Hæstiréttur íslands
Mál nr. 104/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Réttaráhrif dóms
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Þriðjudaginn 4. mars 2008. |
|
Nr. 104/2008. |
Pétur Þór Sigurðsson(Andri Árnason hrl.) gegn íslenska ríkinu (Einar Karl Hallvarðsson hrl.) |
Kærumál. Réttaráhrif dóms. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Í málinu krafðist P skaðabóta úr hendi Í á þeim grundvelli að á honum hefði verið brotinn réttur þegar Hæstiréttur sýknaði L af kröfu hans í öðru dómsmáli. Vísaði hann til þess að mannréttindadómstóll Evrópu hefði komist að þeirri niðurstöðu í dómi að einn af þeim þremur dómurum sem mynduðu meirihluta dómenda hefði verið vanhæfur til setu í dóminum. Þá hafi Hæstiréttur synjað beiðni um endurupptöku. Í héraðsdómi var fallist á frávísunarkröfu Í og talið að efnisdómur í málinu fæli óhjákvæmilega í sér að dómari tæki afstöðu til þess dóms sem fyrir lægi, en slíkt væri ekki heimilt að lögum. Í dómi Hæstaréttar var talið að ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála stæðu málssókn P ekki í vegi, enda hefði Í ekki verið aðili að hinu fyrra máli. Þá var og tilgreint að málsástæður aðila, sem snerti formlegt gildi fyrrgreinds dóms Hæstaréttar, komi til úrlausnar þegar tekin verði efnisleg afstaða til kröfu P. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt verði fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Í máli þessu krefst sóknaraðili skaðabóta úr hendi varnaraðila á þeim grundvelli að brotinn hafi verið á honum réttur er Hæstiréttur lauk 25. apríl 1997 dómi á mál hans gegn Landsbanka Íslands en dómurinn er birtur í dómasafni Hæstaréttar það ár á blaðsíðu 1323. Urðu úrslit málsins þau að þrír af fimm dómurum mynduðu meirihluta og sýknuðu bankann af kröfu sóknaraðila en tveir dómarar skiluðu sératkvæði og vildu taka kröfu hans til greina. Vísar hann til þess að mannréttindadómstóll Evrópu hafi í dómi 10. apríl 2003 komist að þeirri niðurstöðu að einn hinna þriggja dómara sem mynduðu meirihluta í Hæstarétti hafi verið vanhæfur til setu í dóminum vegna fjárhagslegra tengsla við Landsbanka Íslands. Sóknaraðili kveðst hafa leitað eftir endurupptöku málsins á grundvelli XXVII. kafla laga nr. 91/1991 en verið synjað. Er frekari málsatvikum og málsástæðum sóknaraðila lýst í hinum kærða úrskurði.
Varnaraðili krafðist aðallega frávísunar málsins frá héraðsdómi og var fallist á þá kröfu með hinum kærða úrskurði. Byggir varnaraðili á því að fyrrgreindur hæstaréttardómur sé endanlegur. Telur hann að í kröfu sóknaraðila felist krafa um að dómurinn verði endurskoðaður. Engin heimild sé til þess í lögum. Í hinum kærða úrskurði er gerð grein fyrir tilvísun varnaraðila til lagaákvæða hvað þetta varðar.
Samkvæmt 1. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 er dómur bindandi um úrslit sakarefnis milli aðila og þeirra, sem að lögum koma í þeirra stað, um þær kröfur sem eru dæmdar þar að efni til. Samkvæmt 2. mgr. verður slík krafa ekki borin undir sama eða hliðsettan dómstól framar en í lögunum segir. Skal vísa nýju máli um slíka kröfu frá dómi. Í máli þessu stefnir sóknaraðili íslenska ríkinu sem ekki átti aðild að hinu fyrra máli. Ákvæði 116. gr. laga nr. 91/1991 standa málssókn hans ekki í vegi. Málsástæður aðila sem snerta formlegt gildi fyrrgreinds dóms Hæstaréttar í máli sóknaraðila gegn Landsbanka Íslands koma til úrlausnar þegar tekin verður efnisleg afstaða til kröfu hans. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnislegrar meðferðar.
