Hæstiréttur íslands

Mál nr. 76/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nauðungarvistun
  • Aðild
  • Ómerking úrskurðar héraðsdóms


Mánudaginn 5

 

Mánudaginn 5. mars 2001.

Nr. 76/2001.

X

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Y

(enginn)

 

Kærumál. Nauðungarvistun. Aðild. Ómerking úrskurðar héraðsdóms.

Með dómi héraðsdóms var hafnað beiðni X um að felld yrði úr gildi nauðungarvistun hans á sjúkrahúsi. Dómur héraðsdóms ómerktur þar sem réttum varnaraðila, bróður X sem beiðst hafði nauðungarvistunarinnar, hafði ekki verið gefinn kostur á að láta málið til sín taka.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. febrúar 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 1. mars sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2001, þar sem staðfest var ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 16. febrúar 2001 um að sóknaraðili skyldi vistaður nauðugur í sjúkrahúsi. Kæruheimild er í 4. mgr. 31. gr., sbr. 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar, en til vara að framangreind ákvörðun dóms- og kirkjumálaráðuneytisins verði felld úr gildi. Þá krefst sóknaraðili þess að þóknun talsmanns hans verði greidd úr ríkissjóði.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka.

Sá, sem leitar eftir því að maður verði vistaður nauðugur í sjúkrahúsi með stoð í ákvæðum III. kafla lögræðislaga, telst málsaðili þegar hlutaðeigandi maður neytir réttar síns samkvæmt 30. gr. laganna til að bera ákvörðun um nauðungarvistunina undir dómstóla, sbr. dóma Hæstaréttar í dómasafni 1998, bls. 1692, og 1999, bls. 91. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að héraðsdómari hafi aflað upplýsinga um hver væri varnaraðili þess, svo sem honum var rétt að gera samkvæmt 1. mgr. og 2. mgr. 11. gr., sbr. 4. mgr. 31. gr. lögræðislaga. Var varnaraðila því aldrei gefinn kostur á að láta málið til sín taka. Þegar af þessum ástæðum er óhjákvæmilegt að ómerkja hinn kærða úrskurð og leggja fyrir héraðsdómara að taka málið til meðferðar að nýju.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun talsmanns sóknaraðila, sem ákveðin er í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs talsmanns sóknaraðila, X, á báðum dómstigum, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, samtals 60.000 krónur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. febrúar 2001.

Með beiðni sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 19. febrúar sl. krafðist sóknaraðili X […] þess að felld verði úr gildi ákvörðun dómsmálaráðuneytisins 16. febrúar sl. um að vista hann á sjúkrahúsi.  Var málið þingfest og tekið til úrskurðar í dag. 

[...]

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Staðfest er ákvörðun Dómsmálaráðuneytisins 16. febrúar 2001 um að sóknar­aðili, X, […] skuli vistast á sjúkrahúsi.

Þóknun til skipaðs talsmanns sóknaraðila, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 60.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.