Hæstiréttur íslands

Mál nr. 218/2003


Lykilorð

  • Kröfugerð
  • Frávísun frá héraðsdómi


Fimmtudaginn 5

 

Fimmtudaginn 5. febrúar 2004.

Nr. 218/2003.

Fjárfestingafélagið Þor hf.

(Ásgeir Þór Árnason hrl.)

gegn

Skúla Þorvaldssyni

(Halldór Þ. Birgisson hrl.)

 

Kröfugerð. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Kröfugerð F var ekki tæk til efnisdóms þar sem ekki var fullnægt meginreglu einkamálaréttarfars um ákveðna og ljósa kröfugerð, sbr. d. lið 1. mgr. 80. gr. og 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 4. júní 2003. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í hinum áfrýjaða dómi heldur stefndi því fram að áfrýjandi hafi samþykkt kauptilboð hans í hlutabréf áfrýjanda í félögunum SPC Holdings A/S, að nafnverði 4.082.076 danskar krónur og NDB Investments S.A., að nafnverði 2.250.000 belgískir frankar. Krafðist hann þess fyrir héraðsdómi „viðurkennt verði“ að áfrýjanda sé skylt að gera kaupsamning við stefnda er kveði á um sölu og afsal á framangreindum hlutum gegn greiðslu 680.000 bandaríkjadala, „eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskri mynt á kaupsamningsdegi“ og því að stefndi „létti ábyrgðum af“ áfrýjanda og hluthöfum áfrýjanda „á skuldbindingum sem þeir hafa gengið í vegna reksturs SPC Holdings AS. eða dótturfélaga þess“. Samhliða þessu krafðist hann „að viðurkennt verði komi í ljós að hlutir þeir sem greindir eru að ofan séu bundnir veði eða öðrum kvöðum“ þá verði honum „heimilt samfara gerð kaupsamnings að ráðstafa hluta kaupverðs eða því að öllu leyti til greiðslu slíkra skuldbindinga.“

Við málflutning fyrir Hæstarétti kom fram hjá lögmanni stefnda að með orðunum „á kaupsamningsdegi“ væri átt við þann dag er skriflegur kaupsamningur yrði gerður að fengnum dómi en ekki þann dag er áfrýjandi hafi sent stefnda tölvupóst þar sem hann telur að tilboði stefnda hafi verið tekið og samningur þannig komist á.

Samkvæmt 4. mgr. 114. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála má í dómi hvorki skírskota til sannana né atvika sem kunna síðar að koma fram. Frá þessu er meðal annars sú undantekning gerð að verða megi við kröfu um að gagnaðila verði gert að leysa af hendi skyldu en þá gegn tilteknu gagngjaldi, en til þeirrar undantekningar hefur stefndi skírskotað til stuðnings kröfugerð sinni. Samkvæmt því sem að framan er rakið er í kröfugerð stefnda varðandi gagngjaldið meðal annars vísað til þess að stefndi létti ótilgreindum ábyrgðum af áfrýjanda og af ótilgreindum hluthöfum hans. Þá krefst stefndi viðurkenningar á því að honum verði heimilt að ráðstafa kaupverðinu eða hluta þess til greiðslu á ótilgreindum veðkröfum eða öðrum kvöðum sem á hlutunum kunni að hvíla. Verður þessi kröfugerð hvorki talin fullnægja skilyrðum d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 né 4. mgr. 114. gr. sömu laga. Af framangreindum ástæðum verður ekki hjá því komist að vísa málinu sjálfkrafa frá héraðsdómi.

Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. maí 2003.

Mál þetta sem dómtekið var 19. maí sl. er höfðað með stefnu birtri 4. október sl.

Stefnandi er Skúli Þorvaldsson, Bergstaðastræti 77, Reykjavík.

Stefndi er Fjárfestingarfélagið Þor hf., Ánanaustum 15, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þessar:

Að viðurkennt verði að stefnda sé skylt, gegn greiðslu frá stefnanda að fjárhæð 680.000 Bandaríkjadalir eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskri mynt á kaupsamningsdegi, og því að stefnandi létti ábyrgðum af stefnda og hluthöfum stefnda á skuldbindingum sem þeir hafa gengið í vegna reksturs SPC Holdings AS. eða dótturfélaga þess, að gera kaupsamning við stefnanda, sem kveði á um sölu og afsal á hlutum/hlutafé í danska hlutafélaginu SPC Holdings AS. að nafnverði 4.082.076 danskar krónur sem er 40,82076% af heildarhlutafé í félaginu og um 50% eignarhlut í Luxemborgarfélaginu NDB Investments S.A. að nafnverði 2.250.000 belgískir frankar.

Að viðurkennt verði, komi í ljós að hlutir þeir sem greindir eru að ofan séu bundir veði eða öðrum kvöðum, að stefnanda sé heimilt samfara gerð kaupsamnings að ráðstafa hluta kaupverðs eða því að öllu leyti til greiðslu slíkra skuldbindinga.

Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru, að hið stefnda félag verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað eftir mati dómsins.

MÁLSATVIK

Stefndi og stefnandi hafa um árabil staðið saman að rekstri Dominos pizzustaða á Íslandi. Eignarhald þessa rekstar er með þeim hætti að rekstur staðanna á Íslandi er innan tveggja einkahlutafélaga eða Hráefnavinnslunnar ehf., sem sér um aðföng fyrir Dominos og Pizza Pizza ehf. Allir hlutir í báðum félögunum eru í eigu einkahlutafélagsins Futura ehf. Allir hlutir í Futura ehf. eru síðan í eigu danska hlutafélagsins SPC Holdings A.S., sem stofnað var þann 24. júní 2000 og er til heimilis í Danmörku. SPC Holdings A.S. var jafnframt eigandi allra hluta í danska hlutafélaginu Scandinavian Pizza Company A.S. sem annaðist rekstur Dominos Pizza-staða í Danmörku.

Heildarhlutafé SPC Holdings A.S. er 10.000.000 danskra króna og á stefnandi sem einkaeigandi Holt Holdings S.A. hluti í félaginu að nafnverði 2.494.900 danskar krónur, eða 24,949% eignarhlut og viðbótarhlut sem 2,5% eigandi NDB Investment S.A.

Stefndi á hins vegar hluti samkvæmt sama yfirliti að nafnverði 4.082.076 danskar krónur, eða 40,82076% eignarhlut í félaginu. Að auki á stefndi óbeina eignaraðild að hlutum að nafnverði 459.865 danskra króna í SPC Holdings A.S. eða 4,59865% eignarhlut sem helmingseigandi að félaginu NDB Investment S.A. sem skráð er í Luxembourg en félagið er skráður eigandi hluta að nafnverði 919.731 danskra króna í SPC Holdings A.S. NDB var stofnað þann 21. mars 1996. Aðrir eigendur þess félags eru stefnandi sem á 25% hlut og Birgir Þ. Bieltvedt sem á 25% hlut.

Á árinu 2001 var endanlega komið í ljós að mati stefnanda að forsendur fyrir samstarfi aðila þessa máls um rekstur og eignarhald Dominos væru ekki lengur til staðar. Í framhaldi af því var starfsmanni Kaupþings í Luxembourg falið að bjóða reksturinn til sölu með þeim hætti að seld yrðu bréf í móðurfélaginu eða félaginu SPC Holdings A.S. Leiddi það til tilboðs sem Dominos Pizza Group Ltd. í Englandi gerði í heildarhlutafé félagsins og hljóðaði tilboðið uppá 1.500.000 Bandaríkjadali. Ekki náðist samkomulag um að selja félagið á þessu verði enda lá fyrir að hvorki stefnandi né stefndi voru sáttur við skilmála tilboðsins eða söluverð. Fyrir lá hins vegar að stefndi vildi selja sinn hlut.

