Hæstiréttur íslands
Mál nr. 232/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Stefna
- Kröfugerð
- Aðild
- Vanreifun
- Frávísunarúrskurður staðfestur
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson.
Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 22. mars 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 4. apríl sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Eins og greinir í héraðsdómsstefnu, sem er 16 blaðsíður að lengd, eru sóknaraðilar í hjúskap. Þar kemur fram að árið 1993 hafi sóknaraðilinn Sigmar Georgsson eignast stofnbréf í Sparisjóði Vestmannaeyja að nafnverði 25.000 krónur. Á fundi stofnfjáreigenda sparisjóðsins 9. október 2007 hafi verið samþykkt að auka stofnfé hans um 350.000.000 krónur og samþykkti stjórn sparisjóðsins að nýta þá heimild 6. nóvember sama ár. Daginn eftir hafi sóknaraðilanum, sem þá var orðinn eigandi stofnfjárhluta í sparisjóðnum að nafnverði 55.000 krónur, borist bréf frá stjórninni þar sem honum var boðið að skrá sig fyrir nýjum stofnbréfum að nafnverði 5.000.000 krónur. Í stefnunni segir að í kjölfarið hafi sóknaraðilinn tjáð sparisjóðsstjóra „að hann myndi ekki taka þátt í stofnfjáraukningunni, enda hefði hann ekki fjárhagslegt bolmagn til þess.“ Sparisjóðsstjórinn hafi hins vegar hvatt hann eindregið til að skipta um skoðun og sagt „að hann myndi ekki bera neinn kostnað af stofnfjáraukningunni“ enda stæði honum til boða „lán með veði í bréfunum sjálfum.“ Jafnframt hafi stjórnarmenn og starfsmenn sparisjóðsins hvatt sóknaraðilann eins og aðra stofnfjáreigendur til þátttöku í stofnfjáraukningunni. Í kjölfarið hafi hann skráð sig fyrir nýjum stofnfjárhlutum að nafnverði 5.000.000 krónur og greitt kaupverð þeirra, sem nam sömu upphæð, með andvirði láns sem sparisjóðurinn hafi veitt honum 13. desember 2007 að fjárhæð 5.150.000 krónur og verið tryggt með handveði í hinum keyptu hlutum. Í stefnu er því lýst að áðurgreindur sparisjóðsstjóri hafi fallist á að veita sóknaraðilanum nýtt og „hagstæðara lán“ en það sem áður greinir. Hinn 19. júní 2009 hafi báðir sóknaraðilar gefið út skuldabréf að fjárhæð 6.600.000 krónur með 1. veðrétti í íbúðarhúsnæði þeirra til tryggingar hinu nýja láni, en jafnframt hafi eftirstöðvar eldra lánsins verið greiddar með andvirði þess nýja. Hinn 21. júní 2010 hafi stofnfé sparisjóðsins verið lækkað úr 357.000.000 krónum í 100.000.000 krónur og þar með hafi hlutur sóknaraðilans Sigmars lækkað í 1.415.971 krónu að nafnverði. Sparisjóðurinn hafi síðan runnið saman við varnaraðila 29. mars 2015 sem þá hafi tekið við öllum réttindum hans og skyldum. Við samrunann hafi stofnfjáreigendur sparisjóðsins eignast hlut í varnaraðila og í samræmi við það hafi sóknaraðilanum verið tilkynnt með bréfi 4. maí sama ár að virði hluta hans í varnaraðila næmi 242.600 krónum.
Samkvæmt héraðsdómsstefnu eru sóknaraðilar stefnendur málsins og varnaraðili stefndi. Krefjast sóknaraðilar „þess aðallega að ógilt verði með dómi skuldabréf“ það, sem gefið var út af þeim báðum 19. júní 2009, auk þess sem varnaraðili „verði dæmdur til að greiða þeim óskipt kr. 3.863.781“ með nánar greindum dráttarvöxtum „frá þingfestingardegi til greiðsludags.“ Sóknaraðilinn „Sigmar krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða honum kr. 4.123.110“ með dráttarvöxtum frá sama tíma.
