Hæstiréttur íslands

Mál nr. 50/2004


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Missir framfæranda
  • Miskabætur
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. september 2004.

Nr. 50/2004.

Dánarbú Benedikts Oddssonar og

Sjóvá-Almennar tryggingar hf.

(Ólafur Haraldsson hrl.)

gegn

Birni Vilberg Jónssyni

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

og gagnsök

 

Skaðabætur. Missir framfæranda. Miskabætur. Gjafsókn.

B missti báða foreldra sína er bifreið þeirra lenti í hörðum árekstri við bifreið BO, sem kom úr gagnstæðri átt og var ekið á öfugum vegarhelmingi. Fékk hann greiddar bætur frá vátryggingarfélagi bifreiðar BO, S hf., en taldi sig eiga rétt á frekari bótum fyrir fjártjón auk miskabóta. B var ekki talinn hafa sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir fjártjóni umfram það sem hann hafði þegar fengið greitt frá S hf. Aftur á móti var talið að ástæður slyssins mætti rekja til stórfellds gáleysis BO í skilningi 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga. Samkvæmt því ætti B rétt á miskabótum sem þóttu hæfilega ákveðnar 2.800.000 kr.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Jónatan Þórmundsson prófessor.

Aðaláfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 27. janúar 2004. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að krafan verði lækkuð og málskostnaður felldur niður.

Gagnáfrýjunarstefna var gefin út 6. apríl 2004. Gagnáfrýjandi krefst þess að aðaláfrýjendur verði dæmdir til að greiða sér 12.056.720 krónur með 4,5 % ársvöxtum frá 30. nóvember 2000 til 11. júní 2002, en dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi varð harður árekstur 30. nóvember 2000 með bifreiðunum ZG 426 sem ekið var vestur Reykjanesbraut og DE 889 sem ekið var austur sömu braut. Ökumaður fyrrnefndrar bifreiðar, Benedikt Oddsson, lést, en fjögurra ára gömul dóttir hans, sem sat í barnabílstól aftur í bifreiðinni, lifði af áreksturinn. Ökumaður og farþegi í bifreiðinni DE 889, foreldrar gagnáfrýjanda, létust bæði. Aðaláfrýjandinn, Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiddi gagnáfrýjanda 26. október 2001, samtals 889.280 krónur, eða 222.320 krónur fyrir missi framfærenda samkvæmt 14. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, en 666.960 krónur með vísan til 2. málsliðar 1. mgr. 12. gr. sömu laga. Voru bætur miðaðar við tvöfaldan barnalífeyri, eins og hann var við andlát foreldra gagnáfrýjanda, frá slysdegi til 20 ára aldurs hans.

Í máli þessu deila aðilar annars vegar um hvort gagnáfrýjanda beri frekari bætur fyrir fjártjón samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga en honum hafa þegar verið greiddar. Hins vegar er ágreiningur um rétt gagnáfrýjanda til miskabóta á grundvelli 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.

Samkvæmt 12. gr. skaðabótalaga skal sá sem skaðabótaábyrgð ber á dauða annars manns greiða þeim sem misst hefur framfæranda bætur fyrir tjón það er ætla má að af því leiði fyrir hann. Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi hefur gagnáfrýjandi viljað miða fjárhæð bótakröfu sinnar við framfærslulán Lánasjóðs íslenskra námsmanna samkvæmt úthlutunarreglum sjóðsins fyrir skólaárið 2002 til 2003, eða við 75.000 krónur fyrir hvern mánuð frá slysdegi og allt til 25 ára aldurs gagnáfrýjanda. Hins vegar hefur gagnáfrýjandi hvorki lagt fram gögn né fullnægjandi upplýsingar um hagi sína eftir slysið þannig að sannað teljist fjártjón hans umfram það sem hann hefur þegar fengið greitt frá aðaláfrýjandanum, Sjóvá-Almennum tryggingum hf. Ekki verður séð að skattframtöl þau sem lögð hafa verið fram af hans hálfu í Hæstarétti breyti neinu í þessu sambandi. Verður því að staðfesta hinn áfrýjaða dóm um fjártjón gagnáfrýjanda.

