Hæstiréttur íslands
Mál nr. 8/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
|
|
Mánudaginn 6. febrúar 2012. |
|
Nr. 8/2012. |
Útgerðarfélagið Frigg ehf. (Magnús Helgi Árnason hdl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð.
Ú ehf. lýsti kröfu í bú bankans L hf. og byggði einkum á því að bankinn hefði brugðist þeirri skyldu að selja nánar tiltekin hlutabréf í eigu Ú ehf. í framhaldi af samtali fyrirsvarsmanns félagsins við fulltrúa bankans, sem sá bæði um eignastýringu fyrir Ú ehf. og fyrirsvarsmann félagsins. Fyrir lá að bankinn hafði selt hlutabréf í eigu fyrirsvarsmannsins en ekki Ú ehf. Héraðsdómur hafnaði kröfu Ú ehf. þar sem ekki lá fyrir að félagið hefði gefið bankanum fyrirmæli um sölu umræddra hlutabréfa. Hæstiréttur staðfesti hinn kærða úrskurð með vísan til forsendna hans.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Þorgeir Örlygsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. desember 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 5. janúar 2012. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. desember 2011, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að krafa sín að fjárhæð 42.579.507 krónur verði viðurkennd við slit varnaraðila og henni skipað í réttindaröð aðallega samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, en til vara samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Útgerðarfélagið Frigg ehf., greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur15. desember 2011.
Mál þetta var þingfest 22. júní 2010 og tekið til úrskurðar 29. nóvember sl.
Sóknaraðili er Útgerðafélagið Frigg ehf., Hafnarhvoli v/Tryggvagötu, Reykjavík.
Varnaraðili er Landsbanki Íslands hf., Austurstræti 16, Reykjavík.
Endanlegar dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að krafa hans að fjárhæð 42.579.507 krónur verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila sem krafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara krefst hann þess að krafa hans verði viðurkennd sem krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann í báðum tilvikum málskostnaðar úr hendi varnaraðila, auk virðisaukaskatts. Við aðalmeðferð málsins féll sóknaraðili frá varakröfu sinni og varð þá þrautavarakrafa hans varakrafa. Jafnframt lýsti hann því yfir að fallist væri á sjónarmið varnaraðila um vexti.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.
Upphaflega áttu einnig aðild að máli þessu tveir hópar kröfuhafa sem komu fram undir heitunum Bayerische Landesbank o.fl. og Arrowgrass Master Fund Ltd. o.fl. Í þinghaldi hinn 25. maí sl. féllu þeir frá aðild sinni að málinu.
I
Þann 18. mars 2005 gerðu málsaðilar með sér samning um eignastýringu. Undir samninginn ritar fyrir hönd sóknaraðila Gunnar I. Hafsteinsson sem er eigandi allra hluta í sóknaraðila og framkvæmdastjóri. Gunnar átti einnig persónulega í viðskiptum við varnaraðila með verðbréf. Sami starfsmaður eignastýringarsviðs varnaraðila var tengiliður þeirra við bankann.
Þann 1. október 2008 hafði Gunnar I. Hafsteinsson símasamband við starfsmann varnaraðila og óskaði þess að hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. yrðu seld. Vísar sóknaraðili til þess að með þeim fyrirmælum hafi starfsmanni varnaraðila verið falið að selja öll hlutabréf sóknaraðila og Gunnars í þessum félögum. Daginn eftir voru hlutabréf í eigu Gunnars seld, en ekki hlutabréf sóknaraðila.
Þann 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir starfsemi varnaraðila samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Fjármálaeftirlitið skipaði þá skilanefnd til að taka við stjórn varnaraðila. Nýi Landsbanki Íslands hf. (nú Landsbankinn hf.) var stofnaður og voru innlendar eignir varnaraðila og helstu eignir hans sem tengdust innlendri starfsemi hans fluttar yfir til nýja bankans með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 12. október sama ár var kveðið á um að Landsbankinn hf. tæki ekki við réttindum og skyldum varnaraðila samkvæmt afleiðusamningum. Þá ákvað Fjármálaeftirlitið 19. október 2008 að Landsbankinn hf. skyldi standa varnaraðila skil á sérgreindum tryggingum viðskiptamanna eftir því sem við ætti vegna kröfuréttinda og afleiðusamninga sem ekki flyttust yfir til Landsbankans hf.