Varnaraðila verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðili, íslenska ríkið, greiði sóknaraðila, Pétri Þór Sigurðssyni, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 30. janúar 2008.
Mál þetta var höfðað 24. apríl 2007.
Stefnandi er Pétur Þór Sigurðsson, Klyfjaseli 18, Reykjavík.
Stefndi er íslenska ríkið.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 42.500.823 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 10. apríl 2003 til greiðsludags auk málskostnaðar.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi og að stefnanda verði gert að greiða sér málskostnað, en til vara að hann verði sýknaður af kröfum stefnanda og stefnanda verði gert að greiða sér málskostnað og til þrautavara að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar og málskostnaður verði felldur niður.
Frávísunarkrafa stefnda var tekin til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um hana 14. þ.m. Stefndi krefst þess að málinu verði vísað frá dómi en stefnandi krefst þess að þeirri kröfu verði hafnað. Af hálfu beggja aðila er krafist málskostnaðar í þessum þætti málsins.
Með dómi Hæstaréttar Íslands 25. apríl 1997 í máli nr. 210/1996 var Landsbanki Íslands sýknaður af kröfu stefnanda um skaðabætur að fjárhæð 8.746.319 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 15. október 1992 til greiðsludags auk málskostnaðar vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir vegna saknæmrar háttsemi starfsmanns bankans. Einnig var stefnandi dæmdur til að greiða Landsbanka Íslands 200.000 krónur í málskostnað. Með dóminum var staðfestur dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá 30. maí 2006. Tveir dómarar af fimm skiluðu sératkvæði. Þeir töldu að taka bæri kröfu áfrýjanda til greina en þó þannig að krafan bæri dráttarvexti frá 30. ágúst 1993 er mánuður hefði verið liðinn frá því áfrýjandi beindi rökstuddri kröfu að stefnda um greiðslu bótafjárhæðarinnar. Þá töldu þeir að dæma bæri stefnda í málinu til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Hinn 9. júní 1997 óskaði stefnandi eftir því við Hæstarétt að dómur í framangreindu máli yrði felldur úr gildi vegna vanhæfis eins dómarans, sem skipað hafði meirihlutann í málinu, byggðu á fjárhagslegum tengslum hans við Landsbanka Íslands. Í niðurstöðu réttarins töldust þau tengsl ekki upplýst. Lægi því ekki fyrir að umræddur dómari hefði verið vanhæfur, lagaskilyrði væru því ekki til að verða við beiðni um endurupptöku málsins og var henni hafnað.
Hinn 23. október 1997 leitaði stefnandi á ný eftir endurupptöku málsins. Taldi hann að veruleg fjárhagsleg tengsl milli maka dómarans og stefnda í málinu, Landsbanka Íslands, renndu stoðum undir vanhæfi hans. Þessari beiðni stefnanda var hafnað 19. nóvember 1997 með vísun til þess að samkvæmt 2. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991 gæti aðili ekki sótt nema einu sinni um endurupptöku máls samkvæmt 1. mgr. sömu lagagreinar.
