Hæstiréttur íslands

Mál nr. 470/2016

Fjölskyldu- og velferðarnefnd A (Margrét Gunnlaugsdóttir hrl.)
gegn
B (enginn), C (Lára V. Júlíusdóttir hrl.) og D (Ásta Björk Eiríksdóttir hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Vistun barns

Reifun

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að börn B og C yrðu vistuð utan heimilis í tólf mánuði. Í dómi Hæstaréttar var rakið að tvö barnanna ættu lögheimili hjá B en hin tvö hjá C. Af gögnum málsins yrði ekki ráðið að forsjárhæfni B væri svo ábótavant að réttlætti beitingu úrræðis samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Var því hafnað kröfu A um að vista börnin D og E utan heimilis B. Á hinn bóginn var talið að fullnægt væri skilyrðum til þess að vista börnin F og G utan heimilis C, en í dóminum var vikið að því að í samræmi við þessa niðurstöðu hvíldi skylda á A að kanna grundvöll þess að ráðstafa börnunum F og G til B.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 21. júní 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. júlí sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2016, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að systkinin F, E, G og varnaraðilinn D yrðu vistuð utan heimilis í tólf mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 64. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og fyrrnefnd krafa hans tekin til greina.

Varnaraðilinn C krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál. Varnaraðilinn D krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar. Varnaraðilinn B hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti en í samræmi við 3. mgr. 158. gr., sbr. 4. mgr. 150. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, er litið svo á að hann krefjist staðfestingar á úrskurði héraðsdóms.

Málsatvik eru skilmerkilega rakin í hinum kærða úrskurði. Til viðbótar því sem þar kemur fram liggur fyrir að tvö barnanna, þau E og varnaraðilinn D, hafa frá 1. maí 2016 haft lögheimili hjá föður sínum, varnaraðilanum B, en hin tvö hjá móður sinni, varnaraðilanum C.

 Sóknaraðili krefst þess að börn varnaraðilanna C og B verði vistuð utan heimilis í allt að tólf mánuði, sbr. 28. gr. barnaverndarlaga. Um er að ræða íþyngjandi úrræði sem aðeins verður beitt ef lögmæltum markmiðum barnaverndaryfirvalda verður ekki náð með öðru og vægara móti, sbr. 7. mgr. 4. gr. laganna. Af  gögnum málsins verður ekki ráðið að forsjárhæfni varnaraðilans B sé svo ábótavant að réttlæti beitingu úrræðis samkvæmt 28. gr. barnaverndarlaga. Verður því hafnað kröfu sóknaraðila um að vista barnið E og varnaraðilann D utan heimilis varnaraðilans B. Á hinn bóginn verður með vísan til þess, sem fram kemur í hinum kærða úrskurði um forsjárhæfni varnaraðilans C, fallist á að fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 28. gr., sbr. b. lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga, til þess að vista börnin F og G utan heimilis þeirra. Samkvæmt þessu og með vísan til 2. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga hvílir sú skylda á sóknaraðila að kanna grundvöll þess að ráðstafa þeim til varnaraðilans B, sbr. 1. mgr. 67. gr. b. laganna, eftir atvikum með þeirri aðstoð sem mælt er fyrir um í 24. gr. þeirra.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður en um gjafsóknarkostnað varnaraðilanna C og D fyrir Hæstarétti fer eins og í dómsorði greinir.  

Dómsorð:

Hafnað er kröfu sóknaraðila, Fjölskyldu- og velferðarnefndar A, um að barnið E og varnaraðilinn D, verði vistuð utan heimilis varnaraðilans B.

Börnin F og G skulu vistuð í 12 mánuði utan heimilis varnaraðilans C.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um gjafsóknarkostnað eru staðfest.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður varnaraðilanna C og D fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanna þeirra, 300.000 krónur til hvors þeirra um sig.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2016.

                 Mál þetta barst héraðsdómi 12. maí 2016 og var tekið til úrskurðar 6. júní 2016. Sóknaraðili er Fjölskyldu- og velferðarnefnd A. Varnaraðilar eru C, kt. [...], B, kt. [...], og D, kt. [...]. 

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að úrskurðað verði að börnin D, F, E og G, sem lúta sameiginlegri forsjá varnaraðila C og B, verði vistuð utan heimilis, á vegum sóknaraðila í allt að 12 mánuði, samkvæmt 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.

                Varnaraðili C krefst þess að hafnað verði kröfum sóknaraðila um að börnin verði vistuð utan heimilis á vegum sóknaraðila í allt að 12 mánuði. Þá er  krafist málskostnaðar, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

Varnaraðili B gerir aðallega þá kröfu að hafnað verði kröfu sóknaraðila um vistun barnanna utan heimilis í allt að 12 mánuði. Til vara er þess krafist, verði fallist á aðalkröfu sóknaraðila, að vistun barnanna verði hjá varnaraðila B. Til þrautavara er þess krafist að vistun utan heimilis verði markaður skemmri tími og aldrei lengur en fram að næsta skólaári. Loks er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.

Varnaraðili G lagði ekki fram greinargerð í málinu en mótmælir því að hún og systkini hennar verði vistuð utan heimilis.

I.

Varnaraðilar C og B eru foreldrar barnanna G, fædd [...], E, fædd [...], F, fæddur [...], og varnaraðila D, fædd [...]. Börnin eru öll skráð með lögheimili hjá móður sinni en foreldrarnir fara sameiginlega með forsjá barnanna. Varnaraðilar C og B áttu einnig soninn H, fæddur [...], en hann féll fyrir eigin hendi [...] ára gamall árið [...].

Í gögnum málsins kemur fram að barnaverndaryfirvöld hafi fyrst haft afskipti af málefnum fjölskyldunnar á árinu 2009 og aftur á árinu 2011 þegar fjölskyldan fékk áfallameðferð eftir [...] H. Málinu hafi verði lokað á árinu 2012 en opnað á ný á árinu 2014 í kjölfar tilkynninga frá skóla og móður barnanna. Foreldrar barnanna hafi skilið á árinu 2014.

Hinn 10. júní 2014 hafi barnaverndaryfirvöldum borist tilkynning frá varnaraðila C um óeðlileg samskipti föður við D og vinkonur hennar. Nánar tiltekið að hann væri öllum stundum mikið í kringum stúlkuna og vinkonur hennar. Varnaraðili C hafi talið mikilvægt að samskipti þeirra yrðu skoðuð og tryggja öryggi D. Í kjölfarið hafi hafist könnun máls samkvæmt 21. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Niðurstaða könnunar hafi verið sú að tengsl föður og stúlkunnar væru sterk og að stúlkan upplifði öryggi og væntumþykju hjá föður sínum. Ekkert hefði komið fram í samtali við stúlkuna sem gæfi til kynna að um kynferðislegt ofbeldi væri að ræða og ekki verið talin þörf á að aðhafast frekar vegna tilkynningarinnar eða senda stúlkuna í Barnahús.   

