Hæstiréttur íslands

Mál nr. 515/2014


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Skiptaverðmæti
  • Kjarasamningur


                                     

Fimmtudaginn 5. mars 2015.

Nr. 515/2014.

Lukka ehf.

(Reimar Pétursson hrl.)

gegn

Kolbeini Einarssyni

(Jónas Þór Jónasson hrl.)

Sjómaður. Skiptaverðmæti. Kjarasamningur.

K, háseti á N, höfðaði mál gegn L ehf. og krafðist greiðslu ógreiddra launa. Byggði hann m.a. á því að samkvæmt kjarasamningum aðila hefði L ehf. verið óheimilt að draga frá aflahlut sínum olíukostnað áður en til skipta aflahlutar kom. L ehf. krafðist sýknu og hélt því fram að um skiptahlut færi eftir lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og hefði úthlutunin tekið mið af 1. gr. þeirra. Í héraðsdómi var vísað til kjarasamningsins og tekið fram að af honum leiddi að ekki yrði farið eftir 1. gr. laga nr. 24/1986 við ákvörðun aflahlutar. Þar sem K hafði ekki fengið greitt í samræmi við ákvæði kjarasamningsins var krafa hans tekin til greina. Í dómi Hæstaréttar var sú niðurstaða staðfest og tekið fram að það þyrfti að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra ættu að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 25. júlí 2014. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í samningarétti gildir grundvallarreglan um samningsfrelsi en í henni felst að aðilar ráða efni samnings sín á milli. Þessi regla gildir meðal annars á vinnumarkaði. Á þeim vettvangi er samningsfrelsið jafnframt varið af 2. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar á þann veg að löggjafanum ber með lögum að kveða á um rétt manna til að semja um starfskjör sín og önnur réttindi tengd vinnu. Að þessu gættu verður að koma ótvírætt fram í lögum ef ákvæði þeirra eiga að vera ófrávíkjanleg við gerð kjarasamninga. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með skírskotun til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Lukka ehf., greiði stefnda, Kolbeini Einarssyni, 350.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 28. apríl 2014.

Mál þetta, sem var dómtekið 24. mars 2014, var höfðað 29. október 2013. Stefnandi er Kolbeinn Einarsson, Hlíðarvegi 15, Ísafirði. Stefndi er Lukka ehf., Bólsvör 4, Stöðvarfirði.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 1.562.373 kr., auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 418.527 kr. frá 15. október 2012 til 15. nóvember 2012, en af 678.116 kr. frá þeim degi til 15. desember 2012, en af 814.671 kr. frá þeim degi til 15. janúar 2013, en af 1.183.947 kr. frá þeim degi til 15. febrúar 2013, en af 1.562.373 kr. frá þeim degi til greiðsludags. Þá er gerð krafa um málskostnað. Enn fremur er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að þola sjóveð í bátnum m.b. Narfa SU - 68 (2628) til tryggingar öllum dæmdum fjárhæðum.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum dómkröfum stefnanda. Til vara krefst stefndi þess að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefst stefndi málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnanda.

I.

Málsatvik eru þau að stefnandi starfaði hjá stefnda sem háseti á m.b. Narfa SU - 68 (2628), sem er 11,0 brúttórúmlesta og 14,0 brúttótonna trefjaplastfiskibátur. Fjórir bátsverjar voru á bátnum. Báturinn stundaði línuveiðar og lagði upp á Stöðvarfirði. Stefnandi starfaði og var lögskráður á bátinn 24. janúar 2012 og til 6. febrúar 2013, en þá lauk störfum hans. Ekki liggur fyrir skriflegur ráðningarsamningur milli aðila, sbr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985.

Hinn 29. ágúst 2012 tók gildi kjarasamningur milli Sjómannasambands Íslands (SSÍ), Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ) og VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) annars vegar og Landssambands smábátaeigenda (LS) hins vegar um kaup og kjör á smábátum. Stefnandi segir að af launauppgjöri stefnda frá september 2012 og áfram hafi honum orðið ljóst að stefndi væri ekki að gera upp í samræmi við ákvæði framangreinds kjarasamnings. Stefndi hafi ekki miðað uppgjör launa við heildarverðmæti aflans, eins og honum hafi borið að gera, heldur aðeins við 70% aflaverðmætis. Stefndi taldi enga stoð fyrir slíku, hvorki í lögum né umræddum kjarasamningi. 

Þar sem stefnandi taldi að launauppgjör stefnda við hann samræmdist ekki gildandi kjarasamningi, og lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun, leitaði hann til Verðlagsstofu skiptaverðs, sem starfar samkvæmt lögum nr. 13/1998, og bað um að uppgjör stefnda yrðu rannsakað til að ganga úr skugga um hvort þau samrýmdust lögum og gildandi kjarasamningi.

Með bréfi Verðlagsstofu skiptaverðs, dags. 14. júní 2013, var stefnda bent á að Verðlagsstofa teldi, þar sem Narfi SU-68 (2628) tilheyrði Landssambandi smábátaeigenda, að stefnda hefði ekki verið heimilt að draga 30% olíukostnað frá aflaverðmæti áður en til skipta kom.

Með bréfi 2. september 2013 krafði lögmaður stefnanda stefnda um leiðréttingu á launauppgjöri stefnanda vegna starfstíma stefnanda á bátnum, þ.e. vegna mánaðanna september 2012 til janúar 2013, en stefndi hafnaði kröfum stefnanda með hliðsjón af lögfræðiáliti sem hann aflaði sér. Stefnandi hefur því höfðað mál þetta.