Fram er komið í málinu að bifreið Benedikts Oddssonar heitins fór yfir á rangan vegarhelming á Reykjanesbraut við Kúagerði. Tókst ökumanni bifreiðar sem á móti kom með naumindum að komast hjá árekstri með því að sveigja bifreið sinni til hægri út á vegarbrún. Var bifreið foreldra gagnáfrýjanda ekið á eftir þeirri bifreið og lenti bifreið Benedikts beint framan á henni. Af gögnum lögreglu er ekki með fullu ljóst hver var orsök slyssins, en að lokinni rannsókn dró lögregla þá ályktun að líklegast hafi Benedikt Oddsson sofnað undir stýri. Ekkert hefur komið fram um að Benedikt hafi skyndilega veikst, bifreið hans bilað eða til hafi komið önnur atvik sem valdið hafi árekstrinum þannig að Benedikt verði ekki um kennt. Verður því að miða við að ástæða árekstursins verði rakin til aksturslags Benedikts heitins, sem ók jeppabifreið sinni á venjulegum umferðarhraða um fjölfarinn þjóðveg á öfugum vegarhelmingi og í veg fyrir umferð sem á móti kom með þeim afleiðingum að harður árekstur varð. Samkvæmt öllu framanrituðu er byggt á því að nægilega sé í ljós leitt að ástæður slyssins megi rekja til stórfellds gáleysis Benedikts Oddssonar í skilningi 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999. Er því fallist á kröfu gagnáfrýjanda um miskabætur honum til handa. Við ákvörðun fjárhæðar miskabóta er litið til allra aðstæðna og sérstaklega þess að gagnáfrýjandi missti báða foreldra sína í slysinu. Eru miskabætur ákveðnar 2.800.000 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað verða staðfest.

Aðaláfrýjendur verða dæmdir til að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti er rennur í ríkissjóð, en gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Aðaláfrýjendur, dánarbú Benedikts Oddssonar og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði gagnáfrýjanda, Birni Vilberg Jónssyni, 2.800.000 krónur með 4,5% ársvöxtum frá 30. nóvember 2000 til 11. júní 2002, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Ákvæði héraðsdóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað skulu vera óröskuð.

Aðaláfrýjendur greiði 200.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti, er renni í ríkissjóð. Gjafsóknarkostnaður gagnáfrýjanda fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 200.000 krónur. 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2003.

Mál þetta, sem dómtekið var 2. október s.l., er höfðað með stefnu birtri 7. júní 2002.

Stefnandi er Björn Vilberg Jónsson, kt. 070783-4289, Heiðarholti 16g, Keflavík.

Stefndu eru dánarbú Benedikts Oddsonar, kt. 080570-4309, síðast skráð til heim­ilis í Saudi-Arabíu og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., kt. 701288-1739, Kringlu­nni 5, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda eru þær að hið stefnda tryggingafélag verði dæmt til að greiða stefnanda dánarbætur kr. 6.056.720 og miskabætur kr. 6.000.000, samtals kr. 12.056.720 ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá slysdegi 30. nóvember 2000 til þingfestingardags 11. júní 2002, en frá þeim degi er krafist dráttarvaxta til greiðslu­dags, sbr. 12. gr. vaxtalaga.  Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda að skað­lausu samkvæmt málskostnaðarreikningi eins og mál þetta væri eigi gjaf­sókn­ar­mál. 