Í framhaldi af þessu gerði stefnandi tilboð til stefnda um kaup á hlutum hans í SPC Holdings A.S. og NDB Investments S.A. Tilboðið var unnið af Einari S. Hálfdánarsyni hrl. sem umboðsmanni beggja aðila og kynnt stefnda í lok janúar 2002 en tilboðið var sent þeim á tölvupósti. Fyrir liggur að samkvæmt efni tilboðs þessa er kaupverðið hlutfall af tilboði hinna erlendu aðila að þeim hlutum sem stefndi átti með beinni og óbeinni eignaraðild eða 45,40% af 1.500.000 Bandaríkjadölum eða u.þ.b. 680.000 Bandaríkjadalir. Hinir umsömdu hlutir eru þeir sömu og dómkrafa máls þessa tekur til. Samkvæmt fyrrnefndu tilboði skyldi greiða 85% af kaupverðinu innan þriggja vikna eftir undirritun kaupsamnings og 15% eftir að uppgjör á rekstri félagsins lægi fyrir sem jafnframt var háð leiðréttingu ef breytingar yrðu frá fyrirliggjandi bráðabirgðauppgjöri um rekstur félagsins og dótturfélaga þess.

Fyrir lok tilboðsfrests þann 1. febrúar 2002 fékk stefnandi tölvupóst frá framkvæmdastjóra stefnda, Sigfúsi Bergmann Ingimundarsyni, þar sem segir: “allir stjórnarmenn og fjórir stærstu eigendur Þors hafa samþykkt að gengið verði að tilboði þínu í hlutabréf okkar í SPC A/S og NDB S/A.” Rúmum klukkutíma síðar, eða kl. 14:32, sendi Sigfús stefnanda annan tölvupóst þar sem hann segir: “ég fékk samþykki fyrir sölu til þín í gær og er búinn að segjast vera búinn að staðfesta það við þig. síðan er biggi búinn að tala við Lilju og nú er allt orðið vitlaust aftur. ekki tala við liðið án þess að tala við mig.”

Eftir þetta féllst stefnandi á að rætt yrði frekar við Dominos Pizza Group Ltd. Þann 8. febrúar 2002 afhenti stefnandi forsvarsmanni stefnda bréf þar sem óskað var samþykkis um frestun kaupsamnings þar til uppgjör fyrir rekstur Dominos árið 2001 lægi fyrir. Enn fremur kom fram í bréfinu að stefnandi taldi tilboð sitt hafa verið samþykkt af stjórn og stærstu hluthöfum stefnda. Áritaði framkvæmdastjóri stefnda samþykki sitt á bréfið f.h. stefnda.

Þann 21. febrúar 2002 sendi stefnandi tölvupóst til framkvæmdastjóra stefnda þar sem greint var frá hugmyndum Birgis Bieltvedt um að kaupa hlut stefnda í NDB og SPC. Þann 30. apríl 2002 sendi framkvæmdastjóri stefnda tölvupóst til stefnanda með drögum að kaupsamningi til yfirlestrar. Þann 3. maí 2002 hittust stefnandi og framkvæmdastjóri stefnda en sá fundur leiddi ekki til neinnar niðurstöðu.

Þann 29. maí 2002 sendi stefnandi tölvupóst til forsvarsmanns og tveggja hluthafa stefnda og óskaði eftir að gengið yrði til kaupsamnings þar sem uppgjör lægi fyrir. Þann 4. júní 2002 sendi framkvæmdastjóri stefnda tölvupóst til stefnanda þar sem hann segist gera ráð fyrir 70 milljónum fyrir hlutabréfin í Pizza Holding og NDB og að öllum ábyrgðum yrði aflétt. Þann 6. júní 2002 svaraði stefnandi í tölvupósti þar sem fram kom að stefnandi teldi að verðið ætti að vera 680.000 dalir, þrátt fyrir að hugsanlega gæti komið til lækkunar á því verði ef afkoma yrði verri en gert var ráð fyrir í tilboðinu. Þann 10. júní 2002 sendi framkvæmdastjóri stefnda stefnanda tölvupóst þar sem farið er fram á að greiðslan verði miðuð við gengi bandaríkjadals á þeim tíma þegar greiðsla skyldi fara fram í lok febrúar 2002, en tilboðið hafi sagt að greiðsla ætti að fara fram innan þriggja vikna. Enn fremur kom fram það mat framkvæmdastjóra stefnda að uppgjörið á félaginu hefði verið í samræmi við þær upplýsingar sem lágu fyrir stjórninni á þessum tíma. Þann 19. júní 2002 hreyfði stefndi sjónarmiðum um að kaupverð yrði að hækka vegna gengissigs íslensku krónunnar undanfarandi mánuði. Hafnaði stefnandi því þar sem um slíkt hefði hvorki verið samið né hafi það verið á ábyrgð stefnanda að samningsferlið hafði dregist. Þá lá og fyrir að sjónarmiðin að baki hækkun kaupverðs hafi verið skuldsetning seljanda í erlendri mynt vegna hins selda sem stefnandi taldi hins vegar að hefði þá lækkað á sama hátt vegna gengissigs.

Málsaðilar og/eða umboðsmenn þeirra skiptust á tölvupósti um kaupin þar til náðist samkomulag um texta kaupsamnings, en á sama tíma hafði lögmanni stefnda verið veitt umboð til að ljúka málinu f.h. stefnda sem jafnframt staðfesti í tölvupósti þann 7. ágúst 2002 að samningsdrög væru í lagi. Í sama tölvupósti var hins vegar hreyft við nýjum sjónarmiðum um vaxtagreiðslu frá 1. febrúar 2002 en því hafnað af stefnanda með vísan til þess að ekki skyldi greiða fyrr en að tilteknum tíma liðnum eftir kaupsamning auk þess sem dráttur væri ekki á sína ábyrgð. Hins vegar ítrekaði stefnandi vilja sinn til að ganga til kaupsamnings og bauð fram greiðslu sem hann á endanum lagði inná sérstakan reikning sem hann stofnaði í Búnaðarbanka Íslands.

Þann 26. ágúst 2002 barst lögmanni stefnanda bréf lögmanns stefnda þar sem því var borið við að stefndi væri ekki skyldur að ganga til samnings vegna þess dráttar sem hefði orðið á málinu en jafnframt boðið að kaupa hlutina miðað við gengi bandaríkjadals 1. apríl 2002 auk vaxta eða með greiðslu að fjárhæð 71.369.604 íslenskra króna sem var u.þ.b. 20% hækkun á kaupverði talið í bandaríkjadölum. Þessu var hafnað með bréfi lögmanns stefnda þann 28. ágúst 2002. Lýst var yfir viðtökudrætti af hendi seljanda á greiðslu auk þess sem óskað var frekari viðræðna um málið. Ekki urðu viðræður milli aðila um málið en þann 5. september 2002 barst lögmanni stefnanda tilkynning í bréfi lögmanns stefnda um að litið væri svo á að viðræðum væri slitið og að kaupsamningur hafi ekki komist á.

