Hæstiréttur íslands
Mál nr. 53/2014
Lykilorð
- Áfrýjun
- Lögráðamaður
- Kynferðisbrot
- Börn
- Skilorð
- Einkaréttarkrafa
|
|
Fimmtudaginn5. júní 2014. |
|
Nr. 53/2014.
|
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Kristján Stefánsson hrl.) (Margrét Gunnlaugsdóttir hrl. Guðrún Sesselja Arnardóttir hrl. Þórdís Bjarnadóttir hrl. réttargæslumenn) |
Áfrýjun. Lögráðamaður. Kynferðisbrot. Börn. Skilorð. Einkaréttarkrafa.
X var ákærður fyrir að hafa haft samræði og önnur kynferðismök við stúlkurnar A, B, C. Lögráðamaður X hafði við birtingu héraðsdóms lýst því yfir að málinu yrði ekki áfrýjað, en X sjálfur síðar lýst yfir áfrýjun. X var aðeins talinn bundinn af yfirlýsingu lögráðamanns síns varðandi einkaréttarkröfur A, B og C. X var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en við ákvörðun refsingar var litið til þess að S var á svipuðum aldri eða þroskastigi og A og C. Hann var dæmdur í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til að greiða A 800.000 krónur, B 800.000 krónur og C 1.200.000 krónur í skaðabætur auk vaxta.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. desember 2013 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing verið milduð. Að því er varðar einkaréttarkröfur er þess aðallega krafist að þeim verði vísað frá dómi, til vara að ákærði verði sýknaður af þeim, en að því frátöldu að þær verði lækkaðar.
A krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 2.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. desember 2011 til 21. janúar 2013 en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
B krefst þess að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 1.000.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 1. maí 2012 til 6. október sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
C krefst þess aðallega að ákærði verði dæmdur til að greiða sér 2.500.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 frá 26. júlí 2012 til 5. desember sama ár en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Til vara er krafist staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að dráttarvextir reiknist frá 5. desember 2012.
I
Hinn áfrýjaði dómur var birtur 6. desember 2013 fyrir móður ákærða en hann var þá ólögráða fyrir æsku sakir. Við birtinguna lýsti hún því yfir fyrir hönd ákærða að hann yndi dómi. Með bréfi 16. sama mánaðar lýsti ákærði því yfir að hann áfrýjaði dóminum til Hæstaréttar til að fá endurskoðun bæði á refsiþætti málsins og einkaréttarkröfum á hendur sér. Bréfið var áritað af móður ákærða um staðfestingu hennar sem fjárhaldsmanns hans. Áfrýjunarstefna var svo gefin út 17. desember eins og áður greinir.
Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála kemur lögráðamaður fram sem fyrirsvarsmaður sakbornings eftir því sem þörf krefur. Tekur lögráðamaður ákvarðanir fyrir hönd hins ólögráða sem hann er ekki talinn bera skynbragð á eða fær um að taka. Ákærði var bær um að taka ákvörðun um áfrýjun héraðsdóms vegna refshliðar málsins. Af þeim sökum er hann ekki bundinn að því leyti af fyrrgreindri yfirlýsingu lögráðamanns síns um að dómi væri unað. Ákærði var aftur á móti ófjárráða og gat því ekki tekið ákvörðun um áfrýjun sem laut að skaðabótakröfum á hendur sér. Að því marki er hann bundinn af yfirlýsingu lögráðamannsins og getur því ekki leitað endurskoðunar á niðurstöðu dómsins um þær kröfur. Brotaþolar geta á hinn bóginn leitað endurskoðunar á dóminum að því leyti, sbr. 3. mgr. 196. gr. laga nr. 88/2008.
II
Samkvæmt 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 varðar refsingu að hafa samræði eða önnur kynferðismök við barn yngra en 15 ára. Fyrir Hæstarétti var því borið við af hálfu ákærða að hann hefði staðið í þeirri trú að sá brotaþoli sem 2. liður ákæru tekur til væri fædd árið 1997 og því verið 15 ára gömul þegar ætlað brot var framið. Af þeim sökum væri háttsemin refsilaus. Fyrir héraðsdómi játaði ákærði þetta brot og önnur sem honum eru gefin að sök og sætti málið meðferð samkvæmt 164. gr. laga nr. 88/2008. Við yfirheyrslu hjá lögreglu 14. júní 2012 sagði ákærði um samskipti sín við umræddan brotaþola að sig minnti að hún hefði sagt sér að hún væri einu ári yngri en hann eða fædd árið 1997 „15 ára held eða 14.“ Þótt ákærði hafi talið brotaþola fædda árið 1997, eins og segir í ákæru, innti hann hana ekki nánar eftir aldri og skeytti þar með í engu um hvort hún væri orðin 15 ára, en stúlkan var þá aðeins 12 ára. Að þessu gættu er játning ákærða í samræmi við sakargögn og verður héraðsdómur staðfestur um sakfellingu ákærða í öllum atriðum.
Samkvæmt síðari málslið 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga má lækka refsingu eða láta hana falla niður ef gerandi og þolandi voru á svipuðum aldri eða þroskastigi. Þessari heimild ber að beita við ákvörðun refsingar vegna 1. og 3. liðar ákæru, en ákærði er rúmu ári eldri en annar brotaþola og tæpum þremur árum eldri en hinn. Aftur á móti hefur heimildin ekki áhrif við ákvörðun refsingar vegna 2. liðar ákæru, en ákærði er þremur árum og rétt tæpum átta mánuðum eldri en sá brotaþoli. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um refsingu ákærða og skilorðsbindingu hennar.