Þann 5. desember 2008 veitti Héraðsdómur Reykjavíkur varnaraðila greiðslustöðvun að beiðni skilanefndar varnaraðila. Með gildistöku laga nr. 44/2009 hinn 22. apríl 2009 hófst slitameðferð varnaraðila. Slitameðferðin var kennd við greiðslustöðvun meðan varnaraðili hafði heimild til greiðslustöðvunar á grundvelli laga nr. 129/2008. Hinn 29. apríl 2009 var varnaraðila skipuð slitastjórn. Tilhögun laga nr. 44/2009 var breytt að nokkru leyti með lögum nr. 132/2010, sem tóku gildi 17. nóvember 2010 og var samkvæmt því nauðsynlegt að kveðinn yrði upp dómsúrskurður þess efnis til að slitameðferð yrði haldið áfram. Hinn 22. nóvember 2010 var varnaraðili tekinn til slitameðferðar með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur. Þann 30. apríl 2009 gaf slitastjórn út innköllun til kröfuhafa sem var birt í Lögbirtingablaðinu sama dag.
Sóknaraðili lýsti kröfu í bú varnaraðila að fjárhæð 44.704.680 krónur, sem móttekin var 30. október 2009 af slitastjórn varnaraðila. Sóknaraðili lýsti kröfunni aðallega sem sértökukröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. sömu laga og til þrautavara sem almennri kröfu samkvæmt 113. gr. laganna.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði framangreindri kröfu sóknaraðila með tilkynningu 16. febrúar 2010. Sóknaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar með bréfi 23. febrúar 2010. Hinn 19. apríl 2010 var haldinn fundur vegna ágreinings aðila málsins um viðurkenningu á kröfu sóknaraðila. Ekki tókst að jafna ágreininginn á þeim fundi. Með bréfi slitastjórnar varnaraðila, dagsettu 5. maí 2010 og mótteknu 10. maí sama ár, var ágreiningi málsaðila um kröfuna beint til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
II
Sóknaraðili kveðst hafa verið í umtalsverðum viðskiptum við varnaraðila með verðbréf. Eignastýring varnaraðila fyrir sóknaraðila hafi staðið frá miðju ári 2007 til 6. október 2008, samkvæmt skilgreiningu 3. töluliðar 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Sóknaraðili og Gunnar I. Hafsteinsson, eigandi allra hluta í sóknaraðila og framkvæmdastjóri, hafi verið flokkaðir saman af eignastýringu varnaraðila, sem „Útgerðafélagið Frigg/Gunnar I. Hafsteinsson“ svo sem sjá megi af framlögðu yfirliti frá varnaraðila yfir eignasafn frá 15. september 2008. Tilgreint eignasafn sé heildareignarhlutur þessara tveggja aðila. Sem dæmi hafi eignarhlutur Gunnars I. Hafsteinssonar í Glitni banka hf. þann dag verið að nafnvirði 627.600 krónur en hlutur sóknaraðila í Glitni banka hf. hafi verið að nafnvirði 242.000 krónur. Á framlögðu yfirliti, komi fram að hlutur Útgerðafélagsins Friggjar/Gunnars I. Hafsteinssonar sé að nafnvirði 869.600 krónur. Eignasafnið lýsi því sameign sóknaraðila og Gunnars.
Fyrirsvarsmaður sóknaraðila og starfsmaður varnaraðila hafi verið í símasambandi 1. október 2008. Veruleg óvissa hafi verið á markaði með hlutabréf í fjármálastofnunum á Íslandi á þessum tíma og hafði verðmæti hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. lækkað verulega. Telji sóknaraðili að starfsmanni varnaraðila hafi ekki getað dulist vilji fulltrúa sóknaraðila um sölu allra hlutabréfa í eigu sóknaraðila og Gunnars I. Hafsteinssonar í Landsbanka Íslands hf.
Hinn 1. október 2008 hafi sóknaraðili átt 2.252.884 skráða hluti í Landsbanka Íslands hf., en Gunnar I. Hafsteinsson hafi átt 134.834 skráða hluti. Á þeim degi hafi skráð gengi hluta í Landsbanka Íslands hf. verið 18,9 krónur fyrir hvern hlut. Verðmæti hluta sóknaraðila hafi því verið 42.579.507 krónur, en markaðsverðmæti hluta Gunnars 2.548.362 krónur. Miðað við yfirlit yfir eignasafn sóknaraðila og Gunnars 15. september 2008 hafi 2.548.362 krónur verið óverulegur hluti eignasafnsins. Fyrirmæli sóknaraðila, sem fram komi í símtali 1. október 2008, hafi verið þau að hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. yrðu seld. Hlutabréf í KB banka, sem fulltrúi sóknaraðila segist í símtalinu vilja bíða með, séu í eigu sóknaraðila en ekki Gunnars. Sóknaraðili hafi falið starfsmanni varnaraðila að selja öll hlutabréf sóknaraðila og Gunnars í Landsbanka Íslands hf. Starfsmanni varnaraðila hafi verið ljóst eða hafi átt að vera ljóst eftir samskipti við Gunnar sem fulltrúa sóknaraðila frá miðju ári 2007, að bréf í KB banka hf. hafi ekki verið í eigu Gunnars, heldur sóknaraðila, og að verið væri að taka ákvarðanir er vörðuðu bæði sóknaraðila og Gunnar, en ekki aðeins Gunnar persónulega. Þess hafi ekki verið óskað að fulltrúi varnaraðila seldi hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. að söluverðmæti á þeim degi 2.548.362 krónur heldur söluverðmæti 45.127.869 krónur, það er hlutabréf í eigu sóknaraðila og Gunnars I. Hafsteinssonar, enda komi það mat fulltrúa sóknaraðila fram vegna hlutabréfa í Landsbanka Íslands: „Já ég held bara Landsbankann líka, mér líst ekkert á þetta hjá bankanum, ...“
Óumdeilt sé að skráð gengi hlutabréfa Landsbanka Íslands hf. í Kauphöll Íslands hafi verið 18,9 krónur fyrir hvern hlut í bankanum 1. og 2. október 2008 og hafi verið viðskipti með hlutabréf í bankanum á þessum tveimur dögum. Verðmæti hlutabréfa sóknaraðila í Landsbanka Íslands hf. að liðnum þeim tíma er viðskipti hafi verið heimil 3. október 2008 hafi verið engin.