Dómkröfur stefndu eru þær aðallega að þeir verði sýknaðir af kröfum stefnanda en til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega.  Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Stefnanda var veitt gjafsókn í máli þessu með leyfi dóms- og kirkju­mála­ráðu­neytis dagsettu 9. janúar 2001.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að um kl. 16:45 fimmtudaginn 30. nóvember 2000 var lög­regl­unni í Keflavík og Grindavík tilkynnt um alvarlegt umferðarslys á Reykjanesbraut skammt vestan við Kúagerði.  Hafði orðið mjög harður árekstur með bifreiðunum ZG-426, af gerðinni Toyota RAV4, sem ekið var vestur Reykjanesbraut áleiðis til Kefla­víkur og bifreiðinni DE-889, af gerðinni Peugeot 406, sem ekið var austur sömu braut áleiðis til Reykjavíkur.  Ökumaður bifreiðarinnar ZG-426 var Benedikt Oddsson og var dóttir hans, Sesselja, f. 11. júní 1996, spennt í barnabílstól í aftursæti vinstra megin.  Benedikt lést en dóttir hans slasaðist. Benedikt heitinn mun ekki hafa notað örygg­isbelti bifreiðarinnar, en báðir líknarbelgir hennar sprungu út.  Í bifreiðinni DE-889 voru foreldrar stefnanda, ökumaðurinn Jón Rúnar Árnason, kt. 190351-2549 og kona hans, Vilborg Jónsdóttir, kt. 280855-2949, en hún sat í hægra framsæti.  Þau munu bæði hafa notað öryggisbelti bifreiðarinnar, en hvorugur líknarbelgja bif­reið­ar­innar sprakk út.  Þau Jón Rúnar og Vilborg létust bæði.

Rannsókn lögreglu leiddi í ljós að Benedikt heitinn mun hafa ekið bifreið sinni yfir á rangan vegarhelming og fyrir snarræði mun ökumanni bifreiðar, sem ekið var á undan bifreið foreldra stefnanda, hafa tekist að komast hjá árekstri með því að beygja bif­reið sinni til hægri út í vegkantinn.  Benedikt hafi síðan ekið áfram á röngum veg­ar­helmingi og beint framan á bifreið foreldra stefnanda.  Ekki kom annað fram en að ekið hefði verið á eðlilegum umferðarhraða, en hámarkshraði á Reykjanesbraut er 90 km/klst.  Engin hemlaför fundust á vettvangi og að sögn sjónarvotta virðist hvorugur öku­mannanna hafa hemlað fyrir áreksturinn.  Veður mun hafa verið nokkuð gott, skyggni ágætt en farið að rökkva.  Vindur var hægur af suðaustri og vegurinn þurr.  Nokkur umferð mun hafa verið um Reykjanesbrautina þegar slysið varð.  Það var mat lög­reglu að ekkert hefði komið fram við rannsókn málsins sem gæfi beinlínis tilefni til að álykta annað en að Benedikt heitinn hefði sofnað undir stýri bifreiðarinnar.  Var sú ályktun dregin af framburði 12 ára gamals drengs, Davíðs Hjartarsonar, en hann kvaðst hafa veitt því athygli að ökumaður bifreiðarinnar ZG-426 hafi verið með höf­uð­ið niður í bringu rétt fyrir áreksturinn.  Davíð var farþegi í bifreið þeirri sem ekið var næst á eftir bifreið foreldra stefnanda.

Stefnandi var 17 ára á slysdegi, stundaði nám í Fjölbrautaskóla Suðurnesja og bjó í foreldrahúsum.  Hann skýrði svo frá fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að hann hafi við andlát foreldra sinna skyndilega staðið uppi húsnæðislaus og hafi hann þurft að út­vega sér íbúð og bifreið.  Hann kvaðst hafa notið framfærslu foreldra sinna en stundað sum­arvinnu.  Kvað hann hafa verið rætt um að þau myndu aðstoða hann þar til hann lyki háskólanámi.  Hann kvaðst hafa frestað námi sínu um eina önn en hann hefði lokið stúdentsprófi síðastliðið vor.  Hann kvaðst vera atvinnulaus og væri óvíst um frek­ara nám hans.

