Hæstiréttur íslands
Mál nr. 115/2004
Lykilorð
- Sjálfskuldarábyrgð
|
|
Fimmtudaginn 30. september 2004. |
|
Nr. 115/2004. |
Sigurjón Reynisson Oddur Már Gunnarsson Gestur HaraldssonElísa Berglind Adolfsdóttir og Guðmundur Kristinn Óskarsson (Karl Axelsson hrl.) gegn Landsbanka Íslands hf. (Reinhold Þ. Kristjánsson hrl.) |
Sjálfskuldarábyrgð.
Áfrýjendur, sem staðið höfðu að stofnun fyrirtækisins B hf., gengust í febrúar 1996 undir sjálfskuldarábyrgð fyrir 500.000 krónum vegna yfirdráttarheimildar á tékkareikningi B hjá LÍ og undirritaði hver þeirra sérstaka ábyrgðaryfirlýsingu þess efnis. Voru ábyrgðaryfirlýsingarnar ekki tímabundnar en yfirdráttarheimildin átti að gilda til 1. mars 1996. Nægilegt var þó að óska eftir framlengingu heimildarinnar munnlega og var óumdeilt að tékkareikningur B var í fullri notkun fram til þess að bú B var tekið til gjaldþrotaskipta í desember 2000. Var samkvæmt þessu ekki fallist á að ábyrgðir áfrýjenda hefðu fallið niður 1. mars 1996, svo sem haldið var fram af þeirra hálfu. Þá var ekki fallist á að þær væru niður fallnar fyrir fyrningu né tómlæti. Af ábyrgðaryfirlýsingum þeim sem lágu frammi í málinu og gerðar voru við hvern áfrýjanda fyrir sig, varð fyllilega ráðið að hver og einn áfrýjenda hafði gengist í ábyrgð fyrir 500.000 krónum vegna yfirdráttar B. Var því ekki fallist á, að um solidariska ábyrgð stefndu hafi verið að ræða, og var áfrýjendum hverju um sig gert að greiða LÍ 500.000 krónur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 18. mars 2004. Þeir krefjast aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að þeir verði dæmdir sameiginlega til að greiða honum 500.000 krónur með dráttarvöxtum frá þeim degi er mánuður er liðinn frá uppkvaðningu dóms Hæstaréttar í málinu. Í báðum tilvikum krefjast þeir málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eftir útgáfu áfrýjunarstefnu lést Viggó Rúnar Einarsson, einn áfrýjenda. Fékk ekkja hans, Elísa Berglind Adolfsdóttir, leyfi til setu í óskiptu búi 31. ágúst 2004. Hún hefur þessu til samræmis tekið við aðild málsins fyrir Hæstarétti.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.
Áfrýjendur verða dæmdir til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjendur, Sigurjón Reynisson, Oddur Már Gunnarsson, Gestur Haraldsson, Elísa Berglind Adolfsdóttir og Guðmundur Kristinn Óskarsson greiði hvert um sig stefnda, Landsbanka Íslands hf., 50.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 22. desember 2003.
Mál þetta, sem tekið var til dóms 12. desember sl., er höfðað 4. mars 2003.
Stefnandi er Landsbanki Íslands, Austurstræti 11, Reykjavík.
Stefndu eru Sigurjón Reynisson, Miðengi 5, Selfossi, Oddur Már Gunnarsson, Prestegaardsjordet 17, Röyken, Noregi, Gestur Haraldsson, Lóurima 11, Selfossi, Viggó Rúnar Einarsson, Heimahaga 9, Selfossi og Guðmundur Kristinn Óskarsson, Þrastarima 20, Selfossi.
Stefnandi krefst þess að stefndu, Sigurjón, Oddur Már, Gestur, Viggó Rúnar og Guðmundur Kristinn verði dæmdir hver fyrir sig til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 500.000 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. febrúar 2001 til 1. júlí 2001, og dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi vaxtavaxta er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti og málskostnaðar úr hendi stefndu að mati dómsins.
Stefndu krefjast aðallega sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar að skaðlausu samkvæmt málskostnaðarreikningi úr hendi stefnanda, en til vara að þeir verði dæmdir til greiðslu 500.000 króna in solidum með dráttarvöxtum frá þeim degi er mánuður er liðinn frá dómsuppkvaðningu og málskostnaður í því tilviki látinn niður falla milli aðila.
