Hæstiréttur íslands

Mál nr. 43/2011


Lykilorð

  • Brot gegn valdstjórninni
  • Skilorð


Fimmtudaginn 9. júní 2011.

Nr. 43/2011.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir

settur vararíkissaksóknari)

gegn

X

(Jón Egilsson hdl.)

Brot gegn valdstjórn. Skilorð.

X var sakfelld fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa slegið lögreglumann, sem var við skyldustörf, í vinstri kinn. Hæstiréttur frestaði ákvörðun refsingar ákærðu með vísan til þess að engir áverkar hefðu hlotist af háttsemi hennar og hún hafi ekki áður gerst sek um refsivert brot. Þá hafi óhæfilegur dráttur orðið á rannsókn málsins hjá lögreglu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 17. janúar 2011 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærðu, sem verði þyngd.

Ákærða krefst aðallega sýknu, til vara að sér verði ekki gerð refsing, en að því frágengnu að refsing verði milduð.

Í málinu er ákærðu gefið að sök að hafa brotið gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum með því að hafa aðfaranótt 23. apríl 2009 slegið nafngreindan lögreglumann í vinstri kinn, þar sem hann hafi verið við skyldustörf utan við veitingahús við [...] í Reykjavík. Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður staðfest niðurstaða hans um að ákærða hafi gerst sek um þessa háttsemi.

Við ákvörðun refsingar ákærðu verður að líta til þess að engir áverkar hlutust af háttsemi hennar. Hún var tæplega 50 ára þegar hún framdi brotið og hefur ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi. Þá er þess að gæta að brotið var sem áður segir framið 23. apríl 2009, en málið barst ekki ríkissaksóknara frá lögreglu fyrr en 15. september 2010 og var ákæra gefin út 29. sama mánaðar. Hefur engin skýring komið fram á þessum óhæfilega drætti á máli, sem varðar lítilsháttar sakarefni. Að þessu öllu virtu er rétt að fresta ákvörðun refsingar ákærðu skilorðsbundið á þann hátt, sem nánar greinir í dómsorði.

Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sakarkostnað verður staðfest.

Eftir þessum úrslitum málsins verður ákærðu gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar á meðal af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, sem ákveðin eru  að meðtöldum virðisaukaskatti eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvörðun refsingar ákærðu, X, skal frestað og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppsögu þessa dóms haldi hún almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður staðfest.

Ákærðu verður gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem samtals er 200.597 krónur að meðtöldum málsvarnarlaunum skipaðs verjanda hennar, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanns, 188.250 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. desember 2010.

Mál þetta, sem dómtekið var 21. desember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 29. september 2010 á hendur X kt. [...], [...], [...], fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa aðfaranótt fimmtudagsins 23. apríl 2009 utandyra við [...] í Reykjavík, slegið lögreglumanninn A í vinstri kinn, sem þar var við skyldustörf.

Telst þetta varða við 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 25/2007.

Þess er krafist að ákærða verði dæmd til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.  

Ákærða neitar sök. Af hálfu verjanda ákærðu er þess aðallega krafist að ákærða verði sýknuð af refsikröfu ákæruvalds en til vara að ákærðu verði dæmd vægasta refsing er lög leyfa. Þá er krafist málsvarnalauna.