Enn á ný var sjónarmiðum stefnda mótmælt en jafnframt var í tölvupósti þann 10. september 2002 boðið til sátta uppá tvö afbrigði við samning aðila, annars vegar að kaupverð hækkaði um 20.000 Bandaríkjadali og hins vegar að ágreiningur um vexti og gengi yrði lagður fyrir gerðardóm. Hafi þar komið til að sögn stefnanda að hann taldi málaferli um þá hagsmuni sem hér er um deilt óheppileg og að auki hafi hann viljað ljúka málinu. Um óskuldbindandi hugmyndir hafi verið að ræða sem ekki leiddu til niðurstöðu enda var þeim ekki svarað. Sættir urðu ekki með aðilum og höfðaði stefnandi mál þetta.

 

Í aðilaskýrslu Skúla Þorvaldssonar kom fram að hann hefur komið nærri rekstri Dominos á Íslandi frá byrjun. Hafi hlutur hans og hlutverk verið breytilegt. Í árslok 1998 hafi hann aukið sinn hlut með kaupum á hlutafé af stefnda, Þori hf. Hafi Sigurður Björnsson, þáverandi framkvæmdastjóri, gengið frá kaupunum án nokkurs fyrirvara. Að sögn Skúla var komin þreyta í samstarfið og ágreiningur um ábyrgðir á skuldum rekstraraðila Dominos. Þegar tilboðið frá Bretunum, Dominos Group Ltd., hafi komið hafi honum skilist á framkvæmdastjóra stefnda að tilboðinu yrði tekið. Þegar tilboð Bretanna hafi verið nánar skoðað hafi komið í ljós að það var háð margs konar fyrirvörum sem verið hafi óviðunandi. Hafi stefnanda fundist tilboðið vera óviðunandi, m.a. vegna fyrirvaranna sem hann taldi einungis vera setta til að lækka kaupverðið. Hafi hann sett sig í samband við framkvæmdastjóra stefnda og tjáð honum álit sitt á tilboði Bretanna og sagt honum að hann vildi ganga inní tilboð Bretanna án fyrirvara, að vþí undanskildu að beðið yrði eftir endanlegu uppgjöri félagsins og það yrðu ekki mikil frávik frá væntingum hans. Á þessum forsendum hafi hann beðið Sigfús, framkvæmdastjóra stefnda, að hafa samband við Einar S. Halldórsson, sem hafi verið kunnugur báðum aðilum og einnig endurskoðandi félagsins, til að biðja hann um að semja tilboð. Hann hafi gert það og Skúli sent það til Sigfúsar. Hann hafi verið í útlöndum á þessum tíma og ekki séð tilboðið fyrr en það hafi verið samþykkt. Hann hafi skilið svarpóst Sigfúsar við þessu tilboði sem svo að fjórir stærstu hluthafar Þors og stjórnarmenn hefðu samþykkt tilboðið. Hann hafi setið við tölvu sína og móttekið tölvupóstinn frá Sigfúsi um leið og hann barst. Ástæðan fyrir því að haldið var áfram að ræða við Bretana um tilboðið þeirra hafi verið sú að systurnar Lilja og Ingibjörg Pálmadætur hafi verið eitthvað ósáttar yfir því að Bretunum hafði ekki verið sent gagntilboð eða reynt að pína verðið hærra. Hafi hann ekki haft neinar áhyggjur af þessu en jafnframt tekið það fram við þær að þær væru bundnar af hans tilboði. Það hafði verið búið að samþykkja það og þetta væri gert án allra fyrirvara, þ.e. hann drægi ekkert til baka. Tilboð hans stæði og þær væru bundnar af því. Ekkert hafi hvort eð er komið úr viðræðunum við Bretana. Hann hafi svo útbúið bréf til Þors til að fá þann skilning sinn á hreint að tilboð hans hafi verið samþykkt og að endanlega yrði gengið frá gerð kaupsamnings eftir endanlegt uppgjör félagsins. Þetta bréf var svo samþykkt af Sigfúsi, framkvæmdastjóra stefnda. Árið 1998 hafi hann keypt hlutabréf í The Scandinavian Pizza Compnay A/S af stefnda og þá hafi þáverandi framkvæmdastjóri stefnda, Sigurður Björnsson, undirritað kaupsamninginn f.h. félagsins. Gerð kaupsamningsins í þessu tilviki hafi gengið brösuglega. Uppgjör félagsins hafi tafist, m.a. vegna tafa hjá endurskoðendum félagsins og að eftir átti að gera upp skuldir félagsins við ýmsa aðila. Taldi hann Jón Pálmason, hluthafa, hafa komið með tillöguna um að fresta uppgjörinu á stjórnarfundi 15. mars 2002, og það hafi verið samþykkt. Tilboð hans hafi hljóðað uppá 680.000 dali og hvergi hafi verið talað um gengi. Tilboðið hafi verið í erlendri mynt því tilboð Bretanna hefði verið í erlendri mynt og hans tilboð verið hlutfall af þeirra tilboði. Gengisáhættan hafi legið báðum megin og aldrei hafi komið fram hugmyndir til hans um að miða við ákveðið gengi íslensku krónunnar. Skuldir stefnda hafi einnig verið í erlendri mynt svo að gengismismunurinn hafi fallið um sjálfan sig. Telji hann að Sigfús, framkvæmdastjóri stefnda, hafi fallist á sjónarmið hans í bréfi hans 19. júní 2002. Við lokasprettinn, þegar aðiljar voru orðnir sáttir við samningsdrög, hafi komið fram krafa um vaxtagreiðslur. Honum hafi fundist þessi krafa óljós og ekki séð rökin fyrir henni né hafi nein tala verið nefnd við hann. Hann hafi lagt tilboðsfjárhæðina inná reikning í Búnaðarbankanum því hann hafi vitað til þess að þar væru bréfin veðsett. Hann hafi ekki talið sig geta afhent greiðsluna án þess að fá neitt í staðinn. Áður en komið hafi til þessa hafi hann boðist til að geyma greiðsluna hjá óháðum þriðja aðila, en því hafi verið hafnað. Í drögum eins kaupsamningsins hafi nafn kaupanda verið Holt Holdings, en það hafi ekki verið skilyrði af hans hálfu að Holt Holdings væri kaupandinn. Aðspurður greindi hann frá fundum sem hann, Sigfús B. Ingimundarson og Ragnar Tómasson áttu þann 14. maí og einnig skömmu eftir með hugsanlegum kaupanda. Sagðist Ragnar Tómasson á fyrsta fundinum hafa kaupanda að öllum hlutunum eftir að hafa verið beðinn um að finna kaupendur af stefnda. Þau kaup gengu ekki eftir auk þess sem verðhugmynd kaupendanna hefðu ekki verið í samræmi við það sem Ragnar Tómasson hafði sagt. Í kjölfarið hafi hann spurt Ragnar fyrir fyrsta fundinn hvað honum hefði gengið til með að hringja í Jón Pálmason því hann hafi gert ráð fyrir að Ragnar vissi að hann ætti fyrirtækið en ekki Jón Pálmason. Ragnar hafi ekki vitað af því og hann ekki sagt honum að hann ætti fyrirtækið núna.