Eftir að mál þetta var höfðað gáfu aðilar umrædds kjarasamnings, þ.e. Landssamband smábátaeigenda, SSÍ, VM og FFSÍ, út yfirlýsingu, dags. 8. október 2013. Í henni segir að umræddur kjarasamningur feli í sér lágmarkskjör fyrir alla smábátasjómenn samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 og að að gefnu tilefni skuli áréttað að samkvæmt kjarasamningnum beri að reikna aflahluti til skipta af heildarverðmæti aflans. Því eigi ekki að tvíreikna sérstakt skiptaverðmæti samkvæmt lögum nr. 24/1886 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun, enda hafi verið tekið fullt tillit til áhrifa þeirra í launakostnaði útgerðarinnar þegar skiptaprósentur af heildarafla­verðmæti hafi verið ákvarðaðar í kjarasamningnum.

Við aðalmeðferð málsins gaf stefnandi aðilaskýrslu og Stefán Þór Kristjánsson, fyrirsvarsmaður stefnda. Þá gáfu skýrslu allir þeir sem undirrituðu framangreinda yfirlýsingu frá 8. október 2013, Örn Pálsson, Guðmundur Ragnarsson, Árni Bjarnason, Reynir Þorsteinsson og Hólmgeir Jónsson. Verður vísað til framburðar þeirra síðar eftir því sem ástæða er til.

II.

                Stefnandi byggir mál sitt á því að hann hafi verið háseti á bát stefnda, m.b. Narfa SU – 68 (2628). Stefnandi eigi rétt á launum á ráðningartíma, sbr. 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, og hafi hann átt að fá greitt í samræmi við þau ráðningarkjör sem hann hafði starfað eftir, sem hafi verið kjarasamningur Landssambands smábátaeigenda og samtaka undir- og yfirmanna sjómanna.

                Í 1. gr. a 5. mgr. kjarasamningsins segi eftirfarandi, þegar fjórir séu í áhöfninni, eins og um borð í mb. Narfa SU – 68:  „Aflahlutir, án aukahluta og orlofs, skulu að lágmarki vera 21.6% af heildarverðmæti aflans sem skiptist jafnt milli bátsverja.“

                Eins og sjáist á launaseðlum stefnanda þá hafi stefndi miðað uppgjör launa ekki við heildarverðmæti aflans, eins og stefnda hafi borið að gera, heldur aðeins 70% aflaverðmætis. Fyrir slíku sé engin stoð, hvorki í lögum né kjarasamningi smábáta­sjómanna. Megi ætla að vegna misskilnings hafi stefndi talið að ekki væri búið að taka tillit til 30% olíukostnaðar við gerð kjarasamnings LS, þegar stefndi gerði upp við stefnanda, og því dregið olíukostnaðinn frá áður en hann gerði upp við stefnanda.  

                Í yfirlýsingu samningsaðila kjarasamningsins, dags. 8. október 2013, komi skýrt fram  að skiptaprósentan sé eins lág og kjarasamningar vegna smábátanna greini af þeim ástæðum  að búið sé að taka tillit til olíukostnaðarins. Megi t.d. sjá þetta einnig með samanburði við línuveiðikafla stærri báta, sem starfi eftir kjarasamningi L.Í.Ú. og samtaka sjómanna, en uppgjör samkvæmt þeim samningum sé þannig að dreginn sé fyrst frá olíukostnaður, áður en til skipta kemur, en á smábátunum sé búið að draga olíukostnaðinn frá áður, sem þýði það að skiptaprósentan úr heildarverðmæti verði önnur og lægri.

                Í kjarasamningi L.Í.Ú. og sjómannasamtakanna á stærri línubátunum, sbr. gr. 2.05, séu bátar með beitningavél á landróðrum undir 60 brúttórúmlestum. Samkvæmt samningnum sé skiptaprósentan 31,9% miðað við fimm menn og 1,6% stig dregin frá fyrir hvern mann sem fækkað sé um. Miðað við fjóra menn sé því skiptaprósentan 30,3% og séu aflahlutir reiknaðir af skiptaverði, sem sé 70% af heildarverðmætinu (30% dregin frá heildarverðmæti áður en skipt er). Sé reiknaður út aflahlutur m.v. smábátasamninginn þá sé skipt úr 100 m.v. fjóra menn og útkoman verði að aflahlutir séu 70*30,3% = 21.21%, sem síðan skiptist á fjóra menn. Niðurstaðan verði nánast eins, hvort heldur sé notaður kjarasamningur L.Í.Ú. með 30% frádrætti á heildaraflaverðmætið eða kjarasamningur Landssambands smábátaeigenda, án frádráttar af heildaraflaverðmætinu. Sé notaður 30% frádráttur á smábátasamninginn, eins og stefndi gerði, sé verið að tvíreikna olíufrádráttinn, áður en til skipta kemur, sem fulltrúar sjómanna hefðu eðlilega aldrei samþykkt.

                Stefnandi leggur áherslu á að atvinnurekandi geti ekki breytt einhliða gildandi ákvæðum kjarasamnings og þar með ráðningarkjörum launþega sinna, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980 og 7. gr. laga nr. 80/1938, sbr. 4. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Stefnda hafi verið ólögmætt að lækka eða skerða ráðningarkjör stefnanda, eins og stefndi gerði. Stefnandi sé ekki bundinn af slíkum einhliða gjörðum stefnda með þeim hætti að miða uppgjör til stefnanda við tvöfaldan frádrátt á olíukostnaði.