Í stefnunni er gerð svofelld grein fyrir kröfugerðinni: „Stefnandi Sigmar var sá aðili sem var skráður stofnfjáreigandi og gaf út hið fyrra skuldabréf ... sem nýtt var til að kaupa stofnfjárbréfanna 2007. Árið 2009 gaf stefnandi Sigmar út annað skuldabréf ... ásamt stefnanda Eddu ... Skuldin samkvæmt hinu fyrra skuldabréfi var greidd upp með láni samkvæmt hinu síðara skuldabréfi. Báðir stefnendur eru því aðilar að aðalkröfu þar sem báðir stefnendur eru skuldarar samkvæmt skuldabréfi ... sem krafist er ógildingar á. Að sama skapi eru báðir stefnendur rétthafar skaðabótakröfu vegna þeirra afborgana sem þau hafa innt af hendi vegna skuldabréfsins ... Stefnandi Sigmar var einn skráður fyrir hinu keypta stofnfé. Hann er því einn aðili að varakröfu þar sem krafist er skaðabóta vegna þess fjár sem hann greiddi fyrir stofnfjárbréfin að frádregnu andvirði þeirra í dag og einni arðgreiðslu sem greidd var vegna þeirra. Aðild sína byggja stefnendur á heimild 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.“ Samkvæmt stefnunni virðast jafnt aðal- og varakrafa byggðar „á því að starfsmenn stefnda hafi haft milligöngu um að stefnandi Sigmar tæki þátt í stofnfjáraukningu í stefnda haustið 2007 ... Meginforsenda stefnanda fyrir stofnfjárkaupunum og lántökunni samhliða var ... sú að stefnendur bæru enga persónulega ábyrgð á skuldbindingunum ... Hefðu starfsmenn stefnda veitt stefnanda viðeigandi og fullnægjandi upplýsingar um eðli fjárfestingarinnar hefði hann aldrei tekið þátt í stofnfjáraukningunni“. Samkvæmt þessu hafi „stefndi“ og starfsmenn hans brotið gegn nánar greindum ákvæðum laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti og nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Að því er virðist til stuðnings báðum kröfunum er í stefnunni vísað til rangra og brostinna forsendna, ógildingar á grundvelli 29., 30., 33. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, auk þess sem „sú greiðsla sem átti að fást gegn greiðslu fyrir stofnfjárbréfin hafi ekki haft þá eiginleika sem stefnendur máttu ætla og starfsmenn stefnda lofuðu að hún hefði“, sbr. 40. og 67. gr. laga nr. 50/2000 um lausafjárkaup. Í kafla um orsakatengsl og sennilega afleiðingu er meðal annars komist svo að orði: „Stefnendur hafa orðið fyrir tjóni vegna kaupa á stofnfjárbréfunum og lántökunnar samhliða.“ Í upphafi kafla um sérfræðiábyrgð er tekið fram: „Skaðabótaábyrgð stefnda byggir á sakarreglunni og reglunni um húsbóndaábyrgð.“ Loks er í stefnunni gerð grein fyrir því að jafnt aðalkrafa beggja sóknaraðila sem varakrafa sóknaraðilans Sigmars lúti að því að bæta þeim tjón sem þau hafi orðið fyrir og varnaraðili beri ábyrgð á.
II
Í e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 er kveðið á um að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, en þessi lýsing skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið er. Þá gildir sú meginregla í einkamálaréttarfari að sé málatilbúnaður stefnanda svo óljós að ekki verði lagður dómur á mál beri að vísa því frá dómi.
