Hæstiréttur íslands
Mál nr. 151/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
- Gæsluvarðhald. B. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Miðvikudaginn 27. mars 2002. |
|
Nr. 151/2002. |
Ríkislögreglustjóri(Helgi Magnús Gunnarsson fulltrúi) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. a og b liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Hrafn Bragason, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. apríl nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað, til vara að kæranda verði í stað gæsluvarðhalds gert að sæta farbanni og til þrautavara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími.
Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.
Kærði er grunaður um brot gegn 155. gr. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og 264. gr. sömu laga, sbr. 4. gr. laga nr. 10/1997. Að því virtu og með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. mars 2002.
Ríkislögreglustjóri hefur krafist þess að X, kt. [...], erlendur ríkisborgari, verði gert, með vísan til a- og b liða 1. mgr 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðerð opinberra mála, að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. apríl nk. kl. 16.00
Í greinargerð ríkislögreglustjóra kemur fram að efnahagsbrotadeild Ríkislögreglustjórans hafi nú til rannsóknar meint brot S, J, kt. [...] og X, kt. [...] gegn 155. og 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Meint brot kærða X og félaga hans séu eftirfarandi og varði millifærslur og tilraunir til millifærslna inn á bankareikninga kærðu J í þrjú skipti, X í tvö skipti og konu að nafni N, kt. [...], í tvö skipti.
Þáttur J
Upphaf málsins hafi verið að efnahagsbrotadeild hafi borist frá breskum lögregluyfirvöldum beiðni um rannsókn á tveimur millifærslubeiðnum sem falsaðar höfðu verið og sendar í útibú LLOYDS TSK BANK þar sem óskað hafi verið millifærslna af bankareikningum fyrirtækisins TEDEN & CO inn á bankareikning á Íslandi. Önnur þessara tilrauna hafi tekist en í hitt skiptið mistókst tilraunin. Nánar tiltekið hafi verið um að ræða eftirfarandi færslubeiðnir og millifærslur þar sem bankareikningar í nafni kærða J í Landsbanka Íslands hf. komi við sögu.
Þann 17.04.2001, hafi verið sviknar út GBP 18.947, með falsaðri skriflegri beiðni um millifærslu af bankareikningi TEDEN & CO frá LLOYDS TSK BANK inn á bankareikning nr. [...], í Landsbanka Íslands hf. Peningarnir hafi verið teknir út af kærða J.
Þann 27.04.2001, hafi síðan verið gerð tilraun til fjársvika að fjárhæð GBP 18.947. Með því að nota falsaða skriflega beiðni um millifærslu af bankareikningi TEDEN & CO frá LLOYDS TSK BANK inn á bankareikning nr. [...] í Landsbanka Íslands hf. Millifærslan hafi ekki verið gerð af breska bankanum.
Þann 13. september sl. hafi tilkynning borist frá Landsbanka Íslands til efnahagsbrotadeildar á grundvelli laga um varnir gegn peningaþvætti, um að J hafi fengið 11.09.2001 millifærðar GBP 19,500 inn á bankareikning nr. [...] sem hann eigi í Landsbanka Íslands hf. Millifærslan hafi verið fengin fram á sama hátt og hinar með falsaðri skriflegri beiðni um millifærslu af bankareikningi NICEM Limited, í Northern Bank LTD. í Belfast á Norður-Írlandi. Skömmu eftir millifærsluna hafi Landsbankanum borist beiðni um afturköllun hennar vegna þess að um fjársvik væri að ræða. Þegar efnahagsbrotadeild hóf afskipti af málinu hafði J tekið megnið af peningunum út af bankareikningnum í LÍ og lagt þá inn á bankareikning sinn í Búnaðarbanka Íslands hf., nr. [...], eða kr. 2.614.860. Efnahagsbrotadeild hafi nú haldlagt þessa peninga með vísan til 78. gr. laga nr. 19, 1991, vegna rannsóknar málsins.
J hafi verið handtekinn 27. september sl. og setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, til 26. október sl. Hann hafi sætt farbanni frá 26. október sl.
Þáttur X
Lögreglu hafi borist 13. september sl. peningaþvættistilkynning frá Landsbanka Íslands hf. um að X, hafi fengið greitt inn á bankareikning sinn [...], tvær greiðslur frá breskum banka af bankareikningi bresks fyrirtækis.
