Hæstiréttur íslands
Mál nr. 35/2013
Lykilorð
- Fjármálafyrirtæki
- Veðréttindi
- Aðilaskipti
- Kröfugerð
- Ómerking héraðsdóms
|
|
Fimmtudaginn 13. júní 2013. |
|
Nr. 35/2013:
|
Margrét Lilja Sigurðardóttir (Jóhann H. Hafstein hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) og gagnsök |
Fjármálafyrirtæki. Veðréttindi. Aðilaskipti. Kröfugerð. Ómerking héraðsdóms.
M höfðaði mál á hendur L hf. vegna ráðstöfunar bankans á tiltekinni fjárhæð af reikningi hennar inn á greiðslu skuldar félagsins V hf. Krafðist M aðallega endurgreiðslu fjárhæðarinnar og byggði á því að L hf. hefði aldrei öðlast veðrétt í innstæðu á bankareikningnum. Til vara krafðist M þess að felld yrði úr gildi ábyrgð hennar samkvæmt handveðsyfirlýsingu og endurgreiðslu áðurnefndrar fjárhæðar. Við aðalmeðferð málsins í héraði hafði M m.a. uppi nýja kröfu til þrautavara um að L hf. yrði gert að greiða sér aðra lægri fjárhæð og byggði á því að henni hafi einungis borið að standa skil á sérgreindum hluta veðréttinda vegna afleiðuviðskipta. Fyrir Hæstarétti féll M svo frá aðalkröfu sinni í héraði. Taldi Hæstiréttur varakröfu hennar fyrir dóminum, sem verið hafði þrautavarakrafa hennar í héraði, hafa verið reista á öðrum atvikum en aðalkrafa hennar í héraði. Krafan væri því ekki studd sömu málsástæðum og upphaflega krafan og rúmaðist því ekki innan hennar. Fyrir Hæstarétti lýsti L hf. því yfir að samþykkt hafi verið af hans hálfu við meðferð málsins í héraði að sú krafa, sem fyrir Hæstarétti var höfð uppi sem varakrafa, kæmist að í málinu. Hæstiréttur taldi að héraðsdómara því hafa borið að fjalla um kröfuna en hennar hafi einungis verið getið í upphafi hins áfrýjaða dóms. Yrði af þessum sökum að ómerkja dóminn og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar á ný.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. janúar 2013. Hún krefst þess aðallega að felld verði úr gildi ábyrgð sín á grundvelli yfirlýsingar 20. maí 2008 um handveð í innstæðu á reikningi nr. 0140-15-[...] hjá gagnáfrýjanda. Jafnframt krefst hún þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 153.982.735 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. apríl 2012 til greiðsludags. Til vara krefst aðaláfrýjandi þess að gagnáfrýjanda verði gert að greiða sér 80.000.000 krónur með sömu vöxtum og greinir í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði fyrir sitt leyti 2. apríl 2013. Hann krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms að öðru leyti en því að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Aðaláfrýjandi var um árabil í viðskiptum hjá Landsbanka Íslands hf. og síðan hjá gagnáfrýjanda. Það sama á við um eiginmann hennar, Svavar Þorsteinsson, einkahlutafélagið Kvótasöluna, sem mun vera í eigu hjónanna, og einkahlutafélagið Víborg, sem mun vera í eigu mannsins. Meðal þeirra viðskipta aðaláfrýjanda hjá Landsbanka Íslands hf. voru afleiðuviðskipti með framvirkum kaupsamningum, en þeir samningar munu hafa verið gerðir á árunum 2007 og 2008.
Með yfirlýsingu 22. febrúar 2007 setti aðaláfrýjandi að handveði nánar tilgreinda fjármálagerninga í vörslum bankans og innstæðu á tveimur gjaldeyrisreikningum í bankanum til tryggingar á öllum skuldum eiginmanns hennar, Kvótasölunnar ehf. og Víborgar ehf. gagnvart Landsbanka Íslands hf. Jafnframt gaf aðaláfrýjandi út tvær handveðsyfirlýsingar 20. maí 2008 til tryggingar á öllum skuldum þeirra hjóna og áðurnefndra fyrirtækja. Með annarri yfirlýsingunni var sett að veði innstæða hennar á reikningi nr. 0140-15-[...] í bankanum, en með hinni var sett að veði innstæða á öðrum reikningi og fjármálagerningar á VS-reikningi, en báðir þessir reikningar voru í bankanum.
