Hæstiréttur íslands
Mál nr. 717/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Frestur
|
|
Þriðjudaginn 25. nóvember 2014 |
|
Nr. 717/2014. |
Kaupþing
hf. (Óskar Sigurðsson hrl.) A
og B (Þorsteinn Einarsson hrl.) gegn C (enginn) D (Gunnar Sturluson hrl.) E
og (Hörður Felix Harðarson hrl.) F (Gestur
Jónsson hrl.) |
Kærumál. Frestur.
Máli K hf. á hendur D, E, F, C, A og B var
frestað þar til lokið væri rannsókn sérstaks saksóknara á ætlaðri refsiverðri
háttsemi í tengslum við lánveitingar K hf. til G hf. og tengdra félaga á
tilgreindu tímabili. Fyrir Hæstarétti settu A og B fram þá varakröfu að málinu
yrði frestað að öðru leyti en því að leyst yrði úr kröfu K hf. á hendur þeim.
Taldi Hæstiréttur að ekki yrði til skýringar eða hagræðis við úrlausn málsins,
sem sprottið væri af sömu atvikum og löggerningum, að leyst yrði úr kröfum á
hendur A og B í sjálfstæðu máli, sbr. 3. mgr. 30. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi
I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðilinn Kaupþing hf. skaut málinu til Hæstaréttar með kæru
5. nóvember 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar.
Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. október 2014 þar sem máli hans á
hendur varnaraðilum og öðrum sóknaraðilum var frestað þar til „niðurstaða
rannsóknar sérstaks saksóknara í máli nr. 090-2011-[...] er lokið.“ Kæruheimild
er í h. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilinn
krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi auk
kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Sóknaraðilarnir A og B kærðu úrskurð héraðsdóms fyrir sitt
leyti með kæru 11. nóvember 2014 sem barst réttinum degi síðar. Þeir krefjast
þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði fellur úr gildi, en til vara að
hann verði felldur úr gildi hvað þá varðar. Í báðum tilvikum krefjast þeir
kærumálskostnaðar úr hendi varnaraðilanna D, E og F.
Varnaraðilarnir
D, E og F krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Varnaraðilinn
C hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Samkvæmt
framansögðu gera sóknaraðilarnir A og B þá varakröfu að hinn kærði úrskurður
verði felldur úr gildi að því er þá varðar þannig að leyst verði sérstaklega úr
kröfum sóknaraðilans Kaupþings hf. á hendur þeim, en málinu frestað að öðru
leyti. Ekki verður séð að það yrði til skýringar eða hagræðis við úrlausn
málsins, sem er sprottið af sömu atvikum og löggerningum, að leyst yrði úr
kröfum á hendur fyrrgreindum sóknaraðilum í sjálfstæðu máli, sbr. 3. mgr. 30.
gr. laga nr. 91/1991. Að því gættu, en annars með vísan til forsendna hins
kærða úrskurðar verður hann staðfestur á þann hátt sem í dómsorði greinir.
Sóknaraðilar
greiði varnaraðilunum D, E og F kærumálskostnað eins og nánar greinir í
dómsorði.
Það athugast
að láðst hefur að greina hinn kærða úrskurð glögglega frá öðru því sem skráð
var í þingbók þegar hann var kveðinn upp, svo sem venja stendur til.
Dómsorð:
Máli þessu
er frestað þar til lokið er rannsókn sérstaks saksóknara á ætlaðri refsiverðri
háttsemi í tengslum við lánveitingar sóknaraðilans Kaupþings hf. til G hf. og
tengdra félaga í [...] 2007 og [...] 2008.
Sóknaraðilar,
Kaupþing hf., A og B, greiði óskipt varnaraðilunum D, E og F hverjum
um sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29.
október 2014.
Í síðustu fyrirtöku málsins gerðu lögmenn aðila grein fyrir
afstöðu sinni til þess álitaefnis hvort dómara beri að beita heimild í 3. mgr.
102. gr. laga nr. 91/1991 til að fresta málinu þar til niðurstaða liggur fyrir
í máli sem nú er til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara.
Umrætt mál sem sérstakur saksóknari rannsakar nú er nr.
090-2011-[...]. Þær upplýsingar sem liggja fyrir um rannsókn málsins eru
mætingaskýrslur þar sem greint er frá yfirheyrslum yfir stefnda F þann [...]
2013, D þann [ s.á og E [...] 2014. Í skýrslunum kemur fram að þeir hafi stöðu
sakborninga og sakarefnið varði XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940,
einkum 249. gr. Í skýrslunum er ætluðum brotunum nánar lýst þannig að þau
„.[...] kunni að varða við XXVI. kafla almennra hegningarlaga nr. 19/1940 um
auðgunarbrot og ákvæði 117. gr. laga um verðbréfaviðskipti nr. 108/2007 um
markaðsmisnotkun með því að hafa stuðlað að lánveitingum Kaupþings hf. til G
hf. og tengdra félaga í [...] 2007 og [...] 2008 vegna fjármögnunar á
eignarhlut G í Kaupþingi og yfirvofandi veðkalla og síðar gjaldfellingar á láni
H til I. Um er að ræða samtals 15 peningamarkaðslán sem veitt voru á áðurnefndu
tímabili.„
Í máli þessu krefst stefnandi þess að stefndu greiði honum
óskipt skaðabætur að fjárhæð 381.120.087 evrur en til vara lægri fjárhæð. Í
umfjöllun um málsástæður og önnur atvik í stefnu má sjá að bótakrafan er á því
reist að stefndu hafi í sameiningu staðið með saknæmum og ólögmætum hætti að
lánveitingum stefnanda til G hf. á tímabilinu [...] 2007 til [...] 2008. Er
nánar gerð ítarleg grein fyrir lánveitingunum í stefnu.
Þótt önnur gögn en framangreindar mætingaskýrslur hjá
sérstökum saksóknara liggi ekki fyrir verður með hliðsjón af framangreindu ekki
dregin önnur ályktun en sú að um sömu lánveitingar sé að ræða, a.m.k. að hluta
til, og mál þetta er reist á. Með hliðsjón af tilefni rannsóknar sérstaks
saksóknara, eins og því er lýst í mætinga-skýrslunum, og grundvelli
málshöfðunar þessa máls, þar sem reynir á skilyrði skaðabótaábyrgðar, m.a. það
hvort um saknæma og ólögmæta háttsemi hafi verið að ræða, verður að telja að
úrslit rannsóknar sérstaks saksóknara kunni að skipta verulegu máli við úrlausn
þessa máls. Eru aðstæður að mati dómsins því að þessu leyti sambærilegar og
dómi Hæstaréttar í máli nr. 188/2012, frá 2. apríl 2012 og dómi réttarins í
máli nr. 753/2013, frá 11. desember s.l. þar sem talið var að tilefni væri að
fresta máli vegna sakamálarannsóknar. Með sama hætti verður að telja að í þessu
máli sé rétt að beita undantekningarreglunni í 3. mgr. 102. gr. laga nr.
91/1991 og fresta máli þessu en þó ekki lengur en þar til fyrrgreindri rannsókn
lýkur sbr. niðurstöðu Hæstaréttar í síðar greinda dóminum.
Ingibjörg
Þorsteinsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Máli þessu er frestað þar til niðurstaða rannsóknar sérstaks
saksóknara í máli nr. 090-2011-[...] er lokið.