Í vætti Helga Jóhannessonar hrl. kom fram að hann hafi verið í stjórn á þessum tíma. Hafi hann setið í stjórninni fyrir hönd systranna Lilju og Ingibjargar Pálmadætra. Hafi það komið til umræðu að selja Dominos-bréfin. Í byrjun árs 2002 hafi komið formlegt tilboð frá breskum aðilum. Ljóst hafi verið snemma að þetta gekk ekki saman með Bretunum af ýmsum ástæðum og að Skúli hefði áhuga á að ganga inní kaupin, allaveganna hvað varðaði fjárhæðina. Hafi hann haldið fund með Sigfúsi og Ingibjörgu, og e.t.v. Lilju líka, og rætt um tilboð stefnanda. Hafi hann ekki viljað samþykkja tilboðið formlega nema hafa hlerað fyrst hug umbjóðenda sinna til tilboðsins og hafi þær verið sáttar við verðið. Sigfús hafi verið aðalmaðurinn í þessu sem framkvæmdastjóri félagsins og haldið almennt utanum allt saman. Hafi niðurstaðan af fundinum verið sú að ef um semdist væru systurnar sáttar við þetta verð og þennan kaupanda. Ekki hafi hann þó veitt Sigfúsi formlegt umboð til að taka tilboði Skúla í bréfin heldur reiknað með að Sigfús færi í það að vinna í þessu. Enginn formlegur stjórnarfundur hafi verið haldinn í málinu en hann hefði greitt atkvæði með þessu ef til þess hefði komið. Hafi hann enga hugmynd hvort komist hafði á samningur við Skúla; hann hafi ekki komið að samningagerðinni en hafi þó spurst fyrir um hvort ekki yrði gengið frá þessu formlega. Það hafi þó ekki verið meginregla að engin samingar væru gerðir nema það væri bókað fyrst á stjórnarfundi félagið hafi ekki verið í svo miklum rekstri. Stjórnarstarfið hafi aðallega verið fólgið í því að slökkva elda eftir því sem þeir kviknuðu.

Í vætti Lilju Sigurlínu Pálmadóttur hluthafa kom fram að hún hefði setið fund með Sigfúsi þar sem hann hefði mælt með að Skúli fengi að ganga inní tilboð Bretanna. Tilboð Bretanna hafi verið annmörkum og miklum skilyrðum háð. Hafi hún ekki verið inní samningaviðræðunum við Skúla en fundist Skúli vera vel að því kominn af fá að kaupa þetta hann hefði starfað lengi í fyrirtækinu. Hafi hún gefið Helga Jóhannessyni stjórnarmanni og Sigfúsi Ingimundarsyni heimild til að taka tilboði Skúla. Það hafi verið hennar skilningur að það hafi verið kominn á kaupsamningur nálægt vori, í apríl. Síðasta sumar hafi þó komið upp vandamál og hún heyrt þras að einhverjir vilji ekki samþykkja kaupverðið útaf gengismun og eitthvað í þeim dúr. Hennar skilningur hafi verið sá að þessu yrði lokið með kaupum Skúla á hluta Þors.

Í vætti Ingibjargar Pálmadóttur hluthafa kom fram að á árinu 2001 voru sölutilraunir í gangi. Hafi hún verið á fundi, sem ekki var stjórnarfundur, með Helga, Sigfúsi og Lilju þar sem tilboð Bretanna var kynnt sem ekki hafi verið ánægja með. Var henni kynnt tilboð Skúla uppá 680.000 dali munnlega sem hafi verið svipað og tilboð Bretanna án þessara skilmála sem ekki höfðu verið góðir. Hafi þetta verð verið samþykkt en það hafi svo sem ekki verið neitt tilboð á borðinu. Höfðu Helgi og Sigfús umboð til að ljúki þessu máli gagnvart Skúla.

Í vætti Þórarins Hjartar Ævarssonar, framkvæmdastjóra Pizza Pizza o.fl., kom fram að uppgjör félagsins hefði dregist útaf skipulagsleysi hjá endurskoðanda fyrirtækisins svo og hefði stjórnin beðið um seinkun, m.a. vegna uppgjöra á inneignum fyrirtækisins hjá ýmsum aðilum. Aðspurður sagði hann Skúla ekki hafa tilkynnt sér að hann hefði keypt allt félagið í byrjun árs 2002, en hann hafði heldur sagt að það stefndi í að hann ætlaði að kaupa félagið eða væri að vinna í því. Myndi hann ekki til þess að stefnandi hefði einhverntíma upplýst hann að hann væri búinn að kaupa félagið eða að hann hefði nokkurn tíma sagt að honum hefði ekki tekist að kaupa félagið.

Í vætti Birgis Þórs Bieltvedt kom fram að tekin hefði verið ákvörðun um að selja reksturinn. Hefði hann nálgast Dominos UK sem svo hafi gert tilboð í félagið. Að sögn Birgis voru menn ýmist sáttir eða ósáttir við að selja Bretunum félagið, og þá helst vegna persónulega ábyrgða eða að menn töldu félagið eiga eitthvað inni. Taldi Birgir þó menn vilja selja m.a. vegna þreytu sem upp var komin. Komst Birgir af því fyrir tilviljun að tilboði Bretanna hefði ekki verið tekið heldur hefði stefnandi komið inn með tilboð á síðustu stundu og það hefði verið tekin ákvörðun um að selja honum hlut Þors. Hafi hann verið í sambandi við Skúla um þá hugmynd að hann keypti hluta í SPC A/S og hafi Skúli þá sagt honum að hann væri búinn að kaupa móðurfélagið.

Í vætti Einars S. Hálfdánarsonar hrl. og löggilts endurskoðanda kom fram að hann hefði samið tilboðsskjal fyrir Sigfús Ingimundarson. Hann hafi verið endurskoðandi Dominos á þessum tíma og í því sambandi taldi hann að leitað hefði verið til hans til að útbúa þetta tilboðsskjal. Taldi hann þetta vera innlegg í samninga sem voru í gangi við erlenda aðila sem voru að falast eftir því að kaupa Dominos. Sigfús hafi sagt honum hvaða verð ætti að vera inní tilboðinu en ekki hafi verið rætt um eitthvað ákveðið viðmiðunargengi á Bandaríkjadal gagnvart íslensku krónunni né hafi neinir vextir verið inni í tilboðinu. Hafi honum ekki verið tilkynnt niðurstaða tilboðsins né að Skúli hefði fest kaup á þessum hlut. Uppgjör félagsins hafði dregist, en Skúli hafi sagt honum að ekki lægi á að gera upp. Drátturinn hafi verið frá félagsins hálfu svo og vegna óuppgerða skulda og annarra ófrágengna atriða í bókhaldinu.

