Hæstiréttur íslands

Mál nr. 206/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögreglurannsókn
  • Hæfi
  • Stjórnsýsla
  • Ákæra


                                                         

Föstudaginn 23. apríl 2010.

Nr. 206/2010.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir

vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

Kærumál. Lögreglurannsókn. Hæfi. Stjórnsýsla. Ákæra.

X var ákærð fyrir margvísleg brot. Héraðsdómur vísaði tveimur ákæruliðum frá dómi, annars vegar vegna hagnýtingar vændis og hins vegar vegna brots gegn valdstjórninni. Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms varðandi hagnýtingu vændis þar sem talið var að með því að sakfella X fyrir þann ákærulið væri hugsanlega verið að sakfella hana og refsa fyrir háttsemi sem hún hefði þegar hlotið refsidóm fyrir. Hins vegar var felld úr gildi niðurstaða héraðsdóms um frávísun ákæruliðs vegna brots gegn valdstjórninni með vísan til niðurstöðu Hæstaréttar í máli nr. 155/2010.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari. 

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. mars 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 31. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2010, þar sem vísað var frá dómi ákæruliðum I.1 og VI í ákæru 26. febrúar 2010, í máli sem sóknaraðili hefur höfðað gegn varnaraðila, en jafnframt hafnað kröfu varnaraðila um frávísun á ákæruliðum I.2, I.3, II, III og IV. Kæruheimild er í t. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknarðaðili krefst þess að hinn kærði úrskurður um frávísun ákæruliða I.1 og VI verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka þá til efnismeðferðar. 

Varnaraðili krefst þess að staðfest verði niðurstaða hins kærða úrskurðar um frávísun fyrrgreindra ákæruliða.

Dómsuppkvaðning í máli þessu hefur dregist af þeirri ástæðu að beðið var dóms í hæstaréttarmáli nr. 155/2010, þar sem fimm dómarar skipuðu dóm, sbr. 1. mgr. 7. gr. laga nr. 15/1998 um dómstóla. Dómur í því máli var var kveðinn upp 19. apríl 2010.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um að vísa frá héraðsdómi ákærulið I.1 í ákæru þeirri sem til meðferðar er í málinu.

Í tveimur dómum Hæstaréttar, í máli nr. 666/2009 frá 26. nóvember 2009 og í máli nr. 59/2010 frá 5. febrúar 2010, var komist að þeirri niðurstöðu að lögreglustjóri væri samkvæmt 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, vanhæfur til að fara með rannsókn á sakargiftum manns sem sakaður væri um að hafa brotið með refsiverðum hætti á lögreglumönnum er þeir gegndu starfi sínu undir stjórn viðkomandi lögreglustjóra. Bæri því samkvæmt 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 að vísa frá héraðsdómi ákæruliðum, þar sem byggt væri á slíkri rannsókn. Í framangreindum dómi Hæstaréttar í máli nr. 155/2010 var komist að öndverðri niðurstöðu um sambærilegt úrlausnarefni. Meðal skyldna dómara við Hæstarétt er að gæta þess að sambærileg mál fái sambærilega úrlausn. Með vísan til þess verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi að því er varðar frávísun á ákærulið VI í ákæru.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að vísa frá héraðsdómi ákærulið I.1 í ákæru 26. febrúar 2010 á hendur varnaraðila, X, en felldur úr gildi að því er varðar frávísun á ákærulið VI í sömu ákæru. Er lagt fyrir héraðsdóm að taka þann ákærulið til efnislegrar meðferðar.

                                                 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 26. mars 2010.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 15. þessa mánaðar, er höfðað með ákæru ríkissaksóknara útgefinni 26. febrúar 2010 á hendur X, kt. [...], [...], [...], fyrir neðangreind hegningarlagabrot:

I.

