Hæstiréttur íslands

Mál nr. 142/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slitameðferð
  • Aðild
  • Meðalganga
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Sératkvæði


Föstudaginn 15. apríl 2011.

Nr. 142/2011.

ACMO S.a.r.l.

Bank Hapoalim B.M.

Berkshire Life Insurance Company of America

Black Diamond Arbitrage Offshore Ltd.

Black Diamond Offshore Ltd.

Burlington Loan Management Ltd.

Centerbridge Credit Partners Master LP

Centerbridge Credit Partners LP

Centerbridge Special Credit Partners LP

Conseq Invest plc

Crescent 1, LP

CRS Fund Ltd.

CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l.

Cyrus Opportunities Master Fund II Ltd.

Cyrus Select Opportunities Fund Ltd.

Double Black Diamond Offshore Ltd.

Eton Park Fund Ltd.

Eton Park Master Fund Ltd.

FBC S.a.r.l.

Fortelus Special Situations Master Fund Ltd.

FPFO Corporates Ltd.

GLG European Distressed Fund

GLG Market Neutral Fund

GRF Master Fund LP

Guardian Life Insurance Company of America

HSBC Bank Australia Limited Sidney

ING Life Insurance and Annuity Company

ING USA Annuity and Life Insurance Company

Leonardo LP

Longacre Capital Partners (QP) Ltd.

Longacre Master Fund II, LP

Longacre Master Fund Ltd.

Longacre Opportunity Fund, LP

Lyxor Asset Management

Lyxor/Third Point Fund Ltd.

National Bank of Egypt (UK) Ltd.

Octavian Advisors LP

Octavian Special Master Fund LP

Ohio National Life Assurance Corporation

Pacific Life Assurance Company

PCI Fund LLC

Perry Partners International Inc.

Perry Partners LP

Ramius Enterprise Master Fund Ltd.

RCG PB Ltd.

Reliastar Life Insurance Company

Security Life of Denver Life Insurance Company

Silver Point Luxembourg Platform S.a.r.l.

The City of Edmonton

The Guardian Insurance and Annuity Company, Inc.

Third Point Offshore Master Fund LP

Third Point Partners LP

Third Point Qualified Partners LP

Third Point Ultra Master Fund LP

Tiberius OC Fund, Ltd.

rde Investment Partners LP

WGZ Bank Ireland plc

WGZ Bank Luxembourg S.A. og

Woldwide Transactions Ltd.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

gegn

Solihull Metropolitan Borough Council

(Ólafur Eiríksson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Aðild. Meðalganga. Frávísunarúrskurður staðfestur. Sératkvæði.

A o.fl. kærðu úrskurð héraðsdóms þar sem kröfum þeirra í máli S á hendur G hf. o.fl. var vísað frá dómi. S og G hf. höfðu gert samning um svokölluð heildsölulán 7. júní 2002. S mun hafa efnt skyldu sína í samræmi við ákvæði samningsins réttu hálfu ári síðar með því að leggja umsamda fjárhæð inn á reikning G hf. í enskum banka. G hf. skyldi síðan endurgreiða S féð með tilgreindum vöxtum 5. desember 2008 en af því varð ekki. Hinn efnislegi ágreiningur í málinu snerist um það hvernig flokka skyldi kröfu S við slit G hf. en slitastjórn G hf. hafði hafnað því að hún væri forgangskrafa einkum vegna þess að krafan og viðskiptin að baki henni hefðu öll einkenni lánasamnings en ekki innláns. Hafði höfuðstóll kröfunnar verið viðurkenndur sem almenn krafa og einnig krafa um vexti og kostnað við meðferð málsins. A o.fl. höfðu tekið afstöðu með G hf. að hafna því að krafa S nyti forgangs og byggðu m.a. á því að 6. gr. laga nr. 125/2008 sem gert hafði innistæður að forgangskröfum væri í andstöðu við stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu og samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Í ágreiningsmáli samkvæmt ákvæðum laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. var A o.fl. skipað til varnar við hlið G hf. Fyrir Hæstarétti reistu A o.fl. málatilbúnað sinn á því að þeir ættu lögvarða hagsmuni af því að eiga aðild að málinu við hlið G hf. þrátt fyrir að dómkröfur þeirra væru hinar sömu og G hf. Í málinu var vísað til dóms Hæstaréttar í máli nr. 638/2010 en þar hafði kröfuhafahópur, sem síðar kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar, hvorki fyrr né síðar mótmælt afstöðu slitastjórnar heldur samsinnt henni og var talið þegar af þeirri ástæðu að þeir hefðu hvorki getað látið ágreining þess sem lýsti kröfunni og slitastjórnar til sín taka fyrir héraðsdómi né Hæstarétti. Taldi Hæstiréttur að aðstaðan í málinu félli saman við þá sem var í máli nr. 638/2010 og væri sá dómur skýrt fordæmi við úrlausn um aðild A o.fl. Var engu talið breyta þótt héraðsdómari hefði á fyrri stigum ranglega talið að þeir ættu aðild að málinu. Með vísan til þessa var hinn kærði úrskurður staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 24. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. mars sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2011 þar sem kröfum sóknaraðila í máli varnaraðila gegn Glitni banka hf. og fleirum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar krefjast þess að hinum kærða úrskurði verði hrundið og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfur þeirra til efnismeðferðar. Þá krefjast þeir málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

I

Í úrskurði héraðsdóms er greint frá samningi varnaraðila, sem er sveitarfélag í Englandi, og Glitnis banka hf. 7. júní 2007 um svokallað heildsölulán, og að varnaraðili hafi efnt skyldu sína í samræmi við ákvæði samningsins réttu hálfu ári síðar með því að leggja umsamda fjárhæð inn á reikning Glitnis banka hf. í enskum banka. Glitnir banki hf. skyldi síðan endurgreiða varnaraðila féð með tilgreindum vöxtum 5. desember 2008. Áður en kom að gjalddaga kynnti Fjármálaeftirlitið með auglýsingu 7. október 2008 ákvörðun sína að taka yfir vald hluthafafundar í áfrýjanda og víkja stjórn hans frá störfum þegar í stað. Var Glitni banka hf. jafnframt skipuð skilanefnd sem tók við öllum heimildum stjórnar hans samkvæmt ákvæðum laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Bankanum var veitt greiðslustöðvun 24. nóvember 2008 og kom ekki til þess að hann efndi samninginn við varnaraðila á gjalddaga. Honum var síðan skipuð slitastjórn 12. maí 2009, sem gaf í kjölfarið út innköllun til kröfuhafa félagsins í samræmi við ákvæði laga nr. 21/1991 og birtist hún í Lögbirtingablaði hið fyrra sinn 26. maí 2009. Kröfulýsingarfresti lauk 26. nóvember 2009 og lýsti varnaraðili fyrir slitastjórn kröfu vegna áðurnefndra viðskipta hans við Glitni banka hf. Kröfunni lýsti hann að meginstefnu sem forgangskröfu samkvæmt 112 gr. laga nr. 21/1991 á þeim grunni að um innlán hafi verið að ræða. Slitastjórn bankans hafnaði að forgangsréttur fylgdi kröfunni þar eð samningurinn 7. júní 2007 hefði öll einkenni þess að vera lánssamningur en ekki samningur um innlán. Á hinn bóginn var fallist á að höfuðstóll kröfunnar væri almenn krafa við slit bankans. Varnaraðili mótmælti afstöðu slitastjórnar um rétthæð kröfunnar og náðist ekki að jafna ágreining um það. Með bréfi slitastjórnar til Héraðsdóms Reykjavíkur 22. mars 2010 var krafist úrlausnar dómsins um ágreininginn með vísan til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr., laga nr. 21/1991. Sóknaraðilar og fleiri kröfuhafar við slit bankans höfðu mótmælt við slitastjórn afstöðu varnaraðila um rétthæð kröfu hans og gerði slitastjórn héraðsdómi grein fyrir því og að þeir krefðust að eiga aðild að dómsmálinu. Ákvað héraðsdómur að verða við því. Í samræmi við það að afstaða þeirra til kröfu varnaraðila féll saman við afstöðu Glitnis banka hf. til hennar var þeim ákveðin staða í málinu við hlið bankans, sbr. 3. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991.