Málsatvik
Stefndu stóðu að stofnun Bílfoss hf. og fólst starfsemi félagsins í alhliða bifreiðaviðgerðum, sölu varahluta og tengdri starfsemi. Félagið stofnaði tékkareikning nr. 5069 við útibú stefnanda að Austurvegi 3, Selfossi 7. apríl 1995. Stefndu gengust undir sjálfskuldarábyrgð fyrir 500.000 krónum vegna reikningsláns Bílfoss hf. hjá stefnanda 9. febrúar 1996 með þeim hætti að hver þeirra undirritaði sérstaka ábyrgðaryfirlýsingu þess efnis. Á bakhlið ábyrgðaryfirlýsingarinnar koma fram skilmálar hennar og segir í 1. gr. þeirra að ábyrgðarmaður skuli kynna sér þá skilmála sem gildi um viðkomandi viðskipti. Þá segir í 5. gr. skilmálanna að óski ábyrgðarmaður þess að segja upp ábyrgð sinni skuli hann gera það skriflega. Taki uppsögnin þá gildi frá og með lokum þess samnings sem í gildi sé þegar uppsögnin berist ábyrgðarhafa, eða næsta uppgjörsdags, eftir að hægt sé að senda aðalskuldara tilkynningu um uppsögn ábyrgðarinnar. Fyrr falli ábyrgðin ekki niður. Tékkareikningurinn var notaður allt þar til bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands 18. desember 2000.
Í gögnum málsins og með vitnisburði fyrir dómi hefur komið fram að í lok ársins 1998 hafi farið fram uppgjör stefndu við stefnanda, sem falist hafi í því að stefnandi lánaði hverjum stefndu rúma eina milljón til greiðslu ákveðinnar skuldar þeirra við Bílfoss hf. Pétur Pétursson þáverandi framkvæmdastjóri félagsins og Hlöðver Örn Rafnsson endurskoðandi þess komu fram fyrir hönd félagsins við gerð þessa samkomulags. Láninu var varið til greiðslu skulda félagsins við stefnanda. Samkvæmt yfirlýsingum fyrirsvarsmanna stefnanda, sem liggja frammi í málinu, var liður í uppgjöri þessu að stefnandi aflétti sjálfskuldarábyrgð stefndu á veðskuldabréfi útgefnu 29. desember 1994 af Bílfoss hf., upphaflega að fjárhæð 19.000.000 krónur, merkt 0152-74-25834 og voru stefndu leystir undan ábyrgð á því skuldabréfi.
Innistæðulausar færslur á tékkareikningi Bílfoss hf. við stefnanda námu 5.890.273.69 krónum 24. febrúar 2003.
Fyrir dóminum gáfu skýrslu aðilarnir Oddur Már Gunnarsson, Guðmundur K. Óskarsson og Sigurjón Reynisson og vitnin Svanhvít Hermannsdóttir, Nína G. Pálsdóttir, Friðgeir Baldursson, Pétur Pétursson og Hlöðver Örn Rafnsson.
Í framburði stefnda, Odds Más, sem var framkvæmdastjóri Bílfoss hf. þar til í byrjun árs 1997, kom fram að hann minnti að yfirdráttarheimild sú sem fengin var árið 1996 hafi átt að vera tímabundin. Þá kvaðst hann engar athugasemdir hafa gert við yfirlýsingu dags. 16. nóvember 1999, þar sem fram kemur að stefnandi leysti Odd Má undan sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi útgefnu 29. desember 1994 af Bílfoss hf. merkt 0152-74-25834, enda ráðstafaðist greiðsla Odds Más að fjárhæð 1.014.000 krónur inn á ofangreint lán. Hann kvaðst hafa staðið í þeirri trú að hann væri ekki í neinum öðrum ábyrgðum fyrir skuldum Bílfoss hf., en kvaðst hafa vitað að reikningur Bílfoss hf. hjá stefnanda hafi verið yfirdreginn.
Stefndi, Guðmundur K. Óskarsson kvað yfirdráttarheimild þá sem veitt hafi verið árið 1996 hafa átt að vera tímabundna. Þegar uppgjör fór fram á skuldum stefndu við Bílfoss hf., kvaðst hann hafa staðið í þeirri trú að hann væri laus undan öllum sjálfskuldarábyrgðum vegna félagsins. Hann kvað Pétur Pétursson og Hlöðver Örn Rafnsson hafa tjáð sér að samist hefði svo um við stefnanda, en hann hafi aldrei heyrt það beint frá starfsmönnum stefnanda að svo hafi um samist. Á fundi með fyrirsvarsmönnum stefnanda 26. nóvember 1999 hafi Nína Pálsdóttir, starfsmaður stefnanda, upplýst að stefndu væru enn í sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á tékkareikningi Bílfoss hf. Pétur Pétursson og Hlöðver Örn Rafnsson hefðu hins vegar beðið hann um segja félögum sínum ekki frá því og hafi þeir sagst ætla að leysa þetta mál með stefnanda.
Þá kvað stefndi, Sigurjón Reynisson, að Pétur Pétursson og Hlöðver Örn Rafnsson hefðu tjáð sér að allar ábyrgðir hans vegna Bílfoss hf. væru fallnar niður með framangreindu samkomulagi um uppgjör.
