Hæstiréttur íslands
Mál nr. 340/2012
Lykilorð
- Rán
- Fíkniefnalagabrot
- Hegningarauki
|
|
Fimmtudaginn 7. febrúar 2013. |
|
Nr. 340/2012.
|
Ákæruvaldið (Stefanía G. Sæmundsdóttir settur saksóknari) gegn Sigurði Aroni Snorra Gunnarssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Rán. Fíkniefnalagabrot. Hegningarauki.
S var ákærður fyrir tvö ránsbrot, hið fyrra framið í félagi við þrjá menn en hið síðara framið í félagi við fjóra menn, og fíkniefnalagabrot með því að hafa haft amfetamín í vörslum sínum. Við ákvörðun refsingar var horft til þess að S hafði gerst sekur um tvö ránsbrot sem framin voru í félagi við aðra. Hann hafði verið forystumaður um brotin og skipuleggjandi þeirra. Jafnframt var litið til þess að S játaði brot sín skýlaust og að lítil hætta var samfara brotunum. Féllst Hæstiréttur á kröfu S um mildun refsingar og var refsing hans ákveðin fangelsi í 18 mánuði með vísan til ákvæða 70. og 74. gr. og 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. apríl 2012 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er þess krafist að staðfest verði niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sakfellingu ákærða, en refsing hans verði þyngd.
Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð og bundin skilorði.
Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir tvö ránsbrot, hið fyrra framið í félagi við þrjá menn, 11. febrúar 2011, en hið síðara framið í félagi við fjóra menn, 21. febrúar 2011. Þá var hann einnig dæmdur fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum 0,57 g af amfetamíni. Ákærði játaði skýlaust þá háttsemi sem sem honum var gefin að sök. Fram er komið að ákærði skipulagði ránin, hann keypti lambhúshettur sem notaðar voru við bæði ránin og einnig kúbein sem notað var við annað þeirra. Hann kannaði aðstæður við brotavettvang við fyrra ránið, einum til tveimur dögum áður en ránið var framið. Hann kvaðst hafa verið leiðtogi þeirra sem þátt tóku í brotunum, en jafnframt hafi hann lagt áherslu á að ekki yrðu notuð vopn eða beitt ofbeldi við ránin. Þá ók hann meðákærðu á brotavettvang og beið þeirra í bifreið skammt þar frá. Samkvæmt framangreindu var ákærði því aðalmaður í báðum brotunum.
Við ákvörðun refsingar verður horft til þess að ákærði gerðist sekur um tvö ránsbrot, en að öðru leyti er fallist á með héraðsdómi að við ákvörðun refsingar beri að líta til þess að ákærði var forystumaður um brotin og skipuleggjandi þeirra. Þá voru brotin framin í félagi við aðra, en jafnframt ber að líta til þess að ákærði játaði brot sín skýlaust og fallast má á með héraðsdómi að lítil hætta var samfara brotunum.
Ákærði er að sönnu mun eldri en samverkamenn hans í brotunum. Hann á að baki nokkurn sakarferil frá árinu 1995 og hefur fjórum sinnum hlotið dóm fyrir auðgunarbrot. Hann hlaut tvisvar skilorðsbundinn dóm fyrir slík brot á árinu 1995 og enn á árinu 2004, er hann var dæmdur til 30 daga skilorðsbundinnar refsingar. Sá dómur sem einkum skiptir máli við ákvörðun refsingar ákærða er þriggja mánaða fangelsisdómur 19. desember 2011 fyrir þjófnaðarbrot. Ber að ákvarða refsingu hans nú sem hegningarauka við þann dóm, sbr. 78. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Samkvæmt framangreindu og með vísan til 2., 3. og 6. töluliðar 1. mgr. 70. gr. og 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga, sem og 9. töluliðar 74. gr. laganna, verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 18 mánuði.
Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, en til hans teljast málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Sigurður Aron Snorri Gunnarsson, sæti fangelsi í 18 mánuði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.
Ákærði greiði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem er samtals 303.800 krónur, að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda hans, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, að fjárhæð 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2012.
Málið er höfðað með tveimur ákæruskjölum á hendur ákærðu, X, kennitala [...], [...], Y, kennitala [...], [...], Z, kennitala [...], [...], Þ, kennitala [...], [...] og Sigurði Aroni Snorra Gunnarssyni, kennitala [...], [...], öllum búsettum í [...].