Eins og að framan greinir lýtur aðalkrafa beggja sóknaraðila að því að skuldabréfið, sem þau gáfu út til tryggingar láni frá Sparisjóði Vestmannaeyja 19. júní 2009 og tryggt er með veði í húseign þeirra, verði „ógilt“ og varnaraðila auk þess gert að greiða þeim 3.863.781 krónu. Samkvæmt XVIII. kafla laga nr. 91/1991 má ógilda með dómi glötuð eða horfin skuldabréf, svo sem segir í 1. mgr. 120. gr. laganna, en ljóst má vera að ekki er krafist ógildingar þess á þeim grundvelli. Verður því að líta svo á, þótt það komi ekki fram í héraðsdómsstefnu, að með þessum hluta kröfunnar sé í raun verið að krefjast þess að ógiltur verði samningur beggja sóknaraðila við sparisjóðinn um umrætt lán þannig að þau séu óbundin af skuldinni samkvæmt skuldabréfinu. Svo sem rakið hefur verið sýnast málsástæður sóknaraðila til stuðnings þessari kröfu lúta fyrst og fremst að því að starfsmenn sparisjóðsins hafi brotið á margvíslegan hátt gegn lögum þegar þeir hafi ráðlagt sóknaraðilanum Sigmari Georgssyni að kaupa stofnbréf í sparisjóðnum síðari hluta árs 2007, en ekki er vikið að því hvernig sóknaraðilinn Edda Angantýsdóttir tengdist þeim kaupum. Ekki er heldur ljóst af stefnunni hvernig kröfufjárhæðin, 3.863.781 króna, er fundin, en svo virðist sem þar sé um að ræða ætlað „tjón“ beggja sóknaraðila sem nemi „afborgunum, vöxtum og öðrum kostnaði sem þau hafi samtals greitt vegna hvoru tveggja“ skuldabréfsins, sem gefið var út af sóknaraðilanum Sigmari 13. desember 2007, og skuldabréfsins, sem gefið var út af þeim báðum 19. júní 2009 „að frádregnu núverandi virði stofnfjárbréfanna ... og arðgreiðslu“. Af stefnunni verður helst ráðið að aðalkrafa sóknaraðila sé skaðabótakrafa, enda þótt hún virðist sem fyrr segir annars vegar fela í sér kröfu um ógildingu samnings og hins vegar endurgreiðslu fjár. Þá kemur þar ekki fram hvert hafi verið verðmæti lánsins frá 2007, sem greitt var upp með andvirði lánsins frá 2009, en í greinargerð varnaraðila í héraði er því haldið fram að það hafi numið 5.585.070 krónum eða 1.014.930 krónum lægri fjárhæð en upphæð síðargreinda lánsins.
Samkvæmt framansögðu er aðalkrafa sóknaraðila í stefnu og rökstuðningur fyrir henni óskýr, auk þess sem ekki er þar gerð viðhlítandi grein fyrir aðild sóknaraðilans Eddu að sakarefninu, svo sem nauðsynlegt hefði verið. Þótt varakrafan, sem sóknaraðilinn Sigmar teflir fram, sé ekki eins óljós og aðalkrafan er hún ekki sundurliðuð tölulega, auk þess sem málsástæðum og lagarökum, sem að baki henni búa, er fléttað saman við röksemdir fyrir aðalkröfunni þannig að ómögulegt er átta sig á af lestri stefnunnar hvers eðlis varakrafan er og við hvaða sérstök rök hún styðst. Ekki bætir úr skák að ekki er þar heldur gerður greinarmunur á Sparisjóði Vestmannaeyja og varnaraðila frekar en sóknaraðilunum tveimur.
Með skírskotun til alls þess, sem að framan greinir, er kröfugerð og annar málatilbúnaður sóknaraðila svo vanreifaður að staðfesta ber hinn kærða úrskurð um að vísa málinu frá héraðsdómi.
Sóknaraðilar greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðilar, Sigmar Georgsson og Edda Angantýsdóttir, greiði óskipt varnaraðila, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 9. mars 2016.
I
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 16. febrúar sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Sigmari Georgssyni og Eddu Angantýsdóttur, báðum til heimilis að Kirkjuvegi 31, Vestmannaeyjum, á hendur Landsbankanum hf., Austurstræti 11, Reykjavík, með stefnu áritaðri um birtingu 16. september 2015. Málið var þingfest 17. september 2015.