1.   Hagnýting vændis, með því að hafa í júlí 2009, flutt A, til landsins í því skyni að hún stundaði vændi og haft atvinnu eða viðurværi sitt af vændi hennar allt til 15. ágúst 2009. Ákærða hafði milligöngu um að fjöldi manna hafði samræði eða önnur kynferðismök við hana gegn greiðslu að fjárhæð um kr. 15.000- 25.000 í hvert sinn og hafði þannig tekjur af vændi hennar, útvegaði hús undir vændisstarfsemina að [...] í Reykjavík og auglýsti jafnframt eða lét auglýsa vændi A opinberlega á vefsíðum. 

Telst þetta varða við 3., 5., 6. og 7. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

2.   Mansal, frelsissviptingu, ólögmæta nauðung og hótanir, með því að hafa, í þeim tilgangi að notfæra sér A kynferðislega, neytt hana til þess að stunda vændi frá 16. ágúst 2009 á heimili ákærðu að [...] í [...], ákærðu til framfærslu og viðurværis, með því að hóta henni lífláti og líkamsmeiðingum, sparka og slá í líkama hennar, svipta hana frelsi sínu og koma í veg fyrir samskipti hennar við aðra en viðskiptavini vændisstarfseminnar, meðal annars með því að læsa hana inni í herbergi, meina henni að yfirgefa íbúðina og banna henni að borða, sofa og nota salerni nema með leyfi ákærðu. Ákærða beitti A jafnframt ótilhlýðilegri aðferð, með því að taka af henni vegabréf og peninga sem og ólögmætum blekkingum með því að vekja, styrkja og hagnýta sér villu hennar um aðstæður á Íslandi, er hún sagði henni að ákærða væri valdamikil hér á landi og hefði mikil áhrif innan löggæslustofnana og glæpaheimsins á Íslandi og gæti því látið glæpamenn nauðga henni hlýddi hún ekki ákærðu. Voru hótanir ákærðu til þess fallnar að vekja hjá A ótta um líf, heilbrigði og velferð sína, sem varð til þess að hún þorði ekki að leita aðstoðar yfirvalda fyrr en henni tókst að komast út úr íbúð ákærðu föstudaginn 23. október 2009.

Telst þetta varða við 1. tl. 1. mgr. 227. gr. a., 225. gr., 226. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 3., 6. og 7. mgr. 206. gr., 225. gr., 226. gr. og 233. gr. sömu laga.

3.   Líkamsárás, með því að hafa föstudaginn 23. október 2009 að [...] í [...] slegið A í höfuðið, þegar lögreglumenn aðstoðuðu A við að sækja vegabréf sitt á heimili ákærðu.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

II.

 Mansal, með því að hafa, sunnudaginn 11. október 2009, í því skyni að hagnýta sér B og C kynferðislega, flutt þær til landsins í því skyni að þær stunduðu vændi, beitt þær ótilhlýðilegri aðferð með því að taka af þeim vegabréf eða skilríki, og ólögmætum blekkingum með því að vekja, styrkja og hagnýta sér villu þeirra um aðstæður á Íslandi, er hún sagði þeim að ákærða væri valdamikil hér á landi og hefði mikil áhrif innan löggæslustofnana og glæpaheimsins á Íslandi. Jafnframt að hafa frá 11. október til 7. nóvember 2009 haft atvinnu eða viðurværi sitt af vændi B og frá sama degi til 3. desember 2009, haft atvinnu eða viðurværi sitt af vændi D með því að að hafa milligöngu um að fjöldi manna hefðu samræði eða önnur kynferðismök við þær gegn greiðslu um kr. 20.000 í hvert sinn og haft þannig tekjur af vændi þeirra, hýst þær að [...] í [...], og útvegað húsnæði undir vændisstarfsemina frá 1. nóvember 2009 að [...] í [...]. Ákærða auglýsti einnig eða lét auglýsa vændi þeirra opinberlega á vefsíðum.

