Hæstiréttur íslands
Mál nr. 467/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Óvígð sambúð
- Fjárslit
- Eignarréttur
- Þinglýsing
- Kröfugerð
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
|
|
Mánudaginn 25. ágúst 2014. |
|
Nr. 467/2014.
|
M (Guðbjarni Eggertsson hrl.) gegn K (Halldór Þ. Birgisson hrl.) |
Kærumál. Óvígð sambúð. Fjárslit. Eignarréttur. Þinglýsing. Kröfugerð. Frávísun frá héraðsdómi að hluta.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem leyst var úr ágreiningi M og K er risið hafði við opinber skipti til fjárslita milli þeirra vegna loka óvígðrar sambúðar. Deildu aðilar annars vegar um eignarhald að tiltekinni bifreið og hins vegar eignarhald að jörð sem þau höfðu búið á, en samkvæmt þinglýsingarvottorði var jörðin eign M og K að jöfnu. Í dómi Hæstaréttar sagði að við fjárslit við lok óvígðrar sambúðar bæri að líta svo á að hvorum aðila tilheyrðu sínar eignir og gilti þá sú meginregla að hvort þeirra tæki þær eignir sem tilheyrðu því við upphaf sambúðar eða það eignaðist meðan á henni stóð. Eftir almennum reglum fjármunaréttar gilti sú meginregla við fjárslit að þinglýst eignarheimild að fasteign veitti líkindi fyrir eignarrétti og yrði sá sem héldi öðru fram að bera sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu. Þótti K ekki hafa fært fyrir því viðhlítandi rök að efni væru til að víkja frá þinglýstum heimildum um eignarrétt að jörðinni og var því lagt til grundvallar við fjárslitin að jörðin tilheyrði hvoru þeirra að helmingi. Þá vísaði Hæstiréttur kröfu K um að M yrði gert að greiða leigu fyrir íbúðarhús á jörðinni frá héraðsdómi af sjálfsdáðum. Loks var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að bifreiðin skyldi koma til skipta við fjárslitin.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. júní 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. júní 2014, sem sóknaraðili kveðst ekki hafa fengið vitneskju um fyrr en 13. sama mánaðar, en með honum var leyst var úr ágreiningi aðilanna í tengslum við opinber skipti til fjárslita vegna loka óvígðrar sambúðar þeirra. Kæruheimild er í 1. mgr. 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að „kröfum varnaraðila ... verði hafnað og að staðfest verði eignarhald aðila í samræmi við þinglýstar eignarheimildir um jörðina A í [...]. Jafnframt að staðfest verði niðurstaða héraðsdóms um bifreiðina [...] en til vara andvirði hennar.“ Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Samkvæmt gögnum málsins voru aðilarnir í óvígðri sambúð um nokkurra ára skeið fram til 2008. Varnaraðili mun áður hafa verið í sambúð með öðrum manni, sem virðist hafa lokið á árinu 1996. Í tengslum við þessi fyrri sambúðarslit gerði varnaraðili samning við þann mann 17. desember 1996, þar sem kveðið var á um að hún tæki við öllum eignum þeirra og skuldum, meðal annars réttindum samkvæmt kaupsamningi um jörðina A í [...] frá 15. september 1991, en afsal fékk hún síðan fyrir jörðinni úr hendi seljenda 29. desember 1996, sem var þinglýst 31. sama mánaðar. Gegn þessu skyldi varnaraðili greiða fyrrum sambúðarmanni sínum 10.000.000 krónur, en sú fjárhæð átti að vera bundin við vísitölu neysluverðs og greidd á sjö árum með jöfnum mánaðarlegum afborgunum. Til efnda á þessu gaf varnaraðili út tvö skuldabréf 8. júlí 1997 að fjárhæð samtals 9.285.269 krónur og voru þau tryggð með veðrétti í jörðinni.
Málsaðilarnir gerðu kaupsamning, sem dagsettur var 1. janúar 1998, en með honum seldi varnaraðili sóknaraðila helming jarðarinnar A með mannvirkjum, bústofni, vélum og tækjum. Kaupverð skyldi vera 10.000.000 krónur, sem sóknaraðili átti að greiða „með því að taka að sér að greiða tvö veðskuldabréf áhvílandi á hinu selda með 5. og 6. veðr. útgefnum 2.6.1997 upphafl. kr. 5.714.280 og kr. 4.285.710 með áföllnum verðbótum.“ Ætla verður af málatilbúnaði aðilanna að óumdeilt sé að hér hafi verið átt við skuldabréfin, sem varnaraðili gaf samkvæmt áðursögðu út 8. júlí 1997. Afsal fyrir þessum eignarhluta í jörðinni var síðan gert 17. desember 1998 og því þinglýst 29. sama mánaðar. Eins og greinir í hinum kærða úrskurði deila aðilarnir meðal annars um hvort sóknaraðili hafi í reynd staðið straum af greiðslu skuldabréfanna, en fyrir liggur að þau voru greidd upp 2. maí 2000.
