Hæstiréttur íslands

Mál nr. 183/2006


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Ráðningarsamningur


Fimmtudaginn 2

 

Fimmtudaginn 2. nóvember 2006.

Nr. 183/2006.

Festarfell ehf.

(Garðar Garðarsson hrl.)

gegn

Gunnlaugi Sævarssyni

(Jónas Haraldsson hrl.)

 

Sjómenn. Ráðningarsamningur.

G, sem starfað hafði sem háseti og stýrimaður á skipi í útgerð F, krafði félagið um vangreidd laun og laun í uppsagnarfresti vegna riftunar á ráðningarsamningi. Skriflegur ráðningarsamningur hafði ekki verið gerður og deildu aðilar um hvort G hefði verið fastráðinn eða aðeins ráðinn til ákveðinna úthalda eða veiðiferða í senn. Af fyrirliggjandi gögnum varð ráðið að lögskráning G á skipið hafði í nær öllum atriðum verið bundin við þau tímabil sem það var gert út til veiða á loðnu- og síldarvertíð og að hann hafði bæði á árinu 2001 og 2003 verið lögskráður á önnur skip utan þessara tímabila. Að þessu virtu og því að G tók til starfa á öðru skipi skömmu eftir að veiðum á skipinu var lokið í mars 2004 var talið að F hefði sýnt nægilega fram á að G hefði verið ráðinn á það hverju sinni til tímabundinna starfa á tilteknu veiðitímabili. Samkvæmt því var F sýknaður af kröfu G. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. apríl 2006. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hún verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Samkvæmt gögnum málsins starfaði stefndi í júlí 2000 sem háseti og stýrimaður á nótaveiðiskipinu Erni KE 13, en eftir það frá 16. október til 8. desember á því ári. Stefndi kveðst síðan hafa verið fastráðinn 3. janúar 2001 sem stýrimaður á skipinu og hafi hann gegnt þeirri stöðu allt til ársins 2004, en skipið hafi á þessu tímabili verið gert út af áfrýjanda, sem þá hét Festi hf. Áfrýjandi heldur því á hinn bóginn fram að stefndi hafi frá árinu 2000 verið af og til ráðinn til starfa á skipinu og þá til ákveðinna úthalda eða veiðiferða í senn. Óumdeilt er að skriflegur ráðningarsamningur var ekki gerður við stefnda.

Fyrir liggur að skipið hélt til loðnuveiða í byrjun janúar 2004 og kom það að landi úr síðustu veiðiferð á þeirri vertíð 19. mars sama ár. Áhöfn skipsins var afskráð 22. sama mánaðar. Áfrýjandi ritaði skipverjunum, þar með töldum stefnda, bréf 26. mars 2004, þar sem sagði meðal annars: „Í ljósi breytinga á eignarhaldi og stjórn Festi hf. er ljóst að útgerð á skipunum Erni KE 13, 1012 og Sunnutindi SU 59, 0979, mun breytast. Viljum við því upplýsa þá aðila sem að undanförnu hafa unnið um borð í skipum okkar að ekki er ljóst hvort skipin fari aftur til veiða. Er því ekki gert ráð fyrir endurráðningu vegna komandi úthalda skipanna.“ Stefndi réði sig í framhaldi af þessu til starfa á öðru skipi, sem hann var lögskráður á frá 31. mars til 23. apríl 2004. Með bréfi 26. apríl 2004 var því beint til áfrýjanda af hálfu stefnda að hann hafi verið fastráðinn til starfa á nótaveiðiskipinu Erni, en hvorki tímabundið né til ákveðins veiðitímabils. Ráðningarsamningi hafi ekki verið sagt upp og krafðist hann af þeim sökum vikulegrar greiðslu kauptryggingar meðan svo stæði á. Þessu svaraði áfrýjandi með bréfi 26. maí sama ár, þar sem því var meðal annars mótmælt að áhöfn skipsins hefði verið ráðin ótímabundið til starfa, heldur hefði ráðning allra skipverja verið bundin við veiðitímabil. Fyrir lægi að áfrýjandi myndi ekki gera skipið út framar og yrði því ekki um endurráðningu stefnda að ræða. Ef ágreiningur um þetta yrði borinn undir dómstóla bæri að minnsta kosti að líta svo á að með bréfinu væri stefnda sagt upp störfum með skemmsta uppsagnarfresti, sem myndi byrja að líða 31. maí 2004. Stefndi krafði áfrýjanda 11. júní 2004 um greiðslu kauptryggingar fyrir tímabilin 22. til 30. mars og 26. apríl til 26. maí sama ár, auk bóta vegna ólögmætrar riftunar á ráðningarsamningi, sem næmu áætluðum missi launa á þriggja mánaða uppsagnarfresti frá 26. maí 2004 að telja, allt með nánar tilgreindum fjárhæðum. Mál þetta var síðan höfðað með stefnu 21. desember 2004.

