotaþoli og fjölskyldan hefðu verið hrædd við ákærða og hver viðbrögð hans yrðu eftir að upp komst um mál þetta og nefndi að ákærði hefði átt skotheld vesti í bíl sínum og stuðbyssu.

Einnig gáfu skýrslu fyrir dómi Kristján Ingi Kristjánsson lögreglumaður, sem tók skýrsluna af ákærða 16. ágúst 2012, og starfsfélagi hans, Eyrún Eyþórsdóttir, en hún var viðstödd skýrslutökuna. Ekki er ástæða til að rekja vitnisburð þeirra hér.

III.

Í máli þessu eru ákærða gefin að sök kynferðisbrot, með því að hafa með blekkingum tælt brotaþola til annarra kynferðismaka en samræðis. Nánar tiltekið með því að hafa í fyrsta lagi talið honum trú um að hann myndi greiða honum háar fjárhæðir, í öðru lagi að hann myndi opna bankareikninga í erlendum banka í nafni brotaþola og leggja fjármuni inn á þann reikning, í þriðja lagi með því að gefa honum bifreið og í fjórða lagi að sjá til þess að brotaþoli myndi ekki missa ökuréttindi sín þrátt fyrir ölvunarakstur. Ákærði játar að brotaþoli hafi fróað honum í tvígang og haft við hann munnmök í eitt skipti, auk þess sem ákærði hafi einu sinni haft munnmök við brotaþola. Þá er óumdeilt að þetta hafi átt sér stað í maí og byrjun júlí 2012. Ákærði neitar því hins vegar að hann hafi gerst sekur um kynferðisbrot, þ.e. að hann hafi blekkt brotaþola og tælt hann til að fá hann til þessara kynferðismaka, heldur hafi fremur verið um að ræða blekkingar sem hafi ekkert tengst kynferðislegum samskiptum þeirra eða vændiskaup.

Framburður brotaþola hefur verið einlægur og staðfastur, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, og gögn málsins styðja framburð hans, þ.e. Facebook-samskipti hans við ákærða. Þá fær framburður brotaþola einnig stoð í vitnisburði móður hans. Að mati dómsins er framburður brotaþola trúverðugur. Framburður ákærða er hins vegar ótrúverðugur, enda er misræmi í framburði hans og frásögn hans samrýmist ekki því sem fram kemur í gögnum málsins.  

Brotaþoli hefur greint frá því að ákærði hafi lofað honum m.a. háum fjárhæðum fyrir umrædd kynferðismök og kemur þetta t.d. fram í samskiptum þeirra á Facebook hinn 2. júlí 2012, en þá sagði ákærði að brotaþoli myndi fá „dágóða upphæð“ fyrir hvert skipti. Ákærði viðurkenndi með skýrum hætti hjá lögreglu að hann hefði lofað brotaþola háum fjárhæðum fyrir „kynferðislega hluti“. Fyrir dómi dró ákærði í fyrstu nokkuð úr framburði sínum hjá lögreglu. Hann viðurkenndi að hafa „ýjað að því“ við brotaþola að hann gæti greitt honum fyrir „kynferðislega hluti“. Ákærði sagði svo að brotaþoli hefði átt að fá greiðslur fyrir  þessa „vinnu“. Nánar inntur eftir því fyrir dómi hvað brotaþoli hafi átt að fá fyrir að gera ákærða kynferðislega greiða sagði ákærði að brotaþoli hafi m.a. átt að fá peninga ef hann vantaði. Fram hefur komið í málinu að ákærði öðlaðist traust brotaþola með því að aka um á flottum bílum og þykjast vera annar en hann var. Ákærði lét brotaþola hins vegar aldrei hafa peninga, en ákærði var í fjárþröng og er ljóst að hann hvorki ætlaði né gat  staðið við loforð sín. Með vísan til alls framangreinds er sannað að ákærði hafi blekkt brotaþola og tælt hann til kynferðis­maka með því að telja honum trú um að hann myndi greiða honum háar fjárhæðir.