Í kjölfar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins, 6. október 2008 um yfirtöku þess á stjórn Landsbanka Íslands hf., vegna greiðsluerfiðleika bankans, hafi hlutabréf í bankanum orðið verðlaus. Krafa sóknaraðila sé mismunur á verðmæti hlutabréfa sóknaraðila þegar óskað hafi verið eftir sölu hlutabréfanna og síðan þeirrar staðreyndar að hlutabréfin hafi orðið verðlaus í kjölfar ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins 6. október 2008.
Krafa sóknaraðila hafi verið lækkuð frá upphaflegri kröfulýsingarfjárhæð, sem hafi verið 44.704.680 krónur. Ástæða lækkunarinnar sé sú að sóknaraðili hafi talið nafnvirði hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. vera 2.365.326 krónur 1. október 2008, þegar óskað hafi verið eftir sölu á hlutabréfunum. Í ljós hafi komið, að nafnvirðið hafi verið 2.252.884 krónur.
Sóknaraðili vísi til 1. mgr. 19. gr. laga nr. 108/2007 um framkvæmd fyrirmæla, en komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi gefið fyrirmæli um sölu hlutabréfa 1. október 2008, sé það varnaraðila að sýna fram á að röð fyrirmæla til varnaraðila á þessum tíma hafi verið þannig að sóknaraðili hafi ekki gert ráð fyrir sölu hlutabréfanna. Sóknaraðili bendi þó á þá staðreynd að hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í eigu Gunnars I. Hafsteinssonar hafi verið seld 2. október 2008, en fyrirmæli um sölu þeirra hlutabréfa hafi verið gefin samhliða fyrirmælum um sölu hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. í eigu sóknaraðila.
Aðalkrafa sóknaraðila um greiðslu kröfu með vísan til 109. gr. laga nr. 21/1991 byggi á því að á milli sóknaraðila og varnaraðila hafi verið í gildi samkomulag um eignastýringu. Varnaraðili sé fjármálafyrirtæki í skilningi laga nr. 161/2002. Um viðskipti fjármálafyrirtækja við fjárfesta gildi lög nr. 108/2007, sem hafi það að meginmarkmiði að tryggja hagsmuni viðskiptavina fjármálafyrirtækja. Sóknaraðili sé almennur fjárfestir samkvæmt 11. tölulið 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007.
Ákvæði 11. gr. laga nr. 108/2007 leggi þær skyldur á varnaraðila að sérgreina fjármálagerninga og aðra fjármuni sóknaraðila frá eignum varnaraðila. Sóknaraðili byggi á því að það hafi verið gert og samþykki ekki að aðrir kröfuhafar í bú varnaraðila hagnist á því að varnaraðili hafi ekki farið að lögum, er aðrir viðskiptavinir varnaraðila byggi á að séu virt.
Hlutabréf í eigu sóknaraðila í Landsbanka Íslands hf. að nafnvirði 2.252.884 krónur hafi verið í umsjón varnaraðila. Hlutabréfin hafi verið skráð rafrænni skráningu samkvæmt lögum nr. 131/1997 um rafræna eignarskráningu verðbréfa og hafi varnaraðili haft milligöngu við verðbréfamiðstöð um kaup og sölu verðbréfa. Ekkert liggi fyrir um fyrirmæli varnaraðila til verðbréfamiðstöðvar um sölu hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf., sem hafi verið í eigu sóknaraðila. Sóknaraðili viti ekki annað en að hlutabréf þessi hafi verið seld líkt og hann hafi óskað eftir að varnaraðili gerði 1. október 2008. Andvirði sölunnar sé að mati sóknaraðila í vörslu varnaraðila sem sérgreind eign.