Með ákvörðun 7. október 2008 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf., vék stjórn bankans frá, skipaði honum skilanefnd á grundvelli heimildar í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, svo sem þeim var breytt með lögum nr. 125/2008. Í kjölfarið tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun á sama lagagrundvelli 9. október 2008 um að ráðstafa eignum og skuldum bankans til gagnáfrýjanda sem þá hét Nýi Landsbanki Íslands hf. Náði þetta meðal annars til kröfuréttinda bankans og þeirra tryggingarréttinda sem hann naut, þar með talin veðréttindi, ábyrgðir og önnur sambærileg réttindi sem tengdust kröfum bankans. Þá tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun 12. október 2008 en samkvæmt henni var fyrri ákvörðun frá 9. sama mánaðar breytt þannig að réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum yrðu ekki færðar til gagnáfrýjanda. Enn var með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 19. október 2008 gerð breyting á umræddri ákvörðun 9. þess mánaðar, en í þeirri breytingu fólst að gagnáfrýjanda bar að standa Landsbanka Íslands hf. skil á sérgreindum tryggingum viðskiptamanna eftir því sem við ætti vegna kröfuréttinda og afleiðusamninga sem ekki yrðu færðir til gagnáfrýjanda.
Með bréfi formanns skilanefndar Landsbanka Íslands hf. 2. febrúar 2009 var aðaláfrýjanda sent yfirlit um afleiðu- og gjaldeyrissamninga hennar við bankann. Samkvæmt því yfirliti nam gjaldfallin skuld áfrýjanda samkvæmt þeim samningum 85.441.956 krónum og var henni gefinn 14 daga frestur til að greiða eða semja um skuldina. Hinn 23. júní 2009 gerði aðaláfrýjandi samkomulag við Landsbanka Íslands hf. um fullnaðargreiðslu vegna allra gjaldfallinna afleiðu- og gjaldeyrissamninga hennar við bankann, en samkvæmt því bar henni að greiða tvær greiðslur, hvora að fjárhæð 10.000.000 krónur. Fyrri greiðsluna átti að inna af hendi 1. júlí 2009 en þá síðari 1. september það ár. Til frádráttar fyrri greiðslunni átti að koma virði tiltekins gjaldeyrisvalréttarsamnings að fjárhæð 800.673 krónur miðað við stöðu hans 3. júní 2009.
Lögmaður aðaláfrýjanda ritaði gagnáfrýjanda bréf 5. janúar 2010 en það bréf var sagt vera ítrekun á samhljóða bréfi 14. desember 2009. Í þessu bréfi voru ítarlega rakin viðskipti aðaláfrýjanda, eiginmanns hennar og fyrirtækja á hans vegum við gagnáfrýjanda og Landsbanka Íslands hf. og þess farið á leit að ábyrgðum hennar yrði vikið til hliðar eða þær takmarkaðar við ákveðnar fjárhæðir. Til stuðnings því var meðal annars bent á að lán sem hún hefði gengist í ábyrgð fyrir hefðu snarhækkað meðan verulegur hluti af eignum hennar hefði orðið verðlaus. Þessu erindi svaraði gagnáfrýjandi með bréfi 8. febrúar 2010 þar sem beiðni aðaláfrýjanda var hafnað.
Með tölvubréfi 23. mars 2011 óskaði lögmaður aðaláfrýjanda eftir upplýsingum frá gagnáfrýjanda um þá fjárhæð sem hún þyrfti að greiða til að gera upp við hann vegna skulda og ábyrgða. Í tölvubréfi lögmanns gagnáfrýjanda 12. apríl sama ár var að finna yfirlit yfir skuldir Víborgar ehf. við hann, en þær voru vegna yfirdráttar tékkareiknings og lánssamnings í íslenskum krónum, auk þess sem tveggja lánssamninga í erlendum myntum var getið. Þá kom fram í tölvubréfi 3. maí 2011 frá sama lögmanni að aðaláfrýjandi væri ekki í skuld við gagnáfrýjanda. Aftur á móti hefði hún sett nánar tilgreindar eignir að veði til tryggingar skuldum annarra, þar með talin Víborg ehf. Var meðal annars vísað til yfirlýsingar 20. maí 2008 þar sem innstæða á reikningi nr. 0140-15-[...] var sett að handveði til tryggingar á skuldum þess félags.
Í árslok 2011 skiptust lögmenn aðila á tölvubréfum um uppgjör á skuldum Víborgar ehf. án þess að samkomulag næðist. Fór svo að gagnáfrýjandi leitaði fullnustu í handveðsettri innstæðu á fyrrgreindum reikningi aðaláfrýjanda og ráðstafaði af honum 154.787.139 krónum með tveimur greiðslum sem fram fóru 23. og 24. febrúar 2012. Samkvæmt yfirliti gagnáfrýjanda var þeirri fjárhæð ráðstafað til greiðslu á fyrrgreindum skuldum félagsins vegna tékkareiknings og þriggja lánssamninga, samtals að fjárhæð 153.982.735 krónur að teknu tilliti til afsláttar á dráttarvöxtum og kostnaði. Í kjölfarið endurgreiddi gagnáfrýjandi 21. maí 2012 mismun þeirra fjárhæða. Þessari ráðstöfun mótmælti lögmaður aðaláfrýjanda með bréfum 28. febrúar og 5. mars 2012 en þeim andmælum hafnaði bankinn með bréfi 26. mars sama ár.
