Print

Mál nr. 294/2010

Lykilorð
  • Eignarréttur
  • Fasteign
  • Afréttur
  • Þjóðlenda
  • Hefð
  • Gjafsókn

Fimmtudaginn 22. september 2011.

Nr. 294/2010.

Veiðiklúbburinn Strengur ehf.

Sunnudalur ehf. og

Heljardalur ehf.

(Ólafur Björnsson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Indriði Þorkelsson hrl.)

Eignaréttur. Fasteign. Afréttur. Þjóðlenda. Hefð. Gjafsókn.

Með úrskurði 29. maí 2007, þar sem fjallað var um mörk þjóðlendna og eignarlanda í Vopnafjarðarhreppi, komst óbyggðanefnd að þeirri niðurstöðu að svæði sem nefnd eru M og S væru þjóðlenda. V, S og H töldu til eignarréttar að umræddum svæðum og höfðuðu því mál gegn Í og kröfðust þess að úrskurðurinn yrði ógiltur og að viðurkennd bein eignarréttindi þeirra á landinu. Með hliðsjón af lýsingum í Landnámabók, fjarlægð svæðanna frá ströndum Vopnafjarðar og staðsetningar þeirra gagnvart jörð sem var ekki háð beinum eignarrétti fyrr en löngu eftir landnám taldi Hæstiréttur ekki efni til að ætla að beinn eignarréttur hefði stofnast yfir landi M eða S með námi. Heimildir um að M hefði verið í eigu kirkjunnar á H þóttu benda til þess að kirkjan hefði átt óbein eignarréttindi yfir M ásamt ótilgreindu landsvæði kringum það til afréttarnota. Byggingarbréf fyrir landi á þessu svæði sem gert var um miðja 19. öld var ekki talið geta breytt þessari niðurstöðu, enda lá fyrir samtímaheimild um að ekki hefði að lögum verið stofnað þar til nýbýlis. Lýsing í landamerkjabréfi fyrir M frá árinu 1886 þótti fjarstæð en að því leyti sem kröfur voru á því reistar taldi Hæstiréttur að eldri heimildir veittu því ekki stoð að svæðið hefði verið háð beinum eignarétti. Gat slíkur eignaréttur ekki hafa stofnast með því einu að gert hefði verið landamerkjabréf fyrir það. Ekki var fallist á að maður sem keypti M árið 1913 af Í hefði með réttu getað haft væntingar til þess að hann hefði eignast annað og meira en þau afnotaréttindi sem seljandinn hefði haft á færi sínu að ráðstafa. Engin haldbær gögn lágu fyrir um umfang landsvæðisins S í heild eða hluta þess sem heimildir voru til um að hefði verið afréttarland sem tilheyrði B. Þótt forráðamenn H og eigendur B hefðu farið með umráð hinna umdeildu svæða svo sem þau væru háð beinum eignarrétti þeirra og þau umráð kynnu að auki að hafa verið öðrum sýnileg var talið að ekki hefði getað stofnast eignarréttur við þessar aðstæður með óslitnu eignarhaldi fyrir gildistöku laga nr. 46/1905 um hefð. Einungis lá fyrir að landsvæðin hefðu verið nýtt til afréttarnota eftir þetta og höfðu því ekki stofnast bein eignarréttindi fyrir hefð. Ekki var talið að dómur frá árinu 2004 um eignarrétt að M og S breytti nokkru um réttarstöðu dómhafanna gagnvart ákvæðum laga nr. 58/1998. Af þessum sökum var Í sýknað af kröfum V, S og H.        

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Viðar Már Matthíasson og Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Áfrýjendur skutu málinu upphaflega til Hæstaréttar 5. mars 2010. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 21. apríl 2010 og áfrýjuðu þeir öðru sinni 12. maí sama ár. Áfrýjendurnir Veiðiklúbburinn Strengur ehf. og Sunnudalur ehf. krefjast þess aðallega að fellt verði úr gildi ákvæði í úrskurði óbyggðanefndar 29. maí 2007 í máli nr. 3/2005 um að land innan eftirgreindra marka sé þjóðlenda: „Frá þeim stað þar sem Almenningsá fremri rennur í Selá ræður Selá að Selsárósi. Þá ræður Selsá að upptökum. Þaðan er dregin bein lína í Sýslumannsvörðu á mörkum Vopnafjarðarhrepps og Þórshafnarhrepps og þeim mörkum síðan fylgt í Miðfjarðarárdrög. Úr Miðfjarðarárdrögum er farið í Upsabrúnir og þaðan er Almenningsá fremri fylgt aftur í Selá.“ Þeir krefjast einnig að viðurkennt verði að innan framangreindra merkja Mælifells sé engin þjóðlenda og landsvæðið allt háð beinum eignarrétti þeirra. Þá krefjast áfrýjendurnir Veiðiklúbburinn Strengur ehf. og Heljardalur ehf. þess aðallega að fellt verði úr gildi ákvæði í sama úrskurði um að land innan eftirfarandi marka sé þjóðlenda: „Selá ræður frá Selsárósi þar til Ytri-Hrútá fellur í hana. Þaðan ræður Ytri-Hrútá að sýslumörkum. Sýslumörkum er fylgt í Einbúa og þaðan í Sýslumannsvörðu á mörkum Vopnafjarðarhrepps og Þórshafnarhrepps, síðan í upptök Selsár. Loks er Selsá fylgt í Selá og er þá komið að hinum fyrstnefnda punkti.“ Þessir áfrýjendur krefjast einnig að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan þessara merkja Selsárvalla og þar með að landið allt sé eignarland. Til vara krefjast áfrýjendur þess allir að úrskurður óbyggðanefndar verði felldur úr gildi að hluta þannig að mörk eignarlands Mælifells og Selsárvalla gagnvart þjóðlendu ráðist af „vatnaskilum, frá merkjum við jörðina Hamar móts við Kistufell ... og svo eftir vatnaskilum til norðvesturs að hreppsmörkum skammt frá Einbúa ... og svo að Einbúa ... og svo til suðvesturs að Hábungu ... en þaðan ræður Ytri-Hrútá að vestan að Selá“. Að þessu frágengnu krefjast áfrýjendur að mörk þjóðlendu gagnvart fyrrnefndum eignarlöndum þeirra ráðist af Ytri-Hrútá frá þeim stað sem hún fellur í Selá að upptökum hennar, þaðan beina stefnu í upptök Mælifellsár og loks eftir henni þar til hún fellur í Selá. Í báðum varakröfum áfrýjenda eru merkjapunktar ýmist staðsettir nánar með tilliti til framlagðra uppdrátta eða með hnitasetningum. Í öllum tilvikum krefjast áfrýjendur málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem þeim hefur verið veitt.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Dómendur í málinu fóru á vettvang 1. september 2011.

I

Samkvæmt ákvæðum laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta tók óbyggðanefnd 1. mars 2004 til meðferðar landsvæði á norðausturlandi, sem réðist að vestan af Jökulsá á Fjöllum frá ósi hennar í Öxarfirði að Dyngjujökli, en þaðan var fylgt jaðri hans að Kverkfjöllum í Hveradal, þar sem dregin var lína til suðurs inn á Vatnajökul. Austurmörk svæðisins fylgdu Lagarfljóti frá ósum á Héraðssandi þangað sem Gilsá fellur í það, en þeirri á var svo fylgt og síðan mörkum Fljótsdalshrepps að Geldingafelli, þaðan sem lína var dregin inn á Vatnajökul. Að norðan náði svæðið að hafi. Óbyggðanefnd bárust kröfur stefnda 11. nóvember 2004, sem vörðuðu allt svæðið, og birti hún þær samkvæmt 2. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998 ásamt því að skora á þá, sem teldu þar til eignarréttinda, að lýsa kröfum sínum. Fjölmargar kröfur og athugasemdir bárust nefndinni. Í júlí 2005 ákvað hún að fjalla um svæðið í fimm aðskildum málum og var eitt þeirra nr. 3/2005, sem náði til Vopnafjarðarhrepps. Það mál tók meðal annars til landsvæða, sem áfrýjendur telja vera eignarlönd sín, Mælifell og Selsárvellir, en stefndi taldi þau til þjóðlendna. Í úrskurði óbyggðanefndar 29. maí 2007 var komist að þeirri niðurstöðu að þessi landsvæði væru þjóðlendur með þeim mörkum, sem áður greinir í dómkröfum áfrýjenda, en viðurkennt var á hinn bóginn samkvæmt 2. mgr. 5. gr. og c. lið 7. gr. laga nr. 58/1998 að þau væru afréttareign þeirra, sem teldu til réttinda yfir Mælifelli og Selsárvöllum.

Áfrýjendur höfðuðu mál þetta 17. janúar 2008 og er ekki deilt um að það hafi verið gert innan þess frests, sem um ræðir í 1. mgr. 19. gr. laga nr. 58/1998. Í héraði gerðu áfrýjendur efnislega sömu kröfur og þeir gera fyrir Hæstarétti, en með héraðsdómi var stefndi sýknaður af þeim.

II

Eins og ráðið verður af framansögðu lýtur mál þetta að tveimur landsvæðum í Vopnafjarðarhreppi, sem óbyggðanefnd fjallaði um í úrskurði 29. maí 2007. Áfrýjendurnir Veiðiklúbburinn Strengur ehf. og Sunnudalur ehf. telja til eignarréttar að svæðinu, sem nefnt er Mælifell, en sá fyrrnefndi ásamt áfrýjandanum Heljardal ehf. að svæðinu Selsárvöllum. Þessi landsvæði liggja samhliða, Mælifell að austan og Selsárvellir að vestan, til norðvesturs upp frá bökkum Selár, sem fellur áfram eftir Selárdal um 24 km til sjávar í Vopnafirði frá austurmörkum Mælifells, þar sem Almenningsá fremri rennur í Selá.

Í málatilbúnaði áfrýjenda er merkjum Mælifells lýst þannig að þau ráðist að norðaustan af Almenningsá fremri um 4 km leið frá Selá til upptaka fyrrnefndu árinnar, en frá þeim stað af um 10 km langri línu, sem liggur beint norðvestur í hornmark í Miðfjarðarárdrögum. Handan þeirra merkja er land, sem eigendur jarðarinnar Hamars telja til eignarréttar yfir og fjallað er um í hæstaréttarmálinu nr. 293/2010, sem rekið er samhliða þessu máli. Frá hornmarkinu í Miðfjarðarárdrögum er sveitarfélagamörkum fylgt vestur um 6 km leið að svokallaðri Sýslumannsvörðu, en norðan þeirra marka er svæði, sem nefnt er Afréttur Þórshafnarhrepps og telst til þjóðlendna samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar 29. maí 2007 í máli nr. 4/2005. Frá þeirri vörðu er farið eftir beinni línu um 6 km suðaustur að upptökum Selsár og henni síðan fylgt að ósum í Selá, en þangað eru í beinni loftlínu rúmlega 11 km til suðausturs frá upptökunum. Merkin á þessu bili liggja að Selsárvöllum, en frá suðurenda þeirra merkja ræður Selá loks að fyrrnefndum mótum við Almenningsá fremri um 1 km austar. Handan Selár mun vera land jarðanna Hauksstaða og Rjúpnafells.

Eins og áfrýjendur lýsa merkjum Selsárvalla eru þau til norðausturs móts við Mælifell og var greint frá þeim hér að framan. Að norðvestan fylgja merki Selsárvalla beinni línu frá fyrrnefndri Sýslumannsvörðu um 5 km suðvestur í fjallið Einbúa og eru þau þar á móti Afrétti Þórshafnarhrepps, sem áður var getið. Frá Einbúa fara merkin tæplega 6 km í suður eftir beinni línu að Ytri-Hrútá á mörkum Vopnafjarðarhrepps og Norðurþings og ná þau á því bili að landsvæði, sem nefnt er sameignarland Fagradals, Víðirhóls, Hólssels og Nýhóls í Norðurþingi, en ágreiningur um hvort það landsvæði skuli talið til þjóðlendna er til úrlausnar í hæstaréttarmálinu nr. 40/2011. Merkin að suðvestan fylgja síðan Ytri-Hrútá þar til hún fellur í Selá og er vegalengdin þar á milli um 14 km í beinni loftlínu. Handan við þau merki er land, sem deilt er um í hæstaréttarmálinu nr. 75/2011 hvort talið skuli til eignarlands Grímsstaða í Norðurþingi eða þjóðlendna. Loks ráðast merkin frá ósum Ytri-Hrútár af Selá norðaustur að merkjum Mælifells á mótum hennar og Selsár, en þar á milli eru um 10 km í beinni loftlínu. Handan Selár á þessu svæði mun vera land Hauksstaða.

Í úrskurði óbyggðanefndar er landi Mælifells lýst þannig að samnefnt fjall, sem nái 822 m hæð yfir sjávarmáli, sé sunnan til í landinu, en undir fjallinu suður til Selsár sé land nokkuð gróið í um 400 m hæð. Að norðanverðu tilheyri svæðið Mælifellsheiði, sem sé háslétta í um 500 m hæð, en norðan og austan fjallsins renni Mælifellsá, sem fellur í Selá skammt austan við ós Selsár. Um Selsárvelli segir í úrskurðinum að syðst og austast séu Búastaðatungur milli Selsár og Selár í um 360 til 400 m hæð, en þegar vestar dragi og norðar hækki landið í yfir 500 m. Þar sé Sandhnjúkavatn í 540 m hæð, en austan við það og sunnan séu Sandhnjúkar, sem nái hæst 771 m. Norðvestan vatnsins sé fjallið Einbúi, 823 m hátt.

Í málinu liggur ekkert fyrir um að byggð hafi verið á landsvæðunum, sem nú eru kennd við Mælifell og Selsárvelli, fyrr en á 19. öld, svo sem nánar verður rakið hér á eftir.

III

Samkvæmt gögnum málsins er að finna elstu heimildir um Mælifell í Máldögum Vilchins biskups fyrir kirkjum í Skálholtsbiskupsdæmi frá árinu 1397, þar sem sagði að Allra heilagra kirkja að Hofi í Vopnafirði ætti „heimaland allt ok tungoland allt ok sirexstade. asdisarstade. saudardal og brunahuam. staksfell ok mælefell ok egguersholma ij fyrir skalanese med rekvm ok flvtningum“. Í Gíslamáldögum frá því um 1570 sagði með líkum hætti að kirkja allra heilagra að Hofi ætti „heimaland alltt. og Tunguland alltt og Syraxstade. Asdijsarstade. Saudardal og Brunahuamm. Staxfell og Mælefell og eggversholma tuo fyrer Skälanese med rekum og fluttningum“. Í vísitasíubók Brynjólfs biskups Sveinssonar var fært á árinu 1641 að „Allra Heilagra Kyrkia ad Hofe j Vopnafirde á Heimaland allt, Tungu land allt og Sijreksstade, Álfdysarstade, Saudárdal Brúna Huamm, Staksfell og Mælifell, hun á Skála land allt, og flutning allann og uidreka. Sköruuyk, Kumlauyk, Vidauyk, Fremri Nypur, Skoga, Riupnafell. hun á Steinuarar tungu alla“.

 Sýslumaður Norður-Múlasýslu mældi út land 18. ágúst 1829 undir tvö nýbýli í svonefndum Almenningi í Vopnafjarðarhreppi, Hamar og Þorvaldsstaði, á grundvelli tilskipunar 15. apríl 1776 um fríheit fyrir þá, sem vilja upp taka eyðijarðir eða óbyggð pláss á Íslandi, og gaf amtmaður í framhaldi af því út eignarheimildir fyrir þeim nýbýlum 5. nóvember sama ár. Jörðin Hamar á sem áður segir land norðaustan við þau merki Mælifells, sem áfrýjendur halda fram í málinu. Í útmælingargerðinni var þess meðal annars getið að við hana væri mættur nafngreindur umboðsmaður vegna „HofsKyrkiu, hvörri Land tiáist eignad vera fyrir framan Almenníng“.