                Við útreikning á launakröfu stefnanda sé miðað við kjarasamning smábátanna og útreikninga Verðlagsstofu skiptaverðs, sem stefnda hafi verið gefinn kostur  á að koma með sínar athugasemdir við og hann gert. Jafnframt vísar stefnandi til dóms Hæstaréttar í máli nr. 130/2001 frá 27. september, en þar segi að útreikningar Verðlagsstofu skiptaverðs skuli teljast réttir, nema sýnt sé fram á það með óyggjandi hætti að þeir séu rangir. Það hafi stefndi ekki gert.

                Krafa stefnanda um greiðslu vangreiddra launa nemi samtals 1.562.373 kr., en það sé stefnufjárhæð málsins, og sé svohljóðandi eftir mánuðum:

September 2012

Samkvæmt launaseðli hafi hásetahlutur stefnanda vegna september verið 665.099 kr. en hefði átt að nema 917.360 kr. Gerð sé krafa um greiðslu mismunarins, 253.261 kr., auk helmings þeirrar fjárhæðar vegna umsamins 0,5 aukahlutar, 126.631 kr., og 10,17% orlof ofan á þessa fjárhæð (379.892), 38.635 kr. Krafan vegna september nemi því samtals 418.589 kr.

Október 2012

Samkvæmt launaseðli hafi hásetahlutur stefnanda vegna október verið 477.967 kr. en hefði átt að nema 635.051 kr. Gerð sé krafa um greiðslu mismunarins, 157.084 kr., auk helmings þeirrar fjárhæðar vegna um samins 0,5 aukahlutar, 78.542 kr., og 10,17% orlof ofan á þessa fjárhæð (235.626), 23.963 kr. Krafan vegna október nemi því samtals 259.589 kr.

Nóvember 2012

Samkvæmt launaseðli hafi hásetahlutur stefnanda vegna nóvember verið 238.522 kr., en hefði átt að nema 321.155 kr. Gerð sé krafa um greiðslu mismunarins, 82.633 kr., auk helmings þeirrar fjárhæðar vegna umsamins 0,5 aukahlutar, 41.316 kr., og 10,17% orlof ofan á þessa fjárhæð (123.187), 12.606 kr. Krafan vegna nóvember nemi því samtals 136.555 kr.

Desember 2012

Samkvæmt launaseðli hafi hásetahlutur stefnanda vegna desember verið 382.234 kr., en hefði átt að nema 605.692 kr. Gerð sé krafa um greiðslu mismunarins, 223.458 kr., auk helmings þeirrar fjárhæðar vegna umsamins 0,5 aukahlutar, 111.729 kr., og 10,17% orlof ofan á þessa fjárhæð (335.187), 34.089 kr. Krafan vegna desember nemi því samtals  369.276 kr.

Janúar 2013

Samkvæmt launaseðli hafi hásetahlutur stefnanda vegna janúar verið 573.148 kr., en hefði átt að nema 802.143 kr. Gerð sé krafa um greiðslu mismunarins, 228.995 kr., auk helmings þeirrar fjárhæðar vegna umsamins 0,5 aukahlutar, 114.498 kr., og 10,17% orlof ofan á þessa fjárhæð (343.493), 34.933 kr. Krafan vegna janúar nemi því samtals 378.426 kr.

Um lagarök vísar stefnandi til 1. gr. a 5. mgr. í kjarasamningi Landssambands smábátaeigenda og S.S.Í, F.F.S.Í. og VM Félags vélstjóra og málmtæknimanna, og laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun. Einnig byggir stefnandi á 4. gr., 6. gr., 27. gr. og 32. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl. og 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.

Dráttarvaxtakrafa er byggð á  III. kafla laga nr. 38/2001.

Um málskostnað er vísað til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um virðisaukaskatt vísast til laga um virðisaukaskatt nr. 50/1988.

Um sjóveð vísast til XI. kafla siglingalaga nr. 34/1985, einkum 197. gr.

Hvað varðar varnarþing er vísað til samkomulags aðila um að mál þetta skuli rekið fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

III.

Stefndi byggir aðalkröfu sína á því að með skiptahlut, og þar með laun stefnanda, skuli fara samkvæmt lögum nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.  Í 1. gr. laganna sé að finna ákvæði sem mæli fyrir um skiptaverðmæti sjávarafla sem seldur er óunninn á Íslandi, skiptingu þess verðmætis, auk þess sem tilgreindir séu þeir kostnaðarþættir sem áhrif kunni að hafa á heildarverðmæti aflans við skipti, s.s. gasolíuverð. Ákvæðið sé svohljóðandi:

Þegar afli fiskiskipa er seldur óunninn hér á landi er skiptaverðmæti aflans til hlutaskipta og aflaverðlauna 75% af því heildarverðmæti sem útgerðin fær fyrir hann.  Ekki er heimilt að draga frá heildarverðmæti afla í þessu sambandi við kaup á veiðiheimildum.  Þessi hlutfallstala skal hækka eða lækka við breytingar á verði gasolíu til fiskiskipa með hliðsjón af því gasolíuverði í birgðum olíufélaganna sem olíuverðsákvörðun miðast við hverju sinni.  Skiptahlutfallið skal hækka um eitt prósentustig fyrir hverja 12 Bandaríkjadala lækkun á birgðaverði gasolíu niður fyrir 109 Bandaríkjadali á tonn fob en lækka um eitt prósentustig fyrir hverja 12 Bandaríkjadala hækkun á birgðaverði gasolíu umfram 133 Bandaríkjadali á tonn fob.  Skiptaverðmæti aflans skal þó aldrei vera lægra samkvæmt þessari grein en 70% af heildarverðmæti.  Breytingar á gasolíuverði til fiskiskipa skulu miðast við mánaðarmót.

