Hæstiréttur íslands

Mál nr. 437/2006


Lykilorð

  • Vátryggingarsamningur


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. mars 2007.

Nr. 437/2006.

Sjófar ehf.

(Guðmundur Óli Björgvinsson hrl.)

gegn

Verði Íslandstryggingu hf.

(Gústaf Þór Tryggvason hrl.)

 

Vátryggingarsamningur.

S ehf. krafðist þess að vátryggingafélagið V hf. greiddi félaginu bætur úr húftryggingu sem S ehf. taldi í gildi um bátinn D vegna tjóns sem varð á bátnum við bryggju á Þórshöfn. Aðilar málsins deildu um hvort samningur um húftryggingu bátsins hefði komist á en S ehf. hafði keypt bátinn fyrir tjónsdag. Ekki var talið upplýst hvenær S ehf. hefði óskað eftir að V hf. tæki bátinn í tryggingu en ljóst var að á tjónsdegi var alllangur tími liðinn án þess að formlega hefði verið gengið frá vátryggingarsamningi. Fyrir lá verðmat á bátnum frá því áður en S ehf. hafði keypt hann en eftir að það var gert höfðu aflaheimildir verið færðar af bátnum. Í dómi Hæstaréttar var lagt til grundvallar að S ehf. hefði mátt vera ljóst að þetta atriði kynni að hafa áhrif á vátryggingarverð bátsins, en samkomulag um vátryggingarverð var talin grundvallarforsenda þess að vátryggingarsamningur teldist hafa komist á. Ósannað þótti að samið hefði verið um það. Var því ekki talið að S ehf. hefði fært sönnur á að komist hefði á samningur milli aðila um tryggingu bátsins. Var V hf. því sýknað af kröfum S ehf. í málinu.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.  

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 2. júní 2006. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu 19. júlí 2006 og var áfrýjað öðru sinni 11. ágúst sama ár. Áfrýjandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða 7.155.650 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2004 til greiðsludags. Til vara krefst hann þess að stefndi verði dæmdur til að greiða 2.500.000 krónur, en til þrautavara 2.345.650 krónur, í báðum tilvikum með sömu dráttarvöxtum og í aðalkröfu. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Vörður vátryggingafélag hf. var sameinað Íslandstryggingu hf. á árinu 2005. Nýja félagið heitir Vörður Íslandstrygging hf. og hefur það tekið við aðild málsins.

Svo sem lýst er í hinum áfrýjaða dómi deila aðilar um hvort í gildi hafi verið samningur milli þeirra um húftryggingu Draupnis ÞH 180, þegar báturinn varð fyrir tjóni við bryggju á Þórshöfn 16. september 2003. Hafði áfrýjandi keypt bát þennan nokkru fyrr af Marinó Jónssyni Bakkafirði. Kaupsamningur og afsal vegna bátsins er ódagsett en þar kemur fram að afhending fari fram 16. maí 2003. Skjalið var afhent til þinglýsingar 8. júlí sama ár. Skráð er 6. maí 2003 á tölvuskjal hjá stefnda vegna bátsins, að Jón Stefánsson hafi haft samband og sé hann ásamt fleirum að kaupa bátinn og ætli „að vera í sambandi þegar búið er að ganga frá pappírum.“ Engin innfærsla á þetta skjal er dagsett í júlí, en af hálfu áfrýjanda er því haldið fram að báturinn hafi verið keyptur 2. júlí 2003 og þá hafi verið óskað eftir tryggingu símleiðis. Vitnið Jónas Jóhannsson, sem staðfesti að gengið hefði verið frá skjölum vegna kaupanna heima hjá honum og að þá hefði verið hringt til stefnda vegna tryggingar, gat ekki borið um hvenær þetta hefði verið. Er því ekki upplýst hvenær áfrýjandi óskaði þess að stefndi tæki bátinn í tryggingu, en ljóst er að á tjónsdegi var alllangur tími liðinn án þess að formlega hefði verið gengið frá vátyggingarsamningi. Á framangreint tölvuskjal stefnda er á tjónsdegi skráð: „Talaði við Jón Stefánsson um trygginguna á bátnum. Þeir keyptu bátinn af Geir ehf. á kr. 2.500.000,- viljum við þá tölu til viðmiðunar þegar tryggingafjárhæðin er ákveðin.“ Fyrir lá verðmat á bátnum dagsett 3. febrúar 2003 að fjárhæð 7.310.000 krónur. Eftir að það var gert og áður en báturinn var seldur áfrýjanda hafði eignarhald á bátnum skipt um hendur og aflaheimildir verið færðar af honum. Mátti áfrýjanda vera ljóst að þetta kynni að hafa áhrif á vátryggingarverð bátsins, en samkomulag um vátryggingarverð er grundvallarforsenda þess að vátryggingarsamningur teljist hafa komist á. Ósannað er að samið hafi verið um það. Að þessu sérstaklega virtu og með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Samkvæmt 3. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

         Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

         Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 27. mars 2006.

Mál þetta, sem dómtekið var 6. mars s.l., höfðaði stefnandi, Sjófar ehf., Hálsvegi 2, Þórshöfn, hinn 6. september 2005 gegn stefnda, Verði vátryggingarfélagi ehf., til heimilis að Skipagötu 9, Akureyri.

Dómkröfur stefnanda eru aðallega að stefnda verði dæmt til að greiða honum 7.155.650 krónur, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2004 til greiðsludags. Til vara krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmt til að greiða honum 2.500.000 krónur, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2004 til greiðsludags. Til þrautavara krefst stefnandi þess að stefnda verði dæmt til að greiða honum 2.345.650 krónur, auk dráttarvaxta skv. III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 14. febrúar 2004 til greiðsludags. Í öllum tilvikum krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Dómkröfur stefnda eru að félagið verði sýknað af öllum kröfum stefnanda og því dæmdur málskostnaður úr hans hendi.

I.

Í máli þessu greinir aðila á um hvort þeirra á milli hafi komist á vátryggingarsamningur vegna vélbátsins Draupnis ÞH 180.

Eru  málsatvik þau að með ódagsettum kaupsamningi, sem móttekinn var til þinglýsingar 8. júlí 2003, keypti stefnandi m/b Draupni ÞH 180 sf Marinó Jónssyni, Brekkustíg 3, Bakkafirði, fyrir kr. 2.500.000-.  Var báturinn keyptur án veiðiheimilda.

Þann 16. september 2003 fékk stefnandi Eið Jónsson til að hífa bátinn upp á bryggju á Þórshöfn  þar sem til stóð að botnhreinsa hann og mála. Við hífinguna notaði Eiður grindarbómukrana. Er verið var að hífa bátinn upp á bryggjuna féll hann aftur í sjóinn  og skemmdist verulega. Hefur stefnandi höfðað mál þetta til heimtu bóta úr hendi stefnda vegna tjóns þess er varð á bátnum.

II.

Stefnandi reisir kröfur sínar á því að vátryggingarsamningur hafi komist á milli aðila með tilkynningu til stefnda símleiðis 2. júlí 2003. Í símtalinu hafi stefnda samþykkt að vátryggja bátinn áfram með sömu skilmálum eftir eigendaskiptin. Vísar stefnandi um þetta meðal annars til þess að stefnda hafi í tvígang sent menn á vettvang til að skoða tjónið sem staðfesti að stefna hafi í raun litið svo á að vátryggingarsamningur væri í gildi milli aðila. Þá sé það staðreynd að stefnda hafi í engu mótmælt bótaskyldu vegna tjónsins fyrr en á fundi 9. október 2003 en í öllum samskiptum aðila fram að því hafi verið lagt til grundvallar að samningur hefði komist á.

Stefnandi vísar til þess að stefnda hafi viðurkennt að fyrirsvarsmaður stefnanda hafi haft samband við félagið áður en hífing bátsins fór fram. Í því ljósi sé rakalaust af hálfu stefnda að halda því fram að fyrirsvarsmaðurinn hefði látið hífa bátinn ef uppi hefði verið vafi um tryggingu bátsins.