Dómkröfur stefnenda eru aðallega þær að ógilt verði með dómi skuldabréf, áður nr. 1167-74-120230, nú nr. 0185-36-94968, útgefið af stefnendum, Sigmari og Eddu, 19. júní 2009 að fjárhæð 6.600.000 krónur. Þá krefjast stefnendur þess, að stefndi verði dæmdur til að greiða þeim óskipt 3.863.781 krónu, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Stefnandi Sigmar krefst þess til vara að stefndi verði dæmdur til að greiða honum 4.123.110 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þingfestingardegi til greiðsludags.
Í báðum tilvikum gera stefnendur kröfu um greiðslu málskostnaðar að skaðlausu, að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Stefndi krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda.
Í báðum tilvikum krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnenda, samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi eða að mati dómsins.
Í þessum þætti málsins er einungis til úrslausnar krafa stefnda um frávísun málsins og málskostnað. Stefnendur krefjast þess að frávísunarkröfu stefnda verði hafnað og að þeim verði dæmdur málskostnaður.
II
Í stefnu er því lýst að stefnandi Sigmar hafi, að því er virðist á árinu 1993, upphaflega keypt stofnfé í Sparisjóði Vestmannaeyja fyrir 25.000 krónur. Með bréfi sparisjóðsins til stefnanda Sigmars 7. nóvember 2007 var tilkynnt að stjórn sjóðsins hefði á fundi deginum áður ákveðið að nýta heimild til hækkunar stofnfjár að nafnverði 350.000.000 króna. Jafnframt var gerð grein fyrir því að stofnfjáreigendur ættu forgangsrétt á að skrá sig fyrir hækkuninni með þeim hætti að hver þeirra gæti skráð sig fyrir nýjum stofnfjárbréfum í hlutfalli við eign sína við upphaf útboðs. Upplýst var að stefnandi Sigmar ætti rétt á að skrá sig fyrir 5.000.000 króna að nafnverði. Stefnandi skráði sig fyrir nýjum hlutum að þessu nafnvirði.
Hinn 13. desember 2007 gaf stefnandi Sigmar út skuldabréf nr. 1167-74-042363 til Sparisjóðs Vestmannaeyja að fjárhæð 5.150.000 krónur. Lánið var verðtryggt og átti að greiðast með 20 afborgunum á sex mánaða fresti og var fyrsti gjalddagi þess 15. júní 2008. Í stefnu er því lýst að samhliða hafi stefnandi Sigmar undirritað handveðssamning um handveð í stofnfjárhlutunum til tryggingar á greiðslu skuldarinnar. Liggur handveðssamningurinn frammi í málinu.
Með bréfi, dagsettu 2. maí 2008, tilkynnti Sparisjóður Vestmannaeyja stefnanda Sigmari sem stofnfjáreiganda um greiðslu arðs af nafnverði stofnfjár að fjárhæð 636.930 krónur sem lögð yrði inn á reikning nr. 1167-05-2489.
Hinn 19. júní 2009 undirrituðu báðir stefnendur skuldabréf sem upphaflega bar númerið 1167-74-120230 en fékk síðar nýtt númer 0185-36-94968. Skuldabréfið ber yfirskriftina íbúðalán og var tryggt með 1. veðrétti í íbúð stefnenda að Kirkjuvegi 31 í Vestmannaeyjum. Lánið var verðtryggt og bar að greiða það með 480 mánaðarlegum afborgunum, í fyrsta sinn 1. ágúst 2009. Í stefnu er því lýst að með útgáfu skuldabréfsins hafi eftirstöðvar fyrra skuldabréfs stefnanda Sigmars verið greiddar upp.
Hinn 29. mars 2015 kl. 15:00 tók gildi samruni Landsbankans hf. og Sparisjóðs Vestmannaeyja og tók Landsbankinn hf. þá yfir öll réttindi og allar skyldur sparisjóðsins.