Þá segi í 2. mgr. 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, að frá og með 1. júní 1987 skuli skiptaverðmæti samkvæmt 1. málsl. 1. mgr. hækka í 76% af heildaraflaverðmæti. Frá sama tíma breytist viðmiðun til lækkunar skiptaverðmætishlutfalls samkvæmt 3. málsl. 1. mgr. á þann hátt að hlutfallstalan lækki um eitt prósentustig fyrir hverja 12 Bandaríkjadala hækkun á birgðaverði gasolíu umfram 145 Bandaríkjadali á tonn fob.

Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Sjómannasambands Íslands hafi viðmið skiptaverðmætishlutfalls á tímabilinu september 2012 til janúar 2013 verið eftirfarandi:

Viðmiðanir fyrir einstaka mánuði 2012

 

Löndun innanlands

Frystur botnfiskur

Fryst rækja

Siglt erlendis

Meðalverð gasolíu  til viðmiðunar

Mánuður

 

   fob   

   cif   

   fob   

   cif   

 

 

Sept.

70,0%

72,0%

66,5%

69,0%

63,5%

66,0%

925,81$/tonn

Okt.

70,0%

72,0%

66,5%

69,0%

63,5%

66,0%

977,68$/tonn

Nóv.

70,0%

72,0%

66,5%

69,0%

63,5%

66,0%

981,87$/tonn

Des.

70,0%

72,0%

66,5%

69,0%

63,5%

66,0%

936,98$/tonn

Viðmiðanir fyrir einstaka mánuði 2013

 

Löndun innanlands

Frystur botnfiskur

Fryst rækja

Siglt erlendis

Meðalverð gasolíu  til viðmiðunar

Mánuður

 

   fob   

   cif   

   fob   

   cif   

 

 

Jan.

70,0%

72,0%

66,5%

69,0%

63,5%

66,0%

924,33$/tonn

Af þessu megi glögglega sjá að skiptaverðmætishlutfall á umþrættu tímabili hafi verið 70%, enda meðalverð á gasolíu yfir þeim mörkum sem tilgreind séu í 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Stefndi hafnar fullyrðingum stefnanda um skiptaverðmætishlutfall, með þeim hætti sem stefnandi byggi dómkröfur sínar á, með vísan til umrædds kjarasamnings, í stað skýrs ákvæðis 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins.

Stefndi mótmælir því jafnframt alfarið að í skiptaprósentu kjarasamningsins hafi þegar verið búið að taka tillit til gasolíukostnaðar og að með því að haga uppgjöri í samræmi við orðalag 1. gr. laganna sé stefndi að draga olíufrádráttinn aftur frá launauppgjöri við stefnanda og sé frádrátturinn því tvöfaldur.  Sú fullyrðing stefnanda  eigi sér enga stoð í ákvæðum kjarasamningsins sjálfs.

Í því sambandi byggir stefndi á eftirfarandi málsástæðum sýknukröfu sinni til stuðnings.

Í fyrsta lagi er byggt á því að í 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins sé kveðið á um fortakslausa skyldu, í þeim skilningi að samkvæmt lagaákvæðinu sé beinlínis skylt við útreikning á hlutfallstölu að láta breytingar á verði gasolíu til fiskiskipa hafa áhrif á hlutfallstöluna, ýmist til hækkunar eða lækkunar.  Að þessu virtu verði við túlkun á ákvæðum kjarasamnings SSÍ, FFSÍ og VM annars vegar og LS hins vegar, að taka tillit til lagaákvæðisins, þ.e. 1. gr. laga nr. 24/1986, sem sé gild réttarheimild. Skuli því hlutfallstölur samkvæmt kjarasamningunum taka breytingum miðað við breytingar á verði gasolíu með þeim hætti sem lagaákvæðið kveður á um, enda styðjist sú niðurstaða við gildandi lög í landinu, sem eins og áður segi séu fortakslaus að þessu leyti og gangi framar ákvæðum kjarasamninga. Byggir stefndi á því að settum lögum verði ekki breytt eða þeim vikið til hliðar með ákvæðum kjarasamnings. Alþingi fari með löggjafarvaldið, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944, en ekki aðilar vinnumarkaðarins.  Þá hafnar stefndi alfarið öllum sjónarmiðum um að ákvæði laganna hafi ekki áhrif eða þýðingu gagnvart ákvæðum kjarasamningsins varðandi ákvörðun skiptaverðmætishlutfalls og við uppgjör launa. Bendir stefndi í því sambandi á að á heimasíðu Sjómannasambands Íslands sé meðalverð gasolíu í hverjum mánuði birt til viðmiðunar vegna útreiknings skiptaverðmætishlutfalls. Verður birting gasolíuverðs að mati stefnda ekki útskýrð með öðrum hætti en þeim að sambandið telji það hafa þýðingu við útreikning skiptaverðmætishlutfalls. Verður birting gasolíuverðs að mati stefnda ekki útskýrt með öðrum hætti en þeim að sambandið telji það hafa þýðingu við útreikning skipta­verðmætis­hlutfalls með þeim hætti sem stefndi heldur fram.