Eftir þingfestingu málsins 23. júní 2010 voru háð nokkur þinghöld þar sem aðilarnir lögðu fram greinargerðir sínar og fjölmörg önnur skjöl. Í þinghaldi 1. febrúar 2011 krafðist varnaraðili þess að kröfum annarra gagnaðila hans en Glitnis banka hf. yrði vísað frá dómi. Krafan var borin fram í tilefni þess að 7. janúar 2011 féll dómur í Hæstarétti í máli nr. 638/2010, sem varnaraðili taldi skipta máli sem fordæmi varðandi aðild annarra gagnaðila sinna í málinu en Glitnis banka hf. Flestir þeirra, sem krafan beindist gegn, mótmæltu henni en Glitnir banki hf. lét þann ágreining ekki til sín taka. Var málið síðan munnlega flutt um þetta álitaefni, en ágreiningur aðilanna um efni málsins var ekki til úrlausnar í þessum þætti. Niðurstaða héraðsdóms varð sú að krafa varnaraðila var tekin til greina og kröfum gagnaðila hans, annarra en Glitnis banka hf., vísað frá dómi.

Fyrir héraðsdómi höfðu ekki aðeins Glitnir banki hf. og sóknaraðilar mótmælt afstöðu varnaraðila um rétthæð kröfu þess síðastnefnda, heldur einnig fleiri sem lýst höfðu kröfu við slit Glitnis banka hf. og urðu aðilar málsins í upphafi. Þessir kröfuhafar og sóknaraðilar eru allir erlend fjármálafyrirtæki. Eftir að áðurnefndur dómur Hæstaréttar lá fyrir 7. janúar 2011 drógu ellefu kröfuhafar sig út úr málinu 1. febrúar 2011. Ellefu þeirra, sem áttu aðild að málinu við uppkvaðningu úrskurðar héraðsdóms, una honum, en aðrir gagnaðilar varnaraðila að Glitni banka hf. undanskildum standa að kæru hans til Hæstaréttar.

II

Við munnlegan flutning málsins fyrir héraðsdómi var bókað í þingbók að lögmaður sóknaraðila hafi bent á að reglur um meðalgöngu í einkamálum væru til að auðvelda þriðja manni að koma að sínum sjónarmiðum í dómsmáli milli annarra aðila. Þá sé réttur til aðgangs að dómstólum varinn í 70. gr. stjórnarskrárinnar og í 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. Fyrir Hæstarétti reisa þeir málatilbúnað sinn á því að þeir eigi lögvarða hagsmuni af því að eiga aðild að málinu við hlið Glitnis banka hf., þrátt fyrir að dómkröfur þeirra séu hinar sömu og bankans. Málsástæður og lagarök séu að nokkru leyti hin sömu en að öðru leyti séu þau ólík. Þannig telji sóknaraðilar að lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og lög nr. 44/2009 um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum, brjóti gegn tilteknum ákvæðum stjórnarskrárinnar og sé ókleift að reisa dóm á þeim. Verði sóknaraðilum synjað um aðild að málinu nái „héraðsdómur ekki að gaumgæfa hin stjórnskipulegu rök né heldur taka afstöðu til þeirra.“ Færi málið við svo búið til Hæstaréttar verði þau rök ekki heldur flutt þar fyrir dómi. Skýra beri 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar með hliðsjón af þessari aðstöðu og því fái ekki staðist að vísa kröfum sóknaraðila frá dómi. Ekki sé á hinn bóginn byggt á reglum um meðalgönguaðild í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála, andstætt því sem hafi verið í áðurnefndu máli nr. 638/2010. Þá hafi krafa varnaraðila um að vísa kröfu sóknaraðila frá dómi verið of seint fram borin, sbr. 5. mgr. 101. gr. síðastnefndra laga. Loks hafi héraðsdómara borið að gæta samræmis við meðferð annarra sambærilegra mála, sem til úrlausnar hafi verið við sama dómstól, en ákvörðun hans um að láta flytja málið sérstaklega um formhlið sé í ósamræmi við ákvörðun annarra dómara um að við aðalmeðferð yrðu mál flutt bæði um form og efni.

Í greinargerð sem varnaraðili lagði fyrir héraðsdóm 13. september 2010 lýsti hann þeirri skoðun að sóknaraðilar gætu ekki átt aðild að málinu, enda hafi þeir ekki mótmælt ákvörðun slitastjórnar Glitnis banka hf. um skipan kröfu varnaraðila í réttindaröð, heldur ættu þeir það erindi eitt inn í málið að bæta við nýjum rökum til stuðnings ákvörðun slitastjórnar. Varnaraðili krafðist þess þó ekki fyrr en í þinghaldi 1. febrúar 2011 að kröfum sóknaraðila yrði vísað frá dómi, svo sem áður er getið. Varnaraðili mótmælir jafnframt að sóknaraðilar eigi lögvarða hagsmuni af aðild að málinu, enda hafi afstaða Glitnis banka hf. ekki áhrif á hagsmuni þeirra þar sem þeir geri sömu kröfur og bankinn. Varnaraðili og Glitnir banki hf., hafi forræði á málatilbúnaði sínum og kjósi þeir að líta ekki til hugsanlegra málsástæðna til stuðnings kröfum sínum sé það þeirra val.

III

Í þinghaldi 13. janúar 2011 vakti héraðsdómari athygli lögmanna málsaðila á dómi Hæstaréttar, sem fallið hafði fáum dögum fyrr í máli nr. 638/2010 „með tilliti til þess hvort aðilar telji hann geta skipt máli“ varðandi aðild sóknaraðila og fleiri kröfuhafa sem þá áttu aðild að málinu. Var jafnframt bókað að lögmenn aðila teldu rétt að fara betur yfir dóminn áður en þeir tjáðu sig um álitaefnið. Var málinu við svo búið frestað til 1. febrúar 2011 og bókað að gengið væri út frá að það yrði munnlega flutt sérstaklega um þennan þátt málsins í því þinghaldi ef ágreiningur reyndist vera um aðild þeirra, sem að framan var getið. Í þinghaldi þann dag bar varnaraðili fram kröfu sína um frávísun krafna sóknaraðila og fleiri kröfuhafa og fór þá fram munnlegur málflutningur um þann þátt málsins. Að þessu virtu og með vísan til 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991, verður ekki talið að ákvæði 5. mgr. 101. gr. laganna, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991, standi því í vegi að krafa varnaraðila komi til úrlausnar.