III
Stefnendur byggja dómkröfur sínar á því að röng og villandi ráðgjöf starfsmanna Sparisjóðs Vestmannaeyja til stefnanda Sigmars hafi valdið því að síðara skuldabréfið nr. 0185-36-94968 sé ógilt eða ógildanlegt á grundvelli almennra reglna samningaréttarins um brostnar forsendur og ákvæða laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Að sama skapi hafi hinir ógildanlegu samningar og ólögmæt og saknæm háttsemi starfsmanna sparisjóðsins, sem og galli á hinum keyptu stofnfjárbréfum, valdið því að stefnendur urðu fyrir fjárhagslegu tjóni sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á.
Stefnendur vísa til þess að í hvatningu og ráðleggingum starfsmanna sparisjóðsins til stefnanda Sigmars vegna þátttöku hans í stofnfjáraukningu sparisjóðsins á árinu 2007 hafi starfsmennirnir gengið út frá því og útlistað fyrir stefnanda Sigmari að um trausta fjárfestingu væri að ræða og að ef svo ólíklega vildi til að arður af stofnfjárbréfunum myndi ekki duga til greiðslu afborgana af láni því, sem tekið var vegna hennar, yrði aðeins gengið að stofnfjárbréfunum til fullnustu krafna sjóðsins samkvæmt lánssamningnum. Því hafi meginforsenda stefnanda Sigmars fyrir stofnfjárkaupunum verið sú að hann bæri enga persónulega ábyrgð á skuldbindingunni. Krafa stefnenda um ógildingu skuldabréfsins byggist því á ákvæðum 29., 30., 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Stefnendur vísa til þess að háttsemi starfsmanna sparisjóðsins hafi jafnframt brotið gegn almennri vísireglu 5. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, um góða viðskiptavenju og jafnframt gegn ákvæðum 14., 15. og 16. gr. laganna um upplýsingagjöf til viðskiptavina, öflun upplýsinga og ráðleggingar vegna eignastýringar og fjárfestingarráðgjafar og um öflun upplýsinga og mat vegna annarra verðbréfaviðskipta.
Þá byggja stefnendur einnig á því að við útgáfu stofnfjárbréfanna hafi verið brotið gegn ákvæðum laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, og samþykktum stefnda, auk þess sem ekki hafi verið fylgt reglum svonefndrar MiFID-tilskipunar og né reglugerðar nr. 995/2007, um upplýsingagjöf til viðskiptavina. Stefnendur byggja á því að brot starfsmanna stefnda leiði til ógildingar á áðurnefndu skuldabréfi og skaðabótaábyrgðar stefnda á tjóni stefnenda.
Stefnendur byggja einnig á því að sú greiðsla, sem átti að fást gegn greiðslu fyrir stofnfjárbréfin, hafi verið gölluð. Yfirlýsingar starfsmanna sparisjóðsins um öryggi fjárfestingarinnar hafi falið í sér loforð um tiltekna eiginleika hinna keyptu stofnfjárbréfa sem síðar hafi komið í ljós að ekki hafi verið fyrir hendi og því beri stefndi ábyrgð á. Vísa stefnendur að þessu leyti til ákvæða laga nr. 50/2000, um lausafjárkaup.
Loks vísa stefnendur til sakarreglunnar og reglunnar um húsbóndaábyrgð kröfum sínum til stuðnings, auk sjónarmiða um sérfræðiábyrgð starfsmanna sparisjóðsins.