Telst þetta varða við 1. tl. 1. mgr. 227. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 3., 5., 6. og 7. mgr. 206. gr.

III.

Hagnýtingu vændis, með því að hafa þann 23. nóvember 2009, flutt E og F, til landsins í því skyni að þær stunduðu vændi og haft atvinnu eða viðurværi sitt af vændi þeirra allt til 3. desember 2009. Ákærða hafði milligöngu um að fjöldi manna hefðu samræði eða önnur kynferðismök við þær gegn greiðslu að fjárhæð um kr. 20.000 í hvert sinn og hafði þannig tekjur af vændi þeirra, útvegaði húsnæði undir vændisstarfsemina að [...] í [...] og auglýsti jafnframt eða lét auglýsa vændi þeirra opinberlega á vefsíðum.

Telst þetta varða við 3., 5., 6. og 7. mgr. 206. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

IV.

Mansal og hótanir, með því að hafa, í þeim tilgangi að notfæra sér G kynferðislega, neytt hana til að stunda vændi í nóvembermánuði 2009 á heimili ákærðu að [...] í [...] og húsnæði sem ákærða útvegaði að [...] í [...]. Ákærða beitti G ótilhlýðilegri aðferð og ólögmætum blekkingum með því að vekja, styrkja og hagnýta sér villu hennar um aðstæður á Íslandi, hótað henni að taka af henni vegabréfið, að senda hana og fjölskyldu hennar úr landi og sagði henni að ákærða væri valdamikil hér á landi og hefði mikil áhrif innan löggæslustofnana og glæpaheimsins og gæti því látið glæpamenn nauðga henni hlýddi hún ekki ákærðu. Voru hótanir ákærðu til þess fallnar að vekja hjá G ótta um líf, heilbrigði og velferð sína og fjölskyldu sinnar. Ákærða hafði milligöngu um að fjöldi manna hafði samræði eða önnur kynferðismök við G gegn greiðslu að fjárhæð um kr. 15.000-20.000 í hvert sinn og hafði þannig tekjur af vændi hennar. Ákærða auglýsti jafnframt eða lét auglýsa vændi G opinberlega á vefsíðum.

Telst þetta varða við 1. tl. 1. mgr. 227. gr. a. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 3., 6. og 7. mgr. 206. gr.og 233. gr. sömu laga.

V.  

Líkamsárás, með því að hafa mánudaginn 29. desember 2008 í stigagangi fjölbýlishússins að [...] í [...] rifið í hár H og slegið hana með rafmagnssnúru í andlitið, með þeim afleiðingum að hún hlaut sár, bólgu og þreyfieymsli vinstra megin á andliti og bólgu yfir vinstri kjálkalið.               

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

VI. 

Brot gegn valdstjórninni, með því að hafa þriðjudaginn 12. janúar 2010 við Kópavogsfangelsið að Kópavogsbraut 17 í Kópavogi, hrækt í andlit lögreglumannsins I, sem var þar við skyldustörf.               

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Einkaréttarkröfur:

1.   Af hálfu A, fd. [...], er krafist miskabóta úr hendi ákærðu,að fjárhæð krónur 1.500.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. nóvember 2009 og þar til mánuður er liðinn frá því að krafan var birt, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. s.l. frá þeim degi til greiðsludags.

2.   Af hálfu B, fd. [...], er krafist miskabóta úr hendi ákærðu, samtals að fjárhæð krónur 500.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi er mánuður er liðinn frá því að bótakrafna var birt til greiðsludags.

3.   Af hálfu G, kt. [...], er krafist miskabóta úr hendi ákærðu, að fjárhæð krónur 800.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 15. október 2009 til þess dags er mánuður er liðinn frá því að bótakrafan er birt ákærðu, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

4.   Af hálfu H, kt. [...], er krafist miskabóta úr hendi ákærðu, að fjárhæð krónur 500.000, auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 29. desember 2009 að liðnum mánuði frá þeim degi er bótakrafan er birt ákærðu, en með dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags skv. 1. mgr. 6. gr. sömu laga.