Í áðurnefndu máli nr. 638/2010 stóð svo á að slitastjórn fjármálafyrirtækis hafði hafnað tiltekinni kröfu og hópur annarra kröfuhafa lýst sig samþykkan afstöðu slitastjórnar, þótt þeir væru ekki nema að hluta sammála forsendum slitastjórnar fyrir þeirri afstöðu og þá einkum vegna málsástæðu kröfuhafahópsins um stjórnskipulegt gildi laga nr. 125/2008 og nr. 44/2009, sem var hin sama og í þessu máli. Þeir kusu hins vegar ekki að láta ágreining fyrstnefnda kröfuhafans og slitastjórnar til sín taka fyrr en fyrir Hæstarétti. Sóknaraðilar vefengja að dómur Hæstaréttar í áðurnefndu máli sé fordæmi, sem með réttu eigi að leiða til þeirrar niðurstöðu, sem varð í hinum kærða úrskurði. Aðstaðan sé ólík þar sem kröfuhafahópurinn í fyrra málinu hafi ekki átt aðild að því fyrir héraðsdómi, en talið sig engu að síður eiga aðild að því fyrir Hæstarétti, meðal annars á grundvelli reglna í lögum nr. 91/1991 um meðalgöngu. Í því máli, sem hér sé til úrlausnar, hafi sóknaraðilar á hinn bóginn verið aðilar frá þingfestingu þess fyrir héraðsdómi.

Í niðurstöðu dóms Hæstaréttar í máli nr. 638/2010 er til þess vísað að samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með áorðnum breytingum gildi ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess. Eftir 119. gr. síðarnefndu laganna beri slitastjórn fjármálafyrirtækis að gera skrá um lýstar kröfur og taka þar afstöðu til þess hvort og þá hvernig viðurkenna skuli hverja þeirra. Af 1. mgr. 120. gr. laganna leiði að kröfuhafa, sem vilji ekki una afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar sinnar eigin kröfu, sé heimilt að bera fram mótmæli gegn þeirri afstöðu og stuðla þannig að því að ágreiningi þeirra yrði beint til úrlausnar dómstóla eftir 171. gr. sömu laga. Eftir sama ákvæði geti kröfuhafi jafnframt mótmælt afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu, sem annar kröfuhafi lýsti, hafi niðurstaðan áhrif á hagsmuni þess sem mótmælir. Sá sem lýsti kröfunni, sem það mál snerist um, hafi nýtt þessa heimild til að mótmæla afstöðu slitastjórnar sem gekk gegn kröfu hans. Kröfuhafahópur, sem síðar kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar, hafi á inn bóginn hvorki fyrr né síðar mótmælt afstöðu slitastjórnar heldur samsinnt henni. Þegar af þeirri ástæðu hafi þeir hvorki getað látið ágreining þess sem lýsti kröfunni og slitastjórnar til sín taka fyrir héraðsdómi né Hæstarétti á grundvelli almennra reglna 1. mgr. 120. gr. og 171. gr. laga nr. 21/1991. Breyti engu í því efni þótt slitastjórnin hafi ranglega talið að þeir hafi átt að eiga aðild að málinu í héraði.

Slitastjórn Glitnis banka hf. hafnaði kröfu varnaraðila um að skipa kröfu hans í réttindaröð sem forgangskröfu og sóknaraðilar samsinntu þeirri afstöðu. Aðstaðan fellur að þessu leyti saman við þá, sem var í máli nr. 638/2010 og að framan var greint frá. Sá dómur er því skýrt fordæmi við úrlausn um aðild sóknaraðila að málinu. Breytir engu þótt héraðsdómari hafi á fyrri stigum ranglega talið að þeir ættu aðild að málinu og hinu sama gegnir um þá viðbáru sóknaraðila að samræmis hafi ekki verið gætt þegar litið sé til meðferðar sambærilegra mála, sem rekin séu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, og áður var nefnt. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða óskipt varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði segir, en við ákvörðun hans er litið til þess að kæra þeirra er að ófyrirsynju.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, ACMO S.a.r.l., Bank Hapoalim B.M., Berkshire Life Insurance Company of America, Black Diamond Arbitrage Offshore Ltd., Black Diamond Offshore Ltd., Burlington Loan Management Ltd., Centerbridge Credit Partners Master LP, Centerbridge Credit Partners LP, Centerbridge Special Credit Partners LP, Conseq Invest plc, Crescent 1, LP, CRS Fund Ltd., CVI GVF (Lux) Master S.a.r.l., Cyrus Opportunities Master Fund II Ltd., Cyrus Select Opportunities Fund Ltd., Double Black Diamond Offshore Ltd., Eton Park Fund Ltd., Eton Park Master Fund Ltd., FBC S.a.r.l., Fortelus Special Situations Master Fund Ltd., FPFO Corporates Ltd., GLG European Distressed Fund, GLG Market Neutral Fund, GRF Master Fund LP, Guardian Life Insurance Company of America, HSBC Bank Australia Limited Sidney, ING Life Insurance and Annuity Company, ING USA Annuity and Life Insurance Company, Leonardo LP, Longacre Capital Partners (QP) Ltd., Longacre Master Fund II, LP, Longacre Master Fund Ltd., Longacre Opportunity Fund, LP, Lyxor Asset Management, Lyxor/Third Point Fund Ltd., National Bank of Egypt (UK) Ltd., Octavian Advisors LP, Octavian Special Master Fund LP, Ohio National Life Assurance Corporation, Pacific Life Assurance Company, PCI Fund LLC, Perry Partners International Inc., Perry Partners LP, Ramius Enterprise Master Fund Ltd., RCG PB Ltd., Reliastar Life Insurance Company, Security Life of Denver Life Insurance Company, Silver Point Luxembourg Platform S.a.r.l., The City of Edmonton, The Guardian Insurance and Annuity Company, Inc., Third Point Offshore Master Fund LP, Third Point Partners LP, Third Point Qualified Partners LP, Third Point Ultra Master Fund LP, Tiberius OC Fund, Ltd., Värde Investment Partners LP, WGZ Bank Ireland plc, WGZ Bank Luxembourg S.A. og Woldwide Transactions Ltd., greiði óskipt varnaraðila, Solihull Metropolitan Borough Council, 3.000.000 krónur í kærumálskostnað.