IV
Stefndi byggir frávísunarkröfu sína fyrst og fremst á því að málið sé vanreifað og að málatilbúnaður stefnenda sé óljós og í ósamræmi við d-, e- og g-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Stefnendur byggi á því að lán samkvæmt skuldabréfi nr. 0185-36-94968, sem krafist sé ógildingar á, hafi verið nýtt til að greiða upp eldra lán samkvæmt skuldabréfi nr. 1167-74-042363, upphaflega að fjárhæð 5.150.000 krónur. Í stefnu sé þó ekki tilgreint uppgreiðsluverðmæti eldra lánsins þegar það var greitt upp. Samræmist slíkt ekki áskilnaði einkamálalaga um skýrleika dómkrafna og málsástæðna í stefnu. Samkvæmt framlagðri skilagrein vegna eldra lánsins virðist uppgreiðsluverðmæti þess hafa numið 5.585.070 krónum hinn 29. júní 2009. Ljóst sé að sú fjárhæð sé 1.014.930 krónum lægri en fjárhæð skuldabréfs nr. 0185-36-94968 sem stefnendur krefjist ógildingar á samkvæmt aðalkröfu. Engar skýringar séu gefnar á ástæðum fyrir þessum mismun í málatilbúnaði stefnenda, hvorki í stefnu né dómskjölum. Í gögnum málsins liggi því ekki fyrir nauðsynlegar upplýsingar um hvernig fjárhæðinni 1.014.930 krónum hafi verið ráðstafað en þó virðist henni ekki hafa verið ráðstafað til uppgreiðslu á láni vegna skuldabréfs nr. 1167-74-042363. Samkvæmt upplýsingum, sem stefndi hafi aflað, sé seinna skuldabréfið svokallað „íbúðalán“ með veði í íbúðarhúsnæði stefnenda og sé það ástæðan fyrir því að bæði hjónin séu skuldarar. Lánið hafi verið notað til uppgreiðslu á eldra láni og hugsanlega einhverju fleiru. Ástæða þess að stefnendur óskuðu eftir íbúðaláni hafi verið verið langur lánstími og lægri vextir vegna góðra trygginga en ein af forsendum „íbúðalána“ hafi verið fyrsti veðréttur og innan við 80% veðhlutfall.
Að mati stefnda sé aðalkrafa málsins alvarlega vanreifuð og ekki í samræmi við kröfur 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Ótækt sé með öllu að krefjast ógildingar á skuldabréfi að fjárhæð 6.600.000 krónur þegar fyrir liggi að þeirri fjárhæð hafi ekki að öllu leyti verið varið til greiðslu á láni sem stefnendur byggi á að hafi verið tekið til fjármögnunar stofnfjárkaupa í Sparisjóði Vestmannaeyja sem ennfremur sé byggt á að hafi verið ólögmætur gerningur. Beri því að vísa málinu frá dómi á grundvelli vanreifunar.
Stefndi gerir jafnframt athugasemd við aðild málsins sem samkvæmt stefnu byggist á samlagsaðild samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 91/1991. Þegar stefnendur noti úrræði einkamálalaga um samlagsaðild ,verði hvor stefnandi um sig að hafa uppi sjálfstæða kröfu á hendur stefnda, enda sé gengið út frá því við afmörkun á skilyrðum samlagsaðildar að gerðar séu kröfur sem mætti allt eins hafa uppi sjálfstætt í tveimur málum. Í þessu máli geri stefnendur þó aðalkröfu í einu lagi en sá málatilbúnaður samræmist ekki ákvæðum laga nr. 91/1991. Þá sé umfjöllun um málsástæður í stefnu villandi að því leyti að þar sé á víxl fjallað um stefnendur eða stefnandann Sigmar í tengslum við stofnfjárkaupin, þótt sá þáttur málsins lúti strangt tiltekið eingöngu að stefnandanum Sigmari og hann standi einn að varakröfu málsins um skaðabætur vegna þess fjár sem hann greiddi fyrir stofnfjárbréfin. Ekki sé því nægilega greint á milli stefnenda málsins í umfjöllun um málsástæður í stefnu.
Þá byggir stefndi frávísunarkröfu sína á því að fjárhæð varakröfu rúmist ekki innan aðalkröfu, heldur sé í varakröfu krafist hærri fjárhæðar. Jafnframt bendir stefndi á að bæði aðal- og varakrafa byggi á öllum sömu málsástæðum og lagarökum og virðist því sem kröfugerðin sé í raun valkvæð. Um þetta vísar stefndi til dóms Hæstaréttar Íslands frá 15. nóvember 1955 í máli réttarins nr. 258/1953.
Jafnframt bendir stefndi á að umfjöllun og tilvísun til ákvæða 62., 66. og 67. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, í stefnu sé að einhverju leyti villandi og röng, enda virðist ekki vera samræmi milli umfjöllunarinnar og þeirra lagaákvæða sem tilgreind séu. Auki það enn frekar á erfiðleika stefnda um varnir í málinu og feli í sér vanreifun.