Í málinu hafa verið lögð fram gögn um lögskráningu skipverja, þar með töldum stefnda, á umrætt skip á árabilinu frá 2000 til 2004, svo og yfirlit frá Fiskistofu um löndun afla þess á sama tímabili. Af þessum gögnum verður ráðið að frá upphafi fiskveiðiársins 2001-2002 hefur skipið í meginatriðum árlega verið við síldveiðar frá september til nóvember eða desember, en því síðan ekki haldið aftur til veiða fyrr en á loðnuvertíð frá janúar til mars. Eftir annað hlé að lokinni þeirri vertíð virðist skipið hafa árlega til og með 2003 verið í júní og júlí við loðnuveiðar og að einhverju leyti síldveiðar, en þar með hafi veiðum verið lokið á viðkomandi fiskveiðiári. Lögskráning stefnda á skipið hefur í nær öllum atriðum verið bundin við þau tímabil, sem það hefur verið gert út til veiða samkvæmt þessu, en bæði á árinu 2001 og 2003 var hann lögskráður á önnur skip utan þessara tímabila. Þegar þetta er virt ásamt því að stefndi tók sem fyrr segir til starfa á öðru skipi skömmu eftir að loðnuveiðum var lokið á nótaveiðiskipinu Erni í mars 2004 verður að telja áfrýjanda hafa sýnt nægilega fram á að stefndi hafi verið ráðinn á það hverju sinni til tímabundinna starfa á tilteknu veiðitímabili. Samkvæmt því verður áfrýjandi sýknaður af kröfu stefnda.

Áfrýjandi vanrækti skyldu sína samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 til að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnda og hefur það leitt til þess að ekki hafa legið fyrir óyggjandi gögn um ráðningarkjör hans. Eru því ekki efni til annars en að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Festarfell ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Gunnlaugs Sævarssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Austurlands 18. janúar 2006.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. desember sl., er höfðað af Gunnlaugi Sævarssyni, kt. 091170-2999, Hólavöllum 1, Grindavík með stefnu birtri 11. janúar 2005 á hendur Festarfelli ehf. (áður Festi ehf.), kt. 590371-0769, Krossey, Höfn í Hornafirði.

Stefnandi gerir þær dómkröfur að stefndi, Festarfell ehf., verði dæmt til að greiða stefnanda 3.097.243 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júní 2004 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu og að tekið verði tillit til þess að stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Af hálfu stefnda er aðallega krafist sýknu af öllum kröfum stefnanda, en til vara er þess krafist að dómkröfur verði lækkaðar verulega. Þá er þess krafist að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati dómsins, hver sem úrslit málsins verða.

Við munnlegan málflutning féll stefnandi frá kröfum sínum á hendur Gjögri ehf., Grenivík um staðfestingu á sjóðveði í skipinu Erni KE-13 (1012).

II.

Málavextir.

Stefnandi kveðst hafa ráðið sig tímabundið til starfa hjá stefnda sem háseti og stýrimaður tímabilið 2. til 31. júlí 2000, en hafi verið fastráðinn þann 3. janúar 2001 sem II. stýrimaður og síðan sem I. stýrimaður á nótaveiðiskipinu Erni KE-13 (1012), eign stefnda. Enginn skriflegur ráðningarsamningur hafi verið gerður við stefnanda, sem hvorki hafi verið ráðinn til ákveðins tíma né ákveðinna vertíða. Skipinu hafi verið lagt við bryggju 19. mars 2004 og skipverjar afskráðir af því þremur dögum síðar. Með bréfi 26. mars 2004 hafi stefndi tilkynnt stefnanda og fleiri skipverjum, sem ekki hafði verið sagt upp störfum, að útgerð á skipum útgerðarinnar, þeim Erni KE 13 og Sunnutindi SU-59, myndi breytast vegna breytinga á eignarhaldi og stjórn stefnda. Jafnframt hafi verið tilkynnt að ekki væri ljóst hvort skipin færu aftur til veiða. Í lok bréfsins standi síðan orðrétt: “Er því ekki gert ráð fyrir endurráðningu vegna komandi úthalda skipanna.” Hinn 31. mars sama ár hafi stefndi sagt yfirmönnum skipsins upp að frátöldum stýrimönnum skipsins, af einhverjum ástæðum.

Með bréfi 26. apríl 2004 hafi lögmaður stefnanda sent stefnda bréf vegna stefnanda. Í bréfinu hafi verið áréttað að stefnandi hefði verið ráðinn ótímabundið á Örn KE og sé því í ráðningarsambandi við útgerðina og eigi rétt á launum á ráðningartímanum, enda hafi honum ekki verið sagt upp störfum. Stefndi hafi svarað þessu bréfi lögmanns stefnanda með bréfi 26. maí 2004, en í því standi m.a. orðrétt:

“Á þessari stundu liggur fyrir að Festi hf. mun ekki framar gera út skipin Örn KE 13, 1012 og Sunnutind SU59, 0979. Af hálfu Festis hf. staðfestist hér með að ekki verður um endurráðningu að ræða hjá þér til fyrirtækisins. Fari svo að ágreiningur, líkt og sá sem að framan greinir, rísi um ráðningarsamband þitt við fyrirtækið og fari svo að fallist verði á sjónarmið hlutaðeigandi einstaklinga þess efnis, eftir atvikum að undangenginni dómstólameðferð, ber að líta á efni bréfs þessa sem uppsögn á ráðningasamningi (svo) Festis hf. við þig. Um uppsagnarfrest fer samkvæmt ákvæðum kjarasamnings og/eða ákvæðum laga nr. 35/1985, sjómannalög, þ.e. skemmsti uppsagnarfrestur gildi og miðast upphaf hans við 31. maí 2004.”

