Hæstiréttur íslands
Mál nr. 175/2015
Lykilorð
- Hlutafélag
- Gjaldþrotaskipti
- Hluthafi
- Kaupskylda
- Söluréttur
- Forsenda
- Orsakasamband
|
|
Fimmtudaginn 29. október 2015. |
|
Nr. 175/2015.
|
Gunnar Smári Egilsson (Ragnar Aðalsteinsson hrl.) gegn Svenn Aage Hyllerød Dam og Morten Nissen Nielsen (Eyvindur Sólnes hrl.) |
Hlutafélag. Gjaldþrotaskipti. Hluthafi. Kaupskylda. Söluréttur. Forsenda. Orsakasamband.
Árið 2006 gerðu S og M ráðningarsamninga við 365 MS A/S, danskt dótturfélag D hf. Með þeim gengust þeir hvor um sig undir þá skyldu að kaupa ákveðinn fjölda hluta í 365 MS A/S en öðluðust jafnframt rétt til að selja þá aftur að liðnum ákveðnum tíma og á tilteknu verði. Þá gerðu þeir einnig hluthafasamkomulag við D hf. og ritaði G undir hvort samkomulag um sig fyrir hönd D hf. sem framkvæmdastjóri félagsins. Í hluthafasamkomulagi beggja kom fram að S og M ættu rétt á að selja hluti sína í 365 MS A/S innan tilgreindra tímamarka og með þeim skilmálum sem þar voru nánar greindir og væri D hf. þá skylt að kaupa hlutina. Í nóvember 2006 var D hf. skipt upp í tvö félög, T hf. og Í hf., sem bæði munu hafa tekið yfir skuldbindingar félagsins. Árið 2009 tilkynntu S og M Í hf. að þeir hygðust nýta sölurétt sinn en þar sem að bú félagsins hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta voru bréfin ekki innleyst. Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 708/2010 var fjárkrafa S við slit Í hf. hafnað á þeim grundvelli að ósannað hefði verið að G hefði haft umboð D hf. til þess að gera fyrrgreint hluthafasamkomulag við S. Í máli þessu deildu aðilar um það hvort G væri skaðabótaskyldur gagnvart S og M vegna umboðsskorts við gerð samninganna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að réttur S og M til sölu á hlutum í hinu danska félagi hefði verið hugsaður sem launagreiðsla til þeirra í 18 mánuði ef til þess kæmi að þeim yrði sagt upp störfum hjá félaginu eða starfsemi þess hætt af einhverjum ástæðum. Eðli málsins samkvæmt hlyti trygging þeirra fyrir efndum framangreindrar skuldbindingar að hafa verið bundin þeirri forsendu að hlutum þeirra fylgdu við sölu til D hf. virk réttindi hluthafa og að hlutirnir hefðu eitthvert verðgildi. Með vísan til þess að bú 365 MS A/S hefði verið tekið til gjaldþrotaskipta árið 2008 og skiptunum lokið sem eignalausu ári síðar, hefði S og M ekki verið kleift að efna hluthafasamkomulagið af sinni hálfu. Ómöguleiki S og M til réttra efnda yrði samkvæmt þessu ekki rakinn til ætlaðs umboðsskorts G við gerð samkomulagsins heldur gjaldþrots 365 MS A/S. Af þessu leiddi að það skilyrði skorti fyrir skaðabótaábyrgð G gagnvart S og M að orsakatengsl væru á milli ætlaðrar saknæmrar háttsemi hans og þess tjóns er S og M hefðu orðið fyrir. Var G því sýknaður af kröfum S og M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. mars 2015. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti óskipt úr þeirra hendi.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Atvikum málsins er skilmerkilega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram gerðu stefndu í mars og apríl 2006 ráðningarsamninga við 365 Media Scandinavia A/S, danskt dótturfélag Dagsbrúnar hf. Með þeim gengust stefndu hvor um sig undir þá skyldu að kaupa innan nánar greindra tímamarka ákveðinn fjölda hluta í 365 Media Scandinavia A/S á genginu 1 á hlut en öðluðust jafnframt rétt til að selja þá aftur að ákveðnum tíma liðnum á gengi sem skyldi vera 45 á hlut. Í ráðningarsamningunum voru ákvæði þess efnis að áður en eignarhald stefndu á hlutum þeirra í hinu danska félagi yrði skráð skyldu þeir gera samkomulag við hluthafa í félaginu um skilmála sem almennt gilda um slíka samninga.