Með dómi Hæstaréttar 18. maí 2012 í máli nr. 306/2012 var tekin til greina krafa varnaraðila um opinber skipti til fjárslita milli sín og sóknaraðila vegna loka óvígðrar sambúðar þeirra. Við skiptin reis ágreiningur með aðilunum, sem skiptastjóri beindi til héraðsdóms 17. desember 2012, en mál þetta var þingfest af því tilefni 12. febrúar 2013. Snerist ágreiningurinn um kröfur varnaraðila, sem lutu að því í fyrsta lagi að jörðin A yrði að öllu leyti talin tilheyra henni, í öðru lagi að sóknaraðila bæri að greiða henni bætur vegna afnotamissis af íbúðarhúsi á jörðinni, sem skyldu nema 150.000 krónum á mánuði frá 1. desember 2011 að telja, og í þriðja lagi að bifreiðin [...] teldist í eigu hennar. Með hinum kærða úrskurði var tekin til greina krafa varnaraðila um eignarrétt hennar að jörðinni og var sóknaraðila jafnframt gert að greiða henni 70.000 krónur á mánuði í leigu „frá 1. desember 2011 til greiðsludags“, en kveðið var á um að bifreiðin kæmi „til skipta við búskipti aðila“ og virðist með því hafa verið hafnað kröfu varnaraðila, sem varðaði þá eign.
II
Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið byggt á því að við fjárslit við lok óvígðrar sambúðar beri að líta svo á að hvorum aðila tilheyri sínar eignir og komi þær ekki til skipta, sbr. meðal annars dóm réttarins 17. mars 2014 í máli nr. 163/2014. Taki þannig hvort þeirra þær eignir, sem tilheyrðu því við upphaf sambúðar eða það eignaðist meðan á sambúðinni stóð. Eftir almennum reglum fjármunaréttar gildir sú meginregla við fjárslit að þinglýst eignarheimild að fasteign veitir líkindi fyrir eignarrétti. Verður því sá, sem heldur fram að í slíkri heimild felist ekki réttar upplýsingar um eignarrétt, að bera sönnunarbyrði fyrir þeirri staðhæfingu.
Samkvæmt áðursögðu varð varnaraðili þinglýstur eigandi jarðarinnar A 31. desember 1996. Leggja verður til grundvallar að óvígð sambúð aðilanna hafi verið hafin þegar fyrrgreindu afsali varnaraðila til sóknaraðila fyrir helmingi jarðarinnar var þinglýst 29. desember 1998. Varnaraðili hefur ekki sannað að sóknaraðili hafi í raun ekki greitt umsamið kaupverð eignarhlutans, en fyrir því verður hún að bera sönnunarbyrði í ljósi þess að eignarheimild hans hefur staðið óslitið frá þeim tíma án þess að séð verði að hún hafi hreyft athugasemdum af þessu tilefni fyrr en við fjárslitin milli þeirra. Af sömu ástæðu stoðar varnaraðila ekki að bera því nú við að kaupverðið, sem samið var um, hafi ekki svarað til raunvirðis eignarhlutans að teknu tilliti til áhvílandi veðskulda á jörðinni eða að skilyrði séu til að ógilda kaupin eða víkja þeim til hliðar á grundvelli 31., 33. eða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með síðari breytingum, en til þess verður og að líta að eftir gögnum málsins stóðu aðilarnir saman að búrekstri á jörðinni á sambúðartímanum, að hluta í nafni einkahlutafélags í eigu þeirra. Samkvæmt þessu hefur varnaraðili ekki fært fyrir því viðhlítandi rök að efni séu til að víkja frá þinglýstum heimildum um eignarrétt að jörðinni og verður því að leggja til grundvallar við fjárslit milli aðilanna að jörðin tilheyri hvoru þeirra að helmingi.
Með hinum kærða úrskurði var sem áður segir mælt fyrir um skyldu sóknaraðila til að greiða varnaraðila tiltekna fjárhæð í leigu fyrir íbúðarhús að A frá 1. desember 2011 til ótilgreinds „greiðsludags“. Felst í kröfugerð varnaraðila fyrir Hæstarétti krafa um að þetta ákvæði úrskurðarins verði látið standa óraskað. Við opinber skipti, sem fara eftir ákvæðum XIV. kafla laga nr. 20/1991, verður ekki höfð uppi krafa um skyldu annars aðilans til að inna af hendi greiðslu til hins nema þannig standi á, sem um ræðir í 2. mgr. 124. gr. sömu laga. Svo er ekki hér og verður því að vísa þessari kröfu varnaraðila af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Varnaraðili hefur ekki krafist endurskoðunar á niðurstöðu hins kærða úrskurðar varðandi bifreiðina [...], sem verður því látin standa óröskuð.
Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Dómsorð:
Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, M, og varnaraðila, K, skal jörðin A í [...] teljast tilheyra hvoru þeirra að helmingi.
Kröfu varnaraðila um greiðslu leigu úr hendi sóknaraðila fyrir íbúðarhús á jörðinni er vísað frá héraðsdómi.