Þá bendir stefnandi á að í bréfi Siglingastofnunar frá 8. október 2003 komi fram að stefnanda sé sent afrit bréfsins. Afritið hafi stofnunin ekki sent að ósk stefnanda og því hljóti það að hafa verið gert að beiðni starfsmanna stefnda sem sýni glögglega að stefnda hafi litið svo á að vátryggingarsamningur væri í gildi á milli aðila og tjónið því á ábyrgð stefnda.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að ósannað sé að vátryggingarsamningur þess efnis sem hann heldur fram hafi komist á milli aðila kveðst stefnandi byggja á því að framangreind atriði geri það svo sennilegt að samningurinn hafi komist á, þess efnis sem stefnandi heldur fram, að stefnda beri sönnunarbyrðina fyrir hinu gagnstæða.

Á grundvelli framlagðs verðmats frá 3. febrúar 2003 heldur stefnandi því fram að vátryggingarverð bátsins hafi verið 7.310.000 krónur. Verðmatið hafi verið innan við ársgamalt í samræmi við 3. gr. vátryggingarskilmála stefnda. Stefnandi segir eðlilegt hafa verið að tryggja bátinn samkvæmt matinu þó svo búið hefði verið að selja aflaheimildir frá honum, enda taki sú aðferð sem beitt hafi verið við matið ekki tillit til aflaheimilda á skipinu. Einnig liggi fyrir að matið hafi bæði verið gert í samræmi við venjur í viðskiptum sem þessum og ákvæði laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga.

Stefnandi byggir á því að um altjón hafi verið að ræða þar sem vátryggingarverð bátsins samkvæmt framansögðu dugi ekki fyrir kostnaði við viðgerð hans.

Varakröfu sína segir stefnandi gerða fallist dómurinn ekki á að leggja matið frá 3. febrúar 2003 til grundvallar. Krafan byggi á því að stefnda hafi samþykkt að bæta bátinn með kaupverði hans.

Þrautavarakröfuna kveðst stefnandi byggja á sömu sjónarmiðum og aðalkröfuna að öðru leyti en því að miðað sé við að vátryggingarverðið hafi verið 2.500.000 krónur.

Dráttarvaxtakröfu sína segir stefnandi styðjast við III. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, sbr. 3. mgr. 24. gr. laga nr. 20/1954. Um upphafstíma dráttarvaxta vísar hann sérstaklega til 3. mgr. 5. gr. og 9. gr. fyrrnefndu laganna.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnandi að öðru leyti til almennra reglna samninga-, kröfu-, skaðabóta- og vátryggingaréttar. Jafnframt  vísar hann til ákvæða laga nr. 20/1954, sérstaklega 36. og 37. gr. laganna um virðingu vátryggðra muna.

III.

Stefnda segir fyrst hafa verið rætt um tryggingu bátsins af hálfu stefnanda 16. september 2003. Vegna þess samtals hafi verið bókað á athugasemdablað bátsins hjá stefnda: „Talaði við Jón Matthíasson um tryggingu á bátnum. Þeir keyptu bátinn af Geir ehf. á kr. 2.500.000- viljum við þá tölu til viðmiðunar þegar tryggingarfjárhæðin er ákveðin.“

Stefnda kveðst fyrst og fremst byggja kröfu sína um sýknu á því að ef búið hefði verið að tryggja bát stefnanda hefði verið búið að gefa út tryggingarskírteini, sem sé grundvöllur bótakröfu. Svo hafi ekki verið. Fyrir atburðinn 16. september 2003 hafi ekki legið fyrir samkomulag við stefnanda sem gerði stefnda kleift að ganga frá tryggingu bátsins og gefa út vátryggingarskírteini.

Að sögn stefnda er ekki nóg að ætla að gera eitthvað ef það sé síðan ekki gert. Setur stefnda fram þá spurningu í ljósi fullyrðingar stefnanda, um að gengið hafi verið frá tryggingu bátsins hjá stefnda 2. júlí 2003, hvort honum hafi ekkert þótt athugavert við að vera hvorki búinn að fá rukkun fyrir iðgjöldum né tryggingarskírteini. Stefnda segir umrædda fullyrðingu stefnanda ranga.