Samkvæmt skýrslu lögreglu frá aðfaranótt fimmtudagsins 23. apríl 2009 hafði ákærða þá nótt kl. 04.35 samband við lögreglu og óskaði aðstoðar að [...] við [...] í Reykjavík. Í frumskýrslu kemur fram að ekki hafi verið unnt sökum anna hjá lögreglu að fara á vettvang fyrr en kl. 05.08. Er lögregla hafi komið á staðinn hafi ákærða setið á tröppum fyrir utan veitingastaðinn. Hafi lögreglumenn rætt við hana en hún verið mjög ölvuð og æst. Í viðræðum við ákærðu hafi komið fram að hún hafi verið stödd inni á [...] þegar starfsmaður hafi vísað henni á dyr sökum þess hve ölvuð hún hafi verið. Hafi ákærða tjáð lögreglu að hún hafi verið mjög ósátt við það og hafi komið til orðaskipta á milli hennar og starfsmannsins. Í framhaldinu hafi ákærða slegið starfsmanninn utan undir og í kjölfarið hafi dyraverðir staðarins flutt hana með valdi út fyrir staðinn. Hafi henni verið haldið niðri fyrir utan [...]. Þá hafi henni verið tjáð að haft yrði samband við lögreglu. Til þess hafi ekki komið og hafi dyraverðirnir sleppt henni skömmu síðar. Hafi ákærða tjáð lögreglu að hún kenndi sér mein í vinstri ökkla en hún hafi snúið sig á ökkla þegar hún hafi verið færð út fyrir. Jafnframt hafi hún fundið til víðs vegar um líkamann. Í skýrslu lögreglu kemur fram að mjög erfitt hafi verið að ræða við ákærðu sökum ástands hennar. Hafi hún verið sérstaklega ósátt við að hafa verið vísað út af [...] með valdi, sérstaklega í ljósi þess að hún hafi snúið sig á ökkla. Hafi hún viljað fá að ræða við starfsmenn staðarins. Búið hafi verið að loka staðnum þegar lögreglumenn hafi komið á vettvang. Hafi lögreglumenn ítrekað boðist til að aka ákærðu á Bráða- og slysadeild Landspítala-háskólasjúkrahúss í Fossvogi til frekari skoðunar en ákærða tjáð lögreglumönnum að hún kærði sig ekki um aðstoð þar sem lögreglumenn gætu ekki haft uppi á starfsmönnum [...]. Hafi hún verið mjög ókurteis í garð lögreglu og hún sakað lögreglumenn um að vilja ekki aðstoða sig. Eftir að hafa rætt við ákærðu um stund hafi hún samþykkt með semingi að lögregla myndi aka henni á slysadeild til frekari skoðunar. Þegar lögreglumenn hafi verið að styðja ákærðu á leið að lögreglubifreiðinni hafi hún skyndilega orðið mjög æst og slegið lögreglumanninn A og hafi höggið komið í andlitið vinstra megin þannig að A hafi fengið högg á vinstri kinn. Hafi ákærða slegið hann með handarbaki hægri handar. Lögreglumaðurinn hafi þó ekki hlotið sýnilega áverka. Í kjölfarið hafi ákærðu verið tilkynnt að hún væri handtekin vegna ofbeldis gagnvart lögreglu. Hafi hún verið færð í handjárn. Í framhaldinu hafi hún verið færð á lögreglustöð þar sem varðstjóri hafi tekið ákvörðun um vistun hennar í fangaklefa þar til rynni af henni áfengisvíman.

Rituð hefur verið vistunarskýrsla 23. apríl 2009 þegar ákærða var færð í fangaklefa. Í skýrslunni kemur m.a. fram að ákærða hafi verið í annarlegu ástandi, framburður hennar hafi verið ruglingslegur, jafnvægi hafi verið óstöðugt og málfar óskýrt. Sjáanleg ölvun hafi verið mikil.

Tekin var lögregluskýrsla af ákærðu næsta dag kl. 11.10. Ákærða kvaðst þá hafa verið að ,,röfla“ við lögreglumenn sem komið hafi henni til aðstoðar. Hafi lögreglumenn ekkert viljað gera fyrir hana og ætlað í burt. Hafi hún þá spurt hvort þeir ætluðu ekki að aðstoða hana og þeir þá snúið við. Hafi þeir aðstoðað hana við að standa á fætur og gengið með henni yfir að lögreglubifreiðinni. Hafi ákærða verið að ,,röfla“ og skammast á meðan þau hafi gengið yfir götuna. Hafi ákærða ekki vitað fyrr en henni hafi verið skellt á skottlok lögreglubifreiðarinnar og hendur hennar teknar upp fyrir aftan bak. Hafi hendurnar verið teknar mjög hátt upp og hafi hún ekki getað lyft hendinni upp eftir handtökuna. Hafi hún spurt af hverju lögreglumenn hafi farið þannig með hana og hún fengið þau svör að hún hafi ráðist á og slegið lögreglumann. Hafi hún ekki slegið lögreglumanninn. Hafi hún einungis ,,röflað“ í lögreglumanni. Hún tryði sér einnig til þess að hafa ýtt við lögreglumanni, en ekki slegið hann. Ákærða hafi verið drukkin þess nótt en hún kvaðst muna allt. Hafi henni verið vísað út af [...] þar sem hún hafi gefið starfsmanni staðarins utanundir en sá hafi verið að ýta henni of harkalega út af staðnum.   