Ákvæði hins kærða úrskurðar varðandi bifreiðina [...] skal vera óraskað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Vesturlands 4. júní 2014.
Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands uppkveðnum 4. apríl 2012 var fallist á kröfu sóknaraðila um að fram færu opinber skipti á búi hennar og varnaraðila en málsaðilar voru þá í óvígri sambúð. Skiptastjóri hélt fyrsta skiptafund 29. maí 2012. með lögmönnum málsaðila en tilraunir til þess að jafna ágreining aðila málsaðila báru ekki árangur.
Með bréfi dagsettu 17. desember 2012 og á grundvelli 122. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o. fl. og í samræmi við bókun í skiptabók 18. október og 13. desember sl. vísaði skiptastjóri ágreiningsatriðum aðila til úrlausnar héraðsdómara.
Ágreiningsmál þetta var þingfest 12. febrúar 2013 og í þinghaldi 23. maí 2013 lagði lögmaður sóknaraðila fram greinargerð ásamt tveimur dómsskjölum. Í þinghaldi 3. október 2013 lagði lögmaður varnaraðila fram greinargerð ásamt tveimur fylgiskjölum. Málið var næst tekið fyrir 10. apríl sl. og komu aðilar þá fyrir dóm og var ágreiningur þeirra tekinn til úrskurðar að svo búnu.
Málið hefur dregist mjög vegna tilrauna lögmanna aðila til þess að jafna ágreining aðila en það hefur ekki tekist.
Kröfur sóknaraðila í málinu eru í fyrsta lagi aðallega að viðurkennt verði að sóknaraðili sé ein eigandi jarðarinnar A í [...] en til vara að sóknaraðila verði ákvarðaður aukinn eignarhluti í jörðinni að A og að hluti varnaraðila verði þá ekki ákvarðaður hærri en 13,16%.
Í öðru lagi að viðurkennt verði að varnaraðili skuli greiða sóknaraðila kr. 150.000 á mánuði vegna afnota varnaraðila af íbúðarhúsinu að A frá 1. desember 2011 þar til það verður afhent sóknaraðila til afnota.
Í þriðja lagi að viðurkennt verði að sóknaraðili sé eigandi bifreiðarinnar [...].
Þá er krafist málskostnaðar.
Kröfur varnaraðila eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að viðurkennt verði að bifreiðin [...] hafi verið eign varnaraðila en til vara eign A ehf. Til vara að viðurkennt verði að hafi bifreiðin [...] verið seld sé söluandvirði eign varnaraðila en til þrautavara eign A ehf.
Þá er krafist málskostnaðar.
Sóknaraðili kveður kröfur sínar vera hluta ágreinings aðila málsins vegna opinberrar skiptameðferðar til slita á búi þeirra K og M sem sambýlisfólks. Með úrskurði Héraðsdóms Vesturlands frá 4. apríl 2012 sem staðfestur var af Hæstarétti Íslands hinn 18. maí sama ár var búið tekið til opinberra skipta. Sóknaraðili hafi með greinargerð sinni til skiptastjóra 20. júlí 2012 gert tilteknar kröfur í 12 liðum. Ekki hafi tekist að jafna þær kröfur sem hér um ræði við slitameðferð á búinu. Um meðferð málsins og krafnanna fari eftir ákvæðum XIV. kafla laga nr. 20/1991 og málsmeðferðarreglum laga um meðferð einkamála nr. 20/1991. Þá liggi einnig fyrir að á fyrsta skiptafundi hjá skiptastjóra hafi verið ákvarðað að viðmiðunardagur um eignir og skuldir búsins yrði sá dagur sem Héraðsdómi Vesturlands hafi borist beiðni um opinber skipti eða 29. nóvember 2011. Fyrir liggi að sóknaraðili telji að sambúð aðila hafi lokið fyrr og eðlilegt hefði verið að miða lok sambúðar í síðasta lagi við 1. janúar 2009. Með vísan til ákvæðis 104. gr. I 20/1991 verði að miða kröfur í 2. tl. við það tímamark sem að ofan greini eða mánaðarmótin nóvember / desember 2011.
Ágreiningur aðila taki til þriggja þátta.