Sératkvæði

Ólafs Barkar Þorvaldssonar

Málavextir eru ítarlega raktir í atkvæði meirihluta dómenda og vísast til þess. Málið snýst um það eitt hvort sóknaraðilar skuli teljast aðilar að ágreiningsmáli sem rekið er fyrir héraðsdómi um kröfu varnaraðila við slit Glitnis banka hf. Slitastjórn bankans hafnaði kröfu varnaraðila sem forgangskröfu en féllst á hluta hennar sem almenna kröfu í búið. Sóknaraðilar hafa ætíð andmælt kröfu varnaraðila sem forgangskröfu í bú Glitnis banka hf. og veitti héraðsdómur þeim upphaflega aðild að ágreiningsmálinu og ákvað þeim stöðu við hlið bankans, sbr. 3. mgr. 171. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðilar höfðu þannig uppi sömu afstöðu til málefnisins og Glitnir banki hf. Sá meginmunur er þó á að sóknaraðilar byggja þá afstöðu sína á fleiri málsástæðum en bankinn og lúta þau atriði að ætluðum stjórnarskrárvörðum rétti þeirra til verndar eignarréttinda og til jafnræðis. Telja sóknaraðilar að hafna eigi kröfu varnaraðila meðal annars sökum þess að lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. og lög nr. 44/2009 um breyting á lögum nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, með síðari breytingum brjóti gegn tilteknum ákvæðum stjórnarskrár og því verði ekki á þeim byggt.

Tilgangur málsmeðferðarreglna laga nr. 21/1991 er að veita kröfuhöfum rétt á að koma að kröfum sínum og fá þær metnar eftir almennum og hlutlægum mælikvarða á grundvelli málsástæðna sem kröfuhafar kjósa að færa fram til stuðnings kröfum sínum. Hlutverk slitastjórnar er að gæta að hagsmunum allra kröfuhafa samkvæmt þeim reglum sem fram koma í lögunum. Sóknaraðilar telja að slitastjórn bankans gæti ekki hagsmuna þeirra með fullnægjandi hætti. Óumdeilt er að sóknaraðilar hefðu orðið aðilar að ágreiningi um kröfu varnaraðila og komið að öllum sínum málsástæðum hefði slitastjórn bankans samþykkt kröfu varnaraðila, sbr. 1. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Í slíku máli hefðu fleiri aðilar en einn getað haft uppi sömu kröfur en eftir atvikum á grundvelli mismunandi sjónarmiða til stuðnings þeim. Þá ber að hafa í huga að komi til þess að dómstólar fallist ekki á málsástæður Glitnis banka hf., sem hann ber fram í ágreiningsmálinu, yrði það til þess að sóknaraðilar fengju minna úthlutað úr búinu en ella, án þess að þeim gæfist kostur á að færa fram öll sín sjónarmið gegn þeirri niðurstöðu. Þyrftu sóknaraðilar þá eftir atvikum að freista þess að fá úrlausn dómstóla um fjárkröfur sínar, eða ætlað tjón, eftir öðrum leiðum og þá eftir atvikum á öðrum grunni og gegn öðrum en Glitni banka hf.

Samkvæmt framansögðu er augljóst að sóknaraðilar hafa beina og verulega fjárhagslega hagsmuni af niðurstöðu dómstóla um ágreining þann sem verður dæmt um í þessu máli. Þá er fram komið að verði sóknaraðilum meinuð aðild að málinu er óvíst hvort þeir fái til fulls notið þeirrar málsmeðferðar sem 70. gr. stjórnarskrárinnar er ætlað að tryggja. Þegar litið er til þessa er að mínu áliti ekki rétt að túlka ákvæði laga nr. 21/1991 á þá lund sem meirihluti dómenda gerir heldur ber að heimila sóknaraðilum aðild að ágreiningsmáli þessu líkt og héraðsdómari gerði í upphafi málsmeðferðarinnar.

                                                   

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. febrúar 2011.

Solihull Metropolitan Borough Council

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Glitni banka hf.,

(Steinunn Guðbjartsdóttir hrl.)

Bayerische Landesbank,

Bremer Landesbank,

Commerzbank AG,

DekaBank Deutsche Girozentrale,

Deutsche Postbank International S.A.,

Erste Group Bank AG,

Landesbank Baden-Würtemberg,

Landesbank Saar, Luxembourg Branch,

Sparkasserstenfeldbruck,

Sparkasse Pforzheim Calw,

 (Kári Hólm Ragnarsson hdl.)

ACMO Sarl,

Bank Hapoalim B.M.,

Berkshire Life Insurance Company of America,

Black Diamond Arbitrage Offshore Ltd.,

Black Diamond Offshore Ltd.,

Burlington Loan Management Limited,

Centerbridge Credit Partners Master LP,

Centerbridge Cretid Partners LP,

Centerbridge Special Credit Partners LP,

Conseq Invest plc,

Crescent 1, L.P.,

CRS Fund Ltd.,

CVI GVF (Lux) Master Sarl,

Cyrus Opportunities Master Fund II Ltd.,

Cyrus Select Oportunitites Fund Ltd.,

Double Black Diamond Offshore Ltd.,

Eton Park Fund L.P.,

Eton Park Master Fund LP,

FBC S.a.r.l.,

Fortelus Special Situations Master Fund Ltd.,

FPFO Corporates Ltd.,

GLG European Distressed Fund,

GLG Market Neutral Fund,

GRF Master Fund LP,

Guardian Life Insurance Company of America,

HSBC Bank Australia Limited Sidney,

ING Life Insurance and Annuity Company (SA),

ING USA Annuity and Life Insurance Company,

Leonardo LP,

Longacre Capital Partners (QP) Ltd.,

Longacre Master Fund II, LP,

Longacre Master Fund Ltd.,

Longacre Opportunity Fund, LP,

Lyxor Asset Management,

Lyxor Third Point Fund Ltd.,

National Bank of Egypt (UK) Limited,

Octavian Advisors LP,

Octavian Special Master Fund LP,

Ohio National Life Assurance Corporation,

Pacific Life Assurance Company,

PCI Fund LLC,

Perry Partners International Inc.,

Perry Partners, LP,

Ramius Enterprise Master Fund Ltd.,

RCG PB Ltd.,

ReliaStar Life Insurance Company,

Security Life of Denver Life Insurance Company,

Silver Point Luxembourg Platform Sarl,

The City of Edmonton,

The Guardian Insurance and Annuity Company, Inc,

Third Point Offshore Master Fund LP,

Third Point Partners LP,

Third Point Partners Qualified LP,

Third Point Ultra Master Fund LP,

Tiberius OC Fund, Ltd.,

Varde Investment Partners LP,

WGZ Bank Ireland plc,

WGZ Bank Luxembourg og

Woldwide Transactions Limted.

(Ragnar Aðalsteinsson hrl.)

