Hæstiréttur íslands
Mál nr. 672/2011
Lykilorð
- Nauðgun
- Kynferðisbrot
|
|
Fimmtudaginn 10. maí 2012. |
|
Nr. 672/2011.
|
Ákæruvaldið (Kolbrún Benediktsdóttir saksóknari) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Nauðgun. Kynferðisbrot.
X var ákærður fyrir nauðgun með því að hafa haft samræði við A sem ekki gat spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Talið var að matsgerð sem fyrir lá í málinu leiddi ekki til þess að fullyrða mætti um ölvunarástand A þegar atvik gerðust. Þá yrði mat á sekt X ekki reist á vottorði sálfræðings. Voru hvorki talin efni til þess að sakfella X né neyta heimildar 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm. Var X því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson og Helgi I. Jónsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. desember 2011 og krefst þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og honum gerð refsing en til vara að héraðsdómur verði ómerktur og málinu heimvísað.
Ákærði krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti en til vara staðfestingar héraðsdóms.
Krafa ákærða um frávísun málsins frá Hæstarétti er á því reist að ákvæði 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála standi því í vegi að ákæruvaldið geti gert kröfu fyrir Hæstarétti um sakfellingu samkvæmt ákæru. Niðurstaða héraðsdóms sé reist á mati á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitna sem Hæstiréttur geti ekki samkvæmt ákvæðinu endurmetið nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi. Vísar ákærði um þetta til dóms Hæstaréttar 20. október 2011 í máli nr. 243/2011. Þá telur ákærði að þar sem krafa ákæruvalds um heimvísun máls hafi ekki komið fram í áfrýjunarstefnu, sbr. c. lið 2. mgr. 201. gr. laga nr. 88/2008 geti hún ekki komið til álita hér fyrir dómi.
Eins og greinir í hinum áfrýjaða dómi er ákærða í máli þessu gefin að sök nauðgun samkvæmt 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 22. október 2010 haft samræði við A sem ekki hafi getað spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Fyrir Hæstarétti reisir ákæruvaldið kröfu sína um sakfellingu ákærða einkum á því að héraðsdómur hafi við niðurstöðu sína hvorki litið til vottorðs E sálfræðings 13. maí 2011 um andlega hagi A eftir atburðinn né nægilega til gagna um ölvunarástand hennar samkvæmt rannsókn á blóðsýni. Ekki sé verið að krefjast endurmats á framburði ákærða og vitna heldur eigi þessi atriði að leiða til sakfellingar ákærða. Vísar ákæruvaldið um þetta til dóms Hæstaréttar 19. maí 2011 í máli nr. 571/2010. Um varakröfu sína vísar ákæruvaldið einnig til framangreindra atriða sem auk annars eigi að leiða til þeirrar ályktunar að héraðsdómur hafi heldur ekki metið réttilega framburð ákærða og vitna.
Þótt héraðsdómur hafi metið trúverðugleika framburðar stendur það ekki í vegi fyrir áfrýjun til sakfellingar ákærða, sbr. c. lið 1. mgr. 196. gr., 1. mgr. 197. gr. og c. lið 2. mgr. 201. gr. laga nr. 88/2008. Verður því ekki fallist á kröfu ákærða um frávísun málsins frá Hæstarétti. Samkvæmt síðastgreindu ákvæði var ákæruvaldinu rétt að tilgreina þegar í áfrýjunarstefnu kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms og heimvísun málsins. Það stendur því þó ekki í vegi að til athugunar komi hvort slíkir gallar hafi verið á meðferð máls í héraði að ómerkja beri héraðsdóm þar sem þetta er atriði sem Hæstiréttur aðgætir án kröfu, sbr. 1. mgr. 204. gr. laga nr. 88/2008.
Framburður ákærða og vitna er rakinn í héraðsdómi, sem og önnur gögn málsins. Í forsendum dómsins er blóðsýni sagt hafa verið tekið úr A „um klukkan 14“ föstudaginn 22. október 2010, en það mun hafa verið gert „um klukkan 16“, eins og fram kemur í vottorði Rannsóknarstofu í lyfja og eiturefnafræði og einnig á öðrum stað í dóminum. Hinn 17. mars 2011 óskaði ríkissaksóknari eftir því við rannsóknarstofuna að metinn yrði mögulegur etanólstyrkur í blóði A um klukkan 5 að morgni 22. október 2010, eða einum til tveimur tímum eftir að atvik eiga að hafa gerst sem ákært er vegna. Eins og nánar greinir í héraðsdómi eru í áliti rannsóknarstofunnar, sem staðfest var fyrir dómi, gerðir ýmsir fyrirvarar við áreiðanleika niðurstöðu rannsóknar á blóðsýninu. Lúta þeir að einstaklingsbundnum þáttum þess sem blóðsýni gefur, aðferð við sýnatöku og atvikum að öðru leyti. Samkvæmt þessu og öðru því sem rakið er í héraðsdómi um framburð ákærða og vitna verður staðfest niðurstaða hans um að matsgerðin leiði ekki til þess að fullyrða megi um ölvunarástand A þessa nótt. Þá eru niðurstöður E sálfræðings einungis reistar á tveimur viðtölum hennar við A 4. nóvember 2010 og 11. maí 2011. Verður mat á sekt ákærða ekki reist á vottorði hennar. Fjölskipaður héraðsdómur reisti niðurstöðu sína um sýknu meðal annars á framburði ákærða og vitna, en samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 verður sú niðurstaða ekki endurmetin til sakfellingar ákærða fyrir Hæstarétti.
Framangreind atriði leiða til að hvorki eru efni til þess að sakfella ákærða né neyta heimildar 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 til að ómerkja hinn áfrýjaða dóm. Verður hann því staðfestur og áfrýjunarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands vestra 17. nóvember 2011.
I
Mál þetta, sem dómtekið var 21. október sl., höfðaði ríkissaksóknari 25. mars 2011 með ákæru á hendur X, fæddum 5. mars 1975, til heimilis að [...], [...], fyrir nauðgun, með því að hafa aðfaranótt föstudagsins 22. október 2010, að [...] á [...], haft samræði við A og við það notfært sér að A gat ekki spornað við verknaðnum sökum ölvunar og svefndrunga.
Telst þetta varða við 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 3. gr. laga nr. 61/2007.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa
Af hálfu A, kennitala [...], er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu miskabóta að fjárhæð kr. 1.800.000 auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 21. október 2010 þar til mánuður er liðinn frá birtingu skaðabótakröfu en með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 9. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá er þess krafist að ákærði verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun
Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hann verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast heimila. Þá krefst hann þess aðallega að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð verulega. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður, þar með talin hæfileg málsvarnarlaun verjanda, greiðist úr ríkissjóði.