Þess sé aðallega krafist að viðurkennt verði að sóknaraðili sé ein eigandi jarðarinnar A í [...] en til vara að sóknaraðila verði ákvarðaður aukinn eignarhluti í jörðinni. Fyrir liggi að aðilar hafi við upphaf skiptameðferðar verið skráð eigendur jarðarinnar að jöfnu. Í gögnum sem send hafi verið skiptastjóra og liggi fyrir í málinu komi fram að sóknaraðili hafi eignast jörðina A með kaupsamningi við fyrrverandi maka sinn samfara hjónaskilnaði á árinu 1996. Í tilefni kaupanna hafi sóknaraðili gefið út skuldabréf til fyrrverandi maka síns sem jafnframt liggi frammi. Ekki hafi farið fram mat á jörðinni enda aðilar í þeim skilnaði sammála um að eðlilegt væri að sóknaraðili eignaðist jörðina sem hún hafði alist upp á og fengið frá foreldrum sínum. Við upphaf kunningsskapar aðila þessa máls eða skömmu eftir þau hafi varnaraðili boðist til að aðstoða sóknaraðila við kaup sóknaraðila á jörðinni með því að varnaraðili létti sóknaraðila kaupin en eignaðist sjálfur helming jarðarinnar á móti sóknaraðila. Hafi verið gerður samningur og afsal milli sóknaraðila og varnaraðila á árinu 1998 þar sem varnaraðili sé skráður eigandi helmings jarðarinnar og hafi átt á móti að greiða tvö skuldabréf í eigu fyrrverandi maka sóknaraðila, B. Ekki sé sýnilegt að varnaraðili hafi nokkurn tímann óskað eftir að yfirtaka lán þau sem hér um ræði eða að hann hafi verið samþykktur skuldari þeirra. Þá liggi og fyrir að lánin hafi verið greidd upp 2. maí 2000 og sóknaraðili samkvæmt kvittunum greiðandi lánanna. Fylgi þau gögn greinargerðinni ásamt frumriti skuldabréfa en eins og fram komi sé sóknaraðili málsins greiðandi bréfanna og engin áritun sé um skuldaraskipti á bréfunum. Fyrir liggi að sóknaraðili telji sig hafa greitt upp skuldabréfin enda hafi þau verið greidd með hennar fjármunum en ekki með fjármunum varnaraðila. Sé það í samræmi við gögn málsins og byggi hún á því að eðlilegt sé að það verði viðurkennt að hún sé ein eigandi jarðarinnar þar sem ætlað kaupverð hennar hafi ekki verið greitt. Fyrir liggi að skráning eigna sambúðarfólks kunni að vera með ýmsum hætti og í þessu tilviki sé skráningin ekki í samræmi við raunveruleg réttindi aðila málsins og dómstóll geti ákveðið önnur eignahlutföll en skráningu. Fyrir liggi að hún hafi fært jörðina til varnaraðila að hálfu vegna forsenda sinna um sambúð og framlög sem hvorugt hafi gengið eftir og því sé eðlilegt að fallist verði á kröfu hennar og viðurkennt að hún sé ein eigandi jarðarinnar og fái hana afhenta sem sína eign við skiptin og skráningu verði breytt í samræmi við það. Rétt sé að benda á að samningur um jörðina A sem fært hafi jörðina að hálfu á nafn varnaraðila hafi verið gerður með aðstoð dóttur og tengdasonar varnaraðila sem bæði séu löglærð. Ekki hafi á þessum tíma verið aflað mats á jörðinni eða kallaður til utanaðkomandi aðili til að meta jörðina eða hver væri sanngjarn hluti varnaraðila jörðinni á móti því að varnaraðili greiddi þau lán sem hér um ræði. Bæði skjölin séu gerð í einu og undirrituð sama dag þótt kaupsamningur sé dagsettur á nýársdag 2008 og afsalið 17. desember 2008 skömmu eftir afsal Jarðanefndar á forkaupsrétti. Fyrir liggi að forsenda sóknaraðila fyrir samningsgerð hafi verið sú að þau yrðu í sambúð og deildu kjörum sínum um ókomna framtíð auk þess sem varnaraðili hafi ætlað að leggja verulega fjármuni til búrekstrar aðila og uppbyggingar hans. Ljóst sé nú að það hafi ekki verið forsenda varnaraðila miðað við að hann hafni því að sóknaraðili og varnaraðili hafi verið í sambúð og telji að viðskiptasamband hafi stofnast með aðilum málsins. Ekki liggi neitt fyrir í málinu um að varnaraðili hafi greitt umrædd skuldabréf enda hafi skuldabréfin sem um ræðir verið greidd af tekjum og eignum búsins eins og þær hafi verið við gerð samningsins. Fyrir liggi að bréfin hafi endanlega verið greidd rúmu ári eftir afsal jarðarinnar eða 2. og 3. maí 2000 en á þeim tíma hafi verið seldur mjólkurkvóti tilheyrandi jörðinni og hafi uppgreiðsluverð verið 2.458.599 krónur annars vegar og 3.278.133 krónur hins vegar eða alls 5.736.732 krónur. Með vísan til þessa telji hún sig eina eiganda jarðarinnar að A og krefst þess að það verði staðfest við skiptin.