Ákærði hefur viðurkennt að hafa lofað að hann myndi opna bankareikninga í erlendum banka í nafni brotaþola og að peningurinn yrði ávaxtaður á kjörum sem þekkist ekki hér á landi. Jafnframt hefur ákærði játað að hann hafi ekki ætlað að standa við þetta. Í samskiptum ákærða og brotaþola á Facebook segir ákærði að hann geti „látið minn pening inn á þetta bara til að byrja með svo þú fáir peninginn fyrr“ og að „því fyrr sem peningur kemur því fyrr geturu grætt enn meira“. Í þessu sambandi fékk ákærði brotaþola til að láta sig fá 150.000 krónur gegn loforði um ríka ávöxtun. Að mati dómsins hefur ekki verið nægilega sýnt fram á að þessi háttsemi ákærða tengist blekkingum og tælingu til kynferðismaka, heldur virðist ákærði frekar hafa gert þetta til að hafa af brotaþola fé, en hann er ekki ákærður í máli þessu fyrir fjársvik og verður því ekki sakfelldur fyrir slíkan verknað. Samkvæmt framansögðu er ákærði sýknaður af þeirri háttsemi að hafa blekkt og tælt brotaþola til kynferðismaka með því að lofa að hann myndi opna bankareikninga í erlendum banka í nafni brotaþola og leggja fjármuni inn á þann reikning, eins og honum er gefið að sök í ákæru.

Ákærði neitar því að hafa lofað að gefa brotaþola bifreið. Hann kveðst hins vegar hafa sagt brotaþola að hann gæti gert hvað sem er fyrir peningana sem hann fengi. Brotaþoli lýsti því fyrir dómi að komið hefði til tals að hann fengi bifreið fyrir að hafa kynferðismök við ákærða en hann hefði viljað fá peninga í staðinn. Að þessu virtu og með vísan til niðurstöðu dómsins um að ákærði hafi blekkt og tælt brotaþola til kynferðismaka með því að telja honum trú um að hann fengi peninga­greiðslur verður ákærði ekki jafnframt sakfelldur fyrir að hafa blekkt og tælt brotaþola með því að telja honum trú um að hann myndi gefa honum bifreið.

Þegar ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu kannaðist hann við að hafa sagt brotaþola að hann gæti séð til þess að brotaþoli missti ekki ökuréttindi sín vegna ölvunaraksturs. Jafnframt sagði ákærði að hann hefði ekki útskýrt fyrir brotaþola hvernig hann ætlaði að fara að þessu og að þetta hafi verið innantóm orð. Spurður um ástæðu þess að ákærði sagði þetta kvaðst ákærði hafa ætlað að „sannfæra hann um að gera eitthvað“ og sagði „kynferðismök“ en dró það svo til baka og sagði að það hefði ekki verið í þessu samhengi. Fyrir dómi breytti ákærði framburði sínum og kvaðst hafa sagt brotaþola að hann þekkti lögfræðing sem gæti aðstoðað brotaþola og hefur ákærði ekki gefið trúverðugar skýringar á misræmi í framburði sínum hjá lögreglu og fyrir dómi. Frásögn brotaþola um þetta hefur hins vegar verið á einn veg og fær framburður hans stuðning í gögnum málsins, Facebook-samskiptum við ákærða 12. júní 2012, en þá sagði ákærði við brotaþola vegna sviptingar ökuréttar hans að „svo lengi sem þú gerir everything i ask for then everything is kei J“. Er að mati dómsins vafalaust að ákærði hafi blekkt brotaþola og tælt hann til kynferðismaka með því að láta hann halda að ákærði gæti séð til þess að brotaþoli myndi ekki missa ökuréttindi sín þrátt fyrir ölvunarakstur.

Samkvæmt framansögðu er sannað að ákærði hafi blekkt brotaþola og tælt hann til kynferðis­maka með því að telja honum trú um að hann myndi greiða honum háar fjárhæðir. Jafnframt er sannað að ákærði hafi með blekkingum tælt brotaþola til  kynferðismaka með því að telja honum trú um að hann gæti séð til þess að brotaþoli myndi ekki missa ökuréttindi sín. Fram kom hjá ákærða fyrir dómi að á umræddum tíma hafi hann og brotaþoli umgengist fólk á aldrinum 17-20 ára og viðurkenndi ákærði við yfirheyrslu hjá lögreglu að hann hafi vitað að ákærði var barn að aldri þegar hann átti við hann kynferðismök. Í öllu falli lét hann sér það í léttu rúmi liggja hvort brotaþoli var orðinn fullra 18 ára. Háttsemi ákærða varðar við 3. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, með áorðnum breytingum.

