Hæstiréttur íslands

Mál nr. 345/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Útburðargerð
  • Veðréttur
  • Þinglýsing
  • Nauðungarsala
  • Eignarréttur
  • Hjón


                                     

Þriðjudaginn 11. júní 2013.

Nr. 345/2013.

Emma Fanney Baldvinsdóttir

(Þórður Heimir Sveinsson hdl.)

gegn

Íbúðalánasjóði

(enginn)

Kærumál. Útburðargerð. Veðréttur. Þinglýsing. Nauðungarsala. Eignarréttur. Hjón.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á kröfu Í um að E yrði borin út úr fasteign með beinni aðfarargerð. Krafa Í var reist á veðskuldabréfi þar sem fasteignin var sett að veði til tryggingar láni sem S, fyrrverandi eiginmaður E, hafði tekið hjá SS. Krafa SS var síðar framseld til Í. Hvort um sig höfðu þau S og E átt helmingshlut í fasteigninni í óskiptri sameign en Í hafði keypt alla eignina á nauðungaruppboði. Í dómi Hæstaréttar kom fram að nafnritun E á veðskuldabréfið og önnur gögn málsins bæru ekki með sér að E hefði samþykkt veðsetningu síns eignarhluta eða að sú hefði verið ætlunin, heldur einungis að hún hefði sem maki skuldara samþykkt veðsetningu eignarinnar hvað hans hluti varðaði, sbr. 60. gr. og 64. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993. Hafði nauðungarsala á eignarhluta E því verið án heimildar að lögum. Þrátt fyrir það var E talin vera bundin af sölunni þar sem hún hafði ekki neytt viðeigandi úrræða laga nr. 90/19991 um nauðungarsölu. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar því staðfest.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 17. maí 2013 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2013, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að sóknaraðili yrði borin út úr fasteigninni Fjallalind 94 í Kópavogi með beinni aðfarargerð. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila um útburð hafnað. Þá er krafist málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

I

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði voru sóknaraðili og þáverandi eiginmaður hennar Stefán Einarsson þinglýstir eigendur fasteignarinnar að Fjallalind 94 í Kópavogi, fastanúmer 223-6987, samkvæmt lóðarleigusamningi 12. nóvember 1998. Er ekki annað fram komið en að þau hafi átt fasteignina að jöfnu í óskiptri sameign. Með skuldabréfi 30. nóvember 2004 setti Stefán Sparisjóði Siglufjarðar fyrrgreinda fasteign að veði með 4. veðrétti til tryggingar láni að fjárhæð 25.600.000 krónur. Skuldabréfið var á stöðluðu formi sparisjóðsins og í því kemur fram að gjaldfalli skuldin megi selja veðið nauðungarsölu án dóms, sáttar eða fjárnáms samkvæmt 2. tölulið 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Þá segir í bréfinu að fullnægt sé „skilyrðum 64. gr., sbr. 60. gr., l. nr. 31/1993 um heimild til veðsetningar án samþykkis maka.“ Undir bréfið ritaði Stefán sem skuldari og nafn sóknaraðila er ritað í þar til gerða reiti þar sem annars vegar stóð „undirskrift maka skuldara“ og hins vegar „samþ. maka þinglýsts eiganda.“ Á hinn bóginn er nafnritun hennar ekki í þar til gerðum reitum þar sem stóð „samþ. framangreinda veðsetningu sem þinglýstur eigandi“ en sá reitur er auður á skuldabréfinu.

Skuldari mun hafa vanefnt greiðslur af bréfinu frá árinu 2009 og varnaraðili, sem þá var orðin skuldareigandi, leitaði eftir því við sýslumanninn í Kópavogi að fram færi nauðungarsala á eigninni samkvæmt heimild í bréfinu sjálfu. Eignin var seld nauðungarsölu 6. desember 2011 og gaf sýslumaður 16. janúar 2012 út kvaðalaust afsal fyrir eigninni til varnaraðila sem var hæstbjóðandi á nauðungaruppboði. Með aðfararbeiðni 13. desember 2012 til Héraðsdóms Reykjaness krafðist varnaraðili þess að sóknaraðili yrði borin út úr fasteigninni með beinni aðfarargerð. Um heimild var vísað til þess að varnaraðili hafi fengið útgefið kvaðalaust afsal fyrir eigninni sem hefði verið þinglýst. Sóknaraðila hefði áður verið sent ábyrgðarbréf þar sem þess var krafist að hún rýmdi eignina sem allra fyrst. Að þessum tilmælum hafi ekki verið farið og búi sóknaraðili enn í eigninni. Krafa varnaraðila var tekin til greina með hinum kærða úrskurði.