Í fyrsta lagi er málið höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 19. desember sl. á hendur ákærðu öllum, „fyrir eftirgreind hegningarlagabrot framin í Reykjavík:
1. Á hendur ákærðu X, Z, Þ og Sigurði Aroni fyrir rán, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 11. febrúar 2011, í félagi tekið ákvörðun um að fremja rán sem þeir framkvæmdu þannig að ákærðu Þ, X og Z fóru inn á veitingastað [...] í [...], með andlit sín hulin, en ákærði Sigurður Aron beið í bifreiðinni [...] skammt frá veitingastaðnum, eftir að hafa ekið þeim þangað. Ákærði Þ tók vaktstjórann A kverkataki, þrýsti honum upp að vegg og krafðist þess að hann upplýsti hvar peningarnir væru geymdir, sem hann gerði. Ákærðu X og Z fóru því næst inn í vaktherbergi og tóku þaðan kr. 196.240 í reiðufé og höfðu á brott með sér, sem ákærðu skiptu síðar á milli sín. Ákærði Sigurður Aron ók meðákærðu á brott í fyrrnefndri bifreið og útvegaði lambhúshettur sem notaðar voru við ránið.
Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
M. 007-2011-8886
2. Á hendur ákærðu öllum fyrir rán, með því að hafa aðfaranótt mánudagsins 21. febrúar 2011 í félagi tekið ákvörðun um að fremja rán sem þeir framkvæmdu þannig að ákærðu Þ, X, Z og Y fóru inn á veitingastað [...] við [...], með andlit sín hulin, en ákærði Sigurður Aron beið í bifreiðinni [...], skammt frá veitingastaðnum, eftir að hafa ekið meðákærðu þangað. Ákærði Z tók B starfsmann [...] og lagði enni hennar upp að vegg, ákærði Þ ýtti öðrum starfsmanni C og skipaði honum að setjast í stól við hlið B og ákærði X, sem hafði kúbein í hönd, krafðist þess að starfsmaðurinn D afhenti sér peninga og tóku ákærðu kr. 85.000 í reiðufé sem þeir höfðu á brott með sér og skiptu á milli sín. Ákærði Sigurður Aron ók meðákærðu á brott í fyrrnefndri bifreið og hann útvegaði lambhúshettur og kúbein sem notað var við ránið.
Telst þetta varða við 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
M. 007-2011-10554
3. Á hendur ákærða Sigurði Aroni Snorra Gunnarssyni, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa mánudaginn 21. febrúar 2011 í íbúð sinni [...] í Reykjavík haft í vörslum sínum 0,57 g af amfetamíni sem lögregla lagði hald á við leit í íbúð ákærða í tengslum við ofangreind mál.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr. sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
M. 007-2011-10554
Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Einkaréttarkrafa:
Vegna ákæruliðar 1.
Af hálfu E hf. kt. [...], gerir Gestur Óskar Magnússon hdl. þá kröfu að ákærðu í ákæruliði 1. verði dæmdir til greiðslu á kr. 196.240 ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er dómsmál er höfðað, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar skv. 3. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.
Vegna ákæruliðar 2.
Af hálfu E hf. kt. [...], gerir Gestur Óskar Magnússon hdl. þá kröfu að ákærðu í ákærulið 2. Verði dæmdir til greiðslu á kr.53.565 ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er dómsmál er höfðað, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar skv. 3. mgr. 176. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008.“
Í öðru lagi er málið höfðað á hendur ákærða Þ með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 15. nóvember 2011, „fyrir eftirtalin brot framin á höfuðborgarsvæðinu 2009 og 2010:
I.
Á hendur ákærða Þ fyrir þjófnað í félagi við tvo aðra, með því að hafa:
1. Aðfaranótt þriðjudaginn 15. desember 2009 brotist inn í bílasölu [...], [...] í Reykjavík, með því að spenna upp glugga og stolið þaðan fartölvu af gerðinni Toshiba, 3 kveikjuásalyklum, myndavél af gerðinni Samsung og bifhjóli af gerðinni Honda CRF.
M. 007-2009-78576
II.
Á hendur ákærða Þ:
2. Fyrir þjófnað, með því að hafa laugardaginn 11. júlí 2009 brotist inn í íbúðarhúsið að [...] í Reykjavík, með því að spenna þar upp glugga og stolið þaðan 3 Ipod nano tónhlöðum, Ipod touch spilara, Sony farsíma, Apple fartölvu og armbandsúri af gerðinni D&C, samtals að verðmæti kr. 412.580,-.
M. 007-2009-42647
3. Fyrir þjófnað og nytjastuld, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 7. mars 2010 brotist inn í bílasölu [...], [...] í Reykjavík, með því að fjarlægja plötu sem huldi brotin glugga og stolið þaðan fjölda kveikjuáslykla allt að 40 og í kjölfarið tekið bifreiðina [...] heimildarlaust og ekið bifreiðinni allt til 11. mars sama ár, en bifreiðin fannst yfirgefin við Lækjargötu í Reykjavík.