Þann 23.08.01 hafi millifærsla borist af bankareikningi NICEM Limited, í Northern Bank LTD í Belfast að fjárhæð GBP 19.500. Skömmu seinna hafi borist beiðni um að millifærsla þessi yrði stöðvuð vegna þess að um fjársvik væri að ræða, en þá hafði X tekið peningana út.
Þann 04.09.01 hafi síðan borist önnur millifærsla af bankareikningi NICEM Limited, í Northern Bank LTD í Belfast að fjárhæð GBP 19.500. Skömmu seinna hafi borist beiðni um að millifærsla þessi yrði stöðvuð vegna þess að um fjársvik væri að ræða, en þá hafði X tekið peningana út.
Um sé að ræða sama aðila NICEM sem hafi orðið fyrir svikum og kærði J tók við fé frá þann 11.09.2001, auk þess sem um sömu fjárhæðir sé að ræða.
X hafi verið leitað frá því að málið kom upp og hafi hann verið eftirlýstur 12. október sl. á Shengen svæðinu með það fyrir augum að krefjast framsals á honum vegna rannsóknar málsins. Þann 15. mars sl. kl. 17.45 að staðartíma hafi X verið handtekinn í Växjö í Svíþjóð. Síðan þá hafi verið unnið að því að fá X framseldan og hafi hann verið fluttur til Íslands kl. 16.00 í gær föstudaginn 22. mars eftir að hann féllst á að verða framseldur til íslenskra lögregluyfirvalda.
Þáttur N
Þann 18. júní sl. hafi efnahagsbrotadeild borist peningaþvættistilkynning frá Íslandsbanka FBA hf. um tvær tilraunir til millifærslna af breskum bankareikningum þarlends fyrirtækis inn á reikning N í Íslandsbanka FBA hf..
Þann 13. júní sl. hafi borist beiðni frá National Westminister Bank, í London um að Íslandsbanki FBA hf. millifærði inn á bankareikning í nafni N, nr. [...], í bankanum GBP 8.500. Millifærslan hafi verið gerð að beiðni erlends aðila P.B. Conway. Daginn eftir hafi Íslandsbanka FBA hf. borist beiðni um afturköllun frá hinum erlenda banka með þeirri skýringu að um fjársvik hafi verið að ræða og var millifærslan bakfærð af reikningnum. Ekki hefði verið gerð tilraun til að taka féð út áður en greiðslan hafi verið bakfærð.
Þann 12. júní sl. hafi Íslandsbanka FBA hf. síðan borist millifærslubeiðni frá Barclays Bank London, um greiðslu sömu fjárhæðar GBP 8.500 inn á sama bankareikning í bankanum í nafni N. Skömmu seinna hafi afturköllunarbeiðni borist vegna þess að um fjársvik hafi verið að ræða og hafi millifærslan verið bakfærð.
Þáttur kærða S
J hafi í yfirheyrslum hjá lögreglu gefið þær skýringar að S hafi beðið sig að lofa sér að nota bankareikning hans til að taka á móti fé erlendist frá. Hann hefur neitað að vita að um svikið fé væri að ræða en hann hafi afhent honum féð sem hann hafi tekið út eftir millifærsluna 17.04.2001. Hann hafi fengið fyrir þetta greiddar u.þ.b. 300.000 krónur sem þóknun. Seinni greiðsluna í september hafi hann síðan tekið út og fært inn á reikninginn í Búnaðarbankanum. Hann hafi borið að S hafi verið í samvinnu við X og N á sama hátt og hann, þ.e. að þau hafi átt að taka við millifærslum erlendis frá fyrir S inn á bankareikninga sína gegn greiðslu. Sambýliskona J, Í, kt. [...], hafi borið á sama veg.
N hafi verið yfirheyrð vegna málsins og sé framburður hennar á sama veg og J að S hafi fengið hana til að leyfa honum að millifæra fé inn á reikning í hennar nafni. Hún hafi síðan neitað að taka féð út eftir að hana fór að gruna að S væri ekki vel að þessu fé kominn og hafi millifærslan verið bakfærð af bankanum eftir að svikin voru tilkynnt til bankans. Hafi hún borið að S hafi gengið hart eftir sér um að taka féð út og afhenda sér. S hafi ekki lofað henni neinni greiðslu en um vinargreiða hafi verið að ræða.