Stefnendur mótmæla frávísunarkröfu stefnda og málsástæðum hans. Stefnendur benda á að í stefnu sé umfjöllun um Sparisjóð Vestmannaeyja og stefnda tvinnað saman sem og málsástæðum beggja stefnenda en það sé hins vegar skýrt sérstaklega í stefnu. Ljóst sé að lýsingar í stefnu eigi við um sparisjóðinn til þess tímamarks þegar hann hafi runnið inn í Landsbankann hf. Þessi framsetning valdi því ekki að stefndi eigi erfitt við að halda uppi vörnum.
Þá vísa stefnendur til þess að hagsmunir kröfugerðar í aðalkröfu séu meiri en hagsmunir varakröfunnar þar sem í aðalkröfu sé, auk endurgreiðslukröfu, krafist ógildingar á skuldabréfi en heildarlántökukostnaður vegna þess nemi rúmlega 15.000.000 króna. Þá sé ekki um valkvæða kröfugerð að ræða. Stefnendur vísa jafnframt til þess að gagnaöflun í málinu sé ekki lokið og mótmæla því að röng tilvísun til ákvæða laga um fjármálafyrirtæki geti varðað frávísun málsins, enda hafi hún verið leiðrétt. Um sjónarmið stefnda um aðild, benda stefnendur á að aðild þeirra sé samaðild samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, enda eigi þeir sameiginlega hagsmuni af málinu og beri óskipta skyldu. Telji dómurinn að skipta beri upp dómkröfum stefnenda, beri að gefa þeim kost á því.
V
Í fyrsta lið aðalkröfu í stefnu krefjast stefnendur þess að ógilt verði með dómi skuldabréf nr. 0185-36-94968. Í í dómkröfunni er gerð grein fyrir skuldabréfinu með tilgreiningu númers þess, höfuðstólsfjárhæð, útgáfudegi og skuldurum samkvæmt því. Er það mat dómsins að þessi tilgreining skuldabréfsins í dómkröfunni sé nægileg og varði það því ekki frávísun hennar á grundvelli sjónarmiða um vanreifun þótt ekki hafi verið gerð grein fyrir uppgreiðsluverðmæti eldra láns samkvæmt skuldabréfi nr. 1167-74-042363 sem stefnendur byggja á að skuldabréf nr. 0185-36-94968 hafi átt að koma til greiðslu á.
Í seinni lið aðalkröfu gera stefnendur bæði sameiginlega skaðabótakröfu á hendur stefnda. Er því lýst í stefnu að báðir stefnendur séu aðilar að þeirri skaðabótakröfu þar sem skuldabréf það, sem þeir séu báðir skuldarar að og krafist sé ógildingar á, hafi verið notað til að greiða upp fyrra skuldabréfið, sem stefnandi Sigmar gaf út vegna kaupa hans á stofnfjárbréfum í Sparisjóði Vestmannaeyja 2007.
Á sérstöku dómskjali er sett fram sundurliðun á skaðabótakröfu stefnenda. Er þar gerð grein fyrir því að hún nemi greiddum afborgunum og kostnaði af bæði fyrra skuldabréfinu nr. 1167-74-042363, sem stefnandi Sigmar gaf út 2007 vegna stofnfjárbréfakaupanna, og síðara skuldabréfinu sem stefnendur eru bæði útgefendur að. Er tilgreint að greiddar afborganir ásamt vöxtum og öðrum kostnaði af fyrra skuldabréfinu nemi 870.991 krónu en 3.869.680 krónum af síðara skuldabréfinu, samtals 4.740.671 króna. Frá þeirri fjárhæð dragist núvirði stofnfjárins 239.960 krónur og arðgreiðsla hinn 2. maí 2008 að fjárhæð 636.930 krónur. Nemi tjón stefnenda því 3.863.781 krónu, auk dráttarvaxta. Fjárhæð varakröfu stefnanda Sigmars er sundurliðuð þannig að hún nemi upphaflegri stofnfjáraukningu að fjárhæð 5.000.000 króna að frádregnu núvirði stofnfjárins, 239.960 krónum, og að frádreginni arðgreiðslu hinn 2. maí 2008 að fjárhæð 636.930 krónur.