Með bréfi dagsettu 2. júlí 2001 var krafist bóta úr hendi hins stefnda trygg­inga­félags fyrir stefnanda og bræður hans, þá Jón Inga, f. 1972 og Árna Rúnar, f. 1976.  Var þar krafist bóta vegna útfararkostnaðar, launamissis Jóns Inga og bóta til stefn­anda samkvæmt 14. gr. skaðabótalaga, en þær voru þannig sundurliðaðar að krafa um bætur til 18 ára aldurs nam tvöföldum barnalífeyri samkvæmt ákvörðun Trygg­inga­stofn­un ríkisins í 8 mánuði, eða kr. 222.320, en krafa um bætur frá 18 ára aldri til 20 ára aldurs, þar sem stefnandi væri í skóla, nam kr. 666.960.  Þá var gerð krafa um dánar­bætur og miska, kr. 7.680.000 fyrir hvern bræðranna.  Auk þessa var gerð krafa um vexti og lögmannsþóknun.  Hið stefnda félag samþykkti að greiða bætur vegna út­far­arkostnaðar og launamissis Jóns Inga.  Þá samþykkti félagið að stefnandi ætti rétt á bótum fyrir missi framfæranda samkvæmt 14. gr. skaðabótalaga, kr. 222.320 og samkvæmt 12. gr. sömu laga kr. 666.960.  Var tekið fram í bréfi hins stefnda félags að eigi væri unnt að fallast á kröfu um miskabætur samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaða­bótalaga, þar sem ekki væri talið að slysinu hefði verið valdið af stófelldu gáleysi, en það sé skilyrði miskabótakröfu samkvæmt ofangreindri lagagrein.  Voru fram­an­greindar bætur greiddar stefnanda 26. október 2001.  Við móttöku bótanna gerði lög­maður stefnanda fyrirvara vegna kröfu um dánarbætur og miska.  Þar sem ekki náðist sam­komulag milli aðila var mál þetta höfðað.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir bótarétt sinn á hendur hinu stefnda dánarbúi á 1. mgr. 88. gr., sbr. 1. mgr. 90. gr. umferðarlaga, þar sem hann hafi verið eigandi bifreiðarinnar ZG-426 er slysið varð og því sé það fébótaskylt vegna þess tjóns sem hlotist hafi af notkun bif­reiðarinnar.  Að því er bótarétt stefnanda á hendur hinu stefnda tryggingafélagi varð­ar er vísað til 1. mgr. 95. gr., sbr. 1. mgr. 91. gr. sömu laga, en félagið hafi verið ábyrgðar­tryggjandi bifreiðarinnar ZG-426 á slysdegi.  Sé félaginu stefnt samhliða dánar­búinu vegna ákvæða 1. mgr. 97. gr. sömu laga.  Stefnandi byggir á því að stefndu hafi ekki bætt honum tjón sitt að fullu og telur ekki vera ágreining um bótaábyrgð, heldur sé ágreiningur um það hvað skuli bæta.

Stefnandi telur að hann eigi rétt á frekari dánarbótum og miska en hann hafi þegar fengið með vísan til 12. gr. og 14. gr. skaðabótalaga.  Í 12. gr. laganna komi fram að sá sem beri skaðabótaábyrgð á dauða annars manns skuli greiða hæfilegan útfararkostnað auk þess sem bæta skal tjón það er ætla megi að af því leiði fyrir hann.  Í greinargerð með lögunum komi fram að í 12. gr. séu meginreglur um dánarbætur, þ.e. bætur fyrir missi framfæranda og kostnað við útför, en hins vegar verði það áfram á valdi dóm­stóla að dæma bætur fyrir annað fjártjón en missi framfæranda og útfararkostnað ef rök séu til þess.  Í 14. gr. laganna komi fram regla um hvernig skuli fara með bætur til barns sem hafi misst framfæranda sinn. Komi þar fram sú reikniregla að miða skuli við fjárhæð barnalífeyrisgreiðslna sem barnið eigi rétt á samkvæmt lögum um al­manna­tryggingar frá því tjón varð til 18 ára aldurs.  Í greinargerð segi m.a. að reglur þess­arar greinar mæli fyrir um staðlaðar bætur þar til barn nær 18 ára aldri. Einnig segi þar að þegar talið sé að barn verði fyrir framfærslutjóni eftir að það er orðið 18 ára, sé heimilt að ákveða barninu bætur skv. 12. gr.  Segi í greinargerðinni að bótafjárhæð verði því að vera metin einstaklingsbundið eins og verið hafi.