II
Í stefnu til héraðsdóms krafðist aðaláfrýjandi þess aðallega að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða sér 154.787.139 krónur með dráttarvöxtum frá 3. apríl 2012 til greiðsludags. Þessi krafa var reist á því að gagnáfrýjandi hefði aldrei öðlast veðrétt í innstæðu aðaláfrýjanda á reikningi nr. 0140-15-[...], enda hefði reikningurinn verið settur að veði til tryggingar á afleiðuviðskiptum hennar við Landsbanka Íslands hf., sem hefðu orðið eftir í þeim banka. Til vara krafðist aðaláfrýjandi þess að felld yrði úr gildi ábyrgð sín samkvæmt yfirlýsingu 20. maí 2008 um handveð á nefndum reikningi og að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða sömu fjáhæð og vexti og greindi í aðalkröfu. Sú krafa var reist á því að ábyrgð aðaláfrýjanda hefði verið fallin niður þegar gagnáfrýjandi ráðstafaði fjármunum af reikningnum þar sem ekki hefði verið gætt að því að senda henni tilkynningar, sbr. 1. og 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn.
Við aðalmeðferð málsins í héraði 22. nóvember 2012 lagði aðaláfrýjandi fram skjal sem fól í sér breytta kröfugerð að tvennu leyti. Annars vegar var fjárkrafa í aðal- og varakröfu lækkuð í 153.982.735 krónur til samræmis við endurgreiðslu gagnáfrýjanda í kjölfar þess að hann hafði ráðstafað fjármunum af reikningi aðaláfrýjanda til greiðslu á skuldum Víborgar ehf. Hins vegar hafði aðaláfrýjandi uppi nýja kröfu til þrautavara um að gagnáfrýjanda yrði gert að greiða sér 80.000.000 krónur með sömu vöxtum og í aðal- og varakröfu. Þessi krafa var reist á skjölum sem gagnáfrýjandi lagði fram í þinghaldi 5. nóvember 2012 um afleiðuviðskipti aðaláfrýjanda. Samkvæmt þeim gögnum hafði svokallaður afleiðurammi aðaláfrýjanda hjá Landsbanka Íslands hf. numið 80.000.000 króna, en meðal þeirra trygginga sem þar voru tilgreindar vegna þeirra viðskipta var innstæða á fyrrgreindum reikningi hennar. Telur hún að fyrst eftir að þessi gögn voru lögð fram hafi henni verið kleift að setja fram fjárkröfu sem tæki mið af sérgreindum tryggingum vegna afleiðuviðskiptanna, en gagnáfrýjanda hafi borið að standa Landsbanka Íslands hf. skil á slíkum tryggingum í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 19. október 2008.
Fyrir Hæstarétti hefur aðaláfrýjandi fallið frá aðalkröfu sinni í héraði. Heldur hún því fram að varakrafa sín hér fyrir dómi sé studd öllum sömu málsástæðum og aðalkrafan í héraði var reist á og hafi í raun falið í sér lækkun á fjárhæð þeirrar kröfu.
Svo sem hér hefur verið rakið var aðalkrafa aðaláfrýjanda í héraði byggð á því að gagnáfrýjandi hefði aldrei öðlast veðrétt í innstæðu á bankareikningi hennar. Aftur á móti er varakrafan hér fyrir dómi reist á því að gagnáfrýjanda hafi borið að standa Landsbanka Íslands hf. skil á sérgreindum hluta veðréttindanna og virðist þá miðað við að réttindin hafi tilheyrt gagnáfrýjanda að öðru leyti. Þannig er þessi krafa reist á öðrum atvikum en hin krafan í samræmi við ný gögn sem lögð voru fram undir rekstri málsins. Umrædd krafa er því ekki studd sömu málsástæðum og upphaflega krafan og rúmast því ekki innan hennar. Við þessar aðstæður gat hins vegar komið til álita að tefla kröfunni fram með því að höfða framhaldssök í héraði, sbr. 29. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Samkvæmt öðrum málslið 1. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991 skal vísa frá dómi kröfu sem ekki kemur fram í stefnu nema stefndi hafi samþykkt að hún kæmist að án þess. Fyrir Hæstarétti hefur gagnáfrýjandi lýst því yfir að samþykkt hafi verið af hans hálfu við meðferð málsins í héraði að sú krafa, sem hér fyrir dómi er höfð uppi sem varakrafa, kæmist að í málinu. Samkvæmt því bar héraðsdómara að fjalla um kröfuna en hennar er getið í upphafi hins áfrýjaða dóms þar sem rakin er kröfugerð aðila. Að öðru leyti er þar ekki vikið að kröfunni eða úr henni leyst. Af þessum sökum verður að ómerkja dóminn og vísa málinu heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar á ný.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til málflutnings og dómsálagningar á ný.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2012.