Stefndu gerðu eins og ráðningarsamningarnir kváðu á um og í framhaldi af gerð þeirra hluthafasamkomulag við Dagsbrún hf., stefndi Svenn 2. apríl 2006 og stefndi Morten 23. sama mánaðar, og ritaði áfrýjandi undir hvort samkomulag um sig fyrir hönd Dagsbrúnar hf. sem framkvæmdastjóri félagsins. Er efni samninganna rakið í hinum áfrýjaða dómi að því marki sem máli skiptir fyrir úrlausn málsins. Í hluthafasamkomulagi beggja stefndu kom fram að þeir ættu rétt á að selja hluti sína í 365 Media Scandinavia A/S innan tilgreindra tímamarka og með þeim skilmálum sem þar voru nánar greindir og væri Dagsbrún hf. þá skylt að kaupa hlutina. Í málinu greinir aðila á um það hvort áfrýjandi sé skaðabótaskyldur gagnvart stefndu vegna meints umboðsskorts við gerð samninganna. Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi var Dagsbrún hf. 17. nóvember 2006 skipt upp í tvö félög, Teymi hf. og Íslenska afþreyingu hf., sem bæði munu hafa tekið yfir skuldbindingar Dagsbrúnar hf.
Fram kom í skýrslum beggja stefndu fyrir dómi að réttur þeirra til sölu á hlutum í hinu danska félagi hafi verið hugsaður sem launagreiðsla til þeirra í 18 mánuði ef til þess kæmi að þeim yrði sagt upp störfum hjá félaginu eða starfsemi þess hætt af einhverjum ástæðum. Eðli málsins samkvæmt hlaut trygging stefndu fyrir efndum framangreindrar skuldbindingar að vera bundin þeirri forsendu að hlutum þeirra fylgdu við sölu til Dagsbrúnar hf. virk réttindi hluthafa og að hlutirnir hefðu eitthvert verðgildi. Bú 365 Media Scandinavia A/S var tekið til gjaldþrotaskipta 10. október 2008 með úrskurði Sø- og Handelsretten í Kaupmannahöfn og lauk skiptum á búi félagsins 4. desember 2009 sem eignalausu. Við töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta urðu hlutir stefndu í því óvirkir og var verðleysi hlutanna endanlega staðfest þegar skiptum á búinu lauk sem eignalausu. Stefndu var því vegna töku bús félagsins til gjaldþrotaskipta og eftirfarandi skiptaloka ekki kleift að efna hluthafasamkomulagið af sinni hálfu. Ómöguleiki stefndu til réttra efnda á hluthafasamkomulaginu verður samkvæmt þessu ekki rakinn til ætlaðs umboðsskorts áfrýjanda við gerð samkomulagsins heldur gjaldþrots 365 Media Scandinavia A/S. Af þessu leiðir að það skilyrði skortir fyrir skaðabótaábyrgð áfrýjanda gagnvart stefndu að orsakatengsl séu á milli ætlaðrar saknæmrar háttsemi hans og þess tjóns er stefndu urðu fyrir. Verður áfrýjandi þegar af þeirri ástæðu sýknaður af kröfum stefndu í málinu.
Eftir framangreindum úrslitum verður stefndu sameiginlega gert að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Gunnar Smári Egilsson, er sýkn af kröfum stefndu, Svenn Aage Hyllerød Dam og Morten Nissen Nielsen.
Stefndu greiði áfrýjanda óskipt 1.500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 9. desember 2014.
I.