Af hálfu stefnanda hafi verið sent kröfubréf þann 11. júní 2004 þar sem stefndi hafi verið krafinn um vangreidd laun og laun í uppsagnarfresti vegna riftunar ráðningarsamnings hans. Því bréfi hafi ekki verið svarað af hálfu stefnda.

Málsaðilar eru ekki að öllu leyti sammála um atvik málsins.

Stefndi mótmælir því að stefnandi hafi verið ráðinn á skipið Örn KE ótímabundið frá árinu 2000. Hann segir að hins vegar sé rétt sé að stefnandi hafi verið ráðinn þar af og til. Bendir stefndi á að framlögð lögskráningargögn beri þess enda vitni að stefnandi hafi sjálfur litið svo á að hann væri ráðinn til ákveðinna úthalda eða veiðiferða í senn. Stefnandi hafi starfað á ýmsum skipum á þeim árum, sem yfirlitið nái til og hafi hann þar af leiðandi ekki talið sig bundinn í fastráðningu hjá stefnanda. Stefnandi hafi starfað hjá stefnanda á árinu 2004, þ.e. frá 4. janúar til 22. mars 2004, með úrtökum þó. Hafi ofangreint skip verið gert út til loðnuveiða óslitið frá áramótum til 19. mars 2004, er því hafi endanlega verið lagt og skipverjar afskráðir skömmu síðar. Stefnandi hafi verið I. stýrimaður þennan tíma og hafi í starfslok verið gert upp við hann að fullu miðað við vinnuframlag hans og stöðu á skipinu. Ekki sé rétt að skipið hafi verið selt undan stefnanda, heldur hafi Festi hf. verið skipt upp í nokkur félög í eigu sömu hluthafa og öll með sömu stjórnarmönnum. Við uppskiptinguna hafi mb. Örn KE orði eign hlutafélagsins Hvanneyjar. Þessi skipting hafi ekki breytt réttarstöðu skipverja. Hvanney hf. hafi ekki gert skipið út, en það hafi hinn 11. nóvember 2004 verið selt Gjögri hf. sem hluti af stærri viðskiptum. Ástæðan fyrir þessu sé sú að umrætt skip sé ekki lengur talið hentugt til uppsjávarveiða þar sem það skorti grundvallarbúnað til slíkra veiða. Ákvörðun um að leggja skipinu hafi byggst á málefnalegum ástæðum, sem tekið hafi mið af breyttum tæknikröfum við uppsjávarveiðar.

Stefnandi kveður að fyrirtækið Festi hf. hafi ætíð átt gott samstarf við starfsmenn sína. Því hafi fyrrverandi framkvæmdastjóra þótt það til góðra siða að senda sjómönnum orðsendingu um að ekki væri ljóst hvort skipinu (og Sunnutindi SU, sem Festi ehf. hafði leigt tímabundið) yrði haldið til veiða í framtíðinni, sbr. dskj. nr. 3, þannig að sjómennirnir gætu gert sínar ráðstafanir. Stefndi hafi litið svo á og líti enn svo á að sjómenn á þessum skipum hafi verið ráðnir tímabundið til hverrar vertíðar/hvers úthalds í senn og að fullu hafi verið gert upp við þá samkvæmt ráðningar- og kjarasamningum.

III.

Málsástæður

Málsástæður stefnanda.

Stefnandi kveður kröfugerð sína tvíþætta. Annars vegar krefji stefnandi stefnda um vangreidd laun og hins vegar um laun vegna riftunar ráðningarsamnings.

Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið ráðinn ótímabundið á fyrrgreint skip stefnda þann 3. janúar 2001. Ráðningin hafi ekki verið til ákveðins tíma eða ákveðinnar vertíðar, sbr. 9. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Uppsagnarfrestur yfirmanna, þ.m.t. stýrimanns, sé þrír mánuðir, sbr. 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga, sbr. 3. mgr. 1.21 kjarasamnings F.F.S.Í. og L.Í.Ú.

Ráðningu stefnanda hafi lokið 26. maí 2003 er stefndi hafi tilkynnt stefnanda með bréfi að stefndi myndi ekki gera út skipið framar án þess að stefnandi hefði áður verið sagt upp störfum eða ráðningu hans slitið af öðrum ástæðum.