II
Samkvæmt frumskýrslu lögreglu er upphafi máls þessa lýst þannig að um kl. 06:00 föstudaginn 22. október 2010 hringdi brotaþoli, A, sem þá var stödd að [...] [...] í foreldra sína sem staddir voru á heimili sínu í Reykjavík. Í skýrslunni er því lýst að brotaþoli hafi verið miður sín og grátandi og hún hafi sagt foreldrum sínum að hún hafi vaknað við að karlmaður var að hafa samfarir við hana. Foreldrar brotaþola, B og C, hafi ákveðið að aka norður á [...] til brotaþola og þau hafi verið komin þangað milli klukkan 10:00 og 11:00 um morguninn en hitt brotaþola um kl. 11:30. Hún hafi þá verið miður sín og ekki vel áttuð um það sem gerðist um nóttina. Í skýrslunni er jafnframt tekið fram að B hafi hringt á Heilsugæsluna á [...] og rætt við D félagsmálastjóra og leitað ráða um það hvað þau ættu að gera. D hafi útvegað tíma hjá Neyðarmóttöku Landspítala Háskólasjúkrahúss í Fossvogi. B hafi einnig haft samband við Stígamót og fengið þar ráðleggingar um að taka rúmfötin úr rúminu og hafa þau með til Neyðarmóttökunnar. Brotaþoli og foreldrar hennar lögðu af stað frá [...] til [...] um kl. 13:00 og voru mætt á Neyðarmóttöku kl. 16:10 þar sem brotaþoli fór í skoðun. Rúmfötin og peysa voru tekin í vörslur Neyðarmóttökunnar. Brotaþoli fékk upplýsingar um lögmann sem hún gæti rætt við. Þriðjudaginn 26. október hafði brotaþoli samband við Þórdísi Bjarnadóttur hæstaréttarlögmann og fékk hjá henni leiðbeiningar og ráðgjöf vegna málsins.
Föstudaginn 19. nóvember 2010 mætti brotaþoli ásamt Þórdísi Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanni til kynferðisbrotadeildar LRH og lagði fram kæru á hendur X fyrir kynferðisbrot. Í framhaldi af því tók lögreglan skýrslur af ákærða og vitnum auk þess sem vettvangur að [...], [...] var rannsakaður. Þá voru gögn sótt til Neyðarmóttöku og sett í rannsókn hjá tæknideild. Sæði fannst í rúmfötunum en ekki þótti ástæða til að gera samanburðarrannsóknir þar sem kærði hafi viðurkennt að hafa haft kynmök við brotaþola.
Brotaþoli átti tvö viðtöl við E sálfræðing hið fyrra í byrjun nóvember á síðasta ári og hið síðara 11. maí sl. Nefndur sálfræðingur ritaði vottorð sem er meðal gagna málsins. Í því kemur fram að brotaþoli hafi gengist undir þrjú tilgreind próf. Í niðurlagi vottorðsins kemur m.a. fram að sálfræðingurinn telur brotaþola vera trúverðuga og samkvæma sjálfri sér. Viðmót hennar bendi til þess að hún hafi upplifað mikla ógn, ótta og bjargarleysi. Niðurstöður greiningarmats sýni að hún þjáist af áfallastreituröskun í kjölfar ætlaðs kynferðislegs ofbeldis. Niðurstöður sjálfsmatskvarða sýni vægari einkenni en niðurstöður greiningarviðtals gaf til kynna. Það misræmi endurspegli áberandi löngun brotaþola til að forðast að takast á við afleiðingar ætlaðrar nauðgunar. Auk þessa upplifi hún einkenni þunglyndis. Í niðurlagi vottorðsins kemur einnig fram að sálræn einkenni brotaþola í kjölfar áfallsins samsvari einkennum sem eru þekkt hjá fólki sem hefur upplifað alvarleg áföll eins og líkamsárás, nauðgun, stórslys eða hamfarir.
III
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann þekkti brotaþola ekki en hann hafi hitt hana einu sinni áður og vitað að hún var í sambandi við mann sem hafi verið með honum [...]. Ákærði greindi frá því að hann hefði verið á tónleikum með félögum sínum á skemmtistað þetta kvöld og brotaþoli gefið sig á tal við hann en á þeim tíma hafi hann setið við borð með félögum sínum og drukkið bjór. Hann bar að það hafi farið ágætlega á með honum og brotaþola. Síðar um kvöldið hafi hann, brotaþoli og X farið heim til F en hann hafi ekki getað stoppað þar lengi. Þegar hann var að fara heim til sín hafi brotaþoli innt hann eftir því hvort hann þyrfti að fara og hann játað því. Hún hafi ekki viljað að hann færi og þá hafi hann boðið henni og F að koma til sín og það hafi þau gert stuttu síðar en þá hafi klukkan verið rúmlega tólf. Á þessum tíma hafi ekkert verið í gangi á milli hans og brotaþola annað en smá daður en honum hafi ekki líkað illa við hana og henni ekki við hann.
Ákærði greindi frá því að þegar brotaþoli og F komu til hans hafi þau farið inn í stofu og spjallað auk þess sem rauðvínsflaska hafi verið opnuð. Síðar um kvöldið hafi brotaþoli farið inn á klósett og hann hafi farið á eftir henni en áður hefðu þau haldist í hendur og einhverjar augngotur gengið á milli þeirra. Inni á klósettinu hafi hann kysst brotaþola en hún hafi vikið sér undan og sagt „ég elska [...]“ hann hafi þá sagt „ég elska [...]“ en í framhaldi af því hafi hún kysst hann. Síðan hafi þetta fjarað út eins og ákærði komst að orði en hann mundi ekki hve lengi þau voru inni á salerninu en það hafi ekki verið í langa stund, örfáar mínútur. Ákærði mundi ekki til þess að F hefði bankað á baðherbergisdyrnar meðan þau voru þar inni. Eftir þetta hafi þau sest inn í stofu hjá F og fljótlega eftir það hafi þau farið af heimili hans. Aðspurður um ástæðu þess að brotaþoli og F fóru sagði ákærði að F hafi sakað hann um að vera að reyna við brotaþola og þau hafi yfirgefið heimili hans. Ákærði mundi eftir því að þetta kvöld hafi glas brotnað í stofunni hjá honum og taldi hann að hundurinn hans hefði velt því um koll. Hann hafi þrifið upp glerbrotin eftir að brotaþoli og F fóru og síðan lagst í sófann fyrir framan sjónvarpið og dottað í u.þ.b. klukkustund án þess þó að hann viti það nákvæmlega. Þegar hann rankaði við sér hafi hann tekið eftir peysu í sófanum sem hann á þeim tíma hélt að tilheyrði brotaþola. Hann hafi tekið peysuna og gengið að heimili brotaþola en sjálfsagt hafi hann langað til að hitta hana. Vissulega hefði hann getað skilað peysunni daginn eftir eða hvenær sem var. Útidyrnar hafi verið opnar en hann hafi bankað á dyrnar inn í íbúðina, opnað þær og kallað „halló.“ Á þessum tíma hafi hann ekki vitað hvort F væri staddur hjá brotaþola. Honum hafi verið svarað með sama hætti og hann gengið inn og séð brotaþola sitjandi á rúmi, með fæturna undir sér, innst í íbúðinni í herbergi sem er gengt salerninu sem kalla megi aðal svefnherbergi íbúðarinnar. Ákærði bar að samfarirnar hafi ekki átt sér stað í gestaherbergi sem er í íbúðinni. Hann hafi sagt við hana að hann væri með peysuna hennar en hún hafi ekki svarað því neinu. Í framhaldi af því hafi hann sest við hlið hennar og þau farið að kyssast og eitt leitt af öðru. Hann hafi afklætt þau bæði og í framhaldi af því hafi þau haft samfarir. Aðspurður bar ákærði að brotaþoli hefði tekið þátt í kynlífinu en hann hafi klætt hana úr fötunum. Kynlífið hafi verið ósköp eðlilegt, hún hafi tekið utanum hann, kysst hann og stunið. Hann hafi fengið sáðlát og að því loknu hafi hún spurt hvort hann vildi ekki kúra aðeins lengur hjá honum. Síðan hafi hún risið upp og gubbað aðeins á gólfið. Hann hafi farið inn í eldhús og náð í bréf og þrifið æluna upp. Í framhaldi af því hafi hún staðið á fætur og farið inn á klósett en þá hafi hann kvatt hana og farið heim. Ákærði taldi að klukkan hafi verið nærri tvö eftir miðnætti þegar hann fór frá brotaþola en hann hafi verið hjá henni í um hálfa klukkustund.
