Hæstiréttur íslands

Mál nr. 87/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Aðild
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Þriðjudaginn 27

 

Þriðjudaginn 27. febrúar 2007.

Nr. 87/2007.

Arngunnur Regína Jónsdóttir og

Helgi Rúnar Rafnsson

(Karl Axelsson hrl.)

gegn

Birni Andrési Bjarnasyni og

Reykjavíkurborg

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

 

Kærumál. Aðild. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður héraðsdóms staðfestur.

A og H kröfðust þess aðallega að B og R yrði gert in solidum að fjarlægja viðbyggingu sem B hóf að reisa ofan á hús sitt samkvæmt byggingarleyfi frá R að viðlögðum dagsektum. Til vara kröfðust þau viðurkenningar á því að útgáfa byggingarleyfisins hefði verið ólögmæt. R krafðist þess að aðalkröfunni yrði vísað frá dómi og var fallist á það með hinum kærða úrskurði. Talið var að skilja yrði málatilbúnað A og H svo að það væri málsástæða fyrir aðalkröfunni á hendur R að útgáfa byggingarleyfisins hefði verið ólögmæt og að þau óskuðu því eftir að fá einnig dóm á hendur R um skyldu til að fjarlægja viðbygginguna. Þar sem aðalkrafan átti rót sína að rekja til þess að B hefði hafið að reisa viðbygginguna á grundvelli byggingarleyfis R var talið hugsanlegt að sækja aðila saman í einu máli, sbr. 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hins vegar gerðu A og H kröfu til þess að B og R fjarlægðu viðbygginguna in solidum og vísuðu um það til 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 án þess að ráðið yrði af málatilbúnaði þeirra hvernig slík krafa yrði höfð uppi á hendur B og R sameiginlega á grundvelli þess ákvæðis. Vegna vanreifunar á málatilbúnaði A og H að þessu leyti var kröfunni vísað frá dómi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. febrúar sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2007, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila Reykjavíkurborgar um að vísa frá dómi aðalkröfu sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að lagt verði fyrir héraðsdóm að leysa efnislega úr kröfunni. Þá krefjast þau kærumálkostnaðar.

Varnaraðili Björn Andrés Bjarnason hefur ekki látið þennan þátt málsins til sín taka.

Varnaraðili Reykjavíkurborg krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sóknaraðilar dæmd til greiðslu kærumálskostnaðar.

Kröfum aðila, málsatvikum og málsástæðum er lýst í hinum kærða úrskurði. Krefjast sóknaraðilar þess aðallega að varnaraðilum verði gert in solidum að fjarlægja viðbyggingu sem varnaraðili Björn Andrés hóf að reisa ofan á hús sitt að Suðurhúsum 4 í Reykjavík 2. ágúst 2006 samkvæmt byggingarleyfi varnaraðila Reykjavíkurborgar 28. júlí sama ár að viðlögðum 50.000 króna dagsektum til sóknaraðila. Til vara krefjast þau þess að viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfisins hafi verið ólögmæt. Í þessum þætti málsins krefst varnaraðilinn eingöngu að aðalkröfunni verði vísað frá dómi.

Skilja verður máltilbúnað sóknaraðila svo að það sé málsástæða fyrir aðalkröfunni á hendur varnaraðila Reykjavíkurborg að útgáfa byggingarleyfisins hafi verið ólögmæt. Sóknaraðilar óski því eftir að fá einnig dóm á hendur Reykjavíkurborg um skyldu til að fjarlægja viðbygginguna. Samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 má sækja fleiri en einn í félagi ef dómkröfur þeirra eiga rætur að rekja til sama atviks, aðstöðu eða löggernings. Aðalkrafan á hendur varnaraðilum á rót sína að rekja til þess að varnaraðili Björn Andrés hóf að reisa viðbyggingu á grundvelli byggingarleyfis varnaraðilans Reykjavíkurborgar. Hugsanlegt er því að sækja aðila saman í einu máli. Sóknaraðilar gera hins vegar kröfu til þess að varnaraðilar fjarlægi viðbygginguna in solidum og vísa um það til 2. mgr. 56. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 án þess að ráðið verði af málatilbúnaði þeirra hvernig slík krafa verði höfð uppi á hendur varnaraðilum sameiginlega á grundvelli þess ákvæðis. Með þessari athugasemd en annars með vísun til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Hver aðila skal bera sinn kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2007.