Í skýrslu 10. janúar 1844 yfir eignir Hofsprestakalls var meðal annars getið undir liðnum „Afréttir eður Heiðarlönd“ um „Staxfell og Mælifell sem stundum líka brúkast fyrir afrétt af nokkrum Mönnum.“ Í úrskurði óbyggðanefndar er þess og getið að 14. maí sama ár hafi verið gerð lögfesta fyrir Hofskirkju, sem ekki hefur verið lögð fram í máli þessu, en þar mun meðal annars vera að finna eftirfarandi ummæli: „Innan Vopnafjardar þingsóknar tilheyrir Kyrkiunni hér á Hofi eptir authoriserudum Máldögum eptirfylgiandi Rekaítök á Bændaeignum m.m. ... k. Mælifells Land allt – ad svokölludum Búastadatúngum undanteknum – samt Staxfell.“

Í jarðamati fyrir Norður-Múlasýslu 1849 sagði meðal annars eftirfarandi: „Hof – Med Eidibylunum Hofsborg og Steinvarartúngu ... I Afréttartolla fyrir Upprekstur á Steinvarartungu gialdast til Jafnadar 60 Fiskar árlega, enn fyrir Upprekstur í svokallad Mælifellsland vid Selárdal, 40 fiskar árlega. ... Jördinn med bádum Eydibylunum öllum Hlunnindum og Itökum var vyrdt á 3,800 ... rbd.“

Í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi segir að Mælifell „telst nýbýli stofnað í afréttarlandi Hofskirkju 1854“. Í málinu liggur fyrir bréf amtmanns til sýslumanns Norður-Múlasýslu 29. nóvember 1855, þar sem vísað var til þess að með bréfi þess síðarnefnda 18. sama mánaðar hafi verið framsent „bónarbréf frá Arngrími bónda Jósephssyni á nýbýlinu Mælifelli um að öðlast skatt og tíundarfrelsi samkvæmt tilskipun 15. Apríl 1776 § 10, og fylgdi þar með skýrsla hlutaðeigandi sveitarstjóra um afstöðu og notkun Mælifells lands að undanförnu. Fyrir þessa sök bið eg Yður þénustusamlega að tilkynna téðum Arngrími að þareð Mælifells land hefir verið notað að undanförnu og eptir það goldið, fæ eg ekki séð að hann geti krafist þeirra réttinda er áðurnefnd lagagrein heimilar nýbýlismönnum, því síður, sem eingin regluleg útvísun á landi til nýbýlisins hefir átt sér stað.“

Prestur á Hofi gerði 26. janúar 1856 byggingarbréf, þar sem bræðrunum Arngrími og Vigfúsi Jósepssonum var byggt „til allra löglegra leigulidanota hid svokallada Mælifells land, er tilheyrir Hofskyrkju, ad undanskildri túngunni milli Mælifellsár og Almenníngsár hinnar fremri, - þó svoleidis, ad ytri partur nefnds lands frammad skridu nidurundan ytri enda á hamrabelti, sem liggr á midju fellinu er mót 3/5 portum afgjaldsins byggdt hinum fyrrnefnda – Arngrími Jósepssyni, en fremri parturinn móti 2/5 portum afgjaldsins hinum sídarnefnda Vigfúsi Jósepssyni.“ Af gögnum málsins verður ráðið að á svokölluðum ytri parti landsins, sem um ræddi í bréfi þessu, hafi staðið nýbýlið Mælifell, en á fremri partinum, þeim vestari, hafi risið annað nýbýli með heitinu Fossvellir. Aftur gerði prestur á Hofi byggingarbréf fyrir „framparti af Mælifellslandi“ 11. apríl 1861 handa „bóndanum Birni Guðmundssyni á Torfastöðum“ og skyldi hann gjalda „eptir land þetta árlega tvo sauði“. Í þriðja sinn gerði síðan prestur byggingarbréf 20. júní 1865 til Arngríms Jósepssonar fyrir „hið nú svonefnda Fossvallna land undir Mælifelli“ gegn sama eftirgjaldi og síðast var getið, en tekið var fram að engin hús fylgdu landi þessu. Samkvæmt því, sem fram er komið í málinu, munu Fossvellir hafa ári fyrr farið í eyði og byggð ekki verið tekin þar upp á ný.

Í skýrslu um tekjur Hofskirkju 6. júní 1867 var í lið um „Tekjur af ískyldum, ítökum og hlunnindum, sem fylgja prestakallinu eptir máldögum“ getið í undirliðnum „Öðrum leigð“ meðal annars um „Mælifellsland (þar sem nú er byggður bær, sem kirkjan á ekki)“.

Landamerkjabréf var gert 22. febrúar 1886 „fyrir jörðinni Mælifelli í Vopnafirði“, þar sem merkjum hennar var lýst sem hér segir: „Selá ræður að Selsárósi, þá ræður Selsá að upptökum, þaðan sjónhending í há Bungu og þaðan í Heljardalsfjall, þaðan í há Kistufell og úr því sjónhending í upptök Innri-Almenningsár, síðan ræður hún í Selá, og svo hún að Selsá.“ Undir þetta bréf, sem var þinglesið 11. júní 1886, ritaði prestur á Hofi, svo og eigandi jarðarinnar Hamars og maður, sem nefndur var „umboðsmaður Búastaðatungna“.

Mælifell mun hafa farið í eyði á árinu 1906. Að tilhlutan sýslumanns mátu tveir nafngreindir menn 30. maí 1912 „til peningaverðs eyðibýlið Mælifell í Vopnafirði sem er eign Hofskirkju“. Í mati þeirra var meðal annars vísað til þess að land Mælifells lægi „innst upp úr Selárdal og er landið þar mjög mjótt meðfram Selá. Landið uppfrá Selá er alt grasivaxið uppað svokallaðri „Ufs“ og uppað Mælifellsbænum sem var enn er nú niðurrifinn, einnig er graslendi suður með Mælifellshnúk og í svokölluðum Grænafellsdokkum vestan hnúksins. Graslendi þetta er sem næst ¼ af landi því er telst til býlisins ... Nú eins og áður er getið hefur Hofsprestur selt öll húsin af býli þessu til niðurrifs, og engar líkur eru til að býlið komist í ábúð aftur eftir að hafa staðið í eyði í 6 ár. Þar oss er kunnugt um að það er nú tilgangur kaupanda að brúka land þetta fyrir afrjett. Landskuld af býlinu er oss kunnugt um að var kr. 30,oo, en eigi er oss kunnugt um hvort þar í hafi falist leiga eftir kúgildi, þar oss hafa engin skilríki borist í hendur frá presti Hofsprestakalls. Við álítum því að það sé hlutverk okkar að meta hvað margt fje að land þetta beri sem afrjettar land í samanburði við afrjetti hjer í kring og er það álit okkar að það beri 300 400 fjár og afrjettar tollur hjer er vanalega 2-3 aurar á kind. Eftir því sem að framan er sagt þá er það álit okkar að Mælifell sé hæfilega virt Kr. 275.oo.“ Ráðherra Íslands gaf út í framhaldi af þessu afsal 15. september 1913 til Jörgens Sigfússonar, sem nefndur var „leigjandi Mælifellslands í Vopnafjarðarhreppi“, fyrir „greint leiguland hans Mælifellsland“ og var kaupverð þess 275 krónur.

Jörgen Sigfússon mun hafa látist 1928 en eftir sem áður verið þinglýstur eigandi að Mælifelli þar til að gengnum dómi Héraðsdóms Austurlands 8. janúar 2004 í eignardómsmáli, sem 23 nafngreindir menn höfðuðu 5. nóvember 2003 til að fá eignarheimild meðal annars fyrir eyðijörðinni Mælifelli, sem svo var nefnd í dómkröfum þeirra. Í málinu var ekki tekið til varna gegn kröfum stefnenda, sem kváðust á nánar tiltekinn hátt leiða rétt sinn frá Jörgen, og voru þær teknar að fullu til greina. Í dóminum var einskis getið um merki þessa landsvæðis.

IV

Eftir gögnum málsins munu elstu heimildir um land innan þeirra merkja Selsárvalla, sem áfrýjendur halda fram, vera í skýrslu um svokallaða húsaskoðun á Búastöðum í Vopnafjarðarhreppi 29. mars 1658, en í framhaldi af lýsingu landamerkja þeirrar jarðar sagði að „Búastader eige tveggia hundrada Lands Westur i heide sem kallast Búastadatúngur fyrer nordan Selä, ä mille Hrútär og Selsär.“ Þá liggur einnig fyrir skjal 23. júlí 1666 með vitnisburði fjögurra nafngreindra manna, sem kváðust staðfesta að þeir hafi séð og samlesið kaupbréf fyrir Búastaði frá 15. apríl 1592, en þar hafi meðal annars verið getið um að undir jörðina ættu „Túngurnar allar j midlum Selsär, og Gäsadalsär; þetta land alt itolu laust“.

Í jarðamati fyrir Norður-Múlasýslu 1849 sagði meðal annars um Búastaði að „Jördinni er eignad Afréttarland í Selárdal sem mjög er afnotalítid“.

Í úrskurði óbyggðanefndar kemur meðal annars fram að í sóknarmannatali fyrir Hofssókn í Vopnafirði hafi á árinu 1851 verið getið um býlið Aðalból, en fyrir liggur í málinu að það hafi verið austarlega í Búastaðatungum við syðri bakka Selsár. Oddur Guðmundsson í Krossavík í Vopnafirði gerði 22. febrúar 1859 „Byggingarbrjef f. Buastadatúngum“, þar sem nafngreindum bændum á Aðalbóli og Rjúpnafelli var hvorum að helmingi leigt þetta landsvæði, sem ekki var afmarkað nánar. Í bréfi þessu var tekið fram að leigutökunum bæri þó gegn sanngjörnu endurgjaldi að una því að bændur á Búastöðum hefðu þau not af tungunum, sem þeir kynnu að æskja og leigutakarnir mættu missa. Samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar var í manntali frá árinu 1860 getið um Aðalból og Selsárvelli sem hjáleigur án þess að nefnt væri frá hvaða jörð, en ekkert hefur komið að öðru leyti fram í málinu um hvenær búseta hafi byrjað á býlinu Selsárvöllum. Á Aðalbóli mun hafa verið búið til 1863 og svo aftur frá 1877 til 1878, þegar byggð lagðist þar endanlega af. Virðingargerð fór fram 10. maí 1872 að ósk Ólafar Stefánsdóttur í Krossavík, sem mun hafa verið ekkja eftir áðurnefndan Odd Guðmundsson, á húsum á Selsárvöllum, en nafngreindur eigandi þeirra var sagður vera búsettur í Ytri-Hlíð í Vopnafjarðarhreppi og ritaði hann jafnframt undir gerðina sem „seljandi“. Selsárvellir munu svo hafa farið í eyði á árinu 1878.

Þess er getið í úrskurði óbyggðanefndar að landamerkjabréf fyrir Búastaði hafi verið þinglesið 24. júní 1884 og hafi Búastaðatungur ekki verið nefndar þar. Þess er einnig getið í úrskurðinum að greint sé frá því í ritinu Sveitir og jarðir í Múlaþingi að fyrrnefnd Ólöf Stefánsdóttir hafi á árinu 1893 selt Búastaði, en haldið þá eftir Búastaðatungum, sem hafi síðan fylgt Krossavík.

Í gerðabók vegna fasteignamats árið 1918 segir um Selsárvelli að þeir hafi ekki verið í byggð frá 1880, en eigandi sé Jörgen Sigfússon í Krossavík, sem hafi keypt þá „fyrir nokkrum árum“ fyrir 100 krónur. Þar kemur einnig fram að ónafngreindur „ábúandi“ hafi lýst merkjum Selsárvalla á eftirfarandi hátt: „Selsá ræður mörkum frá ósi að upptökum, þaðan sjónhending á há „Bungu“ þaðan eftir fjallgarði þeim, sem skiftir löndum milli Vopnafjarðar og Fjallahrepps að Hrútá. Þá ræður Hrútá þar til hún fellur í Selá: úr því ræður Selá að Selsárósi.“

Í málinu liggur fyrir bréf sýslumanns Norður-Múlasýslu 31. desember 1974 með yfirskriftinni „Selsárvellir“, þar sem segir eftirfarandi: „Að sögn Björns Sigmarssonar, Krossavík, standa Selsárvellir rétt innan við Selsá, og tilheyrir jörðinni öll tungan (Búastaðatungur) norðaustan Selár milli Selsár að utan og Hrútár ytri að innan. En vatnaskil (sýslumörk) ráða að norðaustan.“ Þetta skjal mun hafa verið fært í landamerkjabók.

Eins og áður greinir mun Jörgen Sigfússon hafa látist 1928. Ekki liggur fyrir í málinu hvort hann hafi haft þinglýsta eignarheimild að Selsárvöllum, en í fyrrnefndum dómi Héraðsdóms Austurlands 8. janúar 2004 í máli, sem höfðað var af mönnum sem kváðust leiða rétt sinn frá Jörgen, var meðal annars kveðið á um eignarrétt þeirra að eyðijörðinni Selsárvöllum, sem svo var þar nefnd. Ekki var í dóminum getið um merki Selsárvalla, en honum var þinglýst 30. janúar 2004 sem eignarheimild að landinu.

V

Í hinum áfrýjaða dómi kemur fram hvernig landnámi í Vopnafirði er lýst í Landnámabók. Af þeirri lýsingu verða engar ályktanir dregnar um hversu langt inn til landsins einstök landnámsvæði hafa getað náð. Til þess verður að líta að land Mælifells er eftir Selárdal í um 24 km fjarlægð frá ströndum Vopnafjarðar og er land Selsárvalla um 1 km fjær. Þá urðu jarðirnar Hamar, sem liggur að norðausturmörkum Mælifells, og Þorvaldsstaðir, sem liggja næst fyrir norðaustan Hamar, fyrst til á árinu 1829 með útmælingu lands undir nýbýli eftir ákvæðum tilskipunar 15. apríl 1776 úr svokölluðum Almenningi, sem fram að því mun ekki hafa verið háður beinum eignarrétti. Að þessu virtu eru ekki efni til að ætla að beinn eignarréttur geti hafa stofnast yfir landi Mælifells eða Selsárvalla með námi.

Í fyrrnefndum heimildum frá árunum 1397, 1570 og 1641 er Mælifell talið meðal eigna kirkjunnar að Hofi. Hvorki er þar né í öðrum gögnum, sem liggja fyrir í málinu, rætt um Mælifell sem hluta af jörðinni Hofi, sem er í Hofsárdal í Vopnafirði og á hvergi land að Mælifelli, en um 11 km eru þangað frá bæjarstæði á Hofi. Í áðurgreindri talningu eigna Hofskirkju í þessum þremur heimildum er getið um Mælifell ásamt Staksfelli í tengslum við jarðir, sem henni tilheyrðu, og verður ekki ráðið glöggt af þeim heimildum einum hvers konar réttindi hún hafi átt yfir þessum löndum. Að því verður á hinn bóginn að gæta að hvergi er í málinu rætt um að búið hafi verið á öldum áður á Mælifelli eða Staksfelli, en Staksfell er heiti á fjalli um 6 km fyrir norðan fjallið Einbúa á norðvestur hornmarki Selsárvalla og er það innan landsvæðis, sem nefnt er Afréttur Svalbarðshrepps og telst til þjóðlendna samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar í máli nr. 4/2005. Þá var í fyrrnefndri skýrslu um eignir Hofsprestakalls frá 1844, lögfestu fyrir Hofskirkju frá sama ári og skýrslu um tekjur hennar frá 1867 rætt um Mælifell og eftir atvikum Staksfell meðal afrétta og heiðarlanda, ítaka, ískyldna og hlunninda, sem tilheyrðu kirkjunni eftir máldögum. Í jarðamati frá 1849, sem áður var getið, var ekki rætt um Mælifell meðal jarða eða eyðibýla, sem áttu undir Hof, en á hinn bóginn var þar greint frá afréttartolli, sem greiddur var fyrir upprekstur í landið. Að þessu öllu virtu verður að líta svo á að Hofskirkja hafi svo langt sem heimildir þessar ná átt óbein eignarréttindi yfir fjallinu Mælifelli ásamt ótilgreindu landsvæði kringum það til afréttarnota, en ekki bein eignarréttindi að þessu landi. Byggingarbréf, sem prestur á Hofi gerði eins og áður segir á árunum 1856, 1861 og 1865 fyrir landi á þessu svæði, geta í því efni engu breytt, enda er ljóst af bréfi amtmanns 29. nóvember 1855 að ekki hafi að lögum verið stofnað þar til nýbýla.