Hinn 23. október 1997 lagði stefnandi fram kæru fyrir mannréttindanefnd Evrópu þar sem hann taldi skipan dómsins í framangreindu máli hafa falið í sér brot á 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Með ákvörðun 14. júní 2001 var því slegið föstu að kæran væri tæk til meðferðar. Dómur Mannréttindadómstóls Evrópu í málinu féll 10. apríl 2003. Dómstóllinn taldi að þáttur þess dómara, sem hér um ræðir, í skuldaskilum maka hans við Landsbanka Íslands, það hagræði sem makinn naut í því sambandi og tengsl hans við bankann á svipuðum tíma og umrætt mál var til meðferðar hjá Hæstarétti Íslands hefðu verið þess eðlis og í því umfangi að stefnandi hefði með réttu getað óttast að réttinn skorti þá óhlutdrægni sem krafist væri. Dómurinn féllst því á að brotið hefði verið gegn 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmálans og að íslenska ríkinu bæri að greiða stefnanda (kæranda) miskabætur að fjárhæð 25.000 evrur auk 15. 000 evra í kostnað og útgjöld. Einnig var kveðið á um að ríkið skyldi greiða stefnanda þann skatt sem kynni að vera lagður á ofangreindar greiðslur. Stefnandi hafði, auk miskabóta vegna vonbrigða, þjáninga og mannorðsspjalla, krafist skaðabóta fyrir fjárhagslegt tjón að upphæð 41.010.259 krónur sem myndaðist af höfuðstól dómkröfu í því máli, sem var til umfjöllunar, 8.746.319 krónum, og áföllnum dráttarvöxtum. Dómurinn taldi að sér væri ókleift að leiða getum að úrslitum málsins ef ekki hefði verið brotið gegn ofangreindu ákvæði sáttmálans og vísaði því frá dóminum kröfu stefnanda um bætur fyrir fjártjón.
Stefnandi móttók umræddar miskabætur, ásamt dæmdum kostnaði vegna reksturs málsins fyrir mannréttindadómstólnum úr hendi íslenska ríkisins, í ágústmánuði 2003. Í bréfi sínu til ríkislögmanns 20. ágúst 2003 gerði hann þann fyrirvara að þrátt fyrir móttöku greiðslunnar gerði hann „eftir sem áður þá kröfu á hendur íslenska ríkinu að gripið (yrði) til sértækra ráðstafana til að bæta úr brotinu gagnvart (sér) og rétta hlut (sinn) “.
Með bréfi dómsmálaráðuneytisins, dags. 15. september 2005, til fastanefndar Íslands hjá Evrópuráðinu fylgdi yfirlit yfir þær aðgerðir sem íslensk stjórnvöld hefðu gripið til í því skyni að fullnægja dómi Mannrétttindadómstóls Evrópu í máli stefnanda þessa máls gegn Íslandi. Dómurinn hafi verið þýddur og birtur á heimasíðu ráðuneytisins. Ekki væri ljóst hver afstaða Hæstaréttar yrði til beiðni stefnanda um endurupptöku málsins, þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 169. greinar laga nr. 91/1991, þar sem ekki hefði áður reynt á endurupptöku máls fyrir Hæstarétti í kjölfar þess að Mannréttindadómstóll Evrópu hefði slegið föstu broti gegn mannréttindasáttmálanum. Þá var vísað til þess að dómsmálaráðuneytið hefði með bréfi, dags. 18. júlí 2005, farið þess á leit við réttarfarsnefnd að hún léti í té álit sitt á því hvort ákvæði XXV. kafla laga nr. 91/1991, að því er varðar heimildir til endurupptöku mála, ættu að sæta endurskoðun, meðal annars að teknu tilliti til dóms mannréttindadómstólsins í máli stefnanda og tilmæla ráðherranefndar Evrópuráðsins nr. R(2000)2 um endurupptöku mála að landsrétti í kjölfar dómsuppkvaðninga mannréttindadómstólsins. Í því bréfi, sem hér var getið, er vísað til þess að með bréfi, dags. 18. október 2004, hefði fastanefnd Íslands hjá Evrópuráðinu greint frá því að ráðherranefnd Evrópuráðsins hefði ekki lokað máli stefnanda. Bréfinu hefði fylgt fyrirspurn frá mannréttindaskrifstofu Evrópuráðsins, dags. 12. ágúst 2004, þar sem fram kæmi sú afstaða að málinu yrði best lokið með endurupptöku þess fyrir Hæstarétti.
Hinn 7. júlí 2006 fór stefnandi þess á leit að dómur í framangreindu máli yrði felldur úr gildi og það tekið til meðferðar að nýju fyrir Hæstarétti. Samkvæmt endurriti úr gerðabók Hæstaréttar 23. október 2006 var umsókn stefnanda um endurupptöku hafnað þegar af þeirri ástæðu að skilyrði 2. mgr. 169. gr. laga nr. 91/1991 væru ekki uppfyllt til að Hæstiréttur tæki hana til efnislegrar umfjöllunar að nýju.