I

Mál þetta var þingfest 23. júní 2010 og tekið til úrskurðar 1. febrúar 2011 um kröfu sóknaraðila um að kröfum annarra varnaraðila en Glitnis banka hf. verði vísað frá dómi.  Sóknaraðili er Solihull Metropolitan Borough Council, Englandi.  Varnaraðilar eru Glitnir banki hf. Sóltúni 26, Reykjavík og eftirtaldir erlendir aðilar sem hér eftir verða, til einföldunar og þegar það á við, kallaðir Bayerische Landesbank o.fl.: Bayerische Landesbank, Bremer Landesbank, Commerzbank AG, DekaBank Deutsche Girozentrale, Deutsche Postbank International S.A., Erste Group Bank AG, Landesbank Baden-Würtem­berg, Landesbank Saar, Luxembourg Branch, Sparkasserstenfeldbruck, Sparkasse Pforzheim Calw, og eftirtaldir erlendir aðilar sem hér eftir verða, til einföldunar og þegar það á við, kallaðir ACMO Sarl o.fl.: ACMO Sarl, Bank Hapoalim, Berkshire Life Insurance Company of America, Black Diamond Arbitrage Offshore Ltd., Black Diamond Offshore Ltd., Burlington Loan Management Limited, Centerbridge Credit Partners Master LP, Centerbridge Credit Partners, LP, Centerbridge Special Credit Partners, LP, Conseq Invest plc, Crescent 1, L.P., CRS Fund Ltd., CVI GVF (Lux) Master Sarl, Cyrus Opportunities Master Fund II Ltd, Cyrus Select Oportunitites Fund Ltd, Double Black Diamond Offshore Ltd, Eton Park Fund L.P., Eton Park Master Fund LP, FBC S.a.r.l., Fortelus Special Situations Master Fund Ltd,  FPFO Corporates Ltd, GLG European Distressed Fund, GLG Market Neutral Fund, GRF Master Fund LP, Guardian Life Insurance Company of America, HSBC Bank Australia Limited Sidney, ING Life Insurance and Annuity Company (SA),  ING USA Annuity and Life Insurance Company, Leonardo LP, Longacre Capital Partners (QP) Ltd, Longacre Master Fund II, LP, Longacre Master Fund Ltd, Longacre Opportunity Fund,  LP, Lyxor Asset Management, Lyxor Third Point Fund Ltd., National Bank of Egypt (UK) Limited, Octavian Advisors LP, Octavian Special Master Fund LP, Ohio National Life Assurance Corporation, Pacific Life Assurance Company, PCI Fund LLC, Perry Partners International Inc., Perry Partners, LP, Ramius Enterprise Master Fund Ltd, RCG PB Ltd, ReliaStar Life Insurance Company, Security Life of Denver Life Insurance Company, Silver Point Luxembourg Platform Sarl, The City of Edmonton, The Guardian Insurance and Annuity Company, Inc, Third Point Offshore Master Fund LP, Third Point Partners LP, Third Point Partners Qualified LP, Third Point Ultra Master Fund LP, Tiberius OC Fund, Ltd., Varde Investment Partners LP, WGZ Bank Ireland plc, WGZ Bank Luxembourg og Woldwide Transactions Limted.

Dómkröfur sóknaraðila eru:

Aðalkrafa

a)       Að krafa sóknaraðila á hendur Glitni banka hf. að fjárhæð 1.000.000 sterlings­punda með 6,29% samningsvöxtum frá 7. desember 2007 til og með 4. desember 2008, samtals að fjárhæð 1.062.727,67 sterlingspund, verði samþykkt sem forgangskrafa sam­kvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

b)       Að krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 5. desember 2008 til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 101.716,14 sterlingspund, verði staðfest sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en verði ekki fallist á það er þess til vara krafist hvað þennan lið varðar að krafa um 8% vanskila­vexti fyrir sama tímabil í samræmi við 17. kafla enskra réttarfarslaga (e. English Judge­ments Act 1838), samtals að fjárhæð 32.377 sterlingspund, verði staðfest sem forgangs­krafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.  Verði ekki á það fallist er til þrautavara hvað þennan lið varðar gerð krafa um 6,29% samningsvexti fyrir sama tímabil, samtals að fjárhæð 25.465 sterlingspund, verði staðfest sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, en verði ekki fallist á það er þess til þrautaþrautavara krafist hvað þennan lið varðar að vextir að álitum fyrir sama tímabil verði staðfestir sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

c)       Að krafa sóknaraðila um áfallinn kostnað til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 478,51 sterlingspund auk virðisaukaskatts, verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

Varakrafa

a)       Að krafa sóknaraðila á hendur Glitni banka hf. að fjárhæð 1.000.000 sterlings­punda með 6,29% samningsvöxtum frá 7. desember 2007 til og með 4. desem­ber 2008, samtals að fjárhæð 1.062.727,67 sterlingspund, verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

b)       Að krafa sóknaraðila um dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, frá 5. desember 2008 til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 101.716,14 sterlingspund, verði staðfest sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en verði ekki fallist á það er þess til vara krafist hvað þennan lið varðar að krafa um 8% vanskilavexti fyrir sama tímabil í samræmi við 17. kafla enskra réttarfarslaga (e. English Judgments Act 1838), samtals að fjár­hæð 32.377 sterlingspund, verði staðfest sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.  Verði ekki fallist á það er þess til þrautavara krafist hvað þennan lið varðar að krafa um 6,29% samningsvexti fyrir sama tímabil, samtals að fjárhæð 25.456,00 sterlingspund, verði staðfest sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, en verði ekki fallist á það er þess til þrautaþrautavara krafist hvað þennan lið varðar að vextir að álitum fyrir sama tímabil verði staðfestir sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

c)       Að krafa sóknaraðila um áfallinn kostnað til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 478,51 sterlingspund auk virðisaukaskatts, verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Þá er þess krafist bæði í aðal- og varakröfu að varnaraðilum verði in solidum gert að greiða sóknaraðila málskostnað auk virðisaukaskatts.

Dómkröfur varnaraðila, Glitnis banka hf., eru þær aðallega að krafa sóknaraðila nr. CL20091121-1849 í kröfuskrá að lýstri fjárhæð 1.164.922.32 sterlingspund, sem um­reikn­ast í kröfuskrá í fjárhæð 222.593.357 krónur, verði hafnað sem forgangskröfu sam­kvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, við slitameðferð varnaraðila, Glitnis banka hf., og að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar að samþykkja höfuðstól kröfunnar að fjárhæð 1.000.000 sterlings­punda, sem umreiknast í kröfuskrá í 191.080.000 krónur, sem almenna kröfu sam­kvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991, auk samningsvaxta frá gildisdegi 7. desember 2007 til 22. apríl 2009 að fjárhæð 16.559.417 krónur.  Þá er þess krafist að kröfu sóknar­aðila um áfallinn kostnað til og með 22. apríl 2009, samtals að fjárhæð 2.294,42 sterlings­pund sem umreiknast í 438.418 krónur vegna ofangreindrar kröfu auk virðis­auka­skatts, verði hafnað.

Til vara gerir varnaraðili, Glitnir banki hf., þá kröfu að ef fallist verði á að hluti ofan­greindra krafna sóknaraðila njóti forgangs samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2001, skuli sú fjárhæð vera að hámarki 20.887 evrur sem um­reikn­ast í 3.534.707 krónur miðað við gengi gjaldmiðilsins 22. apríl 2009.

Í öllum tilvikum krefst varnaraðili, Glitnir banki hf., þess að sóknaraðila verði gert að greiða honum málskostnað auk virðisaukaskatts.