II

Varnir sóknaraðila gegn kröfu um útburð eru raktar í hinu kærða úrskurði. Eins og nánar greinir þar heldur sóknaraðili því meðal annars fram að báðar undirskriftir hennar á skuldabréfið hafi verið falsaðar. Kveðst hún upphaflega hafa búið með fyrrverandi eiginmanni sínum Stefáni Einarssyni að Reyðará í Siglufirði. Hún hafi síðan flutt frá Siglufirði árið 2002 en Stefán orðið þar eftir. Kaupum sóknaraðila og Stefáns á lóðinni að Fjallalindi 94 í Kópavogi, framkvæmdum þar og sambúð þeirra hjóna er nánar lýst í hinum kærða úrskurði. Sóknaraðili leitaði á árinu 2009 eftir rannsókn rithandarsérfræðings á því hvort undirritanir hennar á veðskuldabréfið væru falsaðar og í niðurstöðu skýrslu hans 16. nóvember 2009 um skjalarannsóknina sagði: „Það er niðurstaða undirritaðs að verulegt skriftarlegt misræmi sé með hinum fyrirsynjuðu nafnritunum sem til [sóknaraðila] vísa, annars vegar og óvéfengdum nafnritunum hennar hins vegar. Þessi niðurstaða er skilyrt því að rannsóknargögnin sem hér eru til umfjöllunar, endurspegli réttilega þá þætti í upprunalegum frumgögnum, sem hér er vísað til.“ Með bréfi 30. júní 2010 kærði lögmaður sóknaraðila ætlaða fölsun á veðskuldabréfinu til lögreglu sem tilkynnti sóknaraðila 3. janúar 2013 að rannsókn málsins væri hætt. Sóknaraðili kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara 1. febrúar 2013 en ekki liggur fyrir samkvæmt gögnum málsins um afdrif þeirrar kæru. Eins og mál þetta liggur fyrir Hæstarétti kemur málsástæða sóknaraðila reist á fölsun ekki til frekari umfjöllunar við úrlausn ágreinings aðilanna.

III

Sóknaraðili reisir kröfu sína í málinu einnig á því að þar sem hún sé helmingseigandi að Fjallalind 94, og veðskuldabréfið 30. nóvember 2004 beri ekki með sér að hún hafi samþykkt veðsetningu síns eignarhluta, geti veðsetning eignarinnar umrætt sinn ekki hafa náð til annars en eignarhluta Stefáns Einarssonar. Nauðungarsala eignarinnar geti í samræmi við þetta, hvað sem öðru líður, ekki hafa tekið til hennar hluta heldur einungis eignarhluta Stefáns.

Í fyrrgreindu veðskuldarbréfi sagði að til tryggingar skuldinni væri veðsett Fjallalind 94, Kópavogi og bar bréfið samkvæmt þessu með sér að öll eignin hafi verið veðsett til tryggingar umræddu láni en ekki aðeins eignarhluti Stefáns. Eins og áður greinir er ekki annað fram komið en að sóknaraðili og Stefán hafi átt fasteignina að jöfnu í óskiptri sameign. Nafnritun sóknaraðila á skuldabréfið kom þrátt fyrir það ekki fram í þar til gerðum reit um samþykki þinglýsts eiganda heldur einungis í reitum fyrir samþykki maka skuldara og maka þinglýsts eiganda. Samkvæmt þessu ber nafnritun sóknaraðila á veðskuldabréfið ekki með sér að hún hafi samþykkt veðsetningu síns eignarhluta og önnur gögn málsins veita heldur ekki  vísbendingu um að sú hafi verið ætlunin. Samþykki sóknaraðila fyrir veðsetningu síns eignarhluta var þó nauðsynlegt samkvæmt þeirri meginreglu þinglýsingalaga nr. 39/1978 að sá einn geti ráðstafað eign með löggerningi sem til þess hefur þinglýsta heimild eða samþykki þess er slíkrar heimildar nýtur, sbr. 24. gr. og 25. gr. laganna. Á hinn bóginn ber ritun nafns sóknaraðila á veðskuldabréfið með sér að hún hafi sem maki skuldara samþykkt veðsetningu eignarinnar hvað hans hluta varðar, sbr. 60. gr. og 64. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993.