Svanhvít Hermannsdóttir, starfsmaður stefnanda, bar fyrir dómi að venja væri að viðskiptavinir óskuðu munnlega eftir endurnýjun yfirdráttarheimilda, en slíkar heimildir væru ekki framlengdar nema ósk lægi fyrir um það frá viðkomandi viðskiptavini.
Nína Pálsdóttir, starfsmaður stefnanda, kvaðst minnast fundar sem haldinn hafi verið í Bílfossi hf. 26. nóvember 1999, þar sem rætt hefði verið um aðkomu nýrra fjárfesta inn í fyrirtækið. Á fundinum hefði hún upplýst fundarmenn, þar sem meðal annarra voru staddir stefndi, Guðmundur Óskarsson, Pétur Pétursson þáverandi framkvæmdastjóri Bílfoss hf. og Hlöðver Örn Rafnsson endurskoðandi félagsins, um að til tryggingar yfirdrætti á tékkareikningi félagsins lægju sjálfskuldarábyrgðir stefndu, en það hafi komið stefnda, Guðmundi, mjög á óvart.
Friðgeir Baldursson útibússtjóri stefnanda kvað sér hafa verið kunnugt um að til tryggingar yfirdrætti á tékkareikningi félagsins væru sjálfskuldarábyrgðir stefndu, þegar uppgjör fór fram síðla árs 1998. Hann kvað þá Pétur Pétursson þáverandi framkvæmdastjóra félagsins og Hlöðver Örn Rafnsson endurskoðanda þess, hafa óskað eftir aðstoð bankans. Niðurstaðan hefði orðið sú að bankinn hefði lánað stefndu ákveðna fjármuni sem ráðstafað hafi verið til endurgreiðslu skuldar þeirra við Bílfoss hf. Bankinn hefði jafnframt aflétt sjálfskuldarábyrgð stefndu af skuldabréfi útgefnu 29. desember 1994.
Pétur Pétursson, sem var framkvæmdastjóri Bílfoss hf. frá mars 1997 til október 2000, kvað hafa samist svo um við stefnanda á árinu 1998 að stefnandi felldi niður allar persónulegar ábyrgðir á hendur stefndu gegn því að stefndu greiddu skuld sína við Bílfoss hf. og fjármunum þeim sem stefnandi lánaði þeim yrði varið til þess að lækka skuldir félagsins við stefnanda. Hann kvaðst hafa tilkynnt stefndu um framangreint samkomulag. Hann kvað sér ekki hafa verið kunnugt um þegar framangreint uppgjör fór fram, að stefndu væru í sjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdrætti á tékkareikningi og hafi hann því ekki farið fram á það við stefnanda að sú ábyrgð yrði felld niður. Nína Pálsdóttir hefði hins vegar upplýst á fundi sem haldinn var ári síðar að stefndu væru enn í persónulegum ábyrgðum vegna yfirdráttar á tékkarreikningi.
Hlöðver Örn Rafnsson, endurskoðandi Bílfoss hf. kvaðst ekki hafa vitað fyrr en á fyrrnefndum fundi í nóvember 1999 að stefndu væru enn sjálfskuldarábyrgðarmenn vegna yfirdráttar á tékkarreikningi.
Málsatvik og lagarök stefnanda
Stefnandi kveður að stefndu hafi hver fyrir sig ritað undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 500.000 krónur 9. febrúar 1996 og hafi stefndu verið sendar greiðsluáskoranir í febrúar 2001 og innheimtubréf 23. október 2002. Skuldin hafi ekki fengist greidd.
Stefnandi vísar til meginreglna kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga til stuðnings kröfum sínum.
Við aðalmeðferð málsins andmælti lögmaður stefnanda málsástæðum stefndu. Hann kvað ekkert benda til að greiðslukrafan væri andstæð samningi aðila, enda hefði einungis sjálfskuldarábyrgð stefndu á tilteknu skuldabréfi við stefnanda verið felld niður með uppgjöri sem fram fór á árinu 1998.
Varðandi þá málsástæðu stefndu að ábyrgðarskuldbindingar stefndu væru niður fallnar, benti stefnandi á að reikningslánið hefði aldrei fallið niður. Allir stefndu hafi staðið að rekstri Bílfoss hf., þeim hafi mátt vera fullkunnugt um að yfirdráttarheimild hefði verið til staðar og einmitt vegna þess að ábyrgðaryfirlýsing hafi verið í fullu gildi. Varðandi málsástæður stefndu um ,,Samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða” benti lögmaður stefnanda á að þær ábyrgðir sem mál þetta tæki til væru ekki sambærilegar við þær ábyrgðir sem samkomulagið tæki til. Þá hefði samkomulagið tekið gildi 27. janúar 1998, en stefndu undirritað ábyrgðaryfirlýsingar sínar á árinu 1996.