Prestur á Hofi gerði eins og áður segir landamerkjabréf 22. febrúar 1886 fyrir Mælifell, sem þar var nefnt jörð. Lýsingin í bréfinu á merkjum þessa landsvæðis er fjarstæð, enda tók það samkvæmt henni meðal annars til verulegs hluta lands, sem haldið er fram í málinu að heyri til Selsárvalla, auk þess sem það náði langt inn á Afrétt Svalbarðshrepps, Afrétt Þórhafnarhrepps og land jarðarinnar Hamars samkvæmt landamerkjabréfi fyrir hana frá árinu 1885. Í kröfugerð áfrýjenda í máli þessu er heldur ekki byggt á þeirri lýsingu, sem hér um ræðir. Að því leyti, sem dómkröfur áfrýjenda ná til lands sem helga átti Mælifelli með landamerkjabréfinu 22. febrúar 1886, er þess að gæta að í dómum Hæstaréttar, sem gengið hafa í málum um mörk eignarlanda og þjóðlendna, hefur ítrekað verið vísað til þess að með slíkum bréfum sé ekki unnt að auka einhliða við lönd eða önnur réttindi umfram það, sem verið hafði, en líta verði meðal annars til þess hvort til séu eldri heimildir, sem styðji slík réttindi. Hér háttar svo til samkvæmt áðursögðu að eldri heimildir veita því ekki stoð að landsvæðið Mælifell hafi verið háð beinum eignarrétti og getur hann ekki hafa stofnast með því einu að gert hafi verið landamerkjabréf fyrir það.

Stefndi seldi sem fyrr greinir Jörgen Sigfússyni „Mælifellsland“ með afsali 15. september 1913. Hér áður var rakið að sú ráðstöfun átti þann undanfara að tveimur mönnum var falið að meta hið selda til verðs, en í virðingargerð þeirra var meðal annars vísað til þess að þeim væri kunnugt um að það væri „tilgangur kaupanda að brúka land þetta fyrir afrjett“ og teldu þeir því hlutverk sitt vera að „meta hvað margt fje að land þetta beri sem afrjettar land“. Á þeim grunni töldu þeir að „Mælifell sé hæfilega virt“ á 275 krónur, sem var síðan stuðst við sem söluverð í áðurnefndu afsali. Leggja verður til grundvallar að Jörgen Sigfússyni hafi verið kunnugt um þetta mat, bæði niðurstöðu þess og þá forsendu hennar að hið selda væri metið til verðs sem réttindi yfir afrétti. Án tillits til orðalags afsalsins, sem mun hafa verið gert á prentuðu eyðublaði undir afsöl fyrir kirkjujörðum með nokkrum breytingum, gat þessi ráðstöfun ekki hafa með réttu vakið væntingar hjá kaupandanum um að hann væri með afsalinu að eignast annað og meira en þau afnotaréttindi af landinu, sem stefndi hafði á færi sínu að ráðstafa. Þessi atvik geta því ekki staðið í vegi þess að stefndi krefjist að land Mælifells verði talið til þjóðlendu, sem háð verði sömu afréttarnotum þeirra, sem leitt geta rétt sinn frá Jörgen Sigfússyni.

Áðurgreindar heimildir um land, sem áfrýjendur telja innan marka Selsárvalla, lúta í meginatriðum aðeins að þeim hluta þess, sem nefndur hefur verið Búastaðatungur, en á þeim voru áðurnefnd býli Aðalból og Selsárvellir. Eftir gögnum málsins var ekki stofnað til nýbýla þar eftir ákvæðum tilskipunar 15. apríl 1776. Í heimildum frá 16. og 17. öld kemur fram að Búastaðatungur hafi eins og heiti þeirra ber með sér átt undir jörðina Búastaði, en hún er í Vesturárdal í Vopnafirði. Bæjarhús þar eru í um 13 km fjarlægð frá mörkum Selsárvalla á bökkum Selár og að þeim eiga Búastaðir hvergi land. Í þessum heimildum er ekkert að finna, sem stutt getur annað en að Búastaðatungur hafi verið afréttarland Búastaða, svo sem tekið var fram í fyrrnefndu fasteignamati frá árinu 1849. Byggingarbréf og aðrar áðurgreindar ráðstafanir eigenda Búastaða á 6. til 8. áratug 19. aldar, sem varða land á þessu svæði, geta engu um það breytt að gögn málsins standa ekki til annarrar ályktunar en þeirrar að þeir hafi aðeins notið óbeinna eignarréttinda að Búastaðatungum til afréttarnota, en um umfang tungnanna eða landsvæðisins Selsárvalla í heild liggja engin haldbær gögn fyrir, enda hefur það aldrei verið afmarkað með landamerkjabréfi eða á annan viðhlítandi hátt.

Eins og ráðið verður af áðurgreindu ráðstöfuðu forráðamenn kirkjunnar að Hofi landi í Mælifelli og eigendur Búastaða landi á Selsárvöllum undir býli frá því um miðja 19. öld og virðast meðal annars hafa áskilið sér landsleigu eins og þessi svæði væru háð beinum eignarrétti þeirra þar til þessi býli fóru eitt af öðru í eyði, það síðasta á árinu 1906. Þótt þessar gerðir kunni að hafa verið slíkar að forráðamenn Hofs og eigendur Búastaða hafi farið með umráð þessara landsvæða svo sem þau væru háð beinum eignarrétti þeirra og þau umráð kunni að auki að hafa verið öðrum sýnileg, sbr. dóm Hæstaréttar 3. júní 2010 í máli nr. 198/2009, verður að gæta að því að með dómi réttarins 7. október 2010 í máli nr. 379/2009 var því slegið föstu að eignarréttur yfir fasteign hafi ekki við aðstæður sem þessar getað stofnast með óslitnu eignarhaldi yfir henni fyrir gildistöku laga nr. 46/1905 um hefð. Ekkert liggur fyrir um að slík umráð hafi haldist yfir þessum landsvæðum eftir þetta nema að því er varðar býlið Mælifell, en það var farið í eyði áður en sá tími var kominn að hefð hefði getað unnist yfir því landi samkvæmt sérreglu 12. gr. sömu laga. Ekki hefur verið sýnt fram á það í málinu að þessi landsvæði hafi frá árinu 1906 verið höfð til annars en hefðbundinna afréttarnota og þá einkum til sumarbeitar fyrir búfénað. Slík afnot geta ekki leitt af sér beinan eignarrétt að landinu samkvæmt ákvæðum laga nr. 46/1905, þótt á grundvelli þeirra geti hafa stofnast sú afréttareign þeirra, sem telja til réttinda yfir Mælifelli og Selsárvöllum, sem viðurkennd var í úrskurði óbyggðanefndar.

Samkvæmt 122. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála getur sá leitað eignardóms, sem sannar eða gerir sennilegt að hann hafi öðlast eignarrétt yfir fasteign, en skortir skilríki fyrir þeim rétti sínum. Þeir, sem samkvæmt áðursögðu fengu eignardóm 8. janúar 2004 fyrir réttindum, sem Jörgen Sigfússon var þá enn talinn njóta yfir Mælifelli og Selsárvöllum, urðu með dóminum eins settir og ef gefin hefði verið út skiptayfirlýsing um ráðstöfun þessara réttinda eftir andlát Jörgens. Slík skiptayfirlýsing hefði í engu breytt réttarstöðu dómhafanna og áfrýjenda, sem rekja réttindi sín til þeirra, gagnvart ákvæðum laga nr. 58/1998 og leiðir þá af sjálfu að dómurinn frá 8. janúar 2004 gerir það ekki heldur.

Að öllu þessu gættu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjenda hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, Veiðiklúbbsins Strengs ehf., Sunnudals ehf. og Heljardals ehf., fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns þeirra, 500.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 8. desember 2009.

Mál þetta, sem upphaflega var tekið var til dóms 19. janúar 2009, en endurupptekið 30. janúar og 20. nóvember sl., og þá dómtekið að nýju, er höfðað með stefnu, birtri 17. janúar 2008.

Stefnendur eru Veiðiklúbburinn Strengur ehf., Háaleitisbraut 63, Reykjavík og Sunnudalur ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi, eigendur Mælifells í Vopnafjarðarhreppi, og Veiðiklúbburinn Strengur ehf., Háaleitisbraut 63, Reykjavík og Heljardalur ehf., Smáratorgi 3, Kópavogi, eigendur Selsárvalla, einnig í Vopnafjarðarhreppi.

Stefndi er íslenska ríkið.

Dómkröfur

I.       Endanlegar kröfur eigenda Mælifells eru þær, aðallega, að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í málinu nr. 3/2005, þess efnis að ofangreind jörð sé þjóðlenda, þ.e. eftirfarandi úrskurðarorð:

„Mælifellsland, svo sem það er afmarkað hér á eftir, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:

Frá þeim stað þar sem Almenningsá fremri rennur í Selá ræður Selá að Selsárósi. Þá ræður Selsá að upptökum. Þaðan er dregin bein lína í Sýslumannsvörðu á mörkum Vopnafjarðarhrepps og Þórshafnarhrepps og þeim mörkum síðan fylgt í Miðfjarðarárdrög. Úr Miðfjarðarárdrögum er farið í Upsabrúnir og þaðan er Almenningsá fremri fylgt aftur í Selá.

Sama landsvæði er í afréttareign Mælifells, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, sem nýtur veiðiréttar í Selá, samkvæmt II. kafla laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006.“

Sömu stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra eignarheimilda Mælifells, og þar með þess að allt land Mælifells sé eignarland í samræmi við landamerkjabréf frá 22. febrúar 1885, þó þannig afmarkað:

Selá ræður að Selsárósi, þá ræður Selsá að upptökum, þaðan sjónhending í há Bungu og þaðan í Miðfjarðarárdrög, þaðan í há Kistufell og úr því sjónhending í upptök Innri-Almenningsár, síðan ræður hún í Selá og svo hún að Selsá.

II.     Endanlegar kröfur eigenda Selsárvalla eru þær, aðallega, að felldur verði úr gildi úrskurður óbyggðanefndar frá 29. maí 2007 í málinu nr. 3/2005, þess efnis að ofangreind jörð sé þjóðlenda, þ.e. eftirfarandi úrskurðarorð:

„Selsárvellir, svo sem landsvæðið er afmarkað hér á eftir, er þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998:

Selá ræður frá Selsárósi þar til Ytri-Hrútá fellur í hana. Þaðan ræður Ytri-Hrútá að sýslumörkum. Sýslumörkum er fylgt í Einbúa og þaðan í Sýslumannsvörðu á mörkum Vopnafjarðarhrepps og Þórshafnarhrepps, síðan í upptök Selsár. Loks er Selsá fylgt í Selá og er þá komið að hinum fyrstnefnda punkti.

Sama landsvæði er í afréttareign þeirra aðila sem kallað hafa til réttinda yfir Selsárvöllum í máli þessu, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. sömu laga.“

Sömu stefnendur krefjast þess að viðurkennt verði að enga þjóðlendu sé að finna innan þinglýstra eignarheimilda Selsárvalla, og þar með að allt land Selsárvalla sé eignarland í samræmi við kröfulýsingu og landamerkjabréf jarðarinnar frá 31. desember 1974, þannig:

Selsárvellir rétt innan við Selsá, og tilheyrir jörðinni öll tungan (Bústaðatungur) norðaustan Selár milli Selsár að utan og Hrútár ytri að innan. En vatnaskil (sýslumörk) ráða að norðaustan.

Til vara krefjast stefnendur þess sameiginlega að merki Mælifells og Selsárvalla til norðvesturs gagnvart þjóðlendu ráðist af vatnaskilum, úr Há-Bungu í upptök Selsár og í Kistufell, allt í samræmi við kröfulýsingu til óbyggðanefndar og framlagðan uppdrátt.

Til þrautavara gera stefnendur sameiginlega þá kröfu að merki Mælifells og Selsárvalla til norðvesturs gagnvart þjóðlendu ráðist af sömu merkjum og í varakröfu íslenska ríkisins fyrir óbyggðanefnd, þ.e. frá Ytri-Hrútá, þar sem hún fellur í Selá, síðan eftir Ytri-Hrútá að meginupptökum hennar, þaðan beina stefnu í meginupptök Mælifellsár, norðvestan Mælifells, og síðan eftir Mælifellsá þar til hún fellur í Selá.

 Loks krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðu málskostnaðaryfirliti, eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefndi, íslenska ríkið, krefst sýknu af öllum dómkröfum stefnenda og málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt mati dómsins. Til vara er þess krafist að hvor aðili um sig beri sinn kostnað af málinu.

Málavextir

Stefnendur eru þinglýstir eigendur Mælifells og Selsárvalla í Vopnafjarðarhreppi. Með bréfi 1. mars 2004 tilkynnti óbyggðanefnd fjármálaráðherra að nefndin hefði ákveðið að taka til umfjöllunar landsvæði sem tæki yfir sveitarfélög í Múlasýslum, auk hluta Norður-Þingeyjarsýslu, sbr. 8. gr. og 1. mgr. 10. gr. laga nr. 58/1998, um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta. Kröfulýsingar fjármálaráðherra bárust óbyggðanefnd 11. nóvember 2004. Með auglýsingu í Lögbirtingablaðinu og dagblöðum tilkynnti óbyggðanefnd um meðferð á ofangreindu svæði og útdrátt úr kröfum ríkisins, um leið og skorað var á þá sem töldu til eignarréttinda á landsvæðinu að lýsa kröfum sínum fyrir nefndinni í síðasta lagi 31. mars 2005. Sá frestur var síðar framlengdur lítillega og lýstu stefnendur kröfum sínum í samræmi við þinglýstar eignarheimildir. Að loknum munnlegum málflutningi fyrir óbyggðanefnd var málið tekið til úrskurðar og úrskurður kveðinn upp 29. maí 2007 í málinu nr. 3/2005, Vopnafjarðarhreppur. Niðurstaða óbyggðanefndar var sú að hvorki land Mælifells né Selsárvalla teldist til eignarlanda. Þess í stað töldust þau bæði til þjóðlendu í skilningi 1. gr., sbr. a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998, en jafnframt afréttareign þeirra aðila sem kallað höfðu til réttinda yfir þeim, sbr. 2. mgr. 5. gr. og c-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. Þá fylgdi afréttareign Mælifells veiðiréttur í Selá, samkvæmt II. kafla laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006.