Stefnandi byggir á því að stefndi hafi bætt tjón sitt að hluta frá 17 ára aldri til tvítugs en ljóst sé að þær bætur nægi engan veginn til framfærslu stefnanda.  Stefndi bæti einungis kr. 27.790 á mánuði, en það sé langt frá því að nægja til framfærslu.  Sé hér um einstakt tilvik að ræða þar sem stefnandi missi báða foreldra sína í slysinu, en oft sé það þannig að annað foreldrið falli frá en hitt foreldrið eða framfærsluskyldur aðili standi eftir og geti tekið meiri byrði af framfærsluskyldu á sínar herðar.  Það sé æ al­gengara að foreldrar hafi börn sín hjá sér til þrítugs eða þar til háskólanámi lýkur.  Með vísan til breyttra þjóðfélagsaðstæðna hnígi öll rök að því að stefnandi hefði notið fram­færslu foreldra sinna til 25 ára aldurs.  Stefnandi byggir á framfærsluviðmiðun Lána­sjóðs íslenskra námsmanna, en þar komi fram að grunnframfærsla einstaklings sé kr. 75.500 á mánuði og krefst stefnandi þess að hið stefnda félag bæti honum þessa fjár­hæð í hverjum mánuði frá slysdegi til og með 25 ára aldurs, en stefndi hafi greitt hluta af kröfunni.  Gerir stefnandi samkvæmt framansögðu því kröfu um greiðslu á dána­rbótum að fjárhæð kr. 6.946.000 að frádregnum kr. 889.280, eða kr. 6.056.720.

Stefnandi krefst miskabóta að fjárhæð kr. 6.000.000, en miski stefnanda sé mikill við fráfall foreldranna.  Stefnandi byggir miskabótakröfuna á 26. gr. skaðabótalaga en hún hafi átt að leysa af hólmi 264. gr. almennra hegningarlaga.  Hafi  missir foreldr­anna valdið stefnanda miklum andlegum þjáningum og sé ljóst að þetta muni hafa óbæt­anleg áhrif á lífskraft og starfsþrek hans um ókomna tíð.  Stefnandi byggir á því að skilyrði 26. gr. skaðabótalaganna um stórfellt gáleysi sé uppfyllt, en samkvæmt lög­reglu­rannsókn sé sannað að Benedikt heitinn hafi sveigt bifreið sinni inn á öfugan vegar­helming.  Bygir stefnandi á því að slíkur akstur á miklum hraða og þar sem um­ferð er þung og umferðarhraði mikill, verði að kallast vítavert eða stórfellt gáleysi, hvort sem það sé vegna ofþreytu eða annarra atvika.

Stefnandi byggir á því að það, að hann fái ekki tjón sitt bætt, brjóti gegn megin­reglum skaðabótalaga og skaðabótaréttar.

Stefnandi vísar máli sínu til stuðnings til umferðarlaga, almennra reglna skaða­bóta­réttar og venjuhelgaðrar reglu um rétt til dánarbóta og miska, skaðabótalaga, réttar­vitundar almennings og eðlis máls.

Dráttarvaxtakrafa stefnanda er byggð á vaxtalögum og málskostnaðarkrafa er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefndu.

Stefndu byggja aðalkröfu sína um sýknu á því að stefnandi hafi þegar fengið greiddar fullar bætur fyrir bótaskylt tjón vegna missis framfæranda og að skilyrði 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga til greiðslu miskabóta séu ekki uppfyllt.

Að því er bætur fyrir missi framfæranda varðar byggja stefndu á því að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir frekara tjóni en þegar hafi verið bætt.  Samkvæmt 14. gr. skaðabótalaga skuli bætur til barna yngri en 18 ára vera jafnháar heild­arfjárhæð þeirra barnalífeyrisgreiðslna er barnið eigi rétt á eftir lögum um almanna­tryggingar frá því tjón varð til 18 ára aldurs.  Hafi stefnandi fengið greiddar bætur að fjárhæð kr. 222.320 í samræmi við þetta.  Mæli ákvæðið fyrir um staðlaðar bætur til barna yngri en 18 ára og því sé ekki lagaheimild til að dæma stefndu til greiðslu frekari bóta.