Í öðru lagi byggir stefndi á því að hafi það vakað fyrir samningsaðilum kjarasamningsins að breytingar á gasolíuverði skyldu ekki hafa áhrif á ákvæði kjarasamningsins, þá verði að minnsta kosti að gera þá kröfu að slíkra fyrirætlana hefði verið sérstaklega getið í samningnum sjálfum með skýrum hætti.  Það hafi hins vegar ekki verið gert í kjarasamningi SSÍ, FFSÍ og VM, annars vegar, og LS hins vegar.

Að mati stefnda hefði slíkt samningsákvæði þó ekki staðist, með vísan til þeirrar fortakslausu lagaskyldu sem kveðið sé á um í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, um áhrif gasolíuverðs á skiptahlutfall. Stefndi vísar til þess að fulltrúar þeirra hagsmunaaðila sem aðild eigi að þeim samningi séu þrautreyndir og vanir slíkri samningsgerð. Verði því að gera þær kröfur að ákvæði þeirra kjarasamninga sem þeir gera séu skýr og að ekki leiki vafi á efni og inntaki þeirra.

Í þriðja lagi byggir stefndi á því að einhliða og síðar tilkomnar yfirlýsingar, sbr. yfirlýsingu frá forsvarsmönnum LS, SSÍ, VM og FFSÍ, dags. 8. október 2013, hafi enga þýðingu varðandi túlkun 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og ákvæði þess kjarasamnings sem um ræðir.  Vísar stefndi til þess að efni yfirlýsingarinnar sé hvorki í samræmi við skýr efnisákvæði lagagreinarinnar, né sé hún í samræmi við orðalag þess kjarasamnings sem vísað er til í yfirlýsingunni. Yfirlýsingin beri glögglega með sér að vera viðbragð þeirra hagsmunaaðila sem að henni standi við niðurstöðu lögfræðilegrar álitsgerðar sem stefndi hafi aflað og byggt afstöðu sína til krafna stefnanda á. Sönnunargildi yfirlýsingarinnar sé því að mati stefnda ekkert og hafi hún að öðru leyti enga þýðingu fyrir sakarefni máls þessa. Komi yfirlýsingin því ekki til álita við úrlausn máls þessa.

Þá segir stefndi að væru ákvæði kjarasamningsins í samræmi við þá túlkun þeirra ákvæða kjarasamningsins sem dómkröfur stefnanda byggjast á, hefði ekki verið nein þörf á því fyrir þau hagsmunasamtök sem undir yfirlýsinguna rita að gefa hana út.

Stefndi mótmælir því alfarið að hafa breytt einhliða ákvæðum kjarasamnings og ráðningarkjörum launþega sinna og þar með brotið gegn ákvæðum 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda og 7. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. 4. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, eins og fullyrt sé í stefnu. Stefndi kveðst hafa gert upp við stefnanda í samræmi ákvæði gildandi laga í landinu, þ.e. ákvæði 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptakjör og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, og því hvorki brotið gegn ákvæðum laga né kjarasamninga.

Stefndi mótmælir því jafnframt að stefnandi geti byggt dómkröfur sínar á þeim samanburðarútreikningum sem fram koma í stefnu, annars vegar á skiptaprósentu og aflahlut samkvæmt kjarasamningi Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) og Sjómannasambands Íslands (SSÍ), og hins vegar á skiptaprósentu og aflahlut samkvæmt þeim kjarasamningi sem stefnandi byggir dómkröfur sínar á.

Ákvæði kjarasamnings LÍÚ, SA og SSÍ hafi ekkert með sakarefni þessa máls að gera og feli á engan hátt í sér sönnun á þeim kröfum sem stefnandi krefst dóms fyrir, enda byggist dómkröfur stefnanda ekki á ákvæðum hans. Hafi ákvæði þess kjarasamnings eða samanburðarútreikningar stefnanda sem byggist á ákvæðum hans því enga þýðingu í málinu. Niðurstaða málsins ráðist einvörðungu af orðalagi og túlkun á þeim kjarasamningi sem stefnandi byggir dómkröfur sínar á, og túlkun á ákvæðum 1. gr. laga, nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun sjávarútvegsins. Byggir stefndi á því að stefnandi geti ekki byggt kröfur sínar á öðrum kjarasamningum sem gerðir hafa verið á vinnumarkaði, hvorki með samanburðarútreikningum, eins og þeim sem fram koma í stefnu, né með öðrum hætti. Séu því engin lagaskilyrði til þess að fallast á dómkröfur stefnanda með vísan til kjarasamnings LÍU og SA og SSÍ, sem var undirritaður 17. desember 2008.

Þá mótmælir stefndi því að stefnandi geti í máli þessu byggt rétt á útreikningum Verðlagsstofu skiptaverðs, með vísan til dóms Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 130/2001. Telur stefndi að sá dómur hafi ekki fordæmisgildi í máli þessu.  Niðurstaða málsins ráðist af túlkun dómsins á ákvæðum 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptakjör og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og ákvæðum þess kjarasamnings sem stefnandi byggir dómkröfu sína á. Túlkun Verðlagsstofu á ákvæðum laga og kjarasamninga hafi enga þýðingu í máli þessu, enda sé það hlutverk dómstóla að skera úr réttarágreiningi og túlka efni og þýðingu settra laga.