Í rökstuðningi óbyggðanefndar fyrir niðurstöðu sinni vegna Mælifells segir m.a. svo: „Óbyggðanefnd telur að framangreind takmörkuð afnot, beit og veiði, leiði ekki til þess að beinn eignarréttur að afréttarsvæði þessu hafi unnist fyrir hefð, sbr. lög nr. 46/1905. Hefur því hvorki verið stofnað til beins eignarréttar á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar né hefðar en af því leiðir að Mælifell hefur ekki öðlast stöðu jarðar að lögum, sbr. umfjöllun um hugtakið jörð í Almennum niðurstöðum óbyggðanefndar. Í afsali ráðherra Íslands á Mælifellslandi gat ekki falist frekri yfirfærsla eignarráða en áður heyrði Hofskirkju til og efni afsalsins 1913, auk aðdragandi þeirra viðskipta, getur einnig samrýmst því að þar hafi verið seldur afréttareign, þ.e.a.s. hefðbundinn réttur til upprekstrar og veiði.  Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á að umrætt landsvæði, auðkennt sem Mælifell, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Þá leiðir rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að á umræddu landsvæði sé þjóðlenda og er fallist á kröfu íslenska ríkisins þess efnis.“

Í rökstuðningi nefndarinnar fyrir niðurstöðu vegna Selsárvalla segir hins vegar: „Að öllu framangreindu virtu hefur ekki verið sýnt fram á að umrætt landsvæði, auðkennt sem Selsárvellir, sé eignarland, hvorki fyrir nám, löggerninga né með öðrum hætti. Þá leiðir rannsókn óbyggðanefndar einnig til þeirrar niðurstöðu að á umræddu landsvæði sé þjóðlenda og er fallist á kröfu íslenska ríkisins þess efnis.“

Stefnendur geta ekki fallist á niðurstöðu óbyggðanefndar og hafa því höfðað mál þetta.

Málsástæður og lagarök stefnenda

Aðalkrafa stefnenda er á því reist að ráða megi af Landnámu að allt land í Vopnafjarðarhéraði hafi í öndverðu verið numið og undirorpið beinum eignarrétti síðan. Sérstaklega benda þeir á að samkvæmt lýsingu Landnámu nam Hróaldur bjóla, fóstbróðir Eyvindar vopna, land fyrir vestan Vestradalsá, dalinn hálfan og Selárdal allan út til Digraness, og bjó að Torfastöðum. Þó telja þeir ólíklegt að Hróaldur hafi búið á Torfastöðum í Vesturárdal, enda hafi bær hans þá verið í jaðri hins víðlenda landnáms. Nær væri að ætla að bústaður hans hafi verið að Hróaldsstöðum í Selárdal, enda sé þar nóg landrými og stutt til sjávar. Þrátt fyrir að Landnáma hafi oft verið túlkuð þannig að hún styðji við beinan eignarrétt, t.d. í dómum Hæstaréttar Íslands frá 1960, bls. 726 og 1994, bls. 2228, telja stefnendur engu að síður að taka verði hana með fyrirvara sem réttarheimild. Hins vegar hafna þeir sjónarmiðum stefnda, þess efnis að landnám hafi ekki náð til heiða og fjalla í Selárdal, enda byggist þau ekki á neinum sönnunargögnum og fari í bága við heimildir um búsetu, gróðurfar og nýtingu landsins. Telja þeir ljóst að landið hafi við landnám verið mun grónara en í dag, eða upp í 600 – 700 metra hæð, og því geti atriði eins og staðhættir, víðátta og gróðurfar ekki ráðið úrslitum þegar lagt sé mat á það nú hvort landið sé háð eignarrétti eður ei. Þá halda stefnendur því fram að óbyggðanefnd hafi fallist á að allt land í Vopnafirði hafi verið numið í öndverðu, m.a. Smjörfjöllin, sem rísi hæst í 1255 m hæð yfir sjávarmáli. Því séu engin rök fyrir því að land stefnenda, sem liggi mun lægra og að mestu vel gróið, hafi þá ekki verið numið. Stefnendur vísa einnig til þess að ýmsar heimildir um landamerki jarða í Vopnafirði séu ævafornar, t.d. máldagar, vísitasíur og lögfestur, og bendi þær til þess að fullkominn eignarréttur eigenda hafi verið virtur á landinu. Einnig benda þeir á ýmsar aðrar skjallegar heimildir, sem styðji kröfur þeirra, og nefna þar kaupbréf Brynjólfs biskups Sveinssonar fyrir hluta Búastaða árið 1657, húsaskoðun á Búastöðum 1658, þar sem lýst er mörkum Búastaðatungna, vitnisburð frá 1666 um kaupbréf fyrir Búastöðum, þar sem Tungum er einnig lýst,  sóknarmannatal Hofskirkju frá sjötta og sjöunda áratug 19. aldar, byggingarbréf fyrir Mælifellslandi, Fossvallalandi og Búastaðatungum  1856, 1859 og 1865, skýrslu um tekjur og útgjöld Hofsprestakalls 1867, virðingargerð á húsum að Aðalbóli árið 1872, úttekt á eyðibýlinu Mælifelli 1912, afsal ráðherra Íslands á Mælifellslandi til Jörgens Sigfússonar árið 1913, auk lýsinga á svæðinu og sögu þess, sem finna megi í bókinni Sveitir og jarðir í Múlaþingi. Loks vísa stefnendur til dóms Héraðsdóms Austurlands 8. janúar 2004 þar sem viðurkenndur var eignarréttur þeirra að  eyðijörðunum Mælifelli, Hamri og Selsárvöllum.

Stefnendur vísa til þess að eignarrétturinn sé friðhelgur, sbr. 72. gr. stjórnarskrárinnar og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu.  Byggja þeir kröfur sínar á landamerkjabréfum umræddra jarða, bréfi Mælifells frá 22. febrúar 1885 og bréfi Selsárvalla frá 31. desember 1974, en bréfunum hafi verið þinglýst, þau færð í landamerkjabók án athugasemda og hafi síðan ráðið merkjum jarðanna. Einnig byggja stefnendur á afsali ríkisins fyrir Mælifelli frá 1913. Þá vísa þeir sérstaklega til eignardóms um landsvæðið frá 8. janúar 2004. Á grundvelli framlagðra gagna telja stefnendur úrskurð óbyggðanefndar rangan og í andstöðu við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar lýðveldisins Íslands nr. 33/1944.

Eignarréttarkröfu sína byggja stefnendur jafnframt á þeirri meginreglu eignarréttar að jörð með þinglýstum landamerkjum sé eignarland, og beri sá sem haldi öðru fram sönnunarbyrði fyrir því. Halda stefnendur því fram að land umræddra jarða hafi frá landnámi verið undirorpið beinum eignarrétti og fari landnámsheimildir ekki í bága við landamerkjabréf  jarðanna. Telja stefnendur ljóst að við landnám hafi landið verið vel gróið.

Stefnendur minna á að við setningu landamerkjalaganna nr. 5/1882, og síðan laga nr. 41/1919, hafi það verið ætlun löggjafans að framkvæmdarvaldið hefði frumkvæði að því að gengið yrði frá landamerkjum jarðeigna, þau skráð og leyst úr ágreiningi um þau, ef hann væri fyrir hendi. Samkvæmt því byggja stefnendur á því að landamerkjabréf jarðanna bendi til þess að um sé að ræða landsvæði, sem háð sé beinum eignarrétti. Umrædd landamerkjabréf séu einnig byggð á eldri heimildum, og vísa stefnendur þar til byggingarbréfa vegna Mælifells frá 1856, 1861 og 1865, en til fasteignamats, að því er varðar Selsárvelli, svo sem rakið sé í úrskurði óbyggðanefndar. Telja þeir að eldri heimildir fari ekki gegn landamerkjabréfunum. Í kröfugerð ríkisins fyrir óbyggðanefnd hafi heldur ekkert komið fram sem bendi til annars en að allt land innan landamerkja jarðanna hafi verið nýtt sem fullkomið eignarland eftir búskaparháttum og aðstæðum á hverjum tíma. Þá telja stefnendur að það hafi mikla þýðingu að eigendur hafi um langt skeið gengið út frá því að merkjum væri rétt lýst og eigendur grannjarða virt og viðurkennt merkin. Eigendur jarðanna hafi sjálfir nýtt öll landgæði þeirra og hafi samþykki þeirra þurft við nýtingu annarra. Skattar og önnur lögboðin gjöld hafi einnig verið greidd af landinu og eignarnámsbætur greiddar til eigenda, m.a. vegna línustæða símans og húss á vegum símans.  Þannig hafi eignarréttur stefnenda og forvera þeirra verið virtur frá ómunatíð í öllum viðskiptum varðandi landsnytjar. Eignarhaldið byggi því enn fremur á viðskiptavenju.

Með ofanritað í huga byggja stefnendur mál sitt einnig á 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, en hann hafi lagagildi hér á landi og veiti eignarréttinum sjálfstæða vernd, samhliða ákvæði stjórnarskrárinnar. Bendi dómar Evrópudómstólsins til þess að réttmætar væntingar aðila til eignarréttar, sem byggist á því að ríkisvaldið hafi með athöfnum eða athafnaleysi viðurkennt eignarréttinn, t.d. með dómum, í samningum, við opinbera skattlagningu og með því að þinglýsa eignaskjölum athugasemdalaust um áratuga skeið, séu varðar af mannréttindaákvæðunum. Á grundvelli jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga, um að sambærileg mál hljóti sömu niðurstöðu, telja stefnendur að ekki verði gerðar ríkari sönnunarkröfur á hendur þeim en öðrum jarðeigendum hér á landi. Þá telja stefnendur að hafa beri í huga að hugtakið „eign“ í skilningi 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu hafi af Mannréttindadómstóli Evrópu verið túlkað á þá leið að það hefði sjálfstæða merkingu. Í því felist að um eign geti verið ræða í skilningi ákvæðisins, þótt dómstólar viðkomandi aðildarríkis hafi ekki talið hið sama vera eign samkvæmt innanlandsrétti.

Eignarréttarkröfur stefnenda eru einnig reistar á hefð og venjurétti. Um ómunatíð hafi allir litið svo á að land jarðanna væri eignarland, og hafi enginn haldið öðru fram fyrr en stefndi nú, við meðferð þjóðlendumála á svæðinu. Byggja stefnendur á því að úr því að hefðarlög heimili eignarhefð lands í opinberri eigu, hljóti þeim mun fremur að vera unnt að hefða land sem ekki sé eignarrétti háð. Sjónarmið stefnenda um hefð séu því til frekari staðfestingar náminu og til þess að festa í sessi eignarrétt þeirra. Þessu til stuðnings vísa stefnendur til dóma Hæstaréttar frá 1997, bls. 2792 og 1939, bls. 28, þar sem eignarhefð hafi verið viðurkennd, svo og til dóms Mannréttindadómstóls Evrópu í máli helgu klaustranna gegn Grikklandi frá 9. desember 1994. Um leið árétta þeir að útilokað sé að fullyrða um rétta afmörkun og órofa yfirfærslu eignarréttinda frá landnámi til dagsins í dag, en telja verði  eðlilegt að stefndi beri hallann af þeim vafa. Hins vegar telja stefnendur ljóst að farið hafi verið með þrætusvæðið sem eignarland, og sé engar heimildir að finna um almenningsafrétt á því. Landeigandi gat því bannað öðrum not landsins og vísa stefnendur þar um til samninga landeigenda gegnum tíðina um leigu landsréttinda, m.a. undir mannvirki. Telja stefnendur augljóst að slíkt hefði ekki verið gert, ef vafi léki á um eignarhald landeiganda.

Í ljósi fyrirliggjandi gagna um ráðstöfun landsins halda stefnendur því fram að þeir hafi fært fram nægar heimildir fyrir eignartilkalli sínu, og því sé stefnda að sanna að landið sé þjóðlenda. Loks telja stefnendur að venjur varðandi fjallskil geti ekki ráðið úrslitum, þegar tekin sé afstaða til þess hvort jarðirnar séu að öllu leyti háðar beinum eignarrétti. Því til stuðnings vísa stefnendur til úrskurðar óbyggðanefndar um uppsveitir Árnessýslu frá 21. mars 2002.

 Stefnendur taka einnig fram að með lögum nr. 58/1998 hafi það ekki verið ætlun löggjafans að svipta landeigendur eignarheimildum sem þeir hafi aflað og notið athugasemdalaust um áratuga skeið, með því að gera þeim að sýna fram á órofna sögu eignarréttar þeirra frá landnámi, en láta þá ella bera hallann af vafa um slíkt. Því verði lög nr. 58/1998 ekki skýrð á þá leið að stefnendur, sem þinglýstir eigendur jarðanna, þurfi frekar að sýna fram á að umrætt landsvæði sé eignarland, og þar með utan þjóðlendu. Í ljósi eignarheimilda sinna og viðurkenningar ríkisins í reynd, hafi eigendur jarðanna lengi haft réttmætar ástæður til að vænta þess að afréttirnir væru eign þeirra, sem yrði ekki af þeim tekin bótalaust.  

Stefnendur árétta að kröfur þeirra byggist á þinglýstum landamerkjabréfum og öðrum skráðum eignarheimildum, fornum og nýjum, sem þeir hafi fyrir eign sinni og hafi lagt fyrir dóminn. Þær eignarheimildir séu jafnframt  í samræmi við fasteignamöt frá 1916-1918 og 1930-1932. Sérstaklega vísa þeir til eignardóms Héraðsdóms Austurlands í málinu nr. 310/2003, þar sem viðurkenndur hafi verið eignarréttur þáverandi eigenda að jörðunum Hamri, Mælifelli og Selsárvöllum.

Stefnendur mótmæla niðurstöðum í úrskurði óbyggðanefndar og leggja áherslu á eftirfarandi atriði:

Í fyrsta lagi horfi óbyggðanefnd fram hjá tilgangi laga um þjóðlendur, sem fyrst og fremst hafi verið sá að gera ríkið að eiganda landsvæða sem enginn ætti, svo sem hluta afrétta og jökla á miðhálendi Íslands. Óbyggðanefnd eigi því að finna út hver þessi eigendalausu landsvæði séu. Land Mælifells og Selsárvalla sé hins vegar ekki eigendalaust, eins og heimildarskjöl vitni um. Þá benda þeir á að samkvæmt 1. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998 sé að finna skilgreiningu á eignarlandi og falli sú skilgreining að þrætusvæðinu, þar sem eigendur hafi farið með öll venjuleg eignarráð þess. Í sama ákvæði sé einnig að finna skilgreiningu á þjóðlendu. Telja stefnendur að leggja verði sönnunarbyrði á stefndu um tilvist þjóðlendu innan landamerkja þrætusvæðanna. Stefnendur telja einnig óumdeilt að þrætusvæðið sé innan upphaflegs landnáms, miðað við landnámslýsingar. Því sé það stefnda að sýna fram á að beins eignarréttar stefnenda njóti ekki við innan þinglýstra merkja. Byggja stefnendur á því að sú sönnunarregla sé eðlileg með hliðsjón af því að stefnendur hafi lagt fram þinglýst landamerkjabréf fyrir landinu, eignardóm og margvísleg önnur gögn, er sýni að innan landamerkjanna hafi eignarréttur stefnenda verið virtur af öllum aðilum.