Mál þetta höfðaði Margrét Lilja Sigurðardóttir, kt. [...], Móbergi 8, Hafnarfirði, með stefnu birtri 2. apríl 2012 á hendur Landsbankanum hf., kt. [...], Austurstræti 11, Reykjavík. Málið var dómtekið að lokinni aðalmeðferð 22. nóvember sl.
Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða henni samtals 153.982.735 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. apríl 2012 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að felld verði úr gildi ábyrgð hennar á grundvelli handveðréttar í innstæðureikningi nr. 0140-15-[...], samkvæmt handveðsyfirlýsingu nr. 0140-63-[...], dags. 20. maí 2008, og jafnframt verði stefndi dæmdur til að greiða henni 153.982.735 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 3. apríl 2012 til greiðsludags. Stefnandi krefst loks málskostnaðar. Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni 80.000.000 króna með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 3. apríl 2012 til greiðsludags.
Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá krefst hann málskostnaðar.
Í stefnu eru kynnt til sögunnar stefnandi, eiginmaður hennar, Svavar Þorsteinsson, og Víborg ehf., sem hann hafi stofnað og reki enn. Fram kemur í vottorði hlutafélagaskrár að stefnandi sat í varastjórn félagsins frá stofnun þess í febrúar 2003 til 12. nóvember 2009. Félagið og þau hjónin áttu viðskipti við Landsbanka Íslands hf. Bankaviðskipti þeirra voru flutt til stefnda Landsbankans hf., áður NBI hf., með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008.
Stefnandi stundaði m.a. svokölluð afleiðuviðskipti við Landsbanka Íslands hf. á árunum 2007 og 2008. Til tryggingar afleiðusamningum hennar hafði bankinn handveð í innistæðu á innlánsreikningum og ýmsum fjármálagerningum.
Handveðréttur bankans var samkvæmt þremur yfirlýsingum stefnanda, dags. 22. febrúar 2007 og 20. maí 2008. Með fyrstu yfirlýsingunni voru innistæður á reikningum nr. 0101-38-[...] og 0101-38-[...] og tiltekin verðbréf veðsett. Með síðari yfirlýsingunum var annars vegar sett að veði innistæða á reikningi nr. 0140-15-[...], hins vegar innistæða á reikningi nr. 0101-05-[...] og allir fjármálagerningar sem á hverjum tíma yrðu vistaðir á vörslureikningi nr. [...].
Í öllum yfirlýsingunum var veð veitt til tryggingar hvers konar skuldum stefnanda, eiginmanns hennar, Svavars Þorstseinssonar og einkahlutafélaganna Kvótasölunnar og Víborgar við bankann.
Fjármálaeftirlitið tók yfir vald hluthafafundar Landsbanka Íslands hf. þann 7. október 2008 og skipaði skilanefnd. Í kjölfarið var eignum og skuldum bankans ráðstafað til stefnda, sem þá hét Nýi Landsbanki Íslands. Var gefin út ákvörðun um þetta efni 9. október 2008, en henni var breytt tvívegis, 12. og 19. október. Að því leyti sem skiptir máli hér voru flestar eignir gamla bankans færðar yfir til stefnda, með ákveðnum undantekningum. Þá voru jafnframt flutt tryggingaréttindi sem tengdust kröfum bankans. Með breytingunni 9. október var ákveðið að stefndi tæki ekki yfir réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum. Loks var með breytingunni 19. október ákveðið að stefndi skyldi skila til gamla bankans sérgreindum tryggingum vegna kröfuréttinda og afleiðusamninga sem ekki fluttust til stefnda. Kjarninn í ágreiningi aðila snýst um þetta atriði, þ.e. hvort handveðið í innistæðureikningi stefnanda hafi flust til stefnda.
Með bréfi dags. 22. febrúar 2012 tilkynnti stefndi að hann myndi ráðstafa innistæðu á reikningi nr. 0140-15-[...] inn á þær skuldir Víborgar ehf. sem handveð væri fyrir í reikningnum. Stefndi mótmælti þessari fyrirætlan með bréfi dags. 28. febrúar 2012 og ítrekaði mótmæli sín með bréfi dags. 5. mars 2012.