Lögmaður stefnanda benti á að fyrningarfrestur hæfist þegar krafa yrði gjaldkræf og krafa sú sem mál þetta tæki til hefði fyrst orðið gjaldkræf er bú Bílfoss hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 18. desember 2000.
Þá kvað lögmaður stefnanda ábyrgð stefndu hafa verið takmarkaða við 500.000 krónur hjá hverjum og einum stefndu og ekki skipti máli hve há yfirdráttarheimildin hafi verið. Þá hafi stefndu mátt vera ljóst að þeim hafi verið heimilt að segja upp sjálfskuldarábyrgðinni, en þeir hafi kosið að gera það ekki. Stefndu hafi notað yfirdráttarheimild á tékkareikningi Bílfoss hf. löngu eftir 1. mars 1996, og notað heimildina til þess að halda félaginu í rekstri.
Varðandi málsástæðu stefndu um tómlæti benti lögmaður stefnanda á að tékkareikningurinn hafi verið í notkun til loka árs 2000 þegar Bílfoss hf. varð gjaldþrota. Þá hafi kröfu verið lýst í búið og í framhaldi af því hafi stefndu verið sendar greiðsluáskoranir. Samkomulag um efndir hafi ekki náðst og því hafi stefnandi hafið málssókn á hendur stefndu.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndu kveða að viðræður hafi fram innan Bílfoss hf. um fjárhagslega endurskipulagningu félagsins á árinu 1998 og hafi stefnandi tekið þátt í þeirri vinnu. Niðurstaða viðræðnanna hafi verið að stefndu hafi greitt til stefnanda samtals 5.102.100 krónur gegn því að þeir yrðu þá leystir undan öllum ábyrgðum innan bankans á skuldbindingum Bílfoss hf.
Í samræmi við samkomulag og móttöku á greiðslunni hafi stefnandi leyst stefndu undan sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi, merktu 0152-74-25834, upphaflega að fjárhæð 19.000.000 krónur. Hafi stefndu þá talið að ekki væri um frekari persónulegar ábyrgðir þeirra að ræða, að undanskilinni ábyrgð á skuldabréfi sem verið hafi í eigu Vátryggingafélags Íslands hf.
Stjórnarfundur hafi verið hjá Bílfoss hf. 26. nóvember 1999, þar sem mættir hafi verið meðal annarra forsvarsmenn Landsbankans á Selfossi og stjórnarmenn í Bílfossi hf. Á fundinum hafi verið farið yfir fjárhagsstöðu félagsins og af hálfu stefnanda hafi þá verið vísað til tryggingavíxla sem stefnandi hafi talið að stefndu hafi ritað undir til tryggingar á yfirdráttarheimild á tékkareikningi Bílfoss hf. Stefndu hafi mótmælt því og talið að þeir hefðu verið leystir undan öllum ábyrgðum gagnvart stefnanda í lok árs 1998 og hafi stefndu treyst því að mál þessi væru umsamin og frágengin.
Stefnandi hafi sent stefndu greiðsluáskorun 8. febrúar 2001 vegna framangreindra ábyrgðarskuldbindinga og með bréfi 27. febrúar s.á., hafi stefndu mótmælt greiðsluskyldu sinni, og bent á að stefnandi hefði samþykkt að leysa þá undan öllum persónuábyrgðum, auk þess sem krafan væri fyrnd og fallin niður á grundvelli almennra reglna um kröfuábyrgðir. Tekið var fram í bréfi stefndu að óskað væri eftir því að erindinu yrði svarað innan 15 daga frá dagsetningu þess. Þar sem engin svör hafi borist frá stefnanda hafi stefndu ritað stefnanda bréf 14. mars 2001 þar sem stefndu tilkynntu að þeir litu svo á að stefnandi hefði fallist á þau sjónarmið sem fram hafi verið sett í bréfi þeirra. Stefndu fengu innheimtubréf vegna skuldarinnar 23. október 2002.