Ákærði taldi að brotaþoli hafi drukkið tvo bjóra í [...] þetta kvöld og „skot“ a.m.k. hafi hún boðið honum upp á slíkt sem hann hafi þegið. Heima hjá honum hafi þau opnað rauðvínsflösku sem þau þrjú drukku úr og kláruðu. F hafi auk þess komið með rauðvínskút en ekkert hafi verið drukkið úr honum. Kútnum hafi hann skilað daginn eftir. Sjálfur kvaðst hann hafa drukkið tvo til þrjá bjóra á veitingastaðnum og þetta eina skot. Síðan hafi hann drukkið hluta af rauðvínsflöskunni. Hann kvaðst hafa fundið til áfengisáhrifa en ekki verið „blindfullur.“ Ákærði sagði að brotaþoli hafi verið í svipuðu ástandi að hans mati, hún hafi ekki verið ofurölvi þegar hún kom til hans og heldur ekki þegar hún fór frá honum eða þegar hann hafði við hana samfarir, þá hafi hún verið vakandi og með fullri meðvitund.
Ákærði greindi frá því að brotaþoli hafi komið til hans daginn eftir en þá hafi hann verið að taka til í bílskúrnum og verið með mikinn móral. Hún hafi komið þar inn og sagt, „vá maður hvað gerðist hjá okkur í gær“ eða eitthvað í þá veru. Hún hafi sagt að hún hafi verið í hálfgerðu „blackouti.“ Hann hafi í fyrstu reynt að gera lítið úr þessu og sagt að ekkert hafi gerst hjá þeim en þau ættu að skammast sín og þá hafi hún strunsað út og sagt að hún ætti ekki peysuna. Ákærði bar aðspurður að hann hefði alls ekki merkt að brotaþoli hafi verið hrædd við hann þegar hún kom til hans þennan morgun. Skömmu síðar hafi hann tekið rauðvínskútinn sem brotaþoli hafið skilið eftir og ætlað að skila honum og fá peysuna sem hann nú vissi að kona hans átti. Hann hafi bankað á dyrnar og móðir brotaþola hafi komið til dyra og spurt hver hann væri. Hann hafi sagt til nafns og sagt að hann væri kominn að sækja peysu. Þá hafi móðirin sagt „X ert þú ekki búinn að gera nóg.“ Hann hafi þá svarað „gera hvern andskotann ég ætla bara að fá peysu.“ Móðirin hafi þá sagt honum að hann fengi ekki peysuna en tekið kútinn og hann hafi þá hrökklast heim til sín. Hann hafi í framhaldi af því hringt til brotaþola sem hafi svarað og hann hafi spurt hana hvað væri í gangi en hann fengi ekki peysuna. Brotaþoli hafi sagt við hann að hann fengi peysuna en síðan hafi hann ekki talað við hana þó hann hafi séð hana nokkrum sinnum enda ekki nema 50 metrar á milli húsanna. Þremur vikum eftir þennan atburð hafi lögreglan haft samband við hann og hann verið kærður fyrir nauðgun. Ákærði bar aðspurður að það væri rangt að hann hefði ekki kynnt sig fyrir móður brotaþola en hann hafi sagt henni nafn sitt.
Vitnið A bar að hún hefði komið til [...] til að vera með kærasta sínum en hann hafi verið að fara [...] en hún hafi ákveðið að vera þar fram yfir komandi helgi. Þegar atvikið sem málið snýst um átti sér stað hafi unnusti hennar verið farinn [...]. Vitnið kvaðst ekki hafa þekkt ákærða á þessum tíma en vitað hver hann var og ekki átt nein samskipti við hann fyrr en umrætt kvöld. Vitnið lýsti atvikum þannig að hún hafi byrjað að neyta áfengis um kvöldmatarleytið heima hjá sér og þá drukkið rauðvín ásamt G vinkonu sinni. Síðan hafi þær farið á tónleika og þar hafi hún haldið áfram að drekka. Hún hafi séð F frænda H unnusta síns og fljótlega farið að borðinu sem hann sat við og heilsað honum. Ákærði hafi setið við það borð og þar hafi hún setið og spjallað. Að loknum tónleikunum hafi vinkona hennar farið heim. Þegar veitingastaðnum var lokað hafi hún, F og ákærði farið heim til F og þar hafi þau neytt áfengis. Ákærði hafi þurft að fara til síns heima og þau ákveðið að fara þangað líka. Á leiðinni hafi hún sótt rauðvínskút sem hún hafi haft með sér heim til ákærða. Aðspurð um áfengisneyslu sína þetta kvöld og ölvunarástand mundi hún ekki hve mikið áfengi hún drakk. Ölvunarástandi sínu lýsti hún þannig: „Ég var náttúrulega bara blindufull bara. Bara blackout, man ekki neitt, ég var bara á rassgatinu.“ Hún kvaðst lítið muna eftir sér heima hjá F en þar hafi hún verið orðin mjög drukkin. Þá bar hún að hún viti ekki hvað klukkan var þegar þau fóru heim til ákærða en þangað hafi þau örugglega farið vegna þess að þau langaði til að halda áfram að skemmta sér. Vitnið kvaðst ekki vita hver átti frumkvæði að því að þau fóru heim til ákærða. Vitnið bar að það kæmi fyrir að hún missti minnið þegar hún neytti áfengis og kvaðst aðspurð örugglega hafa gert eitthvað í slíku ástandi sem hún hafi síðar séð eftir.
Heima hjá ákærða hafi þau sest í sófa og spjallað saman og neytt áfengis. Hún mundi eftir hundi sem ákærði á og hún hafi eitthvað gefið sig að honum. Annars mundi hún lítið eftir veru sinni hjá ákærða en hún kvaðst ekki hafa haft neinn áhuga á ákærða og taldi að hún hefði ekki daðrað við hann og hann ekki við hana. Hún mundi ekki til þess að neitt hefði gerst á milli þeirra á heimili ákærða. Aðspurð hvort þau hefðu haldist í hendur heima hjá ákærða ítrekaði vitnið að hún myndi lítið eftir því sem gerðist þar. Þannig mundi hún ekki hvort hún fór á salernið eða hvort eitthvað gerðist þar en hún kvaðst muna eftir að hafa drukkið rauðvín. Hennar næsta minning sé að ákærði var ofan á henni í gestaherberginu heima hjá kærasta hennar. Þessari minningu lýsti vitnið þannig, „hendurnar á honum og tungan, hann reynir að kyssa mig og ég næ að líta til hliðar svo man ég ekki meir og svo man ég, kemur annað skot þar sé ég er eitthvað grátandi og ráfandi um íbúðina, svo man ég ekki meir. “ Vitnið mundi ekki hvort ákærði var að hafa samfarir við hana, hvernig hún var klædd, hvort ákærði var í fötum á þessum tíma eða hvernig hún komst heim til unnusta síns. Þá verður af framburði hennar ráðið að hún telji atvikið hafa átt sér stað í gestaherbergi þar sem F hafi greint henni frá því að þar hafi hún lagst til hvílu.