Í málinu er komið fram að brot ákærða hafa valdið öllum brotaþolum vanlíðan. Verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um einkaréttarkröfur á hendur ákærða að öðru leyti en því að krafa C ber dráttarvexti frá 5. desember 2012 en þá var mánuður liðinn frá því bótakrafan var borin undir lögráðamann ákærða.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða staðfest.
Ákærði verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns og þóknun réttargæslumanna brotaþola, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en upphafsdag dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af einkaréttarkröfu C og skulu þeir reiknaðir frá 5. desember 2012.
Ákærði, X, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 978.775 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur og þóknun réttargæslumanna brotaþola, hæstaréttarlögmannanna Margrétar Gunnlaugsdóttur, Þórdísar Bjarnadóttur og Guðrúnar Sesselju Arnardóttur, 188.250 krónur til hverrar þeirra um sig.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 15. nóvember 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. nóvember síðastliðinn, var höfðað með ákæru ríkissaksóknara, útgefinni 4. júlí síðastliðinn, á hendur X, kennitala [...], „fyrir eftirgreind kynferðisbrot framin í Reykjavík:
- Gegn A, [...], með því að hafa í byrjun desember 2011, er stúlkan var 14 ára, inni á salerni í [...], haft endaþarmsmök við stúlkuna.
- Gegn B, [...], með því að hafa þann 1. maí 2012, er stúlkan var 12 ára, inni á salerni á [...], snert brjóst hennar innanklæða, sett fingur í kynfæri hennar og látið hana taka um getnaðarlim sinn og fróa sér, en ákærði taldi að stúlkan væri fædd árið 1997.
- Gegn C, [...], með því að hafa dagana 26. júlí og 2. ágúst 2012, er stúlkan var 13 ára, á heimili stúlkunnar [...], haft samræði við hana.
Teljast brot þessi varða við 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga 19/1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkröfur:
Af hálfu D, [...], f.h. ólögráða dóttur sinnar, A, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 20. desember 2011 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt en með dráttarvöxtum skv. 9. gr., sbr. 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Af hálfu E, kt. [...], og F, kt. [...], f.h. ólögráða dóttur þeirra B, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 1.000.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 1. maí 2012 þar til mánuður er liðinn frá því að bótakrafa þessi er birt en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun.
Af hálfu G, [...], f.h. ólögráða sinnar, C, er þess krafist að ákærði verði dæmdur til að greiða henni miskabætur að fjárhæð kr. 2.500.000 auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 26. júlí 2012 en síðan dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómara eða samkvæmt síðar framlögðum reikningi, auk virðisaukaskatts á málskostnað.“
Ákærði hefur fyrir dómi skýlaust játað að hafa framið brot þau sem honum eru gefin að sök í ákærunni og er játning hans studd sakargögnum. Það eru því efni til að leggja dóm á málið samkvæmt 1. mgr. 164. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. Samkvæmt þessu verður ákærði sakfelldur fyrir brotin sem eru réttilega færð til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákærði er nú 17 ára. Hann var 15 ára þegar hann framdi brotið í 1. ákærulið og 16 ára þegar hann framdi brotin í hinum ákæruliðunum. Ákærði hefur játað brot sín. Honum hefur ekki áður verið refsað. Þá hefur hann frá því í ágúst 2012 gengið til sálfræðings og leitast við að ráða bót á óviðeigandi kynhegðun sinni. Samkvæmt þessu verður refsing hans ákveðin 18 mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði segir.
Forráðamaður ákærða hefur hafnað bótakröfum brotaþola. Ákærði olli brotaþolum miska með brotum sínum og ber honum því að greiða þeim bætur, sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Þykja bætur til brotaþola í 1. og 2. lið ákæru hæfilega ákveðnar 800.000 krónur til hvorrar en bætur til brotaþola í 3. lið eru hæfilega ákveðnar 1.200.000 krónur. Bæturnar skulu bera vexti eins og í dómsorði segir. Miðast upphaf dráttarvaxta við þann tíma er liðnir voru 30 dagar frá því að forráðamanni brotaþola voru birtar kröfurnar.
Loks verður ákærði dæmdur til að greiða sakarkostnað og málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns og laun réttargæslumanna brotaþola, að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun málsvarnarþóknunar verjandans hefur verið tekið tillit til kostnaðar við vottorð sálfræðings.
Arngrímur Ísberg héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð :
Ákærði, X, sæti fangelsi í 18 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum 2 árum frá deginum í dag að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði A 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8 gr. vaxtalaga frá 20. desember 2011 til 21. janúar 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði B 800.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8 gr. vaxtalaga frá 1. maí 2012 til 6. október sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði C 1.200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8 gr. vaxtalaga frá 26. júlí 2012 til 20. september 2013 en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 114.000 krónur í sakarkostnað, málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Stefáns Karls Kristjánssonar hdl., 626.875 krónur. Enn fremur skal ákærði greiða þóknun réttargæslumanna brotaþola, Ingu Lillýjar Brynjólfsdóttur hdl., Þórdísar Bjarnadóttur hrl. og Elvu Daggar Ásudóttur Kristinsdóttur hdl., 251.000 krónur til hverrar.