Samkvæmt öllu framanröktu má leggja til grundvallar að með uppboðsbeiðni varnaraðila og eftirfarandi nauðungarsölu fasteignarinnar að Fjallalind 94 hafi verið gengið lengra en veðréttur varnaraðila veitti grundvöll fyrir. Nauðungarsala á eignarhluta sóknaraðila var samkvæmt því án heimildar að lögum. Til þess er hins vegar að líta að sóknaraðili neytti hvorki úrræða samkvæmt XIII. né XIV. kafla laga nr. 90/1991 innan þeirra tímafresta sem þar greinir, sbr. einkum 1. og 2. mgr. 80. gr. laganna. Er sóknaraðili þegar af þeirri ástæðu bundin af nauðungarsölunni og getur framangreindur annmarki á henni því ekki staðið í vegi þeim rétti sem varnaraðili nú nýtur á grundvelli kvaðalauss uppboðsafsals. Í 3. mgr. 80. gr. laga nr. 90/1991 kemur á hinn bóginn fram að ákvæði 1. og 2. mgr. greinarinnar breyti því ekki að annars megi hafa uppi kröfu um skaðabætur eða aðra peningagreiðslu sem byggist á því að ekki hafi verið skilyrði til nauðungarsölu eða ranglega staðið að henni.

Að virtu öllu því er að framan greinir verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 6. maí 2013.

Aðfararbeiðni gerðarbeiðanda barst héraðsdómi 17. desember 2012. Gerðar­­beiðandi er Íbúðalánasjóður, kt. 661198-3629, Borgartúni 21, Reykjavík, en gerðarþoli er Emma Fanney Baldvinsdóttir, kt. 220454-3719, Fjallalind 94, Kópavogi. Málið var tekið til úrskurðar 12. apríl 2013.

Gerðarbeiðandi krefst þess að gerðarþoli verði, ásamt öllu sem honum tilheyrir, borinn út úr fasteigninni Fjallalind 94, 0101, Kópavogi, með beinni aðfarargerð. Þá krefst gerðarbeiðandi málskostnaðar úr hendi gerðarþola og að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af væntanlegri gerð.

Gerðarþoli krefst þess að kröfu gerðarbeiðanda verði hafnað. Þá krefst gerðarþoli málskostnaðar úr hendi gerðarbeiðanda.

I.

Samkvæmt gögnum málsins er gerðar­beiðandi þinglýstur eigandi fasteignar­innar að Fjallalind 94, 0101, Kópavogi, fastanúmer 223-6987. Gerðarþoli og Stefán Einarsson, kt. 1401488149, voru eigendur eignarinnar þar til hún var seld gerðar­beiðanda sem hæst­bjóðanda á nauðungaruppboði 6. desember 2011. Boð gerðar­beiðanda var samþykkt 20. desember 2011 og var kvaðalaust afsal gefið út til gerðar­beiðanda 16. janúar 2012 og því þinglýst 20. janúar 2012. Gerðarbeiðandi sendi gerðarþola ábyrgðarbréf 12. október 2012 þar sem þess var krafist að gerðarþoli rýmdi eignina í síðasta lagi 26. október 2012, að öðrum kosti yrði höfðað útburðarmál fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Jafnframt var gerðarþoli beðinn um að koma lyklum að eigninni til gerðarbeiðanda í síðasta lagi sama dag. Að sögn gerðarbeiðanda fór gerðarþoli ekki að þessum tilmælum og býr enn í eigninni.