Til vara, verði því hafnað að hún sé ein eigandi jarðarinnar, krefst hún þess að staðfest verði að hún eigi aukinn hluta i jörðinni að A þar sem hluti gagnaðila byggist þá á sannanlegum greiðslum gagnaðila vegna ætlaðra kaupa á jörðinni sem ljóst sé að hafi verið óverulegar enda megi telja að rétt verð jarðarinnar allrar hafi verið a.m.k. kr. 38.000.000 á árinu 1998 miðað við mat fasteignasala sem sóknaraðili hefur lagt fram í málinu. Telur sóknaraðili ljóst að eignarhluti varnaraðila geti ekki verið hærri en sem nemi sannanlegum greiðslum ef um þær sé að ræða og skorað hafi verið á varnaraðila að leggja fram gögn um slíkar greiðslur sem hann hafi ekki gert. Sóknaraðili telur ljóst, verði aðalkröfu hennar hafnað, að eignarhluti varnaraðila eigi ekki að ákvarðast hærri en hlutfall lánanna af virði jarðarinnar eða 5.000.000/8.000.000 að hámarki 13,16 % af jörðinni allri að hámarki enda liggi þá fyrir gögn gegn andmælum sóknaraðila um að varnaraðili hafi greitt kaupverðið eins og hann haldi fram. Sóknaraðili telur eðlilegt að gögn verið lögð fram frá gagnaðila sjálfum um mögulegar greiðslur gagnaðila til sín eða þriðja aðila á kaupverði jarðarinnar og hlutur hans í jörðinni verði ákvarðaður til samræmis við það hafi sannanlega verið um greiðslur að ræða. Verði talið að greiðsla rekstrarins á lánum þeim sem um ræðir hafi myndað eignarétt ætti sá réttur að skiptast milli aðila en ekki koma öðrum skráðum eigenda jarðarinnar til góða og í því samhengi gæti hlutur varnaraðila ekki orði hærri en 25% af jörðinni sjálfri á móti 75% hlut sóknaraðila. Fyrir liggi að ágreiningurinn taki aðeins til jarðarinnar sjálfrar, ekki rekstursins á jörðinni. Rekstur jarðarinnar auk áhafnar, þar með talið allra gripa, tækja og framleiðsluheimilda séu hins vegar í eigu einkahlutafélags aðila og ekki hafi verið gerður ágreiningur um eignarrétt hvað félagið varði. Greiðslur sem varnaraðili kunni að hafa innt af hendi vegna rekstrar félagsins hafi því ekki neitt með eignarhaldið á jörðinni að gera. Um frekari rökstuðning vegna þessa liðs vísar sóknaraðili jafnframt til þess og byggir á að forsendur fyrir afsali hálfrar eignarinnar séu brostnar sem og að það hafi verið ógilt eða ógildanlegt með vísan til ákvæða 31. gr. og 33. gr. laga nr. 7/1936 og einnig, að hafi verið um gildan samning að ræða þá eigi að víkja afsalinu til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 og ákveða að sóknaraðili sé ein eigandi jarðarinnar að öllu eða mestu leyti í samræmi við það sem að ofan greinir. Fyrir liggur að sóknaraðili telji að brostnar séu forsendur fyrir kaupsamningi og afsali fyrir jörðinni. Ljóst sé að atvik við afsal jarðarinnar hafi verið óvenjuleg eins og fram komi í málatilbúnaði sóknaraðila. Ljóst sé að varnaraðili hafi komið fram við kaupin sem sambýlismaður en ekki hafi staðið til að rekstri á jörðinni hafi verið ætlað að standa undir kostnaði við kaup hennar. Fyrir liggi að aðilar hafi á þessum tíma verið í tilhugalífi og sóknaraðili verið reiðubúinn til að ráðstafa jörðinni að nokkru til varnaraðila vegna sambúðaráforma aðila og fjármögnunar sem hvorugt hafi gengið eftir. Ljóst sé að sóknaraðili sé tengd jörð sinni miklum böndum enda uppalin á jörðinni. Telji sóknaraðili að forsendusjónarmið verði að metast í máli þessu og það verði að líta til þess að um óvenjulegan samning hafi verið að ræða þar sem sóknaraðili hafi vegna trausts verið að ráðstafa hagsmunum til „sambúðarmaka“ sem honum hafi þótt vænt um og því ekki átt von á öðru hann stæði við greiðslur með sínu fé og framhald yrði á sambúðinni. Annað hafi komið í ljós. Eðlilegt sé að sjónarmið um brostnar forsendur verði metin að teknu tilliti til þessa og að niðurstaða um að varnaraðili sé eigandi helmings eignarinnar leiði til verulegs ávinnings án endurgjalds. Fyrir liggi að þegar mál séu metin sé úrlausnaraðili ekki bundinn af opinberri skráningu sem hann geti breytt hverju sinni í samræmi við framlög og atvik máls. Sóknaraðili byggir jafnframt á að samþykki hennar sé ógilt á grundvelli 31.gr. og 33. gr. laga nr. 7/1936. Sóknaraðili hafi treyst varnaraðila vegna vinskapar við hann og væntinga um sameiginlega framtíð með meiru. Ljóst sé að samningur sé allur annar en sóknaraðili hafi talið, og kveði í raun á um afsal helmings jarðarinnar A án endurgjalds, Ljóst sé að varnaraðili sé að nýta sér sérstakar aðstæður sóknaraðila á þessum tíma og vinskap aðila til að koma fram mögulegum samningi þar sem verulegur munur sé á því sem falli varnaraðila í hlut og þess endurgjalds sem staðið sé skil á. Þá verði einnig að líta til þess að samningar séu samdir af aðilum sem séu varnaraðila nákomnir og varnaraðili látið semja fyrir sig. Samningurinn og afsalið séu því ógild. Þá telur sóknaraðili að verði litið svo á þátt fyrir framasagt hafi stofnast með aðilum gildur samningur á árinu 1998 um kaup og sölu A þá skuli víkja honum til hliðar í heild sinni með vísan til ákvæðis 36. gr. laga nr. 7/1936 þar sem hann sé ósanngjarn og það sé andstætt góðri venju að bera samninginn fyrir sig. Vísað sé til alls ofanritaðs vegna þessa en jafnframt áréttað að samningur kveði á um ráðstöfun fyrir lítinn hluta af verðmæti jarðarinnar. Lagt er fram mat fasteignasala á jörðinni árið 1998 og áskilinn er réttur til að leggja fram mat dómkvadds manns um verðmæti jarðarinnar undir rekstri málsins. Þá er sérstaklega á það bent að varnaraðili hafi ekki fallist á það að hann hafi nokkurn tíman verið í sambúð með sóknaraðila og því ljóst að því verði ekki haldið fram að hann hafi eignast hlut í jörðinni vegna framlaga sinna í sambúð.