Stefndi hafnar kröfu stefnanda um orlof af vangreiddum launum, enda hafi stefndi ekki vangreitt laun til stefnanda.

Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda gerir stefndi þá kröfu til vara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Varakröfu sinni til stuðnings vísar stefndi til þess að hann hafi greitt stefnanda 0,5 aukahlut, án þess að honum bæri til þess skylda samkvæmt ákvæðum laga og kjarasamnings, fyrir þá mánuði sem dómkrafa stefnanda tekur til, sbr. framlagða launaseðla.

Verði ekki fallist á að launauppgjör stefnanda skuli taka mið af ákvæðum laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, með þeim hætti sem stefndi byggir aðalkröfu sína á, heldur einungis á grundvelli ákvæða umrædds kjarasamnings, skuli miða aflahlut og launauppgjör stefnanda við ákvæði kjarasamningsins að öllu leyti, þ. á m. um aflahluti. Samkvæmt ákvæðum þess kjarasamnings hafi stefnda einungis borið að greiða stefnanda einn hásetahlut.

Stefndi telur að það standist hvorki ákvæði laga né kjarasamninga að launa­uppgjör stefnanda miði við heildaraflaverðmæti, en að honum skuli greiddur 0,5 hásetahlutur því til viðbótar. Eins og að framan greini hafi stefndi greitt stefnanda 0,5 aukahlut, einhliða og umfram skyldu, í því skyni að bæta kjör stefnanda, enda hafi stefndi verið í góðri trú um að launauppgjör stefnanda skyldi vera samkvæmt ákvæðum 1. gr. laga nr. 24/1986. Að öðrum kosti hefði stefndi aldrei greitt stefnanda 0,5 aukahlut til viðbótar tvöföldum hásetahlut. Verði ekki fallist á aðalkröfu stefnda í máli þessu séu forsendur greiðslu 0,5 aukahlutar til stefnanda brostnar. Geri stefndi því þá kröfu að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar sem nemi þeim 0,5 aukahlut sem stefndi greiddi umfram skyldu, eða samtals 1.167.980 kr., sem sundurliðist þannig eftir mánuðum:

September 2012  kr.  332.048

Október 2012                      kr.  238.982

Nóvember 2012  kr.  119.261

Desember 2012   kr.   91.116

Janúar 2013                        kr.  286.573

Samtals                 kr.  1.167.980

Verði fallist á varakröfu stefnda að þessu leyti krefst stefndi þess jafnframt að orlofskröfur stefnanda sæti lækkun til samræmis, þ.e. um 118.784kr. (1.167.980 kr. * 10,17%). Nemur lækkunarkrafa stefnda samkvæmt ofangreindu því samtals 1.286.764 kr.

Hvort sem dómurinn fellst á að greiðslur stefnda á aukahlut til stefnanda skuli koma að fullu til frádráttar dómkröfu hans eða ekki, krefst stefndi þess jafnframt að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar sem nemur umkrafinni hækkun þess aukahlutar sem stefndi greiddi stefnanda einhliða og umfram skyldu.

Samkvæmt sundurliðun krafna stefnanda í stefnu sé þess krafist að launauppgjör stefnanda verði leiðrétt á þann hátt að hásetahlutur hans verði reiknaður á grundvelli heildaraflaverðmætis, án tillits til áhrifa verðbreytinga á gasolíuverði, sbr. 1. gr. laga nr. 24/1986, og að mismunurinn verði greiddur stefnanda. Þar að auki krefst stefnandi þess að sá aukahlutur sem stefndi greiddi stefnanda sæti einnig hækkun.

Stefndi byggir á því að þessi hluti kröfugerðar eigi sér enga lagastoð og styðjist ekki að neinu leyti við ákvæði þess kjarasamnings sem dómkröfur stefnanda byggjast á. Gerir stefndi því þá kröfu að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar sem nemur umkrafinni hækkun á þeim 0,5 aukahlut sem stefndi greiddi stefnanda, eða um samtals 472.716 kr., sem sundurliðast þannig eftir mánuðum:

September 2012  kr.     126.631

Október 2012                      kr.       78.542

Nóvember 2012  kr.       82.633

Desember 2012   kr.      111.729

Janúar 2013                        kr.      114.498

Samtals                 kr.      472.716

Verði fallist á lækkun dómkrafna stefnanda á ofangreindum grundvelli er þess jafnframt krafist að orlofskröfur stefnanda sæti lækkun til samræmis, þ.e. um 48.075 kr., (þ.e. 472.716 * 10,17%). Nemi krafa stefnda um lækkun dómkrafna stefnanda samkvæmt ofangreindu því samtals 520.791 kr.

Að öðru leyti mótmælir stefndi þeim útreikningum Verðlagsstofu skiptaverðs sem stefnandi hefur lagt fram.

Þá mótmælir stefndi þeirri dómkröfu stefnanda að stefndi verði dæmdur til að þola sjóveð í bátnum Narfa SU – 68 (2628), til tryggingar á dæmdum fjárhæðum.  Komi ekki fram í stefnu á hvaða málsástæðum sú dómkrafa byggist og sé hún með öllu órökstudd.  Sá hluti kröfugerðar stefnanda sé því vanreifaður.

Að öðru leyti mótmælir stefndi málatilbúnaði stefnanda í heild sinni og þeim málsástæðum sem dómkröfur hans byggjast á.