Stefndi byggir á því að samkvæmt 2. málslið 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga skuli sá sem ábyrgð ber á dauða annars manns greiða þeim sem misst hefur framfæranda bætur fyrir tjón það sem ætla megi að af því leiði fyrir hann.  Hafi stefnanda á grund­velli þessa lagaákvæði verið greiddar kr. 666.960.  Hafi það verið gert í samræmi við kröfu­gerð hans sem rökstudd hafi verið með vísan til framfærslu foreldra milli 18 og 20 ára aldurs.  Hafi hið stefnda félag samþykkt að greiða þesssa fjárhæð án þess að af­staða væri tekin til kröfugerðar stefnanda sem slíkrar.  Stefndu byggja á því að vanga­veltur stefnanda um breyttar þjóðfélagsaðstæður, sem ekki eigi sér stoð í neinum gögn­um, séu ekki sönnun um að stefnandi hafi mátt vænta þess að hann þyrfti ekki að standa undir eigin framfærslu til 25 ára aldurs.  Sé ekkert í gögnum málsins sem færi rök fyrir því að stefnandi hefði notið framfærslu foreldra sinna í lengri tíma en þegar hafi verið bætt.  Þá liggi ekki í málinu neinar upplýsingar um fjárhagslega getu for­eldra stefnanda til framfærslu, hefði þeirra notið við.  Hafi stefnandi því ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir frekara tjóni en hið stefnda félag hafi þegar bætt.

Stefndi mótmælir því að lagaskilyrði séu fyrir hendi til að dæma megi bætur samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.  Þó Benedikt heitinn kynni að hafa sýnt gá­leysi við akstur bifreiðarinnar sé ekki unnt að komast að þeirri niðurstöðu að hann  hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi. Megi af gögnum málsins ráða að hann hafi sofnað undir stýri og sé ljóst að slíkt verði ekki fellt undir stórfellt gáleysi í merkingu 2. mgr. 26. gr. laganna.

Varakrafa stefndu um lækkun bóta er í fyrsta lagi á því byggð að stefnandi hafi ekki sýnt fram á að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna missis framfæranda eftir 20 ára aldur.  Meginregla skaðabótalaga sé að bætur til barna vegna missis framfæranda séu greiddar til 18 ára aldurs og skulu bæturnar jafnháar barnalífeyrisgreiðslum.  Hafi hið stefnda félag greitt stefnanda bætur til 20 ára aldurs en það sé frávik frá meginreglum  um bætur til barna vegna missis framfæranda.  Byggja stefndu á því að ekki séu laga­skilyrði fyrir því að víkja frekar frá ofangreindri meginreglu en þegar hafi verið gert.  Í öðru lagi byggja stefndu á því að krafa stefnanda sé allt of há þar sem engin rök séu til þess að miða við framfærslugrunn Lánasjóðs íslenskra námsmanna miðað við ein­stakling í leiguhúsnæði.  Sá grunnur sé ekki byggður á rannsóknum á framfærsluþörf náms­manna heldur á áætlunum og samkomulagi fulltrúa ríkis og námsmannasamtaka þar sem pólitísk sjónarmið ráði miklu.  Slík viðmiðun bóta verði hvorki byggð á lög­um né dómafordæmum, en löng dómvenja sé þvert á móti fyrir því að miða bætur fyrir missi framfæranda við barnalífeyri.

Að því er miskabótakröfu stefnanda varðar byggja stefndu varakröfu sína um veru­lega lækkun á því að fjárhæð kröfu stefnanda sé í ósamræmi við fordæmi dóm­stóla.

Stefndu mótmæla dráttarvöxtum frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

Stefndu vísa til skaðabótalaga, svo og almennra reglna kröfuréttar, sérstaklega um sönnun tjóns og sönnunarbyrði.  Málkostnaðarkrafa er reist á XXI. kafla laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Ágreiningur málsaðila snýst annars vegar um það hvort stefnandi eigi rétt á frekari bótum fyrir missi framfæranda en stefndi hefur þegar viðurkennt og greitt og hins vegar hvort uppfyllt sé það skilyrði 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga að slysinu hafi verið valdið af stórfelldu gáleysi með þeim afleiðingum að stefnandi eigi í því tilviki rétt á miskabótum samkvæmt þeirri lagagrein.