Stefndi svaraði mótmælum stefnanda fyrst með bréfi dags. 26. mars 2012. Þar er afstaða bankans skýrð og sagt að þann 23. febrúar hefði 153.982.735 krónum verið ráðstafað af innlánsreikningi stefnanda upp í skuldir Víborgar ehf.
Í greinargerð stefnda er sundurliðað hvaða skuldir voru greiddar með úttekt af innlánsreikningnum. Er ekki ágreiningur um þessar skuldir eða fjárhæð þeirra, en málsástæður stefnanda verða raktar hér á eftir. Var eingöngu um að ræða skuldir Víborgar ehf. Var um að ræða yfirdrátt á tékkareikningi og skuld samkvæmt þremur lánasamningum, þar af tveimur í erlendum myntum.
Stefndi átti ennfremur veðrétt í tveimur fasteignum í Hafnarfirði til tryggingar skuldum Víborgar. Veðum þessum var aflýst 29. febrúar 2012.
Í stefnu er bent á að samkvæmt d-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn hafi stefndi átt að senda stefnanda yfirlit um ábyrðir hennar fyrir þriðja aðila. Stefndi hafi aldrei sagt frá handveðsetningu reiknings nr. 0140-63-[...] í þessum yfirlitum. Telur stefnandi skýringuna vera þá að handveðið hafi aldrei verið framselt til stefnda. Enn fremur bendir stefnandi á að ekki hafi nokkru sinni verið getið um vanskil aðalskuldara í yfirlitum þessum.
Í aðilaskýrslu stefnanda kom fram að hún hefði ekki haft nein afskipti af viðskiptum sínum við bankann. Eiginmaður sinn, Svavar Þorsteinsson, hefði annast viðskiptin. Hefði hún oft skrifað undir skjöl sem hann kom með til hennar, en hún hafi ekki skipt sér neitt af þessum viðskiptum. Hún kvaðst ekki vita hvernig henni hefði áskotnast féð sem þau ávöxtuðu.
Svavar Þorsteinsson staðfesti þá lýsingu stefnanda að hann hefði alfarið séð um samskipti þeirra við bankann. Hann hefði verið mest í sambandi við Snorra Steinsson, sem hefði séð um einkabankaþjónustu við þau.
Málsástæður og lagarök stefnanda
Aðalkrafa
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki átt veðrétt í reikningi nr. 0140-15-[...]. Veðréttur þessi hafi ekki verið framseldur frá Landsbanka Íslands hf., sem nú sé í slitaferli. Það felist í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 12. október 2008, sbr. ákvörðun frá 19. október sama ár, að gamli Landsbankinn sé ennþá veðhafi. Afleiðusamningar hafi ekki verið fluttir yfir í nýja bankann og því ekki tryggingar fyrir þeim viðskiptum. Sönnunarbyrði um framsal veðréttarins hvíli á stefnda.
Því byggir stefnandi endurkröfu sína á því að stefnda hafi verið óheimilt að taka fé af reikningi hennar í febrúar 2012.
Stefnandi kveðst hafa verið í umfangsmiklum afleiðuviðskiptum við gamla bankann og því veðsett innlánsreikning sinn í bankanum. Réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum eigi hún gagnvart gamla bankanum. Eðli máls samkvæmt eigi því gamli bankinn handveðréttinn.
Nánar bendir stefnandi á að 2. október hafi henni borist krafa gamla bankans um að hún legði fram viðbótartryggingar vegna markaðsviðskipta sinna. Gert hafi verið veðkall, þar sem tryggingar hafi ekki verið nægar, þ.m.t. innistæða á hinum handveðsetta innlánsreikningi. Reikningur þessi hafi verið til tryggingar skuldbindingum stefnanda samkvæmt afleiðusamningum við gamla bankann. Vísar stefnandi hér einnig til yfirlýsingar Snorra Steinssonar, en hann hafi verið ráðgjafi hennar í einkabankaþjónustu. Innistæða á reikningi nr. 0140-15-[...] hafi verið sérgreind sem trygging vegna afleiðuviðskipta stefnanda.
Loks byggir stefnandi á 2. mgr. 10. gr. laga nr. 75/1997. Verði krafa sem tryggð skuli ekki framseld, gildi það sama um veðrétt til tryggingar henni.
Aðalkrafa stefnanda er byggð á reikningsyfirliti frá stefnda, en teknar hafi verið út 71.182.735 krónur þann 23. febrúar 2012 og 83.604.404 krónur þann 24. febrúar 2012. Samtals hafi því verið teknar út 154.787.139 krónur. Krafist sé endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar að frádregnum 808.533 krónum, sem endurgreiddar voru. Þá er krafist dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga frá þingfestingardegi.