Í aðilaskýrslu Sigfúsar Bergmanns Ingimundarsonar kom fram að fljótlega hafi verið ljóst í samstarfi eigenda félagsins að þeir höfðu töluvert ólíkar hugmyndir hvernig ætti að gera hlutina. Frá 1999 hafi ekki verið tekin ákvörðun án þess að allir stjórnarmenn og eftir atvikum eigendur væru sammála. Hann hafi ekki talið sig vera í stöðu til að knýja fram ákvarðanir með hlutavaldi. Það þurfi tvo stjórnarmenn til að rita félagið. Tilboð hafi komið frá Bretunum en það hafi verið afar erfitt að ganga að því því það hafi verið svo mikið af fyrirvörum í því. Það hafi komið fram beiðni um að gera gagntilboð og það gert, en ekkert hafðist uppúr því nema annað gagntilboð sem var með frekari fyrirvörum en hið fyrra. Þá voru þeir Skúli í sambandi og úr varð að Einar Hálfdánarson útbjó tilboð og sagði hann honum grunnþætti þess, þ.á.m. verðið. Hafi hann sagt Skúla að það yrði erfitt fyrir hann nema mæla með því að gengið yrði að þessu tilboði. Hann hafi haft samband við stjórnarmennina og hluthafa og þeir lýst því yfir að þeir vildu ganga að tilboðinu og hann hafi sent stefnanda tölvupóst þess efnis, en að sjálfsögðu hafi ekki verið búið að ganga að tilboðinu. Hafi hann hér átti við stjórnarmennina Jón Pálmason, Helga Jóhannesson og sjálfan sig, en hluthafarnir voru systkinin fjögur sem áttu hlut í félaginu. Taldi hann standa til að ganga til viðræðna um kaupsamning, en ekki að gengið hefði verið að tilboðinu, til þess hefði hann ekki heimild. Það hafi verið stjórnarinnar að ganga frá málinu endanlega, og það hafi komið fyrir að stjórnir hafi skipt um skoðun í gegnum tíðina og mál ekki náð fram að ganga. Bréfið sem hann hafi undirritað sem dagsett sé 1. apríl 2002 hafi hann undirritað til að loka ekki á þann glugga að setjast niður og semja við stefnanda. Taldi hann sig ekki vera að undirrita bindandi kaupsamning, enda taldi hann sig ekki hafa heimild til að ganga frá sölu. Mundi hann ekki hvort hann hefði kynnt innihald bréfins til stjórnarmanna. Ekki hafi komið til álita að segja stefnanda að “fyrirgefðu, við erum ekki búnir að semja í þessu máli”. Í kjölfarið hafi hann fengið tilboðið frá Birgi Bieltvedt sem ákveðið hefði verið að hafna. Á fundi hans og stefnanda 3. maí hafi niðurstaðan verið sú að finna þriðja aðila til að selja félagið til. Í kjölfarið hafi hann sett sig í samband við Ragnar Tómasson og stefnanda til að finna kaupanda. Hafi hann setið fund með Ragnari, stefnanda og væntanlegum kaupanda. Hafi ekki komið fram á þeim fundi að stefnandi væri eigandi meirihluta í félaginu. Aðspurður um tölvupóst dags. 26. júní 2002 þar sem óskað sé eftir að samningur á milli Þors og stefnanda sé uppfylltur með greiðslu inná reiking Þors svaraði hann að hann hefði orðið hræddur um að stefnandi hefði hætt við og vildi því fá svör og knýja botn í málið. Bréfið hafi hljómað óheppilega en hann hefði þurft að fá skýr svör hvort stefnandi hygðist gera þessa samninga eða ekki. Reikningsnúmerið sem hann hafi gefið upp sé gjaldeyrisreikningur og hafi verið gert ráð fyrir að greiddir yrðu inn amerískir dollarar. Krafan hljóðaði uppá 680.000 Bandaríkjadali. Aðspurður sagði hann stjórnina ekki hafa tekið formlega afstöðu, hvorki til tilboðs stefnanda né Bretanna. Þó höfðu verið formlegir stjórnarfundir á þessum tíma.

Í vætti Jóns Pálmasonar kom fram að hann hefði veitt Sigfúsi Ingimundarsyni framkvæmdastjóra heimild til að selja hlut sinn og bróður síns Sigurðar í SPC Holding og NDB Investments til stefnanda. Sigfús hafi þó þurft að bera kaupsamninginn undir þá til endanlegrar afgreiðslu. Hafði hann komið nokkuð nærri því að finna kaupendur en ekki mætt á neina fundi þess efnis. Þegar tilboð stefnanda kom inn hafi hann samþykkt þá upphæð en þó með þeim fyrirvara að hann yrði ekki skilinn eftir með þann eignarhluta sem hann ætti inni, og var það það eina sem hann lagði áherslu á. Sagði hann svona ákvarðanir aldrei teknar nema í gegnum stjórnina, hafi Sigfús ekki haft heimild stjórnarinnar til þess að ganga frá samningum. Hafi hann ekki talið stefnanda hafa litið svo á að hann hefði keypt hlutinn. Segir hann það hafa verið hugmynd Sigfúsar að fela Ásgeiri Þóri Árnasyni að ganga frá málinu. Ákvöðrun hafi ekki verið tekin í stjórn félagsins. Um sumarið hafi svo verið byrjað að tala um að verðið þyrfti að hækka vegna gengissigs, og svo seinna hafi hann orðið ósáttur að ekki yrðu greiddir vextir af upphæðinni. Hann hafi alltaf litið svo á að íslenska upphæðin yrði til viðmiðunar. Aðspurður um bréfið dags. 29. júlí frá Sigfúsi til stefnanda, sem barst honum, teldi hann hótun Sigfúsar að lýsa yfir riftun vera hótun um að rifta samningaviðræðum.

MÁLSÁSTÆÐUR STEFNANDA

Stefnandi byggir á því, að þann 1. febrúar 2002 hafi stefndi tekið tilboði í þá eignarhluti í SPC Holdings A.S. og NDB INVESTMENTS S.A. sem um sé deilt í máli þessu. Með þessu hafi komist á samningur milli aðila málsins um kaup sem stefndi neiti með ólögmætum hætti að standa við.

Stefnandi kveður efni samningsins liggja nákvæmlega fyrir, þar með talið að kaupverð hafi verið ákveðið í erlendri mynt án þess að fjallað væri um gengisbreytingar og/eða áhættu af þeim. Tilboðið hafi verið unnið af Einari S. Hálfdánarsyni sem umboðsmanni beggja aðila og hafi kveðið á um tiltekna greiðsluskilmála eða að kaupverð skyldi greiða þremur vikum eftir undirritun kaupsamnings og samfara því að niðurstöður um rekstrarafkomu lægi fyrir. Stefnandi kveður samþykki tilboðsins og gildi þess hafa verið ítrekað í fjölda tilvika þannig að ekki geti verið ágreiningur um að samningur hafi komist á né um efni hans.

Stefnandi kveður þannig að ljóst sé að við samþykki tilboðs hafi kaupsamningur komist á með aðilum þessa máls en gerð kaupsamnings hafi hins vegar dregist vegna samkomulags aðila. Fyrir liggi að aðilar hafi verið sammála um að bíða eftir uppgjöri um endanlega rekstrarniðurstöðu. Stefnandi kveður það hafa hins vegar dregist að þær upplýsingar lægju fyrir vegna ákvörðunar Jóns Pálmasonar stjórnarmanns stefnda um að fresta vinnu við þau uppgjör á meðan SPC Holdings A.S. ynni að sölu rekstri síns í Danmörku.

Stefnandi kveður að í gögnum málsins liggi að auki fyrir að stefnandi hafi óskað eftir þegar uppgjör lá fyrir að kaupsamningi yrði lokið í byrjun júní og að aðilar ynnu saman að frágangi málsins á þeim tíma og fram í júlí. Aldrei hafi verið hreyft neinum sjónarmiðum um að stefndi teldi sig lausan frá tilboði sem stefndi hafði samþykkt. Ljóst sé að ekki sé um byrjendur að ræða í viðskiptum þar sem um fagfjárfesta sé að ræða. Túlka verði ágreining aðila og skera úr honum í þessu ljósi.

