Hæstiréttur íslands
Mál nr. 50/2007
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Miðvikudaginn 31. janúar 2007. |
|
Nr. 50/2007. |
Íslenska ríkið(Erlendur Gíslason hrl.) gegn EP vélaleigu ehf. (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
E ehf. höfðaði mál gegn Í til greiðslu fjárhæðar, sem félagið taldi sig eiga ógreitt fyrir fleygun á klöpp í verki, þar sem Í var verkkaupi. Eftir að aðilar höfðu lýst gagnaöflun lokið lagði Í fram beiðni um að maður yrði dómkvaddur til að meta nánar tiltekin atriði í tengslum við verðlagningu á verki sem þessu. Með úrskurði héraðsdóms var beiðninni hafnað og kærði Í úrskurðinn til Hæstaréttar. Í dómi réttarins var vísað til þess að úrskurður þessa efnis sætti kæru til Hæstaréttar samkvæmt c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og var frávísunarkröfu E ehf. því hafnað. Þá var talið að eins og hér stæði á hindraði 5. mgr. 102. gr. sömu laga ekki að unnt væri að verða við kröfu Í um dómkvaðningu matsmanns. Þá stæði 3. mgr. 46. gr. laganna heldur ekki vegi fyrir að matsgerðarinnar yrði aflað. Var því lagt fyrir héraðsdómara að dómkveðja matsmann samkvæmt beiðni Í.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. janúar 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2007, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila „um að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns“ í máli varnaraðila á hendur honum. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til c. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hann krefst þess að lagt verði fyrir héraðsdómara að dómkveðja mann til matsstarfa samkvæmt beiðni hans. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá Hæstarétti, en til vara að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.
I.
Samkvæmt gögnum málsins gerði varnaraðili ásamt Grásteini ehf. verksamning dagsettan 1. og 7. september 2005 við menntamálaráðherra sem verkkaupa um 2. áfanga lóðarframkvæmda við Kennaraháskóla Íslands, en af hálfu verkkaupans átti Framkvæmdasýsla ríkisins að hafa umsjón með verkinu og Verkfræðistofa Sigurðar Thoroddsen hf. að sinna eftirliti. Í samningnum var verkinu lýst þannig í meginatriðum að gera átti á lóðinni bílastæði ásamt hellulögðum stígum og grasflöt, stalla, sem ýmist yrðu steinsteyptir eða hlaðnir úr grjóti, og trépalla. Verkinu átti að ljúka ekki síðar en 1. desember 2005 og yrðu verklaun samtals 37.515.000 krónur. Samkvæmt því, sem fram kom í verksamningnum, var meðal samningsgagna nánar tilgreind verklýsing frá júní 2005. Í kafla hennar um jarðvegsvinnu voru ákvæði um fleygun á klöpp, þar sem sagði eftirfarandi: „Þar sem klöpp er í skurðum greiðist sérstaklega fyrir að fjarlægja hana. Fleygað skal fyrir lögnum niður á skurðbotn eins og hann er skilgreindur á sniðteikningum. Allar ójöfnur í köntum skal hreinsa burt 200 mm frá innri brún lagnar. Klapparyfirborð skal vera a.m.k. 150 mm undir rennslisbotni lagna eftir losun klappar. Magntala: Magntala er rúmmetrar mældir á staðnum. Einingaverð innifelur losun á klöpp, gröft, akstur og förgun.“ Í samningsgögnum var ráðgert að þessi verkliður tæki til 30m3 af klöpp. Í tilboði varnaraðila og Grásteins ehf. í verkið var tilgreint að einingarverð í þessum lið væri 5.000 krónur fyrir hvern rúmmetra.
Af fyrirliggjandi gögnum verður ráðið að þegar á fyrstu stigum verksins hafi vinna varnaraðila við fleygun farið verulega fram úr því sem áætlað var í samningsgögnum. Þrír fyrstu reikningar varnaraðila fyrir verklaunum, sem gerðir voru í ágúst og september 2005, tóku meðal annars til þessarar vinnu og miðuðu í því sambandi við fyrrgreint einingarverð. Þessir reikningar munu allir hafa verið greiddir án sérstakra athugasemda af hendi verkkaupa. Ágreiningur virðist á hinn bóginn hafa risið um þennan þátt verksins í framhaldi af frekari reikningum varnaraðila og vegna yfirlits, sem hann gerði 23. október 2005, þar sem fram kom að búið væri að fleyga samtals 2.002,5 m3 af klöpp. Samkvæmt fundargerð frá verkfundi 27. október 2005 virðast athugasemdir verkkaupans á þessu stigi hafa beinst að því að varnaraðili hafi í þessum verkþætti gengið verulega lengra en þörf var á, en í bréfi verkeftirlitsmanna til varnaraðila 1. nóvember 2005 var jafnframt hafnað að greitt yrði fyrir þetta „samkvæmt einingaverði verksamnings.“ Ráðið verður af gögnum málsins að leitast hafi verið við að jafna ágreining um þetta efni, en í því skyni beindi Framkvæmdasýsla ríkisins 21. desember 2005 tillögu til varnaraðila, þar sem því var lýst að ekki væri ágreiningur um að fleygaðir hafi verið 2.002 m3 af klöpp. Af ástæðum, sem þar greindi nánar, teldi verkkaupinn á hinn bóginn ófært að taka mið af einingarverði fyrir þennan verkþátt, sem fram kom í tilboði varnaraðila, og lagði til þess í stað að greiddar yrði 2.500 krónur fyrir hvern rúmmetra. Þessu boði hafnaði varnaraðili.