                Börnin hafi verið tímabundið vistuð utan heimilis á árinu 2014, frá 13. júní til 11. september. Að þeim tíma liðnum hafi börnin búið til skiptis hjá foreldrum sínum, ýmist í tvær vikur í senn eða aðra hverja viku.

                Hinn 26. júní 2014 óskaði sóknaraðili eftir forsjárhæfnismati. Í skýrslu Y sálfræðings, dags. 2. október 2014, er greint m.a. frá viðtölum sálfræðingsins við annars vegar varnaraðila C og hins vegar varnaraðila B, heilsufari þeirra, fjármálum og húsnæði og sálfræðiprófum sem lögð voru fyrir þau.

Um þroska, heilsufar og persónuleika varnaraðila C segir sálfræðingurinn að í svörum hennar, bæði í viðtölum og á sálfræðilegum prófum, hafi hún neitað öllum einkennum sem spurt hafi verið um og svör hennar verið í engu samræmi við heilsufarssögu hennar eða samkvæmt klínísku mati. Hún væri í algjörri afneitun varðandi eigin hegðun og með nær enga innsýn í eigin vandamál. Hún neiti meira og minna öllum einkennum í spurningum á sálfræðiprófum en samt væri hún á þunglyndislyfjum og tæki inn Sobril sem væri notað við kvíða. Þá væri tilfinningalegt ójafnvægi mikið vandamál hjá henni þótt hún neiti öllu slíku og hún virðist eiga í samskiptaerfiðleikum við flesta sem hún umgangist. Hún hafi átt erfitt með samskipti innan fjölskyldunnar og tali ekki við ákveðna aðila og bregðist við með hvatvísi og reiði í samskiptum. Hún hafi litla getu til að líta í eigin barm og hún einblíni á galla annarra, sérstaklega varnaraðila B. Í viðtölum hafi ítrekað verið reynt að fá hana til að skoða eigin hegðun og hætta að tala um varnaraðila B en án árangurs. Allt virðist öðrum að kenna. Henni hafi gengið illa í skóla vegna kennarans, það sé varnaraðila B að kenna að börnin séu vanrækt og vandamál í samskiptum við barnavernd séu vegna dónaskapar frá þeim. Einnig virðist hún telja að lögregluskýrslur og læknaskýrslur séu meira og minna lygi og bull. Á meðan hún hafi ekki innsýn í eigin hegðun og tilfinningar og væri í mikilli vörn hafi hún litla getu til að vinna með sjálfa sig eða laga hegðun sína og færni. Þá hafi hún lýst því að hún geti ekki lofað að halda góðum samskiptum við varnaraðila B og sýnt lítinn vilja til samvinnu varðandi það. Ljóst sé að tilfinningaerfiðleikar hennar séu langvinnir og krónískir og meðan hún hafi ekki innsæi eða sé ekki í samstarfi með að vinna með eigin hegðun sé nokkuð ljóst að hefðbundin sálfræðimeðferð muni ekki hjálpa henni.

Hvað varðar forsjárhæfni hennar segir að hún blandi börnunum ítrekað í deilur hennar og varnaraðila B. Hún virðist hafa lítið innsæi í þarfir og tilfinningar barnanna og hún taki enga ábyrgð á stöðu barnanna, bæði varðandi tilfinningalega og námslega stöðu. Hún kenni öðrum um að illa hafi gengið með börnin og tengi að mjög takmörkuðu leyti eigin hegðun við stöðu barnanna í dag. Flestar tilkynningar taki hún sem bulli og lygum og vandamál barnanna séu mikið til varnaraðila B að kenna. Í gögnum málsins komi þó skýrt fram að alvarlegir erfiðleikar hjá öllum börnunum virðist að stórum hluta orsakast af vanrækslu varðandi flesta þætti í lífi þeirra. Börnin hafi verið vanrækt námslega, tilfinningalega og almennt varðandi umhirðu. Hún virðist þó ná ágætum tengslum við börnin, vilji þeim vel og hafi áhuga á að hafa þau hjá sér. Tengslin séu hins vegar óeðlileg og skert vegna þess hve erfitt hún eigi með að halda eigin vandamálum frá börnunum og geri sín vandamál að þeirra. Öll hennar einkenni og viðhorf bendi til alvarlegrar [...] sem erfitt sé að vinna með í venjulegri ráðgjöf.

Sálfræðingurinn telur varnaraðila C ekki með nægjanlega hæfni til að fara með forsjá barna sinna. Hins vegar verði að taka tillit til þeirra aðstæðna að um fjögur börn sé að ræða og þau búi hjá henni að hluta til. Ef ákveðið verði að hún hafi áfram forsjá þá sé alveg ljóst að hún þurfi mjög mikinn og öflugan stuðning til lengri tíma. Áhersla ætti að vera á ráðgjöf á heimili varðandi allan aðbúnað barnanna, eigin umhirðu, skipulag og reglu á heimilinu. Persónuleg ráðgjöf við hana ætti að miðast að því að vinna með hennar viðhorf, innsæi og tilfinningastjórnun.

Í skýrslunni segir um þroska, heilsufar og persónuleika varnaraðila B að hann hafi lent í vinnuslysi árið 2011 og orðið fyrir [...] þannig að persónuleiki hans hafi breyst og hann hafi átt í erfiðleikum með minni, athygli og skipulag. Einnig hafi hann orðið meira hvatvís, sem hafi haft jákvæðar og neikvæðar afleiðingar fyrir hann. Hann hafi orðið opnari og óöryggi í félagslegum samskiptum horfið en í staðinn hafi hann orðið pirraður og stundum erfiður. Líkamlegt ástand hans væri slæmt, en hann hafi verið með vefjagigt og slitgigt og astma. Hann hafi verið í töluverðri endurhæfingu, sálfræðiviðtölum, líkamsrækt og sjúkraþjálfun. Meðan á matinu stóð hafi hann fengið heilatappa og farið í greiningu og endurhæfingu vegna þess. Einnig hafi hann verið að kljást við kvíðavandamál. Á skimunarkvarða fyrir persónuleika­raskanir komi ekki fram einkenni sem bendi til slíkra vandamála. Hann virðist ekki sveiflast mikið tilfinningalega og sé í góðum samskiptum við fjölskyldu og fólk almennt. Einu samskiptavandamálin varði samskipti hans við varnaraðila C.

