Hæstiréttur íslands

Nr. 2023-139

Guðrún Kristín Svavarsdóttir (Hilmar Gunnarsson lögmaður)
gegn
íslenska ríkinu (Soffía Jónsdóttir lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Uppsögn
  • Niðurlagning stöðu
  • Stjórnsýsla
  • Opinberir starfsmenn
  • Meðalhóf
  • Rannsóknarregla
  • Réttmætisregla
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Björg Thorarensen og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 7. desember 2023 leitar Guðrún Kristín Svavarsdóttir leyfis Hæstaréttar, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, til að áfrýja dómi Landsréttar 10. nóvember 2023 í máli nr. 394/2022: Guðrún Kristín Svavarsdóttir gegn íslenska ríkinu. Gagnaðili leggst ekki gegn beiðninni.

3. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort uppsögn leyfisbeiðanda úr starfi hjá Landspítalanum 11. september 2020 hafi verið lögmæt. Staða hennar var lögð niður vegna skipulagsbreytinga en samtals voru lögð niður átta störf millistjórnenda hjá Landspítalanum í umrætt sinn.

4. Með dómi Landsréttar var héraðsdómur staðfestur um að sýkna gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda. Lagt var til grundvallar að ákvörðun Landspítalans um að breyta skipulagi og leggja niður starf leyfisbeiðanda hefði verið tekin í kjölfar heildstæðrar greiningar á því hvernig unnt væri að hagræða í starfseminni og nýta fjármuni spítalans á árangursríkari hátt og hún hefði ekki fært sönnur á að ákvörðunin byggðist á ómálefnalegum sjónarmiðum. Ekki var fallist á að skort hefði á að Landspítalinn rannsakaði hvort unnt hefði verið að segja upp öðrum starfsmönnum en leyfisbeiðanda, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Þá yrði ekki yrði séð að Landspítalinn hefði farið strangar í sakirnar en nauðsyn bar til við uppsögn leyfisbeiðanda, sbr. meðalhófsreglu 12. gr. stjórnsýslulaga. Ekki var tekið undir þann málatilbúnað leyfisbeiðanda að henni hefði verið sagt upp í því skyni að ráða annan hæfari starfsmann í starfið.

5. Leyfisbeiðandi byggir á því að niðurstaða málsins hafi verulegt almennt gildi. Í fyrsta lagi sé verulegt ósamræmi í dómaframkvæmd Landsréttar á þessu sviði. Í öðru lagi sé niðurstaða Landsréttar ekki í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar og álit umboðsmanns Alþingis um þýðingu meðalhófsreglu, réttmætisreglu og rannsóknareglu. Í þriðja lagi hafi ekki reynt á það fyrir Hæstarétti hvort stjórnvöldum sé heimilt að segja starfsmanni upp til þess að ráða annan sem stjórnvaldið telur hæfari. Þá byggir leyfisbeiðandi á því að dómur Landsréttar sé rangur þar sem lagt hafi verið til grundvallar að laus störf hjá Landspítalanum hafi ekki verið samboðin leyfisbeiðanda en gagnaðili hafi ekki byggt á þeirri málsástæðu.

6. Að virtum gögnum málsins er ekki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi, sbr. 1. málslið 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.