Sóknaraðili gerir enn fremur þá kröfu að henni verði bættur afnotamissir sinn af íbúðarhúsinu. Fyrir liggi að gagnaðili hafi neitað að flytja úr fasteigninni þrátt fyrir loforð þess efnis og hann hafi tekið yfir heimilið og löngu fyrir samvistarslitin. Eðlilegt sé að henni verði greiddar bætur vegna afnotamissis af eign sinni og miðað sé við 150.000 krónur fyrir eignina alla frá 1. desember 2011 enda verði ekki samkomulag um fyrra tímamark. Um kröfuna er vísað til 104 gr., 107 gr. og 109. gr. laga 20/1991 og sanngirnis og réttlætissjónarmiða og þess að sóknaraðili telji sig eiganda jarðarinnar og íbúðarhúsa að mestu eða öllu leyti. Jafnvel þó krafan nái ekki fram að ganga að öllu leyti telur sóknaraðili rétt að henni verði ákveðin einhver leiga fyrir afnotamissi sinn af eigninni og þá að hluta. Ljóst sé að aðilar búi ekki í eigninni saman eftir samvistarslit og því rétt að sá sem ekki nýtur eignarinnar fái það bætt með greiðslu fyrir afnotin.
Sóknaraðili telur sig hafa verið eiganda bifreiðarinnar [...] og krefst þess að andvirði hennar renni til hennar við skiptin en bifreiðin hafi verið seld 18. september 2013.
Varðandi málskostnað í málinu telur sóknaraðili að nái kröfur sóknaraðila fram að ganga að einhverju leyti eigi að dæma sóknaraðila málskostnað í málinu.
Lagarök. Stefndi styður kröfur sínar eftirtöldum lagarökum.
Vísað er til ákvæða XIV. kafla laga nr. 21/1991 um skipti á dánarbúum og fl., aðallega 109, 112, 113 gr.
Vísað er til ákvæða laga nr. 7/1936 aðallega III. kafla laganna
Varðandi kröfugerð, málskostnað og sönnun er vísað til ákvæða laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Varnaraðili hafnar með öllu kröfum sóknaraðila um aukið eignarhald á jörðinni A. Við kynni aðila hafi verið ljóst að rekstur A hafi verið í járnum svo ekki sé meira sagt og staða jarðarinnar og búrekstrar afar slæm. Úr hafi orðið að varnaraðili hafi komið með fjármagn inn reksturinn og keypt samhliða helmingshlut í jörðinni, bústofni og öllum tækjum og tólum sem tilheyrði sbr. kaupsamning þar að lútandi. Öllu tali um að varnaraðili hafi ekki greitt fyrir jörðina né efnt þann samning sem var grundvöllur þess að hann var skráður helmingseigandi jarðarinnar sé hafnað. Varnaraðili hafi allt frá árinu 1998 eða í 15 ár verið eigandi að helmingshlut jarðarinnar sbr. afsal dagsett 17. desember 1998. Varnaraðili og sóknaraðili hafi allt frá heim tíma komið fram sem helmingseigendur jarðarinnar og svo í framhaldinu sem helmingseigendur þess einkahlutafélags sem stofnað hafi verið um reksturinn í framhaldinu en félag um reksturinn hafi verið stofnað í maí 2004. Þannig hafi þau skráð hluti sína og komi staðfesting á eignarhluta m.a. fram í skattframtölum aðila. Allt tal um annað sé ekki á rökum reist og að engu hafandi. Fyrir liggi að varnaraðili, hafi greitt bæði fyrir afsalið og eftir útgáfu þess skuldir jarðarinnar bæði skuldabréfin skv. afsalinu auk annarra krafna líkt og gögn beri með sér. Rétt sé að hluti skuldabréfanna hafi verið greidd við sölu mjólkurkvóta u.