Stefndu byggja sýknukröfur sínar á því að greiðslukrafa stefnanda sé andstæð samningi aðila samkvæmt 33. og 36. gr. samningalaga. Í lok árs 1998 hafi samist um milli aðila að stefndu greiddu stefnanda 5.102.100 krónur gegn því að stefndu yrðu leystir undan öllum persónulegum ábyrgðum á skuldum félagsins. Stefndu hafi ekki verið kunnugt um frekari ábyrgðir þeirra í bankanum en á skuldabréfi 152-74-25834. Ábyrgð þeirra á reikningsláninu hafi einnig átt að vera fallin niður á þessum tíma, enda heimildin tímabundin. Á fundi aðila 26. nóvember 1999 hafi einnig verið ítrekað af hálfu bankans að allar persónulegar ábyrgðir stefndu ættu að vera niður fallnar. Hafi því stefndu talið að mál þessi væru frágengin. Stefndu telja að krafa stefnanda fari gegn samningi aðila og sé andstæð 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Þá byggja stefndu á því að skuldbindingar þeirra séu niður fallnar samkvæmt þeim skilmálum sem gilda eigi um samningssamband aðila. Í skilmálum ábyrgðaryfirlýsinga stefndu sé ekki að finna ákvæði sem mæli fyrir um gildistíma ábyrgðarinnar, en í yfirlýsingunum sé tilgreint að þær séu vegna reikningsláns Bílfoss hf. Samkvæmt eyðublaði sem útfyllt hafi verið af starfsmanni stefnanda, og borið hafi yfirskriftina ,,Tilkynning um yfirdráttarheimild” hafi sú heimild (reikningslán) sem hafi átt að veita verið tímabundin og gilt frá 9. febrúar 1996 til 1. mars 1996. Ábyrgðaryfirlýsingar þeirra hafi því lotið sömu takmörkun í tíma og þar greini, enda veittar í tilefni af tímabundnu reikningsláni Bílfoss hf. Skuldbindingar þeirra hafi því fallið niður samhliða reikningsláninu.
Í ábyrgðaryfirlýsingu stefndu segi jafnframt að ábyrgðarmaður gangist í ábyrgð á skuldbindingu viðskiptamanna sem sinni eigin skuld í samræmi við skilmála yfirlýsingarinnar og almenn viðskiptakjör einstaklinga við Landsbankann svo og almenna ábyrgðarskilmála. Þar sem vísað sé til almennra viðskiptakjara einstaklinga og almennra ábyrgðarskilmála gildi sömu skilmálar um yfirlýsingar þeirra.
Undirritað hafi verið samkomulag um notkun sjálfskuldarábyrgða 27. janúar 1998 og sé sérákvæði vegna yfirdráttarlána í 6. gr. samkomulagsins. Segi þar meðal annars að sjálfskuldarábyrgð fyrir yfirdráttarheimild á tékkareikningi skuli ,,ekki gilda lengur en í fjögur ár frá útgáfudegi”. Þessir skilmálar gildi um samningssamband stefndu og stefnanda, enda í samræmi við almenna ábyrgðarskilmála viðskiptabanka og sparisjóða. Samkvæmt því hafi sjálfskuldarábyrgð stefndu gilt til 9. febrúar 2000. Hún hafi því verið löngu fallin niður þegar mál þetta var höfðað.
Þá byggja stefndu jafnframt á því að ætli stefnandi að beita öðrum reglum og skilmálum gagnvart stefndu brjóti það ekki aðeins gegn fyrrgreindu samkomulagi heldur fari einnig gegn 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Stefndu byggja og á því að kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingunum séu fyrndar. Þær hafi verið undirritaðar og mótteknar af hálfu stefnanda 9. febrúar 1996. Rúm sjö ár séu því liðin frá þeim tíma. Samkvæmt 4. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 fyrnist kröfur á hendur ábyrgðarmönnum á fjórum árum, óháð fyrningu aðalkröfunnar.
Reikningslán Bílfoss hf. hafi verið tímabundið og yfirdráttarheimild gilt til 1. mars 1996. Stefndu hafi því eingöngu borið ábyrgð á skuldbindingunni eins og hún hafi verið á þeim tíma, innan hámarksfjárhæðar ábyrgðar þeirra. Frá þeim tíma séu liðin meira en fjögur ár.
Þá benda stefndu á að ekki verði séð að gengið hafi verið frá framlengingu yfirdráttarheimildar, að minnsta kosti hafi ekki verið leitað eftir samþykki stefndu fyrir því. Umrætt reikningslán, sem ábyrgðaryfirlýsingar stefndu hafi tekið til hafi samkvæmt því verið í vanskilum frá 1. mars 1996. Þá hafi reikningslánið í raun gjaldfallið og því hafi þurft nýja lánveitingu og samþykki stefndu fyrir henni ef breyta hefði átt greiðslukjörum. Það hafi ekki verið gert. Stefndu þurfi ekki að sæta því að ábyrgð þeirra á reikningsláninu vari lengur en til þess tíma sem stefnandi hafði tilgreint. Krafa stefnanda sé því fyrnd.