Mál þetta var höfðað 4. október 2012 og dómtekið 11. nóvember 2014 að loknum munnlegum málflutningi.
Stefnendur eru Svenn Dam, til heimilis að Rungstedvej 24, Árósum, Danmörku og Morten Nissen Nielsen, til heimilis að Vermundsgade 4, Viby, Danmörku, en stefndi er Gunnar Smári Egilsson, til heimilis að Þórsgötu 10, Reykjavík.
Mál þetta var upphaflega einnig höfðað á hendur Sjóvá-Almennum tryggingum hf., Kringlunni 5, Reykjavík. Með úrskurði, dags. 9. desember 2014 var málið fellt niður gagnvart, stefnda Sjóvá-Almennum tryggingum hf.
Dómkröfur stefnenda eru eftirfarandi:
Stefnandi, Svenn Dam krefst þess að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaðabóta úr hendi stefnda vegna tjóns af völdum umboðsskorts hans við gerð hluthafasamnings, dags. 2. apríl 2006. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefnandi, Morten Nissen Nielsen krefst þess að viðurkenndur verði með dómi réttur stefnanda til skaðabóta úr hendi stefnda vegna tjóns af völdum umboðsskorts hans við gerð hlutahafasamnings, dags. 23. apríl 2006. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda, auk málskostnaðar.
II.
Í máli þessu deila aðilar um hvort stefndi Gunnar Smári Egilsson sé skaðabótaskyldur gagnvart stefnendum vegna meints umboðsskorts hans við gerð hluthafasamninga við stefnendur á þeim tíma sem stefndi var framkvæmdastjóri Dagsbúnar hf., sem síðar fékk heitið Íslensk afþreying hf.
Atvik málsins eru þau að stefnendur í máli þessu voru ráðnir til starfa hjá 365 Media Scandinavia A/S á árinu 2006, sem var danskt dótturfélag Dagsbrúnar hf. Var ráðningarsamningurinn við Svenn Dam dags. 23. mars 2006 og undirritaður af stefnda Gunnari Smára fyrir hönd 365 Media Scandinavia A/S. Samkvæmt samningnum skyldi stefnandi Svenn Dam starfa sem framkvæmdastjóri 365 Media Scandinavia A/S.
Ráðningarsamningurinn við Morten Nissen Nielsen var dags. 23. apríl 2006 og undirritaður af Svenn Dam fyrir hönd fyrir hönd 365 Media Scandinavia A/S. Var Morten Nissen ráðinn til að gegna starfi framkvæmdastjóra dótturfélags 365 Media Scandinavia A/S, sem skyldi gefa út fríblað í Danmörku, Nyhedsavisen.
Samkvæmt grein 5.1 í ráðningarsamningum stefnenda var mælt fyrir um að stefnanda Svenn Dam væri skylt að kaupa 75.000 hluti í 365 Media Scandinavia A/S og Morten Nissen var skylt að kaupa 50.000 hluti í sama félagi. Í sömu grein var einnig mælt fyrir um sölurétt stefnenda á þessum bréfum til Dagsbrúnar hf. að fullnægðum nánari skilyrðum.
Í samræmi við ráðningarsamninga stefnenda hjá 365 Media Scandinavia A/S var gert tvenns konar efnislega samhljóða hluthafasamkomulag við stefnendur, dags. 2. apríl 2006 og 23. apríl 2006, þar sem m.a. var mælt fyrir um kaup- og sölurétt stefnenda á hlutabréfum í 365 Media Scandinavia A/S. Stefndi Gunnar Smári Egilsson ritaði undir í báðum tilfellum fyrir hönd Dagsbrúnar hf.
Samkvæmt grein 2.1 í hluthafasamkomulaginu bar stefnendum innan 90 daga frá undirritun samkomulagsins að kaupa af Dagsbrún hf.