Stefnandi kveður það liggja fyrir að eftir miðjan júní 2002 hafi fyrst verið hreyft sjónarmiðum af hálfu stefnda um hækkun kaupverðs vegna lækkandi gengis íslensku krónunnar. Stefnandi hafi strax hafnað því með þeim rökum að gengisáhættan hefði verið beggja aðila og kveður stefndi það hafa verið viðurkennt sem rétt og satt af framkvæmdastjóra stefnda í tölvupósti hans til stefnanda frá 19. júní 2002. Þar sé þess hins vegar óskað að stefnandi skoði hug sinn um hækkun kaupverðs, sem hann hafnaði. Áfram hafi verið unnið að kaupsamningi eins og gögn málsins beri með sér í júní og fram í júlí og sjónarmiðum um gengismun ekki hreyft frekar af hálfu stefnda. Stefnandi kveður framkvæmdastjóri stefnda hafa farið frá málinu og hafi lögmanni stefnda Ásgeiri Þ. Árnasyni hrl. verið falið að ljúka því.

Þann 7. ágúst 2002  hafi Ásgeir staðfest að samningar væru komnir í viðunandi ásættanlegt horf sem og samningar um kaup á prívat hlut tveggja hluthafa stefnda á sama verði hlutfallslega. Stefnandi kveður að fyrir liggi að óskað hafi verið eftir að stefnandi keypti prívat hlutina sem hann ætlaði að gera og sé ennþá reiðubúinn til að gera hvenær sem óskað sé eftir samfara kaupum á hlutum af stefnda. Hins vegar hafi það gerst þann 7. ágúst 2002 að stefnandi hefur uppi kröfur um viðbótargreiðslu vegna gengismunar og vaxta vegna dráttar á samningi frá tilboðsdegi. Ekki hafi náðst á hreint hvaða kröfu hafi nákvæmlega verið að gera en til staðfestingar þess að samningur hafi verið kominn á lagði stefnandi kaupverð inn á biðreikning í Búnaðarbanka Íslands hf. Stefnandi kveður endanlegu kröfu stefnda um viðbótargreiðslu hafa legið fyrir þann 26. ágúst 2002 og hafi stefnandi hafnað henni formlega þann 28. ágúst 2002, en þá hafi verið lýst yfir af hálfu stefnanda að um viðtökudrátt á kaupverði væri að ræða af hálfu stefnda. Fyrir liggi síðan tilkynnig þann 5. september 2002 frá lögmanni stefnda um að ekki verði gengið til kaupsamnings og af því leiðir að úr ágreiningi aðila um gildi kaupsamnings verði ekki leyst nema í dómsmáli.

Stefnandi telur augljóst að viðbótarkröfur um greiðslu umfram 680.000 dali eða jafnvirði þess í íslenskri mynt séu ólögmætar og fái ekki staðist. Stefnandi kveður efni samningsins hafa legið fyrir og greiðslu hafi verið boðna fram. Allur dráttur á því að stefndi móttaki kaupverð sé á ábyrgð stefnda enda hafi kaupverðið verið til reiðu um leið og kaupsamningur yrði gerður auk þess sem stefnandi telji eðlilegt að vextir sem þá hafi fallið á reikning þann sem stofnaður hafi verið í Búnaðarbanka Íslands hf. falli til stefnda. Ljóst sé að samningi hafi ekki verið rift heldur sé neitað að ganga til formlegs kaupsamnings og afsals á hlutum eftir að aðilar hafi orðið sammála um efni kaupsamnings. Aldrei hafi verið settur eindagi á greiðslu samkvæmt samningi eða greiðslu krafist að viðlagðri riftun. Stefnandi bendir á að um viðskipti milli fagaðila sé um að ræða sem ekki geta hafið vaðið í villu um réttarstöðu sína í málinu.

Stefnandi hefur uppi kröfu um viðurkenningu á því að stefnda sé skylt að gera við sig kaupsamning. Þar sé gengið út frá því að báðir aðilar efni skyldur sínar og að verja megi hluta kaupverðs eða því öllu til að fullnusta kvaðir á hinu selda. Stefnandi telur kröfugerð þessa rúmast innan marka einkamálalaga um viðurkenningarkröfur og meðferð þeirra fyrir dómi. Ljóst sé að kaupsamningur verði ekki gerður nema um það sé mælt fyrir í dómi og því þurfi dóm til að stefnandi nái hagsmunum sínum fram.

MÁLSÁSTÆÐUR STEFNDA

Stefndi byggir kröfu sína um sýknu af öllum kröfum stefnanda fyrst og fremst á því að enginn skuldbindandi kaupsamningur hafi komist á um sölu stefnda á hlutum í SPC Holdings A/S eða NDB Investments S.A. til stefnanda, hvorki hinn 1. febrúar 2002 né síðar.

Stefndi kveður stefnanda hafa sent óundirritað erindi í lok janúar 2002, sem hann hafi kallað tilboð, þar sem stefnandi lýsir yfir áhuga á að kaupa nánar tilgreint hlutafé af stefnda. Framkvæmdastjóri stefnda, Sigfús Ingimundarson, hafi ekki kallað saman stjórnarfund í hinu stefnda félagi af þessu tilefni, heldur svarað erindi stefnanda með jákvæðum hætti eftir að hafa ráðfært sig við stjórnarmenn. Stefndi kveður að ljóst sé að málsaðilar hafi gengið út frá því að þá fyrst yrðu kaup með þeim bindandi þegar undirritaður hefði verið sérstakur kaupsamningur um þá hluti sem nú sé deilt um af hálfu stefnanda og a.m.k. tveggja stjórnarmanna í hinu stefnda félagi, í samræmi við ákvæði hlutafélagalaga og samþykktir félagsins. Sá skilningur sé hins vegar greinilega dreginn í efa af hálfu stefnanda með málsókn þessari. Byggir stefnandi málsvörn sína aðallega á því að samkvæmt grein 4.1. í samþykktum hins stefnda félags skulu undirskriftir tveggja stjórnarmanna skuldbinda félagið. Þess sé enn fremur getið í opinberri útskrift úr hlutafélagaskrá að tveir stjórnarmenn riti firmað saman. Stefndi kveður því stefnanda, sem sjálfur haldi því fram í stefnu að hann sé ekki byrjandi í viðskiptum, ekki geta gengið þess dulinn, að stjórn hins stefnda félags þyrfti að koma að málinu með ótvíræðum hætti til þess að félagið teldist hafa undirgengist kaupsamning við hann með skuldbindandi hætti.

Stefndi kveður hina fyrirhöguðu sölu hins stefnda félags á hlutabréfum að verðmæti 70.000.000 króna augljóslega óvenjulega og mikils háttar og því hafi það verið nauðsynlegt að stjórn félagsins tæki slíka ákvörðun til þess að hún teldist vera bindandi fyrir félagið, sbr. 2. mgr. 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995. Ákvörðunin sé sérstaklega óvenjuleg og mikilsháttar þegar virtur sé tilgangur félagsins en skv. grein 1.3. samþykkta þess sé tilgangur þess fjárfesting í hlutabréfum og verðbréfum en ekki sala þeirra. Stefndi kveður framkvæmdastjóra hins stefnda félags fara með daglegan rekstur þess en hann sé ekki einn bær um að samþykkja sölu verulegra eigna nema hann hafi til þess sérstaka heimild félagsstjórnar. Um það atriði vísar stefndi til 2. mgr. 68. gr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og 2. mgr. greinar 4.3. í samþykktunum.