Í 12. gr. skaðabótalaga er að finna almenna reglu þar sem því er slegið föstu að sá, sem skaðabótaábyrgð ber á dauða annars manns, skuli greiða hæfilegan út­far­ar­kostnað. Auk þess skal hann greiða þeim sem misst hefur framfæranda bætur fyrir tjón það er ætla má að af því leiði fyrir hann.  Ljóst er að þeir sem rétt eiga til bóta sam­kvæmt þessari lagagrein eru ekki einvörðungu maki hins látna og þau börn sem honum var skylt að framfæra, heldur verður af lögskýringargögnum ráðið að unnt sé að ákvarða barni, sem orðið hefur fyrir framfærslutjóni eftir að það er orðið 18 ára, bætur samkvæmt 12. gr. laganna.  Í 14. gr. laganna eru reglur um það hvernig reikna skuli út bætur til barna og kemur þar fram að um staðlaðar bætur er að ræða þar til barn nær 18 ára aldri.  Stefndi hefur staðið stefnanda skil á bótum í samræmi við þau lagafyrirmæli og á stefnandi ekki frekari rétt á greiðslu frekari bóta fyrir tímabilið frá slysdegi þar til hann náði 18 ára aldri.

Samkvæmt 13. gr. barnalaga lýkur framfærsluskyldu er barn verður 18 ára.  Heimilt er að ákveða framlag til menntunar eða starfsþjálfunar ungmennis samkvæmt kröfu þess allt til þess er það nær 20 ára aldri.  Stefndi hefur fallist á að greiða stefnanda fjárhæð er nemur tvöföldum barnalífeyri í tvö ár frá 18 ára aldri hans í samræmi við heimild í 2. málslið 1. mgr. 12. gr. skaðabótalaga.  Stefnandi krefst þess hins vegar að miðað verði við grunnframfærslu samkvæmt úthlutunarreglum Lána­sjóðs íslenskra námsmanna, kr. 75.500 á mánuði.  Að mati dómsins hefur stefnandi ekki sýnt fram á að frekar eigi að miða við þennan grundvöll að því er aldursbilið 18 til 20 ára varðar en barnalífeyri, sem samkvæmt 14. gr. laganna er miðað við til 18 ára aldurs tjónþola.  Verður kröfu stefnanda að þessu leyti því hafnað.

Stefnandi hefur enn fremur krafist þess að honum verði með vísan til 12. gr. skaða­bótalaga bætt fjártjón er hann telur sig munu verða fyrir í framtíðinni sökum þess að hann fær ekki notið framfærslu foreldra sinna til 25 ára aldurs. Fram kom hjá stefn­anda fyrir dómi við aðalmeðferð málsins að hann hefði lokið stúdentsprófi síðastliðið vor.  Hann kvaðst vera atvinnulaus og væri óvíst um frekara nám hans.  Stefnandi ber sönn­unarbyrðina fyrir því að hann hefði notið fjárhagslegrar fyrirgreiðslu foreldra sinna eftir að lögbundinni framfærsluskyldu þeirra við hann hefði lokið.  Í málinu hafa engin gögn verið lögð fram sem styðja þessa fullyrðingu hans og þá hefur ekki verið gerð grein fyrir því með viðhlítandi gögnum hvort foreldrar hans hefðu haft fjár­hags­legt bolmagn til þeirrar aðstoðar sem stefnandi heldur fram að þau hafi lofað honum.  Verður því ekki hjá því komist að sýkna stefndu af kröfum stefnanda að þessu leyti.

Samkvæmt 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga má gera þeim sem af ásetningi eða stór­felldu gáleysi veldur dauða annars manns að greiða maka, börnum eða foreldrum miska­bætur.  Stefndi mótmælir því að lagaskilyrði séu fyrir hendi til að dæma megi bætur samkvæmt þessari lagagrein.  Er á því byggt að þótt ráða megi af gögnum máls­ins að Benedikt heitinn hafi sofnað undir stýri sé ekki unnt að komast að þeirri nið­ur­stöðu að hann hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi.