Fallist dómurinn ekki á aðalkröfu sóknaraðila þá sé til vara gerð sú krafa að dómurinn feli slitastjórn að viðurkenna kröfu hans að fjárhæð 42.579.507 krónur sem almenna kröfu í þrotabú varnaraðila, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Krafan byggi á því að sóknaraðili hafi orðið fyrir tjóni, en ástæðu tjóns hans sé ekki unnt að rekja til þeirra atvika að hann teljist eiga rétt til þess að krafa hans flokkist sem krafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991. Krafan byggist á því að sóknaraðili hafi sýnt fram á hann hafi gefið starfsmanni varnaraðila fyrirmæli um sölu hlutabréfa í eigu sinni í Landsbanka Íslands hf. þann 1. október 2008, en engu að síður hafi varnaraðili ekki selt umrædd hlutabréf að nafnvirði 2.252.884 krónur. Að mati sóknaraðila sé tjón hans að rekja til skaðabótaskyldrar vanrækslu starfsmanns varnaraðila, eða þess að varnaraðili hafi ekki farið að meginreglum II. kafla laga nr. 108/2007, sem tryggja eigi varnaraðila fjárfestavernd og tryggja ákveðna viðskiptahætti hans. Sú vanræksla hafi valdið sóknaraðila tjóni sem varnaraðili beri ábyrgð á eftir almennum reglum um skaðabótaábyrgð atvinnurekenda og sérákvæðum laga um skaðabótaábyrgð fjármálafyrirtækja. Varnaraðili hafi ekki farið eftir meginreglu 18. gr. laga nr. 108/2007 um bestu framkvæmd, líkt og sjá megi af yfirliti yfir eignasafn frá 15. september 2008, þar sem eignarhaldi sóknaraðila og persónulegum verðbréfum framkvæmdastjóra hans sé blandað saman. Það hafi þau áhrif að varnaraðili haldi því fram að starfsmanni hans hafi aðeins verið falið að selja hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. sem hafi verið persónulega í eigu framkvæmdastjóra sóknaraðila.
Sóknaraðili vísi til laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Einnig sé vísað til reglugerðar nr. 508/2008 um ábyrgðartryggingu verðbréfamiðlana. Krafa um greiðslu málskostnaðar byggi á 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991.
III
Varnaraðili kveðst byggja á því að sóknaraðili eigi ekki fjárkröfu á hendur sér. Því sé mótmælt sem ósönnuðu að sóknaraðili hafi falið starfsmanni varnaraðila 1. október 2008 að selja öll hlutabréf í eigu sóknaraðila í Landsbanka Íslands hf. Ekki verði annað ráðið af gögnum málsins en að Gunnar I. Hafsteinsson hafi í símtali 1. október 2008 gefið þáverandi starfsmanni varnaraðila fyrirmæli um að selja sín eigin persónulegu hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf.
Ágreiningslaust sé að hlutabréf Gunnars I. Hafsteinssonar í tilgreindum félögum hafi verið seld 2. október 2008 og að söluandvirði þeirra hafi verið ráðstafað inn á reikning í eigu hans 7. október 2008. Ágreiningur sé hins vegar á milli aðila um hvort Gunnar hafi jafnframt komið fram fyrir hönd sóknaraðila gagnvart varnaraðila í símtalinu 1. október 2008 og þannig óskað eftir að hlutabréf í eigu sóknaraðila yrðu seld. Varnaraðili byggi á að Gunnar hafi í nefndu símtali komið fram í eigin nafni og óskað eftir sölu eigin hlutabréfa en ekki hlutabréfa í eigu sóknaraðila. Hafi varnaraðila þannig hvorki verið falin milliganga um sölu hlutabréfa sóknaraðila í Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. né hafi sóknaraðili gefið Landsbanka Íslands hf. slík fyrirmæli um framkvæmd viðskipta.
Framangreindu til stuðnings vísi varnaraðili til þess að nafn sóknaraðila hafi ekki borið einu sinni á góma í símtalinu 1. október 2008. Þvert á móti komi eftirfarandi atriði fram í samtalinu sem bendi að mati varnaraðila ótvírætt til þess að Gunnar I. Hafsteinsson hafi komið fram fyrir eigin hönd og óskað eftir sölu persónulegra hlutabréfa í samtali við þáverandi starfsmann varnaraðila þann 1. október 2008: Í fyrsta lagi kynni viðmælandinn sig sem Gunnar Hafsteinsson. Í öðru lagi spyrji starfsmaður bankans hvort hann eigi að selja öll hlutabréf í eigu Gunnars, sbr. „Á ég ekki bara að selja öll hlutabréf sem að þú ert með?“. Í þriðja lagi tali Gunnar um að losa sig út úr tilgreindum hlutabréfastöðum, sbr. „Ég held að það sé ekkert annað að gera en að losa sig út úr þessu helvíti“. Í fjórða lagi ræði Gunnar um að hann hafi keypt hlutabréf í Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. nokkrum dögum áður fyrir 80 milljónir sem hafi hrapað í verði og að það gangi ekki lengur. Ágreiningslaust sé að sóknaraðili og Gunnar hafi báðir átt hlutabréf í bæði Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. þann 1. október 2008. Veki varnaraðili í þessu samhengi athygli á að Gunnar hafi persónulega 24. september 2008 keypt hlutabréf í Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. að nafnverði 8.000.000 króna á 72.360.300 krónur. Byggi varnaraðili þannig á að starfsmaður hans hafi á grundvelli samtalsins mátt ætla að Gunnar væri þarna að ræða um persónulega hlutabréfaeign sína en ekki hlutabréf sóknaraðila í tilgreindum félögum.