Í máli þessu liggi hvorki fyrir að félagsstjórn hins stefnda félags hafi veitt framkvæmdastjóra félagsins sérstaka heimild til að skuldbinda félagið, né að tveir stjórnarmenn hafi gert það með undirritun sinni. Ekki sé heldur að finna í fundargerðarbók félagsins bókaðar ákvarðanir stjórnar af þessu tilefni. Augljóslega liggi því ekki fyrir skuldbindandi samþykkt stjórnar hins stefnda félags fyrir því að selja stefnanda hluti þá sem málsókn þessi snýst um og beri því þegar af þeirri ástæðu að sýkna hið stefnda félag.

Stefndi kveður framkvæmdastjóra hins stefnda félags hvorki hafa haft heimild til að skuldbinda félagið til sölu á hlutabréfum þeim sem mál þetta snúist um hinn 1. febrúar 2002 né síðar. Aðkoma hans að málinu hafi því ávallt verið háð þeim fyrirvara að endanlegur kaupsamningur yrði samþykktur af stjórn félagsins, þó hann hafi ekki sérstaklega getið þess í skriflegum samskiptum sínum við stefnanda. Stefndi telur að stefnanda hafi ávallt verið þetta ljóst. Stefndi vísar til gagnályktunar frá 10. gr. laga nr. 7/1936 um samningagerð, umboð og ógilda löggerninga þeirri málsástæðu til fyllingar.

 Stefndi kveður að líta beri svo á að meint samþykki stefnda í tölvupósti framkvæmdastjórans hinn 1. febrúar hafi strax verið afturkallað með tölvupósti hans rúmum klukkutíma síðar. Stefndi telur að sú afturköllun hafi komist til vitundar stefnanda samtímis meintu samþykki, sbr. 7. gr. laga nr. 7/1936 um samningagerð, umboð og ógilda löggerninga. Loks telur stefndi að háttsemi stefnanda eftir l. febrúar hafi verið með þeim hætti, að hann hafi jafnframt sjálfur litið svo á, að ekki hefði komist á skuldbindandi samingur um kaup milli málsaðila um greinda hluti.

Verði litið svo á að kaupsamningur hafi komist á með málsaðilum byggir stefndi sýknukröfu sína á því að ekki hafi verið samið um endurgjald að fjárhæð 680.000 dalir heldur að endurgjaldið hafi átt að vera jafnvirði þeirrar fjárhæðar í íslenskum krónum miðað við 1. febrúar 2002, eða síðara tímamark, en með því að engin varakrafa sé gerð í stefnu er lúti að kaupverði í íslenskum krónum sé óhjákvæmilegt að sýkna stefnda af viðurkenningarkröfum stefnanda.

Stefndi byggir á því að ef litið verði svo á að bindandi kaupsamningur hafi komist á með aðilum með einhvers konar samþykki stefnda hinn 1. febrúar eða síðar, þá hafi sá samningur fallið niður þegar viðræður framkvæmdastjóra stefnda og stefnanda sigldu í strand á fundi þeirra 3. maí 2002.

Þá sé það ljóst að eftir það tímamark hafi stefnandi komið fram með ýmis ný skilyrði fyrir væntanlegum kaupum á hinum umdeildu hlutum, m.a. að kaupandinn yrði Holt Holdings a.s. en ekki stefnandi sjálfur. Þá hafnaði stefnandi því skilyrði stefnda að hann myndi jafnframt kaupa alla hluti Jóns og Sigurðar Pálmasona í hlutafélögunum. Ekkert hinna nýju skilyrða hafi verið samþykkt af stefnda. Líta beri á ný skilyrði af hálfu stefnanda sem ný tilboð, sbr. grunnreglu 1. mgr. 6. gr. laga nr. 7/1936 um samningagerð, umboð og ógilda löggerninga og því hafi ekki komist á bindandi kaupsamningur með málsaðilum.

Stefndi byggir enn fremur á því að ef litið verði svo á að einhverntíma eftir 1. febrúar 2002, hafi að nýju komist á bindandi kaupsamningur með aðilum, þá hafi stefnandi glatað öllum rétti til að halda kaupum uppá stefnda með því að greiða ekkí kaupverðið og tefja frágang málsins með óviðunandi hætti. Því hafi stefnda verið rétt að tilkynna stefnanda sérstaklega hinn 5. september 2002 að hann liti svo á að viðræðum aðila um hugsanleg kaup stefnanda á greindum hlutum væri slitið í þetta sinnið.

Byggir stefndi enn fremur á því að í tilkynningu hans hinn 5. september 2002 hafi falist réttmæt riftunaryfirlýsing ef dómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að fyrir þann tíma hafi komist á bindandi kaupsamningur með aðilum.

Enn fremur byggir stendi á því að stefndi hafi, með hliðsjón af 2. mgr. 54. gr. laga um lausafjárkaup, sett stefnanda sanngjarnan viðbótarfrest til að ganga frá kaupsamningi og greiða kaupverðið með bréfi, dags. 26. ágúst 2002, án þess að stefnandi hafi gengið til frágangs málsins. Þá hafi stefnandi hafnað sanngjarnri kröfu stefnda til vaxta af kaupverðinu og ekki samþykkt kröfu stefnda um að miða kaupverðið við gengi hinn 1. apríl 2002. Af þessum sökum hafi stefnda verið rétt að slíta viðræðum málsaðila.

 Hvernig sem á málið sé litið byggir stefndi enn fremur á því að stefnandi hafi glatað hugsanlegum rétti sínum til kaupanna með því að hafa tafið framgang málsins og hafa ekki boðið greiðslu í tíma. Á það sé sérstaklega bent að stefnandi hafi lagt 680.000 dali inn á sérstakan reikning í eigin nafni hinn 15. ágúst 2002 en þá hafi verið liðnir fimm og hálfur mánuður frá því hann hafi lýst áhuga sínum á að eiga kaup við stefnda. Stefndi kveður greiðslu stefnanda á fjármunum inná reikning í eigin nafni hinn 15. ágúst heldur ekki geta haft þýðingu við úrlausn málsins enda gætti stefnandi ekki ákvæða laga nr. 9/1978 um geymslufé í því sambandi. Þeir fjármunir standi því stefnda ekki til reiðu þó dómur samþykki viðurkenningarkröfur stefnanda í máli þessu. Kaupverð sem kunni að hafa verið ákveðið 1. febrúar hafi því enn ekki verið innt af hendi.

Loks telur stefndi að hafna beri öllum kröfum stefnanda þegar kröfugerð hans sé virt. Stefndi kveður þann galla vera á kröfugerðinni að ekki sé tilgreint hvenær kaupsamning eigi að gera með aðilum nái viðurkenningarkröfurnar fram að ganga, og ekki sé heldur kveðið á um skyldu stefnanda til vaxtagreiðslna af kaupverðinu. Vísar stefndi til 71. gr. laga um lausafjárkaup nr. 50/2000 í þessu sambandi. Verði kröfur stefnanda teknar til greina getur stefnandi sjálfur ákveðið hvenær hann geri kröfu til þess að stefndi gangi til kaupsamningsgerðar og eftir atvikum haldið stefnda áfram í óvissu um frágang málsins.

NIÐURSTAÐA

Fram kemur í málinu að stefnandi og framkvæmdastjóri stefnda höfðu samráð um efni tilboðs, sem stefnandi sendi framkvæmdastjóra stefnda með tölvupósti í lok janúar 2002.  Tilboðið var unnið af Einari S. Hálfdánarsyni hrl., endurskoðanda stefnda, að frumkvæði málsaðila og var efni þess í samræmi við hugmyndir stefnanda og framkvæmdastjóra stefnda. Efni tilboðsins er skýrt og einfalt, og ber með sér að um er að ræða bindandi tilboð þótt orðalagið “lýsir yfir áhuga að kaupa” hafi verið notað. Ekki kom fram þá, né síðar, fyrirvari um að stjórnin þyrfti að staðfesta samninginn á formlegum stjórnarfundi til þess að hann teldist bindandi fyrir stefnda. Þvert á móti benda viðbrögð stjórnarmanna og stærstu hluthafa stefnda til þess að bindandi samningur hafi komist á með samþykki þessa tilboðs. Mátti stefnandi því ætla að á hefði komist bindandi samningur milli hans og stefnda.

