Hæstiréttur íslands

Mál nr. 151/2001


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991


Miðvikudaginn 2

 

Miðvikudaginn 2. maí 2001.

Nr. 151/2001.

Lögreglustjórinn í Reykjavík

(Egill Stephensen saksóknari)

gegn

X

(Þröstur Þórsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.

 

X var grunaður um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Talið var að skilyrðum a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 væri fullnægt til að verða við kröfu um gæsluvarðhald. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. apríl 2001, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 30. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2001, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. maí nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 27. apríl 2001.

Árið 2001, föstudaginn 27. apríl, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjatorg af Guðjóni St. Marteinssyni héraðsdómara kveðinn upp svofelldur úrskurður.

Lögreglustjórinn í Reykjavík krefist þess að X, [ . . . ], verði á grundvelli a liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 19/1991 úrskurðaður til að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 4. maí nk. kl. 16:00.

[ . . . ]

Segir í kröfugerð lögreglu að X sé grunaður um brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940. Vísað er til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19,1991, um meðferð opinberra mála til stuðnings kröfunni.

Verjandi kærða mótmælti kröfunni og rökstuddi þannig að hann teldi kærða ekki tengjast máli þessu á saknæman hátt.

 

Niðurstaða

Svo sem rakið var X handtekinn með 45 málverk í fórum sínum en verkunum var stolið í innbroti í Svarthamra Listhús við Skólavöðrustíg í sl. nótt. X kvaðst hafa fundið listaverkin. Samkvæmt greinargerð lögreglu og gögnum málsins er verið að rannsaka ætluð brot X gegn 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og gæti sök ef sannaðist varðað hann fangelsisrefsingu. Rannsókn málsins er á frumstigi og eftir er að yfirheyra X ítarlegar svo og aðra bæði hugsanlega samseka og/eða vitni en samkvæmt gögnum lögreglu bendir rannsókn á vettvangi til þess að fleri en einn maður hafi verið að verki við innbrotið en 37 listaverk sem stolið var í innbrotinu hafa ekki komið í leitirnar.

Með vísan til alls ofanritaðs og með vísan til a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, er rétt að verða við kröfu lögreglu um gæsluvarðhald yfir X eins og krafist er.

Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 4. maí nk. kl. 16:00.