Samkvæmt grein 4.4 í samkomulaginu var stefnendum heimilt að selja Dagsbrún hf. þá hluti sem þeir höfðu keypt í félaginu 365 Media Scandinavia A/S á tilteknu verði og að liðnum ákveðnum tíma þannig að 1/3 hlutabréfanna yrði keyptur á genginu 45 hver hluti eftir 1. júlí 2009, 1/3 hlutabréfanna á genginu 45 hver hluti eftir 1. júlí 2010, og 1/3 hlutabréfanna á genginu 45 hver hluti eftir 1. júlí 2011, í öllum tilvikum að því tilskildu að tilkynning um það væri afhent eigi síðar en 15. nóvember 2011.
Skömmu eftir samningsgerðina, eða þann 17. nóvember 2006, var Dagsbrún hf. skipt upp í tvö félög, annars vegar Teymi hf. og hins vegar Íslenska afþreyingu hf. Virðast bæði félögin hafa tekið yfir skuldbindingar Dagsbrúnar hf.
Þann 10. október 2008 var bú 365 Media Scandinavia A/S tekið til gjaldþrotaskipta í Danmörku af Sö- og Handelsrettens Skifteafdeling og lauk skiptameðferð á búinu 4. desember 2009 sem eignalausu. Samkvæmt kröfuhafalista fyrir búið lýsti stefnandi Svenn Dam 2.296.000 DKR. í búið og stefnandi Morten Nissen Nielsen 2.142.000 DKR.
Þann 17. júní 2009 tilkynntu stefnendur Íslenskri afþreyingu hf. að þeir hygðust nýta sölurétt sinn samkvæmt hluthafasamkomulögunum með kröfu um innlausn hlutabréfanna sem þeir keyptu í 365 Media Scandinavia A/S á árinu 2006 þegar þeir voru ráðnir til starfa hjá félaginu. Bréfin voru ekki innleyst þar sem bú Íslenskrar afþreyingar hf. var tekið til gjaldþrotaskipta þann 2. júlí 2009.
Samkvæmt auglýsingu skiptastjóra þrotabús Íslenskrar afþreyingar hf., dags. 11. júní 2012, var skiptum á búinu lokið þann 10. janúar 2012. Voru forgangskröfur, 4.113.293 krónur, greiddar að fullu. Upp í almennar kröfur voru greiddar 463.228.363 krónur eða 11,14% Samkvæmt skrá um lýstar kröfur í bú Íslenskrar afþreyingar kröfðust stefnendur þess að kröfur þeirra yrðu viðurkenndar sem almennar kröfur í búið. Í ódagsettu svarbréfi skiptastjóra þrotabús Íslenskrar afþreyingar til lögmanns stefnenda, hafnaði skiptastjórinn kröfum stefnenda á þeim grundvelli að stefndi, Gunnar Smári hefði ekki haft umboð til að gera áðurgreint hluthafasamkomulag við stefnendur fyrir hönd félagsins. Auk þess sem ekki hefðu verið veittar nægar upplýsingar um hvernig stefnendur hygðust efna skuldbindingar sínar samkvæmt hluthafasamkomulaginu í ljósi þess að félagið 365 Media Scandinavia A/S væri ekki lengur „rekstrarhæft“ félag.
Stefnandi Svenn Dam bar ágreining sinn við þrotabúið um framangreint undir Héraðsdóm Reykjavíkur sem kvað upp úrskurð í málinu 3. desember 2010. Úrskurði Héraðsdóms var skotið til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar Íslands, 3. febrúar 2011 í máli nr. 708/2010 Svenn Dam gegn þrotabúi Íslenskrar afþreyingar hf., var talið að hluthafasamningur sem þáverandi framkvæmdastjóri Dagsbrúnar hf., stefndi í máli þessu, gerði við stefnanda Svenn Dam væri óvenjuleg og mikils háttar ákvörðun í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög og slíkar ráðstafanir gæti framkvæmdastjóri ekki gert nema samkvæmt sérstakri heimild stjórnar félagsins. Var talið óumdeilt í málinu að ekki hafi verið að finna í fundargerðum stjórnar félagsins bókun um að framkvæmdastjóranum Gunnari Smára hafi verið veitt heimild til að gera samninginn fyrir þess hönd og var síðari vitnisburður stjórnarmanns um þetta ekki talinn fullnægjandi. Fyrir lá skrifleg yfirlýsing þáverandi formanns stjórnar Dagsbrúnar hf., Þórdísar Jónu Sigurðardóttur, sem síðan var staðfest fyrir dómi við meðferð málsins í héraði, um að framkvæmdastjórinn hefði haft fullt umboð stjórnar til að gera umræddan samning og að hann hefði verið gerður með fullri vitund stjórnar Dagsbrúnar hf. sem hafi þekkt efni samningsins og samþykkt það. Var það niðurstaða Hæstaréttar að ósannað væri að framkvæmdastjórinn hefði haft umboð til þess að gera fyrrgreint hlutahafasamkomulag við sóknaraðila málsins Svenn Dam.