Við aðalmeðferð málsins lýsti ákærða atvikum að mestu á sama veg og hjá lögreglu. Eftir að henni hafi verið vísað út af [...] hafi ákærða hringt á lögreglu. Eftir að hafa hringt í annað sinn hafi lögregla loks komið á staðinn. Hafi lögreglumenn tjáð henni að þeir vildu aka henni á slysadeild. Hún hafi hins vegar tjáð lögreglumönnum að starfsmenn [...] væru enn inni á staðnum en hún vildi fá leiðréttingu sinna mála vegna þess óréttlætis er hún hafi orðið fyrir. Lögreglumenn hafi hins vegar svarað ákærðu út í hött. Á leið að lögreglubifreiðinni hafi ákærða snúið sér að öðrum lögreglumannanna og sagt honum að hann væri ekki starfi sínu vaxinn. Um leið hafi hún strokið lögreglumanninum um vinstri kinnina með handarbaki. Stuttu síðar hafi virst sem lögreglumaðurinn hafi reiðst snögglega en hann hafi skyndilega tekið ákærðu og beygt hana yfir skott lögreglubifreiðarinnar. Um leið hafi lögreglumaðurinn sagt við félaga sinn ,,hún sló mig, sástu það ekki“? Hinn lögreglumaðurinn hafi þá ekki verið sömu megin við lögreglubifreiðina. Ekki væri ákærða viss um hvort sá lögreglumaður hafi séð atburðinn. Ákærða hafi því næst verið færð í handjárn og sett inn í lögreglubifreiðina. Ákærðu hafi verið ekið á lögreglustöð þar sem ákvörðun hafi verið tekin um vistun hennar. Atvikið allt saman hafi verið skelfileg lífsreynsla fyrir ákærðu. Ákærða kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis þessa nótt en þó myndi hún atvik vel. Ákærða gæti fullyrt að hún hafi ekki slegið umræddan lögreglumann. Ákærða kvað rétt sem fram kæmi í lögregluskýrslu að hún hafi tjáð lögreglumönnum að hún hafi slegið starfsmann [...] áður en henni hafi verið vísað á dyr. Ákærða kvaðst hafa verið öryrki á þessum tíma. Hafi hún verð með brjósklos í baki og með ónýta mjaðmakúlu. Hafi hún mátt illa við átökum. Ákærða kvaðst hafa verið með tvo hringa á hægri hendi þessa nótt. Hafi annar verið á baugfingri en hinn á löngutöng. Ákærða kvaðst hafa hitt son sinn fyrir utan staðinn þessa nótt. Hafi það verið áður en lögregla hafi komið á staðinn. Hafi hún tjáð honum að hún hafi hringt á lögreglu. Hafi hann komið aftur til hennar þegar lögregla hafi verð komin. Hafi annar lögreglumaðurinn tekið niður nafn hans. Ákærða kvaðst hafa fengið mikla verki í aðra höndina eftir aðfarir lögreglu þessa nótt. Hafi hún varla getað notað höndina í tvær vikur. Hafi málið allt lagst illa í ákærðu. Hafi hún ekki áður komist í kast við lögreglu.

B, sonur ákærðu, kvaðst hafa starfað sem rekstrarstjóri á veitingastaðnum [...] á þessum tíma. Hafi hann verið að vinna þessa nótt. Þegar starfsmenn hafi verið að loka staðnum hafi einn starfsmanna komið til B og tjáð honum að móðir hans sæti fyrir utan Ölstofuna. Hafi hún verið grátandi og sagt B sögu sína. Hafi hún talið á sér brotið inni á [...] og hún því viljað hringja á lögreglu. Hafi hún ekki viljað að B æki sér heim. B hafi því farið aftur inn á [...]. Eftir að lögregla kom hafi hún rætt við ákærðu. Hafi B þá farið yfir til þeirra. Lögreglumenn hafi handtekið ákærðu og hafi B haft það á tilfinningunni að lögreglumennirnir hafi einfaldlega ekki nennt að eiga við ákærðu. Hafi hún sagt lögreglumenn ekki starfi sínu vaxna og þeir þá handtekið hana. Hafi B tjáð lögreglumönnum að ákærða væri móðir hans og hann beðið þá um að fara varlega með hana. B hafi vitað til þess að starfsmenn [...] hafi verið að loka staðnum þegar þar var komið. Einhverjir starfsmenn hafi engu að síður verið inni á staðnum. Útidyrahurð staðarins hafi verið lokuð og búið hafi verið að draga fyrir glugga. Eftir að lögregla hafi farið af staðnum hafi B farið yfir að [...] og bankað á dyr. Hafi starfsmaður staðarins þá komið til dyra. B kvaðst hafa staðið við hlið lögreglumanna þessa nótt þegar þeir hafi átt samskipti við ákærðu. Hafi hann aldrei séð hana slá lögreglumann. Hafi hann ekki orðið vitni að því að ákærða stryki lögreglumanni um kinn. Báðir lögreglumennirnir hafi staðið að handtöku ákærðu en annar þeirra haft sig meira í frammi. Handtakan hafi að mati B verið harkaleg. 