Sálfræðingurinn telur forsjárhæfni varnaraðila B vera skerta. Almenn vanræksla hafi verið á börnunum í langan tíma og hann hafi ekki getað með nægjanlegum hætti sinnt forsjárskyldum sínum. Börnin hafi ekki fengið stuðning frá honum varðandi nám og skólagöngu. Einnig virðist hann ekki hafa sinnt tilfinningalegum eða þroskalegum þörfum barnanna og heimili hans og varnaraðila C einkennst af miklu skipulagsleysi og deilum milli foreldra án þess að taka tillit til velferðar barnanna. Skýringin sem hann hafi gefið, um að hafa alltaf unnið lengi og komið seint heim, sé ekki nægjanlega góð skýring og hann beri jafn mikla ábyrgð á börnunum þótt hann hafi unnið mikið. Einnig hafi hann ekki sinnt þessu eftir að hann hætti að vinna, en þó verði að horfa til þess að hann hafi verið í endurhæfingu og verið veikur líkamlega. Hann virðist þó hafa mun betra innsæi í veikleika sína og meira innsæi í þarfir barnanna heldur en varnaraðili C. Ekki hafi komið upp áhyggjur um að hann hafi verið að blanda börnunum markvisst inn í þessi mál, en hann hafi heldur ekki passað upp á velverð barnanna varðandi þeirra deilur.

Niðurstaða sálfræðingsins er sú að varnaraðili B sé með skerta hæfni til að fara með forsjá barna sinna en þó nægjanlega hæfni. Líkamleg veikindi hans hafi verið hans aðalhömlun, enda hafi hann verið duglegur í vinnu áður en hann lenti í vinnuslysinu. Stuðningur á heimili ætti að miðast við þjálfun í að halda reglu og skipulagi á heimilinu. Varðandi persónulega ráðgjöf þá sé líklegt að hann nýti sér sálfræðimeðferð ef hann telur slíkt vera þörf. Hann hafi ágætt innsæi í sín vandamál og ætti að geta unnið með sig í sálfræðimeðferð.

                Með bréfi, dags. 20. nóvember 2015, tilkynnti I barnageðlæknir til sóknaraðila að D hefði komið til hennar vegna tilfinningalegra erfiðleika. D hefði áhyggjur af yngri systkinum á heimili föður síns, sérstaklega systrum sínum, en faðir þeirra hefði beitt yngri systkini hennar líkamlegu ofbeldi. Þá krefðist hann þess að systur hennar svæfu í hans rúmi og að hún hefði áhyggjur af því að hann misnotaði þær. Einnig hafi hún greint frá því að faðir þeirra væri með klámefni í tölvunni.

                Varnaraðili C tilkynnti sóknaraðila hinn 24. nóvember 2015 að varnaraðili B hefði beitt E líkamlegu ofbeldi. Nánar tiltekið hafi verið um að ræða atvik sem hefði átt sér stað á gamlársdag 2014. Sama dag, 24. nóvember, tilkynnti varnaraðili B til sóknaraðila að varnaraðili C væri að nota D gegn honum í deilu um forsjá barnanna. 

                Börnin G og E voru vistuð utan heimilis hinn 27. nóvember 2015, á grundvelli 31. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en eldri börnin, F og D, neituðu vistun og var það ekki talið þjóna hagsmunum barnanna að vista þau gegn eigin vilja.

                Hinn 2. desember 2015 fóru börnin í könnunarviðtöl í Barnahúsi. Í minnispunktum Barnahúss vegna viðtalanna, dags. 17. desember 2015, segir að ekkert hafi komið fram sem bendi til þess að börnin hafi verið þolendur ofbeldis og var málunum lokið af hálfu Barnahúss.

                Með bréfi sóknaraðila, dags. 7. janúar 2016, til lögreglustjórans á Suðurnesjum var þess óskað að lögreglurannsókn yrði dregin til baka og að málin yrðu látin niður falla.

Áætlanir hafa ítrekað verið gerðar um meðferð máls samkvæmt 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Markmið áætlunarinnar hefur verið að efla foreldra í uppeldisfærni og að takast á við vanda barna þeirra og að koma á samvinnu milli foreldra. Einnig að aðstoða foreldra og leiðbeina við að virkja börnin til þátttöku í námi, koma reglu á heimanám og mætingar í skóla. Móðir barnanna undirritaði fyrst áætlun um tilsjón á heimili hennar hinn 26. ágúst 2014, 18. desember 2014, 28. september 2015 og 27. október 2015. Áætlun vegna föður er dags. 5. september 2014, 28. september 2015 og 16. janúar 2015. Einnig var gerð „virkniáætlun“ vegna föður, dags. 2. júní 2015, en markmið hennar var að gera hann virkari í samfélaginu, ná bættri heilsu og að framfylgja forsjárskyldum sínum. 

Í greinargerðum starfsmanns sóknaraðila, J félagsráðgjafa, dags. 9. mars 2016, vegna tilsjónar annars vegar á heimili föður, varnaraðila B, og hins vegar á heimili móður, á árinu 2015 til febrúar 2016, kemur fram að það sé mat tilsjónaraðila að staða barnanna sé alvarleg og að árangur tilsjónar sé ekki nægjanlegur. Báðir foreldrar sýni mikla styrkleika en einnig veikleika. Vandi barnanna sé alvarlegur og meiri en stuðningur tilsjónaraðila hafi getað náð yfir. Ekki hafi tekist nægjanlega vel að taka á sveiflum í samskiptum og samstarfi foreldra.

Faðir hafi þó sýnt mikinn vilja til þess að vinna með samskiptin og hann hafi tekið ábyrgð á hegðun sinni gagnvart móður barnanna. Unnið hafi verið með það að faðir axli ábyrgð á þeim tíma sem börnin séu í hans umsjá og reiði sig ekki á stuðning móður. Nauðsynlegt sé að jafnvægi komist á í samskiptum foreldra því að samskipti þeirra hafi mikil áhrif á líðan barnanna og tilfinningalegt öryggi. Einkum virðist D lenda á milli vegna aldurs síns og stöðu hjá báðum foreldrum. Ágreiningur og vandi milli foreldra hafi verið viðvarandi frá upphafi stuðnings tilsjónar. Þá segir í greinargerðinni að foreldrar þurfi umtalsvert meiri stuðning vegna viðvarandi ágreinings þeirra í milli en tilsjónaraðili hafi getað veitt ásamt málastjóra.

Móðir hafi takmarkaða innsýn og hafi ekki axlað ábyrgð á sínum hlut í samskiptum við föður barnanna. Móðir barnanna eigi erfitt með tilfinningastjórn gagnvart föður þeirra og sjóði gjarnan upp úr. Vinna með tilfinningastjórnun, samskipti og orsakatengsl hafi borið takmarkaðan árangur. Móðir varpi ábyrgðinni yfir á föður og upplifi að ábyrgðinni sé skellt yfir á hana á meðan faðir fái ekki leiðsögn. Móður finnist mikið á sig hallað í vinnu með barnavernd. Hún treysti ekki föður barnanna og mikil heift hafi verið frá hennar hendi gagnvart honum, alvarlegar ásakanir, hótanir og stýrandi hegðun. Þá sé mikilvægt að taka á þrifnaði á heimili móður. Börnin alist upp í umhverfi sem sé þeim skaðvænlegt og mikilvægt sé að foreldrar nái tökum á samskiptum sínum og viðhorfi til hvors annars. Kvíði og vanlíðan barnanna hafi aukist svo um munar á tímabilinu og áhyggjur séu af stöðu barnanna. Tilsjónaraðili telur að vanlíðan barnanna sé afleiðing af viðvarnandi vanda foreldra og samskiptum þeirra og að foreldrar þurfi umtalsvert meiri stuðning vegna viðvarandi ágreinings þeirra í milli en tilsjónaraðili hafi getað veitt ásamt málastjóra.