Ákærða neitar sök. Hún krefst þess aðallega að ákæruliðum I-IV og VI verði vísað frá dómi, ella að hún verði sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins, en til vara að hún verði dæmd til vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsingin verði skilorðsbundin að öllu leyti. Þá krefst ákærða þess að gæsluvarðhaldsvist hennar dragist að fullu frá dæmdri refsingu. Ákærða krefst þess aðallega að bótakröfum á hendur henni verði vísað frá dómi, til vara að ákærða verði sýknuð af bótakröfum en til þrautavara að bætur verði lækkaðar verulega. Verjandi ákærðu krefst hæfilegra málsvarnarlauna.

Í þessum þætti málsins er til úrlausnar frávísunarkrafa ákærðu. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að frávísunarkröfu ákærðu verði hrundið.

I.

Í greinargerð ákærðu er frávísunarkrafa á ákæruliðum I-IV byggð á reglunni um bann við nýrri málsmeðferð eða refsingu fyrir sömu háttsemi (ne bis in idem). Frávísunarkrafa ákærðu á ákærulið VI er byggð á vanhæfi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu til að fara með rannsókn máls vegna ætlaðs brots ákærðu gegn lögreglumanni sem var við skyldustörf og undir lögreglustjórann heyrði. Vísar verjandi ákærðu til dómafordæma í dómi Hæstaréttar í máli nr. 59/2010 og dómi Héraðsdóms Suðurlands í máli nr. S-42/2010.

Um ákæruliði I-IV.

Af hálfu ákærðu er byggt á því að með dómi uppkveðnum 1. desember sl. í máli nr. S-676/2009, hafi ákærða m. a. verið sakfelld fyrir að „hafa haft atvinnu eða viðurværi sitt af vændi A, B og C, og fleiri ónafngreindra kvenna á árunum 2008-2009”. Í dómnum hafi verið miðað við ótiltekinn fjölda kvenna og ákærða sakfelld fyrir það og hlotið refsingu miðað við þá rúmu verknaðarlýsingu í ákæru. Með þessu sé því óheimilt að gefa út frekari ákærur vegna meintra tengsla ákærðu við nafngreindar konur, sem ótvírætt eigi undir verknaðarlýsingu eldri ákæru, fyrir sama tímabil. Eins og sú ákæra hafi verið sett fram og sakfellingu verið háttað hafi ákæruvaldið ekki lagalega heimild nú til til þess að nafngreina einhverja af þessum einstaklingum og krefjast aukinnar refsingar á hendur ákærðu. Eins og málatilbúnaði ákæruvaldsins sé háttað verði ekki hjá því komist að vísa málinu frá dómi. Ella yrði ákærða hugsanlega margdæmd fyrir sama verknaðinn. Líta beri til grundvallarreglna um vafa í opinberum málum sem meta beri sakborningi í hag.