Vitnið kvaðst næst muna eftir sér ráfandi um íbúðina grátandi en á hvaða tíma það var mundi hún ekki. Hún hafi verið ótrúlega ringluð og ekki liðið vel en hún hafi ekki vitað hvað gerðist. Hún hafi verið alsber en klætt sig og horft yfir íbúðina og reynt að sjá einhver ummerki. Hún hafi tekið eftir bjórdós í stofunni og velt fyrir sér hvort einhver hefði verið að drekka í íbúðinni en það hafi henni þótt ólíklegt þar sem hún búi ekki þarna og því ósennilegt að hún hefði boðið þangað fólki. Eftir þetta hafi hún farið út með ruslið og þá hitt foreldra sína. Hún hafi ekki átt von á þeim og því orðið hissa á að sjá þau og spurt hvað þau væru að gera. Þau hafi þá sagt henni að hún hefði hringt til þeirra fyrr um morguninn eða nóttina og grátandi hafi hún greint frá því að hún hefði vaknað með mann ofan á sér. Vitnið kvaðst ekki muna eftir símtalinu við foreldra sína og illa það sem þau ræddu eftir að þau hittust. Þau hafi ákveðið fara á neyðarmóttökuna en hún mundi ekki til þess að þau hafi rætt að hafa samband við lögreglu.
Að sögn vitnisins fór hún um morguninn til ákærða og hún hafi spurt hann að því hvað hefði gengið á. Ákærði hafi svarað því til að ekkert kynferðislegt hefði gerst á milli þeirra. Á þessum tíma hafi hún ekki verið meðvituð um það sem gerst hafði um nóttina. Í framhaldi af því hafi hann farið að spyrja um svarta 66 gráður norður peysu sem hann hafi komið með til að skila en hún hafi svarað því til að hún ætti ekki slíka peysu. Hann hafi þá sagt að kona hans ætti peysuna og hann þyrfti að fá hana aftur. Vitnið bar að henni hafi þótt skrítið að ákærði hafi haft orð á því að ekkert kynferðislegt hefði gerst á milli þeirra.
Vitnið kvaðst hafa séð merki þess að það hefði verið kastað upp inni á baðherberginu á heimili unnusta hennar en hún hafi ekki tekið eftir slíku inni í herbergjum íbúðarinnar. Hún kvaðst ekki hafa neytt áfengis um morguninn.
Vitnið kvaðst hafa farið daginn eftir atvikið til F og sótt veski sitt en í það sinn hafi hún ekki rætt atburði næturinnar við hann. Hún hafi hins vegar gert það síðar þegar hún var að velta fyrir sér að leggja fram kæru. Í það sinn hafi F lýst fyrir henni að hún hefði brotið glas heima hjá ákærða og hún hafi ætlað að sækja tusku og þá hafi ákærði farið með henni. F hafi sagt henni að hann hafi nokkrum mínútum síðar komið að baðherberginu þar sem hún og ákærði voru inni og hún hafi setið þar. F hafi þá „skammast eitthvað í X og farið með mig heim.“ Þar hafi F fengið sér bjór og spurt hana hvort hún vildi ekki fara að sofa og hún hafi játað því en eftir því sem F sagði hafi hún viljað sofa í gestaherberginu. Vitnið kvaðst þrátt fyrir þessa frásögn F ekki muna eftir þessum atburðum.
Vitnið lýsti því að henni líði mjög illa eftir þetta atvik, hún sé grátgjörn en lítið þurfi til að hún fari að gráta. Þetta komi niður á vinnu hennar auk þess sem atvikið hafi haft áhrif á samband hennar við unnusta sinn.
Vitnið kom aftur fyrir dóminn 21. október og bar þá að hún myndi ekki eftir því að F hefði fylgt henni heim frá ákærða en hún kvaðst hafa hringt í F nokkrum dögum eftir atvikið. Vitnið greindi frá því að hún hafi farið til F á föstudeginum til að sækja veski sitt og það geti verið að hann hafi þá sagt henni frá því að hann hefði fylgt henni heim. Hún kvaðst hafa hringt í I vin sinn þegar hún var á leið frá [...] og þá greint honum frá því sem hún mundi en hún kvaðst þó í dag lítið muna eftir þessu samtali. Ástæða þess að hún hringdi í I hafi verið sú að hann hafi ætlað að koma til [...] þennan dag og því hafi hún þurft að láta hann vita að hún væri á leið suður. I hafi síðar um daginn komið á heimili hennar og þar hafi hún beðið hann um að svara í síman hennar þegar kærasti hennar hringdi. Vitnið kvaðst í tvígang hafa farið til E sálfræðings en síðara skiptið vegna þess að réttargæslumaður hafði samband við hana. Hún kvaðst ekki hafa farið oftar en í þessi tvo skipti til sálfræðings en hún hafi leitað sér aðstoðar hjá SÁÁ þó ekki vegna eigin áfengisfíknar.
Vitnið F kvaðst þekkja ákærða frá unga aldri en þeir búi báðir í þessu litla þorpi. Brotaþola þekki hann ekki en hún sé kærasta frænda hans, H. Umrætt kvöld hafi hann og ákærði ásamt fleira fólki verðið að skemmta sér í [...] og þar hafi þeir hitt brotaþola en hún hafi sest við borðið hjá þeim gengt ákærða. Síðar hafi þau þrjú farið heim til hans og taldi vitnið líklegt að framburður hans hjá lögreglu varðandi tímasetningar væri nærri lagi en þar kemur fram að þau hafi farið heim til hans um miðnætti og heim til ákærða um klukkustund síðar og þar hafi þau ekki dvalið lengur en klukkustund. Ákærði hafi síðan þurft að fara heim til sín en hringt í þau og boðið þeim til sín. Hann og brotaþoli hafi í framhaldi af því farið heim til ákærða en á leiðinni þangað hafi brotaþoli komið við á heimili H og náð í „rauðvínsbelju“ og því komið aðeins seinna en hann til ákærða. Vitnið bar að hann hafi ekki haft sérstakan áhuga á að fara heim til ákærða en brotaþola hafi langað það meira og því hafi þau farið þangað. Heima hjá ákærða hafi þau setið í stofunni og spjallað og hann hafi horft á tónleika í sjónvarpinu. Brotaþoli hafi ætlað á salernið og þá hafi hún rekið sig í rauðvínsglas á borðinu og það hafi brotnað. Ákærði hafi þá ætlað að sækja eitthvað til að þurrka það upp en brotaþoli örugglega farið á salernið. Nokkrum mínútum síðar hafi hann velt fyrir sér hvað hafi orðið um þau og hann farið að salerninu. Aðspurður um ástæðu þess að hann fór fljótt að kanna hvað hafi orðið um þau svaraði vitnið því til að engin sérstök ástæða hafi verið fyrir því nema að hann hafi grunað að eitthvað væri í gangi. Vitnið bar að baðherbergisdyrnar hafi verið læstar er hann kom að þeim og hann hafi bankað fast einu sinni á og þá hafi strax verið opnað. Ákærði og brotaþoli hafi bæði staðið inni á salerninu en þau hafi bæði verið hálf vandræðaleg, ákærði þó sínu vandræðalegri. Hann hafi þá sagt við brotaþola að hann skyldi fylgja henni heim og hún hafi hlýtt því. Við ákærða hafi hann sagt „þú gerir ekki svona fyrir framan nefið á mér.“ Ákærði hafi svarað einhverju en hann hafi ekki hlustað á hann. Vitnið kvaðst hafa tekið í hönd brotaþola og stutt hana þangað sem skórnir hennar voru en hún hafi sjálf klætt sig í skóna. Hann hafi síðan fylgt brotaþola heim en á leiðinni hafi hann stutt við hana. Hann hafi farið inn í stofu með henni og reynt að tala við hana og hughreysta þar sem henni var svolítið niðri fyrir og töluvert drukkin, greinilega vandræðaleg yfir að hafa verið inni á salerninu með ákærða þar sem hann kom að þeim. Vitnið kvaðst hafa reynt að spyrja brotaþola út í hvað hefði gerst þar inni en ekki fengið neitt upp úr henni með það, hún hafi einfaldlega verið svo drukkin. Hann hafi gefist upp á að tala við hana þar sem hún hafi ekki verið viðræðuhæf vegna áfengisáhrifa. Hann hafi sagt henni að fara að sofa og hjálpað henni inn í svefnherbergi og séð á eftir henni fara upp í rúm í öllum fötunum. Eftir það hafi hann farið út úr íbúðinni, skilið dyrnar eftir ólæstar og farið til síns heima og ekki frétt af neinu fyrr en daginn eftir. Að sögn vitnisins neytti brotaþoli ekki áfengis meðan hann var hjá henni á heimili H.