M. 007-2010-14641
4. Fyrir þjófnað með því að hafa föstudaginn 9. júlí 2010 í versluninni [...] í [...] í Kópavogi stolið Hugo Boss herrailmi að verðmæti kr. 5656,-.
M. 007-2010-43969
5. Fyrir, þjófnað, skjalabrot og hilmingu, með því að hafa í félagi við F á tímabilinu frá 7. til 10. maí 2010 stolið skráningarmerkjunum af bifreiðinni [...] á bifreiðastæði við [...] í Kópavogi og í blekkingarskyni og heimildarleysi fest það á bifreiðina [...], en bifreiðin fannst þann 21. maí 2010 við [...] nr. [...] í Reykjavík með stolin skráningarmerki af bifreiðinni [...], en ákærði Þ vissi að bifreiðin [...] var stolin.
M. 007-2010-29100
Telst þetta varða við 244. gr. er varðar ákærulið 1, 2, 3, 4, og 5, og einnig við 259. gr. er varðar ákærulið 3 og er varðar ákærulið 5 einnig við 157. gr., og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
6. Fyrir gripdeild, með því að hafa mánudaginn 10. maí 2010 á bensínstöð G við [...] í Reykjavík, dælt eldsneyti að andvirði kr. 6.001,- á bifreiðina [...] og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.
M. 007-2010-34138
7. Fyrir gripdeild, með því að hafa þriðjudaginn 18. maí 2010, í félagi við F á bensínstöð G við [...] í Hafnarfirði, dælt eldsneyti að andvirði kr. 6.817,- á bifreiðina [...] og ekið henni á brott án þess að greiða fyrir eldsneytið.
M. 007-2010-33705
Telst þetta varða við 245. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og greiðslu alls sakarkostnaðar.
Í málinu gera eftirtaldir aðilar kröfu um bætur:
Gísli Páll Jónsson, kt. [...], f.h. G hf. kt. [...] gerir kröfu um að ákærði Þ greiði skaðabætur að fjárhæð kr. 6.001, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi 10. maí 2010, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 007-2010-34138
Gísli Páll Jónsson, kt. [...], f.h. G hf. kt. [...] gerir kröfu um að ákærði Þ greiði skaðabætur að fjárhæð kr. 6.817, auk vaxta skv. 8. gr. vaxtalaga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi 18. maí 2010, en síðan dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr., sbr. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags.
M. 007-2010-33705
H, f.h. I hf., kt. [...] gerir kröfu um að ákærði Þ verði dæmdur til greiðslu skaðabóta að fjárhæð kr. 412.580,- auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá tjónsdegi, sem var 11.07.2009 en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags.“
M. 007-2009-42647
Fallið hefur verið frá því atriði í ákæru ríkissaksóknara að ákærði Þ hafi tekið A vaktstjóra kverkataki.
Af hálfu E hf. hefur því verið lýst yfir að bótakrafa félagsins beinist ekki að ákærða Y.
Ákærðu hafa skýlaust játað þau brot sem þeir eru saksóttir fyrir með ákærunum í málinu. Hafa þeir orðið sekir um verknaði þá sem þar er lýst og réttilega eru þar færðir til refsiákvæða.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ránsbrotin tvö voru skipulögð í þaula og framin annars vegar af fjórum og hins vegar af fimm mönnum í sameiningu. Á hinn bóginn ber að gæta þess að ákærðu hafa, eins og áður segir, játað þessi brot að öllu leyti og telja verður að lítil hætta hafi verið samfara þeim. Ekki þykir vera hægt að byggja á því, gegn skýrslum í málinu, að kúbeinið sem ákærðu höfðu með sér í síðara tilvikinu hafi verið ætlað til annars en að spenna upp hirslur. Er þess sérstaklega að gæta að verkfærið var ekki sýnt þeim sem fyrir brotinu urðu. Loks varð lítill ávinningur af þessum brotum, þótt víst sé að í augum ákærðu hafi hann verið vonum minni.