Um lagarök vísar stefndi til ákvæða laga nr. 24/1986 um skiptakjör og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins, einkum 1. gr. laganna. Jafnframt vísar stefndi til ákvæða kjarasamnings SSÍ, FFSÍ og VM annars vegar, og LS hins vegar.  Enn fremur vísar stefndi til ákvæða laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur og meginreglna vinnuréttar, samningaréttar og kröfuréttar. Þá vísar stefndi til 2. gr. stjórnarskrárinnar, nr. 33/1944.

Málskostnaðarkröfu sinni til stuðnings vísar stefndi til ákvæða 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

IV.

                Í máli þessu er deilt um túlkun 1. gr. laga nr. 24/1986 um skiptaverðmæti og greiðslumiðlun innan sjávarútvegsins og gildi 1. gr. kjarasamnings milli Sjómanna­sambands Íslands (SSÍ), Farmanna- og fiskimannasambands Íslands (FFSÍ) og VM – Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) annars vegar og Landssambands smábátaeigenda hins vegar um kaup og kjör á smábátum, sem tók gildi 29. ágúst 2012. Nánar tiltekið er deilt um það hvort stefnda hafi verið heimilt að draga frá 30% olíukostnað áður en til skipta kom, við uppgjör á aflahlut stefnanda.

                Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 24/1986 segir að þegar afli fiskiskipa er seldur óunninn hér á landi sé skiptaverðmæti aflans til hlutaskipta og aflaverðlauna 75% af því heildarverðmæti sem útgerðin fær fyrir hann. Ekki sé heimilt að draga frá heildarverðmæti afla í þessu sambandi kostnað við kaup á veiðiheimildum. Þessi hlutfallstala skuli hækka eða lækka við breytingar á verði gasolíu til fiskiskipa með hliðsjón af því gasolíuverði í birgðum olíufélaganna sem olíuverðsákvörðun miðast við hverju sinni. Skiptahlutfallið skuli hækka um eitt prósentustig fyrir hverja 12 Bandaríkjadala lækkun á birgðaverði gasolíu niður fyrir 109 Bandaríkjadali á tonn fob en lækka um eitt prósentustig fyrir hverja 12 Bandaríkjadala hækkun á birgðaverði gasolíu umfram 133 Bandaríkjadali á tonn fob. Skiptaverðmæti aflans skuli þó aldrei vera lægra samkvæmt þessari grein en 70% af heildarverðmæti. Breytingar á gasolíuverði til fiskiskipa skuli miðast við mánaðamót. Þá segir í 2. mgr. 1. gr. að frá og með 1. júní 1987 skuli skiptaverðmæti skv. 1. málsl. 1. mgr. hækka í 76% af heildaraflaverðmæti. Frá sama tíma breytist viðmiðun til lækkunar skiptaverðmætis­hlutfalls skv. 3. málsl. 1. mgr. á þann hátt að hlutfallstalan lækki um eitt prósentustig fyrir hverja 12 Bandaríkjadala hækkun á birgðaverði gasolíu umfram 145 Bandaríkjadali á tonn fob.

Í 1. gr. umrædds kjarasamnings er kveðið á um hvernig aflahlutir af heildarverðmæti skuli vera. Þegar fjórir eru um borð skulu aflahlutir, án aukahluta og orlofs, að lágmarki vera 21,6% af „heildarverðmæti“ aflans sem skiptist jafnt milli bátsverja. Til viðbótar skal útgerð greiða álag á aflahluti af sínum hlut samkvæmt þessu: Skipstjóri sem jafnframt gegnir stöðu vélavarðar á bát styttri en 12 metrar að skráningarlengd skal hafa 100% álag á hásetahlut en á bátum 12 metrar að skráningarlengd og lengri skal skipstjóri hafa 100% álag á hásetahlut.