Með bréfum, lögmanns stefnenda til stefnda, dags. 23. mars 2011, var stefndi krafinn um greiðslu bóta vegna umboðsskorts hans við gerð hluthafasamninganna. Nam bótakrafa Svenn Dam á hendur stefnda samtals 84.665.756 krónum og krafa stefnanda Morten Nissen 56.443.838 krónum með dráttarvöxtum. Kom fram í bréfi lögmannsins að krafist væri bóta líkt og samningur hefði haldið gildi sínu og væri þannig krafist bóta vegna fjártjóns þess er stefnendur hefðu sannanlega orðið fyrir en um væri að ræða efndir 50.000 DKK á genginu 45 DKK í tilviki Morten Nissen og 75.000 DKK á genginu 45 DKK í tilviki Svenn Dam. Tók lögmaðurinn fram að kröfugerðin miðaðist við að Teymi hf. hefði þegar greitt 20% kröfunnar til stefnenda.
Á árinu 2008, voru gerðir (ódagsettir) viðaukar við áðurgreinda ráðningarsamninga stefnenda í tengslum við fyrirhugaða fjárfestingu Mortens Lund í 365 Media Scandinavia A/S. Voru viðaukarnir á milli stefnenda og greinds Mortens Lund þar sem mælt var fyrir um að Morten Lund ábyrgðist skuldbindingar Dagsbrúnar hf. samkvæmt 4. gr. hluthafasamkomulagsins. Er samningsákvæðið svohljóðandi: Ef Dagsbrún efnir ekki skuldbindingu sína samkvæmt 4. gr. hluthafasamkomulagsins ábyrgist Morten Lund persónulega að yfirtaka skuldbindinguna um að kaupa hlutina á umræddu gengi samkvæmt reglum sem mælt er fyrir um í 4. gr. hluthafasamkomulagsins.
Fram kom við aðalmeðferð málsins af hálfu stefnda, að stefnendur hefðu fengið 10,1% af fjárkröfu sinni úr hendi Mortens Lund á grundvelli áðurgreindra viðauka við ráðningarsamninga stefnenda frá árinu 2008.
Samkvæmt sex yfirlýsingum fyrrverandi stjórnarmanna Dagsbrúnar hf., sem dagsettar eru á tímabilinu 20. ágúst 2009 til 5. desember 2012, lýsa stjórnarmenn því yfir að stjórninni hafi ýmist verið kunnugt um fyrrgreinda hluthafasamninga eða hún hafi veitt framkvæmdastjóra félagsins, stefnda í máli þessu, umboð til þess að undirrita þá fyrir hönd félagsins.
Stefnendur gáfu aðilaskýrslu fyrir dóminum. Stefndi í máli þessu og Árni Hauksson gáfu símaskýrslu fyrir dóminum. Þá komu fyrir dóminn vitnin Þórdís J. Sigurðardóttir, Davíð Scheving Thorsteinsson, Guðmundur Ólason og Magnús Ármann, en þau, ásamt Árna Haukssyni, sátu í stjórn Dagsbrúnar hf. á þeim tíma sem stefnendur voru ráðnir til starfa hjá 365 Media Scandinavia A/S og ráðningarsamningar og hluthafasamkomulag var undirritað.