Stefndi heldur því fram að samþykki framkvæmdastjóra nægi ekki til að binda félagið, samþykki stjórnar þurfi þegar um sé að ræða samning sem þennan, sbr. 2. mgr. hlutafélagalaga nr. 2/1995 og 2. mgr. greinar 4.3. í samþykktum hins stefnda félags. Það liggur fyrir í málinu að allir stjórnarmenn hins stefnda félags fylgdust náið með samskiptum stefnanda og framkvæmdastjóra stefnda og gátu annað hvort mótmælt skilningi stefnanda um að á hefði komist bindandi og gildur samningur eða hafnað að gera kaupsamning á formlegum stjórnarfundi, sem fyrir dómi kom fram að voru haldnir á þessu tímabili. Framkvæmdastjóri stefnda hafði því fulla heimild til að skuldbinda félagið með þessum hætti. Enn fremur ber að líta til þess að staðið hafði verið að sams konar samningi milli málsaðila í árslok 1998 þar sem framkvæmdastjóri hins stefnda félags undirritar kaupsamning f.h. hins stefnda félags án þess að staðfesting stjórnar hafi komið til. Mátti stefnandi því gera ráð fyrir að samþykki framkvæmdastjóra sem greinir í tölvubréfi 1. febrúar 2002 hafi verið gefið með vitund og samþykki stjórnar hins stefnda félags, og hafi bundið félagið.

Stefndi heldur því fram í málinu að samþykkið sem gefið var hafi verið afturkallað og sú afturköllun komist til vitundar stefnanda samtímis samþykkinu. Orðalag síðari tölvubréfs framkvæmdastjóra stefnda frá 1. febrúar 2002 bendir ekki ótvírætt til þess að um afturköllun sé um að ræða. Bendir skeytið til þess að hluthafar og stjórnarmenn hafi orðið ósáttir við það að kominn var á bindandi samningur við stefnda, en hvergi kemur fram að samþykkið hafi verið afturkallað. Í framhaldinu lognaðist óánægjan út og stefnandi fór að vinna að gerð kaupsamnings eins og ekkert hefði í skorist. Það var ekki fyrr en 5. september sem lögmaður stefnda greindi frá því að viðræðum milli aðila væri lokið. Engan veginn verður litið á það sem afturköllun tilboðs þess sem samþykkt hafði verið samkvæmt framansögðu.

Í samningi stefnanda og stefnda er tekið fram að kaupverðið sé 680.000 Bandaríkjadalir. Ekki er gert ráð fyrir að miða eigi við viðmiðunargengi íslensku krónunnar eða að umbreyta eigi samningsverðinu í íslenskar krónur. Telja verður að þær breytingar sem geta orðið á kaupverðinu séu tæmandi taldar í samningum, en greinar 1.2.1 og 1.2.2. fjalla um þær, þ.e. að rekstrarniðurstaða félagsins og dótturfélaga 2001 verði ekki neikvæð um meira en 15% miðað við uppgjör sem kynnt hafi verið. Sé því engin heimild að hækka eða lækka kaupverðið miðað við gengi íslensku krónunnar gagnvart Bandaríkjadal. Gengisáhættan lá jafnt á milli stefnda og stefnanda. Stefndi hefur eigi fært fram nein haldbær rök fyrir því að víkja eigi frá skýrum ákvæðum samningsins.

Stefndi hefur haldið því fram að samningurinn milli stefnda og stefnanda hafi fallið úr gildi þar sem ekki hafi tekist að komast að endanlegu samkomulagi á fundi þann 3. maí. 2002. Ekki er að sjá af gögnum málsins að sérstaklega hafi verið sótt að stefnanda að ganga frá kaupsamningi á þeim degi, ella yrði svo litið á að samningurinn væri ógildur. Telja verður að fundurinn 3. maí hafi verið liður í áframhaldandi samningaviðræðum um endanlegt form kaupsamningsins. Telja verður að málsaðilar hafi haft ákveðið svigrúm til að komast að samkomulagi, en bindandi samningur hafi komist á milli þeirra í aðalatriðum. Ekkert liggur fyrir í gögnum málsins að það hafi verið grundvallarósamkomulag um efni kaupsamningingsins sem leiddi umræður í þrot 3. maí 2002. Sú tillaga stefnanda að kaupandi yrði Holt Holdings verður að teljast liður í umræðum um endanlegt form kaupsamningsins. Ljóst er að stefndi og stefnandi höfðu svigrúm til að ganga frá kaupsamningi, svo sem hvort stefnandi sjálfur eða félag tengt honum kæmi að kaupunum. Liggur það í hlutarins eðli að þetta hafi verið eitt af því sem málsaðilar gátu samið um. Ekki hafi verið um nýtt tilboð að ræða af hálfu stefnanda. Er því ekki hægt að líta svo á að samningurinn hafi orðið ógildur í lok fundarins 3. maí 2002 eða að samningurinn hafi fallið úr gildi við þreifingar stefnanda á lokaútfærslu kaupsamningsins. Enn fremur verður ekki talið að dráttur á gerð kaupsamnings og þar með greiðslu kaupsamningsupphæðarinnar hafi leitt til þess að kaupsamningur hafi fallið niður. Sá dráttur sem varð á gerð kaupsamnings virðist vera til kominn vegna atriða er snerta báða aðila annars vegar og utanaðkomandi afla hins vegar og er ekki fallist á að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til að halda fast við samninginn.

Báðir aðilar sóttu fast í gegnum allt ferlið að kaupsamningur tækist þannig að greiðsla yrði innt af hendi og hlutaféð afhent. Ekkert liggur fyrir í málinu sem bendir til þess að stefnanda hafi skort greiðsluvilja eða getu til að greiða samningsverðið. Þvert á móti bendir greiðsla stefnanda á samningsupphæðinni inná bankareikning til hins gagnstæða.

Samkvæmt öllu framansögðu verður fallist á dómkröfu stefnanda eins og nánar greinir í dómsorði. Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ

Stefndi, Fjárfestingarfélagið Þor hf., geri kaupsamning við stefnanda, Skúla Þorvaldsson, um kaup stefnanda á hlutum í danska hlutafélaginu SPC Holdings A/S að nafnverði 4.082.076 danskar krónur og 50% hluta í hlutafélaginu NDB Investments S.A. í Lúxembúrg að nafnverði 2.250.000 belgískir frankar gegn greiðslu stefnanda á 680.000 Bandaríkjadölum og því að stefnandi létti ábyrgðum stefnda og hluthafa stefnda á skuldbindingum, sem þeir kunna að hafa undirgengist vegna reksturs SPC Holdings A/S eða dótturfélaga þess. Stefnanda er heimilt að ráðstafa kaupverði eða hluta þess til þess að létta veði eða öðrum kvöðum, sem kunna að hvíla á ofangreindum hlutum, af þeim.

Stefndi greiði stefnanda 1.500.000 krónur í málskostnað.