Þá vísi varnaraðili til þess að ekki verði annað ráðið af tölvupóstsamskiptum Gunnars I. Hafsteinssonar og Þorvalds Þorsteinssonar, starfsmanns varnaraðila, 3. október 2008, en að Gunnar hafi komið fram fyrir eigin hönd og í eigin nafni gagnvart bankanum við sölu hlutabréfanna sem og að starfsmaður bankans hafi gert ráð fyrir því.
Varnaraðili mótmæli því sem röngu að sóknaraðili og fyrirsvarsmaður hans, Gunnar I. Hafsteinsson, hafi verið flokkaðir saman af eignastýringu varnaraðila og að framlagt yfirlit yfir eignasafn lýsi sameign þeirra. Um tvo ótengda viðskiptavini varnaraðila hafi verið að ræða og hafi sóknaraðila þannig borið að halda fjármunum þeirra og fjármálagerningum aðgreindum. Í samræmi við það hafi hlutabréf í eigu sóknaraðila verið á sérstökum vörslureikningi hans hjá varnaraðila, en verðbréfaeign Gunnars hafi verið vistuð á vörslureikningi í hans eigu. Með hliðsjón af gildandi lagareglum um bankaleynd, sbr. 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sé varnaraðila ókleift að leggja fram yfirlit yfir sérgreinda verðbréfaeign Gunnars á sambærilegan hátt og sóknaraðila.
Varnaraðili mótmæli því að hann hafi brotið gegn 1. mgr. 19. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti þar sem mælt sé fyrir um framkvæmd fyrirmæla. Hann hafi framkvæmt þau fyrirmæli sem gefin hafi verið af Gunnari I. Hafsteinssyni í símtali 1. október 2008 í samræmi við áskilnað 1. mgr. 19. gr. laga nr. 108/2007 þess efnis. Eins og að framan greini sé ágreiningslaust að í kjölfar símtalsins 1. október 2008 hafi hlutabréf Gunnars í Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. verið seld og söluandvirðinu ráðstafað inn á reikning í eigu Gunnars. Sóknaraðili hafi hvorki 1. október 2008 né síðar gefið varnaraðila fyrirmæli, í skilningi framangreinds ákvæðis, um sölu hlutabréfa sóknaraðila í nefndum félögum. Þá byggi varnaraðili á að hafi Gunnar í reynd verið að gefa viðskiptafyrirmæli fyrir hönd sóknaraðila hafi þau verið svo ógreinileg að ómögulegt hafi verið fyrir starfsmenn varnaraðila að framkvæma viðskipti á grundvelli þeirra. Vísi varnaraðili í því samhengi sérstaklega til 8. gr. samnings um eignastýringu þar sem fram komi annars vegar að bankinn beri ekki ábyrgð á tjóni sem viðskiptavinur kunni að verða fyrir vegna þess að tilkynningar á milli aðila misfarast vegna ógreinilegra fyrirmæla í símbréfi eða síma og hins vegar að viðskiptavinur beri ábyrgð á að fyrirmæli stafi frá honum sjálfum og að þau séu skýr og auðskiljanleg.
Jafnvel þótt talið yrði að sóknaraðili hafi falið starfsmanni varnaraðila 1. október 2008 að selja öll hlutabréf sóknaraðila í Landsbanka Íslands hf. mótmæli varnaraðili aðalkröfu sóknaraðila um afhendingu 42.579.507 króna utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og krefst þess að þeirri kröfu verði hafnað. Varnaraðili fái ekki séð að skilyrði þeirrar lagagreinar séu uppfyllt í máli þessu og byggi á því að krafa sóknaraðila verði ekki felld undir hana. Þannig hafi sóknaraðila með engu móti tekist að sýna fram á að fé í hans eigu sé sérgreint í fórum varnaraðila. Engin gögn hafi verið lögð fram sem sýnt geti fram á að 109. gr. laga nr. 21/1991 eigi hér við. Ríkar kröfur um sönnun þess að greinin eigi við beri að gera til þeirra sem á henni byggi. Jafnframt vísi varnaraðili til meginreglu gjaldþrotaréttar um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti.