Eins og rakið hefur verið hér að framan var það niðurstaða lögreglurannsóknar að Benedikt heitinn hefði sofnað undir stýri bifreiðar sinnar með þeim afleiðingum að hún fór yfir á rangan vegarhelming og olli slysi því sem gerð hefur verið grein fyrir í dómi þessum.   Er um það deilt hvort uppfyllt sé það skilyrði 2. mgr. 26. gr. skaða­bóta­laga að slysinu hafi verið valdið af stórfelldu gáleysi.  Að mati dómsins telst það stór­fellt gáleysi að aka bifreið yfir á rangan vegarhelming á Reykjanesbraut við Kúa­gerði þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. og á þeim tíma þegar vænta má mikill­ar umferðar.  Kemur þá til skoðunar hvort það að sofna undir stýri bifreiðar leiði til þess að afleiðingar þess verði ekki flokkaðar undir stófellt gáleysi í merkingu 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga.  Samkvæmt meginreglum umferðarlaga nr. 50/1987 með síð­ari breytingum skal vegfarandi sýna tillitssemi og varúð svo að eigi leiði til hættu eða valdi tjóni eða óþægindum.  Þá eru í lögunum ítarlegar reglur um notkun akbrauta, hraða ökutækja, framúrakstur, ástand ökumanna og fleira, en allar þessar reglur eru settar með það markmið í huga að auka öryggi í umferðinni og draga úr um­ferð­ar­slysum.  Samkvæmt 1. mgr. 44. gr. laganna skal ökumaður vera líkamlega og andlega fær um að stjórna ökutæki því, sem hann fer með.  Samkvæmt 2. mgr. sömu laga­greinar má enginn stjórna eða reyna að stjórna ökutæki, ef hann vegna veikinda, hrörn­unar, ofreynslu, svefnleysis, neyslu áfengis eða annarra örvandi eða deyfandi lyfja eða ann­arra orsaka er þannig á sig kominn, að hann er ekki færa um að stjórna ökutækinu örugg­lega.  Meðal málsgagna er tímaritsgrein þar sem það er haft eftir fyrrverandi sam­býliskonu Benedikts heitins, Ingibjörgu Ómarsdóttur, móður áðurgreindrar Sesselju, að hann hafi verið úrvinda enda hefði hann unnið mikið og auk þess verið við æfingar vegna fyrirhugaðrar þátttöku sinnar í líkamsræktarkeppni.  Hann hafi hins vegar viljað standa við orð sín gagnvart dóttur sinni og sækja hana á þeirri stundu sem hann hefði lofað.  Af framansögðu er ljóst að Benedikt heitinn uppfyllti ekki þær kröf­ur sem gerðar eru í 44. gr. umferðarlaga um ástand og hæfni ökumanna og verður því að telja nægilega fram komið að hann hafi valdið slysinu af stórfelldu gáleysi.  Eru því upp­fyllt þau skilyrði sem sett eru í 2. mgr. 26. gr. skaðabótalaga fyrir greiðslu miskabóta og verður krafa stefnanda þar að lútandi því tekin til greina.  Með hliðsjón af málavöxtum öllum þykja miskabætur honum til handa hæfilegar ákveðnar kr. 2.000.000 og ber sú fjárhæð vexti samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga frá 30. nóvember 2000 til 11. júní 2002, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Rétt þykir að málskostnaður milli aðila falli niður.

Stefnandi hefur gjafsókn í málinu samkvæmt a-lið 1. mgr. 126. gr. laga nr. 91/1991, sbr. gjafsóknarleyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytis dagsett 9. janúar 2001.  Allur gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutn­ings­þóknun lögmanns stefnanda, Jóns Ármanns Guðjónssonar hdl., kr. 700.000.  Hefur þá ekki verið tekið tillit til virðisaukaskatts.  Ekki er gerð grein fyrir útlögðum kostnaði í yfir­liti lögmannsins.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndu, dánarbú Benedikts Oddssonar og Sjóvá-Almennar tryggingar hf., greiði stefn­anda, Birni Vilbergi Jónssyni, kr. 2.000.000 ásamt vöxtum samkvæmt 16. gr. skaða­bótalaga frá 30. nóvember 2000 til 11. júní 2002, en dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.

Málskostnaður milli aðila fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin mál­flutn­ings­þóknun lögmanns stefnanda, Jóns Ármanns Guðjónssonar hdl., kr. 700.000.