Hæstiréttur íslands
Mál nr. 215/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Þriðjudaginn 22. apríl 2008. |
|
Nr. 215/2008. |
Ríkissaksóknari(Kolbrún Sævarsdóttir, saksóknari) gegn X (Sveinn Andri Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. apríl 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. apríl 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. maí 2008 kl. 16, en þó ekki lengur en þar til dómur gengur í máli hans. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með dómi Hæstaréttar 13. mars sl. í máli nr. 136/2008 var því slegið föstu að varnaraðili væri undir sterkum grun um að hafa framið afbrot sem að lögum geti varðað allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var og talið að brotið væri þess eðlis að gæsluvarðhald teldist nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Heimild til gæsluvarðhalds samkvæmt 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 er eðli máls samkvæmt háð því að ekki verði óhæfilegur dráttur á rannsókn máls og það sé síðan rekið með viðhlítandi hraða. Fram kemur í málinu að sóknaraðili bíður nú gagna sem hann hefur óskað eftir erlendis frá. Með þessum athugasemdum en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Varnaraðili, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. maí 2008 kl. 16.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. apríl 2008.
Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess fyrir Héraðsdómi Reykjaness með vísan til 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að X, [kt. og heimilisfang] verði með úrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. maí 2008 kl. 16:00.
Kærði hefur mótmælt kröfunni og krefst þess til vara að gæsluvarðhaldstíma verði markaður skemmri tími.
Krafan er reist á því að kærði sé undir rökstuddum grun um brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Í kröfu lögreglustjórans kemur meðal annars fram að lögreglan á Suðurnesjum og ávana- og fíkniefnadeild lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu hafi um nokkurt skeið rannsakað innflutning á 4.639,5 g af amfetamíni og 594,70 g af kókaíni. Þessi fíkniefni hafi fundist við eftirlit lögreglu og tollgæslu í bifreið á vegum hraðflutningafyrirtækisins UPS við húsakynni Vallarvina á Keflavíkurflugvelli þann 15. nóvember sl. Þá hafi jafnframt verið unnið að því að upplýsa um umfang þess fíkniefnainnflutnings sem farið hafi fram í gegnum hraðflutningaþjónustu UPS og m.a. verið leitt í ljós að innflutningur með þessum hætti hafi staðið yfir a.m.k. frá vormánuðum árið 2005.
Vegna rannsóknar málsins hafi lögreglan þann 23. og 24. janúar sl. handtekið fimm aðila, m.a. A, B og kærða sem allir hafi verið úrskurðaðir í gæsluvarðhaldi frá þeim tíma á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. A og B hafi verið sleppt úr gæsluvarðhaldi en kærða verið gert þann 7. mars sl. að sæta áframhaldandi gæsluvarðhald á grundvelli 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Þá hafi lögreglan handtekið C þann 30. janúar sl. og hafi hann setið í gæsluvarðhaldi frá 31. janúar sl. til 7. mars sl. vegna sterks gruns lögreglu um vera viðriðinn innflutning fíkniefnanna hingað til lands og að vera sá aðili sem hefði séð um að skipuleggja innflutninginn með því að nota leið með flutningsþjónustu UPS. Hafi honum verið gert þann 7. mars sl. að afplána 360 daga eftirstöðvar reynslulausnar dóms Hæstaréttar frá 28. apríl 2005, sbr. reynslulausn sem honum var veitt af Fangelsismálastofnun ríkisins þann 26. ágúst 2007. Rannsókn máls þessa sé nú lokið og hafi það formlega verið sent embætti ríkissaksóknara til frekari meðferðar, sbr. bréf, dags. 14. apríl sl. Þó eigi enn eftir að berast niðurstöður vegna réttarbeiðna til erlendra yfirvalda um notkun á þeim tölvupóstföngum sem lögreglan ætlar að sakborningar hafi notað í samskiptum sín á milli til að skipuleggja innflutning fíkniefnanna.
Lögreglan telur kærða vera undir sterkum rökstuddum grun um aðild að stórfelldu fíkniefnabroti. Kærði hafi sætt gæsluvarðhaldi frá 24. janúar sl. en neitað aðild að málinu. Hann hafi að mati lögreglu verið ótrúverðugur og reikull í framburði en ákveðið netfang hafi fundist á tólf stöðum í vinnutölvu hans auk þess sem leitt hafi verið í ljós að það netfang hafi tengst IP-tölu þeirri sem kærði muni vera skráður fyrir og að netfang hafi verið stofnað á þeirri IP-tölu. Þá hafi jafnframt komið fram við rannsókn málsins að kærði hafi tengst þann 15. nóvember sl. svokallaðri UPS tölvu úr heimatölvu sinni. Meint aðild kærða þyki mikil en hann sé talinn tengjast skipulagningu, milligöngu og móttöku fíkniefnanna og hafa gengt lykilhlutverki. Einnig sé lagt til grundvallar að um sé að ræða mjög mikið magn hættulegra fíkniefna. Nær öruggt þyki að fíkniefnin hafi átt að fara í sölu og dreifingu til ótiltekins fjölda manna hér á landi. Hið meinta brot kærða þyki mjög alvarlegt. Með tilliti til hagsmuna almennings þyki þannig nauðsynlegt að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan mál hans sé til meðferðar en telja verði að ef sakborningur, sem orðið hefur uppvís að jafn alvarlegu broti og kærði, gangi laus áður en máli lýkur með dómi þá valdi það hneykslun í samfélaginu og særi réttarvitund almennings. Staða kærða í málinu þyki sambærileg stöðu sakborninga í öðrum svipuðum málum, sbr. mál Hæstaréttar nr.: 376/2006, 377/2006, 378/2006, 154/2006, 368/2005, 93/2005, 488/2004, 269/2004, 417/2000 og 471/1999, þar sem sakborningum hafi verið gert að sæta gæsluvarðhaldi fram að dómi þegar legið hafi fyrir rökstuddur grunur um beina aðild að innflutningi á miklu magni fíkniefna í ágóðaskyni. Ekki sé talin ástæða til að ætla að refsimat og réttarvitund almennings í slíkum málum hafi breyst frá því téðir dómar voru uppkveðnir og sé það því mat lögreglu að skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála sé fullnægt.
Að öllu framangreindu virtu, sem og gögnum málsins að öðru leyti, verður fallist á það með lögreglustjóra að fyrir hendi sé rökstuddur grunur um að kærði hafi framið afbrot sem þung fangelsisrefsing er lögð við, allt að 12 ára fangelsi samkvæmt 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður talið að meint brot sé þess eðlis að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Þá er einnig til þess að líta að rannsókn málsins hefur verið umfangsmikil en miðað vel áfram. Málið hefur nú verið sent ríkissaksóknara til ákvörðunar og er ákæru að vænta næstu daga. Skilyrðum 2. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 er því fullnægt til að gæsluvarðhaldi verði beitt og verður því krafa lögreglustjórans tekin til greina eins og hún er fram sett og kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 30. maí 2008 kl. 16:00 en þó ekki lengur en til dómur gengur í máli hans.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16:00 föstudaginn 30. maí 2008 en þó ekki lengur en til dómur gengur í máli hans.