III.
1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda
Stefnendur byggja á því að stefndi hafi ekki haft umboð Dagsbrúnar hf., (síðar Íslensk afþreying hf.) til að gera hluthafasamninga við stefnendur sem hafi orðið til þess að þrotabú félagsins hafi ekki verið talið bundið af samningunum. Samningsgerð stefnda hafi falið í sér óvenjulega eða mikils háttar ráðstöfun í skilningi 2. mgr. 68. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög. Í fundargerðum stjórnar félagsins sé enga bókun að finna þess efnis að framkvæmdastjóra félagsins hafi verið veitt umboð til að gera samninginn fyrir þess hönd. Kaupskylduákvæði á margföldu kaupverði kalli á sérstaka heimild stjórnar og rúmist ekki innan almenns starfsumboðs framkvæmdastjóra.
Stefnendur byggja á því að staðfest hafi verið með dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 708/2010, að ætla verði slíka ákvörðun aðeins á færi stjórnar eða hluthafafundar.
Stefnendur byggja á því að með gagnályktun frá 10. gr. samningalaga nr. 7/1936, skuldbindi gerningur sem umboðsmaður hafi stofnað til ekki umbjóðanda ef umboðsmaður hans hefur farið út fyrir umboð sitt. Stefnendur hafi ekki getað krafið viðsemjanda sinn um efndir og hafi því orðið af andvirði greiðslna samkvæmt hluthafasamningnum. Ákvæði 25. gr. sömu laga mælir fyrir um bótaábyrgð umboðsmanns í slíku tilviki, en samkvæmt ákvæðinu beri umboðsmaður hlutlæga bótaábyrgð á tjóni sem hafi orðið vegna umboðsskorts hans.
Stefnendur telja að fjártjón þeirra felist í þeim fjárhagslegu verðmætum sem þeir hafi orðið af í ljósi þess að hluthafasamningurinn kom ekki til framkvæmda og að kröfur þeirra í bú Íslenskrar afþreyingar hf. hafi ekki fengist samþykktar. Skiptum á búi Íslenskrar afþreyingar hf. hafi lokið þann 10. janúar 2012. Forgangskröfur hafi verið greiddar að fullu en upp í almennar kröfur hafi verið greiddar 463.228.363 krónur eða 11,14%.
2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því að skilyrði bótaábyrgðar hans séu óuppfyllt og ósönnuð.
Stefnendur hafi frá upphafi byggt á því að stefndi hafi haft fullt umboð til að gera samninga við stefnendur f.h. Dagsbrúnar hf. og byggi í raun enn á því. Verði að hafa í huga að í málatilbúnaði stefnenda gegn þrotabúi Íslenskrar afþreyingar hf., hafi stefnendur byggt á því að stefndi hafi haft fullt umboð stjórnar til samningsgerðarinnar.
Varðandi umboð sitt vísar stefndi til yfirlýsinga stjórnarmanna Dagsbrúnar hf. þar sem m.a. komi fram að stjórnin hafi verið upplýst um allt ferlið í tengslum við útgáfu Nyhedsavisen þar með talið ráðningu stefnenda. Stjórn Dagsbrúnar hf. hafi haft augljósa vitneskju um kaup stefnanda Svenn Dam á hlutum í 365 Media Scandinavian A/S enda hafi Dagsbrún hf. móttekið greiðslu frá honum fyrir hlutina.
Þá telur stefndi að stefnendur hafi ekki sýnt fram á bótaábyrgð stefnda skv. 25. gr. laga nr. 7/1936, enda hafi stefndi uppfyllt það skilyrði 25. gr. að sýna fram á að stjórn Dagsbrúnar hf. hafi samþykkt gerningana í síðasta lagi eftir á, sbr. áðurgreindar yfirlýsingar.
