Hæstiréttur íslands
Nr. 2023-111
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Hlutafélag
- Hlutafé
- Greiðsla
- Endurskoðandi
- Sérfræðiábyrgð
- Skaðabætur
- Þrotabú
- Samþykkt
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Karl Axelsson, Ása Ólafsdóttir og Björg Thorarensen.
2. Með beiðni 31. október 2023 leitar Þrotabú Sameinaðs Sílikons hf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 6. október 2023 í máli nr. 266/2022: Þrotabú Sameinaðs Sílikons hf. gegn Ernst & Young ehf. og Rögnvaldi Dofra Péturssyni á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.
3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta á grundvelli heimildar 130. gr. laga um gjaldþrotaskipti nr. 21/1991 og hefur uppi kröfu um greiðslu skaðabóta úr hendi gagnaðila. Aðallega að fjárhæð 1.751.966.273 en til vara 47.146.179 krónur. Reisa þeir kröfuna á ætlaðri saknæmri háttsemi vegna aðkomu Rögnvalds Dofra og annars nafngreinds starfsmanns Ernst & Young ehf. að tilkynningu tíu hlutafjárhækkana, samtals að fjárhæð 1.795.857.801 króna, í Tomahawk Development á Íslandi hf. frá maí 2013 til febrúar 2015. Byggir leyfisbeiðandi á að í öllum tilvikum hafi umræddar tilkynningar gagnaðila verið dagsettar áður en full greiðsla hafði borist og hluti þeirra hafi aldrei borist. Telur leyfisbeiðandi að gagnaðilar hafi sýnt af sér saknæma vanrækslu þegar þeir staðfestu að hlutaféð hefði verið greitt.
4. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sýknu gagnaðila. Í dómi Landsréttar kom fram að líta yrði svo á að með áritunum sínum á umræddar tilkynningar til ríkisskattstjóra hefðu gagnaðilar staðfest að allur hlutafjáraukinn hefði verið greiddur hverju sinni. Á það var fallist með gagnaðilum að greiðslur að fjárhæð samtals 1.747.674.708 krónur inn á bankareikninga Tomahawk Development á Íslandi hf. hefðu ekki borið annað með sér en að vera fyrir hina umdeildu hlutafjáraukningu. Ekki væri efni til að virða gagnaðilum það til sakar þótt hluti af greiðslu hlutafjáraukans hverju sinni hafi borist inn á bankareikning félagsins nokkru eftir að þeir staðfestu greiðslurnar. Ekki lægi fyrir að gagnaðilum hefði verið kunnugt um eignarhald eða rekstur hollenska félagsins Pyromet Engineering B.V. sem leyfisbeiðandi kveður hafa gegnt lykilhlutverki við „hringferð“ fjármuna inn og út af innlendum og erlendum reikningum þeirra félaga sem við sögu koma. Óljóst væri hvort reikningsyfirlit bankareikninga Tomahawk Development á Íslandi hf., sem hlutaféð var greitt inn á, hefðu legið frammi er gagnaðilar staðfestu greiðslurnar. Þótt svo væri yrði ekki af þeim yfirlitum sem lágu fyrir í málinu ráðið að gagnaðilar hefðu átt að veita því athygli að greiðslurnar væru „sýndargreiðslur“ eins og leyfisbeiðandi héldi fram. Var aðalkrafa hans því ekki tekin til greina. Hvað varakröfuna varðaði lagði Landsréttur til grundvallar að skort hefði 42.101.840 krónur upp á fulla greiðslu hlutafjárhækkunar í júní 2014 þegar greiðsla hennar var staðfest 25. sama mánaðar. Var gagnaðilinn Rögnvaldur Dofri sýknaður af skaðabótakröfu leyfisbeiðanda vegna þessarar hlutafjárhækkunar þar sem annar endurskoðandi en hann hafði staðfest greiðslu hennar. Landsréttur taldi að þar hefði ekki verið hugað af nægilegri kostgæfni að því hvort hlutafjárhækkunin hefði verið að fullu greidd. Krafa leyfisbeiðanda væri skaðabótakrafa utan samninga og miðaði að því að gera tjónþola eins settan fjárhagslega og ef saknæm háttsemi tjónvalds hefði ekki komið til. Meta yrði hvað orðið hefði ef endurskoðandinn hefði sýnt af sér þá kostgæfni sem ætlast hefði mátt til af honum. Samkvæmt 2. mgr. 40. gr. laga nr. 2/1995 um hlutafélög mætti ætla að þá hefði staðfesting endurskoðandans borið með sér að enn vantaði 42.101.840 krónur upp á að hækkunin væri greidd. Við þær aðstæður hefði Tomahawk Development á Íslandi hf. getað látið hjá líða að innheimta kröfuna og lækkað hlutaféð eða að það hefði gerst með atbeina hlutafélagaskrár í samræmi við 19. gr. laga nr. 2/1995. Miðað við þá framvindu mætti líta svo á að hin saknæma háttsemi hefði stuðlað að því að hlutafé hluthafans hefði verið of hátt skráð. Ekki yrði séð að sú aðstaða hefði getað valdið Tomahawk Development á Íslandi hf. tjóni. Hefðu þessir fjármunir verið greiddir mætti ætla að fénu hefði verið varið með sama hætti og öðru fjármagni Tomahawk Development á Íslandi hf. Ekki lægi fyrir annað en að þrotabú Tomahawk Development á Íslandi hf. væri eignalaust en af því mætti álykta að fjárfestingar félagsins hefðu engu skilað því. Þótti því ekki sýnt fram á að þrotabú Tomahawk Development á Íslandi hf. hefði orðið fyrir tjóni vegna saknæmrar vanrækslu sem Ernst & Young ehf. bæri ábyrgð á. Þá bæri að sýkna gagnaðila af greiðslu eftirstöðva varakröfu leyfisbeiðanda með vísan til 2. mgr. 111. gr. laga nr. 91/1991.
5. Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi um þá niðurstöðu Landsréttar að tjón geti ekki leitt af rangri staðfestingu sérfræðings á greiðslu hlutafjár þótt fyrir liggi að hún hafi ekki borist að fullu. Forsendur sýknu séu þær sömu og í dómi Landsréttar í máli nr. 181/2021. Hæstiréttur hafi veitt áfrýjunarleyfi í nokkrum málum vegna starfa gagnaðila í tengslum við sakarefni máls þessa. Þá telur leyfisbeiðandi að málið hafi einnig verulegt gildi um túlkun aðgæslu- og tilkynningaskyldu endurskoðenda samkvæmt þágildandi lögum nr. 64/2006 um aðgerðir gegn peningaþvætti. Að lokum telur leyfisbeiðandi þær forsendur dóms Landsréttar ekki standast að tjón geti ekki orðið vegna framtíðarfjárfestinga og eignaleysis tjónþola og að þær séu í andstöðu við dómaframkvæmd.
6. Að virtum gögnum málsins og að teknu tilliti til þess að rétturinn hefur þegar veitt áfrýjunarleyfi í málum þar sem reynir á samkynja álitaefni, sbr. ákvarðanir nr. 2023-78, 2023-88 og 2023-92, verður að líta svo á að dómur í því geti haft fordæmisgildi meðal annars um sérfræðiábyrgð á sviði endurskoðunar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því samþykkt.