Ákærði X var sektaður fyrir fíkniefnalagabrot í október 2010 en annan sakaferil hefur hann ekki. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir tvö rán. Þykir refsing hans vera hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærða Y hefur ekki verið refsað áður en hann var á sautjánda ári þegar hann framdi brot sitt. Refsing ákærða þykir með vísan til 2. tl. 1. mgr. 74. gr. almennra hegningarlaga vera hæfilega ákveðin fangelsi í 4 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærða Z hefur ekki verið refsað fyrr. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir tvö rán. Þykir refsing hans vera hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði Þ var dæmdur í 6 mánaða skilorðsbundið fangelsi í október 2009 fyrir þjófnaðarbrot, en þá var hann 17 ára gamall. Þá hefur hann verið sektaður fyrir brot gegn 45. gr.a í umferðarlögum og sviptur ökurétti. Ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir tvö ránsbrot og sjö önnur brot gegn hegningarlögum. Ákærði hefur rofið skilorð fyrrnefnds dóms og ber að dæma hann upp og gera ákærða refsingu í einu lagi. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði. Fram er komið í málinu að ákærði hefur tekið sig á, er hættur óreglu og stundar nú nám með árangri. Þykir mega fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði Sigurður Aron Snorri er mun eldri en aðrir ákærðir í málinu, fæddur 1976, og á að baki nokkurn brotaferil. Hann hefur hlotið fimm refsidóma fyrir hegningarlagabrot, fyrst árið 1995 en síðast 15. desember sl. Þá hefur honum verið refsað nokkrum sinnum fyrir umferðarlagabrot. Fyrir liggur að ákærði var forystumaður um ránsbrotin og skipuleggjandi. Refsing hans nú verður hegningarauki við þriggja mánaða fangelsisdóm sem hann hlaut 19. desember sl. Þykir hún hæfilega ákveðin fangelsi í tvö ár.
Að kröfu E hf. ber að dæma ákærðu X, Z, Þ og Sigurð Aron Snorra til þess að greiða félaginu 196.240 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001, frá 11. febrúar 2011 til 11. janúar 2012 en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags.
Þá ber einnig að kröfu E hf. ber að dæma ákærðu X, Z, Þ og Sigurð Aron Snorra til þess að greiða félaginu 53.565 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu, frá 21. febrúar 2011 til 11. janúar 2012 en síðan með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna til greiðsludags.
Ekki var sótt þing af hálfu þeirra sem krafist hafa bóta fyrir brotin í ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Ber að vísa þeim kröfum frá dómi.
Dæma ber ákærðu til þess að greiða verjendum sínum fyrir dómi og við lögreglurannsókn í málinu málsvarnarlaun að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og rakið er hér að neðan.
Ákærða X til þess að greiða verjanda sínum, Hauki Erni Birgissyni hrl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun og Bjarna Eiríkssyni hdl., 50.000 krónur fyrir verjandastörf við rannsókn málsins..
Ákærðu Y og Z til þess að greiða verjanda sínum, Valtý Sigurðssyni hrl., óskipt 150.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærða Þ til þess að greiða verjanda sínum, Bjarna Hólmari Einarssyni hdl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærða Sigurð Aron Snorra til þess að greiða verjanda sínum, Páli Kristjánssyni hdl. 150.000 krónur í málsvarnarlaun og Sverri Bergmann Pálmasyni hdl. 150.000 krónur fyrir verjandastörf við rannsókn málsins.
Annan sakarkostnað hefur ekki leitt af máli þessu.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 12 mánuði. Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði, Y, sæti fangelsi í 4 mánuði. Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði, Z, sæti fangelsi í 12 mánuði. Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði, Þ, sæti fangelsi í 15 mánuði. Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsuppsögu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði Sigurður Aron Snorri Gunnarsson, sæti fangelsi í tvö ár.
Ákærðu X, Z, Þ og Sigurður Aron Snorri greiði E hf. 196.240 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 11. febrúar 2011 til 11. janúar 2012, en þaðan í frá með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Ákærðu X, Z, Þ og Sigurður Aron Snorri greiði E hf. 53.565 krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 21. febrúar 2011 til 11. janúar 2012 en þaðan í frá með dráttarvöxtum til greiðsludags.
Ákærði X greiði verjanda sínum, Hauki Erni Birgissyni hrl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun og Bjarna Eiríkssyni hdl. 50.000 krónur fyrir verjandastörf við rannsókn málsins..
Ákærðu Y og Z greiði verjanda sínum, Valtý Sigurðssyni hrl., óskipt 150.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Þ greiði verjanda sínum, Bjarna Hólmari Einarssyni hdl., 150.000 krónur í málsvarnarlaun.
Ákærði Sigurður Aron Snorri greiða verjanda sínum, Páli Kristjánssyni hdl. 150.000 krónur í málsvarnarlaun og Sverri Bergmann Pálmasyni hdl. 150.000 krónur fyrir verjandastörf við rannsókn málsins.