Ekki hafi verið gerður við stefnanda skriflegur ráðningarsamningur eins og stefnda hafi verið lögskylt skv. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. auglýsingu nr. 503/1997 um gildistöku tilskipunar Evrópusambandsins nr. 91/553/EBE frá 14. október 1991 um skyldu vinnuveitanda að skýra launþegum frá samningsskilmálum eða ráðningarfyrirkomulagi, sbr. og gr. 1.21 kjarasamnings F.F.S.Í. og L.Í.Ú.

Þá áréttar stefnandi að stefndi sem útgerðaraðili skipsins beri sönnunarbyrðina fyrir þeirri fullyrðingu sinni að stefnandi hafi eingöngu verið ráðinn á skipið tímabundið eða til ákveðinna verkaefna og eigi því ekki rétt á uppsagnarfresti. Verði stefnandi að bera hallann af vanrækslu lögbundinnar skyldu sinnar til að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda. Vísar stefnandi til dómafordæma hvað þetta atriði varðar og með vísan til þeirra heldur stefnandi því fram að hann hafi verið ráðinn ótímabundið til starfa hjá stefnda þegar stefndi sleit ráðningarsamningi hans.

Eins og fram komi á launaseðli vegna mars 2004 hafi stefndi greitt stefnanda síðast laun vegna ráðningartímabilsins 1. – 21. mars 2004. Eftir þann tíma hafi stefndi ekki greitt stefnanda laun. Stefnandi hafi átt rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti eins og aðrir yfirmenn skipsins, sem sagt hafi verið upp með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

Samkvæmt 1. mgr. 27. gr. sjómannalaga taki skipverji laun frá og með þeim degi sem hann kemur til vinnu á skipi. Samkvæmt 2. mgr. 27.gr. sömu laga taki skipverji kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skipti ekki máli þótt hann hafi verið afskráður áður. Þá segi að til að skipverji eigi rétt til launa verði skipverjinn að inna vinnu af hendi eða vera reiðubúinn til þess. Þá segi að útgerðarmaður eða skipstjóri skuli boða skipverja til vinnu. Stefnandi hafi verið tilbúinn til vinnu tímabilið 22. mars 2004 og fram að riftunardegi, hefði stefndi falast eftir því, en stefnandi hafi aldrei verið kallaður til vinnu. Störf þau er stefnandi hafi fengið tímabundið milli úthalda skipsins hafi ekki breytt því að hann hafi verið reiðubúinn til að hefja störf aftur hjá stefnda, hefði komið fram ósk um það.

Stefnandi eigi skv. ákvæðum kjarasamninga og sjómannalaga rétt á greiðslu launa í formi tímakaups vegna tímabilsins frá 22. mars 2004 til 27. maí 2004, er ráðningu stefnanda hafi verið rift, sem nemi 40 klst. á viku, þ.e. 8 klst. hvern virkan dag eftir að veiðitímabili lýkur, uns veiðar hefjast að nýju miðað við að viðkomandi skipi sé haldið út og rekstri þess ekki hætt.

Stefnandi byggir á því að ráðningarsamningi hans hafi verið rift með því stefnandi tilkynnti honum með bréfi dags. 26. maí 2003 að útgerð skipsins væri hætt, sbr. hér að framan. Með þeirri yfirlýsingu, sem jafngildi yfirlýsingu um að stefnandi ætlaði ekki að efna ráðningarsamninginn, hafi forsendur ráðningar stefnanda brostið. Vísað er til dómafordæma.

Yfirmenn á skipum, að frátöldum skipstjóra, eigi rétt á óskertum launum á þriggja mánaða uppsagnarfresti, sbr. 9. gr. og 25. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og allan uppsagnartímann. Komi því ekki til að stefnda sé heimilt að draga frá meðallaunum stefnanda á uppsagnarfresti tekjur, sem hann kann að hafa unnið sér inn annars staðar á meðan á uppsagnarfresti stóð. Vísað er til dómafordæma.

Stefnandi krefst þess að stefndi greiði sér meðallaun í uppsagnarfresti miðað við eigin aflareynslu þann tíma, sem hann starfaði á skipinu. Réttur skipverja til greiðslu meðallauna í uppsagnarfresti sé í samræmi við fjölmarga dóma Hæstaréttar Íslands. Meðallaun séu fundin með því að deila lögskráningardögum í tekjur á ráðningartíma, en þannig fáist meðallaun pr. lögskráningardag og síðan sé margfaldað með 90 dögum, þ.e. uppsagnarfresti stefnanda. Vísað er til fjölmargra dómafordæma. Kveður stefnandi að samkvæmt dómfordæmum skuli miða við meðallaun viðkomandi þegar laun í uppsagnarfresti vegna riftunar séu ákvörðuð, en ekki eingöngu lágmarkslaun eins og stefnandi haldi fram.

Stefnandi vísar ennfremur til dómafordæma hvað varðar kröfu um orlof á laun, glötuð lífeyrisréttindi, fæðispeninga, fatapeninga og aðrar aukagreiðslur, svo hvað varðar dráttarvexti.