þ.b. tveimur árum eftir kaup varnaraðila á helmingshlut jarðarinnar enda sala kvótans háð samþykki eiganda bréfanna sem þinglýst hafi verið á jörðina. Hann hafi neitað um sölu mjólkurkvótans nema skuldabréfin yrðu gerð upp samhliða. Áður en til þess hafi komið hefði varnaraðili greitt verulegar fjárhæðir til búsins og rekstrar þess sem hluta af uppgjöri vegna kaupanna, gögn til sönnunar liggi frammi í máli þessu. Telji sóknaraðili sig hlunnfærða sökum þessa skuli hún færa rök fyrir því en varnaraðila eigi helmingshlut jarðarinnar. Varakröfu sóknaraðila sé jafnfram hafnað með sömu rökum. Ljóst sé einnig að sóknaraðili hafi ekki gert athugasemdir við eignarhald jarðarinnar í 13 ár. Þá séu eigendur til helminga á því hlutafé sem skráð sé vegna A ehf. auk þess sem söluandvirði mjólkurkvóta sem seldur hafi verið árið 2000 hafi verið ráðstafað til þeirra beggja til helminga en það hafi m.a. verið nýtt til hlutabréfakaupa í nafni þeirra beggja. Ekki eign eða fjármunir sóknaraðila líkt og haldir er fram. Söluandvirði hafi verið ráðstafað inn á reikning nr. [...] sem verið hafi á nafni sóknaraðila en eign beggja aðila og þau bæði með prókúru á þann reikning. Árið 1999 hafi jörð og rekstur verið leigt í verktöku og árið 2002-3 verið ákveðið að hefja mjólkurframleiðslu á nýjan leik sem hafi falið í sér kaup á mjólkurkvóta. Árið 2004 hafi verið stofnað einkahlutafélag um reksturinn auk þess sem farið hafi verið í breytingar á fjósi og endurnýjun tækja kosts. Öllu tali um forsendubrest sé hafnað enda engin skilyrði uppfyllt svo fallast megi á þá kröfu sbr. almennar reglur fjármunaréttarins. Kröfu sína um staðfestingu á skráðu eignarhaldi byggi varnaraðili auk framanritaðs á réttmætum væntingum hans til kaupanna og skráningu á eign hans til margra ára. Þá sé öllum málsástæðum sóknaraðila er snúi að skjalagerð við kaupin hafnað enda ekkert við gögnin að athuga og allir aðilar fullmeðvitaðir um aðkomu þeirra sem að málinu komu og allar upplýsingar legið fyrir. Að lokum sé verðmati sem lagt sé fram með öllu hafnað og hafi það ekkert gildi í máli þessu. Greiðslur varnaraðila til félagsins A ehf. tengist ekki máli þessu en það sé viðurkennt að um slíkar greiðslur hafi verið að ræða. Aðilar hafa ávallt litið á jörðina og reksturinn sem eina heild í helmingseigu hvors aðila og um það hafi ekki verið ágreiningur. Jörðin og reksturinn hafi verið samhangandi allt frá fyrstu tíð og þar til félag hafi verið stofnað um reksturinn sem var gert hafi verið í skattalegu tilliti. Ávallt hafi staðið til að færa jörðina inn í félagið en einhverra hluta vegna hafi það enn ekki verið gert. Hafnað er allri tilvísun til ákvæða samningalaga nr. 7/1936 í máli þessu.
Varðandi kröfulið 2 um greiðslur fyrir afnotamissi sé það að segja að varnaraðili hafi á engu stigi málsins hafnað því að sóknaraðili fái afnota af húsinu og annist um rekstur búsins samhliða honum. Hið rétta sé að sóknaraðili hafi ekki búið á jörðinni svo nokkru nemi til fjölda ára eins og fram hafi komið undir rekstri þess máls sem rekið var þegar krafa um opinber skipti var tekin fyrir. Hafi hún m.a. búið í [...], [...], [...] og á [...] svo öllu tali um einkaafnot hennar sé hafnað enda jörðin heimili varnaraðila auk þess sem hann hafi skyldum að gegna um rekstur búsins sem sóknaraðili hafi hlaupið frá á sínum tíma. Rekstur búsins og búseta á jörðinni sé að mati varnaraðila órjúfanleg heild og fari saman í einu og öllu. Varnaraðili hafi ekki þegið laun eða önnur hlunnindi fyrir að halda jörðinni í rækt og starfa við búreksturinn.