Í munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu ákærðu var á því byggt af hálfu ákæruvaldsins að skilyrði ne bis in idem væru ekki uppfyllt í málinu. Ekki væri um sama brot að ræða og legið hafi til grundvallar úrlausn í fyrra málinu. Þá hafi verið um að ræða tvær aðskildar lögreglurannsóknir sem beinst hafi að mismunandi brotum. Rannsökuð hafi verið vændisstarfsemi ákærðu á tveimur mismunandi tímabilum og í mismunandi húsnæði. Brotaþolar hafi ekki verið þeir sömu. Rannsóknirnar hafi verið reknar í sitt hvoru lagi, verið afgreiddar í sitt hvoru lagi hjá ríkissaksóknara og leitt til tveggja ákæruskjala, þ. e. ákæru dagsettrar 29. september 2009 og ákæru dagsettrar 26. febrúar 2010. Dómur í fyrra málinu frá 1. desember 2009 varðandi hagnýtingu vændis og mansal hafi verið byggður á ákæruskjali frá 29. september 2009. Brot samkvæmt ákæruliðum II, III og IV samkvæmt ákærunni frá 26. febrúar hafi átt sér stað eftir útgáfu ákærunnar frá 29. september 2009. Þá hafi ákærða aðeins einu sinni áður verið ákærð fyrir mansal gegn einum brotaþola, J, samkvæmt ákæruskjali frá 29. september 2009. Að því er varðar ákæruliði I.1. og I. 2. samkvæmt ákæru frá 26. febrúar 2010 sé til þess að taka að brotin hafi átt sér stað á samfelldu tímabili sem hófst um miðjan júlí 2009 en lauk ekki fyrr en 23. október 2009 eftir útgáfu ákæru frá 29. september 2009. Þá hafi brot samkvæmt ákærulið I. 3. verið framið eftir útgáfu fyrri ákærunnar.

Upphaf rannsóknar fyrra málsins hafi verið í lok nóvember 2008. Skýrslur af brotaþolum hafi hafist í lok árs 2008 og lokið í maí 2009. Húsleit á heimili ákærðu hafi farið fram 20. febrúar 2009. Þar hafi verið haldlögð skilríki J og farmiðar fjögurra kvenna. Rannsókn hafi lokið 30. júlí 2009 og hafi málið þá verið sent ríkissaksóknara. Málið hafi verið endursent lögreglu til frekari rannsóknar og hafi málið borist ríkissaksóknara aftur í byrjun september 2009 og ákæra verið gefin út 29. september 2009, hún þingfest 8. október 2009 og málið dómtekið 26. október s.á.

Upphaf rannsóknar síðara málsins hafi verið í byrjun október 2009. Símar hafi verið tengdir til hlustunar og hljóðritunar 16. október 2009. Seinni rannsóknin hafi hafist eftir að búið var að gefa út ákæru vegna fyrri brotanna 29. september 2009.

Með vísan til framangreinds telji ákæruvaldið að þau brot sem lágu til grundvallar ákæru frá 29. september 2009 og fjallað hafi verið um í dómi héraðsdóms nr. S-676/2009 séu önnur brot en lágu til grundvallar ákæru dags. 26. febrúar 2010. Þar með sé ekki fullnægt skilyrðum reglnanna um ne bis idem í ákvæði 186. gr. laga um meðferð sakamála. Eftir að ákæra var gefin út í fyrra málinu hafi ákærða hins vegar haldið áfram að fremja samkynja brot gegn öðrum konum og um það fjalli hin nýja ákæra í málinu. Því beri að hafna frávísun ákæruliða I-IV.

Af hálfu ákæruvaldsins eru þau rök færð fyrir því að hafna beri frávísun ákæruliðar VI. að aðstæður í máli þessu séu ekki sambærilegar atvikum í málum þeim sem dæmd voru með dómi Hæstaréttar í máli nr. 59/2010 og dómi Héraðsdóms Suðurlands frá 4. mars 2010 í máli nr. S-42/2010  þar sem lögreglustjórar voru taldir vanhæfir til að fara með rannsókn máls. Í þeim málum hafi aðstæður verið þannig að um hafi verið um að ræða mun minni embætti en embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, en það embætti skiptist í fjölda deilda og jafnframt séu starfsmenn margir. Þá hafi rannsókn á sakarefni samkvæmt þessum ákærulið farið fram í annarri deild en brotaþoli starfar í og hjá lögreglumanni með hærra starfsstig en sá sem brotið var gegn.

Forsendur og niðurstaða.

Um ákærulið I.1.