Vitnið kvaðst ekki geta svarað því hversu mikið áfengi brotaþoli drakk þetta kvöld en hún hafi verið töluvert drukkin. Þegar hann hitti hana fyrst í [...] hafi hún haldið uppi samræðum og einnig meðan þau voru þrjú á heimili hans. Hún hafi hins vegar verið meira drukkin þegar þau fóru af heimili hans til ákærða og þá hafi hún verið orðin virkilega ölvuð er þau komu á heimili unnusta hennar. Þá kvaðst hann ekki hafa tekið eftir því að brotaþoli hafi verið að gefa ákærða undir fótinn fyrr um kvöldið en hann taldi líklegt að hann hefði tekið eftir því ef þau hefði haldist í hendur í stofunni hjá ákærða. Vitnið greindi frá því að hann hafi ekki verið ölvaður þetta kvöld og kvaðst viss í sinni sök varðandi það sem gerðist. Að mati vitnisins var ákærði ekki áberandi ölvaður.
Vitnið bar að brotaþoli hafi komið til hans í hádeginu daginn eftir en hún hefði gleymt veski sínu heima hjá honum. Vitnið lýsti því hvernig hún kom honum fyrir sjónir þá með þessum orðum „asnaleg og svona skrítin og niðurlút og ég vissi ekkert hvað var í gangi.“ Að sögn vitnisins var greinilegt að eitthvað var að en brotaþoli hafi ekki í þetta sinn greint honum frá því sem gerst hafði um nóttina. Brotaþoli hafi síðan hringt í hann mörgum dögum eftir þessa nótt og spurt hann hvernig þetta hefði gerst en hann hafi ekki getað svarað því enda ekki vitað neitt um málið á þeim tíma. Í því samtali hafi hún ekki nefnt að hún myndi ekki eftir atburðum næturinnar. Að sögn vitnisins greindi brotaþoli honum frá því að ákærði hefði þessa nótt komið til hennar og nauðgað henni en hann hafi ekki spurt neitt nánar út í það.
Vitnið B, faðir brotaþola bar fyrir dóminum að mál þetta hafi komið upp þegar dóttir hans hringdi í hann laust eftir klukkan 06:00. Hún hafi lítið sagt honum og grátið og hann hafi afhent eiginkonu sinni símann og þær hafi rætt saman. Vitnið gat ekki sagt til um hve lengi þetta símtal stóð en það hafi verið í allnokkrar mínútur. Í því samtali hafi komið fram að dóttir þeirra vaknaði með mann ofan á sér. Þau hafi ákveðið að fara norður og lagt af stað um kl. 07:00. Á leiðinni hafi þau án árangurs reynt að hafa símasamband við brotaþola. Þau hafi vitað heimilisfang unnusta brotaþola og farið þangað en útidyrnar hafi verið læstar og brotaþoli ekki komið til dyra. Þau hafi árangurslaust bankað á glugga og því snúið frá en komið til baka nokkru síðar og þá hafi þau hitt brotaþola. Vitnið taldi að á þessum tíma hafi klukkan verið á milli 11:00 og 11:30. Þegar þau hittu brotaþola hafi hún verið glöð að sjá þau en hún hafi ekki átt von á þeim. Vitnið bar að honum hafi þótt sem brotaþoli væri eitthvað, en ekki mikið, undir áhrifum áfengis en hún hafi á þessum tíma verið búin að fara í sturtu, verið með blautt hár, og búin að snyrta sig. Þau hafi síðan rætt saman í rólegheitunum en vitnið mundi ekki hvort fram kom í samtali þeirra hvort brotaþoli myndi eftir að hafa hringt í þau snemma um morguninn. Í samtali þeirra hafi komið fram að brotaþoli hefði verið í samkvæmi með vini sínum og þau síðan farið til ákærða. F hafi síðan fylgt henni heim og hún lagst til svefns, en ekki í sitt rúm, alklædd síðan hafi hún vaknað með mann ofan á sér. Vitnið bar að þær mæðgur hafi rætt meira saman en þau öll og brotaþoli hafi grátið þegar hún ræddi við móður sína. Að sögn vitnisins ræddi brotaþoli við ákærða í síma um morguninn og hann hafi komið til þeirra en eiginkona hans hafi meinað honum að hitta brotaþola. Vitnið minnti að brotaþoli hafi farið að hitta ákærða þennan morgun en þorði ekki að fullyrða að svo hafi verið en hann hafi á þessum tíma mikið verið að tala í símann. Vitnið taldi nánar aðspurt að brotaþoli hafi farið að hitta ákærða í þeim tilgangi að fá á hreint hvað hefði gerst en hann hafi ekki reynt að hindra för hennar til ákærða. Aðspurður um ástand íbúðarinnar kvaðst vitnið hafa tekið eftir því að einhver áfengisdrykkja hafi átt sér þar stað. Hann hafi ekki tekið eftir því hvort búið var að þrífa íbúðina og þá kvaðst hann ekki muna eftir lykt eftir uppköst. Vitnið kvaðst hafa hringt á heilsugæsluna á [...] í þeim tilgangi að afla upplýsinga um það hvert þau ættu að snúa sér. Þar hafi honum verið ráðlagt að hafa samband við Stígamót og það hafi hann gert. Eftir ráðleggingum Stígamóta hafi þau farið með brotaþola á neyðarmóttöku LSH og haft með sér sængurföt sem voru á rúmum í gesta- og hjónaherbergjum en sængurfötin úr hvoru herbergi fyrir sig hafi verið sett í svarta ruslapoka. Vitnið kvaðst hafa spurt þann er hann talaði við hjá Stígamótum hvort hann ætti að hafa samband við lögreglu en verið sagt að ekkert lægi á því heldur væri forgangsatriði að koma stúlkunni á Neyðarmóttökuna, síðar gæfist tími til að leggja fram kæru. Vitnið kvað dóttur sína hafa tekið atburðinn nærri sér og hún hafi dregið sig meira inn í sig og lokast.