Stefnandi sundurliðar kröfur sínar þannig:

Vangreidd laun á ráðningartíma. Tímabilið 22. mars til 27. maí 2004, er ráðningu stefnanda hafi verið rift, hafi vikir dagar, þ.e. svonefndir svartir dagar, verið alls 44, þar af hafi stefnandi unnið tímabundið á þessu tímabili í 15 daga á mb. Linna. Stefnandi eigi því rétt á launum í 29 daga x 8 klst. á dag = 232 klst. x 963 kr. = 223.416 krónur x 10.17% orlof eða 22.721 króna. Samtals 246.137 krónur (223.416 + 22.721). Krafa stefnanda um vangreidd laun á ráðningartíma sé því 246.137 krónur.

Vangreidd laun á uppsagnarfresti. Samkvæmt launaseðlum vegna ársins 2003 hafi heildartekjur stefnanda verið 5.669.172 krónur og lögskráningardagar 220. Heildartekjur stefnanda á árinu 2004 frá áramótum þar til skipinu var lagt og fiskveiðum hætt 22. mars 2004 hafi verið samkvæmt launaseðlum 2.279.120 krónur, en lögskráningardagar 73. Tekjur þessi síðustu tvö starfsár stefnanda hjá stefnda hafi því samtals verið 7.948.292 krónur og lögskráningardagar samtals 293. Meðallaun séu því 27.127 krónur (7.948.292 / 293 = 27.127) x 90 dagar í uppsagnarfresti = 2.441.430 krónur x 10.17% orlof = 248.293 krónur eða samtals 2.689.723 krónur. Glötuð lífeyrisréttindi af meðallaunum og orlofi (2.689.723 k´ronur), sbr. gr. 1.43 í kjarasamningi FFFSÍ og LÍÚ = 161.383 krónur. Samtals nemi vangreidd laun í uppsagnarfresti því 2.851.106 krónum (2.689.723 + 161.383 krónur).

Stefnandi kveður kröfu sína vegna vangreiddra launa á ráðningartíma og vangreiddra launa á uppsagnarfresti vegna riftunar nema 3.097.243 krónum (246.137 + 2.851.106)

Stefnandi kveðst byggja kröfur sínar á 6. gr., 9. gr., 22. gr., 25. gr. og 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Um orlof er vísað til orlofslaga nr. 30/1987. Um dráttarvexti er vísað til III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001. Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt er vísað til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Málsástæður stefnda.

Stefndi kveðst fullyrða að stefnandi og flestir aðrir skipverjar á mb. Erni KE hafi verið ráðnir tímabundið til hverrar vertíðar/veiðitímabils í senn. Aldrei hafi stefnandi fengið greiðslur frá stefnda milli úthalda á Erninum, sem sé óræk sönnun þess að stefnandi hafi einnig litð svo á að ráðning hans hafi verið tímabundin hverju sinni. Hann hafi sýnt það í verki að hann væri ekki í ráðningarsambandi við stefnda með því að hann réð sig því sem næst strax til starfa hjá öðrum útgerðarfélögum, þ.e. á mb. Oddgeir, mb. Linna og einnig á mb. Sigurvon, sbr. dskj. nr. 8. Hann hafi ekki leitað samþykkis stefnda fyrir þessum ráðningum né boðið stefnda vinnuframlega sitt á þessum tíma, sem þó sé forsenda fyrir greiðslum laun á milli úthalda.

Þá er bent á af hálfu stefnda að starfslok stefnanda hafi að fullu farið saman við stöðvun á úthaldi skipsins til veiða, enda loðnuvertíð lokið. Geti stefnandi því ekki byggt á því að ráðningu hans hafi verið slitið með ólögmætum hætti af þessum sökum.

Málefnalegar ástæður hafi ráðið því að mb. Erni hafi verið lagt. Skipið hafi verið tekið í notkun fyrir 40 árum. Gerðar hafi verið endurbætur á því á árinu 1996, en því miður hafi þær ekki náð nógu langt. Þannig hafi skipið ekki verið búið togbúnaði sem sé grundvallaratriði í allri veiði uppsjávarfiska nú til dags. Það séu því tæknilegar ástæður sem hafi ráðið ákvörðun um að leggja skipinu, en ekki breytingar sem orðið við uppskiptingu félagsins. Sjómenn eigi ekki kröfu til þess að útgerðarmenn haldi úreltum skipum til veiða, enda hvorugum aðila til hagsbóta.

Stefnandi geti ekki byggt á því að hann hafi sagt upp störfum vegna breyttra útgerðarhátta skipsins, sbr. 2. og 3. mgr. 22. gr. sjómannalaga. Slík tilkynning hafi aldrei borist stefnda, enda augljóst af framgangi stefnanda að hann hafi litið svo á að hann hafi aðeins verið ráðinn til loka þessarar tilteknu loðnuvertíðar. Einnig sé vakin athygli á að lögmaður stefnanda hafi gert sér ljóst að breytingar á eignarhaldi á hlutafé í stefnda eða uppskipting félagsins hafi ekki leitt til breytinga á stöðu skipverja á skipum stefnda, sbr. ummæli hans um það atriði neðst á dskj. nr. 5. Geti skipverjar engar kröfur átt á hendur stefnda vegna þessara atvika.