Varakrafa
Í varakröfu er þess krafist að ábyrgð stefnanda á grundvelli handveðréttar í reikningnum verði felld úr gild og stefnda verði gert að endurgreiða þá fjárhæð sem hann tók af reikningnum. Ábyrgðin hafi verið fallin niður samkvæmt 7. gr. laga nr. 32/2009 þegar fénu var ráðstafað.
Stefnandi byggir á því að hún hafi aldrei fengið tilkynningar frá stefnda vegna vanskila Víborgar ehf., en stefndi hafi tekið fé af reikningi stefnanda vegna vanskila þessa félags. Samkvæmt a-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 skuli senda ábyrgðarmanni skriflega tilkynningu um vanefndir svo fljótt sem verða má. Stefndi hafi ekki fullnægt þessari skyldu. Í yfirlitum á síðustu fjórum árum hafi aldrei verið minnst á að Víborg ehf. væri í vanskilum við stefnda, þótt svo hafi verið, t.d. hafi stefndi höfðað mál á hendur félagi þessu í apríl 2011, án þess að tilkynna það stefnanda.
Stefnandi segir að samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna skuli ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningarskyldu samkvæmt 1. mgr. Sé vanræksla veruleg skuli ábyrgð falla niður. Vanræksla stefnda sé veruleg. Hann hafi ekki síðustu fjögur ár skýrt frá vanskilum eða tilgreint að bankinn ætti veðrétt í innstæðureikningi hennar. Því telur stefnandi að ábyrgð sín hafi verið fallin niður í apríl 2012.
Varakrafa stefnanda er sundurliðuð með sama hætti og aðalkrafa hans.
Stefnandi vísar til meginreglna kröfuréttar, m.a. reglna um endurgreiðslu, og áðurgreindra laga um ábyrgðarmenn og um samningsveð.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir á því að allar tilgreindar eignir, kröfuréttindi og tryggingaréttindi hafi flust yfir til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008. Með ákvörðun 12. sama mánaðar hafi verið ákveðið að stefndi tæki þó ekki yfir réttindi og skyldur samkvæmt afleiðusamningum. Með ákvörðun 19. sama mánaðar hafi síðan verið ákveðið að stefndi skyldi standa gamla bankanum skil á sérgreindum tryggingum vegna réttinda sem ekki flyttust yfir.
Stefndi segir að engin skil hafi verið gerð til gamla bankans vegna handveðs á innistæðu á reikningi nr. 0140-15-[...], sem um sé fjallað í þessu máli. Stefnandi hafi ekki fært á það sönnur. Sönnunarbyrðin hvíli á honum.
Stefndi kveðst hafna þeirri málsástæðu stefnanda að handveðið hafi verið bundið við skuldbindingar samkvæmt afleiðusamningum. Vísar stefndi hér til orðalags yfirlýsingarinnar. Þar sé talið upp víxilskuldir, víxilábyrgðir, yfirdráttur á tékkareikningi, skuldabréf o.fl. skuldir stefnanda og Svavars Þorsteinssonar, Kvótasölunnar ehf. og Víborgar ehf. Þá verði þessi skilningur heldur ekki lesinn út úr kröfu um viðbótartryggingu, dags. 2. október 2008.
Stefndi mótmælir því í greinargerð að yfirlýsing Snorra Gunnars Steinssonar, fyrrverandi starfsmanns Landsbanka Íslands hf., hafi þýðingu í málinu. Í yfirlýsingunni komi skýrt fram að handveðið hafi verið til tryggingar á skuldum þriðja aðila, auk afleiðusamninga. Sé þetta í samræmi við afmörkun yfirlýsingarinnar. Stefndi mótmælir þeirri málsástæðu stefnanda fyrir aðalkröfu hans sem byggir á 2. mgr. 10. gr. laga um samningsveð nr. 75/1997. Ítrekar hann hér að handveðið hafi ekki verið bundið við afleiðuskuldir. Tryggingin hafi flust til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008. Því hafi ekki verið breytt í kjölfar ákvarðana eftirlitsins 12. og 19. sama mánaðar. Handveðinu hafi ekki verið skilað til gamla bankans, enda ekki um sérgreinda tryggingu að ræða.
Stefndi mótmælir varakröfu stefnanda sem byggir á því að ábyrgð hafi fallið niður samkvæmt 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Stefndi vísar til þess að lög um ábyrgðarmenn hafi tekið gildi 2. apríl 2009 og taki til ábyrgða frá þeim tíma. Stefnandi hafi fengið yfirlit eftir áramótin 2009-2010 um ábyrgðir fyrir skuldum annarra aðila, dags. 18. febrúar 2010. Í því yfirliti hafi verið getið um handveðið frá 22. ágúst 2007. Í yfirlitum 1. janúar 2011 og 1. janúar 2012 hafi verið getið um tryggingabréf sem hvíldi á húsinu að Móbergi 8 í Hafnarfirði, en þar búi stefndandi ásamt eiginmanni sínum. Í yfirlitunum sé tekið fram að í þau kunni að vanta ábyrgðir og megi ekki telja þau tæmandi.