             Mál þetta var höfðað 21. september sl. en þessi þáttur þess var tekinn til úrskurðar 11. janúar sl. Í málinu krefjast stefnendur þess aðallega að stefndu verði gert in solidum að fjarlægja viðbyggingu þá sem stefndi Björn hóf að reisa ofan á hús sitt að Suðurhúsum 4 í Reykjavík 2. ágúst 2006, á grundvelli byggingarleyfis 28. júlí 2006, að viðlögðum 50.000 króna dagsektum er renni til stefnenda. Til vara kefjast stefnendur þess að viðurkennt verði að útgáfa byggingarleyfis af hálfu stefndu Reykjavíkurborgar til stefnda Björns 28. júlí 2006 hafi verið ólögmæt. Í báðum tilvikum krefjast stefnendur málskostnaðar in solidum úr hendi stefndu að skaðlausu.

             Stefnda Reykjavíkurborg krefst þess aðallega að aðalkröfu stefnenda gegn henni verði vísað frá dómi en til vara er krafist sýknu af öllum kröfum stefnenda. Krafist er og málskostnaðar úr höndum stefnenda samkvæmt mati dómsins.

             Úrskurðurinn er kveðinn upp til úrlausnar á frávísunarkröfunni en munnlegur málflutningur fór fram um hana 11. janúar sl. Stefnendur krefjast þess að frávísunar­kröfunni verði hrundið og að málið fái efnislega meðferð. Stefnendur krefjast einnig málskostnaðar í þessum þætti málsins eða að ákvörðun um málskostnað verði eftir atvikum látin bíða efnisdóms.

             Af hálfu stefnda Björns eru ekki gerðar kröfur í þessum þætti málsins og engar kröfur eru heldur gerðar þar á hendur honum.

I.

             Stefnendur eiga húsið að Suðurhúsum 2 og stefndi Björn á húsið að Suðurhúsum 4 en húsin standa hlið við hlið. Stefndi Björn hóf framkvæmd við viðbyggingu við fasteign sína 2. ágúst 2006 á grundvelli byggingarleyfis sem honum hafði verið veitt 28. júlí 2006. Honum hafði verið veitt sams konar leyfi 10. maí 2005, en þar sem leyfið var ekki nýtt innan eins árs, eins og krafist er til að byggingarleyfi haldi gildi sínu, hafði hann sótt aftur um byggingarleyfi hjá byggingar­fulltrúa 29. júní 2006.

             Í málinu halda stefnendur því fram að þeim hafi ekki verið kunnugt um að þessar framkvæmdir stæðu til fyrr en þær voru þegar hafnar þar sem þeim hefði ekki verið tilkynnt um að til stæði að veita stefnda Birni byggingarleyfi og engin grenndar­kynning hefði farið fram af þessu tilefni.

             Stefnendur fóru þess á leit við sýslumann 3. ágúst s.á. að lögbann yrði lagt við áframhaldandi framkvæmdum við viðbygginguna en því var hafnað með vísan til þess að þær væru það langt á veg komnar að ekki væri um að ræða byrjaða eða yfirvofandi athöfn í skilningi 24. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. Leitað var úrlausnar héraðsdóms um niðurstöðu sýslumanns en dómurinn staðfesti ákvörðun hans með úrskurði 17. ágúst s.á. um að hafna lögbannskröfu stefnenda. Taldi héraðs­dómur að stefnendur hefðu ekki sýnt fram á að réttindum þeirra yrði raskað með frekari framkvæmdum þótt þau biðu dóms um þau. Úrskurðurinn var kærður til Hæstaréttar en hann var staðfestur með dómi réttarins 28. ágúst s.á. Í dóminum var talið ljóst að þegar væri orðin sú skerðing á rétti stefnenda sem þeir vildu hindra með lögbanni.