Stefnandi setji kröfu sína fram með þeim hætti að hann krefjist launa, dagvinnukaups með öllu tilheyrandi, fyrir virka daga tímabilið 22. mars til 27. maí, að frádregnum dögum sem hann var sannanlega að störfum annars staðar eða fyrir 29 almanaksdaga, en gerir ekki kröfu um aflahlut þessa daga. Hann áætli auk þess bætur fyrir meintan missi aflahlutar í 90 daga þar á eftir og byggi þann útreikning á meðaltalslaunum sínum lögskráða daga árin 2003 og 2004. Skuli nú vikið að hvoru tveggja.

Hvað varði kröfu um dagvinnulaun, þá geri kjarasamningar ekki ráð fyrir að slík laun séu greidd milli úthalda nema viðkomandi vinni við skip sitt eða hafi eftirlit með því milli veiðitímabila (og sé í föstu starfi). Stefnandi hafi ekki boðið fram vinnu sína á tímabilinu frá 22. mars til 27. maí 2004, enda hafi hann verið í vinnu annars staðar á þessu tímabili. Ekki hafi heldur verið leitað eftir vinnuframlagi hans, enda hafi stefndi talið sig þegar hafa gert upp við hann að fullu og að ekkert ráðningarsamband hafi verið á milli aðila eftir 22. mars 2004. Eigi stefnandi því ekki neina kröfu byggða á þessum lið.

Í annan stað sé bent á það, að föst dómvenja sé fyrir því í svona málum að sjómenn krefjist bóta fyrir missi kauptryggingar (eins og stefnandi gerði raunar í upphafi), en ekki tímakaups eins og stefnandi gerir nú. Þetta hefur stefnandi ekki gert og leiða réttarfarsreglur til þess að hann getur ekki breytt kröfugerð sinni nú í það horf. Þegar af þessum sökum ber sýkna stefnda af öllum kröfum vegna þessa þáttar málsins.

Þá krefjist stefnandi bóta vegna "vangreiddra launa í uppsagnarfesti". Þessa kröfu sína reikni hann út með því að leggja saman tekjur stefnanda á öllu árinu 2003 og hluta ársins 2004 og deili í þá fjárhæð með meintum fjölda lögskráningardaga á þessu tímabili. Síðan gefi hann sér það að úthald hins úrelta skips Arnar KE hefði verið með þeim hætti að það hefði verið óslitið að veiðum í 90 daga frá 27. maí 2004. Hvorki sé fallist á útreikningsaðferð stefnanda né það að hann eigi þessa kröfu yfirleitt. Skuli bent á að í stefnu segi stefnandi að hann hafi einungis starfað tæpan mánuð á skipinu og það sé því viðmiðunartímabil. Hér sé því þversögn í málatilbúnaði stefnanda.

Laun fiskimanna hafi um langan aldur byggst upp á tvenns konar kerfi; annars vegar kauptryggingu eða lágmarkslaunum og hins vegar aflahlutdeild. Dómstólar hafi stundum dæmt sjómönnum bætur í þrjá mánuði frá ráðningarslitum og hafi bæturnar tekið mið af aflahlutdeild, sem þeir hefðu fengið miðað við hvað veiðst hefur á skip á tilteknu tímabili á undan ráðningarslitum, oftast næstu þrjá mánuði á undan. Hér sé um að ræða einhvers konar tilraun dómstóla til að setja "staðalbætur" vegna ráðningarslita skv. 25. gr. sjómannalaga, þegar sú grein eigi við. Þessi regla getur hins vegar alls ekki gilt um allar veiðar. Þannig hátti til að ýmsar veiðar séu aðeins leyfðar á tilteknum tímabilum, eins og t.d. loðnuveiðar, sem einungis hafi verið leyfðar á tímabilinu frá 8. jú1í 2003 til 30. aprí12004, sbr. rgl. nr. 523/2003. Loðnuveiðar hafi m.ö.o. ekki verið heimilar á því tímabili, sem stefnandi krefjist bóta fyrir að hafa misst af aflahlut. Sambærileg ákvæði séu mörg í öðrum reglugerðum um aðrar veiðar. Þá hagi náttúrulegar aðstæður í sjónum og í lífríkinu því þannig til, að tilteknar tegundir fiskjar veiðast ekki á tilteknum árstímum. Miðað við núverandi útgerðarmynstur Íslendinga og núgildandi reglur um stjórn fiskveiða geti þessi "staðalbótaregla" í mesta lagi átt við um togara en ekki önnur skip. Það sé t.d. augljóst að þessi "staðalbótaregla" getur alls ekki gilt um veiðar á uppsjávarfiski. Það getur ekki staðist að beita þessari reglu þannig að hún nái til þess að sjómaður fái "hlut" úr "afla" sem skipinu sé óheimilt að veiða. Því sé mótmælt að staðalbótareglunni verði beitt í málinu. Nærtækara væri reikna bætur út frá kauptryggingu, ef greiða beri bætur beri yfir höfuð. Stefndi telur að stefnandi eigi ekki kröfur til bóta samkvæmt þessum lið, en til vara sé þess krafist bætur til hans verði reiknaðar út frá kauptryggingu og að laun sem hann hefur aflað sér annar staðar á þessu tímabili komi að fullu til frádráttar.