Hinn 14. mars 2016 var gerð einhliða áætlun um beitingu þvingunar, sbr. 23. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, bæði hjá móður og föður, vegna barnanna fjögurra.  Þar segir að móðir hafi ekki nægjanlega hæfni til að fara með forsjá barna sinna, ekki heldur með stuðningi á grundvelli barnaverndarlaga. Faðir hafi undir eðlilegum kringumstæðum nægjanlega hæfni til þess að fara með forsjá barna sinna, fái hann til þess stuðning, en vegna þeirra aðstæðna sem væru uppi í dag, þar sem samskiptaerfiðleikar og árekstrar við móður væru íþyngjandi og faðir ekki í stakk búinn til þess að vernda börnin fyrir þeim, gæti hann ekki tryggt öryggi barnanna með viðunandi hætti. Var lagt til að börnunum yrði ráðstafað í tímabundið fóstur til eins árs.

Með úrskurði fjölskyldu- og velferðarnefndar A, dags. 23. mars 2016, var ákveðið að börnin D, F, E og G yrðu tekin af heimili þeirra og vistuð á heimili á vegum nefndarinnar í tvo mánuði frá þeim degi að telja, sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Var lögmanni sóknaraðila falið að gera kröfu til héraðsdóms um vistun barnanna utan heimilis í samræmi við ákvæði 28. gr. barnaverndarlaga. 

II.

Sóknaraðili byggir á því að málefni barnanna hafi verið til meðferðar hjá sóknaraðila með hléum í fleiri ár. Fjöldi tilkynninga hafi borist sóknaraðila er varði víðtæka vanrækslu af hendi foreldra á heimili barnanna sem m.a. eigi rætur í erfiðum samskiptum milli foreldranna vegna skilnaðar þeirra. Harðvítug átök foreldranna hafi komi niður á börnunum sem glími öll við mikinn kvíða og vanlíðan. Skólayfirvöld hafi um langt skeið lýst yfir áhyggjum af aðstæðum barnanna þar sem bæði námsleg og félagsleg staða þeirra sé slæm.

Börnin hafi verið vistuð tímabundið utan heimilis á árinu 2014 þegar sóknaraðili hafi metið að öryggi barnanna á þeim tíma væri ekki tryggt á heimili foreldra. Samkvæmt forsjárhæfnismati Y sálfræðings, sem unnið hafi verið í kjölfarið, hafi foreldrarnir hvorugir verið metnir hæfir til að fara með forsjá barnanna, nema með umtalsverðum stuðningi. Börnin hafi farið aftur í umsjá foreldra þegar náðst hafi samkomulag um áætlun um meðferð máls með það að markmiði að tryggja börnunum viðeigandi uppeldisaðstæður. Frá þeim tíma hafi af hálfu sóknaraðila verið tilsjón á heimilum beggja foreldra til að veita þeim aðstoð og ráðgjöf með samskipti sín á milli og stuðning við börnin.

Þrátt fyrir víðtækan stuðning af hálfu sóknaraðila hafi vandi fjölskyldunnar farið stigversnandi á síðustu misserum. Ágreiningur foreldranna hafi vaxið og þróast út í gagnkvæmar ásakanir um ofbeldi gagnvart sér og börnunum. Móðir barnanna hafi kært föður þeirra fyrir kynferðislegt ofbeldi sem hafi leitt til þess að börnin hafi verið neyðarvistuð og máli þeirra vísað til meðferðar í Barnahúsi. Ekkert hafi komið fram við skýrslutökur um að ásökun um kynferðislegt ofbeldi væri á rökum reist. 

Líðan barnanna hafi að sama skapi farið versnandi á síðastliðnu skólaári og skólayfirvöld hafi lýst yfir áhyggjum sínum vegna mikillar fjarveru barnanna frá skóla. Að mati skólans og þeirra aðila sem hafi haft tilsjón með heimilum foreldra sé sterk vísbending um að erfiðleikar barnanna séu í beinu samhengi og afleiðing af viðvarandi vanda foreldranna og sveiflum í samskiptum þeirra. Svo virðist sem foreldrunum sé fyrirmunað að halda börnunum fyrir utan ágreining sín á milli, þrátt fyrir yfirlýstan vilja um að eiga góð samskipti í þágu barnanna. Móðir barnanna vantreysti skólayfirvöldum og hafi ásakað starfsmenn sóknaraðila um að hafa tekið sér stöðu með föður barnanna gegn sér. Faðir barnanna hafi farið fram á að fara einn með forsjá barnanna og telur að vanda barnanna megi rekja til vanstillingar móður þeirra og innsæisleysis.

Það er mat sóknaraðila að aðstæður barnanna hafi verið óviðunandi til langs tíma og að fullreynt sé að ná árangri með stuðningi inn á heimili foreldra. Brýnir hagsmunir barnanna krefjist þess að leitað sé úrræða til að ráða bót á vanda þeirra, utan heimilis. Sóknaraðilum beri skylda til að tryggja óskilyrtan rétt barnanna til verndar og umönnunar í samræmi við ákvæði barnaverndarlaga og ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sbr. lög nr. 19/2003. Með hliðsjón af atvikum máls og í þágu hagsmuna barnanna sé nauðsynlegt að ráðstöfun utan heimilis standi í 12 mánuði, sbr. 1. mgr. 28. gr. barnaverndarlaga.

Um frekari lagarök er vísað til IV. kafla barnaverndarlaga, nr. 80/2002, meginreglna barnalaga nr. 76/2003 og stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

III.

                Varnaraðili C telur að aðgerðir barnaverndaryfirvalda beinist ekki að rót vandans, sem sé að aðstoða foreldra í foreldrahlutverki þeirra, m.a. með sálfræðimeðferð og leiðbeiningum í daglegu lífi.  Þess í stað sé verið að grípa til ráða sem komi ekki til með að bæta stöðu barnanna frá því sem verið hefur, og börnin séu nú sett í framandi aðstæður hjá ókunnugu fólki, aðstæður sem þau sætti sig illa við, fjarri heimili sínu og foreldrum, úti í sveit, þar sem þau hitti ekki önnur börn og hafi lítið við að vera. 