C kvaðst hafa verið að vinna inni á [...] þessa nótt. Hafi hún verið stödd á efri hæð staðarins þegar hún hafi séð til ferða lögreglu fyrir utan staðinn, en lögreglumenn hafi verið á bifreiðaplani sem væri á milli [...] og [...]. Hafi hún séð ákærðu ræða við lögreglumenn. Þá hafi hún séð B vera hjá þeim. Hafi hún staðið við glugga og séð alla atburðarásina. Ekki hafi hún séð ákærðu slá lögreglumann. Ekki hafi hún heldur séð ákærðu strjúka lögreglumanni um kinn. Hún hafi séð ákærðu handtekna og hafi handtakan virst harkaleg. C hafi verið í um það bil 10 metra fjarlægð frá þeim stað er ákærða og lögreglumennirnir hafi verið. Dimmt hafi verið úti en götuljós lýst upp svæðið.

A fyrrverandi lögreglumaður kvað lögreglu hafa fengið tilkynningu um að aðstoða ákærðu umrædda nótt. Á staðnum hafi lögreglumenn hitt fyrir ákærðu sem hafi verið ölvuð og æst. Hafi hún verið mjög ósátt við starfsmenn [...]. Hafi hún tjáð lögreglumönnum að henni hafi verið vísað út vegna slagsmála. Hafi hún viljað að lögreglumenn myndu hafa uppi á starfsmönnum [...]. Á þeim tíma hafi verið búið að loka staðnum. Hafi ákærða tjáð lögreglumönnum að hún væri meidd á fæti. Hafi þeir boðist til að aka henni á slysadeild. Atburðarásin hafi tekið talsverðan tíma. Hafi lögreglumennirnir stutt ákærðu yfir að lögreglubifreiðinni. Er þau hafi komið að bifreiðinni hafi ákærða slegið A í andlitið með handarbaki og hafi höggið komið á vinstri kinn. Hafi ákærða þá verið handtekin og færð í handjárn. Handtakan hafi verið eðlileg í alla staði. Í framhaldinu hafi hún verið færð inn í lögreglubifreiðina og verið færð á lögreglustöð. Er ákærða hafi slegið A hafi A staðið vinstra megin við lögreglubifreiðina. Lögreglumenn hafi ekki verið með ákærðu í tökum á þeirri stundu. Atburðarásin hafi verið hröð. Ekki hafi verið um óviljaverk að ræða hjá ákærðu. Rangt væri sem ákærða héldi fram að hún hafi strokið honum blíðlega um kinn. A hafi fengið roða af högginu sem hafi horfið fljótt. Hafi hann ekki verið með sýnilega áverka eftir höggið eftir það. Þá kvaðst A ekki minnast þess að ákærða hafi sagt lögreglumennina ófaglega. A kvað engin vitni hafa verið á staðnum. Ekki hafi hann séð son ákærðu á vettvangi.

D lögreglumaður skýrði frá atvikum í samræmi við frumskýrslu þá er hann hefur ritað vegna málsins. Ákærða hafi óskað eftir því að lögregla ræddi við starfsmann [...] en það hafi ekki verið hægt þar sem búið hafi verið að loka staðnum og öll ljós þar slökkt. Ákærða hafi verið dónaleg gagnvart lögreglu. Hafi lögreglumenn boðist til að aka henni á slysadeild. Hafi þau gengið saman yfir að lögreglubifreiðinni. Hafi ákærða þá orðið æst og hún slegið lögreglumanninn A. Hafi höggið komið í andlit lögreglumannsins. Á þeim tíma sem ákærða hafi slegið A hafi lögreglumenn staðið sitt hvoru megin við ákærðu og D staðið við vinstri hlið hennar. Hafi D séð þar sem ákærða hafi snúið sér við og slegið A með handarbaki hægri handar. Um hafi verið að ræða eitt högg og hafi ekki verið um  óviljaverk að ræða. Þá væri rangt sem ákærða héldi fram að hún hafi einungis strokið lögreglumanninum um vanga. Ákærða hafi í framhaldinu verið handtekin og færð í handjárn. Í þeirri aðgerð hafi hún verið lögð yfir á lögreglubifreiðina. Handtakan hafi verið framkvæmd með venjulegum hætti. Ekki hafi nein vitni verið á staðnum er þessir atburðir hafi átt sér stað. Sonur ákærðu hafi hins vegar komið að þegar ákærða hafi verið komin inn í lögreglubifreiðina. Hafi lögreglumenn þá kynnt syni hennar hvernig mál hafi þróast. Hafi það ekki virst koma honum á óvart. Lögreglumenn hafi báðir komið að handtökunni. Ákærða hafi þessa nótt verið bæði ölvuð og æst.