Um varakröfu sína segir stefndi að hann telji sig að fullu hafa gert upp laun stefnanda í samræmi við kjarasamninga og ráðningarsamning og að stefnandi eigi engar kröfur á hendur honum og beri að sýkna stefnda af öllu kröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess, að krafa stefnanda verði lækkuð og nái þá einungis til dagvinnukaups svo sem stefnandi krefjist, að frádregnum þeim launum sem hann hafi aflað sér annars staðar á sama tíma og launa sé krafist fyrir, en fái ekki bætur vegna meints missis aflahlutar með vísan til framanritaðra raka.

IV.

Niðurstaða

Fyrir liggur að stefndi gerði ekki skriflegan ráðningarsamning, skipsrúmssamning, við stefnanda svo sem honum var skylt samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Með því að stefndi vanrækti þessa skyldu sína ber hann samkvæmt dómafordæmum hallann af sönnunarskorti um lengd ráðningartíma stefnanda. Hefur stefnda ekki tekist að hnekkja staðhæfingu stefnanda um að hann hafi verið ráðinn ótímabundið á skip stefnda, Örn KE-13.

Líta verður svo á að ráðningu stefnanda hafi verið slitið hinn 26. maí 2004, er framkvæmdastjóri stefnda tilkynnti honum að hætt hefði verið við útgerð skipsins. Voru ráðningarslitin fyrirvaralaus og liggur ekki fyrir að stefnandi hafi átt þess kost að vinna hjá stefnda á uppsagnarfresti.

Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. sjómannalaga á skipverji, sem vikið hefur verið úr skipsrúmi áður en ráðningartími hans er liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. og 24. gr. laganna, rétt á kaupi þann tíma, sem fyrir er mælt í 9. gr. Stefnandi, sem starfaði sem stýrimaður á Erni KE-13, á því rétt á launum í þrjá mánuði, sbr. 2. mgr. 9. gr. sjómannalaga.

Með vísan til dómafordæma, sbr. dóma Hæstaréttar í málum nr. 326/2000, 197/2001, 135/2002, 319/2002 og 292/2002, þar sem bótareglu 25. gr. sjómannalaga hefur verið beitt við líkar aðstæður og hér eru fyrir hendi, er fallist á kröfu stefnanda um greiðslu meðallauna næstu mánaða áður en ráðningu hans var slitið. Í dómum Hæstaréttar hefur verið litið svo á að óeðlilegt sé og andstætt meginreglum vinnuréttarins að sjómenn þurfi að sæta skerðingu á launum sínum á uppsagnarfresti vegna ráðstafana, sem útgerðaraðili grípur til einhliða sér til hagsbóta, þ.e. að hætta rekstri skips. Einnig hefur verið vísað til þess að útgerðaraðilum sé í lófa lagið að haga ráðstöfunum sínum með þeim hætti að starfslok viðkomandi sjómanns falli saman við stöðvun á úthaldi skipsins til veiða. Telja verður að rök þessi eigi að fullu við í máli þessu.

Telja verður að stefnandi hefði mátt vænta þess að halda óskertum ráðningarkjörum þar til ráðningartíma hans lyki samkvæmt ráðningar- og kjarasamningi, en óumdeilt er að hann var ráðinn upp á aflahlut.

Af hálfu stefnda hefur því verið haldið fram í máli þessu að bótaregla 25. gr. sjómannalaga geti ekki gilt um allar veiðar, svo sem veiðar, sem aðeins séu leyfðar á tilteknum tímabilum, eins og t.d. loðnu- og síldveiðar. Það geti ekki staðist að beita þessari reglu þannig að hún nái til þess að sjómaður fái hlut úr afla, sem skipinu sé óheimilt að afla. Fram er komið að á skipinu Örn KE13 voru stundaðar veiðar á loðnu og síld.

Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 197/2001 segir að ef breyta ætti frá þeirri dómaframkvæmd, sem að ofan greinir, þ.e. líta til launa sjómanna næstu mánuðina fyrir starfslok þegar bætur skv. 25. gr. sjómannalaga eru ákveðnar, hefði það í för með sér verulega óvissu, meðal annars vegna þess að aflaheimildir séu framseljanlegar. Var því ekki fallist á það að taka mið af aðstæðum, sem kunni að vera fyrir hendi í einstökum tilvikum og hafna um leið að framtíðartjón verði ákveðið með hliðsjón af launagreiðslum síðustu mánaða fyrir starfslok.