Varnaraðilar aðrir en Glitnir banki hf. taka undir aðalkröfu varnaraðila, Glitnis banka hf., um að staðfest verði sú afstaða slitastjórnar að viður­kenna höfuðstól kröfu sóknaraðila sem almenna kröfu.  Þá hafna þeir kröfum um áfallinn kostnað og vaxtakröfum sóknaraðila.  Þá taka þeir einnig undir varkröfu varnaraðila, Glitnis banka hf. auk þess sem varnaraðilarnir Bayerische Landesbank o.fl. gera kröfur um að hafnað verði kröfum um vexti og kostnað en varnaraðilarnir ACMO Sarl o.fl. gera kröfur um að hafnað verði að kröfur um vexti og kostnað teljist til forgangskrafna.  Til þrautavara krefjast varnaraðilar, aðrir en Glitnir banki hf., þess að vextir sem fallið hafi á kröfuna eftir 3. október 2008 njóti forgangs.

II

Málavextir eru þeir helstir að 7. júní 2007 gerðu sóknaraðili og varnaraðili, Glitnir banki hf., með sér samning um svokallað heildsölulán að fjárhæð 1.000.000 sterlingspunda.  Hinn 7. desember 2007 lagði sóknaraðili nefnda fjárhæð inn á reikn­ing hjá National West­minster Bank Plc í samræmi við samkomulag aðila.  Samkvæmt samkomu­lag­inu átti varnaraðili, Glitnir banki hf., síðan að greiða sóknaraðila umrædda fjárhæð ásamt 6,29% ársvöxtum inn á reikning Barclays Bank hinn 5. desember 2008. Kom ekki til greiðslunnar þar sem varnaraðili, Glitnir banki hf., var þá kominn í greiðslustöðvun en hinn 7. október 2008 ákvað fjármálaeftirlitið með heimild samkvæmt 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjár­mála­markaði o.fl., að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, Glitnis banka hf., og skipa honum skilanefnd.  Varnaraðila, Glitni banka hf., var veitt heimild til greiðslu­stöðvun­ar 24. nóvember 2008 sem standa átti til 13. febrúar 2009.  Var greiðslustöðvunin framlengd hinn 19. febrúar 2009 til 13. nóvember 2009.  Áður en sá tími var á enda, hinn 12. maí 2009, var varnaraðila, Glitni banka hf., skipuð slitastjórn samkvæmt ákvæðum 4. tl. ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009 um breyting á lögum nr. 161/2002 um fjármála­fyrirtæki. 

Slitastjórn varnaraðila, Glitnis banka hf., gaf út innköllun til skuldheimtu­manna sem birt­ist fyrra sinni í Lögbirtinga­blaði 26. maí 2009 og rann kröfulýsingar­frestur út sex mán­uð­um síðar eða 26. nóvember 2009.  Frestdagur við slitameðferðina er 15. nóvem­ber 2008 og upphafsdagur slitameðferðar er 22. apríl 2009.

Á kröfulýsingartímabilinu lýsti sóknaraðili kröfu CL20091121-1849, sem er til komin vegna áðurgreindra viðskipta sóknaraðila og varnaraðila, Glitnis banka hf.  Var gerð krafa um höfuðstól að fjárhæð 1.000.000 sterlingspunda auk samningsvaxta vegna samn­ingstímabilsins til gjalddaga að fjárhæð 62.727,67 sterlingspund.  Þá var gerð krafa um dráttarvexti að fjárhæð 101.716,14 sterlingspund fyrir tímabilið frá gjalddaga til 22. apríl 2009.  Auk þess var gerð krafa um greiðslu kostnaðar sem féll á kröfuna fyrir 22. apríl 2009 að fjárhæð 478,51 sterlingspund og kostnaðar sem fallið hefur á kröfuna eftir 22. apríl 2009 að fjárhæð 1.250 sterlingspund.

Hvað höfuðstól kröfunnar varðar sem og kröfu um vexti og kostnað sem til féll fyrir 22. apríl 2009 var krafist rétthæðar samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, en hvað vexti og kostnað, sem til féll eftir 22. apríl 2009, varðar var hins vegar vísað til rétthæðar samkvæmt 114. gr. laganna.

Slitastjórn varnaraðila, Glitnis banka hf., féllst ekki á kröfuna sem forgangskröfu en það var skoðun slitastjórnarinnar að gerningurinn hefði öll einkenni lánssamnings en ekki innláns.  Var fallist á að höfuðstóll kröfunnar væri almenn krafa í búið og var hún samþykkt sem slík en ekki var fallist á kröfur um vexti þar sem ekki lægju fyrir gögn sem staðfestu útreikning þeirra.

Með bréfi, dagsettu 14. desember 2009, mótmælti sóknaraðili afstöðu slitastjórnar um rétthæð kröfunnar.  Á skiptafundi sem slitastjórn varnaraðila, Glitnis banka hf., hélt 17. desember 2009 var fjallað um ágreining vegna afstöðu til kröfunnar og var boðað til ágreiningsfundar 4. mars 2010 þar sem sérstaklega var fjallað um kröfuna.  Sóknar­aðili hélt fast við mótmæli sín og tókst ekki að jafna ágreininginn.  Með bréfi slita­stjórn­ar varnaraðila, Glitnis banka hf., 22. mars 2010, sem barst dóminum 31. mars 2010, var krafist úrlausnar dóms­ins um ágreininginn með vísan til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðilarnir Baeyerische Landesbank o.fl. og ACMO Sarl o.fl., sem mótmælt höfðu kröfu sóknaraðila, fóru þess á leit að slita­stjórn­in tilkynnti héraðsdómi um kröfu þeirra um að eiga aðild að ágreiningsmálinu og var svo gert.  Þegar málið barst héraðsdómi var aðild að málinu ákveðin af dómara með hliðsjón af kröfugerð aðila, sbr. 3. mgr. 171. gr. laga nr. 21/199.

Við þingfestingu málsins hinn 23. júní 2010 komu fram athugasemdir af hálfu sóknaraðila varðandi aðild málsins þar sem hann taldi að varnaraðilar aðrir en Glitnir banki hf., ættu að vera sóknaraðilar málsins.  Því var mótmælt af hálfu annarra aðila en Glitnis banka hf. sem lét þann ágreining ekki til sín taka.  Í þinghaldi 25. júní 2010 tók dómari þá ákvörðun að miðað við kröfugerð aðila málsins væru ekki efni til að breyta því hvernig aðild væri háttað í málinu og því væru Bayerische Landesbank o.fl. og ACMO Sarl o.fl. varnaraðilar ásamt Glitni banka hf.

Í kjölfar framangreindrar ákvörðunar voru greinargerðir aðila lagðar fram og í gang fór umfangsmikil gagnaöflun og var málinu ítrekað frestað af þessum sökum meðal annars vegna þess að verið var að láta þýða skjöl yfir á íslensku.  

Í þinghaldi 13. janúar 2011 vakti dómari athygli lögmanna aðila á dómi Hæstaréttar Íslands sem kveðinn var upp 7. janúar 2011 í máli nr. 638/2010 með tilliti til þess hvort hann gæti skipt máli varðandi aðild annarra varnaraðila en Glitnis banka hf. í máli þessu.  Var ákveðið að fresta málinu til 1. febrúar 2011 til að gefa lögmönnum kost á að kynna sér dóminn.