Sóknaraðili eigi ekki sérgreint fé í höndum varnaraðila í formi peningaseðla, sem sannanlega tilheyri sóknaraðila, eða á annan hliðstæðan hátt. Af þessum sökum séu engin skilyrði fyrir því að sóknaraðili geti samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 krafist afhendingar umkrafinnar fjárhæðar frá varnaraðila í skjóli eignarréttar yfir peningum í vörslu varnaraðila. Fái framangreint einnig stoð í málatilbúnaði sóknaraðila þar sem krafist sé afhendingar kröfu utan skuldaraðar en ekki gerð krafa um afhendingu ákveðinna peningaseðla. Varnaraðili mótmæli því að í meintum eignarrétti á kröfu felist sértökuréttur í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991. Væri fallist á slíkan málatilbúnað myndi það leiða til þess að allar samþykktar kröfur við gjaldþrotaskipti eða slitameðferðir teldust til sértökukrafna í skilningi 109. gr. laga nr. 21/1991.
Þá vísi varnaraðili til þess að staðhæfingar og málsástæður sóknaraðila um að í gildi hafi verið samkomulag um eignastýringu og að varnaraðili sé fjármálafyrirtæki hafi ekkert með það að gera hvort viðurkenna beri kröfu sóknaraðila sem sértökukröfu samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Þá mótmæli varnaraðili því að ekkert liggi fyrir um fyrirmæli varnaraðila til verðbréfamiðstöðvar um sölu hlutabréfa sóknaraðila í Landsbanka Íslands hf. sem og tilvísun sóknaraðila til 11. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Vísi varnaraðili í því samhengi til þess að engin beiðni eða fyrirmæli hafi komið frá sóknaraðila um sölu hlutabréfa í Landsbanka Íslands hf. Hafi varnaraðili því eðli málsins samkvæmt ekki gefið verðbréfamiðstöð fyrirmæli um sölu hlutabréfa sóknaraðila. Viðskipti með hlutabréf sóknaraðila í Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. hafi því ekki farið fram í Kauphöll Íslands í kjölfar þessa. Því sé þannig alfarið mótmælt að hlutabréfin hafi verið seld og að andvirði sölunnar liggi sérgreint í formi peningaseðla í vörslu varnaraðila.
Framangreindu til stuðnings vísi varnaraðili til þess að sóknaraðili hafi verið með vörslureikning hjá honum þar sem bankinn hafi séð um vörslu hlutabréfaeignar sóknaraðila. Þar sem sala hinna umdeildu hlutabréfa hafi ekki farið fram hafi hlutabréfaeign sóknaraðila eðli málsins samkvæmt verið óbreytt inni á nefndum vörslureikningi.
Þann 9. október 2008 hafi Landsbankinn hf. tekið við innlendri starfsemi varnaraðila samkvæmt ákvörðun Fjármálaeftirlitsins þess efnis. Hafi Landsbankinn hf. þá tekið við hlutverki vörsluaðila af varnaraðila vegna verðbréfaeignar sóknaraðila, sbr. 5. gr. ákvörðunar Fjármálaeftirlitsins sem sé svohljóðandi: „Nýi Landsbanki Íslands hf. tekur frá og með 9. október 2008 kl. 9.00 við starfsemi sem Landsbanki Íslands hf. hefur haft með höndum og tengist hinum framseldu eignum, þ.m.t. aðild Landsbanka Íslands hf. að hvers konar greiðslukerfum. Jafnframt tekur Nýi Landsbanki Íslands hf. frá og með því tímamarki við réttindum og skyldum samkvæmt samningum um vörslu og eignastýringu við viðskiptavini Landsbanka Íslands hf. á Íslandi.“ Þann 9. október 2008 hafi vörslureikningi sóknaraðila hjá varnaraðila þannig verið ráðstafað til Landsbankans hf. sem hafi tekið við hlutverki sem vörsluaðili hlutabréfaeignar sóknaraðila. Við framsalið hafi í vörslu á reikningnum meðal annars verið hin umdeildu hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. og í Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. enda hafi bréfin ekki verið seld eins og að framan greini. Sé því þannig mótmælt sem ósönnuðu og röngu sem fram komi í greinargerð sóknaraðila að sala bréfanna hafi raunverulega átt sér stað. Þar sem sala bréfanna hafi ekki farið fram sé engin sérgreind eign í formi peningaseðla fyrir hendi í vörslu varnaraðila sem sóknaraðili eigi tilkall til. Landsbanki Íslands hf. hafi séð um vörslu bréfanna til 8. október 2008 en hin umdeildu bréf hafi verið inni á vörslureikningi sóknaraðila hjá varnaraðila þann 9. október 2008 þegar Landsbankinn hf. hafi tekið við því hlutverki sem varnaraðili hafi áður gegnt sem vörsluaðili reikningsins.