Stefndi heldur því fram að ákvæði 1. gr. laga nr. 24/1986 verði að ganga framar ákvæðum umrædds kjarasamnings þar sem lagaákvæðið feli í sér fortakslausa skyldu og settum lögum verði ekki breytt eða þeim vikið til hliðar með ákvæðum kjarasamnings. Með umræddum kjarasamningi var samið um kaup og kjör þeirra sem undir samninginn heyra og á samningurinn ótvírætt við um réttarsamband aðila. Þótt í 1. gr. laga nr. 24/1986 segi að hlutfallstala „skuli“ hækka eða lækka við breytingar á verði gasolíu til fiskiskipa getur það ekki girt fyrir það að í kjarasamningi sé kveðið á um annað fyrirkomulag. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að lög nr. 24/1986 fela í sér skiptingu verðmætis sjávarafla milli sjómanna, sem launamanna, og útgerðar, sem atvinnurekanda, og eru þannig einkaréttarlegs eðlis. Þá er það ekki einsdæmi að kjarasamningur sé gerður þar sem vikið er frá ákvæðum laga nr. 24/1986. Kemur þetta t.d. fram í almennum athugasemdum við frumvarp er varð að lögum nr. 21/1987, um breytingu á lögum nr. 24/1986, en þar kemur fram að í janúar 1987 hefðu verið gerðir nýir kjarasamningur milli sjómanna og útvegsmanna þar sem ákveðið hafi verið að breyta í veigamiklum atriðum tilhögun skiptaverðmætis sjávarafla og að aðilar hefðu verið sammála um að óska eftir lagabreytingum í samræmi við, enda hefðu breytingarnar verið veigamiklar. Þótt fyrirliggjandi yfirlýsing frá 8. október 2013, undirrituð af LS, SSÍ, VM og FFSÍ, sé ekki hluti af umræddum kjarasamningi hefur hún ótvírætt gildi við skýringu á samningnum. Í yfirlýsingunni kemur skýrt fram hvað vakti fyrir aðilum að samningnum og hvernig eigi að fara með skiptingu aflahlutar. Þannig kemur það skýrt fram að samkvæmt kjarasamningnum eigi ekki að reikna sérstakt skiptaverðmæti eftir lögum nr. 24/1986, enda hafi verið tekið fullt tillit til áhrifa þeirra laga á launakostnað útgerðarinnar þegar skiptaprósentur af heildar aflaverðmæti voru ákvarðaðar í kjarasamningnum. Þetta kom einnig skýrt fram fyrir dómi í vitnisburði þeirra sem rituðu undir samninginn. Vitnið Hólmgeir Jónsson, framkvæmdastjóri SSÍ, útskýrði jafnframt að laun stefnanda hefðu verið nánast þau sömu hefði kjarasamningur SSÍ við LÍU verið lagður til grundvallar við útreikning aflaverðmætis. Það skipti því í raun ekki máli hvorum kjarasamningnum verði beitt, niðurstaðan verði nánast sú sama. Einnig kom fram hjá vitninu að breytingar á gasolíuverði hafi ekki sömu áhrif í rekstri smábáta eins og stærri skipa. Að mati dómsins þurfti það ekki að koma fram í kjarasamningnum sjálfum að breytingar á gasolíuverði skuli ekki hafa áhrif á aflahluti, enda er samningurinn skýr um það hvernig reikna skuli afhluti, þ.e. að aflahlutir skuli að lágmarki vera 21,6% af heildarverðmæti aflans. Í þessu felst óhjákvæmilega að ekki eigi að fara eftir ákvæði 1. gr. laga nr. 24/1986. Þá hefur það enga þýðingu í máli þessu að upplýsingar um meðalverð gasolíu í hverjum mánuði til viðmiðunar vegna útreiknings skipta­verðmætis­hlutfalls séu birtar á vefsíðu SSÍ. Þær upplýsingar eru birtar vegna kjarasamnings við LÍU, en hafa ekki þýðingu fyrir umræddan kjarasamning. Að öllu þessu virtu er sýknukröfu stefnda hafnað.

Varakrafa stefnda er byggð á því að 0,5 aukahlutur til stefnanda eigi að koma til lækkunar á kröfum stefnanda. Stefndi vísar í þessu sambandi til þess að samkvæmt umræddum kjarasamningi hafi honum aðeins borið að greiða stefnanda einn hásetahlut, en ekki aukahlut til viðbótar því. Heldur stefndi því fram að forsendur séu brostnar fyrir greiðslu á aukahlutnum.

Vinnuveitandi getur greitt launþega viðbótargreiðslu umfram skyldu, hvort sem það er af velvilja, hvatningu eða annarri ástæðu. Fyrir dómi greindi fyrirsvars­maður stefnda frá því að greiðsla á 0,5 aukahlut til stefnanda hefði verið einhliða ákvörðun stefnda. Stefndi gerði engan fyrirvara við að sú greiðsla væri háð því að launauppgjör færi fram með þeim hætti sem stefndi taldi rétt og er ekkert annað komið fram í málinu en að stefnandi hafi tekið við aukahlutnum í góðri trú. Um er að ræða launagreiðslu og getur stefndi ekki endurheimt þessa greiðslu á grundvelli þess að hann hafi túlkað lög eða samninga á tiltekinn hátt. Verður að hafna varakröfu stefnda um að lækka beri dómkröfur stefnanda vegna þess að hann greiddi aukahlut.

Með vísan til alls framangreinds og útreikninga stefnanda verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 1.562.373 kr., ásamt dráttarvöxtum, eins og í dómsorði greinir. Stefnandi gerir kröfu um að stefndi verði dæmdur til að þola sjóveð í bátnum m.b. Narfa SU - 68 (2628) til tryggingar öllum dæmdum fjárhæðum. Ekki er fallist á að krafan sé vanreifuð enda er í stefnu málsins henni til stuðnings vísað til 197. gr. siglingalaga nr. 34/1985. Samkvæmt téðu ákvæði eru kröfur um laun og aðra þóknun sem skipstjóri, skipverjar og aðrir þeir, sem á skip eru ráðnir, eiga rétt á fyrir störf um borð, tryggðar með sjóveðrétti í skipi. Verður því staðfestur sjóveðréttur í bátnum Narfa SU - 68 (2628) til tryggingar framangreindri kröfu stefnanda.

Eftir þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber stefnda að greiða stefnanda málskostnað. Ekki liggur fyrir málskostnaðarreikningur eða tímaskýrsla.

Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari. Dóms­uppkvaðning hefur dregist en gætt var ákvæða 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991.

D ó m s o r ð:

                Stefndi, Lukka ehf., greiði stefnanda, Kolbeini Einarssyni, 1.562.373 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 418.527 krónum frá 15. október 2012 til 15. nóvember 2012, en af 678.116 krónum frá þeim degi til 15. desember 2012, en af 814.671 krónu frá þeim degi til 15. janúar 2013, en af 1.183.947 krónum frá þeim degi til 15. febrúar 2013, en af 1.562.373 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

                Staðfestur er sjóveðréttur fyrir framangreindu í bátnum Narfa SU - 68 (2628).

                Stefndi greiði stefnanda 400.000 krónur í málskostnað.