Vitnið C, móðir brotaþola, bar að dóttir hennar hefði hringt um kl. 06:00 á föstudagsmorgni. Brotaþoli hafi greint henni frá því að hún hefði verið að skemmta sér kvöldið áður og vaknað, heima hjá unnusta sínum, við það að maður var að nauðga henni. Vitnið greindi frá því að brotaþoli hafi verið grátandi og óskýr í máli og nokkra stund hafi tekið að róa hana niður þannig að unnt væri að skilja hvað hún sagði en hún kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir því hvort brotaþoli var ölvuð. Eftir símtalið, sem stóð í 15 til 20 mínútur, hafi hún og eiginmaður hennar ákveðið að aka norður og þau hafi verið komin á [...] um kl. 10:00. Vitnið greindi frá því að þau hefðu í þrígang reynt að hafa samband við brotaþola með því að hringja í farsímann hennar en hún hafi ekki svarað. Þegar þau komu á [...] hafi þau farið á heimili H og bankað en án árangurs. Þau hafi líka farið á efri hæðina þar sem þau hafi hitt húsráðendur og svo aftur á neðri hæðina en án árangurs. Þau hafi þá farið heim til vinkonu brotaþola og svo aftur að heimili H og þá hafi þau hitt brotaþola en vitnið telur að þá hafi klukkan verðið nálægt 11:00. Vitnið bar að brotaþoli hafi verið undrandi að sjá þau en hún hafi ekki átt von á þeim enda mundi hún ekki eftir að hafa hringt í þau fyrr um morguninn. Vitnið lýsti því að brotaþoli hafi verið í losti, „eins og uppvakningur einhvern veginn.“ Að mati vitnisins var hún ekki undir áhrifum áfengis. Vitnið bar að brotaþoli hefði sagt þeim það sem hún vissi um atvikið. Hún hafi lýst því að hún hafi verið í [...] kvöldið áður en síðan farið í samkvæmi heim til F og þaðan til ákærða en F hafi síðan fylgt henni heim og komið henni fyrir inni í rúmi. Vitnið gerði sér ekki grein fyrir því hvort brotaþoli mundi atvikin sjálf eða væri að greina frá því sem F hefði tjáð henni en hún taldi að brotaþoli hafi á þessum tíma verið búin að tala við F. Að sögn vitnisins var frásögn brotaþola frekar þokukennd og gloppótt en hún hafi sagt að brotið hafi átt sér stað í gestaherbergi í íbúð H. Vitnið bar að brotaþoli hafi, eftir að þau voru komin til hennar, hringt í ákærða og síðan farið til hans í þeim tilgangi að fá upplýsingar hjá honum hvers vegna hann hefði gert henni þetta. Vitninu þótti undarlegt að brotaþoli færi til ákærða en hún hafi ekki spurt þau hjónin áður en hún fór. Brotaþoli hafi sagt henni að ákærði hefði þá sagt við hana að hann hefði ekki haft við hana samfarir. Síðar hafi ákærði komið til þeirra með rauðvínskút og þá hafi hann viljað fá flíspeysu sem hann sagði konu sína eiga. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða þegar hann kom í þessum erindagjörðum en hún hafi meinað honum að tala við brotaþola og rekið hann á dyr.
Að sögn vitnisins var íbúðin hjá brotaþola snyrtileg en hvort hún var þá nýbúin að taka til vissi hún ekki. Vitnið greindi frá því að hún og maður hennar hafi fengið leiðbeiningar frá Stígamótum í þá veru að taka sængurföt sem voru í gesta- og hjónaherbergjum en þau hafi aðeins afhent sængurfötin sem voru í gestaherbergi hin hafi þau tekið með sér. Þau hafi á þessum tíma ekki hugleitt að kalla til lögreglu heldur einbeitt sér að því að koma brotaþola undir læknishendur. Vitnið bar að eftir þetta atvik hafi brotaþoli verið þung og aum, hún sé lokaðri en áður og ekki eins kát og hún hefur alltaf verið.
Vitnið, H, unnusti brotaþola kvaðst hafa fengið upplýsingar um þetta mál á föstudeginum eftir að atvik áttu sér stað en þá hafi sameiginlegur vinur hans og brotaþola, J, svarað í símann hennar þegar hann hringdi. Hann hafi greint honum frá því að brotaþoli hafi farið út um kvöldið og hitt þar fyrir F og ákærða. Hún hafi sest hjá þeim en þau síðan farið heim til F en þaðan heim til ákærða. F hafi síðan farið með brotaþola heim vegna þess að hún var orðin svo drukkin og það næsta sem hún vissi var að ákærði var að hafa við hana samfarir. Vitnið kvaðst hafa rætt við brotaþola en hennar ástand hafi þá verið slæmt, hún hafi grátið og liðið mjög illa. Eftir þetta atvik hafi henni liðið mjög illan en þó heldur skár er frá leið.
Vitnið I kvað brotaþola hafa hringt í sig um hádegisbilið umræddan föstudag en þá hafi hún verið á [...]. Hann hafi síðan hitt hana um kvöldið. Brotaþoli hafi sagt honum að henni hafi verið nauðgað en hún hafi lýst því að ákærði hafi verið ofan á henni og hún reynt að ýta honum í burtu. Brotaþoli hafi ekki beint lýst fyrir honum aðdragandanum að þessu en fram hafi komið hjá henni að F hefði fylgt henni heim en vitnið mundi ekki hvort hún lýsti því hvar hún hefði verið þetta kvöld. Hann kvaðst muna eftir að brotaþoli hafi sagt að þau hafi öll þrjú verið heima hjá F sem vitnið sagði vera vin sinn. Vitnið greindi frá því að hann hefði þennan dag talað við unnusta brotaþola í síma og hann hafi lýst atvikum gróflega fyrir honum með sama hætti og brotaþoli hafði lýst þeim fyrir honum. Vitnið kvaðst vera vinur brotaþola og þá þekki hann unnusta hennar.
Vitnið, K, deildarstjóri Rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði staðfesti þau gögn er hún vann vegna rannsóknar málsins. Vitnið bar að í greinargerð sem dagsett er 2. desember 2010 komi fram sú niðurstaða að alkóhólmæling hafi sýnt að magn alkóhóls í blóði hafi verið 0,95 prómill en það segi ekkert annað en að hlutaðeigandi hafi verið undir áhrifum áfengis þegar að það sýni var tekið. Henni hafi síðar borist viðbótarbeiðni þar sem fram kom að sýnið hafi verið tekið klukkan 16:00 og það hafi liðið langur tími fram að sýnatöku. Hún hafi verið beðin um að reikna hversu mikið magn áfengis var í blóðinu um það bil 11 klukkustundum fyrr en það væri alltaf erfitt að reikna svo langt aftur í tímann. Auk þess hafi annað blóðsýni ekki verið tekið og þar af leiðandi ekki hægt að finna svokallaðan brotthvarfshraða úr blóði en það hefði þurft að taka annað sýni um klukkustund síðar til að unnt væri að finna þann stuðul. Af þessum sökum viti hún ekki hver brotthvarfshraði etanóls úr blóði þessa einstaklings er. Þá hafi heldur ekki verið tekið þvagsýni til þess að sjá hlutfall milli þvags og blóðs. Vitnið sagði að með því að horfa á þessa niðurstöðu og algengasta brotthvarfshraða áfengis úr blóði fólks, sem sé að vísu einstaklingsbundinn, hafi hún reiknað það út að 11 klukkustundum fyrr þá hefði áfengismagn í blóði viðkomandi einstaklings getað verið á bilinu 1,3 til 2,7 prómill til viðbótar þeim 0,95 prómillum sem mælingin sýndi og því hafi þessi einstaklingur verið ölvaður á þeim tíma sem um er rætt. Í þessu sambandi skipti hæð, þyngd eða kyn einstaklings ekki máli. Að sögn vitnisins er líka einstaklingsbundið við hvaða áfengismagn einstaklingar deyja svokölluðum áfengisdauða en oftast gerist slíkt þegar áfengismagn er komið um og yfir 3 prómill, langoftast þoli menn ekki meira en 3,5 prómill. Að sögn vitnisins hefði verið unnt að segja til um áfengismagnið með meiri nákvæmni ef blóðsýni hefði verið tekið fyrr, helst töluvert fyrr, og þá hefði einnig þurft að taka annað sýni síðar til samanburðar. Í þessu sambandi skipti einnig máli hvenær áfengisneyslu var endanlega hætt.