Þótt allar ábyrgðir stefnanda hafi ekki verið tilgreindar í yfirlitum þessum, komi fram í bréfi lögmanns stefnanda, dags. 5. janúar 2010, að stefnanda hafi verið fullkunnugt um ábyrgð sína með innistæðu á bankareikningnum vegna skulda Víborgar ehf. og aðrar ábyrgðir sem tíundaðar séu í bréfinu. Frá þessum tíma og fram til þess að handveðið var innleyst í febrúar 2012 hafi lögmaður stefnanda og eiginmaður hennar átt samskipti við starfsmenn stefnda vegna ábyrgða stefnanda og skulda Víborgar. Telur stefndi upp nokkrar orðsendingar sem hann hafi sent stefnanda eða lögmanni hans, svo og málshöfðanir. Telur hann augljóst að allt frá ársbyrjun 2010 hafi stefnanda verið fullkunnugt um þær ábyrgðir sínar vegna skulda Víborgar ehf. Bendir stefndi einnig á bréf lögmanns hennar, dags. 5. janúar 2010. Lögmaður stefnanda hafi átt í samningaviðræðum við stefnda á árinu 2011 þar sem ábyrgðir stefnanda vegna skulda Víborgar ehf. voru til umfjöllunar, auk þess sem eiginmaður stefnanda átti einnig í samningaviðræðum við stefnda vegna sömu mála. Loks segir stefndi að stefnandi hafi setið í varastjórn Víborgar ehf. þar til í nóvember 2009. Hún hljóti að hafa þekkt fjárhagsstöðu félagsins. Þá sé eiginmaður hennar fyrirsvarsmaður félagsins og því ólíklegt annað en að hún hafi þekkt stöðuna. Stefndi kveðst vísa til þess að við uppgjörið hafi hann komið til móts við sjónarmið stefnanda um lækkun á dráttarvöxtum og innheimtukostnaði. Þá hafi ekki verið gengið að veðum sem stóðu til tryggingar skuldum Víborgar ehf., á heimili stefnanda og eiginmanns hennar að Móbergi 8, Hafnarfirði og á Trönuhrauni 10. Þeim veðum hafi verið aflýst.
Stefndi kveðst ekki mótmæla því að eftir áramótin 2009-2010, þegar stefnandi hafi átt að fá yfirlit samkvæmt d-lið 1. mgr. 7. gr. laga um ábyrgðarmenn, þá hafi hún ekki fengið fullnægjandi yfirlit um ábyrgðir hennar og um stöðu lána sem ábyrgðir hennar stóðu fyrir. Á móti bendir stefndi á að lögmaður stefnanda hafi ritað stefnda bréf í janúar 2010 þar sem allar ábyrgðir stefnanda hafi verið taldar upp, m.a. ábyrgðin sem um sé fjallað hér. Stefnandi hafi því verið fullkunnugt um hana.
Á sama hátt hafi ýmis samskipti átt sér stað milli lögmanns stefnanda og stefnda á árinu 2011, sem stefnandi sjálf og eiginmaður hennar hafi einnig komið að. Allar upplýsingar um ábyrgðir hennar hafi legið ljósar fyrir. Því skipti ekki máli þótt fullnægjandi yfirlit hafi ekki verið sent um áramótin 2010-2011.
Því kveðst stefndi hafna því að hann hafi sýnt af sér slíka vanrækslu að handveðsetning innistæðunnar hafi fallið úr gildi, eða að fella skuli hana úr gildi. Vísar stefndi til mikilvægis meginreglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir kröfuréttinda. Skýra verði 2. mgr. 7. gr. laganna þröngt með hliðsjón af þessum meginreglum.
Auk þeirra réttarheimilda og ákvarðana Fjármálaeftirlitsins, sem nefndar eru hér að framan, kveðst stefndi byggja á lögum um samningsveð nr. 75/1997.
Í málflutningsræðu lögmanns stefnda bar hann fyrir sig þá málsástæðu eða þau lagarök að lög nr. 32/2009 gildi ekki um stefnanda. Handveðið hafi verið sett vegna atvinnurekstrar þeirra hjóna, en stefnandi hafi til skamms tíma verið varamaður í stjórn Víborgar.
Lögmaður stefnanda mótmælti því að þessi röksemd kæmist að. Hér væri hreyft nýrri málsástæðu, sem hefði átt að koma fram í greinargerð. Þá taldi lögmaðurinn að lögin giltu um umrætt handveð. Stefnandi væri ekki í stjórn Víborgar ehf.