                Varnaraðili telur fyrirliggjandi sálfræðimat Y ófullnægjandi. Um sé að ræða tveggja ára gamalt sálfræðimat, unnið haustið 2014, og fyrir liggi að matsmanni hafi ekki tekist að ljúka við að prófa aðila. Lokið hafi verið við vinnslu matsins í október 2014. Við yfirlestur þess komi fram margvíslegar þversagnir í lýsingu á varnaraðila. Hún sé sögð hafa verið til samvinnu í viðtölum og gefið nokkuð skýra sögu og ekki hafi komið fram geðræn einkenni við skoðun. Athugasemdir matsmanns við heimsókn á heimili lúti að því m.a. að reglu hafi skort á heimilið, svo sem að börnin hafi fengið frostpinna kl. 16:30 og lóðin hafi verið í mjög slæmu standi. Faðir barnanna lýsi móður sem ákaflega þunglyndri manneskju, sem hafi átt við geðræn vandamál að stríða um árabil, en í MINI-geðgreiningarviðtali hafi hins vegar ekki komið fram nein þunglyndiseinkenni eða saga um örlyndistímabil eða geðrofseinkenni, kvíðaraskanir né misnotkun áfengis eða vímuefna. Hún hafi reynst hafa meðalgreind á greindarprófi en faðir ekki tekið slíkt próf þar sem hann hafi nýlega fengið blóðtappa í heilann. Hún virðist ekki hafa tekið DASS-prófið, (Drepression, anxiety, stress scale), merkt við 0 í öllum spurningum og því allir kvarðar í lágmarki. Á SCID-II-sjálfsmatslista hafi hún svarað litlu af spurningum játandi. Það sé síðan mat sálfræðingsins að svör hennar séu ekki í neinu samræmi við sögu hennar samkvæmt málsgögnum eða samkvæmt klínísku mati, hún sé í algerri afneitun og hafi nær enga innsýn í eigin vandamál. Þessa ályktun virðist hann einkum draga af þeirri staðreynd að hún taki inn Sobril, sem sé þunglyndislyf.

Lögmaður varnaraðila hafi strax gert kröfu til þess á fundi með barnaverndarnefnd í mars sl. að nýtt forsjárhæfnimat yrði gert á aðilum þar sem mat það sem byggt er á sé haldið verulegum annmörkum auk þess að vera gamalt. Því hafi verið hafnað af sóknaraðila og vísað til þess að slíka kröfu væri rétt og eðlilegt að setja fram fyrir dómi, en nefndin myndi ekki gera slíkt að hennar ósk á þessu stigi. Lögmanni varnaraðila hafi á þessu stigi ekki verið ljóst að úrskurður barnaverndarnefndar yrði byggður á 27. og 28. gr. laganna, þannig að ekki væri kostur að afla þessara gagna síðar gegn synjun nefndarinnar. Beðið hafi verið með að óska eftir nýju mati þar til málið kæmi fyrir dóm. Dómari hafi svo hafnað kröfu um að aflað yrði matsgerðar með vísan til þess að krafa sóknaraðila væri byggð á 27. og 28. gr. barnaverndarlaga, en ekki yrði aflað matsgerðar í þessari tegund mála, sbr. 4. mgr. 63. gr. barnaverndarlaga. Að þessu tilefni hafi lögmaður varnaraðila skorað á sóknaraðila að láta vinna nýtt sálfræðimat og leggja fram í málinu.

Varnaraðili C kveðst sjálf hafa leitað sér lækninga hjá K geðlækni. Í læknabréfi frá 26. nóvember 2014, skömmu eftir að sálfræðiskýrsla Y hafi verið unnin, greini hann frá því að varnaraðili hafi leitað til sín fimm sinnum seinni hluta árs 2014. Niðurstaða hans eftir þessi viðtöl og upplýsingaöflun hafi verið sú að varnaraðili hafi á sínum tíma verið þunglynd en sé það ekki lengur. Upphaflega hafi hann talið hugsanlegt að hún væri í grunninn einnig [...]. Frekari sögutaka og viðtöl hafi hins vegar ekki leitt í ljós einkenni sem styddi þá greiningu. Engin merki væru um að hún sé með geðrofssjúkdóm. Hann hafi ekki talið að hún væri sjálfri sér eða öðrum hættuleg. Hún hafi hins vegar verið að glíma við erfið áföll í sínu lífi undanfarin ár og hefði vafalítið gagn af því að hafa aðgang að sálfræðingi áfram. Hann hafi ekki lagt til neinar lyfjabreytingar hjá henni og talið rétt að hún tæki þunglyndislyf, a.m.k. næsta árið. Eins og þarna komi fram sé umsögn K um heilsu varnaraðila gerólík umsögn Y sálfræðings og ekkert minnst á að varnaraðili væri í algerri afneitun og hafi nær enga innsýn í eigin vandamál.

Þá segir varnaraðili að ekkert liggi fyrir um hvernig eigi að nýta þann tíma sem börnin eigi að vistast utan heimilis þetta eina ár. Ekki einu orði sé vikið að því með hvaða hætti vinna eigi með foreldrum eða börnum á þeim tíma. Svo virðist sem verið sé að grípa inn í deilur foreldra innbyrðis með því að flytja börn þeirra af heimilinu. Barnaverndaryfirvöld virðast ekki viðurkenna þá staðreynd að börnin þrjú þurfa á sérhæfðri meðferð að halda þar sem þau séu greind á einhverfurófi. Samkvæmt niðurstöðu sálfræðings vegna máls G, frá 25. nóvember 2015, hafi stúlkunni verið vísað í nánari athugun vegna gruns um slök félagstengsl og sérkenni í hegðun. Með því að vista barnið utan heimilis í 12 mánuði verði augljóslega rof á þeirri meðferð sem hafin hafi verið af hálfu Fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar.

Einnig telur varnaraðili að meðalhófsreglan hafi ekki verið virt, um að aldrei eigi að grípa til róttækari aðgerða en þörf er á hverju sinni. Reglan komi skýrast fram í 7. mgr. 4. gr. barnaverndarlaga 80/2002.

Varðandi kröfu um málskostnað er vísað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

                Varnaraðili B telur að vistun barna hans utan heimilis í 12 mánuði sé of íþyngjandi og að sóknaraðili hafi ekki íhugað úrræði sem miði að því að hægt verði að ná jafngóðum árangri með vægari úrræðum. Í gögnum málsins liggi fyrir álit og matsgerðir sérfræðinga sem hafi komið að málefnum barnanna og foreldranna og sé það samhljóma álit allra að faðir sé hæfur til þess að hafa umsjón og fara með forsjá barnanna, en að hegðun móður og nálægð hennar við heimili föður standi því í vegi og þess vegna sé í raun farin sú leið að krefjast vistunar barnanna utan heimilis, í andstöðu við vilja þeirra og föður.