             Stefnendur kærðu útgáfu byggingarleyfisins til úrskurðar­nefndar skipulags- og byggingarmála 9. ágúst 2006 og kröfðust þess aðallega að leyfið yrði fellt úr gildi. Stefnendur kröfðust jafnframt að nefndin kvæði upp bráðabirgðaúrskurð um stöðvun framkvæmda við viðbygginguna þar til málið hefði verið til lykta leitt. Þeirri kröfu hafnaði nefndin með úrskurði 23. ágúst s.á. Í úrskurði nefndarinnar 11. október sl. var kærumálinu vísað frá nefndinni með vísan til þess að stefnendur hefðu höfðað mál til ógildingar á byggingarleyfinu og hefðu því ekki lengur einstaklega og lögvarða hagsmuni því tengda að úrskurður gengi í kærumálinu.

II.

             Frávísunarkrafa stefndu Reykjavíkurborgar er reist á því að borgin hafi ekki átt aðild að lögbanns- og kærumálum sem sprottið hefðu af byggingaleyfisskyldum framkvæmdum við fasteignina eða ágreiningi milli stefnenda og stefnda Björns. Stefnda Reykjavíkurborg hafi aðeins verið umsagnar- og upplýsingaaðili í kærumáli stefnenda til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála. Byggingarleyfið, sem bygg­ingar­fulltrúinn í Reykjavík hafi veitt meðstefnda Birni til framkvæmda á fast­eigninni Suðurhúsum 4, hafi verið veitt á grundvelli laga með vísan til ákvæða 44. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, sbr. einnig 13. og 14. gr. byggingareglu­gerðar nr. 441/1998 og samþykkt á byggingarleyfisumsókninni sem staðfest hefði verið í borgarstjórn 13. júlí 2006. Öll framkvæmdin skyldi unnin eftir samþykktum aðal- og séruppdráttum, byggingar- og verklýsingum og gildandi lögum og reglu­gerðum um skipulags- og bygg­ingar­mál. Útgáfa byggingarleyfis eða höfnun bygging­ar­leyfis­umsóknar feli í sér stjórnvalds­ákvörðun í skilningi stjórnsýslulaga, sbr. 2. mgr. 1. gr. þeirra. Við veitingu bygg­ingar­leyfis komi stefndi fram sem stjórnvald er veiti leyfi, séu skilyrði uppfyllt að þess mati, í samræmi við ákvæði þeirra laga og reglna sem hverju sinni gildi um slík leyfi. Aðgerð þessi sé kæranleg til æðra stjórnvalds. Þar sé um lögbundinn kærurétt að ræða, byggðan á 1. mgr. 26. gr. stjórnsýslulaga og 8. gr. skipulags- og byggingarlaga. Á þessu stigi geti stefndi ekki átt aðild að máli því sem nú sé rekið milli húseigenda að Suðurhúsum 2 og 4. Enn síður geti stefndi Reykjavíkurborg átt samaðild að málinu með bygg­ingar­leyfishafa samkvæmt 18. gr. laga nr. 91/1991.

             Frávísunarkröfuna byggi stefnda Reykjavíkurborg einnig á því að skilyrðum 80. gr. laga nr. 91/1991 sé ekki fullnægt í málinu, en þar sé upptalið það sem greina skuli í stefnu og skuli það koma fram svo glöggt sem verða megi. Í e-lið 1. mgr. lagagreinarinnar segi að í stefnu þurfi að koma fram „málsástæður sem stefnandi byggir málssókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til að samhengi milli málsástæðna verði ljós, en þessi lýsing skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er“. Samkvæmt d-lið lagaákvæðisins skuli greina í stefnu svo glöggt sem verða megi dómkröfur stefnanda. Um viðurkenningar­mál sé jafnframt gerður sá áskilnaður að kröfur lúti að „viðurkenningu á tilteknum réttindum“, eins og tekið sé fram í ákvæðinu. Í þessu felist að kröfugerðin sé svo ákveðin og ljós að hún geti orðið að dómsniðurstöðu í máli þar sem sakarefninu sé ráðið til lykta, standi lög til þeirra málaloka. Stefna, þar sem málsástæðum og almennri málavaxtalýsingu sé blandað saman á fimm síðum, uppfylli engan veginn framangreinda kröfu um gagn­yrta og skýra lýsingu á málsástæðum og öðrum atvikum. Öll framsetning stefnunnar geri það að verkum að hún sé óskýr og erfitt að greina málsástæður og samhengi þeirra við dómkröfur stefnanda. Dómkrafan um skyldu til að fjarlægja viðbyggingu við húsið sé almenn og illa skilgreind og grundvöllur sakarefnis óljós og fullnægi ekki skilyrðum 80. gr. laga nr. 91/1991. Ekkert orsakasamband sé á milli ætlaðs tjóns og athafna stefndu.