Í öðru lagi mótmæla stefnendur þeirri staðhæfingu óbyggðanefndar að landamerkjabréf Mælifells frá 1886 sé ekki nothæft til viðmiðunar um eignarrétt Mælifells. Telja þeir þá niðurstöðu fráleita í ljósi áðurnefndra og eldri eignarheimilda um landsvæðið og lýsingu merkja aðliggjandi jarða. Í því efni benda þeir sérstaklega á að eignarrétt Hofskirkju, sem stefnendur leiði rétt sinn frá, megi rekja til máldaga Vilkins biskups frá 1397, þar sem minnst sé á Mælifell sem eign Hofskirkju. Hið sama komi fram í máldögum Gísla Jónssonar frá um 1570 og visitasíu Brynjólfs Sveinssonar frá 1641. Til frekari stuðnings eignarheimild Hofskirkju nefna þeir byggingarbréf séra Halldórs Jónssonar á Hofi til bræðranna Arngríms og Vigfúsar Jósefssona fyrir Mælifelli frá árinu 1856, auk bréfs Péturs Havsteins amtmanns til Þorsteins Jónssonar sýslumanns frá 29. nóvember 1853, en í því bréfi biðji amtmaður sýslumann um að tilkynna Arngrími Jósefssyni á Mælifelli að ekki sé unnt að verða við bón hans um skatt- og tíundarfrelsi samkvæmt 10. gr. nýbýlatilskipunarinnar, þar sem jörðin hafi verið notuð að undanförnu og eftir hana goldið, og þaðan af síður þar sem engin útvísun hafi farið fram. Þá telja þeir að eignarheimild Hofskirkju að landi þessu fái ótvíræðan stuðning í lýsingu skoðunarmanna við áreið á Almenning 18. ágúst 1829 til útmælingar á tveimur nýbýlum. Takmörkum Almennings og Mælifells sé þar þannig lýst: „Ad sunnan- edr framan-verdu er Almenníngur adskilin frá Landsplátsi því, er Túnga nefnist, og Hofs Kyrkiu tilheyrir, vid Þverá er fremri Almenníngsá kallast, hvöred fellr af brúnum,...“

Með ofanritað í huga telja stefnendur ljóst að landamerkjabréf Mælifells styðjist við eldri heimildir. Hinu sama gegni um landamerkjalýsingu Selsárvalla. Þótt ekki sé þar um formlegt landamerkjabréf að ræða, telja stefnendur það einu gilda þar sem sú lýsing styðjist við eldri merkjalýsingar, svo sem lýsinguna í fasteignamati Norður-Múlasýslu 1916-1918. Komi þar fram að jörðin hafi verið óbyggð síðan 1880, en einnig að beitiland sé nærtækt og eigi hún mikið upprekstrarland. Einnig sé þar að finna lýsingu ábúanda á landamerkjum hennar. Telja stefnendur að sú landamerkjalýsing sé í fullu samræmi við lýsingu á Búastaðatungum frá 1658.

Stefnendur taka einnig fram að landamerkjabréf Mælifells frá 1886 sé áritað um samþykki aðliggjandi jarða í sveitarfélaginu, og styðjist að auki við efnahagsleg, söguleg og náttúruleg rök. Þannig falli mörk hreppa og jarða saman og í meginatriðum falli þau að landfræðilegum mörkum, svo sem vatnsföllum og vatnaskilum, þar sem þannig hátti til. Tilvísun til Hábungu og Heljardalsfjalls í landamerkjabréfi Mælifells vísi fyrst og fremst til stefnuviðmiðana.

Óbyggðanefnd hafi komist að þeirri niðurstöðu að enginn sameiginlegur afréttur sé á svæðinu, þ.e. afréttur sem nefndin nefni stundum samnotaafrétt. Af því leiði að landið sé hluti af jörðunum, og sé það í samræmi við heimildir Landnámu um að Vopnafjörður hafi allur verið numinn í öndverðu. Jafnframt telja stefnendur það rökleysu hjá óbyggðanefnd að telja landið utan merkja jarða, en engu að síður í „afréttareign“ viðkomandi jarðar, enda hafi það orð ekki skýra lögfræðilega merkingu.

Í þriðja lagi hafna stefnendur rökstuðningi óbyggðanefndar um að eignarhefð hafi ekki unnist á þrætusvæðinu. Benda þeir á að í úrskurði nefndarinnar komi fram að við mat á því hvort tekist hafi að fullna eignarhefð yfir landsvæði skipti máli hvort það sé innan eða utan landamerkja jarðar, en einnig að gildistaka hefðarlaga 1905 skipti máli og hljóti að styrkja eignartilkall í slíkum tilvikum. Fá stefnendur ekki séð hvers vegna þessi sjónarmið óbyggðanefndar eigi hér ekki við, þar sem þrætusvæðið sé innan athugasemdalausra þinglýstra landamerkja og háð einkanýtingarrétti stefnenda. Engu að síður komist nefndin að þeirri niðurstöðu að land innan þinglýstra merkja þessara eyðijarða sé ekki eignarland, að landamerkjabréf þeirra séu gerð einhliða og að með þeim hafi ekki stofnast til eignarréttar yfir landi jarðanna. Telja stefnendur að niðurstaða óbyggðanefndar sé röng, og vísa þá til dómafordæma, bæði innanlands og utan, en einnig sé hún í andstöðu við jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar.

Í fjórða lagi mótmæla stefnendur niðurstöðu óbyggðanefndar um þýðingu kaupa forvera stefnenda á jörðinni Mælifelli árið 1913 og síðar eignardómi um báðar jarðirnar, sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Austurlands 8. janúar 2004. Telja stefnendur ljóst að með þeim dómi hafi beinn eignarréttur að landsvæðinu verið staðfestur og að afmörkun jarðanna miðaðist við þinglýst landamerki þeirra. Í ljósi þessa eignardóms eigi stefnendur lögmæta væntingu til þess að jarðirnar teljist eignarland. Árétta þeir að eignardómsmál þetta hafi verið höfðað eftir gildistöku þjóðlendulaga og hafi ríkinu því verið í lófa lagið að láta málið til sín taka, ef það hefði verið ósátt við dómkröfur, sem birtar voru í Lögbirtingablaðinu. Hvorki óbyggðanefnd né íslenska ríkið hafi heimild til að endurskoða eða fara á svig við  niðurstöðu héraðsdóms. Því til stuðnings vísa stefnendur til dóma Hæstaréttar í málum nr. 48/2004 og 496/2005.

Að lokum telja stefnendur að fullnægjandi rökstuðning skorti fyrir niðurstöðu óbyggðanefndar í úrskurði hennar. Fari úrskurður nefndarinnar því í bága við ákvæði 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 16. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998. Benda þeir á að engin rök séu færð fram fyrir þeirri niðurstöðu að eignarréttur á svæðinu hafi fallið niður, þrátt fyrir áratuga búsetu þar. Telja þeir fráleitar hugmyndir nefndarinnar um ráðstöfun eigenda landsins á einhverjum tíma, án eignarréttar.

Varakrafa stefnenda byggist á því að vatnaskil á svæðinu ráði mörkum þess. Slík afmörkun sé í samræmi við úrskurði óbyggðanefndar um afmörkun á jörðum sem liggi utar í Selárdal. Að öðru leyti er vísað til sömu sjónarmiða og í umfjöllun um aðalkröfu.

Um þrautavarakröfu vísa stefnendur til röksemda ríkisins í kröfulýsingu þess til óbyggðanefndar. Að öðru leyti er vísað til sömu röksemda og fyrir aðalkröfu þeirra.  

Um lagarök vísa stefnendur til 72. gr. stjórnarskrárinnar um friðhelgi eignarréttarins, sbr. og 1. gr. 1. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu um vernd eignarréttarins, sbr. lög nr. 62/1994 um lögfestingu sáttmálans. Einnig er vísað til þjóðlendulaga nr. 58/1998, stjórnsýslulaga nr. 37/1993, námulaga nr. 24/1973 og laga nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Þá er byggt á meginreglum eignarréttar um venjurétt og óslitin not, sem og almennum reglum samninga- og kröfuréttar, hefðarlögum nr. 14/1905, almennum reglum um ítaksrétt og stofnun ítaka, um traustfang og traustnám, svo og almennum reglum íslensks réttar um tómlæti. Um heimild til samaðildar stefnenda er vísað til 19. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. 

Málsástæður og lagarök stefnda

 Af hálfu stefnda, íslenska ríkisins, er á því byggt að landsvæði þau sem mál þetta varði séu svæði utan eignarlanda og teljist þannig þjóðlenda í samræmi við úrskurð óbyggðanefndar, sbr. 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998. Telur stefndi fullljóst af heimildum að landsvæðin hafi aldrei verið undirorpin beinum eignarétti og að nýting þeirra hafi ekki verið með þeim hætti. Sönnunarbyrði um tilvist beins eignaréttar að landsvæðunum, eða einstökum hlutum þeirra, hvíli ótvírætt á stefnendum. Að dómi stefnda byggir óbyggðanefnd úrskurði sína á umfangsmikilli upplýsingaöflun og rannsóknum á framlögðum gögnum, ásamt skýrslum sem gefnar hafi verið fyrir nefndinni. Hafi nefndin talið ótvírætt að við gildistöku laga nr. 58/1998 hafi hin umdeildu landsvæði talist til afrétta samkvæmt þeirri eignaréttarlegu flokkun lands sem almennt var miðað við fram til þess tíma. Þá tekur stefndi undir þau sjónarmið óbyggðanefndar að fyrirliggjandi heimildir bendi til þess að um sé að ræða afréttarsvæði, sem ekki séu undirorpin beinum eignarrétti. Gerir stefndi niðurstöður nefndarinnar að sínum, til stuðnings sýknukröfu sinni.

Stefndi tekur fram að Mælifells sé fyrst getið í Vilkinsmáldaga frá 14. öld, þar sem svæðið sé talið eign Hofskirkju. Hið sama eigi við í máldaga Gísla Jónssonar frá um 1570 og visitasíu Brynjólfs Sveinssonar frá 1641, svo og í síðari visitasíum. Sérstakt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir svæðið 22. febrúar 1886 og því þinglýst 11. júní sama ár. Tekur stefndi undir þau sjónarmið óbyggðanefndar að þrátt fyrir að landsvæðið hafi verið í byggð um skammt árabil, eða árin 1854 – 1906, verði ekki séð að sú búseta hafi verið í skjóli eignarréttar, né að leitt hafi verið í ljós að þar hafi verið stofnað til nýbýlis á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar frá 1776. Ekki liggi fyrir byggingarbréf frá amtmanni fyrir nýbýli á svæðinu.

Að því er varðar Búastaðatungur segir stefndi að þeirra sé fyrst getið í heimild frá árinu 1658, og þá tilheyrandi  jörðinni Búastöðum í Vesturárdal. Hið sama komi fram í vitnisburði frá 1666 og jarðamati frá 1849. Um miðja 19. öld hafi verið stofnað til búsetu þar, og virðist stefndu sem eigendur Krossavíkur, sem jafnframt áttu þá Búastaði, byggi landið að hluta til a.m.k., en áskilja Búastaðabændum eftir sem áður rétt til afnota af því. Komi þar a.m.k. þrír bæir við sögu, þ.e. Selsárvellir, Aðalból og Selárbakki.  Búseta hafi þó verið stopul og endanlega aflögð árið 1878. Ekki verði séð að sú búseta hafi verið í skjóli eignaréttar, né að stofnað hafi verið til nýbýlis á svæðinu á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar frá 1776. 

Stefndi leggur á það áherslu að sérstakt landamerkjabréf hafi ekki verið gert fyrir Selsárvelli í kjölfar gildistöku landamerkjalaganna frá 1882.  Hinn 31. desember 1974 hafi  merkjum Selsárvalla hins vegar verið lýst í yfirlýsingu frá sýslumanni Norður-Múlasýslu, en merkjalýsing sé þar höfð eftir Birni Sigmarssyni í Krossavík. Kveðst stefndi sammála þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar að ekki verði litið á umrædda yfirlýsingu sem landamerkjabréf, í samræmi við fyrirmæli landamerkjalaga nr. 41/1919, enda um einhliða yfirlýsingu að ræða.

Stefndi kveðst hafna því að viðurkenningardómur Héraðsdóms Austurlands frá 8. janúar 2004, í málinu nr. E-310/2003, veiti dómhöfum betri eða víðtækari réttindi til umþrætts landsvæðis en sá hafi haft sem þeir leiði rétt sinn frá. Tekur stefndi þannig undir sjónarmið óbyggðanefndar um að dómhafi sé ekki í annarri eða betri stöðu en afsalshafi, sem geti samkvæmt almennum reglum þurft að færa á það sönnur að í afsali hafi falist raunveruleg yfirfærsla á eignaréttindum. Megi í því sambandi t.d. vísa til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2004 og nr. 496/2005. Af framangreindum eignardómi  héraðsdóms leiði því hvorki að í „eyðijörðunum Mælifelli og Selsárvöllum“, eins og orðað er í dómsorði, felist tiltekin eignaréttindi né afmörkun hugsanlegs réttindasvæðis.

Með vísan til ofanritaðs tekur stefndi undir með óbyggðanefnd að hvorki svæði Mælifells né Selsárvalla hafi stöðu jarðar að lögum, einkum þar sem ekki njóti við neinna gagna sem rennt geti stoðum undir eignarhald að landsvæðunum.

Af hálfu stefnda er á því byggt að þótt landamerkjabréf hafi verið gert fyrir landsvæði, verði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Með því að gera landamerkjabréf hafi menn ekki einhliða getað aukið við land sitt eða annan rétt, sbr. dómur Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004. Við mat á gildi landamerkjalýsingar svæðisins verði einnig að horfa til þess að ekki verði séð að samþykki allra eigenda aðliggjandi jarða liggi fyrir. Um leið ítrekar stefndi að yfirlýsing um landamerki Selsárvalla frá árinu 1974 verði ekki talin landamerkjabréf, enda ekki í samræmi við fyrirmæli laga nr. 41/1919. Leggur hann einnig áherslu á að við mat á gildi landamerkjabréfa beri að hafa í huga að landamerkjabréf feli fyrst og fremst í sér sönnun um mörk milli eigna, en ekki að allt land innan merkja skuli teljast óskorað eignarland. Þrátt fyrir að þessum bréfum sé þinglýst hljóti þinglýsingin að vera þeim takmörkunum háð að ekki sé unnt að þinglýsa meiri rétti en viðkomandi eigi. Slíku eigendalausu landi geti aðeins löggjafinn ráðstafað. Sæki lýsing landamerkjabréfs ekki stoð í eldri heimildir dragi það úr sönnunargildi bréfsins, eins og ráða megi af fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004.

Krafa stefnda er einnig á því reist að engin gögn liggi fyrir um að umþrætt landsvæði hafi nokkurn tíma verið byggt eða nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé, eða annarra takmarkaðra nota, utan þess skamma tíma sem svæðið var í byggð. Þannig sé Mælifell flokkað með afréttum/heiðarlöndum Hofskirkju í heimildum frá fyrri hluta 19. aldar, og komi þar fram að þangað sé rekið fé gegn greiðslu afréttartolls. Sú aðgreining, sem felist í því að Mælifell sé ekki hluti af eiginlegu landi Hofskirkju, en jafnan getið með sérstökum hætti í heimildum og einnig beinlínis nefnt afréttur eða ítak Hofskirkju, bendi til þess að þar hafi verið afréttur kirkjunnar í þeim skilningi að hún hafi átt þar óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarétt. Hið sama verði og ráðið af afsali ráðherra Íslands árið 1913, þar sem Mælifellslandi var afsalað til leigjanda þess, Jörgens Sigfússonar, en í matsgerð vegna sölunnar komi fram að matsmenn hafi álitið það hlutverk sitt að meta hversu margt fé land þetta bæri sem afréttarland. Þar sem ekki hafi verið leidd að því haldbær gögn, sem sýnt geti fram á stofnun beins eignarréttar að landsvæðinu, gat í fyrrgreindu afsali ekki falist frekari yfirfærsla eignarráða en áður heyrðu Hofskirkju til. Sé það í samræmi við þá meginreglu að seljandi geti ekki afsalað víðtækari eignarréttindum en sannanlega séu á hans hendi, sbr. til hliðsjónar hæstaréttardóma 1997, bls. 1183 og 1997, bls. 1162.  Almennt hafi hið sama verið talið gilda um ríkið í þessu sambandi og aðra aðila. Því verði að telja að með afsalinu hafi eingöngu verið seld afréttareign, þ.e.a.s. hefðbundinn réttur til upprekstrar og veiði. Við þetta mat verði einnig að horfa til efnis afsalsins og aðdraganda viðskiptanna. Þá byggir stefndi á því að ekki verði annað ráðið af heimildum en að Búastaðatungur (Selsárvellir) hafi lengst af eingöngu verið nýttar til sumarbeitar fyrir búfé og annarra takmarkaðra nota. Búastaðatungna sé jafnan getið með sérstökum hætti í heimildum um Búastaði, í samræmi við það sem oft sjáist þegar fjallað sé um nytjasvæði jarða, enda séu Búastaðatungur ekki hluti af eiginlegu landi Búastaða, sem liggi í Vesturárdal. Telur stefndi að staðhættir styðji ofangreind sjónarmið, þar sem um heiðarlönd sé að ræða, fjarri byggð. Þá þykir stefnda það einnig styðja þau sjónarmið, að til beins eignaréttar hafi ekki stofnast á svæðinu, að fjallskil hafi verið á hendi sveitarfélagsins, landsvæðið ekki afgirt og þangað hafi búfénaður getað leitað frá öðrum svæðum án hindrana. Um afréttarnotkun og fjallskil hafi snemma verið settar opinberar reglur, sem sveitarstjórnum var falið að annast framkvæmd á.