Niðurstaða
Í greinargerð stefnda var krafist frávísunar málsins, en hann féll síðar frá þeirri kröfu. Hann hélt sig þó við það að benda á frávísunarástæður þær sem hann hafði byggt á og sagði að vísa bæri málinu frá án kröfu.
Það voru tvö atriði sem frávísunarkrafa hafði verið studd við. Annars vegar að stefna hefði þurft Landsbanka Íslands hf. til aðildar við hlið stefnda, en miðað við málsástæður stefnanda ætti að leysa úr um réttindi þessa aðila líka. Hins vegar var sagt að málið væri vanreifað.
Hvorugt þessara atriða leiðir til frávísunar þessa máls. Málið er nægilega reifað og afmarkað til að vörnum verði haldið uppi og leyst úr kröfum. Þá er krafist endurgreiðslu úr hendi stefnda, en niðurstaða um þessa kröfu varðar Landsbanka Íslands hf. engu og bindur hann ekki.
Fyrsta atriði sem stefnandi byggir á er það að stefndi hafi ekki átt umrætt handveð, heldur Landsbanki Íslands hf., gamli bankinn.
Fyrst er til þess að líta að samkvæmt texta handveðsyfirlýsingarinnar er veðið til tryggingar öllum skuldum hinna tilgreindu aðila við bankann. Stefnandi hefur sýnt fram á að hún hafi lagt fram frekari handveð vegna þess að svokallaður afleiðurammi var hækkaður. Þrátt fyrir það var veðið ekki eingöngu sett til tryggingar kröfum er stofnuðust við afleiðuviðskipti. Er stefnandi bundin af efni veðsetningarinnar eins og hún er afmörkuð í yfirlýsingunni.
Skipti milli stefnda og Landsbanka Íslands hf. voru ákveðin eftir leiðbeiningarreglum sem fram koma í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins. Eftirlitið fjallaði ekki um hvert einasta skuldaskjal eða ábyrgðaryfirlýsingu, því varð að semja sérstaklega um skipti allra krafna, sem ekki féllu örugglega til annars hvors aðila. Þannig var með handveð það sem deilt er um í þessu máli. Af gögnum þeim sem stefnandi lagði fram verður ekki annað séð en að handveðið hafi verið framselt stefnda. Hefur stefnandi ekki sýnt fram á að svo hafi ekki verið. Þá verður ekki fallist á að framsalið hafi verið óheimilt, en veðrétturinn átti að tryggja fjárkröfur sem framselja mátti.
Stefnandi hefur ekki borið fyrir sig að Víborg ehf. hafi ekki staðið í skuld við stefnda. Stefndi átti handveð til tryggingar skuldum þessa félags og gat því gengið að veðinu til lúkningar kröfum sínum.
Stefndi gengst við því að misbrestur hafi orðið á að tilgreina umrætt handveð í árlegum yfirlitum til stefnanda. Stefnandi heldur því fram að vanræksla stefnda í þessu efni hafi verið veruleg.
Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn skal ábyrgðarmaður verða skaðlaus af vanrækslu kröfuhafa um tilkynningar. Stefnandi hefur ekki skýrt hvaða tjón hefur hlotist af vanrækslu stefnda. Stefnandi bar sjálf í aðilaskýrslu sinni að hún hafi lítið fylgst með eða skipt sér af bankaviðskiptum sem að hluta til voru í hennar nafni. Hafði hún falið eiginmanni sínum að annast viðskiptin og öll samskipti við bankann. Ekki verður annað ráðið en að eiginmanni stefnanda hafi alla tíð verið fullkunnugt um stöðu viðskiptanna við bankann og hvaða veðréttindi og aðrar tryggingar bankinn hafði. Þá hefur því ekki verið haldið fram að gripið hafi verið til einhverra aðgerða, eða eitthvað látið ógert, vegna þess að ekki hafi verið kunnugt um þetta handveð. Verður því að hafna þeirri málsástæðu stefnanda að veðréttur stefnda hafi verið fallinn niður.
Að þessu sögðu þarf ekki að fjalla um það hvort það sé ný málsástæða af hálfu stefnda að lög um ábyrgðarmenn gildi ekki hér, og komist því ekki að í málinu, eða hvernig leysa ætti úr henni.
Stefndi verður sýknaður af kröfum stefnanda. Með réttu ætti að dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar, en þar sem það er vissulega rétt að stefndi vanrækti skyldu sína til yfirlitsgerðar, verður málskostnaður felldur niður.
Jón Finnbjörnsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð
Stefndi, Landsbankinn hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Margrétar Lilju Sigurðardóttur.
Málskostnaður fellur niður.