II.

Gerðarbeiðandi kveður útburðarkröfu sína byggða á því að gerðarbeiðandi, sem eigandi fasteignarinnar, samkvæmt kvaðalausu uppboðsafsali, hafi fulla heimild til að nýta og ráðstafa eigninni að vild í samræmi við meginreglur eignaréttar. Gerðarþoli haldi umráðum eignarinnar í óleyfi eiganda og hafi ekki vikið af eigninni þrátt fyrir tilmæli þar um.

Um lagarök vísar gerðarbeiðandi til 78. gr., sbr. 72. gr., laga um aðför nr. 90/1989 og ákvæða VI. bókar 6. gr. 14. kap. norsku laga Kristjáns V. frá 15. apríl 1687. Gerðarbeiðandi kveður gerðina fara fram á ábyrgð gerðarbeiðanda en á kostnað gerðarþola.

III.

Gerðarþoli byggir á því að ranglega hafi verið staðið að útgáfu afsals af hálfu sýslumannsins í Kópavogi, til handa gerðarbeiðanda, þar sem nauðungarsalan á fast­eigninni Fjallalind 94, Kópavogi, sem hafi snúið að varnaraðila, hafi verið ólögmæt af hálfu gerðarbeiðanda og sýslumannsins í Kópavogi. Að auki séu undirritanir gerðar­þola á veðaskuldabréfinu, sem hafi verið grundvöllur nauðungarsölunnar, falsaðar sam­kvæmt skjalarannsókn sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafi látið framkvæma á árinu 2009 og 2010. Af því leiði að nauðungarsalan á fasteigninni varði ekki gerðarþola á nokkurn hátt, enda hafi andvirði veðskuldabréfsins, sem uppboðsbeiðnin hafi verið byggð á, runnið inn á reikning fyrrverandi eiginmanns hennar.

Gerðarþoli kveðst hafa upphaflega búið á Reyðará á Siglufirði, með fyrrverandi eiginmanni sínum, Stefáni Einarssyni. Eftir að hún hafi komist að fölsun­inni á árinu 2008 hafi þau endanlega slitið samvistum. Þau hafi keypt lóðina að Fjallalind 94, Kópavogi, á árinu 1998 og hafi jafnframt byrjað á byggingu grunns og kjallara hússins það sama ár, en þau hafi átt fasteignina til helminga. Fyrir hafi þau átt tilbúið einingahús sem flutt hafi verið frá Siglufirði og sett ofan á grunn og kjallara Fjallalindar 94, Kópavogi. Efri hæðin hafi ekki verið kláruð og sé fokheld í dag, en gerðarþoli hafi búið ásamt börnum sínum á neðri hæðinni frá árinu 2002, en fyrrverandi eiginmaður hennar hafi aðallega haldið sig á Siglufirði, þar sem hann hafi verið með verktakafyrirtæki og útgerð. Er Stefán hafi sótt um lán að fjárhæð 25.600.000 krónur hjá gerðarbeiðanda í nóvember 2004, hafi gerðarþoli ekki vitað af því, en þau hafi mestmegnis búið í sitthvorum landshlutanum á þeim tíma. Stefán hafi einn verið skráður sem skuldari lánsins, í þar tilgerðum reit efst til vinstri á framhlið veðskuldabréfsins, jafnframt því sem andvirði lánsins hafi átt að renna inn á reikning Stefáns við Sparisjóð Siglufjarðar nr. 1102-26-2569. Ekkert af andvirði lánsins hafi runnið til húsbyggingarinnar og gerðarþoli hafi ekki fengið neitt af andvirðinu til sín, enda ekki haft hugmynd um lántökuna þar sem nafnaundirritun hennar á veðskuldabréfið hafi verið fölsuð. Stefán hafi síðan greitt af bréfinu án vitneskju gerðarþola fram til haustsins 2009 er hann hafi hætt að greiða af því og bréfið farið í vanskil.