Málsástæðum sóknaraðila fyrir aðalkröfu um greiðslu kröfunnar utan skuldaraðar sé að öðru leyti mótmælt sem ósönnuðum og/eða tilhæfulausum. Þar sem varnaraðili telji að skilyrði fyrir greiðslu utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 séu ekki uppfyllt í máli þessu sé gerð krafa um að aðalkröfu sóknaraðila verði hafnað. Sé málsástæðum sóknaraðila fyrir kröfu um greiðslu kröfunnar utan skuldaraðar því mótmælt í heild sinni.
Með vísan til þeirra málsástæðna sem að framan greini mótmæli varnaraðili varakröfu sóknaraðila þar sem þess sé krafist að skaðabótakrafa sóknaraðila verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Ósannað sé með öllu að starfsmenn varnaraðila hafi með saknæmum og ólögmætum hætti valdið sóknaraðila tjóni. Þá sé staðhæfingum sóknaraðila um meinta vanrækslu eða athafnaleysi starfsmanna varnaraðila mótmælt sem ósönnuðum sem og staðhæfingum um meint brot varnaraðila á meginreglum II. kafla laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
Auk þess sem að framan greini byggi varnaraðili á að jafnvel þótt talið yrði að sóknaraðili hefði óskað eftir sölu hinna umdeildu hlutabréfa 1. október 2008 gæti það eitt og sér ekki leitt til bótaábyrgðar varnaraðila gagnvart sóknaraðila. Því sé mótmælt að beiðni um sölu hlutabréfa jafngildi því að sala eða viðskipti með hlutabréf komi til með að fara fram eins og sóknaraðili virðist byggja málatilbúnað sinn á. Þannig þurfi að vera einhver mótaðili sem vilji kaupa bréfin í samræmi við forsendur seljanda til þess að viðskipti geti farið fram. Með engu móti sé unnt að fallast á að fyrirmæli um framkvæmd viðskipta með hlutabréf sé ávísun á að viðskipti hafi gengið í gegn eða að af þeim muni verða. Í því samhengi vísi varnaraðili jafnframt til 10. gr. samnings um eignastýringu þar sem fram komi að bótaábyrgð bankans eða aðila á hans vegum nái ekki til tjóns sem viðskiptavinur kunni að verða fyrir í beinum eða óbeinum tengslum við efni samningsins nema að því leyti sem slíkt kunni að leiða af vanefndum sem rekja megi til stórfellds gáleysis eða ásetnings af hálfu starfsmanna bankans eða aðila tengdum honum. Varnaraðili mótmæli því annars vegar sem ósönnuðu að hann hafi vanefnt samninginn um eignastýringu gagnvart sóknaraðila og hins vegar, verði talið að slíkar vanefndir hafi átt sér stað, að slíkar vanefndir megi rekja til stórfellds gáleysis eða ásetnings af hálfu starfsmanna bankans. Verði hins vegar talið að sóknaraðili eigi lögvarða fjárkröfu á hendur varnaraðila sé þess krafist að hún njóti stöðu almennrar kröfu í réttindaröð samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 að því marki sem hún teljist vera fyrir hendi.
Gerður sé fyrirvari um fjárhæð lýstrar kröfu sóknaraðila í aðal- og varakröfu sóknaraðila.
Varnaraðili vísi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum, laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, laga nr. 30/2004 um vátryggingarsamninga og reglugerðar nr. 508/2000 um ábyrgðartryggingu verðbréfamiðlana. Þá vísi varnaraðili til almennra meginreglna samninga-, skaðabóta- og kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa varnaraðila sé byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
IV
Ágreiningur aðila málsins lýtur að því hvort Gunnar I. Hafsteinsson, fyrirsvarsmaður sóknaraðila, hafi í símtali 1. október 2008 komið fram fyrir hönd sóknaraðila og gefið varnaraðila þau fyrirmæli að hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. í eigu sóknaraðila skyldu seld. Ekki er deilt um það að í símtalinu hafi Gunnar óskað þess að bréf í Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. í hans persónulegu eigu skyldu seld. Fyrir liggur að bæði sóknaraðili og Gunnar áttu á þessum tíma hlutabréf í Landsbanka Íslands hf. og Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf.