Samkvæmt þessum ákærulið er ákærðu gefið að sök að hafa í júlí 2009, flutt A til landsins í því skyni að hún stundaði vændi og haft atvinnu eða viðurværi sitt af vændi hennar allt til 15. ágúst 2009. Ákærða hafi haft milligöngu um að fjöldi manna hafði samræði eða önnur kynferðismök við hana gegn greiðslu að fjárhæð um kr. 15.000- 25.000 í hvert sinn og hafði þannig tekjur af vændi hennar, útvegaði hús undir vændisstarfsemina að [...] í [...] og auglýsti jafnframt eða lét auglýsa vændi A opinberlega á vefsíðum. 

Í fyrra málinu gegn ákærðu, nr.  S-676/2009, sem dæmt var 1. desember sl., var ákærða  m. a. sakfelld fyrir „að hafa haft atvinnu eða viðurværi sitt af vændi A, B, C og fleiri ónafngreindra kvenna á árunum 2008-2009.“  Í ákæruliðnum var tekið fram að ákærða hafi leigt undir vændisstarfsemina íbúðarhúsnæði að [...] og [...] í [...], og [...] og [...] í [...]. Ákæran í fyrra málinu var gefin út 29. september 2009 og hefur komið fram að rannsókn fyrra málsins hafi lokið í byrjun september 2009 eftir framhaldsrannsókn að kröfu ákæruvaldsins og hafi gögn framhaldsrannsóknarinnar borist ríkissaksóknara í byrjun september 2009. Sakfelling ákærðu fyrir að hafa einnig haft viðurværi sitt af vændi fleiri ónafngreindra kvenna á árunum 2008 og 2009 var í fyrrnefndum dómi byggð á framburði vitnanna A og B.

Samkvæmt þessari verknaðarlýsingu í ákærunni frá 29. september 2009  kann sú háttsemi ákærðu að hafa viðurværi sitt af vændi þessara ónafngreindu kvenna að hafa átt sér stað á sama tímabili og brot ákærðu samkvæmt ákærulið I.1. í ákærunni frá 26. febrúar sl. spannar.  Því vaknar sú spurning óhjákvæmilega hvort ein þessara ónafngreindu kvenna kunni að hafa verið A, en ákærða er samkvæmt þessum ákærulið sökuð um að hafa haft viðurværi sitt af vændi þessarar konu. Ýmislegt mælir þó gegn því að svo kunni að vera. Má í því sambandi nefna að í málinu er byggt á því að vændi A hafi verið stundað í húsnæði er ákærða leigði undir starfsemina að [...] í [...], en í fyrra málinu var í ákærulið 2 samkvæmt ákæru útgefinni 29. september 2009 byggt á því, að vændi það sem í ákæruliðnum var lýst, hafi farið fram  í húsnæði er ákærða leigði að  [...] og [...] í [...], og [...] og [...] í [...].  Þrátt fyrir þetta verður samt ekki framhjá því litið að ákærða var í fyrra málinu ákærð og sakfelld fyrir að hafa haft viðurværi sitt af vændi fleiri ónafngreindra kvenna á árunum 2008 og 2009. Miðað við þá verknaðarlýsingu og sakfellingu þykir því ekki með öllu unnt að útiloka að ein hinna ónafngreindu kvenna kunni að hafa verið A. Með því að sakfella ákærðu fyrir ákærulið I.1. væri því hugsanlega verið að sakfella hana og refsa fyrir háttsemi sem hún hefur þegar hlotið refsidóm fyrir.  Allan vafa um þetta ber að skýra ákærðu í hag og samkvæmt því verður ekki hjá því komist að vísa ákærulið I.1. frá dómi á grundvelli þess að ákærðu kunni þegar að hafa verið gerð refsing fyrir þá háttsemi sem í þessum ákærulið er lýst. Er ákærulið I.1. því vísað frá dómi.