Niðurstaða: 

Ákærðu er gefið að sök að hafa slegið lögreglumanninn A í vinstri kinn þar sem hann var við skyldustörf við [...] í Reykjavík aðfaranótt fimmtudagsins 23. apríl 2009. Ákærða neitar sök. Kveðst hún hafa strokið lögreglumanninum um vinstri kinn með handarbaki hægri handar. Í málinu liggur fyrir samhljóða framburður tveggja lögreglumanna sem að málinu unnu umrædda nótt. Bera báðir lögreglumennirnir að ákærða hafi slegið lögreglumanninn A með handarbaki og hafi höggið komið á vinstri kinn lögreglumannsins. Fullyrða þeir báðir að ekki hafi verið um óviljaverk að ræða. Framburður ákærðu um þetta atriði hefur ekki verið á einn veg við rannsókn og meðferð málsins. Er tekin var skýrsla af ákærðu eftir vist í fangageymslu minntist hún þess ekki að hafa slegið lögreglumanninn heldur hafi hún einungis verið að ,,röfla“ í honum. Það var ekki fyrr en við meðferð málsins fyrir dómi að ákærða lýsti því yfir að hún hafi strokið lögreglumanninum um kinn. Þá er til þess að líta að samkvæmt rannsóknargögnum málsins var ákærða mjög ölvuð þessa nótt. Bæði kemur það fram í frumskýrslu lögreglu, auk þess sem vistunarskýrsla ákærðu ber þess greinileg merki. Við meðferð málsins fyrir dómi hefur vörn ákærðu m.a. miðast við að ekki sé möguleiki að hún hafi getað slegið lögreglumann við þær aðstæður er hún var í með handarbaki hægri handar þannig að höggið hafi komið á vinstri kinn lögreglumannsins. Á þetta fellst dómurinn ekki. Lögreglumenn hafa lýst því þannig að ákærða hafi verið á milli þeirra. Hafi A verið hægra megin við hana en lögreglumaðurinn Þorgeir við vinstri hlið hennar. Ákærða hafi ekki verið í tökum. Við þær aðstæður var hægastur vandi fyrir ákærðu að slá þann lögreglumann sem var henni á hægri hönd með handarbaki hægri handar þannig að höggið kæmi á vinstri kinn. Þegar virtur er framburður lögreglumanna, sem samhljóða er um þau atriði er mestu varða um sakarefnið, og hliðsjón höfð ástandi ákærðu þessa nótt sem og misvísandi framburði hennar, þykir dóminum hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærða hafi slegið lögreglumanninn A umrædda nótt. Hafi höggið verið veitt með handarbaki hægri handar og komið í vinstri kinn lögreglumannsins. Framburður vitnanna B og C breytir þessari niðurstöðu ekki en framburður þeirra gefur til kynna að þau hafi ekki séð þann hluta atburðarásarinnar er varðar umrætt högg. Með framferði sínu hefur ákærða gerst sek um brot gegn valdstjórninni. Verður ákærða því sakfelld samkvæmt ákæru og er háttsemin rétt heimfærð til refsiákvæða í ákærunni.

Ákærða er fædd í [...]. Hefur hún ekki áður gerst sek um refsiverða háttsemi svo kunnugt sé. Ákærða hefur verið sakfelld fyrir að hafa slegið lögreglumann við skyldustörf. Var um líkamlegt ofbeldi að ræða gagnvart lögreglumanni sem er alvarleg háttsemi. Með hliðsjón af sakarefni málsins þykir refsing ákærðu hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Í ljósi sakaferils hennar þykir unnt að skilorðsbinda refsinguna með þeim hætti er í dómsorði greinir.

Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, að viðbættum virðisaukaskatti, svo sem í dómsorð greinir. Ekki hefur annan sakarkostnað leitt af málinu.

Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð :

Ákærða, X, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærða almennt skilorð 57. gr. almennra hegningar­laga nr. 19/1940 sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærða greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðsdómslögmanna, 125.500 krónur.