Varðandi bifreiðina [...] þá sé það rétt að bifreiðin hafi verið skráð á nafn sóknaraðila allt til 18. september sl. að bifreiðin hafi verið seld án tilkynningar til varnaraðila eða til A ehf. Hið rétta sé að allur kostnaður vegna hennar hafi verið greiddur af búinu og/eða A ehf. m.a. afborganir lána, og annar rekstrakostnaður. Kröfur varnaraðila á hendur A vegna lána til félagsins hafi að öllum líkindum verið lækkaðar af endurskoðanda félagsins vegna kostnaðar við bifreiðina svo með réttu hafi bifreiðin verið greidd af varnaraðila en ekki sóknaraðila. Þess sé krafist úrskurðað verði að söluandvirði bifreiðarinnar sé eign varnaraðila en til vara A ehf. Byggt er á því að varnaraðili eigi lögvarða hagsmuni til þess að eignarhaldið verði staðfest og hver sé eigandi söluandvirðis bifreiðarinnar. Að öðru leyti vísar varnaraðili til þess sem fram kemur í greinargerð til skiptastjóra og liggi frammi í málinu.
Sóknaraðili var ein eigandi jarðarinnar er aðilar hófu sambúð en hún hafði fengið afsal fyrir henni úr hendi C og D 20. desember 1996. Þá var hún rekstraraðili bús þess sem rekið var á jörðinni. Fram kemur að aðilar stofnuðu einkahlutafélag á árinu 2004 um búreksturinn og var ætlunin að jörðin færi inn í það félag líka en af því varð aldrei.
Sóknaraðili var þannig ein eigandi jarðarinnar er til sambúðar aðila var stofnað. Varnaraðili hefur lýst því að hann hafi viljað hjálpa sóknaraðila við rekstur bús hennar og í skýrslum aðila kemur fram að varnaraðili var ráðandi í samskiptum þeirra um búreksturinn og að sóknaraðili lét hann að mestu um hann. Eins og fór um sambúð aðila, sem varnaraðili kvað reyndar hafa verið viðskiptasamband þegar ágreiningur um hvort skilyrði til opinberra skipta væri fyrir hendi var til meðferðar fyrir dóminum, verður litið til þess atriðis að sóknaraðili kom með jörðina inn í búið og verður ekki fallist á það með varnaraðila að samningur aðila einn og sér og þinglýsing afsals til hans fyrir hálfri jörðinni leiði til þess að henni verði skipt til helminga með þeim við skiptin. Verður hér á því byggt að hann hefur ekki, þrátt fyrir áskoranir sóknaraðila, lagt fram gögn sem sýni að hann hafi af sínum eigin fjármunum innt greiðsluskyldu sína af hendi samkvæmt samningi þeirra sóknaraðila frá 1998 um greiðslu bréfa þeirra er sóknaraðila bar að greiða samkvæmt samningi sínum við fyrrverandi eiginmann sinn frá 17. desember 1996. Verður ekki betur séð en að andvirði hennar hafi verið greitt af tekjum af rekstri búsins sem á þessum tíma var á nafni sóknaraðila. Ber varnaraðili hallann af því að hafa ekki lagt fram nein gögn um það og því ekki axlað sönnunarbyrði sína um það að greiðslur fyrir jörðina hafi komið frá honum sjálfum og hann þannig efnt samningsskyldur sínar. Samkvæmt þessu er krafa sóknaraðila um að hún sé ein eigandi jarðarinnar A í [...] tekin til greina.
Að fenginni framangreindri niðurstöðu um eignarhald sóknaraðila á jörðinni A verður á því byggt að varnaraðila beri að greiða henni húsaleigu fyrir afnot sín af íbúðarhúsinu að A frá 1. desember 2011 þar til það verður afhent sóknaraðila. Þykir leigugjald hæfilega ákveðið 70.000 krónur á mánuði.
Sóknaraðili var skráður eigandi bifreiðarinnar [...] en hún var seld 18. september 2013 og krefst sóknaraðili þess nú að andvirði bifreiðarinnar sé eign hennar. Varnaraðili ber fyrir sig að kostnaður við viðhald og rekstur bifreiðarinnar svo og afborganir af lánum sem hvílt hafi á bifreiðinni hafi verið greiddur af búinu og síðan A ehf. Lagður hefur verið fram kaupsamningur og afsal frá 18. september sl. þar sem fram kemur að bifreiðin var fyrst skráð 20. maí 1999. Varð hún þannig skráð eign sóknaraðila eftir að til sambúðar hennar og varnaraðila var stofnað og kemur því til skipta við búskipti þeirra.
Með vísan til 130. gr. laga nr. 91/1991 verður varnaraðila gert að greiða sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað þ.m.t. virðisaukaskattur.
Við uppkvaðningu úrskurðar er gætt ákvæða 1. mgr. 155. gr. laga nr. 91/1991.
Allan Vagn Magnússon dómstjóri kveður upp þennan úrskurð.
ÚRSKURÐARORÐ
Við skipti á búi K og M skal fara með jörðina A sem eign sóknaraðila. Þá skal varnaraðili greiða sóknaraðila 70.000 krónur á mánuði í leigu fyrir afnot sína af íbúðarhúsi að A frá 1. desember 2011 til greiðsludags. Bifreiðin [...] kemur til skipta við búskipti aðila.
Varnaraðili greiði sóknaraðila 300.000 krónur í málskostnað.