Í fyrirtöku málsins hinn 1. febrúar 2011 var bókað að eftirtaldir varnaraðilar féllu frá aðild að málinu: Baupost Group Securities LLC, Caixa Geral de Depósitos, Deutshe Hypothekenbank AG, DZ Bank AG, HSH Nordbank AG, KfW Bankengruppe, Landesbank Berlin AG, Natixis, Raiffeisenverband Salzburg, Raiffeisen Zentralbank Österrich AG og Sumitomo Mitsui Banking Corporation Europe Limited. 

Í þinghaldinu 1. febrúar 2011 krafðist sóknaraðili þess að kröfum annarra varnaraðila en Glitnis banka hf. yrði vísað frá dómi og þeim, og öðrum varnaraðilum sem féllu frá aðild að málinu hinn 1. febrúar 2011, yrði gert að greiða sóknaraðila málskostnað í þessum þætti málsins.  Var kröfunum mótmælt af hálfu annarra varnaraðila en Glitnis banka hf. sem lét ágreininginn ekki til sín taka.  Var það mat dómara í ljósi umfangs málsins og með hliðsjón af 1. mgr. og  2. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að rétt væri að leysa úr þeim ágreiningi áður en málið yrði tekið til efnismeðferðar.  Í kjölfarið fór fram munnlegur málflutningur um það álitaefni hvort vísa ætti kröfum annarra varnaraðila en Glitnis banka hf. frá dómi og er einungis sá þáttur málsins hér til úrlausnar.  Dómkröfur varnaraðila, annarra en Glitnis banka hf., í þessum þætti málsins eru að frávísunarkröfu sóknar­aðila verði hafnað og að honum verði gert að greiða varnaraðilum málskostnað.

III

Í máli þessu snýst meginágreiningur aðila um það hvort kröfu sóknaraðila skuli flokka sem forgangskröfu við slitameðferð varnaraðila, Glitnis banka hf., á þeim grunni að hún sé innstæða en slitastjórn varnaraðila, Glitnis banka hf., hafnaði því að krafa sóknaraðila væri forgangskrafa einkum vegna þess að krafa sóknaraðila og viðskiptin að baki henni hefði öll einkenni lánasamnings eða verðbréfs en ekki innláns.  Var höfuð­­stóll kröfunnar viðurkenndur sem almenn krafa en kröfum um vexti og kostnað hafnað vegna óskýrleika.  Slitastjórn varnaraðila, Glitnir banki hf., hefur nú við meðferð málsins viðurkennt vaxtakröfu sóknaraðila á grundvelli samnings aðila frá 7. desember 2007 til 22. apríl 2009 sem almenna kröfu eins og höfuðstól kröfunnar.

Varnaraðilarnir, Bayerische Landesbank o.fl. og ACMO Sarl o.fl., hafa tekið undir þá afstöðu varnaraðilans Glitnis banka hf. að hafna því að krafa sóknaraðila njóti forgangs og byggja þeir meðal annars á því að 6. gr. laga nr. 125/2008 sem gert hafi innstæður að forgangskröfum sé í andstöðu við stjórnarskrá, mannréttindasáttmála Evrópu og samning um evrópska efnahagssvæðið.

Hvað snertir það álitaefni sem uppi er í þessum þætti málsins byggir sóknaraðili á því að varnaraðilarnir Bayerische Landesbank o.fl. og ACMO Sarl o.fl. séu sammála afstöðu slitastjórnar varnaraðila, Glitnis banka hf., varðandi kröfu sóknaraðila, en reyni á sama tíma að bæta nýjum röksemdum við rök slitastjórnar fyrir ákvörðun sinni.  Kveði hvorki lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. né lög nr. 91/1991 um meðferð einkamála á um að kröfuhafar geti átt aðild að dómsmálum þegar þeir mótmæli ekki ákvörðun slitastjórn­ar heldur bæti einungis við nýjum rökum til stuðnings ákvörðuninni.  Þá hafi slita­stjórn­ir sjálfdæmi samkvæmt gjaldþrotaskipta­lög­um um hvernig þær rökstyðji ákvarðanir sínar. 

Varnaraðilar aðrir en Glitnir banki hf. byggja á því að krafa sóknaraðila um frávísun sé of seint fram komin auk þess sem engar réttarfarslegar heimildir séu til þess að taka kröfu þessa til greina.  Þá vísa þeir til þess að reglur um meðalgöngu í einkamálum séu til þess gerðar að auðvelda þriðja manni að koma að sjónarmiðum sínum í dómsmáli milli annarra aðila.  Þá sé réttur til aðgangs að dóm­stól­um og aðildar að dómsmálum varinn í 70. gr. stjórnarskrárinnar, 6. og 13. gr. mannréttinda­sátt­mála Evrópu, 14. gr. alþjóðasamnings um borgaraleg og stjórnmála­leg réttindi og 47. gr. réttindaskrá Evrópusambandsins. 

IV

Eins og áður greinir snýst ágreiningur í þessum þætti málsins um aðild annarra varnaraðila en Glitnis banka hf. að ágreiningsmáli þessu.  Í greinargerð sóknaraðila er bent á það að hvorki sé í lögum nr. 91/1991 um meðferð einkamála né í lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. kveðið á um að kröfuhafar geti átt aðild að dómsmálum þegar þeir mótmæli ekki afstöðu slitastjórna.  Í þessu máli séu umdeildir varnaraðilar sammála afstöðu slitastjórnar varnaraðila, Glitnis banka hf., en með öðrum rökum og mótmælir sóknaraðili þeim viðbótarrökum.  Sóknaraðili gerði hins vegar ekki kröfu um að kröfum varnaraðila annarra en Glitnis banka hf. væri vísað frá dómi fyrr en eftir að dómur var kveðinn upp í Hæstarétti Íslands 7. janúar 2010 í máli nr. 638/2010 sem sóknaraðili telur að sé skýrt fordæmi sem eigi við í þessu máli.

Eins og fram er komið þótti dómara, einkum með hliðsjón af umfangi máls þessa og umfangsmikilli gagnaöflun, ekki síst af hálfu varnaraðila annarra en Glitnis banka hf., rétt að vekja athygli aðila á því, í kjölfar uppkvaðningar fyrrnefnds dóms Hæstaréttar, hvort varnaraðilar aðrir en Glitnir banki hf. ættu með réttu að eiga aðild að máli þessu.  Þegar litið er til skyldu dómara til að kanna það af sjálfsdáðum hvort þeir gallar kunni að vera á máli sem varðað geti frávísun þess og þess að krafa kom fram af hálfu sókn­ar­aðila um að kröfum umræddra varnaraðila yrði vísað frá dómi, var það mat dómara að rétt væri að leysa úr því álitaefni áður en málið yrði tekið til efnismeð­ferð­ar, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. og til hliðsjónar 2. mgr. ákvæðisins.  Verður því ekki fallist á að krafa um frávísun hafi komið of seint fram eða að réttarfarslegar heimildir skorti fyrir þessari málsmeðferð.

Samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 gilda ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess.  Samkvæmt 119. gr. laga nr. 21/1991 skal slitastjórn gera skrá um lýstar kröfur að loknum kröfulýsingarfresti og taka þar afstöðu til þess hvernig viðurkenna skuli hverja kröfu um sig.  Í 1. mgr. 120. gr. laganna segir að kröfuhafa, sem ekki vill una afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu sinnar, sé heimilt að bera fram mótmæli gegn afstöðu slita­stjórn­arinnar á skiptafundi sem haldinn er til að fjalla um lýstar kröfur.  Með sama hætti er kröfuhafa rétt að mótmæla afstöðu slitastjórnar til viðurkenningar kröfu sem annar kröfuhafi hefur gert, hafi niðurstaða um hana áhrif við skiptin á hagsmuni þess sem hefur uppi mótmælin.

Eins og rakið hefur verið lýsti sóknaraðili máls þessa kröfu sinni sem forgangskröfu samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slitameðferð varnaraðila, Glitnis banka hf.  Tók slitastjórnin þá afstöðu til kröfunnar í kröfuskrá að hafna henni sem forgangs­kröfu en viðurkenna höfuðstól hennar sem almenna kröfu og var sóknaraðila því heimilt að andmæla þeirri afstöðu og stuðla þannig að því að ágreiningi um viður­kenn­ingu kröfu sinnar yrði beint til úrlausnar dómsins samkvæmt 171. gr. laga nr. 21/1991.  Varnaraðilar aðrir en Glitnir banki hf. mótmæltu því að krafa sóknaraðila væri flokkuð sem forgangskrafa og samsinntu þar með afstöðu slitastjórnar varnaraðila Glitnis banka hf. til kröfu sóknaraðila.  Þegar af þeirri ástæðu geta þeir ekki látið ágreining sóknaraðila og varnaraðila, Glitnis banka hf., til sín taka á grundvelli 1. mgr. 120. gr. og 171. gr. laga nr. 21/1991, sbr. dóma Hæstaréttar 10. desember 2009 í máli nr. 663/2009 og 7. janúar 2010 í máli nr. 638/2010.

Varnaraðilar aðrir en Glitnir banki hf. vísa til þess að reglur um meðalgöngu í einkamálum séu til þess gerðar að auðvelda þriðja manni að koma að sjónarmiðum sínum í dómsmáli milli annarra aðila.  Samkvæmt 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 gilda almennar reglur laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála við meðferð máls sem rekið er til að fá leyst úr ágreiningi um viðurkenningu á kröfu við gjaldþrotaskipti.  Á þessum grunni getur þriðji maður samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 krafist þess að ganga inn í mál af þessum toga annaðhvort til að fá sakarefnið dæmt sér eða dómur verði annars felldur þannig að réttur hans verði verndaður.  Í máli þessu krefjast varnaraðilar aðrir en Glitnir banki hf. ekki að þeim verði dæmt sakarefnið í þessum skilningi heldur taka þeir undir kröfur varnaraðila, Glitnis banka hf., að meginstefnu til með öðrum málsástæðum.  Þannig er málatilbúnaður þeirra reistur á fjölmörgum málsástæðum sem þeir telja að færa megi fram til stuðnings því að kröfu sóknaraðila verði ekki skipað í röð forgangskrafna sem varnaraðili, Glitnir banki hf., hefur ekki byggt á.  Meðal­ganga samkvæmt 20. gr. laga nr. 91/1991 veitir ekki þriðja manni heimild til að bera fram málsástæðu til stuðnings kröfu annars upphaflegs málsaðilans sem sá vill ekki sjálfur halda fram, sbr. fyrrgreinda dóma Hæstaréttar í málum 663/2009 og 638/2010. 

Að öllu því virtu sem nú hefur verið rakið hafa varnaraðilar aðrir en Glitnir banki hf. ekki sýnt fram á að þeir hafi lögvarða hagsmuni af því að eiga aðild að máli þessu og verður kröfum þeirra því vísað frá dómi.  Með þeirri niðurstöðu er ekki girt fyrir aðgang varnaraðila annarra en Glitnis banka hf. að dómstólum enda er sá réttur tryggður öllum þeim sem lögvarinna hagsmuna hafa að gæta í 70. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu.

Eftir þessari niðurstöðu þykir eftir atvikum rétt að varnaraðilum, öðrum en Glitni banka hf. og þeim sem féllu frá aðild í þinghaldi málsins 1. febrúar 2011, verði sameiginlega gert að greiða sóknaraðila málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 500.000 krónur, þar með talinn virðisaukaskattur.

Af hálfu sóknaraðila flutti málið Ólafur Eiríksson hrl.  Af hálfu varnaraðilanna Bayerische Landesbank o.fl. flutti málið Kári Hólm Ragnarsson hdl. en af hálfu varnaraðilanna ACMO Sarl o.fl. flutti málið Ragnar Aðalsteinsson hrl.

Greta Baldursdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfum varnaraðila, Bayerische Landesbank, Bremer Landesbank, Commerzbank AG, DekaBank Deutsche Girozentrale, Deutsche Postbank International S.A., Erste Group Bank AG, Landesbank Baden-Würtemberg, Landesbank Saar, Luxembourg Branch, Sparkasserstenfeldbruck, Sparkasse Pforzheim Calw, ACMO Sarl, Bank Hapoalim B.M., Berkshire Life Insurance Company of America, Black Diamond Arbitrage Offshore Ltd., Black Diamond Offshore Ltd., Burlington Loan Management Limited, Centerbridge Credit Partners Master LP, Centerbridge Credit Partners, LP, Centerbridge Special Credit Partners LP, Conseq Invest plc, Crescent 1 L.P., CRS Fund Ltd., CVI GVF (Lux) Master Sarl, Cyrus Opportunities Master Fund II Ltd., Cyrus Select Oportunitites Fund Ltd., Double Black Diamond Offshore Ltd., Eton Park Fund L.P., Eton Park Master Fund LP, FBC S.a.r.l., Fortelus Special Situations Master Fund Ltd., FPFO Corporates Ltd., GLG European Distressed Fund, GLG Market Neutral Fund, GRF Master Fund LP, Guardian Life Insurance Company of America, HSBC Bank Australia Limited Sidney, ING Life Insurance and Annuity Company (SA), ING USA Annuity and Life Insurance Company, Leonardo LP, Longacre Capital Partners (QP) Ltd., Longacre Master Fund II LP, Longacre Master Fund Ltd., Longacre Opportunity Fund, LP, Lyxor Asset Management, Lyxor Third Point Fund Ltd., National Bank of Egypt (UK) Limited, Octavian Advisors LP, Octavian Special Master Fund LP, Ohio National Life Assurance Corporation, PCI Fund LLC, Perry Partners International Inc., Perry Partners, LP, Ramius Enterprise Master Fund Ltd., RCG PB Ltd., ReliaStar Life Insurance Company, Security Life of Denver Life Insurance Company, Silver Point Luxembourg Platform Sarl, The City of Edmonton, The Guardian Insurance and Annuity Company, Inc, Third Point Offshore Master Fund LP, Third Point Partners LP, Third Point Partners Qualified LP, Third Point Ultra Master Fund LP, Tiberius OC Fund, Ltd., Varde Investment Partners LP, WGZ Bank Ireland plc, WGZ Bank Luxembourg og Woldwide Transactions Limted, í máli þessu er vísað frá dómi.  

Framangreindir varnaraðilar greiði sóknaraðila, Solihull Metropolitan Borough Council, óskipt 500.000 krónur í málskostnað.