Stefnandi sendi forseta Alþingis bréf 23. febrúar 2007. Þar segir meðal annars að því sé beint til íslenska ríkisins að það hlutist til um að lögum um meðferð einkamála verði breytt í þá veru að það að endurupptökubeiðni hafi áður verið hafnað
hamli ekki endurupptöku máls og rétti til aðgangs að óhlutdrægum og óvilhöllum dómstóli. Að mati stefnanda sé ljóst, verði ekki hlutast til um viðeigandi lagabreytingar, að íslenska ríkið hafi þá synjað honum aðgangs að óhlutdrægum og óvilhöllum dómstóli og að honum sé þá nauðugur sá kostur að leita réttar síns eftir öðrum leiðum en beinast virðist þá liggja við að höfða skaðabótamál á hendur íslenska ríkinu. Í svarbréfi 5. mars 2007 kveðst forsetinn telja eðlilegast að dómsmálaráðherra og allsherjarnefnd meti hvort tilefni sé til að standa að þeirri lagabreytingu sem lögð sé til í bréfi stefnanda. Hann hafi því óskað eftir því við formann allsherjarnefndar að nefndin taki erindið til athugunar. Hins vegar sé ekki venja að forseti eigi frumkvæði að lagasetningu af þessu tagi í krafti síns embættis.
Af hálfu stefnanda er byggt á því að stefndi hafi brotið gegn þeim grundvallarréttindum hans að fá notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir óvilhöllum dómstóli við meðferð einkamáls hans gegn Landsbanka Íslands, sbr. 70. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. einnig 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og dóm Mannréttindadómstóls Evrópu frá 10. apríl 2003. Jafnframt er á því byggt að stefndi hafi vanrækt, í kjölfar dóms Mannréttindadómstóls Evrópu, að bregðast við dóminum með því að heimila stefnanda endurupptöku málsins og tryggja um leið aðgang hans að óvilhöllum dómstóli. Vegna framangreindra brota beri stefnda að bæta stefnanda allt það fjárhagslega tjón sem raunhæft megi telja að brotin hafi valdið. Brot á ákvæðum stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu, þ.m.t. þjóðréttarlegum skuldbindingum íslenska ríkisins, teljist að meginreglu saknæm af hálfu ríkisins en auk þess sé á því byggt að ríkið beri hlutlæga ábyrgð á slíkum brotum.
Af hálfu stefnanda er á því byggt að í umræddu hæstaréttarmáli, nr. 210/1996, hafi atkvæði hins vanhæfa dómara haft úrslitaþýðingu og hann hafi því verið sviptur raunhæfum kosti þess að tryggja fjárhagslegan rétt sinn, sbr. til hliðsjónar 72. gr. stjórnarskrárinnar. Af þessu sé jafnframt ljóst að hefði stefndi heimilað endurupptöku málsins og um leið tryggt aðgang stefnanda að óvilhöllum dómstóli séu líkur til þess að hann hefði fengið stefnufjárhæð máls þessa ásamt dráttarvöxtum frá 30. ágúst 1993 dæmdar úr hendi Landsbankans. Vegna aðgerðarleysis stefnda að tryggja stefnanda réttláta og hlutlausa málsmeðferð og þar með mannréttindi hans beri stefndi allan halla af því hver niðurstaða endurupptekins máls hefði orðið. Verði skaðabótaréttur stefnanda talinn háður því að hann hafi orðið fyrir óyggjandi fjártjóni verði stefndi að bera allan halla af óvissu í því tilliti enda sé hún til komin vegna réttarabrots hans og aðgerðaleysis við að rétta hlut stefnanda. Verði talið að stefnandi beri sönnunarbyrði fyrir tjóninu séu verulega miklar líkur fyrir því, hefði málið verið endurupptekið, að fallist hefði verið á fjárkröfur hans.