             Stefndu séu krafðir in solidum um að fjarlægja viðbyggingu þá sem stefndi Björn hóf að reisa 2. ágúst sl. Ekkert réttarsamband sé á milli stefndu gagnvart stefnendum vegna byggingar samkvæmt útgefnu byggingarleyfi og sé þessari kröfu því mótmælt. Óljóst sé með hvaða hætti stefndu séu samábyrgir en framkvæmdin sem um ræði sé eingöngu á ábyrgð byggingarleyfishafa.

             Eins og aðalkrafa stefnenda sé sett fram sé ómögulegt að kveða upp viðurkenningardóm um skyldu stefndu samkvæmt henni. Krafa á hendur stefnda Reykja­víkur­borg um sjálfstæða athafnaskyldu í formi niðurrifs á hluta fasteignar annars aðila verði ekki byggð á öðru en því að byggingarnefndin hafi með ólögmætri stjórnvaldsaðgerð valdið stefnendum tjóni. Slíkt tjón verði eingöngu bætt með peningum en ekki niðurrifi á eign annars aðila. Grundvöllur þessarar kröfu sé því ekki fyrir hendi.

             Við munnlegan málflutning var því haldið fram af hálfu stefndu Reykjavíkur­borg að krafa stefnenda um dagsektir væri vanreifuð, m.a. vegna þess að tímabil er þær skyldu leggjast á væri ótilgreint.

III.

             Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefndu Reykjavíkurborgar verði hafnað. Stefnendur álíti að umrædd viðbygging sé reist á grundvelli ólögmæts byggingarleyfis og þeir byggi kröfu um niðurrif á 56. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem segi að þegar byggingaframkvæmd, sem brjóti í bága við skipulag, eða fram­kvæmd sé hafin með byggingarleyfi, sem brjóti í bága við skipulag, þá skuli hin ólöglega bygging eða byggingarhluti fjarlægður. Stefnendur krefjist þess að stefndu Reykjavíkurborg verði gert að fjarlægja viðbygginguna eins og lýst sé í kröfugerðinni og því sé aðild hennar að málinu nauðsynleg. Í því sambandi skipti engu máli þótt stefnda Reykjavíkurborg hafi ekki átt aðild að málinu áður eða á fyrri stigum. Stefndu hafi báðir staðið að hinum ólögmæta verknaði og beri því solidariska ábyrgð á því að viðbyggingin verði fjarlægð. Erfitt sé að meta tjón stefnenda enda sé það huglægt mat. Því sé gerð krafa um að viðbyggingin verði rifin, enda fælust aðalhagsmunir stefnenda í því.

             Stefnendur mótmæli því að krafan þeirra, sem studd sé fjölda dómafordæma, sé vanreifuð eða að hún sé almenn og illa skilgreind, eins og haldið sé fram af hálfu stefndu Reykjavíkurborg. Þeir mótmæli því einnig að krafa um dagsektir sé vanreifuð, en í henni felist krafa um að dagsektir falli á allan þann tíma sem umræddri skyldu stefndu verði ekki fullnægt.

 

IV.

             Aðalkrafa stefnenda í málinu er byggð á því að viðbyggingin, sem stefndi Björn lét reisa við hús sitt á grundvelli byggingarleyfis 28. júlí 2006, fari efnislega í bága við skilmála deiliskipulagsins sem gildi fyrir byggð á þessu svæði. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. og 2. mgr., sbr. 1. mgr. 43. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997, skuli breytingar, sem gerðar eru á húsum, vera í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Stefnendur halda því fram að frávikin frá deiliskipulaginu skaði hagsmuni þeirra verulega. Viðbyggingin fari í bága við gildandi deiliskipulag og lagaákvæði með því að stærð húss stefnda Björns fari tæpa 20 fermetra fram yfir leyfilega hámarksstærð. Einnig fari svalir ofan á bílskúrsþaki í bága við skipulag en af þeim sjáist vel yfir stóran hluta garðs stefnenda og inn um eldhús- og stofuglugga á húsi þeirra. Ekki sé heldur gert ráð fyrir því í skilmálum deiliskipulags að hús séu tveggja hæða og því fari í bága við það að reisa aðra hæð ofan á hús stefnda. Hin nýja turnbygging stefnda og svalir á bílskúrsþaki fari auk þess í bága við almenn ákvæði í skilmálum deili­skipu­lagsins. Loks fari fjarlægð milli viðbyggingar stefnda og lóðar stefnenda í bága við lágmarksfjarlægð sem skuli þar vera samkvæmt 75.1. gr. byggingarreglugerðar nr. 441/1998. Byggingar­fram­kvæmdirnar og bygg­ingar­leyfið, sem þær grundvallist á, séu því efnislega ólögmætar.