Með hliðsjón af þessu er ekki fallist á þá málsástæðu stefnda að bótaregla 25. gr. sjómannalaga, eins og henni hefur verið beitt í framkvæmd, geti ekki átt við í máli þessu þar sem skipið hafi stundið veiðar, sem aðeins séu leyfðar á tilteknum tímabilum. Hér ber og að hafa í huga að miðað er við að ráðningu stefnanda hafi verið slitið í lok maí, en að öllu jöfnu hefði skipið haldið til síldveiða í byrjun júní.

Ekki hefur verið sýnt fram á að sú viðmiðun sem stefnandi leggur til grundvallar launum á uppsagnarfresti sé ósanngjörn, þ.e. laun hans á árinu 2003 og á árinu 2004 frá áramótum til þess tíma er skipinu var lagt. Með vísan til alls ofangreinds er fallist á kröfu stefnanda um greiðslu meðallauna á uppsagnarfresti eins og hún er fram sett í stefnu, en henni hefur ekki verið mótmælt tölulega af hálfu stefnda.

Auk launa á uppsagnarfresti hefur stefnandi krafist launa á ráðningartíma, þ.e. frá 22. mars til 27. maí 2004, er ráðningu stefnanda var rift.

Í 27. gr. sjómannalaga segir að skipverji taki kaup frá og með þeim degi sem hann kemur til vinnu á skipinu og til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans lýkur samkvæmt ráðningar- eða kjarasamningi og skipti þá ekki máli þótt hann hafi verið afskráður áður. Ennfremur segir að um vinnu skipverja fari eftir kjarasamningum og sjómannalögum. Í greinargerð með lögunum segir um þessa lagagrein að í henni sé áréttuð sú grundvallarregla vinnuréttar, að til þess að eiga rétt til launa verði launþegi að inna vinnu af hendi eða vera reiðubúinn til þess.

Samkvæmt grein 1.09 í kjarasamningi Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna segir um kauptryggingu að útgerðarmaður tryggi yfirmönnum mánaðarlegar kaupgreiðslur upp í hundraðshluta afla þeirra frá lögskráningardegi til afskráningardags. Ennfremur segir að forfallist skráður skipverji skuli kauptrygging hans skiptast milli þeirra manna, sem í þá veiðiferð fóru. Með hliðsjón af framangreindu þykir ljóst að kjarasamningur aðila gerir aðeins ráð fyrir að kauptrygging greiðist meðan viðkomandi eru lögskráður á skipið og því er haldið til veiða. Fyrir liggur að stefnandi var afskráður af skipinu 22. mars 2004.

Ljóst er að ráðningarsamningi stefnanda var ekki slitið fyrr en 26. maí 2004. Stefnandi heldur því fram að hann hafi verið reiðubúinn til að inna vinnu af hendi í þágu stefnda frá 22. mars til 26. maí, en að hann hafi ekki verið boðaður til vinnu á skipinu af hálfu stefnda. Í 59. gr. sjómannalaga segir að skipverji sé skyldur að koma á ákveðnum tíma í skiprúmið. Enn fremur segir að sé hann ekki staddur á skipi en veit eða má vita að hann muni bráðlega vera kvaddur til skips, sé honum skylt, eftir því sem honum er unnt, að fylgjast með ferðum skipsins og vera tilbúinn til að taka upp störf sína að nýju þegar þess er þörf enda skuli útgerðarmaður eða skipstjóri veita honum greiðar upplýsingar um ferðir skips, eftir því sem unnt er. Á því tímabili, sem um ræðir, taldi stefnandi sig enn vera í ráðningarsambandi við stefnda og með hliðsjón af bréfi stefnda til skipverja á skipunum Erni KE og Sunnutindi SU dags. 26. mars 2005 hafði stefndi ekki gefið stefnanda skýrar upplýsingar um hvert framhald málsins yrði. Með hliðsjón af framangreindu og með stoð í 3. mgr. greinar 1.32 í kjarasamningi aðila verður fallist á kröfu stefnanda um greiðslu tímakaups á þessu tímabili, að frádregnum 15 dögum, sem stefnandi vann tímabundið á mb. Linna. Krafa þessi hefur ekki sætt mótmælum tölulega af hálfu stefnda og er hún því tekin greina eins og hún er sett fram í stefnu.

Með vísan til alls framangreinds verður krafa stefnanda tekin til greina að fullu með dráttarvöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði.

Með hliðsjón af málsúrslitum þykir rétt að stefndi greiði stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 249.000. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun. Einnig hefur verið tekið tillit til þess að lögmaður stefnanda þingfesti og flutti mál nr. E-30 og E-33/2005, á hendur stefnda á sama á sama tíma og mál það, sem hér um ræðir.

Dóm þennan kveður upp Ragnheiður Bragadóttir dómstjóri.

Dómsorð:

Stefnda, Festarfell ehf., greiði stefnanda, Gunnlaugi Sævarssyni, 3.097.243 krónur með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júní 2004 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 249.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.