Sóknaraðili byggir meðal annars á því að hann og Gunnar hafi verið flokkaðir saman af eignastýringu varnaraðila sem „Útgerðafélagið Frigg/Gunnar I. Hafsteinsson“ svo sem sjá megi af framlögðu yfirliti yfir eignasafn frá 15. september 2008. Þorvaldur Þorsteinsson fjármálaráðgjafi, fyrrum starfsmaður varnaraðila, kom fyrir dóminn og skýrði svo frá að skjal þetta hefði verið útbúið af honum. Þetta hafi verið eitt þriggja vinnuskjala sem hann hafi tekið saman fyrir fund með Gunnari. Hin tvö hafi sýnt annars vegar stöðu eignasafns sóknaraðila og hins vegar Gunnars. Á því skjali sem lagt hafi verið fram hafi hann tekið saman heildarstöðu þessara tveggja aðila þar sem honum hafi ekki fundist Gunnar átta sig á heildarstöðunni. Fjármunum og fjármálagerningum þeirra hafi verið haldið aðgreindum. Í ljósi þessa framburðar og gagna málsins þykir ekkert benda til þess að sóknaraðili og Gunnar I. Hafsteinsson hafi verið flokkaðir sem einn aðili af eignastýringu varnaraðila.
Endurrit símtals Gunnars I. Hafsteinssonar við starfsmann varnaraðila, fyrrnefndan Þorvald Þorsteinsson, liggur fyrir dóminum. Í upphafi símtalsins kynnir Gunnar sig með nafni. Nafn sóknaraðila kemur ekki fyrir í símtalinu. Ekki er heldur að finna að minnst sé á félag eða fyrirtæki eða nokkuð sem bendi til þess að verið sé að ræða hlutabréf annars aðila en Gunnars sjálfs, heldur notar hann orðalag eins og „...ég bara verð að koma mér eitthvað ...“. Það eina í símtalinu sem bendir til þess að Gunnar hafi haft sóknaraðila einnig í huga er svar hans við spurningu Þorvaldar um hvort hann eigi ekki að selja öll hlutabréf sem hann sé með: „Ja ég ætla að bíða aðeins með KB banka.“ Á þessum tíma voru engin hlutabréf í KB banka í eigu Gunnars en hins vegar átti sóknaraðili slík bréf. Þorvaldur skýrði svo frá fyrir dóminum að hann hefði ekki vitað á þeim tíma að bréfin í KB banka hefðu verið í eigu sóknaraðila, enda hafi hann ekki haft eignasafnið fyrir framan sig meðan á símtalinu hafi staðið. Bar Þorvaldur um það að hann hefði skilið samtalið svo að Gunnar hafi verið að óska eftir sölu á hlutabréfum í sinni persónulegu eigu.
Í málinu liggja einnig frammi endurrit símtals framangreindra aðila 2. október 2008 og tölvupóstsamskipti þeirra frá 3. október vegna framangreindra viðskipta. Í þeim samskiptum er heldur ekki minnst á sóknaraðila.
Í samningi milli aðila um eignastýringu segir í 8. gr. meðal annars að viðskiptavinur beri ábyrgð á því að fyrirmæli sem berist frá honum stafi frá honum og þau séu skýr og auðskiljanleg. Ef hann telji fyrirmæli óskýr skuli varnaraðili þó reyna að ná sambandi við viðskiptavin og gefa honum kost á að skýra þau. Verður að telja að sóknaraðili hafi borið ábyrgð á því að koma skýrum fyrirmælum til varnaraðila um sölu hlutabréfa í hans eigu hafi það verið ætlunin að þau yrðu seld. Ummæli um hlutabréf í KB banka þykja ekki geta breytt þessu, enda verður ekki talið að starfsmanni varnaraðila hafi verið skylt að kanna nánar eignarhald hlutabréfa sem ekki átti að selja. Þá hefur sú staðreynd að sóknaraðili hafi átt fleiri eignarhluti í Landsbanka Íslands hf. en Gunnar I. Hafsteinsson engin áhrif á þennan skilning, en að auki virðist Gunnar hafa átt talsvert fleiri hluti í Straumi-Burðarási fjárfestingabanka hf. en sóknaraðili.
Sóknaraðili hefur einnig borið því við að hugsanlegt sé að hlutabréf hans í Landsbanka Íslands hf. hafi verið seld, en ekkert liggi fyrir um fyrirmæli starfsmanns varnaraðila til verðbréfamiðstöðvar um sölu þeirra. Á framlögðu dómskjali sem sýnir hlutabréfaeign sóknaraðila 8. október 2008 kemur fram að bréf hans í Landsbanka Íslands hf. eru þá í eigu hans. Samrýmist það framburði starfsmanns varnaraðila um skilning hans á símtalinu 1. október. Liggur því fyrir að hlutabréfin voru ekki seld jafnhliða bréfum í eigu Gunnars I. Hafsteinssonar.
Samkvæmt því sem að framan er rakið verður ekki ráðið að sóknaraðili hafi komið þeim fyrirmælum á framfæri við varnaraðila að hlutabréf hans í Landsbanka Íslands hf. skyldu seld. Þykir sóknaraðili því ekki eiga kröfu á hendur varnaraðila og verður aðal- og varakröfu hans í málinu hafnað.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfum sóknaraðila, Útgerðafélagsins Friggjar ehf., á hendur varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.