Verði ekki fallist á að miða beri upphaf fyrningarfrests við 1. mars 1996, benda stefndu á að miða beri við það tímamark er fjárhæð reikningsláns Bílfoss hf. hafi farið yfir þá hámarksheimild sem tilgreind hafi verið í ábyrgðaryfirlýsingum stefndu, 500.000 krónur. Meira en fjögur ár séu liðin frá því að það hafi átt sér stað, enda þótt byggt sé á því að upphæð hámarksheimildar Bílfoss hf. hafi verið 2.500.000 krónur. Meira en fjögur ár hafi liðið frá því að reikningslánið hafi farið yfir þá fjárhæð og þar til málið var höfðað.
Verði ekki fallist á framangreint telja stefndu að upphaf fyrningarfrests skuldbindinga þeirra beri að miða við það tímamark er ábyrgðaryfirlýsing þeirra hafi verið undirrituð og móttekin, sbr. 4. tl. 3. gr. og 1. mgr. 5. gr. fyrningarlaga. Samkvæmt því séu ábyrgðarskuldbindingar þeirra fyrndar. Það sé einnig í samræmi við fyrrgreint samkomulag sem stefnandi sé aðili að. Að öðrum kosti yrði niðurstaðan sú að ábyrgðarskuldbindingar vegna yfirdráttarheimilda væru ótímabundnar og stefnanda sem og öðrum lánastofnunum væri í sjálfsvald sett hvenær fyrningarfrestur byrjaði að líða. Slík niðurstaða gengi í berhögg við fyrrgreint samkomulag frá 27. janúar 1998 sem og ákvæði fyrningarlaga um fyrningu ábyrgðarskuldbindinga og fæli í sér að ákvæði laganna um fyrningu slíkra skuldbindinga væru þýðingarlaus.
Enn fremur sé eðlilegt að gerð sé sú krafa til stefnanda að fylgjast með ábyrgðum eða öðrum tryggingum að baki reikningslánum og hafi því stefnandi getað gripið til ráðstafana í tíma, annað hvort innheimt yfirdráttarskuldina eða gert aðalskuldara að útvega nýjar og /eða frekari tryggingar.
Einnig megi beita sömu sjónarmiðum og eigi við um fyrningarfrest krafna samkvæmt 2. mgr. 5. gr. fyrningarlaga, er gjalddagi kröfu fari eftir undanfarandi uppsögn af hálfu kröfuhafa. Frá þeim tíma er yfirdráttarheimildin hafi verið veitt hafi stefnandi getað sagt upp heimildinni og upphaf fyrningarfrests ábyrgðarskuldbindinga stefnda teljist frá sama tíma. Í ljósi þessa séu skuldbindingar stefnda fyrndar.
Auk framangreinds byggja stefndu sýknukröfur sínar á almennum reglum um kröfuábyrgðir. Ábyrgð á greiðslu skuldbindinga sé veitt til greiðslu á tiltekinni skuld og þá miðað við umsamda greiðsluskilmála skuldarinnar, nema tekið sé fram að ábyrgðin standi, þrátt fyrir að skuldari og kröfuhafi semji um breytingar á greiðsluskilmálum. Ábyrgðarmaður eigi ekki að þurfa að sæta því, nema samþykki hans komi til að ábyrgðin verði meiri en leiði af upphaflegu greiðsluskilmálunum eða hún vari lengur en upphaflegur lánstími /heimild að viðbættum hæfilegum tíma kröfuhafa til að tilkynna um greiðslufall og innheimta ábyrgðina. Upphæð hámarksheimildar samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingum stefndu hafi verið 500.000 krónur og gilt til 1. mars 1996. Samkvæmt stefnu hafi innistæðulausar færslur á reikningnum numið 5.890.273.69 krónum 24. febrúar 2003. Hafi heimildin verið hækkuð frá því sem komið hafi fram í ábyrgðaryfirlýsingum stefndu, eða gildistíma reikningslánsins breytt verði að líta svo á að þá hafi eldri yfirdráttarskuld í raun verið gjaldfallin vegna vanskila skuldara og því hafi verið um nýja lánveitingu til Bílfoss hf. að ræða. Þurft hefði að leita eftir samþykki stefndu sem ábyrgðarmanna fyrir því, enda hafi aukin lánveiting falið í sér aukna áhættu fyrir þá.
Að lokum byggja stefndu aðalkröfu sína um sýknu á tómlæti stefnanda. Málið hafi verið höfðað rúmum sjö árum eftir að stefndu hafi undirritað ábyrgðaryfirlýsingar sínar og rúmum tveimur árum eftir að lögmaður stefndu ritaði stefnanda bréf og mótmælti kröfunni. Stefnandi hafi því sýnt af sér verulegt tómlæti og með athafnaleysi sínu staðfest það að samkomulag hafi verið um að stefndu hafi verið leystir undan öllum persónuábyrgðum gagnvart stefnanda á sínum tíma með greiðslu sinni til stefnanda. Með tómlæti sínu hafi stefnandi fyrirgert hugsanlegum kröfurétti sínum.