Varnaraðili höfðaði mál þetta á hendur sóknaraðila 19. janúar 2006 til greiðslu á 5.005.000 krónum, auk nánar tiltekinna dráttarvaxta og málskostnaðar, en samkvæmt héraðsdómsstefnu mun sú fjárhæð svara til þess, sem varnaraðili taldi sig eiga ógreitt fyrir fleygun á klöpp í umræddu verki á grundvelli einingarverðs samkvæmt tilboði sínu. Í greinargerð sóknaraðila, sem lögð var fram í héraði 28. mars 2006, var aðallega krafist sýknu af kröfu varnaraðila, en til vara að hún yrði lækkuð. Því var lýst yfir í greinargerðinni að óumdeilt væri að þessi verkþáttur hafi í reynd náð til 2.002 m3 af klöpp og varnaraðili fengið samþykki verkeftirlitsmanna fyrir því að losa þetta efni og fjarlægja það. Ágreiningur væri á hinn bóginn um hvað greiða ætti fyrir verkið að þessu leyti. Málið var tekið fyrir í héraðsdómi 26. október 2006, þar sem aðilar lýstu gagnaöflun lokið, og var því frestað um óákveðinn tíma til aðalmeðferðar. Málið var tekið aftur fyrir á dómþingi 15. janúar 2007 og fært til bókar að aðalmeðferð hefði verið ákveðin 21. maí sama ár. Í þinghaldinu óskaði sóknaraðili eftir að leggja fram beiðni frá 4. janúar 2007 um dómkvaðningu manns til að meta hvert væri „eðlilegt verð fyrir losun og förgun á klöpp, annars vegar í lagnaskurði ... og hins vegar í bílaplani“, svo og hvort „eðlilegt sé að sama verð sé greitt fyrir fleygun á hörðum jökulleir og móhellu annars vegar, og klöpp hins vegar.“ Varnaraðili mótmælti að sóknaraðili fengi að leggja fram frekari gögn, enda hafi gagnaöflun verið lýst lokið. Hinn kærði úrskurður var kveðinn upp í tilefni af þessum ágreiningi.
II.
Samkvæmt því, sem áður er rakið, lýtur úrskurður héraðsdómara að ágreiningi, sem reis í þinghaldi 15. janúar 2007 vegna beiðni sóknaraðila um að dómkvaddur yrði maður til að meta nánar tiltekin atriði varðandi mál varnaraðila á hendur honum. Þótt héraðsdómari hafi kosið að haga úrskurðarorði á þann veg að hafnað væri „beiðni lögmanns stefnda um að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns“ er ljóst af forsendum úrskurðarins að þar var hafnað að verða við matsbeiðninni. Úrskurður um það efni sætir kæru samkvæmt c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991. Verður því ekki fallist á kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá Hæstarétti.
Samkvæmt 5. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991 hefur yfirlýsing málsaðila um að lokið sé öflun sýnilegra sönnunargagna að jafnaði í för með sér að ekki verður aflað frekari gagna af þeim toga fyrir héraðsdómi. Frá þessu er á hinn bóginn heimilt að víkja í tilvikum, sem nánar greinir í ákvæðinu, meðal annars ef það veldur ekki töfum á máli. Hér háttar þannig til að aðalmeðferð í máli aðilanna hefur verið ákveðin 21. maí 2007. Matsgerðinni, sem sóknaraðili óskar eftir að afla, er ætlað að taka til afmarkaðra atriða og er ljóst að henni má hæglega ljúka með nægum fyrirvara til að raska ekki ráðagerðum um aðalmeðferð málsins. Með matsgerðinni hyggst sóknaraðili færa sönnur fyrir staðhæfingum, sem málatilbúnaður hans er þegar reistur á, og standa ákvæði 3. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 því heldur ekki í vegi að honum verði heimilað að afla hennar, enda tekur hann sjálfur áhættu af því að hún verði talin hafa þýðingu við úrlausn málsins. Að þessu virtu eru ekki efni til annars en að verða við kröfu sóknaraðila og leggja fyrir héraðsdómara að dómkveðja matsmann samkvæmt beiðni hans.
Rétt er að aðilarnir beri hvor sinn kostnað af kærumáli þessu.
Dómsorð:
Lagt er fyrir héraðsdómara að dómkveðja matsmann í samræmi við beiðni sóknaraðila, íslenska ríkisins, frá 4. janúar 2007.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 15. janúar 2007.
Fyrir liggur að gagnaöflun var lokið 26. október sl. og var málinu þá frestað til aðalmeðferðar um óákveðinn tíma.
Í desember sl. var boðað var til aðalmeðferðar sem ákveðin hefur verið 21. maí nk.
Stefndi hefur haft nægan tíma til að fá dómkvadda matsmenn eins og farið er fram á nú, en fyrirsjáanlegt er að verði krafan tekin til greina kunni það að kalla á frekari gagnaöflun og fyrirsjáanlegar tafir á aðalmeferð málsins. Hefur stefndi ekki sýnt fram á að beiðni þessi hefði ekki mátt á fyrri stigum málsins.
Gegn andmælum lögmanns stefnanda er beiðninni því hafnað.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Beiðni lögmanns stefnda um að leggja fram beiðni um dómkvaðningu matsmanns er hafnað.