Gerðarþoli telji nafnritun sína á veðskuldabréfið bæði vera falsaða og ekki bindandi fyrir 50% hlut hennar í eigninni. Nafnritun gerðarþola á veðskuldabréfið hafi ekki verið annars vegar í reit framan á bréfið, í reit á framhlið bréfsins sem „maki skuldara“ og á bakhlið bréfsins sem „samþ. maka þinglýsts eiganda“. Ekki liggi því fyrir samþykki hennar á veðskuldabréfið sem „samþykki þinglýsts eiganda“, sem hefði verið nauðsynlegt til að eignarhlutur gerðarþola (sic.) væri einnig veðsettur, en til þess hafi klárlega þurft samþykki gerðarþola sem þinglýsts 50% eiganda eignarinnar. Sparisjóður Siglufjarðar og síðar gerðarbeiðandi hafi því aðeins notið veðréttar í eignarhlut fyrrverandi eiginmanns varnaraðila. Af því leiði að gerðarþoli sé ekki á nokkurn hátt bundinn við lántöku Stefáns hjá gerðarbeiðanda. Hafi gerðarþoli því hvorki samþykkt neitt lán í fasteigninni hjá gerðarbeiðanda vegna fölsunarinnar né samþykkt veðsetningu á sínum eignarhluta í fasteigninni. Gerðarþoli telji sig því enn vera raunverulegan 50% eiganda að fasteigninni og allt þetta mál sé ólögmætt frá upphafi. Af þeim sökum sé ekki hægt að bera gerðarþola út úr fasteigninni. Verði gerðarbeiðandi að bera hallann af þessum ráðstöfunum.

Í annan stað er byggt á því að gerðarþoli hafi aldrei tekið við neinum tilkynningum um uppboðið eins og skylda sé til samkvæmt 16. gr. og 3. mgr. 35. gr. laga nr. 90/1991 og þar af leiðandi sé uppboðsferlið ekki bindandi fyrir gerðarþola.

Í þriðja lagi liggi ekki fyrir á hvaða lagaheimild, eða annarri heimild, framsal veðskuldarbréfsins frá Sparisjóði Siglufjarðar til gerðarbeiðanda 13. mars 2009 byggist og á hvaða kjörum bréfið hafi verið keypt. Því hafi varnaraðili efasemdir um að gerðarbeiðandi sé réttur aðili að innheimtu bréfsins og máli þessu, sbr. 16. gr. laga um meðferð einkamála o.fl. nr. 91/1991.

Samkvæmt framangreindu beri að hafna því að gerðarþoli verði borinn út úr fasteigninni að Fjallalind 94, Kópavogi.

IV.

Í málinu deila aðilar um heimild gerðarbeiðanda til að fá gerðarþola borinn út úr fasteigninni að Fjallalind 94 í Kópavogi, fastanr. 223-6987. Gerðarbeiðandi byggir kröfu sína á kvaða­lausu uppboðafsali og meginreglum eignaréttar, en gerðarþoli mót­mælir útburðar­kröfunni með vísan til þess að undirritun hennar á veðskuldarbréfið sem legið hafi til grundvallar uppboði á fasteigninni hafi verið fölsuð, gerðarþoli hafi ekki samþykkt veðsetningu eignarinnar sem maki, hún hafi ekki samþykkt veð­setningu á sínum hluta eignarinnar, ranglega hafi verið staðið að uppboði eignarinnar og ekki liggi fyrir á hvaða grundvelli gerðarbeiðandi hafi fengið bréfið framselt.

Gerðarbeiðandi hefur lagt fyrir dóminn fyrrgreint afsal vegna fasteignarinnar, sem þinglýst var á eignina 20. janúar 2012. Samkvæmt afsalinu var fasteignin seld gerðarbeiðanda sem hæst­bjóðanda á nauðungar­uppboði 6. desember 2011, en eignin hafi áður verið í eigu gerðarþola og Stefáns Einarssonar. Þar kemur jafnframt fram að hæstbjóðandi hafi að fullu efnt skyldur samkvæmt boði sínu og uppboðsskilmálum og sé af þeim sökum réttur og löglegur eigandi eignarinnar.