Að mati dómsins er langsótt af hálfu ákærða að halda því fram að um hafi verið að ræða vændiskaup samkvæmt 206. gr. almennra hegningarlaga og að lán brotaþola á tjaldi og bifreið yfir eina helgi hafi átt að vera endurgjald fyrir umrædd kynferðismök. Það endurgjald er ekki í samræmi við það sem fram kemur í Facebook-samskiptum ákærða og brotaþola og þetta samrýmist ekki framburði ákærða sjálfs, um að brotaþoli hafi átt að fá háar peningafjárhæðir. Þá standa að mati dómsins engin rök til þess að vísa máli þessu frá dómi.

IV.

Ákærði er fæddur í [...] 1992. Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Við ákvörðun refsingar ber að líta til þess að ásetningur ákærða til að blekkja og tæla brotaþola til kynferðismaka var styrkur og einbeittur og er það virt honum til refsiþyngingar. Fram kemur í vottorði geðlæknis, sem lagt hefur verið fram í málinu, að það sem hrjái ákærða virðist vera andfélagsleg persónuleikaröskun sem jaðri við siðblindu. Ákærði á sér engar máls­bætur fyrir utan að hann var sjálfur fremur ungur að aldri, en hann var 19 ára þegar brotin voru framin. Er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í átta mánuði og kemur að mati dómsins ekki til álita að skilorðsbinda refsingu hans í ljósi alvarleika brota hans. 

V.

Í málinu liggur fyrir miskabótakrafa brotaþola, að fjárhæð 1.500.000 krónur, auk vaxta. Ákærði hefur verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot og eru brot hans til þess fallin að valda brotaþola miska. Á brotaþoli rétt til miskabóta á grundvelli b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. lög nr. 37/1999, og þykja þær hæfilega ákveðnar 800.000 krónur.

Af hálfu ákærða er vaxtakröfu mótmælt þar sem hún sé ekki nægilega skýr. Nánar tiltekið sé ekki vísað til ákveðins tímabils hvað varðar vaxta­kröfu á grundvelli 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, og ekki sé vísað til vaxtafótar eða 1. mgr. 6. gr. sömu laga hvað varðar kröfu um dráttarvexti. Í ákæru er upphafstími vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 tilgreindur 1. maí 2012 en ekki er tekið fram nákvæmlega til hvaða dags vaxtanna er krafist. Upphafstími dráttarvaxta er hins vegar tilgreindur 30. nóvember 2012, þegar liðinn var mánuður frá birtingu kröfunnar fyrir ákærða hjá lögreglu. Af þessu er augljóst að krafist er vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 til 30. nóvember 2012 og kemur þessi annmarki á vaxtakröfunni ekki að sök. Hvað varðar athugasemdir ákærða við dráttarvaxtakröfu í ákæru er til þess að líta að í bótakröfunni sjálfri, sem var kynnt ákærða hjá lögreglu 30. október 2012, og með fyrirkalli sem var birt 18. apríl 2013, er vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Eins og hér á stendur þykir þessi annmarki á dráttarvaxtakröfu í ákæru ekki valda því að brotaþola verði ekki dæmdir dráttarvextir og skulu þeir reiknast frá 30. nóvember 2012.

VI.

Samkvæmt 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, ber að dæma ákærða til að greiða sakarkostnað, alls 815.750 krónur. Um er að ræða þóknun verjanda, sem þykir hæfilega ákveðin 439.250 krónur, og þóknun réttargæslumanns, sem er ákveðin, með hliðsjón af tímaskýrslu, 376.500 krónur. Í báðum tilvikum hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Dóm þennan dæma héraðsdómararnir Sandra Baldvinsdóttir, Ástríður Grímsdóttir og Kristinn Halldórsson.

D ó m s o r ð:

Ákærði, Sigurður Ingi Þórðarson, sæti fangelsi í átta mánuði.

Ákærði greiði A 800.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2012 til 30. nóvember sama ár, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr., sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði 815.750 krónur í sakarkostnað, en um er að ræða 439.250 króna þóknun skipaðs verjanda hans, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, og 376.500 króna þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóhönnu Sigurjónsdóttur héraðsdómslögmanns.