Vitnið E sálfræðingur kvaðst hafa hitt brotaþola í tvígang, 4. nóvember 2010 og 11. maí 2011, áður en hún ritaði vottorð það sem fyrir liggur í málinu. Vitnið staðfesti vottorðið sem hún kvað unnið eftir viðurkenndum aðferðum og þá hafi hún nýtt sér 30 ára reynslu sína sem sálfræðingur. Vitnið kvað hvort viðtal hafa staðið í u.þ.b. 90 mínútur. Vitnið lýsti ástandi og líðan brotaþola með svipuðum hætti og fram kemur í vottorði hennar. Vitnið kvað brotaþola hafa sýnt viðbrögð sem algeng eru hjá þeim sem orðið hafa fyrir kynferðisbroti. Niðurstöður úr viðtölunum hafi sýnt að brotaþoli uppfyllti öll viðmið áfallastreituröskunar. Þá hafi hún sýnt merki depurðar og vonleysis. Vitnið kvað það sína reynslu að þolendur kynferðisbrota reyni oft að hrista áfallið af sér en það gangi alls ekki alltaf og þá komi viðbrögð fram síðar. Það hafi átt við um brotaþola í þessu máli en hún hafi sýnt sterkari merki áfallastreituröskunar í síðara viðtalinu. Vitnið kvaðst hafa talið eftir fyrra samtalið við brotaþola að mikilvægt væri að fylgjast með henni vegna þess að hún hafi talið alls óvíst að brotaþola tækist að harka af sér eins hún hafi ætlað sér.
IV
Niðurstaða
Í máli þessu er ákært fyrir nauðgun en ákærða er gefið að sök að hafa, aðfararnótt föstudagsins 22. október 2010, haft samræði við brotaþola og notfært sér að brotaþoli gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Til að unnt sé að sakfella ákærða fyrir þessa háttsemi verður að liggja fyrir lögfull sönnun þess að hann hafi af ásetningi notfært sé ástand brotaþola og þannig brotið gegn henni.
Af hálfu ákæruvalds er byggt á því að sekt ákærða teljist sönnuð m.a. með framburði brotaþola sem fái stuðning í vottorði og framburði E sálfræðings og framburði F um ölvunarástand brotaþola sem fái stuðning í niðurstöðu matsgerðar um áfengismagn í blóði brotaþola. Að mati ákæruvaldsins er framburður ákærða ótrúverðugur.
Ákærði reisir kröfu sína um sýknu á því að ósannað sé að hann hafi framið brot það sem honum er gefið að sök en ákæruvaldið verði að sýna fram á ásetning hans til að nýta sér ástand brotaþola svo og að brotaþoli hafi verið andsnúin samförunum og að hún hefði ekki getað spornað við sökum ölvunar og svefndrunga.
Ákærði hefur staðfastlega frá upphafi rannsóknar málsins neitað sök. Að mati dómsins er ekkert í framburði hans sem sérstaklega er til þess fallið að draga úr trúverðugleika framburðarins. Af hálfu ákæruvalds var á það bent að misræmi væri í framburði ákærða í tveimur skýrslum hans hjá lögreglu varðandi það hvernig það kom til að brotaþoli og F komu til hans þessa nótt og síðan hafi enn ný útgáfa komið fram hjá honum fyrir dómi. Taldi ákæruvaldið að með þessu hafi ákærði verið að reyna að fegra sinn hlut sem þá væri til þess fallið að rétt væri að draga framburð hans í efa. Nokkurt misræmi er milli lýsingar ákærða og vitnisins F á því hvort og þá hvernig F kom að ákærða og brotaþola inni á baðherbergi á heimili ákærða. Að mati dómsins er hér um smávægilegt misræmi að ræða sem ekki er til þess fallið að hafa áhrif á það mat dómsins að framburður ákærða sé í öllum meginatriðum trúverðugur.
Eins og að framan er rakið man brotaþoli mjög lítið eftir atvikum umræddrar nætur og er þar af leiðandi erfitt að meta framburð hennar. Ekkert í framburði hennar er til þess fallið að ástæða sé til þess að draga í efa að hún sé að segja satt og rétt frá því sem hún upplifði. Telst framburður hennar svo langt sem hann nær því trúverðugur.
Af gögnum málsins verður ráðið að ákærði, brotaþoli og vitnið F voru á skemmtistað á [...] að kvöldi fimmtudagsins 21. október 2010 og að á einhverjum tímapunkti hafi brotaþoli sest hjá ákærða og F. Eftir lokun staðarins, væntanlega um miðnætti, fóru þau þrjú heim til F og dvöldu þar um eina klukkustund og þá fór ákærði til síns heima. Skömmu síðar hringdi hann til F og ákváðu F og brotaþoli að fara til ákærða. Heima hjá ákærða sátu þau um hríð, spjölluðu og neyttu áfengis. Af framburði ákærða og F verður ráðið að ákærði og brotaþoli hafi dregið sig eitthvað saman heima hjá ákærða. Vitnið F lýsti því að brotaþoli hafi verið niðurlút og virst skammast sín þegar hann kom að henni og ákærða á baðherberginu. Það hafi síðan öðru fremur orðið til þess að F ákvað að fylgja brotaþola heim. Þá verður heldur ekki annað ráðið en að brotaþoli hafi verið áhugasamari en F um að fara heim til ákærða eftir að hann var farinn af heimili F. Af framburði F má helst ráða að klukkan verið nálægt 02:00 þegar hann fylgdi brotaþola heim en fljótlega eftir það hafi hann fylgt henni inn í svefnherbergi þar sem hún lagðist alklædd upp í rúm. Ákærði bar að hann hafi lagt sig í um klukkustund, án þess þó að vera viss um þann tíma, eftir að brotaþoli og F fóru af heimili hans og í framhaldi af því farið til brotaþola og verið þar í hálfa klukkustund eða svo. Um klukkan 06:00 hringdi brotaþoli í foreldra sína en þau komu til [...]um kl. 10:00 og hittu þau brotaþola um klukkustund síðar. Eftir að foreldrar brotaþola voru komnir til hennar fór hún og hitti ákærða í bílskúr hans og átti við hann stutt samtal. Þá mun brotaþoli um hádegisbilið hafa farið og sótt veski sitt á heimili F. Laust eftir hádegi fóru brotaþoli og foreldrar hennar akandi frá [...].