Stefndi byggir á því að meint tjón stefnenda sé ósannað. Ekki liggi fyrir í hverju hið meinta tjón stefnenda felist eða hvert sé umfang þess. Stefnendur beri sönnunarbyrði fyrir því að Dagsbrún hf. hafi getað efnt hluthafasamkomulögin og að hvaða marki. Þá sé óútskýrt hvers vegna stefndi skuli vera ábyrgur fyrir fjárhæð umfram það sem nemi þeirri fjárhæð sem stefnendur hefðu fengið greidda upp í kröfur sínar samkvæmt kröfulýsingum í þrotabú Íslenskrar afþreyingar hf. hefðu þær á annað borð verið samþykktar af skiptastjóra. Þegar af þessari ástæðu beri að sýkna stefnda. Þá sé óútskýrt í stefnu hvers vegna stefndi eigi að bera bótaábyrgð þegar svo virðist sem stefnendur hafi þegar samið við Morten Lund um að takast á herðar persónulega ábyrgð á skuldbindingum Dagsbrúnar hf. Þá geti stefnendur ekki krafist meiri hagsbóta en nemi þeim hagnaði, er leitt hefði af stofnun fullgilds samnings við Dagsbrún hf.
Fullgildur samningur við Dagsbrún hf. hefði ekki fært stefnendum neina fjárhagslega hagsmuni í fyrsta lagi vegna gjaldþrots félagsins þann 2. júlí 2009 og í öðru lagi vegna þess að 365 Media Scandinavia A/S hafi verið úrskurðað gjaldþrota í Danmörku í október 2008. Til að efna hluthafasamkomulagið hefðu stefnendur þurft að afhenda Dagsbrún hf. hluti í fyrrgreinda félaginu gegn greiðslu kaupverðs. Vegna gjaldþrots 365 Media Scandinavia A/S hefði stefnendum þess vegna verið ókleift sjálfum að efna hluthafasamkomulagið. Sú staðreynd geri það einnig að verkum að forsendur fyrir hluthafasamningunum hafi verið brostnar og þeir því verið óskuldbindandi.
Stefndi byggir á því að ekki hafi verið sýnt fram á orsakatengsl eða sennilega afleiðingu af háttsemi hans og meints tjóns stefnenda. Stefnendur hafi ekki sýnt fram á að meintur umboðsskortur hafi verið nauðsynlegt eða nægjanlegt skilyrði fyrir því að þeir hafi orðið fyrir tjóni.
Þá hafi stefnendur ekki fest kaup á hlutum í 365 Media Scandinavia A/S af Dagsbrún hf. innan 90 daga frá undirritun hluthafasamkomulagsins sem hafi verið skilyrði söluréttar samkvæmt samningunum, sbr. grein 2.1. Ósannað sé að það skilyrði hafi veri uppfyllt í tilviki stefnanda Morten Nissen, en sannað sé að stefnandi Svenn Dam hafi keypt hlutina á75.000 DKK meira en 160 dögum eftir undirritun hluthafasamningsins. Þegar af þeirri ástæðu hefði Dagsbrún hf. getað hafnað kaupskyldu, sbr. grein 4.4 í hluthafasamkomulaginu. Skiptastjóri Dagsbrúnar hf. hafi m.a. hafnað kröfulýsingum stefnanda vegna þess að skilyrði þetta hafi ekki verið uppfyllt. Þegar af þessari ástæðu geti meintur umboðsskortur ekki hafa bakað stefnendum tjón.
Þá bendir stefndi á að stefnendur hafi einnig lýst sömu kröfum sínum við nauðasamninga Teymis hf. og hafi stefnendur fengið hluta af kröfum sínum greiddan. Byggir stefndi á því, með vísan til 2. mgr. 60. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti, að við móttöku greiðslunnar frá Teymi hf. og þegar nauðasamningur hafi komist á hafi hann bundið lánardrottna og þá sem komi í þeirra stað um samningskröfur þeirra. Efndir samningskröfu í samræmi við ákvæði nauðasamnings hafi sömu áhrif og ef krafan hefði verið efnd eftir upphaflegu efni sínu.