Ákærða hefur ekki áður verið sakfelld fyrir háttsemi eins og þá sem lýst er í ákærulið I.2. Hún var að ákærð fyrir mansal gagnvart nafngreindri konu í fyrra málinu en sýknuð af þeirri háttsemi. Sakfelling ákærðu fyrir háttsemi sem henni er gefin að sök samkvæmt ákærulið I.2. gæti því aldrei talist fela í sér tvöfalda refsingu samkvæmt reglunni  um „ne bis in idem“. Er kröfu ákærðu um frávísun þessa ákæruliðar því hrundið.

Krafa ákærðu um frávísun ákæruliðar I.3., sem varðar ætlaða líkamsárás ákærðu, er án alls rökstuðnings og út í hött. Er kröfu vegna þessa ákæruliðar því hrundið.

Kröfu ákærðu um frávísun ákæruliða II-IV, þar sem ákærðu er gefið að sök mansal og hagnýting vændis í október og nóvember 2009, ber að hafna þegar af þeirri ástæðu að hin ætluðu brot ákærðu samkvæmt þessum ákæruliðum voru framin eftir að seinni ákæran í fyrra málinu frá 29. september 2009 var gefin út. Er því fráleitt að halda því fram að sakfelling samkvæmt þessum ákæruliðum gæti falið í sér tvöfalda refsingu með vísan til fyrra málsins á hendur ákærðu. Er kröfu um frávísun þessara ákæruliða því hrundið.

Samkvæmt ákærulið VI er ákærðu gefið að sök brot gegn valdstjórninni, með því að hafa þriðjudaginn 12. janúar 2010 við Kópavogsfangelsið að Kópavogsbraut 17 í Kópavogi, hrækt í andlit lögreglumannsins I, sem var þar við skyldustörf. Er brotið talið varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Lögreglumaðurinn I er lögreglumaður í lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og því starfsmaður lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Starfsmaður lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu rannsakaði hið ætlaða brot ákærðu gegn lögreglumanninum I.

Í 7. mgr. 8. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er kveðið á um að lögreglustjórar og aðrir þeir sem fari með lögregluvald megi ekki rannsaka brot ef þeir eru vanhæfir til þess samkvæmt stjórnsýslulögum. Kemur fram í ákvæðinu að starfsmenn þess lögreglustjóra sem vanhæfur er, geti ekki rannsakað mál nema rannsókn fari fram undir stjórn annars lögreglustjóra, enda séu þeir ekki sjálfir vanhæfir til að fara með málið samkvæmt stjórnsýslulögum. Telja verður að lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sem fer með lögreglustjórn þar, hafi með vísan til 6. tl. 1. mgr. 3. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 verið vanhæfur til að fara með rannsókn málsins. Það þykir hvorki hagga þeirri niðurstöðu að embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sé stærra en þau embætti úti á landi þar sem um vanhæfi var talið að ræða né að máli skipti að hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sé rekinn fjöldi deilda og starfsmenn margir og að  rannsókn hafi farið fram í annarri deild en ætlaður brotaþoli starfar í og hjá rannsóknarlögreglumanni með hærra starfsstig en sá sem brotið var gegn.  Með vísan til 5. mgr. 26. gr. laga nr. 88/2008 og að kröfu ákærðu ber því að vísa þessum ákærulið nr. VI frá dómi.

Eftir þessum úrslitum bíður ákvörðun sakarkostnaðar efnisdóms í málinu.

Vegna forfalla annars meðdómsmannsins dróst uppsaga úrskurðarins.

Úrskurð þennan kveða upp héraðsdómararnir Finnbogi H. Alexandersson sem dómsformaður og Sandra Baldvinsdóttir og Sveinn Sigurkarlsson.

Úrskurðarorð:

Kröfu ákærðu um að ákæruliðum I.2, I.3, II, III og IV, samkvæmt ákæru útgefinni 26. febrúar 2010, verði vísað frá dómi, er hrundið.

Ákæruliðum I.1. og VI samkvæmt framangreindri ákæru er vísað frá dómi.

Ákvörðun sakarkostnaðar bíður efnisdóms í málinu.