Varnaraðili telur að sóknaraðili hafi ekki látið á það reyna að föður verði einum falið að vera með umsjá barna sinna þrátt fyrir að öll rök hnígi að því að það sé það besta fyrir börnin. Sóknaraðili hefði getað krafist þess að móðir barnanna yrði svipt forsjá, sbr. 29. gr. barnaverndarlaga, og falið föður umsjá barnanna á grundvelli niðurstöðu í slíku máli, eins og krafist hafi verið á fyrri stigum þessa máls. Eða að fela föður umsjá barnanna á grundvelli 2. mgr. 67. gr. b barnaverndarlaga þar sem heimild sé til þess að fela öðru foreldri umsjá barnanna á meðan tímabundin ráðstöfun varir. Telji sóknaraðili að nærvera móður, eða umgengni hennar við börnin, sé í andstöðu við hagsmuni barnanna þá geti sóknaraðili beitt úrræðum eins og umgengni við móður undir eftirliti eða með því að beita 37. gr. barnaverndarlaga og takmarkað aðgengi móður að börnunum. Það sé í það minnsta ekki í hag barnanna að rífa þau, með svo afgerandi hætti eins og hér sé krafist, frá föður sínum og fjölskyldu þeirra í [...] án þess að beita vægari úrræðum. Sú krafa sem hér sé lögð fram sé í andstöðu við 4. gr. barnaverndarlaga um að aðeins skuli gert ráð fyrir íþyngjandi ráðstöfunum að lögmæltum markmiðum verði ekki náð með öðru og vægara móti.

Varnaraðili kveður að niðurstaða skýrslu sálfræðingsins Y, dags. 2. október 2014,  þar sem gert hafi verið mjög ítarlegt forsjárhæfnismat á báðum varnaraðilum, miðist eðli málsins samkvæmt við aðstæður eins og þær hafi verið á þeim tíma. Varnaraðili hafi t.a.m. þá ennþá verið í endurhæfingu hjá VIRK vegna slyss á árinu 2011 og fengið blóðtappa í heilann á meðan á matinu stóð og í kjölfarið farið á Reykjalund til meðferðar. Þá hafi hann verið nýfluttur í íbúð á þessum tíma og ekki verið komin löng reynsla á að börnin væru hjá föður sínum í umgengni. Í niðurstöðum matsmanns komi fram að engar áhyggjur væru af greindarstöðu föður og staðfest að hann væri með eðlilegan þroska en þurft að glíma við vandamál tengd minni, einbeitingu og skipulagningu á þessum tíma sökum veikinda sinna. Þá hafi verið ítrekað að engar áhyggjur væru um að faðir væri með persónuleikavandamál og staðfest að faðir væri í góðum tengslum við fjölskyldu sína og fólk almennt og væri þekktur fyrir að vera „stabíll“ í vinnu og reglusamur.  Matsmaður telji að á þeim tíma hafi varnaraðili verið með nægjanlega færni til að fara með umsjón og forsjá barna sinna.

Eftir að fyrrgreint mat var framkvæmt hafi varnaraðili verið með tilsjón á heimili sínu og liggi fyrir skýrsla tilsjónarmanns, dags. 9. mars 2016, um að faðir hafi tekið ábyrgð á hegðun sinni gagnvart móður og að faðir hafi sýnt mikinn styrkleika hvað varðar að nálgast börnin í erfiðum aðstæðum í tengslum við vistun þeirra utan heimilis og eigi auðvelt með að íþyngja þeim ekki með eigin tilfinningum í slíkum aðstæðum. Tilsjónarmaður telji það bera vott um gott tilfinningalegt innsæi föður að bera kennsl á möguleg tilfinningaleg áhrif á börnin og að finna leiðir til þess að hafa áhrifin sem minnst. Samhliða því hafi faðir sett líðan og þarfir barnanna framar eigin líðan og það hafi sýnt mikilvæga færni föður í tilfinningastjórnun. Þá sé það niðurstaða tilsjónarmanns að faðir hafi sýnt mikinn vilja í verki til þess að vinna að úrlausn málsins og hafi verið samstarfsfús, jákvæður og velviljaður.

Þá komi fram í sameiginlegri greinargerð í barnaverndarmálum, dags. 14. mars 2016, sem tekin hafi verið saman af L, félagsráðgjafa og málastjóra, að starfsmenn barnaverndar hafi aldrei séð föður missa stjórn á skapi sínu í nærveru þeirra, jafnvel þó að upp hafi komið mjög erfiðar aðstæður. Einnig sé staðfest að faðir leggi sig fram við að verja börnin fyrir því að verða vitni að átökum foreldranna á meðan móðir sé algjörlega skeytingarlaus um líðan barna sinna þegar hún tali um föður í návist þeirra. Jafnframt staðfesti málastjóri að faðir hafi þurft að sæta miklu andlegu ofbeldi af hálfu móður barnanna og að móðir hafi beitt börn sín tilfinningalegu ofbeldi þegar hún hafi notað þau í átökum sínum við föður þeirra.

Í niðurstöðu kafla málastjóra sé tekið undir mat sálfræðings um að faðir hafi nægjanlega forsjárhæfni til þess að fara með forsjá og umsjá barna sinna, fái hann til þess stuðning. Það sé hins vegar mat málastjórans að vegna aðstæðna sem helgist af samskiptaerfiðleikum við móður, sem séu íþyngjandi, þá sé faðir ekki í stakk búinn til að vernda börnin fyrir þeim samskiptaörðugleikum. Þessu mótmælir varnaraðili og telur að honum sé fullfært að vernda börnin gegn samskiptaörðugleikum foreldra, þar sem gert verði ráð fyrir að samskipti muni ekki eiga sér stað.

Aðilar eigi engin samskipti í dag og komi til þess að hafa þurfi samskipti vegna barnanna geti þau samskipti farið fram í gegnum félagsþjónustuna á meðan mál þeirra séu til meðferðar þar. Lykilatriði sé auðvitað að setja verði móður og börnum mörk um það með hvaða hætti umgengni verði og sé komin reynsla á slíkt þegar börnin hafi verið vistuð hjá föðurömmu og -afa sínum. Þá hafi engir samskiptaörðugleikar verið þar sem börnin hafi hitt móður sína aðeins á fyrirfram ákveðnum tímum. Það sem skipti máli hér sé að bæði börnum og móður séu settar skorður við því hvenær umgengni fari fram og að móðir viti að faðir beri ábyrgð á umsjón barnanna, án hennar aðkomu með ákvarðanatökur og annað sem viðkæmi börnunum.