Að lokum vísar stefndi til sjónarmiða um tómlæti og sanngirnisraka, en tæp sjö ár séu síðan atvik máls þessa hafi gerst.
IV.
Samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 708/2010, dags. 3. febrúar 2011, sem stefnandi Svenn Dam átti aðild að sem áfrýjandi, var það niðurstaða réttarins að ósannað væri að stefndi Gunnar Smári Egilsson hefði haft umboð til þess að gera hluthafsamninga þá sem deilt er um í máli þessu. Í máli því sem nú er til meðferðar hafa ekki verið lögð fram ný gögn sem breyta sönnunargildi dóms Hæstaréttar að þessu leyti og í því sambandi þykir ekki fært að líta til síðari yfirlýsinga stjórnarmanna Dagsbrúnar hf. sem gefnar voru eftir uppkvaðningu umrædds dóms.
Víkur þá að skaðabótakröfum stefnenda. Stefnendur byggja viðurkenningarkröfur sína á því að þeir hafi orðið fyrir tjóni og eigi rétt á skaðabótum úr hendi stefnda af völdum umboðsskorts stefnda við gerð hluthafasamninga við stefnendur, þann 2. apríl og 23. apríl 2006. Telja stefnendur að fjártjón þeirra felist í því að kröfum þeirra í þrotabú Íslenskrar afþreyingar hf. hafi verið hafnað þar eð hluthafasamningarnir sem þeir byggðu rétt sinn á hafi ekki verið gildir vegna umboðsskorts stefnda.
Samkvæmt hluthafasamkomulagi áttu stefnendur rétt á því að selja hlutabréf sín í 365 Media Scandinavia A/S til Dagsbúnar hf. sem síðar fékk heitið Íslensk afþreying hf. á genginu 45 að því tilskildu að tilkynning um það væri afhent eigi síðar en 15. nóvember 2011.
Fyrir liggur að stefnendur tilkynntu Íslenskri afþreyingu hf. þann 17. júní 2009, að þeir hygðust nýta sölurétt sinn samkvæmt hluthafasamkomulaginu. Í hluthafasamningunum var ekki fyrirvari um verðgildi hlutabréfanna í 365 Media Scandinavia A/S. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að stefnendur keyptu hluti þá sem þeim bar að kaupa samkvæmt hluthafasamkomulaginu og ráðningarsamningunum. Síðari athugasemdum um að kaup þessi hafi ekki átt sér stað eða að þau hafi farið fram síðar en áskilið var verður ekki sinnt.
Vegna umboðsskorts stefnda gátu stefnendur ekki sótt rétt sinn samkvæmt hluthafasamningunum á hendur Íslenskri afþreyingu hf., en við gjaldþrotaskipti á því búi komu m.a. rúmlega 11% upp í almennar kröfur auk þess sem stefnendur hafa fengið fjárhæðir upp í kröfu sínar annars staðar frá. Stefndi ber ábyrgð á þeim umboðsskorti og því tjóni sem af því hlaust, sbr. 25. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Með vísan til framangreinds er viðurkenndur réttur stefnanda Svenn Dam og stefnanda Morten Nissen Nielsen til skaðabóta úr hendi stefnda Gunnars Smára Egilssonar vegna tjóns af völdum umboðsskorts stefnda við gerð hluthafasamninga við stefnendur, dags. 2. apríl 2006 og 23. apríl 2006.
Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnda, Gunnari Smára Egilssyni að greiða stefnendum Svenn Dam og Morten Nissen Nielsen sameiginlega 1.300.000 krónur í málskostnað.
Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
DÓMSORÐ:
Viðurkenndur er réttur stefnanda, Svenn Dam og stefnanda Morten Nissen Nielsen til skaðabóta úr hendi stefnda, Gunnars Smára Egilssonar, vegna tjóns af völdum umboðsskorts stefnda við gerð hluthafasamnings, dags. 2. apríl 2006 og við gerð hlutahafasamnings, dags. 23. apríl 2006.
Stefnda ber að greiða stefnendum sameiginlega 1.300.000 krónur í málskostnað.