Stefndi bendir einnig á að því sé ekki lýst í Landnámu hversu langt upp til fjalla og inn til lands landnám hafi náð á þessu svæði. Með hliðsjón af staðháttum og fjarlægðum frá byggð verði þó að telja ólíklegt að land á hinu umþrætta landsvæði hafi verið numið í öndverðu. Annars vegar sé um að ræða landsvæði Mælifells, sem að norðanverðu tilheyri Mælifellsheiði, hásléttu sem liggi í um 500 m hæð yfir sjávarmáli. Sunnan hennar rísi Mælifell (822 m) og undir því, norðan Selsár, sé land nokkuð gróið, í u.þ.b. 400 m hæð. Hins vegar sé landsvæði Selsárvalla, sem sé háslétta í yfir 400 m hæð yfir sjávarmáli. Syðst og austast á svæðinu séu Búastaðatungur, á milli Selsár og Selár, í 360 – 400 m hæð.

Stefndi áréttar að sönnunarbyrðin, um að til eignarréttar hafi verið stofnað við landnám, hvíli á þeim sem haldi slíku fram. Í samræmi við dómafordæmi teljist heimildarskortur hvað þetta varði leiða til þess að telja verði ósannað að heiðarlönd eða öræfasvæði hafi verið numin í öndverðu. Þessu til stuðnings bendir stefndi á dóma Hæstaréttar í málum nr. 67/1996 og nr. 48/2004. Verði hins vegar talið að svæðið hafi verið numið í öndverðu, heldur stefndi því fram að það hafi ekki verið numið til eignar heldur eingöngu til takmarkaðra nota, svo sem afréttarnota, enda hafi menn í aldanna rás ekki aðeins helgað sér ákveðin landsvæði sem háð voru beinum eignarrétti, heldur einnig ítök, afrétti og öll önnur réttindi sem einhverja þýðingu gátu haft fyrir afkomu þeirra, sbr. til hliðsjónar dómar Hæstaréttar í málum nr. 67/2006 og nr. 27/2007 . Verði niðurstaðan engu að síður sú að svæðið kunni, að hluta eða að öllu leyti, að hafa verið innan landnáms eða undirorpið beinum eignarrétti, byggir stefndi á því til vara, að allar líkur séu á því að slíkt eignarhald hafi fallið niður og svæðið þá tekið til takmarkaðra nota, þ.e. afréttarnota.

Af hálfu stefnda er því mótmælt að skilyrði eignarhefðar séu fyrir hendi, m.a. með vísan til framanritaðra sjónarmiða um nýtingu landsins, staðhætti og eldri heimildir.  Nýting svæðisins hafi í aldanna rás ekki falist í öðru en sumarbeit fyrir búfénað, en hefðbundin afréttarnot geti ekki stofnað til beinna eignarréttinda yfir landi, sbr. til hliðsjónar dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2007 og 48/2004. Hins vegar kveðst stefndi sammála þeirri niðurstöðu óbyggðanefndar að möguleg hagnýting svæðisins fyrir setningu laga nr. 46/1905, um hefð, hafi ekki að þágildandi lögum getað stofnað til eignarréttar yfir landinu. Eftir að byggð lagðist þar af, annars vegar árið 1906 að Mælifelli, en hins vegar árið 1878 að Selsárvöllum (Búastaðatungum), hafi svæðið verið nýtt til beitar eins og annað heiðarland á þessum slóðum. Allt framanritað styðji þá staðhæfingu stefnda að landsvæðin hafi ekki verið háð beinum eignarrétti. 

Stefndi hafnar því að réttmætar væntingar geti verið grundvöllur fyrir eignarréttartilkalli á umræddu landsvæði, enda verði sú regla leidd af Landmannaafréttardómi Hæstaréttar, hinum síðari, að löggjafinn sé einn bær um að ráðstafa réttindum yfir landsvæði utan eignarlanda. Landslög þurfi til sölu eigna ríkissjóðs og breyti athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar þar engu um. Að auki þurfi væntingarnar að vera réttmætar, þ.e. að menn geti ekki haft væntingar til að öðlast meiri og frekari réttindi en þeir geti mögulega átt rétt á. Bendi heimildir, staðhættir, gróðurfar og nýting lands ekki til beins eignarréttar, eins og hér hátti til, geti réttmætar væntingar ekki stofnað til slíkra réttinda.   

Stefndi hafnar enn fremur þeim málatilbúnaði stefnenda að ákvæði þjóðlendulaga uppfylli ekki lagaskilyrði 72. gr. stjórnarskrár og 1. mgr. 1. gr. samningsviðauka við Mannréttindasáttmála Evrópu, og bendir á að með þjóðlendulögum sé ekki verið að gera eignir manna  upptækar, heldur skera úr um eignarréttindi.

Með vísan til fyrri röksemda telur stefndi að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að niðurstaða óbyggðanefndar, að því er varðar hin umþrættu svæði, hafi verið röng. Telur hann ljóst að landsvæðin falli undir skilgreininguna „landsvæði ... sem að staðaldri hefur verið notað til sumarbeitar fyrir búfé“, sbr. 1. gr. laga nr. 58/1998, og liggi engin gögn fyrir um mismunandi eignarréttarlega stöðu þeirra. Með þetta í huga byggir stefndi á því að umrætt landsvæði, eins og það er afmarkað í kröfugerð stefnenda, teljist þjóðlenda í skilningi 1. gr., sbr. einnig a-lið 7. gr. laga nr. 58/1998. 

Um lagarök vísar stefndi til almennra reglna eignarréttar, þjóðlendulaga nr. 58/1998 og 72. gr. stjórnarskrárinnar nr. 33/1944. Einnig er byggt á meginreglum eignarréttar um nám, töku og óslitin not, sem og meginreglum um eignarráð fasteignareigenda og almennum reglum samninga- og kröfuréttar. Þá vísar hann til hefðarlaga nr. 14/1905 og laga nr. 6/1986, um afréttarmálefni og fjallskil, en einnig til ýmissa eignarréttarákvæða Grágásar og Jónsbókar. Krafa hans um málskostnað er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

Niðurstaða    

Við úrlausn þessa máls ber að líta til þess að eftir gildistöku laga nr. 58/1998 hafa í Hæstarétti verið kveðnir upp dómar í allmörgum málum, þar sem skorið hefur verið úr ágreiningi um mörk þjóðlendna og eignarlanda. Eru þeir fordæmi að því leyti sem í þeim var fjallað um almenn atriði sem reynir á með sama hætti nú. Í dómi Hæstaréttar í máli nr. 48/2004 var rakið tilefni setningar laga nr. 58/1998 og gerð grein fyrir skilgreiningu laganna á þeim grundvallarhugtökum, sem notuð eru til að lýsa eignarréttindum yfir landi, þ.e. eignarlandi, þjóðlendu og afrétti.  Enn fremur var þar vikið að óbyggðanefnd, skipan hennar og hlutverki, svo og reglum sem gilda um málsmeðferð fyrir nefndinni. Í niðurstöðu þess dóms tók rétturinn almenna afstöðu til mats á gildi landamerkjabréfa og hvert væri inntak eignarréttar á svæði, sem í þeim væri lýst. Þar var sagt að almennt skipti máli hvort um væri að ræða jörð eða annað landsvæði, og einnig að landamerkjabréf fyrir jörð feli almennt í sér ríkari sönnun fyrir því að um eignarland sé að ræða, þótt jafnframt yrði að meta gildi hvers bréfs sérstaklega. Talið var að almennt yki það gildi landamerkjabréfs, væri það áritað um samþykki eigenda aðliggjandi jarða. Hins vegar yrði ekki litið fram hjá þeirri staðreynd að fyrir gildistöku laga nr. 58/1998 var engum til að dreifa, sem gat sem handhafi beins eignarréttar gert samninga um mörk þess lands sem nú kallast þjóðlenda. Jafnframt var þar sagt að þess yrði að gæta að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, umfram það sem verið hafði. Verði til þess að líta hvort til séu eldri heimildir, sem fallið geti að lýsingu í landamerkjabréfi, enda stangist sú lýsing ekki á við staðhætti, gróðurfar og upplýsingar um nýtingu lands. Í síðari dómum réttarins hefur verið áréttuð þýðing þess að landamerkjabréf hafi stuðning af öðru, og þá einkum eldri heimildum, þegar lagt er á það mat hvort landsvæði teljist innan lýstra merkja.

Af hálfu stefnenda er á því byggt að umþrætt landsvæði hafi verið numið í öndverðu. Telja þeir að sú staðhæfing fái stoð í lýsingu Landnámu um landnám í Vopnafjarðarhreppi, einkum þar sem segi að Hróaldur bjóla, fóstbróðir Eyvindar vopna,  hafi numið land fyrir vestan Vestradalsá, dalinn hálfan og Selárdal allan út til Digraness. Þá telja þeir ljóst að landið hafi við landnám verið mun grónara en í dag, eða upp í 600 – 700 metra hæð.

Þótt almennt sé nú viðurkennt að landið hafi við landnám verið grónara en í dag, veitir lýsing Landnámu á landnámi í Vopnafirði þó enga vísbendingu um hve langt upp til fjalla og inn til landsins landnámið náði á því svæði sem hér er deilt um. Engar afdráttarlausar ályktanir verða því dregnar um eignarréttarlega stöðu þessa svæðis út frá lýsingu Landnámu. Öðru máli gegnir þó um Böðvarsdal og Fagradal í Vopnafirði, en þar þykja lýsingar Landnámu, ásamt staðháttum, benda til þess að landið hafi verið numið. Hins vegar þykja staðhættir þess svæðis sem hér er deilt um, og fjarlægð þess frá byggð, draga úr líkum þess að þar hafi land verið numið í öndverðu og stofnað til beins eignarréttar.

Áður en lengra er haldið þykir rétt að fjalla um eignardóm Héraðsdóms Austurlands frá 8. janúar 2004 í málinu nr. 310/2003, en stefnendur vísa sérstaklega til þess dóms og byggja á því að með honum hafi því endanlega verið slegið föstu að umþrætt landsvæði væri undirorpið beinum eignarrétti stefnenda. Dóminum hafi ekki verið áfrýjað og eigi stefnendur því lögmætar væntingar til þess að jarðinar teljist eignarland þeirra.

Dómur þessi er ekki meðal gagna málsins, en í úrskurði óbyggðanefndar má lesa að nefndin hafi fjallað um hann og metið gildi hans fyrir kröfur stefnenda. Kemur þar fram að í dómsorði segi: „Viðurkenndur er eignarréttur stefnenda [...] að eyðijörðunum Mælifelli, landnúmer [...], Hamri, landnúmer [...] og Selsárvöllum, landnúmer [...], öllum í Vopnafirði ásamt öllu því sem þeim fylgir og fylgja ber ...“ í tilteknum eignarhlutföllum. Enn fremur segir þar að í forsendum dómsins komi fram að Jörgen Sigfússon sé þinglýstur eigandi Mælifells og liggi þar fyrir þinglýstur kaupsamningur. Frá andláti Jörgens á árinu 1928 hafi aldrei verið þinglýst skiptayfirlýsingu á jörðina og sé hún því enn skráð á nafn hans. Um Selsárvelli sé tekið fram að enginn sé skráður eigandi þess í þinglýsingabókum Sýslumannsins á Seyðisfirði, en þó liggi fyrir veðsetning Jörgens Sigfússonar í Krossavík á jörðinni frá árinu 1927. Hafi hún síðan óvéfengt verið talin í eigu Krossavíkur.

Í forsendum óbyggðanefndar er tekið fram að umræddur dómur grundvallist á 1. mgr. 122. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Samkvæmt því ákvæði veiti eignardómur dómhafa heimild til að ráða yfir og ráðstafa  eigninni eins og hann hefði í höndum afsalsbréf eða annað viðeigandi skjal. Skilyrði sé að hann hafi sannað eða gert sennilegt að hann hafi öðlast umkrafin réttindi með samningi eða hefð, en skorti skilríki fyrir réttindum sínum. Ljóst sé þannig að dómhafi sé ekki í annarri eða betri stöðu en afsalshafi, sem geti samkvæmt almennum reglum þurft að færa sönnur á að í afsali hafi falist raunveruleg yfirfærsla á eignarréttindum. Í því sambandi er t.d. vísað til dóma Hæstaréttar í málunum nr. 47/2004 og 496/2005. Niðurstaða óbyggðanefndar er sú að af framangreindum eignardómi verði hvorki leitt að í „eyðijörðunum Mælifelli og Selsárvöllum“ felist tiltekin eignarréttindi, né afmörkun hugsanlegs réttindasvæðis.

Fellst dómurinn á rökstuðning óbyggðanefndar, sem jafnframt er hinn sami og stefndi, íslenska ríkið, teflir m.a. fram til stuðnings sýknukröfu sinni.

Koma þá til skoðunar aðrar málsástæður sem stefnendur byggja kröfur sínar á fyrir hvort landsvæði um sig. Verður fyrst fjallað um Mælifell en síðan Selsárvelli. 

I. Land Mælifells

Eigendur Mælifells byggja eignarréttarkröfu sína m.a. á landamerkjabréfi fyrir jörðina Mælifell í Vopnafirði. Telja þeir að afmörkun svæðisins fái þar stuðning af eldri heimildum um lýsingu landsvæðisins og nýtingu þess. Í landamerkjaskrá, sem er meðal gagna málsins, og gerð er að Hofi 22. febrúar 1886, er mörkum jarðarinnar þannig lýst: „Selá ræður að Selsárósi, þá ræður Selsá að upptökum, þaðan sjónhending í há Bungu og þaðan í Heljardalsfjall, þaðan í há Kistufell og úr því sjónhending í upptök Innri-Almenningsár, síðan ræður hún í Selá, og svo hún að Selsá.“

Undir skrána rituðu Jón Jónsson, prestur á Hofi, Einar Jónsson, eigandi Hamars, og Jón Rafnsson, umboðsmaður Búastaðatungna. Skránni var þinglýst 11. júní 1886.

Upphaflega kröfðust eigendur Mælifells þess í stefnu að viðurkennt yrði að enga þjóðlendu væri að finna innan marka landamerkjaskrárinnar frá 1886. Við aðalmeðferð málsins breyttu þeir kröfu sinni þannig að í stað kröfulínu frá há Bungu í Heljardalsfjall er þess nú krafist að línan verði dregin frá há Bungu í Miðfjarðarárdrög. Skýra þeir breytingu þessa með því að í landamerkjaskránni sé fyrst og fremst verið að vísa til stefnuviðmiðana.