Enn fremur fullyrðir stefnda að félagið hefði aldrei fallist á hærra tryggingarmat en kaupverð bátsins. Þetta megi ráða af framangreindri bókun stefnda 16. september 2005, en á þeim degi hafi trygging bátsins enn ekki verið frágengin. Tekur stefnda fram að það sé ekki á valdi eiganda báts eða þeirra sem um tryggingu biðji á kvótalausum bátum að ákveða einhliða vátryggingarverðmæti bátsins. Ekkert slíkt samkomulag hafi legið fyrir þegar óhappið varð 16. september 2003.

Stefnda kveðst hafna öllum kröfum stefnanda á sömu forsendum.

Þá tekur stefnda sérstaklega fram að rétt sé hjá stefnanda að haft hafi verið samband við Óla Þór Ástvaldsson, starfsmann stefnda, í kjölfar óhappsins og hann beðinn um að ráðleggja stefnanda. Óli Þór hafi bent á að nauðsynlegt væri að ganga frá lögregluskýrslu um atburðinn. Þá hafi hann einnig boðist til að senda mann til að meta tjónið fyrir stefnanda, ekki vegna stefnda, heldur sem greiða vegna hugsanlegrar kröfu tryggingarfélags kranans, enda hafi Óli Þór ekki verið í vafa um hver ábyrgðina bar.

Til stuðnings kröfum sínum vísar stefnda að öðru leyti til 11. og 12. gr. laga um vátryggingarsamninga nr. 20/1954. Þá vísar hann einnig til 3. tl. vátryggingarskilmála stefnda.

IV.

Af málatilbúnaði aðila má ráða að ekki var gerður skriflegur samningur um tryggingu bátsins og ekkert tryggingarskírteini var gefið út af stefnda.  Þá hafði stefnandi ekki greitt iðgjald fyrir tryggingu bátsins. Af gögnum málsins má ráða að Jón Stefánsson, einn af eigendum stefnanda, og Óli Þór Ástvaldsson, þáverandi framkvæmdastjóri stefnda,  höfðu með samskipti aðila að gera í málinu og hafa þeir báðir gefið skýrslur við aðalmeðferð málsins.  Ber þeim saman um að þeir hafi ræðst við símleiðis um að stefnandi vildi tryggja bátinn hjá stefnda.  Þeir eru hins vegar ósammála um hvort stefndi hafi fallist á að tryggja bátinn.  Vitnið Óli Þór kveður m.a. ekkert samkomulag hafa orðið um tryggingarfjárhæð en Jón Stefánsson kveður hann hafa fallist á að tryggingarfjárhæðin skyldi vera sú sama og fyrri eigandi hafi samið um við stefnda, þ.e. kr. 7.500.000-.  Ljóst er af gögnum málsins að seljandi bátsins hafði hann ekki í tryggingu hjá stefnda er sala hans fór fram.  Báturinn var hins vegar áður tryggður hjá stefnda í eigu fyrri eiganda og þá fyrir framangreinda fjárhæð.  Af framburði Jóns Stefánssonar má ráða að ágreiningur hafi verið um tryggingarupphæðina er hann fór að krefja stefnda um bætur.  Óli Þór kveðst hafa reynt að leysa málið með því að kanna hvort stefnda væri tilbúið til að greiða stefnanda, án skyldu, tryggingarfjárhæð er næmi kaupverði bátsins, kr. 2.500.000-.  Á það hefði ekki verið fallist af stefnda og því hefði sú leið ekki reynst fær. Þetta hafi hann gert vegna langra viðskipta Jóns Stefánssonar við stefnda.

Þegar til þess er litið að ekki lá fyrir samkomulag um tryggingarfjárhæðina svo og annars þess er að framan er rakið, þykir stefnandi ekki hafa fært sönnur á að komist hafi á samningur milli aðila um tryggingu bátsins, þrátt fyrir að hann stæði í þeirri meiningu að svo væri og ýmsar gerðir Óla Þórs gæfu honum tilefni til að ætla að svo væri.  Verður stefnda því sýknað af kröfum stefnanda í málinu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Dóm þennan kveður upp Freyr Ófeigsson.

D Ó M S O R Ð:

Stefndi, Vörður Vátryggingafélag h.f., er sýkn af kröfum stefnanda, Sjófars ehf, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.