Umkrafin fjárhæð er þannig fundin að miðað er við höfuðstól kröfu stefnanda á hendur Landsbanka Íslands í hæstaréttarmálinu hr. 210/1996, 8.745.319 krónur, en á hann reiknist dráttarvextir samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. ágúst 1993, í samræmi við sératkvæði í málinu, til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001 frá þeim degi til 10. apríl 2003 er dómur Mannréttindadómstóls Evrópu var kveðinn upp. Líta verði svo á að við uppkvaðningu dómsins hafi brot stefnda verið staðfest og honum hafi þá í síðasta lagi borið að rétta hlut stefnanda. Áfallnir dráttarvextir á tilgreindu tímabili nemi 33.754.504 krónum sem að viðbættri höfuðstólsfjárhæð nemi samtals stefnufjárhæð málsins. Krafist er dráttarvaxta af þeirri kröfu á hendur stefnda frá 10. apríl 2003 þar sem stefnandi hafi gert ítarlega grein fyrir fjárkröfu sinni í erindi til Mannréttindadómstóls Evrópu 5. apríl 2002.
Höfnun dóms á framangreindum málsástæðum stefnanda feli í sér þá niðurstöðu að hann verði að hlíta því að hafa hvorki fengið aðgang að óvilhöllum dómstóli né að réttur hans vegna þessa hafi í neinu verið bættur. Yrði þetta niðurstaðan telur stefnandi sig eiga rétt á miskabótum úr hendi stefnda vegna þeirrar ólögmætu meingerðar sem slík niðurstaða fæli í sér, sbr. 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Telur stefnandi hæfilegar miskabætur svara sömu fjárhæð og hann telji fjárhagslegt tjón sitt vera.
Af hálfu stefnda er byggt á því að með dómi Hæstaréttar Íslands frá 25. apríl 1997 í máli nr. 210/1996 hafi verið felldur dómur á bótakröfu stefnanda gegn Landsbanka Íslands og bankinn verið sýknaður en krafan hafi á engan hátt byggst á réttarsambandi við stefnda. Dómur Hæstaréttar sé endanlegur samkvæmt grundvallarreglum réttarfars og íslenskrar stjórnskipunar og engin heimild sé til endurskoðunar hans, á þann hátt sem krafist sé í málinu, í formi skaðabótakröfu gegn stefnda. Þessu til stuðnings vísar stefndi til V. kafla stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, sbr. og 1. gr. dómstólalaga nr. 15/1998 og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 24. gr., 25. gr. og 116. gr., svo og meginreglna einkamálaréttarfars. Þá er vísað til fordæmis í Hrd. 10. júní 2004 í máli nr. 195/2004.
Megingagn stefnanda er endurrit dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 210/1996. Gögn þess máls hafa hins vegar ekki verið lögð fram.
Mannréttindadómstóll Evrópu mat einn af fimm dómurum framangreinds máls vanhæfan á grundvelli hlutlægra sjónarmiða. Að atkvæði hans undanskildu féllu atkvæði jafnt; tvö gegn tveimur. Ógerlegt er að ætla á um það á hvern veg atkvæði dómara, sem komið hefði í stað þess sem með réttu átti að víkja sæti, hefði fallið.
Eftir því sem háttar um kröfugerð og framsetningu málsástæðna þessa máls fæli efnisúrlausn þess óhjákvæmilega í sér að dómarinn tæki afstöðu til þess dóms sem fyrir liggur. Slíkt er ekki heimilt að lögum; ekki gagnvart hliðsettum dómurum og fráleitt gegnvart æðra dómi.
Að því leyti sérstaklega sem lýtur að málsástæðu stefnanda fyrir miskabótum verður litið svo á að í raun sé stefnt að bótum fyrir ætlað fjártjón.
Samkvæmt þessu og með tilvísun í 24. gr. og 25. gr. laga nr. 91/1991 er niðurstaða úrskurðarins sú að fallast beri á kröfu stefnda um að vísa málinu frá dómi. Ákveðið er að málskostnaður skuli falla niður.
Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Máli þessu er vísað frá dómi.
Málskostnaður fellur niður.