Verði ekki fallist á aðalkröfu stefndu um sýknu byggja stefndu á því að sú fjárhæð sem stefndu hafi ábyrgst hafi að hámarki verið 500.000 krónur, tryggð með solidariskri ábyrgð stefndu. Ekki sé hægt að skilja ábyrgðaryfirlýsingu þeirra á annan hátt. Stefndu geti ekki innbyrðis borið ábyrgð á hærri fjárhæð en 1/5 hluta af heimildinni sem skráð sé í ábyrgðaryfirlýsingu þeirra, eða 100.000 krónum. Skjalið hafi verið útbúið af stefnanda sjálfum og dómstólar hafi gert mjög strangar kröfur til sérfræðikunnáttu starfsmanna lánastofnana og skjalagerðar þeirra.
Þá mótmæla stefndu upphafstíma dráttarvaxta.
Niðurstaða.
Í málinu liggja frammi yfirlýsingar stefnanda frá 21. desember 1998 og 16. nóvember 1999 þar sem fram kemur að stefnandi skuldbindi sig til að leysa stefndu undan sjálfskuldarábyrgð á veðskuldabréfi nr. 0152-74-25834, sem útgefið var 29. desember 1994, upphaflega að fjárhæð 19.000.000 krónur. Framkvæmdastjóri Bílfoss hf., Pétur Pétursson, sem kom fram af hálfu félagsins gagnvart stefnanda við uppgjör sem fram fór í lok árs 1998 kvaðst fyrir dómi ekki hafa farið fram á það við stefnanda að stefndu yrðu leystir undan sjálfskuldarábyrgð á yfirdráttarheimild tékkareiknings, enda hefði hann ekki vitað þá um slíka ábyrgð stefndu. Stefndu, Guðmundur og Sigurjón báru fyrir dómi að framkvæmdastjóri félagsins og endurskoðandi þess hefðu upplýst þá um að stefnandi hefði leyst þá undan öllum sjálfskuldarábyrgðum gagnvart stefnanda. Stefndi, Guðmundur, kvaðst hins vegar aldrei hafa fengið þær upplýsingar beint frá stefnanda. Af framangreindum framburði og samkvæmt efni framangreindra yfirlýsinga stefnanda verður ráðið að stefndu hafi einungis verið leystir undan sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfinu, en ekki öðrum hugsanlegum ábyrgðum gagnvart stefnanda. Þá hefur ekkert komið fram í málinu um að stefnandi hafi nokkru sinni gefið stefndu sjálfum fyrirheit um að leysa þá undan sjálfskuldarábyrgðum þeim sem þeir voru í vegna yfirdráttar á tékkareikningi. Það er því mat dómsins að stefndu geti ekki borið fyrir sig að krafa stefnanda sé andstæð samningi aðila og 33. gr. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936.
Ábyrgðaryfirlýsingar þær sem mál þetta lýtur að voru ekki tímabundnar, samkvæmt almennum skilmálum þeirra. Í 5. gr. skilmála ábyrgðaryfirlýsinganna kemur fram að ábyrgðarmaður skuli segja upp ábyrgð sinni skriflega og taki uppsögnin gildi samkvæmt nánar tilgreindum tímamörkum, en fyrr falli ábyrgðin ekki niður. Yfirdráttarheimild sú sem stefnandi veitti Bílfossi hf. var hins vegar tímabundin og átti að gilda til 1. mars 1996. Í vitnisburði starfsmanna stefnanda kom fram að ef viðskiptamaður óskaði eftir framlengingu yfirdráttarheimildar væri nægilegt að sú ósk kæmi munnlega fram við starfsmann bankans. Óumdeilt er að tékkareikningur sá sem stefndu gengust í 500.000 króna ábyrgð fyrir, hver fyrir sig, var í fullri notkun fram til þess að bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 18. desember 2000. Samkvæmt framangreindu er ekki fallist á að ábyrgðaryfirlýsingar stefndu hafi fallið niður 1. mars 1996 svo sem haldið er fram af hálfu stefndu.
Ábyrgð stefndu var fyrir fyrirtækið Bílfoss hf. og voru ábyrgðaryfirlýsingarnar undirritaðar árið 1996. Því er ekki fallist á að skilmálar ,,samkomulags um notkun sjálfskuldarábyrgða” gildi um samningssamband stefnanda og stefndu, enda tekur það samkvæmt 2. gr. þess til sjálfskuldarábyrgðar sem einstaklingur, ábyrgðarmaður, gengst í fyrir annan einstakling og samkvæmt 9. gr. samkomulagsins tók það gildi frá og með 1. maí 1998, eða rúmum tveimur árum eftir að stefndu undirrituðu ábyrgðaryfirlýsingar.