Á yfirlitskorti yfir jarðir í Vopnafjarðarhreppi, sem liggur frammi í málinu, er kröfulína eigenda Mælifells um viðurkenningu þeirra á beinum eignarrétti landsins samkvæmt aðalkröfu þeirra þannig dregin: Selá ræður frá þeim stað þar sem Almenningsá fremri rennur í hana og að Selsárósi. Þá ræður Selsá að upptökum. Þaðan er dregin bein lína í Sýslumannsvörðu á mörkum Vopnafjarðarhrepps og Þórshafnarhrepps og þeim mörkum síðan fylgt í Miðfjarðarárdrög. Úr Miðfjarðarárdrögum er farið í Upsabrúnir og þaðan er Almenningsá fremri fylgt aftur í Selá. Takmörk landsvæðisins, þannig dregin, virðast einnig í samræmi við afmörkun þess samkvæmt lýsingu í skýrslu eins fyrrverandi eigenda Mælifells fyrir óbyggðanefnd. Ljóst er því að afmörkun landsins, hvort sem litið er til landamerkjaskrárinnar eða endanlegra dómkrafna stefnenda, ber ekki saman við kröfulínu á framlögðu yfirlitskorti. Þannig eru í landamerkjaskránni suðvestur-, norður- og norðausturmörk dregin sem sjónhending frá upptökum Selsár í há Bungu, og þaðan í Heljardalsfjall, en þaðan í há Kistufell. Í kröfu stefnenda, eins og hún hljóðar nú, eru sömu mörk hins vegar dregin sem sjónhending frá upptökum Selsár í há Bungu, og þaðan í Miðfjarðarárdrög, en þaðan í há Kistufell. Örnefnið Há Bunga er langt suðvestan við afmörkun landsvæðisins samkvæmt yfirlitskorti, Heljardalsfjall er á mörkum Svalbarðshrepps og Norðurþings, rúmlega 24 kílómetra norðvestur af Mælifelli, en Kistufell er norðvestur af jörðinni Hamri, sem liggur að Mælifelli í norðaustri. Bæði landamerkjaskráin og endanlegar dómkröfur stefnenda lýsa svæðinu því mun stærra en kröfulína þeirra gefur til kynna á yfirlitskorti, auk þess sem ekki verður annað ráðið en að landamerki Mælifells gangi töluvert inn á land Hamars, a.m.k. samkvæmt landamerkjubréfum þeirrar jarðar frá 1885 og 1922. Verður af þessum sökum að taka undir þá niðurstöðu óbyggðanefndar að ekki sé unnt að byggja á landamerkjaskrá Mælifells um afmörkun þess landsvæðis.

Eins og áður greinir liggur jörðin Hamar að Mælifellslandi til norðausturs. Selsárvellir liggja að svæðinu til suðurs og suðvesturs. Handan Selár, að austanverðu, eru jarðirnar Hauksstaðir og Rjúpnafell. Að norðanverðu tilheyrir landsvæði þetta Mælifellsheiði, hásléttu sem liggur í um 500 m hæð yfir sjávarmáli. Sunnan til rís Mælifell (822 m) og undir því, norðan Selsár, er land nokkuð gróið, í u.þ.b. 400 m hæð. Norðan og austan Mælifells rennur Mælifellsá.

Í bókinni Sveitir og jarðir í Múlaþingi, I. bindi, segir svo um heiðarbýlin Mælifell og Fossvelli:

„M<ælifell> telst nýbýli stofnað í afréttarlandi Hofskirkju 1854, og er heimild um það í matsgerð Selsárvalla 1918 ...

Land M<ælifells> takmarkast við Selsá, Selá og Mælifellsá í hinni miklu láglendiskvos austur af Dimmafjallgarði og Haugsurðum. Upp af hásléttunni rís fell mikið og hrikalegt með keilulaga toppi háum, sem sést víða að úr sveitinni. Það er Mælifell. Bærinn stóð í 400 m hæð í rót fjallsins austanverðu, ... Aðaleinkenni á Mælifellslandi í neðra eru víðáttumiklir brokflóar og starartjarnir, ágætt engi en votlent ...

Fossvellir tæpum þremur km sv. af M<ælifelli> hljóta að teljast afbýli þaðan. Býlið var aðeins 3 ár í byggð, 1861 – 1864.“   

Af gögnum málsins verður ekki ráðið hvernig eða hvenær Hofskirkja varð eigandi þess landsvæðis sem hér er fjallað um. Í máldögum og visitasíum fyrri alda er þó ítrekað minnst á Mælifell sem eign Hofskirkju. Hið sama kemur fram í öðrum heimildum.

Elsta heimildin um eign Hofskirkju að Mælifelli mun vera í máldagasafni Vilkins biskups frá 1397, þar sem eignir kirkjunnar eru m.a. taldar ... „staksfell ok mælefell ...“. Þessar eignir eru einnig nefndar í Gíslamáldaga frá um 1570 og visitasíu Brynjólfs Sveinssonar Skálholtsbiskups frá 1641, en einnig í yngri biskupavisitasíum frá síðari hluta 17. aldar og 18. öld, allt fram á 19. öldina. Þannig segir í visitasíu biskups frá 1850 að „Stakksfell og Mælifell ... brúkast á stundum fyrir afrétt ...“ Tekið skal fram að Stakfell er inn við Heljardalsfjöll og mun þar aldrei hafa verið byggð.

Að skipun amtsyfirvalda árið 1829 tókst Páll Melsteð sýslumaður, ásamt tilkvöddum skoðunarmönnum, á hendur „skoðunar-, útvísunar- og skuldsetningargjörð“ yfir nauðsynlegt land fyrir tvö nýbýli í Almenningi í Selárdal, sem þá var sameignarland Vopnfirðinga og utan landamerkja. Viðstaddur gerðina var m.a. Methúsalem Árnason hreppstjóri, sem mætt hafði að beiðni Hofsprests, en Hofskirkju var eignað land framan við Almenning. Skoðunarmenn lýstu takmörkum Almennings á móti landi Hofskirkju svo: „Hinn svonefndi Almenníngur liggur í Selárdal, ad Nordan- edr réttara sagt, vestanverdu vid Selá, ... Ad sunnan- edr framan-verdu er Almenníngur adskilin frá Landsplátsi því, er Túnga nefnist, og Hofs Kyrkiu tilheyrir, vid Þverá er fremri Almenníngsá kallast, hvöred fellr af brúnum, Lítid eitt framá vid, ofaní Selá, ...“

Í lýsingu á Hofsprestakalli 23. maí 1839 eru hvorki Mælifell né Stakfell nefnd, en talið er að skýringin sé sú að prestur telji það aðeins upp sem tekjur megi hafa af. Í skýrslu Hofsprests 10. janúar 1844 eru Stakfell og Mælifell hins vegar talin meðal afrétta eða heiðarlanda kirkjunnar, „sem stundum líka brúkast fyrir afrétt af nokkrum Mönnum“, eins og þar segir. Síðar sama ár lögfesti G. Thorstensen ítök Hofskirkju. Meðal ítaka er þar nefnt „Mælifells Land allt – ad svokölludum Búastadatúngum undanteknum – samt Staxfell“. Mælifellslands er einnig getið í skýrslu um tekjur og útgjöld Hofsprestakalls frá 6. júní 1867, en þar er landið talið meðal ískylda og ítaka kirkjunnar, en öðrum leigt. Tekið er fram að þar sé nú byggður bær, sem kirkjan eigi ekki.

Stofnað var til búsetu í Mælifellslandi um miðja 19. öld og er býlisins Mælifells fyrst getið í sóknarmannatali Hofs í árslok 1854. Árið áður hafði Þorsteinn Jónsson sýslumaður sent Norður- og Austuramtinu bónarbréf Arngríms bónda Jósefssonar á nýbýlinu Mælifelli, en í því óskaði Arngrímur eftir að öðlast skatt- og tíundarfrelsi samkvæmt 10. gr. nýbýlatilskipunarinnar frá 1776. Pétur Havstein amtmaður svaraði sýslumanni nokkru síðar og bað hann um að tilkynna Arngrími að ekki væri hægt að verða við ósk hans „þareð Mælifellsland hefir verið notað að undanförnu og eptir það goldið, fæ eg ekki séð að hann geti krafist þeirra réttinda er áðurnefnd lagagrein heimilar nýbýlismönnum, því síður sem eingin regluleg útvísun á landi til nýbýlisins hefir átt sér stað“, eins og segir í bréfi amtmanns. 

Samkvæmt byggingarbréfi Hofsprests frá 26. janúar 1856 er bræðrunum Arngrími og Vigfúsi Jósefssonum byggt „til allar löglegra leiguliðanota hid svokallada Mælifells land, er tilheyrir Hofskyrkju, ad undanskildri túngunni milli Mælifellsár og Almenníngsár hinnar fremri …“. Af texta bréfsins verður ráðið að landsvæðið er byggt þeim bræðrum í tveimur hlutum, ytri hlutinn Arngrími en Vigfúsi fremri hlutinn. Sama ár segir sóknarmannatal þá bræður báða búendur á Mælifelli.

Hinn 11. apríl 1861 gaf Hofsprestur út byggingarbréf til Björns Guðmundssonar á Torfastöðum fyrir fremri part Mælifellslands „til allra löglegra leigulið[a] nota“. Er þetta sami hluti Mælifellslands og Vigfús Jósefsson hafði áður fengið sér byggðan. Gögn málsins bera með sér að þessi hluti Mælifellslands heiti nú Fossvellir og er Björn Guðmundsson sagður þar bóndi samkvæmt sóknarmannatali í árslok 1861. Svo virðist sem Björn bóndi hafi ekki átt langa ævi að Fossvöllum því árið 1865 var Arngrími Jósefssyni á Mælifelli byggt Fossvallalandið. Hafði ekkja Björns þá sagt því lausu. Tekið er fram í byggingarbréfinu að Arngrími sé heimilt landið til allra löglegra leiguliðanota gegn tveggja veturgamalla sauða árlegu eftirgjaldi og að sauðirnir séu góðar meðalkindur að vænleik. Einnig er tekið fram að engin hús séu á jörðinni. Fram er komið að býlið Fossvellir var aðeins þrjú ár í byggð, frá 1861 – 1864. Hins vegar mun búseta á Mælifelli hafa staðið allt til ársins 1906, er býlið fór í eyði.

Úttekt var gerð á eyðibýlinu Mælifelli 30. maí 1912 vegna fyrirhugaðrar sölu þess. Þar kemur m.a. eftirfarandi fram:

„Eyðibýlið Mælifell liggur í Vopnafjarðarhreppi innan Norður Múlasýslu vestast í hreppnum uppfrá Selá innst uppúr Selárdal og er landið þar mjög mjótt meðfram Selá. Landið uppfrá Selá er alt grasivaxið uppað svokallaðri „Ufs“ og uppað Mælifellsbænum sem var enn er nú niðurrifinn, einnig er graslendi suður með Mælifellshnúk og í svokolluðum Grænafellsdokkum vestan hnúksins. Graslendi þetta er sem næst ¼ af landi því er telst til býlisins. …

… engar líkur eru til að býlið komist í ábúð aftur eftir að hafa staðið í eyði í 6 ár. Þar oss er kunnugt um að það er nú tilgangur kaupanna að brúka land þetta fyrri fyrir afrjett. …

… Við álitum því að það sé hlutverk okkar að meta hvað margt fje að land þetta beri sem afrjettar land í samanburði við afrjettir hjer í kring og er það álit okkar að það beri 300 – 400 fjár og afrjettar tollur hjer er vanalega 2 – 3 aurar á kind. …“ 

Samkvæmt uppkasti að afsali, sem gert var í september 1913, kemur fram að ráðherra Íslands selji Mælifellsland til Jörgens Sigfússonar, leigjanda þess.

Meðal gagna málsins er bréf Biskups Íslands til sýslumannsins í Norður-Múlasýslu, dagsett 29. apríl 1954, þar sem biskup lýsir ítökum kirna í umdæmi sýslumanns. Meðal ítaka Hofskirkju nefnir biskup „Mælifellsland allt – að svokölluðum Búastaðatungum undanteknum – samt Staxfell.“ Þótt biskup nefni í bréfinu að ítökin séu talin samkvæmt landamerkjabók Norður-Múlasýslu 1886, vekur þessi upptalning engu að síður athygli í ljósi áðurnefnds afsals ríkisins á Mælifellslandinu. Aðilar hafa hins vegar lýst því yfir fyrir dóminum að ekki séu bornar brigður á eignarhald Jörgens Sigfússonar og síðari eigenda að Mælifelli og Selsárvöllum. Meðal gagna málsins er ljósrit úr þinglýsingabók sýslumannsins á Seyðisfirði, þar sem fram kemur að eignarheimild Jörgens Sigfússonar fyrir Mælifelli er þinglýst 1914.   

Í umfjöllun óbyggðanefndar um Mælifell kemur fram að í jarðamati fyrir Hof frá 1849 sé tekið fram að fyrir upprekstur í svokallað Mælifellsland við Selárdal gjaldist 40 fiskar árlega. Ekki er getið um Mælifell eða Fossvelli í nýrri jarðabók 1861. Í fasteignamatsbók N-Múlasýslu 1918 segir m.a. svo um eyðibýlið Mælifell: „Eigandi og notandi Jörgen bóndi Sigfússon Krossavík. Kot þetta lá áður undir Hofskirkju og er þess ekki getið í jarðamati frá 1861 né jarðatali J. Johnsens 1847.“ Þar segir einnig að upprekstrarland sé nægilegt og sérlega gott, beitiland víðlent og engjar dreifðar um allt landið, en mikill ágangur sé á landið af afréttarfé. Samkvæmt fasteignamati 1930-1932 er Mælifell eyðijörð. Um beitilandið segir að það sé kjarngott heiðarland og jarðsælt, eftir því sem gerist í heiðum. Tekið er fram að afréttarland sé ágætt og notað frá Krossavík og Syðrivík fyrir fé frá þeim bæjum. Upprekstur er seldur fyrir 100 fjár.  

Framangreindar heimildir bera þess flestar vitni að Mælifellsland var flokkað með afréttum/heiðarlöndum Hofskirkju, og var þangað rekið fé gegn greiðslu afréttartolls. Eldri heimildir veita engin svör við því hvernig Hofskirkja öðlaðist rétt til landsvæðisins, né hvað falist hafi í þeim rétti kirkjunnar. Engra gagna nýtur heldur við um að landsvæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og annarra takmarkaðra nota, allt fram á miðja 19. öld. Þótt stofnað hafi verið til búsetu á svæðinu eftir miðja 19. öld og byggingarbréf gefin út af Hofspresti, veitir það eitt ekki næga vísbendingu um að svæðið hafi verið undirorpið beinum eignarrétti kirkjunnar. Neitun amtmanns við bón Arngríms Jósefssonar um skatt og tíundarfrelsi árið 1853, þar eð „jörðin“ hefði verið notuð að undanförnu og eftir hana goldið, verður heldur ekki talin sönnun þess að Mælifellslandið hafi þá verið talið eign kirkjunnar. Sú staðreynd að landsvæði þetta er heiðarland, fjarri byggð og ekki hluti af eiginlegu landi Hofskirkju, en jafnan getið með sérstökum hætti í heimildum og einnig beinlínis nefnt afréttur eða ítak Hofskirkju, bendir hins vegar til þess að þar hafi verið afréttur kirkjunnar í þeim skilningi að hún hafi þar átt óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt. Liggur beinast við að álykta að réttur Hofskirkju til Mælifells hafi orðið til á þann hátt að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búfé og annarra takmarkaðra afnota. Afsal ráðherra Íslands á landinu til Jörgens Sigfússonar árið 1913 breytti því engu um eignarréttarlega stöðu þess, enda gat í afsalinu ekki falist frekari yfirfærsla eignarréttinda en áður tilheyrðu Hofskirkju. Hins vegar þykir hæpið að draga þá ályktun að verðlagning landsins bendi ein og sér til þess að landinu hafi verið afsalað sem afrétti eða til annarra takmarkaðra nota.