Niðurstaða máls þessa veltur aðallega á því hversu ölvuð brotaþoli var þessa nótt og því hvort ákærði hafi mátt gera sér grein fyrir því að hún væri svo ölvuð að hún gæti ekki af fúsum og frjálsum vilja haft við hann samfarir. Af gögnum málsins er ógerlegt að átta sig á hversu mikið áfengi brotaþoli drakk þetta kvöld en hún man það ekki sjálf og þá er ekki unnt að ráða það af framburði ákærða eða vitnisins F. Í málinu liggur fyrir matsgerð varðandi áfengismagn í blóði ákærðu sem samkvæmt matsgerðinni var tekið um kl. 14:00 þennan dag. K sem vann matsgerðina kom fyrir dóminn og eru aðalatriði framburðar hennar rakin hér að framan. Af matsgerðinni og framburði K má ráða að áfengismagn í blóði brotaþola hafi verið á bilinu 2,1 til 3,6 prómill um kl. 05:00 þessa nótt. K bar fyrir dóminum að hægt hefði verið að segja til um áfengismagnið með meiri nákvæmni hefði blóðsýni verið tekið fyrr og síðan annað sýni til samanburðar. Þá skipti einnig máli hvenær áfengisneyslu lauk en slíkar upplýsingar liggja ekki fyrir. Vera kann að brotaþoli hafi neytt áfengis eftir að ákærði fór frá henni þó hún muni ekki eftir því. Að teknu tilliti til þessa er ekki unnt að fullyrða neitt á grundvelli matsgerðarinnar um ölvunarástand brotaþola þessa nótt.
Vitnið F bar fyrir dóminum að brotaþoli hafi verið verulega ölvuð um nóttina. Hjá lögreglu greindi hann frá með heldur ákveðnari hætti en fyrir dóminum. Fyrir dómi bar hann að hann hefði stutt brotaþola heim til unnusta hennar en hún hafi þó farið sjálf í skóna sína heima hjá ákærða. Heima hjá unnusta hennar hafi hún hins vegar vart verið viðræðuhæf sökum ölvunar og hann hafi hjálpað henni inn í svefnherbergi og séð á eftir henni fara upp í rúm í öllum fötunum. Þessi framburður bendir til þess að brotaþoli hafi verið verulega ölvuð. Hins vegar verður að horfa til þess að brotaþoli gat fyrr um nóttina, um kl. 01:00, gengið ein síns liðs frá heimili F að heimili unnusta síns, þar sem hún sótti rauðvínskút, og þaðan heim til ákærða. Af gögnum málsins verður ekki annað ráðið en að ákærði og brotaþoli hafi drukkið megnið úr einni rauðvínsflösku heima hjá ákærða án þess þó að nokkuð liggi fyrir um hversu mikið hvort þeirra drakk.
Fram er komið að brotaþoli hringdi í foreldra sína um kl. 06:00 á föstudagsmorgninum og ræddi við þá, aðallega móður sína, í 15 til 20 mínútur. Móðir brotaþola kvaðst ekki hafa gert sér grein fyrir meðan á símtalinu stóð hvort brotaþoli var ölvuð. Foreldrar brotaþola hittu hana um kl. 11:00 þennan morgun, faðir hennar bar fyrir dóminum að honum hafi virst sem brotaþoli væri á þeim tíma eitthvað undir áhrifum áfengis en ekki mikið. Móðir hennar merkti hins vegar ekki áfengisáhrif á henni. Vitnið F hitti brotaþola í hádeginu og bar að hún hafi ekki verið drukkin þá. Þessi framburður foreldra brotaþola og vitnisins F rennir ekki stoðum undir að brotaþoli hafi verið því sem næst áfengisdauð tveimur til þremur klukkustundum áður en hún ræddi við foreldra sína í síma en samkvæmt framburði K er algengast að talað sé um áfengisdauða þegar magn áfengis er komið um eða yfir 3 prómill en 3,5 prómill leiði nánast alltaf til áfengisdauða.
Samkvæmt 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála hvílir á ákæruvaldinu sönnunarbyrði um sekt ákærða og þau atvik sem telja má honum í óhag en allan skynsamlegan vafa verður að skýra ákærða í hag sbr. 109. gr. sömu laga. Að mati dómsins hefur ákæruvaldinu ekki, gegn staðfastri neitun ákærða, tekist að sanna svo ekki leiki á skynsamlegur vafi að brotaþoli hafi ekki getað spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga. Hér verður að hafa í huga að brotaþoli lýsti því að fyrir dóminum að það hafi komið fyrir hana að hún missti minnið við áfengisneyslu. Er því ekki óhugsandi að brotaþoli hafi, þó hún muni ekki eftir því og jafnvel gegn vilja sínum, tekið þátt í samförunum eins og ákærði lýsti. Ber því að sýkna ákærða af kröfum ákæruvaldsins.
Með hliðsjón af niðurstöðu málsins ber með vísan til 2 mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 að fella allan sakarkostnað á ríkissjóð. Samkvæmt yfirliti sækjanda nam sakarkostnaður 362.257 krónum. Þessum kostnaði til viðbótar eru málsvarnarlaun Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns sem þykja hæfilega ákveðin 753.000 krónur svo og þóknun réttargæslumanns brotaþola við rannsókn málsins hjá lögreglu og fyrir dómi, Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, sem þykir hæfilega ákveðin 313.750 krónur. Málsvarnarlaun og þóknun innifela virðisaukaskatt.
Að fenginni þessari niðurstöðu ber með vísan til 176. gr. laga um meðferð sakamála að vísa einkaréttarkröfu A frá dómi.
Meðferð málsins fyrir dóminum hefur dregist nokkuð. Aðalmeðferð hófst 16. maí á þessu ári. Í því þinghaldi kom upp ágreiningur um framlagningu skjals og hvort leiða ætti ákveðið vitni fyrir dóminn. Dómsformaður kvað upp úrskurð í þeim ágreiningi degi síðar. Úrskurður dómsins var kærður til Hæstaréttar Íslands sem dæmdi í málinu 20. júní sl. Eftir það reyndist örðugt að finna tíma fyrir framhald aðalmeðferðar auk þess sem dómsformaður var forfallaður um nokkurra vikna skeið vegna aðgerðar sem hann gekkst undir. Reyndist því ekki unnt að ljúka aðalmeðferðinni fyrr en raun varð á. Rétt er að taka fram að dómarar og sakflytjendur höfðu undir höndum endurrit framburðar ákærða og vitna sem gefinn var 16. maí sl. í nokkrar vikur áður en framhaldsaðalmeðferð fór fram og því ætti vörn og sókn ekki að vera áfátt sökum þess hve langur tími leið frá því að vitni gáfu skýrslu fyrir dóminum og þar til málið var munnlega flutt.
Af hálfu ákæruvaldsins sótti málið Kolbrún Benediktsdóttir, settur saksóknari.
Halldór Halldórsson, Ragnheiður Thorlacius og Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómarar kveða upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði X, er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.
Allur sakarkostnaður, þar með talin 753.000 króna málsvarnarlaun Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns og 313.750 króna þóknun Þórdísar Bjarnadóttur hæstaréttarlögmanns, greiðist úr ríkissjóði. Þóknun og málsvarnarlaun innifela virðisaukaskatt.
Einkaréttarkröfu A er vísað frá dómi.