Ekki verður fyllilega ráðið af málatilbúnaði stefndu hvað átt er við með þeirri málsástæðu að ,,ætli stefnandi sér að beita öðrum reglum og skilmálum gagnvart stefndu brjóti það ekki aðeins gegn fyrrgreindu samkomulagi heldur fari einnig gegn 33. og 36. gr. samningalaga nr. 7/1936”. Verður því ekki um þá málsástæðu fjallað.
Stefndu hafa haldið því fram að kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum þeirra séu fyrndar.
Ábyrðaryfirlýsingar stefndu voru gefnar til þess að tryggja efndir á kröfu stefnanda á hendur Bílfoss hf. vegna yfirdráttarheimildar félagsins, þó þannig að ábyrgð hvers stefndu var takmörkuð við 500.000 krónur. Svo sem áður greinir notaði Bílfoss hf. yfirdráttarheimild á tékkareikningi sínum hjá stefnanda allt þar til bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta. Skylda stefndu sem ábyrgðarmanna gat fyrst orðið virk þegar ljóst var orðið að greiðslufall yrði af hálfu aðalskuldara, þ.e. Bílfoss hf. Samkvæmt 1. mgr. 99. gr. gjaldþrotalaga nr. 21/1991 falla allar kröfur á hendur þrotabúi sjálfkrafa í gjalddaga við uppkvaðningu um gjaldþrotaskipti. Það er því mat dómsins að á því tímamarki hafi krafa stefnanda á hendur stefndu vegna ábyrgðarskuldbindinganna fyrst orðið gjaldkræf. Samkvæmt 4. tl. 3. gr. fyrningarlaga nr. 14/1905 fyrnast kröfur samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum á fjórum árum og samkvæmt 5. gr. laganna telst fyrningarfrestur frá þeim degi er krafa varð gjaldkræf. Mál þetta var höfðað 4. mars 2003. Krafa stefnanda samkvæmt ábyrgðarskuldbindingum stefndu er samkvæmt framangreindu ekki fyrnd.
Stefndu hafa einnig byggt sýknukröfur sínar á því að almennar reglur um kröfuábyrgðir leiði til þess að krafa stefnanda sé fallin niður.
Ábyrgð stefndu á greiðslu yfirdráttar tékkareiknings nam að hámarki 500.000 krónum samkvæmt efni ábyrgðaryfirlýsinganna og hljóðar dómkrafa stefnanda á hendur hverjum stefndu á þá fjárhæð. Eins og að framan hefur verið rakið var tékkareikningur Bílfoss hf. notaður og yfirdreginn þar til félagið varð gjaldþrota, enda hefur ekki verið í ljós leitt af hálfu stefndu að yfirdráttarheimildin væri hækkuð eða framlengd án þess að fyrirsvarsmenn Bílfoss hf. óskuðu eftir því. Samkvæmt framangreindu er ekki fallist á að almennar reglur um kröfuábyrgðir leiði til þess að krafa stefnanda sé fallin niður.
Bílfoss hf. var tekið til gjaldþrotaskipta 18. desember 2000 og greiðsluáskoranir sendar til stefndu 8. febrúar 2001. Stefnandi sendi innheimtubréf til stefndu 23. október 2002 og málið var svo höfðað 4. mars 2003. Þótt nokkur tími hafi liðið frá því að stefndu fengu fyrst í hendur greiðsluáskoranir og þar til þeim var birt stefna í málinu, verður með engu móti talið að stefnandi hafi fyrirgert kröfu sinni með tómlæti.
Stefndu hafa til vara krafist þess að kröfufjárhæð verði lækkuð í samræmi við þá upphæð hámarksheimildar sem tilgreind er á ábyrgðaryfirlýsingum þeirra. Af ábyrgðaryfirlýsingum þeim sem liggja frammi í málinu og gerðar voru við hvern stefndu fyrir sig, verður fyllilega ráðið að hver og einn stefndu gekkst í ábyrgð fyrir 500.000 krónum vegna reikningsláns. Því er ekki fallist á að um solidariska ábyrgð stefndu á 500.000 króna hámarksheimild hafi verið að ræða.
Samkvæmt framangreindu er fallist á kröfur stefnanda, en rétt þykir í ljósi atvika málsins að hver aðila greiði sinn kostnað af málinu.
Ingveldur Einarsdóttir, settur dómstjóri, kveður upp þennan dóm.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Sigurjón Reynisson, Oddur Már Gunnarsson, Gestur Haraldsson, Viggó Rúnar Einarsson og Guðmundur Kristinn Óskarsson greiði hver um sig 500.000 krónur til stefnanda, Landsbanka Íslands, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 9. febrúar 2001 til 1. júlí 2001, og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. júlí 2001 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.