Ekki er um það ágreiningur að byggingarbréf fyrir nýbýlum í Mælifellslandi voru ekki gefin út af amtmanni í samræmi við nýbýlatilskipunina frá 15. apríl 1776. Því var ekki stofnað til eignarréttar þar á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar.

Krafa stefnenda, eigenda Mælifells, er einnig á því reist að þeir hafi unnið eignarhefð á umræddu landsvæði. Jafnframt byggja þeir á því að þeir hafi haft réttmætar væntingar til þess að ætla að beinn eignarréttur hafi unnist á landsvæðinu.   

Eins og áður er fram komið benda gögn málsins ekki til annars en að Mælifellsland hafi aðeins verið hagnýtt til sumarbeitar fyrir búfé, og ef til vill til  annarra takmarkaðra nota, allt fram á miðja 19. öld, þegar stofnað var þar til búsetu, a.m.k. á hluta þess lands sem eigendur gera hér tilkall til að verði viðurkennt sem eignarland. Byggð var þar stopul, en mun þó hafa staðið frá 1854 – 1906, lengst af í Mælifelli, en aðeins í þrjú ár að Fossvöllum. Möguleg hagnýting landsins fyrir setningu hefðarlaga nr. 46/1905 gat ekki að þágildandi lögum stofnað til eignarréttar yfir landinu. Eftir að ríkið seldi landið til leigjanda þess, Jörgens Sigfússonar í Krossavík, árið 1913, var það nýtt til upprekstrar af eigendum Krossavíkur og síðar einnig Syðrivíkur, að því er fram kemur í fasteignamati 1930-1932. Í fasteignamati 1918 segir hins vegar að mikill ágangur sé á landið af afréttarfé. Í úrskurði óbyggðanefndar er tekið fram að á seinni árum hafi fé frá bæjum í Vesturárdal gengið þangað til beitar og hafi beit verið ráðstafað og stýrt af þeim aðilum sem geri eignarréttarlegt tilkall til Mælifells. Þá segir þar að Mælifell hafi verið á arðskrá Veiðfélags Selár og hafi ráðstafanir á vegum þess félags meðal annars verið gerðar af sömu aðilum, í nafni Mælifells. Loks ber þess að geta að landsvæði þetta hefur verið ógirt og gat búfénaður frá öðrum leitað þangað hindrunarlaust. Hafa fjallskil verið á hendi sveitarfélagsins.

Hefðbundin afréttarnot, þ.e. sumarbeit og önnur takmörkuð notkun, eins og hér hefur verið lýst, eru ein og sér ekki nægjanleg til þess að beinn eignarréttur að landsvæði þessu hafi unnist fyrir hefð, sbr. lög nr. 46/1905. Réttmætar væntingar stefnenda um beinan eignarrétt þeirra að landsvæðinu breyta heldur ekki þeirri staðreynd að löggjafinn er einn bær um að ráðstafa landsvæði utan eignarlanda. Athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stjórnsýslunnar, þ.m.t. afsal og athugasemdalaus þinglýsing eignaskjala, breyta  engu í þessu efni, enda gátu menn ekki á þann hátt aukið við réttindi sín til landsins, umfram það sem verið hafði. Þá þykja staðhættir og nýting landsvæðisins, auk tiltækra heimilda, fremur draga úr líkum þess að stefnendur hafi haft réttmætar væntingar um að landið væri beinum eignarrétti háð.

Dómurinn fellst ekki á þau sjónarmið stefnenda að úrskurður óbyggðanefndar í máli þessu brjóti í bága við jafnræðisreglu stjórnarskrár og stjórnsýslulaga, né 72. gr. stjórnarskrár og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu. Þykir í því efni mega vísa til forsendna í fyrrnefndum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004. Þá hafa stefnendur heldur ekki fært rök fyrir þeirri staðhæfingu sinni að úrskurðurinn fari í bága við 22. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, sbr. og 16. gr. þjóðlendulaga nr. 58/1998, vegna ófullnægjandi rökstuðnings fyrir niðurstöðu nefndarinnar.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða dómsins að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að landsvæði það sem óbyggðanefnd úrskurðaði sem þjóðlendu 29. maí 2007 í málinu nr. 3/2005, nefnt Mælifell í Vopnafirði, hafi öðlast stöðu jarðar að lögum og sé því eignarland þeirra, hvorki fyrir nám, löggerninga, hefð, né með öðrum hætti. Stendur því óhaggaður úrskurður óbyggðanefndar um eignarréttarlega stöðu þessa landsvæðis. Að fenginni þeirri niðurstöðu þykir ekki tilefni til að fjalla sérstaklega um varakröfur stefnenda.

II. Land Selsárvalla (Búastaðatungna)

Selsárvellir liggja sunnan og vestan við land Mælifells. Til suðausturs er land jarðarinnar Hauksstaða, en Selá skilur að. Til suðvesturs og vesturs liggja Selsárvellir að Grímsstöðum og sýslumörkum Norður-Múlasýslu og Norður-Þingeyjarsýslu, en til norðvesturs og norðurs liggur svæðið að mörkum Vopnafjarðahrepps og Þórshafnarhrepps. Landsvæði þetta er háslétta í yfir 400 m hæð yfir sjávarmáli. Syðst og austast eru Búastaðatungur, á milli Selsár og Selár, í 360 – 400 m hæð. Þegar vestar dregur og norðar hækkar land í yfir 500 m hæð yfir sjávarmáli. 

Ágreiningslaust er að landamerkjabréf var ekki gert fyrir Selsárvelli í kjölfar landamerkjalaga árið 1882. Krafa stefnenda, eigenda Selsárvalla, og afmörkun kröfu þeirra til landsvæðisins, byggist hins vegar á yfirlýsingu sýslumannsins í Norður-Múlasýslu 31. desember 1974. Þar lýsir sýslumaður merkjum svæðisins þannig, og kveðst hafa þau eftir Birni Sigmarssyni í Krossavík: „... standa Selsárvellir rétt innan við Selsá, og tilheyrir jörðinni öll tungan (Búastaðatungur) norðaustan Selár milli Selsár að utan og Hrútár ytri að innan. En vatnaskil (sýslumörk) ráða að norðaustan.“  Í fasteignamati 1916-1918 er landmerkjum hins vegar þannig lýst, og þau höfð eftir ábúanda: „Selsá ræður mörkum frá ósi að upptökum, þaðan sjónhending á há „Bungu“ þaðan eftir fjallgarði þeim sem skiptir löndum milli Vopnafjarðar og Fjallahrepps að Hrútá þá ræður Hrútá þar til hún fellur í Selá; úr því ræður Selá að Selsárósi.“ Lýsingar þessar eru ósamhljóða, einkum að því leyti að eldri lýsingin, þ.e. samkvæmt fasteignamati 1916-1918, nær mun lengra inn til landsins en samkvæmt yfirlýsingu sýslumanns frá 1974. Fá þær heldur ekki samrýmst elstu heimildum um merki Búastaðatungna, annars vegar úttekt á jörðinni Búastöðum frá 29. mars 1658, en hins vegar vitnisburði frá 23. júlí 1666. Fyrrnefnda heimildin hefur að geyma húsaskoðun á Búastöðum og lýsingu á landamerkjum þeirrar jarðar, ásamt svohljóðandi lýsingu á mörkum Búastaðatungna, höfð eftir Halli Björnssyni, sem hann segir að Bjarni Oddsson og aðrir hafi sagt sér: „Item tilseiger Hallur ad Buastader eigie tveggia hundrada Land Westur i heide sem kallast Buastadatungur fyrer nordan Selá, á mille Hrutár og Selaár.“ Síðari heimildin er vitnisburður fjögurra manna í Skálholti um uppskrift og samlestur á kaupbréfi fyrir Búastöðum 1592. Þar er takmörkum Búastaða lýst og segir þar m.a.: „Item Tungurnar allar j midlum Selsár, ...“ Þótt merki inn til landsins séu hér ekki tilgreind, má ljóst vera að þessar elstu heimildir um landamerki lýsa Selsárvöllum sem mun minna landsvæði en áðurnefndar yngri heimildir. 

Ekki er unnt að líta á fyrrnefnda yfirlýsingu sýslumanns frá 1974 sem landamerkjabréf, í samræmi við fyrirmæli landamerkjalaga nr. 41/1919. Verður hún því ekki lögð til grundvallar við afmörkun landsvæðisins, og enn síður sem sönnun fyrir beinum eignarrétti stefnenda að umræddu landsvæði. Í þessu sambandi þykir mega vísa til áðurnefndra forsendna í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 48/2004, en einnig síðari dóma réttarins, þar sem áréttuð hefur verið þýðing þess að landamerkjabréf hafi stuðning af öðru, og þá einkum eldri heimildum, þegar lagt er á það mat hvort landsvæði teljist innan lýstra merkja. Jafnframt yrði að gæta þess að með því að gera landamerkjabréf gátu menn ekki einhliða aukið við land sitt eða annan rétt, umfram það sem verið hafði.

Elstu skjallegu heimildir um Búastaðatungur er áðurnefnd úttekt á Búastöðum frá 1658 og vitnisburður frá 1666. Veita þær þó engin svör við því hvernig Búastaðir öðluðust rétt til landsvæðisins, né hvað hafi falist í þeim rétti. Engra gagna nýtur heldur við um að landsvæðið hafi verið nýtt til annars en sumarbeitar fyrir búfé og annarra takmarkaðra nota, allt fram á miðja 19. öld, þegar stofnað var til búsetu þar.

Í umfjöllun óbyggðanefndar um landsvæði þetta eru nefnd þrjú býli sem talin eru hafa verið í Búastaðatungum um og eftir miðja 19. öld; Aðalból, Selsárvellir og Selárbakki. Ekki er vitað með vissu hvar á Búastaðatungum býlin voru, en sóknarmannatal Hofssóknar getur þar um heimilisfólk árin 1851 - 1877, skemur þó á Selárbakka. Aðalból mun hafa farið eyði árið 1878.

Fyrir liggur byggingarbréf frá 22. febrúar 1859 þar sem umboðsmaður Krossavíkur byggir bændunum Páli Guðmundssyni og Grími Grímssyni hinar svokölluðu Búastaðatungur til allra löglegra leiguliðanota. Getið er um afgjald fyrir landið og tekið fram að þeir hafi notkun þess til helminga. Einnig segir þar: „... en þad áskil jeg ad þeir fyrir sanngjarna þóknun, unni bændunum á Búastödum þeirrar notkunar á Túngum, sem þeir sjálfir geta misst og hinir kunna ad æskja sjer.“ Bæði Páll og Grímur munu um skeið hafa búið á Aðalbóli, en Grímur síðar á Selsárvöllum. Árið 1878 virðast Selsárvellir fara í eyði.

Fram kemur í umfjöllun óbyggðanefndar að afréttarlandið Búastaðatungur, milli Selár og Selsár inn að Ytri-Hrútá, hafi gengið undan Búastöðum við sölu jarðarinnar um 1893. Síðan hafi Búastaðatungur tilheyrt Krossavík.

Í kaflanum um eyðibýlið Selsárvelli í fasteignamati N-Múlasýslu 1916-1918 segir að eigandi og notandi sé Jörgen bóndi Sigfússon í Krossavík. Hafi jörðin verið óbyggð síðan 1880. Beitiland sé nærtækt og hún eigi mikið upprekstrarland.

Af því sem að framan er rakið má sjá að Búastaðatungna er jafnan getið með sérstökum hætti í heimildum um Búastaði. Landsvæði þetta er heiðarland, fjarri byggð og ekki hluti af eiginlegu landi Búastaða, sem liggja í Vesturárdal. Þykir flest benda til þess að þar hafi verið afréttur jarðarinnar Búastaða í þeim skilningi að hún hafi þar átt óbein eignarréttindi fremur en beinan eignarrétt. Liggur beinast við að álykta að réttur Búastaða til landsvæðisins hafi orðið til á þann hátt að landsvæðið hafi verið tekið til sumarbeitar fyrir búfé og annarra takmarkaðra afnota. Ekki er um það ágreiningur að byggingarbréf fyrir nýbýlum á landsvæðinu voru ekki gefin út af amtmanni í samræmi við nýbýlatilskipunina frá 15. apríl 1776. Því var ekki stofnað til eignarréttar þar á grundvelli nýbýlatilskipunarinnar.

Ekki þykir ástæða til að fjalla hér sérstaklega um aðrar málsástæður eigenda Selsárvalla, þ.e. hefð og réttmætingar væntingar þeirra til eignarréttar að svæðinu, en látið nægja að vísa til umfjöllunar um þær í forsendum dómsins fyrir niðurstöðu um kröfur eigenda Mælifells, sbr. hér að framan, enda eiga hér við sömu sjónarmið. Hið sama gildir um þau rök stefnenda að úrskurður óbyggðanefndar brjóti í bága við ákvæði stjórnarskrár, stjórnsýslulaga og 1. gr. samningsviðauka nr. 1 við Mannréttindasáttmála Evrópu. Í tilefni af þeirri málsástæðu stefnenda að eignarhald þeirra byggi einnig á viðskiptavenju, þar sem eignarréttur þeirra hafi verið virtur frá ómunatíð í öllum viðskiptum varðandi landsnytjar og eignarnámsbætur þ.á m. greiddar þeim vegna línustæða símans og húss á vegum símans,  skal þó tekið fram að ekki verður séð að slíkt geti stofnað til eignarréttar eða talist sönnun fyrir beinum eignarrétti þeirra að landsvæðinu.

Með vísan til framanritaðs er það niðurstaða dómsins að stefnendur hafi ekki sýnt fram á að landsvæði það sem óbyggðanefnd úrskurðaði sem þjóðlendu 29. maí 2007 í málinu nr. 3/2005, nefnt Selsárvellir í Vopnafirði, hafi öðlast stöðu jarðar að lögum og sé því eignarland þeirra, hvorki fyrir nám, löggerninga, hefð, né með öðrum hætti. Úrskurður óbyggðanefndar um eignarréttarlega stöðu þessa landsvæðis stendur því óhaggaður. Að fenginni þeirri niðurstöðu þykir ekki ástæða til að fjalla um varakröfur stefnenda.

Samkvæmt öllu því sem að framan er rakið verður stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnenda, eigenda Mælifells og Selsárvalla, í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að hver aðila beri sinn kostnað af málarekstrinum.

Stefnendur njóta gjafsóknar samkvæmt gjafsóknarleyfi 8. september 2008. Gjafsóknarkostnaður stefnenda, þ.e. þóknun lögmanns þeirra, Ólafs Björnssonar hæstaréttarlögmanns, sem ákveðst hæfileg 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði. Við ákvörðun lögmannsþóknunar hefur verið litið til þess að lögmaðurinn annast rekstur fleiri sambærilegra mála vegna aðliggjandi landsvæða í Vopnafirði. Virðisaukaskattur er innifalinn í lögmannsþóknun.

Ingimundur Einarsson héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, íslenska ríkið, er sýkn að kröfum stefnenda, Veiðiklúbbsins Strengs ehf., Sunnudals ehf. og Heljardals ehf.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnenda, 1.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.

                                                                      Ingimundur Einarsson