Leit hafi veirð gerð á heimili S og sambýliskonu hans, H kt. [...], [...], Reykjavík, að kvöldi 28. september sl. og hafi þá fundist pappírar sem á voru skrifuð nöfn á erlendum fyrirtækjum og bönkum þar á meðal nöfnin NICEM og TEDEN, hverra fé hafi verið millifært með svikum inn á reikninga þeirra J og X sem fyrr segi. Auk þess sem þar sé getið fjárhæða og dagsetninga sem passi við tímasetningar framangreindra millifærslna. Þrátt fyrir framburði þeirra J og N og það að á heimili hans hafi fundist fyrrnefnd gögn hafi S neitað sök í málinu.
Kærði S hafi verið handtekinn 28. september sl. og setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, til 26. október sl. Hann hafi sætt farbanni frá þeim tíma.
Eins og rakið sé að framan hafi kærðu tekist að svíkja út með þeim fjórum millifærslum sem teknar voru út jafnvirði rúmlega 10 milljón króna og hafi gert tilraun til að svíkja út jafnvirði rúmlega 5 milljóna í viðbót með þremur millifærslum.
Rannsókn máls þessa hafi tafist vegna tilrauna lögreglu til að hafa upp á kærða X, en rannsókn málsins muni nú geta miðað áfram. X hafi verið yfirheyrður einu sinni skömmu eftir komu frá Svíþjóð. Gæsluvarðhaldstíminn muni verða notaður til að ljúka rannsókn málsins einkum að því er varði þátt X og sé vonast til að hægt verði að gefa út ákæru og hefja dómsmeðferð málsins fyrir lok gæsluvarðhaldstímans.
Í þágu rannsóknar málsins sé nauðsyn að einangra X frá félögum sínum meðan upplýst sé um hans þátt í málinu og eftir atvikum framburður hans sé borinn undir þá sé því lögreglu nauðsyn á að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991, til að koma í veg fyrir að hann torveldi rannsókn málsins með því að hafa áhrif á vitni eða samseka.
Ætla megi að kærði muni reyna að komast úr landi, eins og raun hafi orðið á eftir að hann framdi brot sín, eða koma sér með öðrum hætti undan málssókn og eða fullnustu refsingar, sbr. b-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 með því að vera ekki tiltækur við fyrirhugaða dómsmeðferð málsins og beri því nauðsyn til að hefta ferðafrelsi hans. Lögreglu sé ekki nægjanlegt til að tryggja nærveru kærða X að hann sæti úrræðum 110. gr. laga nr. 19, 1991, þrátt fyrir að lögregla hafi í höndum vegabréf hans, þar sem hann geti farið hvert sem er innan Schengen svæðisins án vegabréfsskoðunar.
Krafa þessi áréttist.
Samkvæmt því sem fram kemur í málavaxtalýsingu hér að framan svo og með vísan til rannsóknargagna er rökstuddur grunur fyrir hendi um að kærði hafi gerst sekur um brot sem varðað geta hann fangelsisrefsingu ef sönnuðust. Kærði hefur neitað sakargiftum í málinu og kannast ekki við þær bankamillifærslur og tilraunir til millifærslna sem honum er gefið að sök. Rannsókn á þætti kærða í málinu er á frumstigi og er fallist á að nauðsyn beri til að hann sæti gæslu meðan upplýst er um þátt hans í málinu. Telja verður að fullnægt sé skilyrði a liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um gæsluvarðhald hans.
Kærði er erlendur ríkisborgari. Nauðsynlegt er að tryggja nærveru hans vegna rannsóknar málsins og fyrirhugaðrar dómsmeðferðar þess. Ekki verður talið að farbann samkvæmt. 110. gr. laga nr. 19/1991 sé fullnægjandi úrræði til þess að hefta ferðafrelsi hans.
Með vísan til þessa og rannsóknargagna málsins er fallist á kröfu ríkislögreglustjóra um gæsluvarðhald kærða eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Ekki eru efni til að gæsluvarðhaldinu sé markaður skemmri tími en krafist er.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 19. apríl nk. kl. 16.00.