             Stefnendur vísa og til þess að byggingarleyfið sé jafnframt ólögmætt vegna formannmarka sem á því séu. Engin grenndarkynning hafi farið fram áður en það var veitt eins og skylt hafi verið að láta fara fram samkvæmt 7. mgr. 43. gr. laga nr. 73/1997. Byggingar­leyfið fyrir viðbyggingunni ofan á húseign stefnda hafi því verið ólögmætt bæði vegna efnis- og formannmarka. Því beri stefndu in solidum að hlutast til um að hún verði rifin með vísan til 2. mgr. 56. gr. sömu laga og almennra réttarvörslu­sjónarmiða. Engu breyti í þessu sambandi þótt verðmæti fari forgörðum við þá aðgerð, enda hafi stefndi Björn ekki verið í góðri trú þegar hann hóf framkvæmdir og hafi haldið þeim áfram þrátt fyrir að vera kunnugt um afstöðu stefnenda gagnvart viðbygg­ing­unni. Allar framkvæmdir við viðbygginguna hafi því verið á hans eigin ábyrgð og áhættu. Engar hindranir að lögum standi því í vegi að aðal­krafa stefnenda um að fjar­lægja viðbygginguna að viðlögðum dagsektum verði tekin til greina.   

             Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um meðferð einkamála eiga þeir óskipta aðild sem eiga óskipt réttindi eða bera óskipta skyldu. Aðstæður í þessu máli eru þær að stefndi Björn er byggingarleyfishafi og framkvæmdaraðili viðbyggingarinnar sem um ræðir en stefnda Reykjavíkurborg er stjórnvald sem veitt hefur umrætt byggingarleyfi. Aðalkrafa stefnenda í málinu er reist á því að stefndu beri óskipta skyldu til að fjarlægja viðbygginguna sem um ræðir þar sem framkvæmdirnar vegna hennar styðjist ekki við annað en ólögmætt byggingar­leyfi sem brjóti gegn deiliskipulaginu, en því mótmæla stefndu. Stefnendur vísa í þessu sambandi til 2. mgr. 56. gr. skipu­lagslaga án þess að af málatilbúnaði þeirra verði nægilega ráðið hvernig samaðild stefndu verði rakin til þess að þeir beri óskipta skyldu til þeirra athafna sem lýst er í aðalkröfu stefnenda. Í því sambandi verður að líta til þess að í lagaákvæðinu, sem stefnendur vísa til, er á engan hátt gert ráð fyrir því að húsbyggjandi og sveitarstjórn beri óskipta skyldu til að fjarlægja mannvirki eða að slík skylda hvíli sameiginlega á þeim þegar aðstæður eru þannig að byggingarleyfi brýtur gegn skipulagi eða er ólög­mætt af öðrum ástæðum. Að þessu virtu verður að telja að hér skorti á að stefnendur hafi gert nægilega grein fyrir því hvernig hinni óskiptu aðild stefndu, sem gert er ráð fyrir í kröfugerð stefnenda, er háttað. Vegna vanreifunar á málatilbúnaði stefnenda að þessu leyti verður að fallast á kröfu stefndu Reykjavíkurborgar og vísa aðalkröfu stefnenda á hendur henni frá dómi.

             Ákvörðun um málskostnað verður tekin við endanlega úrlausn málsins.

             Úrskurðinn kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

             Aðalkröfu stefnenda á hendur stefndu Reykjavíkurborg er vísað frá dómi.