Af framangreindu er ljóst að skaðbótakröfur stefnanda Sigmars, annars vegar í aðalkröfu og hins vegar í varakröfu, byggjast ekki á sömu sjónarmiðum og verður því að líta svo á að hann hafi með þessum málatilbúnaði krafist annars tveggja, bóta samkvæmt aðalkröfu eða varakröfu. Er því um að ræða valkvæða kröfugerð sem á sér ekki stoð í réttarfarsreglum. Þá er fjárhæð skaðabótakröfunnar í varakröfu hærri en fjárhæð skaðbótakröfunnar í aðalkröfu en sú framsetning aðal- og varakrafna er ekki í samræmi við kröfur 80. gr. laga nr. 91/1991 um skýra kröfugerð í stefnu. Fullyrðing stefnenda um að heildarlántökukostnaður vegna síðara lánsins, sem krafist er ógildingar á, nemi rúmum 15 milljónum króna breyta ekki þeirri niðurstöðu, enda er að engu leyti gerð grein fyrir þessu í kröfugerðinni.
Stefnendur byggja á því að röng og villandi ráðgjöf starfsmanna Sparisjóðs Vestmannaeyja til stefnanda Sigmars hafi valdið því að síðara skuldabréfið nr. 0185-36-94968 sé ógilt eða ógildanlegt á grundvelli almennra reglna samningaréttarins um brostnar forsendur og ákvæða laga um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936. Að sama skapi hafi hinir ógildanlegu samningar og ólögmæt og saknæm háttsemi starfsmanna sparisjóðsins, sem og galli á hinum keyptu stofnfjárbréfum, valdið því að stefnendur urðu fyrir fjárhagslegu tjóni sem stefndi beri skaðabótaábyrgð á. Í kafla stefnunnar um orsakatengsl og sennilega afleiðingu er vísað til þess að stefnendur hafi orðið fyrir tjóni vegna kaupa á stofnfjárbréfum og samhliða lántöku og tjónið sé afleiðing af hinni ólögmætu og saknæmu háttsemi starfsmanna stefnda. Vísað er til þess að hefðu hinir sérfróðu starfsmenn sparisjóðsins, sem verið hafi í yfirburðastöðu gagnvart stefnendum, veitt fullnægjandi og rétta ráðgjöf, hefði stefnandi Sigmar ekki tekið þátt í stofnfjáraukningunni og ekki gefið út fyrra skuldabréfið og því hefðu stefnendur ekki í kjölfarið gefið út síðara skuldabréfið og ekki orðið fyrir umræddu tjóni.
Þrátt fyrir lýsingar í stefnu á þeirri ólögmætu og saknæmu háttsemi, sem stefnendur byggja á að hafi valdið tjóni þeirra, er þar hvorki að finna frekari útlistun á því, hvernig sú háttsemi olli stefnanda Eddu umræddu tjóni en fyrir liggur að hún var einungis skuldari samkvæmt síðara skuldabréfinu, né er þar gerð grein fyrir því hvaða gögn málsins liggi þeim málsástæðum til grundvallar. Það er mat dómsins að í stefnu sé ekki með nægilega skýrum hætti greint á milli stefnenda málsins í umfjöllun um málsástæður í stefnu. Telst málið því vera vanreifað.
Í ljósi alls framangreinds er það niðurstaða dómsins að framangreindir annmarkar á málatilbúnaði stefnenda séu svo verulegir að þegar af þeim ástæðum verði að vísa málinu í heild frá dómi.
Eftir þessari niðurstöðu og með vísan til ákvæða 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnendum gert að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 350.000 krónur.
Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Dómkröfum stefnenda, Sigmars Georgssonar og Eddu Angantýsdóttur, er vísað frá dómi.
Stefnendur greiði stefnda, Landsbankanum hf., 350.000 krónur í málskostnað.