Varnaraðili telur að það liggi fyrir í gögnum málsins að móðir sé óhæf til að fara með forsjá eða umsjá barna sinna sökum mikilla persónuleikavandamála og innsæisleysi í þarfir barna sinna og uppeldisaðferðir. Það að móðir sé alls ófær um að sjá um börnin eða að sinna þeim skyldum sem henni beri sem foreldri sé á engan hátt hægt að tengja saman við færni og möguleika hans til þess. Hann hafi ekki fengið tækifæri til þess að sjá um börnin einn en sé þó samkvæmt sérfræðingum sem hafi haft málið til meðferðar ótvírætt hæfari til þess en móðir barnanna.

Krafa sóknaraðila um að vista börnin í 12 mánuði utan heimilis byggist því kannski fyrst og fremst á getuleysi sóknaraðila til að setja móður skorður varðandi börn hennar, en ekki því að varnaraðili sé óhæfur til þess að hugsa um þau.

Sóknaraðili geti aðstoðað og stutt varnaraðila í því hlutverki með því að beita öðrum úrræðum sem lög leyfi gegn móður til þess að börnin fái að vera með föður sínum og fjölskyldu sinni eins og þau öll kjósi þannig að þau njóti einnig samvista við móður sína með þeim takmörkunum sem mögulega þurfi að vera til staðar, svo sem takmarkaðri umgengni, umgengni undir eftirliti eða úrræði um bann við að nálgast börnin og föður þeirra, sé það börnunum fyrir bestu.

Rauði þráðurinn í gegnum mál þetta og ástæða vanlíðanar barnanna er fyrst og fremst vanhæfni móður til að takast á við uppeldi barna sinna, hvort sem það hefur verið í samstarfi við föður eða félagsþjónustuna. Það komi ítrekað fram að þegar börnin hafi verið hjá varnaraðila, eða föðurfjölskyldunni, þá hafi þeim gengið betur í skólanum og þau sýnt jákvæðar breytingar. Lesa megi út úr gögnum málsins að fjarvistir barnanna úr skóla hafi aðallega verið þegar þau hafi verið hjá móður og að hún virðist hvorki hafa skilning né getu til þess að framfylgja þeirri uppeldisskyldu sinni að setja börnum sínum mörk eða vernda þau fyrir eigin persónuleika­vandamálum.

Varnaraðili telur það algerlega ótækt og ólíðandi að sóknaraðili skuli krefjast þess að börnin skuli tekin frá föður sínum og fjölskyldu vegna vanhæfni móður. Börnin hafi öll lýst því yfir að þau vilji ekki vera í fóstri, þau vilji vera hjá fjölskyldu sinni og það sé hlutverk sóknaraðila að stuðla að því að hagsmunir þeirra séu hafðir í fyrirrúmi. Það séu augljóslega ekki hagsmunir barnanna að búa hjá móður sinni, það beri gögn málsins með sér, en gögnin beri einnig með sér að hægt sé að tryggja hagsmuni barnanna hjá föður og beri sóknaraðila að beita þeim úrræðum sem í boði séu til að tryggja að svo verði.

Varnaraðili hafi nú hafið störf á leikskóla og sinni hann því 2 klst. á dag og sé það liður í því að meta hvort hann komist út á vinnumarkaðinn aftur, en það sé hans einlæga von. Hann hafi lagt sig allan fram við að vinna úr sínum málum. Eins og komi  fram í vottorði sálfræðings, dags. 16. maí 2016, þá finnist honum erfitt að hitta börnin sín sjaldan en hann haldi áfram að byggja sig upp með það að markmiði að börnin komi til hans.

Þá segir varnaraðili að foreldrar hans hafi haft mikil afskipti af börnunum og hafi nú elsta barnið, D, verið hjá þeim frá því í byrjun apríl. Dvöl D hafi gengið vel hjá ömmu hennar og afa og hún farið að mæta í skólann aftur og sé að ljúka honum með prýði. Henni líði vel og hún hafi haft orð á því við varnaraðila. Stuðningur föðurforeldra sé ómetanlegur og hafi mikið að segja um hagsmuni barnanna og þau hafi lýst því yfir að þau muni leggja sitt af mörkum til að styðja við bakið á börnunum og föður þeirra til að þau fái tækifæri til að vaxa og þroskast í öruggu umhverfi.

Í skýrslu talsmanns, dags. 25. maí 2016, komi fram að börnin vilji öll vera heima í [...] og þau sakni fjölskyldu sinnar og vina. Þau hafi öll orð á því að varnaraðili fylgist með þeim og hringi í þau, en móðir þeirra virðist alveg afskiptalaus og það valdi þeim hugarangri. Það sé þó enn ein staðfesting þess að móðir virðist hafa lítið eða ekkert innsæi í þarfir barna sinna. Þrátt fyrir að börnin lýsi því yfir að þau vilji vera hjá bæði mömmu og pabba þá sé augljóst að þau geti ekki verið hjá móður sinni, en þau geti vel verið hjá varnaraðila og verði málinu stillt þannig upp fyrir þeim þá muni börnin vilja það frekar en að vera í fóstri.

Samkvæmt 1. mgr. 28. gr. laga nr. 80/2002 sé heimilt með úrskurði dómara að vista barn í „allt að“ 12 mánuði í senn og miðist að sjálfsögðu við að meginregla barnaverndarlaga um meðalhóf sé virt í hverju tilviki fyrir sig. Vistun barns utan heimilis sé afar íþyngjandi ráðstöfun fyrir alla málsaðila og þrátt fyrir að heimild sé til þess að vista barn í allt að 12 mánuði utan heimilis sé ekki þar með sagt að þörf sé á því að fullnýta þann tíma komi til vistunar til lengri tíma en tveggja mánaða. Ef beita þurfi þvingunarúrræðum á borð við það sem krafist sé í máli þessu sé nauðsynlegt að þau gangi ekki lengra en þörf er á þegar unnt er að ná þeim markmiðum sem ætlað er að ná með vægari úrræðum.

Líta verði til þess að þvingunarúrræði á borð við þau sem farið er fram á í máli þessu séu í andstöðu við meginregluna um að það séu foreldrar barna sem skuli taka ákvarðanir sem varða hagi þeirra, sbr. grundvallarreglu um friðhelgi fjölskyldu og einkalífs, 1. mgr. 71. gr. stjórnarskrárinnar, 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu og sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins. Þó að fallast megi á að nauðsynlegt hafi verið að grípa inn í aðstæður barna og foreldra í máli þessu sé einnig mikilvægt að hafa í huga að þær ráðstafanir sem grípa eigi til í framhaldinu miði að því að aflétta slíku ástandi eins fljótt og aðstæður leyfa til að börn geti sameinast foreldri sínu á nýjan leik.

Um lagarök er vísað til barnaverndarlaga nr. 80/2002 einkum 67. gr., 7. mgr. 4. gr. og 71. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 62/1994 og 3. og 5. gr. samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, sem hafi öðlast gildi gagnvart Íslandi 27. nóvember 1992. Þá er byggt á barnaverndarlögum í heild svo og meginreglum þeirra og undirstöðurökum. Um málsmeðferð er vísað til ákvæða XI. kafla barnaverndarlaga.