Veðskuldabréf það sem lá til grundvallar uppboði fasteignarinnar hefur ekki verið ógilt með dómi, gerðarþoli hefur ekki leitað úrlausnar héraðs­dómara samkvæmt fyrirmælum XIII. kafla laga um nauðungarsölu nr. 90/1991, um hvort sala á eigninni færi fram og ekki heldur samkvæmt XIV. kafla sömu laga um gildi sölunnar. Af hálfu gerðarþola var því haldið fram við munnlegan flutning málsins að gerðarþola hafi ekki borist tilkynningar sýslumanns vegna nauðungarsölunnar, en samkvæmt því sem fram kemur í gögnum málsins getur hún ekki borið það fyrir sig. Gerðarþoli hefur lagt fram afrit veðskuldabréfsins, en samkvæmt texta bréfsins er Fjallalind 94, Kópavogi, fasteignamatsnúmer 2236987, sett að veði skuld Stefáns Einarssonar við Sparisjóð Siglufjarðar „eða þeim sem síðast eignast skuldabréf þetta á löglegan hátt“. Bréfið ber með sér að vera tvívegis undirritað af gerðarþola. Annars vegar undir yfirskriftinni „Undirskrift maka skuldara“ og hins vegar undir yfirskriftinni „Samþ. maka þinglýsts eiganda“. Við síðartilgreindu undirskriftina er ritaður svofelldur texti: „Ég undirritaður hef kynnt mér efni skuldabréfsins og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín sem veðleyfisgjafa er fólgin og tel hana samræmast greiðslugetu minni. Jafnframt hef ég kynnt mér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni samkomulags um notkun ábyrgða einstaklinga frá 1. nóvember 2001.“ Eins og hér stendur á verður að leggja til grundvallar að með undirritunum sínum á bréfið hafi skuldari hvort tveggja heimilað veðsetningu á Fjallalind 94, Kópavogi, fasteignamatsnúmer 2236987, sem eigandi og sem maki Stefáns Einarssonar. Þá getur dómurinn ekki synjað kröfu gerðarbeiðanda á grundvelli meintrar fölsunar á undirskrift gerðarþola, enda kemur fram í skýrslu um skjalarannsókn, sem Haraldur Árnason vann að beiðni gerðarþola, að gera yrði fyrirvara við þá niðurstöðu hans að um verulegt skriftarlegt misræmi væri að ræða, þar sem hann hafi ekki haft frumgögn undir höndum, og lögregla hætti rannsókn málsins. Jafnframt verður að hafna þeirri málsástæðu gerðarþola að ekki liggi fyrir á hvaða grundvelli gerðarbeiðandi hafi fengið bréfið framselt þar sem skýrlega kemur fram áritun upphaflegs veðhafa um að bréfið hafi verið framselt gerðarbeiðanda. Þá er ekkert fram komið sem rennir stoðum undir það að ranglega hafi verið staðið að nauðungarsölu eignarinnar.

Að öllu þessu virtu og með vísan til fyrirliggjandi afsals, sem sýslumaðurinn í Kópavogi gaf út 20. janúar 2012, þar sem því er lýst yfir að gerðarbeiðandi sé réttur og löglegur eigandi umræddrar eignar, og með vísan til 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 ber að taka til greina kröfu gerðarbeiðanda um aðfarargerð.

Með hliðsjón af greindum málsúrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 á gerðarbeiðandi rétt til málskostnaðar úr hendi gerðarþola, sem þykir hæfi­lega ákveðinn 150.000 krónur.

Ekki eru efni til þess að mæla fyrir um heimild til fjárnáms fyrir kostnaði af væntanlegri gerð vegna ákvæða 2. mgr. 1. gr. laga nr. 90/1989.

                Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ:

Hin umbeðna gerð má fara fram. 

Gerðarþoli, Emma Fanney Baldvinsdóttir, greiði gerðarbeiðanda, Íbúðalánasjóði, 150.000 krónur í málskostnað.