Krafa um málskostnað er byggð á 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og um virðisaukaskatt vísast til laga nr. 50/1988, þar sem lögmönnum sé gert að innheimta virðisaukaskatt af þjónustu sinni. Varnaraðili sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum.

V.

                Eins og rakið hefur verið skildu foreldrar barnanna á árinu 2014 og síðan hafa verið hatrammar deilur á milli þeirra sem hafa bitnað á börnunum. Í forsjárhæfnismati Y sálfræðings, dags. 2. október 2014, kemur fram að móðir barnanna, varnaraðili C, hafi ítrekað blandað börnunum inn í deilur hennar og föður barnanna, varnaraðila B. Hún hafi lítið innsæi í þarfir og tilfinningar barnanna og taki enga ábyrgð á stöðu þeirra og kenni öðrum um að illa hafi gengið með börnin. Hún eigi í samskiptaerfiðleikum við flesta sem hún umgangist og bregðist við með hvatvísi og reiði. Telur sálfræðingurinn að öll hennar einkenni og viðhorf bendi til alvarlegrar [...] sem erfitt sé að vinna með. Varnaraðili B hafi hins vegar ekki einkenni sem bendi til [...], hann virðist ekki sveiflast mikið tilfinningalega og sé í góðum samskiptum við fjölskyldu og fólk almennt. Einu samskiptavandamálin varði samskipti hans við varnaraðila C. Þá hafi hann mun betra innsæi en hún í veikleika sína og meira innsæi í þarfir barnanna og ekki hafi komið upp áhyggjur um að hann blandi börnunum markvisst inn í þessi mál.

                Önnur og nýlegri gögn í málinu virðast styðja framangreint álit Y sálfræðings. Þannig kemur fram í greinargerð félagsráðgjafa, dags. 9. mars 2016, vegna tilsjónar, að varnaraðili C hafi takmarkaða innsýn og hafi ekki axlað ábyrgð á sínum hlut í samskiptum við varnaraðila B. Hún eigi erfitt með tilfinningastjórnun gagnvart honum og hún varpi ábyrgðinni yfir á hann. Vinna með tilfinningastjórnun, samskipti og orsakatengsl hafi borið takmarkaðan árangur. Hins vegar hafi varnaraðili B sýnt mikinn vilja til að vinna með samskiptin og hafi tekið ábyrgð á hegðun sinni gagnvart varnaraðila C. Þá hafi hann gott tilfinningalegt innsæi varðandi börnin og setji líðan og þarfir barnanna framar eigin líðan.

                Varnaraðili C kom fyrir dóm og hafði hún tilhneigingu til að kenna öðrum um ástand barnanna og samskiptavanda hennar við varnaraðila B og axla ekki ábyrgð á ástandinu. Þannig sagði hún m.a. að þörfum barnanna hefði ekki verið mætt í skóla og að sóknaraðili hefði ekkert gert til að aðstoða hana og varnaraðila B til að ná sáttum og bæta samskipti þeirra, en samkvæmt fyrirliggjandi áætlunum um tilsjón og greinargerð tilsjónarmanns var mikið unnið með það. Einnig kom fram hjá henni að það væri varnaraðili B sem kæmi í veg fyrir að þau gætu unnið saman. Viðhorf hennar virðast því óbreytt og í samræmi við fyrirliggjandi forsjárhæfnis­mat og greinargerð tilsjónarmanns, dags. 9. mars 2016.

                Undir rekstri málsins var könnuð afstaða barnanna samkvæmt 2. mgr. 46. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, en í ákvæðinu segir að gefa skuli barni kost á að tjá sig um mál sem það varðar í samræmi við aldur þess og þroska og taka skal réttmætt tillit til skoðana þess við úrlausn máls. Elsta barnið, varnaraðili D, sem er 17 ára, kom fyrir dóm og lýsti því að hún vilji ekki vera vistuð utan heimilis heldur líði henni betur heima hjá sér. Samkvæmt greinargerð talsmanns F 13 ára, E 10 ára og G 9 ára, dags. 25. maí 2016, eru þau einnig skýr í afstöðu sinni til þess að vilja vera heima hjá foreldrum sínum og virðast þau ekki skilja ástæðu þess að þau voru vistuð utan heimilis.  

Samkvæmt framangreindu forsjárhæfnismati hefur varnaraðili C ekki nægjanlega hæfni til að fara með forsjá barnanna sinna en varnaraðili B er hins vegar talinn hafa nægjanlega hæfni þótt hún sé skert. Í matinu segir að líkamleg veikindi hans hafi verið hans aðalhömlun en aðstæður hans virðast hafa batnað frá árinu 2014 og er hann farinn að vinna á leikskóla í hlutastarfi. Í greinargerð málastjóra, dags. 14. mars 2016, sem lá til grundvallar úrskurði sóknaraðila 23. mars 2016, um vistun barnanna utan heimilis, kemur fram að mat málastjóra á forsjárhæfni varnaraðila C og varnaraðila B er í samræmi við niðurstöður Y sálfræðings. Að þessu virtu er að mati dómsins varhugavert að grípa til jafn íþyngjandi ráðstöfunar og að vista börnin utan heimilis bæði móður og föður og hefur að mati dómsins ekki verið kannað nægilega hvort grundvöllur sé fyrir því að beita vægari úrræðum eins og að faðir barnanna taki við umsjá þeirra á grundvelli 67. gr. b barnaverndarlaga nr. 80/2002.

Með vísan til alls framangreinds er hafnað kröfu sóknaraðila um að börnin verði vistuð utan heimilis á vegum sóknaraðila í allt að 12 mánuði.

Samkvæmt 60. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 greiðist gjafsóknarkostnaður varnaraðila úr ríkissjóði. Þóknun lögmanns varnaraðila C og lögmanns varnaraðila B þykir hæfilega ákveðin til hvors um sig 550.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti. Þóknun lögmanns D þykir hæfilega ákveðin 150.000 krónur.

Úrskurð þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

                Kröfu sóknaraðila, Fjölskyldu- og velferðarnefndar A, um að börnin D, F, E og G, sem lúta sameiginlegri forsjá varnaraðila, C og B, verði vistuð utan heimilis, á vegum sóknaraðila í allt að 12 mánuði, samkvæmt 28. gr., sbr. b-lið 1. mgr. 27. gr., barnaverndarlaga nr. 80/2002, er hafnað.

                Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila C greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Láru V. Júlíusdóttur hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 550.000 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila B, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Kolbrúnar Garðarsdóttur héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 550.000 krónur.

Allur gjafsóknarkostnaður varnaraðila D greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hennar, Ástu Bjarkar Eiríksdóttur héraðsdómslögmanns, að fjárhæð 150.000 krónur.